26 október, 2010

Það má auðvitað ekki segja það, en.......

Endalok vestrænnar menningar eru framundan. Þetta er í það minnsta skoðun Margrétar Pálu, helsta forvígismanns svokallaðrar Hjallastefnu, eins og ég skildi viðtal við hana í útvarpinu í morgun.  Ég hef oftar en ekki verið sammála því sem þessi ágæta kona hefur fram að færa, ekki síst varðandi uppeldismál.  Auðvitað verð ég að viðurkenna, að ég heyrði ekki nema hluta viðtalsins, þann hluta þar sem hún tjáði þá skoðun sína að við í hinum vestræna heimi  stæðum frammi fyrir því, innan ekki svo langs tíma, að menningarheimur okkar líði undir lok. Þessi skoðun féll umsvifalaust að því sem ég hef stundum verið að velta fyrir mér. Það sem ég velti stundum fyrir mér er þess eðlis að það er eins gott að hafa ekki hátt um það í veröld rétttrúnaðarins.

Ég ætla nú, þó í litlu sé, að láta vaða.

Já, við erum sem sagt á fallandi fæti, vestræn samfélög. Við eigum ógrynni veraldlegs auðs, við menntum börnin okkar upp úr öllu valdi, við erum nánast að verða guðir að eigin mati (eigum að geta allt) og þar með verðum við stöðugt sjálfhverfari með þeim afleiðingum að við eignumst færri börn, því þau trufla allsnægtalífsstíl okkar.
Með þessu móti getur ekki farið öðruvísi en svo, að okkur fækki. Það þýðir ekki að þeim störfum sem sinna þarf fækki - ef eitthvað er þá fjölgar þeim, því við krefjust æ meiri þjónustu. Einhverjir verða að taka þessi störf að sér. Þá tökum við okkur til og flytjum inn vinnuafl, sem oftar en ekki tilheyrir ekki sömu menningarelítunni og við og dundar sér enn við að fjölga mannkyninu, eins og vera ber. Með árunum fer síðan að myndast misvægi. Þjónarnir okkar verða hluti af þjóð okkar og fara að gera kröfur um réttindi og betri störf, ekki síst í krafti fjöldans.  Þá vöknum við upp við vondan draum, en bara of seint. Þá þýðir nú lítið að tala um fullveldi, auðlindir og menningararf.

Við gerum þá kröfu, að ungarnir okkar verði meira og minna hlaðnir menntagráðum af ýmsu tagi (væntanlega til upphafningar á okkur sjálfum). Það verður að viðurkennast, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að bera móti því, að það eru bara tiltölulega fáir sem eru þannig innréttaðir, að þeim henti langskólanám. 
Við í þessu landi höfum skellt við þessu skollaeyrum og opnum allt fyrir öllum sem vilja, með þeim afleiðingum, smám saman, að námið þynnist út og verður í raun harla ómerkilegt ef grannt er skoðað, ekki síst þegar háskólar (hugsið ykkur ef að það væru 7 háskólar í 300000  manna borg í öðrum löndum) eru farnir að keppa um nemendur, með þeim afleiðingum, að námið er gert léttara og styttra = innihaldsrýrara.

Til þess að vera ekki að lengja mál mitt úr hófi ætla ég að lýsa því, afar stuttlega, hvernig og hversvegna ég við breyta íslensku menntakerfi.
1. Tiltekinn, fámennur hluti þjóðarinnar lýkur háskólanámi eða sambærilegu verk- og/eða listnámi. Við þurfum ekki fleiri í þennan geira, ekki síst ef skoðaður er sá skaði sem "hámenntaðir" vanvitar hafa komið til leiðar á undanförnum áratugum. Þetta væri nám sem gerði miklar kröfur, enda veldust þangað aðeins þeir sem sannalega væru til þess færir. Ég vil setja spuningamerki við þörfina á því að allt það nám sem nú er á háskólastigi þurfi að vera þar.

2. Tiltekinn, stór hluti þjóðarinnar lýkur hóflegu námi, einhversstaðar í grennd við það sem nú er sveinspróf eða stúdentspróf. Hérna væri bara venjulegt fólk, sem hefði síðan góðan námslegan grunn til að halda "hjólum atvinnulífsins" gangandi svo vel væri.

