11 júlí, 2011

Bland í

Það er afskaplega einkennilegt hve mikil áhrif tilteknar breytingar á lífsháttum geta haft í för með sér. Mannskepnan kemur sér upp allskyns hegðunarmynstri sem síast inn í undirmeðvitundina með þeim afleiðingum, að breytingar á lífsháttum  geta kostað nokkur átök.


Nú eru átök í Kvistholti, vont sem felur í sér von um gott. Klassísk átök góðs og ills, þar sem hið góða felur í sér þröngan og hlykkjóttan stíg en hið illa beinan og breiðan, upplýstan, 4ra akreina þjóðveg, þar sem þarf að greiða vegtoll.
Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig þessum átökum lyktar.

---------------------------

Það er orðið árlegt að litlir sumargestir tylla sér á pallinn um lengri eða skemmri tíma. Maríuerla hefur verið að fjölga sér hérna í nágrenninu og fyrir skömmu birtist eitt afkvæmið á pallinum og settist þar að eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var ekki fyrr en ég var kominn með EOSinn í tveggja metra fjarlægð að þessi saklausi fugl himinsins byrjaði að teygja vængina til undirbúnings fyrir brottför. Hætti svo við úr því ég koma ekki nær. Hann var ekki búinn að átta sig á því að það eru til ill öfl í heiminum.

-----------------------------------
Það er nú varla hægt að tala um náttúruöflin sem ill eða góð. Þau eru bara eins og þau eru. Mér finnst nú eins og við mennirnir séum farnir að setja okkur á dálítið háan hest þegar ógnaröfl náttúrunnar eru annar vegar. Kannski er það raunveruleg örvænting vegna yfirvofandi hruns í ferðaþjónustunni og kannski er það kröfugerð þess sem ekki ber ábyrgð en vill reyna að slá sig til riddara, eða kannski er það hrein og bein firring sem veldur því að menn telja að  við, aumir menn, getum, eins og einhverjir töframenn, kviss-pang, brúað stórfljót á augabragði.


Við búum nú í þessu landi - það er eins og það er - svona er málum háttað hér.
Sýnum náttúruöflunum tiltekna virðingu.


Jæja - það kann að vera að við höfum til þess tæki og tól og verkkunnáttu, að græja eins og eina brú í einum grænum.

07 júlí, 2011

Systrasel í heiði

Lengi hefur blundað með dætrum Þorvalds, óskin um að leita uppi fæðingarstað föður síns. Reyndar fórum við fD þessa ferð fyrir einum 10 árum, en tókst með óskiljanlegum hætti að finna ekki fæðingarstaðinn - vorum þó auðvitað réttum stað, en vantaði bara staðfestingu á að rétt væri.

Fjórar eru systurnar, ef grannt er talið

Það var svo í byrjun árs að Frónbúandi dætur hófu skipulagningu ferðar austur á bóginn, nokkurskonar pílagrímsferðar. Fyrst átti hér að vera um að ræða talsverða ferð, svona tveggja til þriggja daga með fínum aðbúnaði, en eftir því sem nær dró týndust gistingarfjaðrirnar af og eftir stóð dagsferð austur á Kirkjubæjarklaustur og nágrenni, með mig sem bílstjóra. Þrjár voru dæturnar sem í ferðina fóru og tvö viðhengin. Fjórða dóttirin var með í andanum, að því er sagt var, og ekki er útilokað að sú nærvera eigi sér einhverjar birtingarmyndir.
Allt gekk þetta vel fyrir sig og áætlanir stóðust.

Heiðarsel í fjarskanum

Staðurinn sem leitað var heitir Heiðarsel á Síðu. Til að komast að honum er ekið upp hjá Hunkubökkum, veginn þann sem ekinn er til að komast í Laka. Eftir um 5 km akstur blasir Heiðarsel við í dalverpi, ekki amalegt umhverfi á þessum árstíma, en að sama skapi erfitt á vetrum, að sögn kunnugra.

