14 október, 2010

Skuldalækkunarblástur

Þannig rúllaði boltinn áfram og hámarkinu var náð 1983 þegar verðbólgan fór yfir 80% en það kalla hagfræðingar óðaverðbólgu. Árið 1980 sáu stjórnvöld þann kost vænastan að klípa af krónunni og skera tvö núll aftan af. Í einu vetfangi urðu 100 krónur að einni krónu. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði á árinu 2000 hálfur lítri af kók getað kostað um 10 þúsund krónur úti í sjoppu.
Við Kvisthyltingar vorum nú ekki heppnari en svo, að við stóðum í lántökum og húsbyggingu í upphafi 9. áratugarins. Verðtryggingu hafði verið komið á 1979. Við ásamt þeim sem voru í sömu sporum á þeim tíma þurftum í allmörg ár að velta fyrir okkur hverri krónu. Það var barist til að fá því ranglæti breytt, að meðan við fengum yfir okkur verðtryggingu af fullum þunga, þá horfðu þeir sem byggðu um miðjan áttunda áratuginn og fyrr upp á skuldir sínar gufa upp. Það fékkst engin leiðrétting. Þjóðin tók ekki að sér að koma til hjálpar þá. Við tókum lánin á þessum tíma, með þessum skilmálum og þau skyldum við borga í samræmi við það.  
Við  urðum að láta þetta yfir okkur ganga og nú erum við loksins að sjá fyrir endann á þeirri göngu.

Ég lýsi því hér með yfir að ég er hreint ekki tilbúinn að fara að sitja uppi með þetta aftur, nú fyrir aðra. 

Ég krefst þess, að hvert einasta lán sem er í vanskilum verði grndskoðað með tilliti til þess hvort um var að ræða lán sem fólk tók án þess að hafa borð fyrir báru, ef eitthvað færi úrskeiðis.

Í samræmi við það krefst ég þess einnig, að þeir sem ábyrgð báru á því að veita fólki sem augjóslega hafði ekki greiðslugetu, 100% lán fyrir íbúð, verði sóttir til saka.

Ég krefst þess að þeir sem stóðu fyrir og stunduðu bankavitleysuna verði látnir svara til saka.

Ég krefst þess að ég losni við að þurfa að borga niður lán fyrir fólk sem réð ekki við skuldbindingarnar sem það skrifaði undir.

Við biðum ein 20 ár með að setja varanleg gólfefni á húsi (ekki var það bara vegna leti minnar), eldhúsinnréttingin kom 10 árum eftir að inn var flutt.
Það var ekki svo hjá innlit/útlit kynslóðinni, sem ég hef kosið að kalla svo.

Það er verið að hengja bakara fyrir smið þessa dagana. Þeir sem ollu berjast nú hatrammlega fyrir vitlausum málstað.

Ekki er ég hissa. Ég hef áður sagt álit mitt á ástandinu í þessu þjóðfélagi. 
Allténd finnst mér ég vera búinn að axla mína ábyrgð - ekki meir, ekki meir.

2 ummæli:

  1. Þú þarft að koma þessum skilaboðum í réttar hendur eða fara með skilti niðu á Austurvöll og mótmæla, ég er til að vera með í því. Þetta fjandans lið er að fara með allt til fjandans og enginn ber ábyrgð. Aumingj fólkið á svo bátt, GREYJIN.
    S.I.S.

    SvaraEyða
  2. Þetta er og hefur alltaf verið fólkið sem blaktir. Þeir sem eru siðlausastir og frekastir í þessu samfélagi kemst best af fárhagslega þegar upp er staðið: græðir mest, tapar mestu ef eitthvað óvænt gerist og er tilbúnast til að berjast fyrir því, blygðunarlaust, að fá það sem það "á rétt á" frá okkur hinum.

    Svo er nú það.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...