3. Tiltekinn, hóflegur hluti þjóðarinnar lýkur grunnnámi og tekur að sér þjónustu og framleiðslustörf (ég held jafnvel að þetta sé varlega áætlað). Hér væri það ágætis fólk sem sæi hag sínum best borgið með því að vera ekkert að braska í einhverju sem það hefði engan áhuga á hvort sem væri.

Ég er búinn að horfa upp á, í bóknámsframhaldsskóla, fólk sem er afburðanemendur á því sviði, en jafnframt ósjálfbjarga á öðrum sviðum. 
Ég er líka búinn að horfa upp á afskaplega öfluga einstaklinga sem eru algerlega áhugalausir um bóklegt nám þó svo allt leiki í höndunum á þeim. 
Þá er ég er búinn að horfa upp á einstaklinga sem eru gjörsneyddir getu og/eða vilja til náms af þessu tagi, kveljast einhvern veginn áfram með stöðugt dvínandi sjálfsmynd.

Ekki fer ég í grafgötur um að þessar skoðanir muni víða falla í grýttan jarðveg hjá okkur sem er svo annt um frelsi og velferð einstaklingsins. Auðvitað er ég sammála því, að best væri ef þetta gæti gengið fyrir sig án þess að til kæmu þröskuldar og kröfur, en með þessum skrifum er ég nú bara að hugsa um það sem kæmi sér best fyrir samfélagið í heild (Nú - bara kommúnísti!)

Þegar upp er staðið, ættum við að velta fyrir okkur (þessi hamingjusama þjóð) í hverju raunveruleg lífshamingja felst.  Einnig má velta fyrir sér hvort sérfræðimenntun sé ekki, þegar allt kemur til alls, eftirsókn eftir vindi.

Þá er ég búinn að koma þessu frá. Þetta þokast :)

23 október, 2010

"Ég á rétt á......." (2)

framhald...

Hér var komin fram kynslóð sem var afsprengi nýrrar tegundar uppeldis. Hún var þeirrar skoðunar að hún gæti fengið allt og gæti gert hvað sem var. Hún hafði alist upp við efnishyggjublandaða helgarást foreldra sinna og notið þess að fá allt upp í hendurnar. 
Á sama tíma og þessi kynslóð var að vaxa úr grasi var fræjum hrunsins sáð af spilltum stjórnmálaöflum. Frelsi varð lykilhugtakið, ríkið varð hið illa í mannlegu samfélagi. 
Þegar saman fer sjálfhverf kynslóð og nánast ótakmarkað frelsi til athafna, má í rauninni alveg giska á útkomuna.
Þessi kynslóð vildi verða rík (á þessum tíma spurði ég nemendur mína oft hvað þau teldu vera eftirsóknarverðast í lífinu og svarið var ávallt ríkidæmi. Tillögur mínar um annað mættu talsverðri andúð). Þessi kynslóð sá brátt jafnaldra sína auðgast ógurlega. Það voru jafnaldrar þeirra sem stofnuðu fyrirtæki og hlutafélög og keyptu síðan og seldu þannig að hagnaðurinn fór upp í áður óþekktar upphæðir. Hvað skyldi kynslóðin hafa hugsað við þessar aðstæður? Það er einfalt. Fyrst Jón, svona venjulegur maður getur orðið ríkur þá get ég það líka. Ég á rétt á því að eiga jafn mikið af peningum og hann. Auðvitað gerðist það á sama tíma, að bankarnir voru einkavæddir og peningar virtust flæða um allt. Hver og einn gat fengið lán nánast eins og hann bað um. Þau eru örugglega mörg dæmin sem má tína til um fólk sem taldi það rétt sinn að eignast fullbúið einbýlishús og nýjan bíl án þess að hugsa langt fram í tímann hvernig það gæti síðan greitt af lánunum. Kannski er hún dálítið dæmigerð sagan af manninum, sem vann á bifreiðaverkstæði, fyrir venjulegum launum, sem langaði í einbýlishús fyrir sig og litlu fjölskylduna sína. Svo langaði hann líka í bíl. Hann uppfyllti ekki kröfur um tekjur til að geta fengið 100% lán í einkarekna bankanum. Hann bað því vinnuveitanda sinn um að votta það að laun hans væru miklu hærri en þau voru í raun. Hann fékk 100% lán, Hann keypti einbýlishús. Hann keypti flottan, nýjan bíl. Síðan fóru hlutirnir að fara á verri veg. Hann þurfti að fara að greiða af láninu. Það var erfitt. Svo kom hrunið. Þá varð það ómögulegt. Honum fannst það óréttlátt og fór að berja tunnur og skrifa vanstillta mótmælastatusa á fésbókina, til að mótmæla því að það hafði ekki verið byggð um hann skjaldborg. Húsið fór á uppboð og bíllinn var tekinn. 

