12 október, 2010

Innrás av flogmýs í Føroyum - eða því tengt

- það sem hér fer á eftir kann að virðast hin undarlegustu skrif, en við það verður að una - 

Hér var fjallað um atvik sem mér þótti vera ágætis umfjöllunarefni, en var með sama hætti ekki alfarið ágætt. Það er nefnilega svo, að ef eitthvað skýst hratt í nágrenni við þig þá getur það haft heilmiklar afleiðingar í för með sér. Annað sem getur kallað fram viðbrögð í líkingu við þau sem þarna áttu sér stað, eru hugrenningatengsl. Til að útskýra hvað við er átt ætla ég að taka orðið MÚS. Ef einhver einstaklingur hefur með einhverjum hætti þróað með sér óhóflega andúð á einni dýrategund sem heitir, að einhverju leyti þessu nafni, þá má reikna með, að önnur dýr sem hafa þetta nafn sem hluta heitis síns falli í sama flokk.
Ég geri hér nánari grein fyrir því sem ég á við.

Flugmús (lánuð mynd af vef Dimmalætting)
Í dag bárust fregnir af því að leðurblökur væru farnar að gera sig heimakomnar hjá frændum okkar í Færeyjum. Bara það, að heyra þessa frétt kallaði fram talsverðan ónotahroll hjá aðstoðarmanninum í síðustu færslu. Það má reikna með að hluti ástæðunnar fyrir því hafi verið sá, að á færeysku heitir leðurblaka einmitt FLOGMÚS (flugmús upp á íslensku) - það má velta því fyrir sér í þessu samhengi, hvers vegna þetta ágæta, litla dýr heitir LEÐURBLAKA á ástkæra.  Ég get jafnframt upplýst, að það sem olli atburðarásinni sem vísað er til hér að ofan, var ekki flugmús. Ég hugsa ekki einu sinni til enda hvað þá hefði átt sér stað.

MÚÚS (lánuð mynd)
Á öðru erlendu máli er til dýr sem kallast MÚS, reyndar er Ú hljóðið ívið lengra, en þegar fjallað er um litlu dýrin með þessu heiti á íslensku. Samkvæmt kenningunni ætti þetta dýr að kalla fram samsvarandi hughrif, þó ég teysti mér ekki til að fullyrða um að sú yrði raunin.  Ég upplýsi hér með, að ekki var um að ræða dýr af þessu tagi í atburðarlýsingu.




Nú, mús auðvitað (lánuð mynd)
Þriðji möguleikinn, sem reyndar var nefndur þegar ofangreindu atviki var lýst, er að hreinlega hafi verið um að ræða mús, hagamús eða húsamús. Þá hefði ég skilið viðbrögðin sem lýst var, afar vel. Ég get hinsvegar upplýst hér, að ekki var um þessi dýr að ræða.







Þá er í raun bara eftir eitt músartengt fyrirbæri, sem var einmitt það sem um var að ræða í þessu tilviki. Það skaust framhjá aðstoðarmanninium þegar hann ætlaði að ganga gegnum útidyrnar, og inn í hús.













Músarrindill (lánuð mynd)

Meistarinn, sem fjallað var lítillega um í síðustu færslu gekk til húss og rakst þar á þennan litla ræfil úti í glugga. Áður fyrr, við sambærilega aðstæður, mátti treysta því að músarrindlar héldu sig í þeim glugga sem þeir voru í og því voru þeir auðfangaðir. Það sama gerðist ekki í þessu tilviki. Annað hvort er um að ræða, að músarrindlastofninn hefur þróast að viti, eða þá að sá sem þarna reyndi að fanga rindilinn hafði misst eitthvað af snerpu sinni.
Það sem fram fór eftir þetta, verður ekki fjölyrt um, en ljóst þykir að ræfillinn komst til baka út í frelsið, óskaddaður á sál og líkama. 




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...