Við ólum af okkur þessa kynslóð sem þekkti ekkert nema allsnægtir, sem kunni sér ekki hóf, sem trúði því að hún yrði bara ríkari og ríkari og myndi vel ráða við lánin sín. Hér var á ferðinni íslenska útgáfan af ameríska draumnum. Þetta er kynslóðin sem ég hef stundum kallað "ÉG-NÚNA"-kynslóðina. Þetta er kynslóðin sem er nú að vakna upp við það að allt er breytt. Það er harkaleg lexía. Henni fylgja oft persónulegar hörmungar.  Nú vill kynslóðin, börnin okkar, koma málum þannig fyrir, að við, foreldrarnir, tökum á okkur skuldir þeirra. Kannski er það réttmæt krafa. Við kenndum þeim að allt væri hægt og að þau gætu fengið allt. Við kenndum þeim vitlaust. Kannski hefðum við átt að leggja  áherslu á önnur gildi.

--------------------

Ég er hér búinn að draga hér upp ákveðna mynd af samfélagsgerð sem hefur sett þessa þjóð á ystu nöf. Auðvitað er það ekki svo, að þessi mynd eigi við alla sem tilheyra minni kynslóð og kynslóð barna okkar, hinsvegar tel ég að hún skýri margt sem hér hefur gengið á.

22 október, 2010

"Ég á rétt á......." (1)

Ég verð að viðurkenna, að ég upplifi sjálfan mig sem afskaplega vanmáttugan einstakling þessi misserin. Ég held nú reyndar, að ég sé ekki einn um það. Mér finnst afspyrnuvont að geta ekki haft áhrif á það hvernig mál ganga fram í kjölfar samfélagsbrests, en á sama tíma er ég ekki tilbúinn að skunda á stað í krossferð fyrir þessum málstað mínum. Ég held að ég tilheyri afskaplega stórum hluta þessarar þjóðar, sem hefur sig tiltölulega lítið frammi um þessar mundir, þó svo hann ætti tvímælalaust að gera það.

Þannig er, eins og margir gera sér væntanlega grein fyrir, að við, sem nú erum á aldursbilinu 50-70 ára, sem höfum alið af okkur kynslóðirnar sem núna standa frammi fyrir afleiðingum ofneyslu, berum í raun ábyrgð á því að hafa ekki kennt börnum okkar nægjusemi. Við erum foreldrarnir sem erum svo heppin, að hafa fengið að ala upp börnin okkar í þjóðfélagi þar sem skortur þekktist ekki. Báðir foreldrarnir unnu utan heimilis og tókst að afla ríflegra tekna. Fórnin á móti var sú, að börnin okkar voru sett í leikskóla, þar sem þau voru meira og minna alin upp hvert af öðru. Við vorum auðvitað full af samviskubiti yfir að geta ekki notið þess að vera með börnunum okkar: fannst við vera að svíkja þau um tíma með okkur, foreldrunum, sem áttum, eðlilega, að bera alla ábyrgð á uppeldinu. Okkur fannst við þurfa að sefa samviskuna. Við gátum ekki gert það með nægri hlýju og umhyggju, en við öfluðum nægra tekna til að veita þeim ýmisleg efnisleg gæði, oft í formi tæknileikfanga, ferðalaga, fatnaðar og þess yfirleitt sem hægt var að kaupa fyrir peninga. Þetta tók vissulega versta broddinn úr samviskubitinu.

Hvernig urðu þessi börn síðan?
Vegna skorts á samvistum við eldri kynslóðina, misstu þau mikilvæga tengingu við fortíðina og menningararfinn ásamt því sem þeim tókst ekki að vaxa upp úr barnalegri/barnslegri hegðun og viðhorfum. Jú, þau fengu að leika sér þessi ósköp með jafnöldrum sínum og festust síðan að sumu leyti í veröld leiksins. Hlýja, samkennd, virðing, siðgæði, mannskilningur og almennur þroski var líklega ekki efst á baugi á mikilvægustu mótunarárunum. Í staðinn gengu þessi börn inn í veröld neysluhyggjunnar og samviskubitinna foreldra. Það er afskaplega óheppileg blanda. 
Á því veraldlega var enginn skortur. 
Þar sem viðhorfin snérust áður um að bjarga sér sjálfur, vera heill í sínu, vera ekki upp á aðra kominn, og svo framvegis, breyttust viðhorfin í það að fólkinu fannst að það ætti rétt á hlutum og þjónustu frá öðrum. Það var í raun allt hægt í þeim efnum. Ef það þurfti að kaupa það þá var það gert. Ef ekki var peningur til fyrir því, þá var reddað láni. Það var allt hægt þegar efnisleg gæði voru annars vegar.  Fólk varð óskaplega upptekið af því sem það taldi vera rétt sinn.

.....framhald (kannski um helgina)

17 október, 2010

Mælingin

"Það er nú allt í lagi að hafa þetta á hreinu", hugsaði ég með mér, auk þess sem ég tjáði fD hvað ég var að hugsa, um leið og ég stillti kílómetramælinn á 0, á sama tíma og ferðin til höfuðborgarinnar hófst.
"Þú verður að halda takkanum inni" sagði fD þegar 0-ið birtist ekki strax, en auðvitað vissi ég hvað ég var að gera, og það koma að því að það birtist og ferðin gat hafist.


Þarna hafði ég s.s. ákveðið að mæla vegalengdina frá Laugarási til Reykjavíkur eftir tveim mismunandi leiðum. Til "borgar dauðans", eins og sumir kjósa að kalla höfuðborg lýðveldisins, ókum við sem elið lá niður Skeið, og síðan yfir Hellisheiði. Þegar ekið var yfir  brúna þar sem Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur mætast var mælisstaðan tekin: 93.2 km.
Vegna þess að ég var í mælingastuði lék mér forvitni á að vita hve mikið yrði ekið innan borgarinnar og setti því mælinn aftur á 0. 
Við ókum fram og til baka um borgina: það vantaði liti, það þurfti á nálgast afmælisbarnið, það þurfti að komast á veitingastað (ein besta piparsteik sem ég hef fengið), það þurfti að nálgas miða í kvikmyndahús, það þurfti að nálgast málningarramma, það þurfti að útrétta hitt og þetta fleira, það þurfti að skjótast í heimsókn á æskuheimili, það þurfti að skella sér í kvikmyndahús ( Brim, er sérlega góð mynd - dálítið sérstök, en vel gerð að mínu mati), það þurfti að skila fólki til síns heima. Þegar upp var staðið höfðu verið eknir 40.8 km, þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið.

Enn var kílómetramælirinn stilltur á 0 og enn fékk ég leiðbeiningar fD, auðvitað þrátt fyrir að ég vissi hvað ég var að gera. Þarna var lagt af stað frá svæði sem samsvaraði því að við værum á brúna á mótum Vesturlands- og Suðurlandsvegar. Síðan var stefnan tekin á Mosfellsheiði, ekið um Þingvöll og eftir nýjum Lyngdalsheiðarvegi í yfirmáta óskaplegri rigningu og hvassviðri. Þegar við renndum í hlað í Kvistholti sýndi mælirinn 94.2 km.

Þetta þýðir einfaldlega að það er uppi ákveðinn vandi í framtíðinni. Í kílómetrum talið er hér um að ræða nánast nákvæmlega jafnlangar leiðir, en þær eru hinsvegar ólíkar.

Kostir þess að aka um Skeið og Hellisheiði snúa fyrst og fremst að því að maður getur komið við í höfuðstað Suðurlands, ef því er að skipta og einnig, að hér er um að ræða beinan veg þar sem fátt er til tafa (hámrkshraði alla leið). Þegar tvöföldun um Hellisheiði er lokið verður þessi leið enn álitlegri kostur.
Helsti ókostur þessarar  leiðar er sú lífshætta sem maður setur sig í við að aka um Ölfusið og heiðina, bæði vegna hálf vitskertra ökumanna sem þar virðast oft eiga leið um og vegna umferðarþungans, sérstaklega þá þegar höfuðborgarbúar eru að skella sér í sunnudagsbíltúra sína (eiginlega sami ókostur og sá sem fyrr var nefndur).
Helsti kostur þess að fara um Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði er sá, að þar er (enn sem komið er) tiltölulega lítil umferð og lífshætta því minni. Auk þess verður það að teljast kostur, aðallega fyrir farþega, að umhverfið er ólíkt skemmtilegra.
Stærsti ókostur þessarar leiðar er hinsvegar sá að það tekur lengri tíma að fara þessa leið vegna flöskuhálsins í gegnum þjóðgarðinn, en þar er 50 km hámarkshraða á um það bil 10 km kafla. Til þess að þessi leið verði varanlegur og raunverulegur valkostur fyrir Laugarásbúa er ekki um annað að ræða en leggja nýjan veg um þjóðgarðinn, beinan og breiðan 90-km veg. Það er næsta krafa.
Umhverfisfólkið (sá hluti þess sem vill helst að Ísland verði lokað öðrum en fólki sem gengur Laugaveginn eða Fimmvörðuháls, reglulega) má auðvitað ekki heyra minnst á svona brjálæðislega mengandi hugmyndir, en ég tel að því styttri tíma sem það tekur ökutæki að fara um þjóðgarðinn, því betra. Því oftar sem ökumenn þurfa að stíga á bremsur, hægja á sér og auka hraðann, því minni verður mengunin af umferðinni.

Samantekt:
Valkostur 1:  91.2 km: Laugarás - Grímsnes - Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 2:  93.2 km: Laugarás-Skeið -Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 3:  94.2 km: Laugarás - Lyngdalsheiði - Mosfellsheiði - Reykjavík

Valkostir taka mið af því, að umferð sé nokkuð eðlileg.
-------------------
Það er samt ástæða til að óska uppsveitamönnum til hamingju með nýja veginn. Hann var fyrst settu á stefnuskrá H-listans í framboði til sveitarstjórnar í Biskupstungnahreppi fyrir um 15 árum.

15 október, 2010

Skoðanafasismi?

Loksins gerðist það í fréttum RUV í gær að það kom viðtal við einhvern sem hafði eitthvað fram að færa annað en sjálfsvorkunn. Þarna var kominn maður sem leit þannig á málin, að hann hefði tekið lán með augun opin, og að ákvörðunin hefði verið hans - hann ætlaði að nýta sér úrræði sem í boði væru til að auðvelda afborganir og að það virtist ætla að ganga upp þó svo þetta væri allt erfiðara en af stað var lagt með.
Ég var nú svo grænn að ég hélt að hér væri á ferðinni sú tegund fólks sem ætlar ekki að láta mótlætið buga sig, heldur berjast í gegnum brimskaflana, eins og fólk gerði áður fyrr.

Mér brá þegar ég sá svo þetta í miðlunum í dag
Þvílík svívirða! Óskaplega hneykslanlegt athæfi. Maðurinn reyndist vera VINSTRI GRÆNN!!!
Við vitum það fyrir víst, að þar er ekki að finna neitt nema öfgafólk. Pjúhhh, guði sé lof fyrir að það komst upp um manninn áður en enn meiri skaði hlaust af. Guði sé lof fyrir að við losnum við að þurfa að hlusta á sjónarmið einhvers fólks sem kann ekki að barma sér. Þennan kommúnístalýð!

RUV baðst afsökunar á viðtali við mann vegna þess að við eftirgrennslan reyndist hann tilheyra stjórnmálaflokki - þetta reyndist vera vinstri maður - kommúnísti, jafnvel!

Ég held að það sé útilokað að RUV hafi nokkurntíma gert þau mistök áður að ræða við fólk án þess að kanna hvort það væri með flokksskírteini á sér. Þetta er auðvitað grundvallaratriði.

Fréttin var afturkölluð og við getum haldið áfram í friði við að ærast af bölmóðinum, því þar er verið að tala við rétthugsandi fólk.
Auðvitað gat maður úr VG ekki verið að segja satt. Hann var bara að verja hagsmuni flokksins síns, þó nú væri. Ég gæti best trúað að valdaklíkan í VG hafi bara lofað honum að afskrifa skuldir hans ef hann talaði með þessum hætti.

---------------------------------
Sannast sagna minnti þetta mig allt á tilvik úr barnaskóla, þar sem alþýðubandalagsmaður var kærður til skólayfirvalda fyrir áróður gagnvart ómótuðum nemendum sínum. Á sama tíma var annar kennari, bláleitur, einkar duglegur við að halda hinum réttu skoðunum að ungviðinu, og það var auðvitað hið besta mál.

Jæja.

14 október, 2010

Skuldalækkunarblástur

Þannig rúllaði boltinn áfram og hámarkinu var náð 1983 þegar verðbólgan fór yfir 80% en það kalla hagfræðingar óðaverðbólgu. Árið 1980 sáu stjórnvöld þann kost vænastan að klípa af krónunni og skera tvö núll aftan af. Í einu vetfangi urðu 100 krónur að einni krónu. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði á árinu 2000 hálfur lítri af kók getað kostað um 10 þúsund krónur úti í sjoppu.
Við Kvisthyltingar vorum nú ekki heppnari en svo, að við stóðum í lántökum og húsbyggingu í upphafi 9. áratugarins. Verðtryggingu hafði verið komið á 1979. Við ásamt þeim sem voru í sömu sporum á þeim tíma þurftum í allmörg ár að velta fyrir okkur hverri krónu. Það var barist til að fá því ranglæti breytt, að meðan við fengum yfir okkur verðtryggingu af fullum þunga, þá horfðu þeir sem byggðu um miðjan áttunda áratuginn og fyrr upp á skuldir sínar gufa upp. Það fékkst engin leiðrétting. Þjóðin tók ekki að sér að koma til hjálpar þá. Við tókum lánin á þessum tíma, með þessum skilmálum og þau skyldum við borga í samræmi við það.  
Við  urðum að láta þetta yfir okkur ganga og nú erum við loksins að sjá fyrir endann á þeirri göngu.

Ég lýsi því hér með yfir að ég er hreint ekki tilbúinn að fara að sitja uppi með þetta aftur, nú fyrir aðra. 

Ég krefst þess, að hvert einasta lán sem er í vanskilum verði grndskoðað með tilliti til þess hvort um var að ræða lán sem fólk tók án þess að hafa borð fyrir báru, ef eitthvað færi úrskeiðis.

Í samræmi við það krefst ég þess einnig, að þeir sem ábyrgð báru á því að veita fólki sem augjóslega hafði ekki greiðslugetu, 100% lán fyrir íbúð, verði sóttir til saka.

Ég krefst þess að þeir sem stóðu fyrir og stunduðu bankavitleysuna verði látnir svara til saka.

Ég krefst þess að ég losni við að þurfa að borga niður lán fyrir fólk sem réð ekki við skuldbindingarnar sem það skrifaði undir.

Við biðum ein 20 ár með að setja varanleg gólfefni á húsi (ekki var það bara vegna leti minnar), eldhúsinnréttingin kom 10 árum eftir að inn var flutt.
Það var ekki svo hjá innlit/útlit kynslóðinni, sem ég hef kosið að kalla svo.

Það er verið að hengja bakara fyrir smið þessa dagana. Þeir sem ollu berjast nú hatrammlega fyrir vitlausum málstað.

Ekki er ég hissa. Ég hef áður sagt álit mitt á ástandinu í þessu þjóðfélagi. 
Allténd finnst mér ég vera búinn að axla mína ábyrgð - ekki meir, ekki meir.

12 október, 2010

Innrás av flogmýs í Føroyum - eða því tengt

- það sem hér fer á eftir kann að virðast hin undarlegustu skrif, en við það verður að una - 

Hér var fjallað um atvik sem mér þótti vera ágætis umfjöllunarefni, en var með sama hætti ekki alfarið ágætt. Það er nefnilega svo, að ef eitthvað skýst hratt í nágrenni við þig þá getur það haft heilmiklar afleiðingar í för með sér. Annað sem getur kallað fram viðbrögð í líkingu við þau sem þarna áttu sér stað, eru hugrenningatengsl. Til að útskýra hvað við er átt ætla ég að taka orðið MÚS. Ef einhver einstaklingur hefur með einhverjum hætti þróað með sér óhóflega andúð á einni dýrategund sem heitir, að einhverju leyti þessu nafni, þá má reikna með, að önnur dýr sem hafa þetta nafn sem hluta heitis síns falli í sama flokk.
Ég geri hér nánari grein fyrir því sem ég á við.

Flugmús (lánuð mynd af vef Dimmalætting)
Í dag bárust fregnir af því að leðurblökur væru farnar að gera sig heimakomnar hjá frændum okkar í Færeyjum. Bara það, að heyra þessa frétt kallaði fram talsverðan ónotahroll hjá aðstoðarmanninum í síðustu færslu. Það má reikna með að hluti ástæðunnar fyrir því hafi verið sá, að á færeysku heitir leðurblaka einmitt FLOGMÚS (flugmús upp á íslensku) - það má velta því fyrir sér í þessu samhengi, hvers vegna þetta ágæta, litla dýr heitir LEÐURBLAKA á ástkæra.  Ég get jafnframt upplýst, að það sem olli atburðarásinni sem vísað er til hér að ofan, var ekki flugmús. Ég hugsa ekki einu sinni til enda hvað þá hefði átt sér stað.

MÚÚS (lánuð mynd)
Á öðru erlendu máli er til dýr sem kallast MÚS, reyndar er Ú hljóðið ívið lengra, en þegar fjallað er um litlu dýrin með þessu heiti á íslensku. Samkvæmt kenningunni ætti þetta dýr að kalla fram samsvarandi hughrif, þó ég teysti mér ekki til að fullyrða um að sú yrði raunin.  Ég upplýsi hér með, að ekki var um að ræða dýr af þessu tagi í atburðarlýsingu.




Nú, mús auðvitað (lánuð mynd)
Þriðji möguleikinn, sem reyndar var nefndur þegar ofangreindu atviki var lýst, er að hreinlega hafi verið um að ræða mús, hagamús eða húsamús. Þá hefði ég skilið viðbrögðin sem lýst var, afar vel. Ég get hinsvegar upplýst hér, að ekki var um þessi dýr að ræða.







Þá er í raun bara eftir eitt músartengt fyrirbæri, sem var einmitt það sem um var að ræða í þessu tilviki. Það skaust framhjá aðstoðarmanninium þegar hann ætlaði að ganga gegnum útidyrnar, og inn í hús.













Músarrindill (lánuð mynd)

Meistarinn, sem fjallað var lítillega um í síðustu færslu gekk til húss og rakst þar á þennan litla ræfil úti í glugga. Áður fyrr, við sambærilega aðstæður, mátti treysta því að músarrindlar héldu sig í þeim glugga sem þeir voru í og því voru þeir auðfangaðir. Það sama gerðist ekki í þessu tilviki. Annað hvort er um að ræða, að músarrindlastofninn hefur þróast að viti, eða þá að sá sem þarna reyndi að fanga rindilinn hafði misst eitthvað af snerpu sinni.
Það sem fram fór eftir þetta, verður ekki fjölyrt um, en ljóst þykir að ræfillinn komst til baka út í frelsið, óskaddaður á sál og líkama. 




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...