Augljóslega voru byggingarnar á jörðinni ekki frá þeim tíma er Þorvaldur, faðir dætranna, fæddist þar og sleit barnsskónum. Hann fæddist 4. janúar, 1920 þarna í heiðinni, og hafa dæturnar komist yfir frásögn af  því þegar sögumaður ver sendur í Heiðarsel í byrjun janúar til að líta til með húsmóðurinni sem þá var ný orðin léttari. Ræddu þær þessa frásögn mikið, fram og til baka, meðan stansað var í Heiðarseli, en svo illa vildi til að sjálfur textinn hafði orðið eftir heima og því margskonar túlkun komin af stað í umræðunni, sem við viðhengin tókum ekki mikinn þátt í.
Sko - þær voru þarna allar - fv. fS, fP, fA og fD

Staðreyndir í sögunni segja að fjölskyldan hafi flutt frá Heiðarseli 1934. Engin staðfest bygging frá þeim tíma fannst í pílagrímsferðinni, en ímyndunaraflið látið ráða þar sem staðreyndum eða sannleika sleppti.
Þær byggingar sem þarna eru uppistandandi eru að mestu leyti frá um 1950, en nú er ekki föst búseta þarna, en jörðin er samt nytjuð og er í eigu bænda í Landbroti.

Eftir kaffisopa (sumir reyndar meira) í Systrakaffi, í grennt við Systrastapa, Systrafoss og systra-hitt og systra-þetta, var þeyst í vesturátt undir kvöld.

Góður var kvöldverðurinn í Árhúsum á Hellu.

02 júlí, 2011

Varptíminn er líklega liðinn, en......

....það er nú samt hægt að líta svo á, ef maður er sæmilega víðsýnn, að það sé alltaf réttur tími fyrir fuglahús.

Hér var fjallað um það þegar efri hlutinn á heldur háu grénitré var fjarlægður fyrr í vor. Síðan hefur það sem eftir er af trjástofninum beðið eftir einhverju viðeigandi hlutverki og í því sambandi var því meira að segja varpað fram af nokkurri alvöru að ÉG tæki mig til út byggi til úr stofninum svokallaða TÓTEM- súlu, sambærilega við þær sem frumbyggjar Ameríku eru þekktir fyrir, en eins og þá sem Gunni Tomm skar út fyrir allmörgum árum og sem stendur niðri við veg.

Ekki hefur mér enn tekist að koma þessari hugmynd nægilega vel fyrir í hugskoti mínu til að hefjast handa við trjáskurðinn, en hugur fD hélt áfram að vinna að lausn trjástofnsmálsins.

Þannig háttar til hjá fjölmörgum fjölskyldum víða um land, að hluti af grunnskólanámi barnanna felst í því að búa ýmislegt til, því það er sannarlega mikilvægt að nemendur reyni fyrir sér við handverk ekki síður en bóklestur.  Svona háttaði einnig til hér. Ýmsir munir urðu til á grunnskólaárum fjögurra barna. Ekki ímynda ég mér annað en þessir hlutir hafi einhvernveginn orðið kyrrir hér í Kvistholti þegar ungarnir flugu úr hreiðrinu (það eru margir hlutir til í Kvistholti).

Þannig er það með fuglahúsið.


Hér er á ferðinni heilmikil völundarsmíð úr vatnsheldum krossviði, opnanlegu þaki, og sérlega haganlega hugsaðri þakfestingu, Þá er húsið málað með gullbronsi. Þar sem eigandi hússins kaus að flytja þetta fína fuglahús ekki með sér til höfuðborgarinnar, Perth, Oslóar og Álaborgar, til að veita fuglum þessara staða á jarðarkringlunni skjól, þá ákváðu íbúar geymslusvæðisins í Kvistholti að nýta húsið til að efla og styrkja fuglasöng og fjaðrafok í næsta nágrenni, næsta vor.




Að öðru leyti bíður afskorinn trjástofninn þess að hugmynd að umbreytingu í tótemsúlu ljósti niður í höfuð tilvonandi útskurðarmeistarans.

26 júní, 2011

Svensson fær hlutverk

Hann var þarna með fleiri löndum sínum á bæjarhátíð í Hveragerði í gær, þegar við fD áttum þar leið um. Það æxlaðist svo, að við tókum tal saman og þá kom í ljós að hann heitir Alf Svensson og er frá smábæ í Smálöndunum í Svíðþjóð sem heitir Orrefors. Þar hafði hann búið frá fæðingu, en var nú kominn á óræðan aldur. Aðspurður um ástæður þess að hann var hingað kominn með félögum sínum, sagði hann skrýtna sögu.
Þannig mun hátta til í Orrefors, að svo langt sem augað eygir er allt þakið skógi, en þar á milli er ræktarland, en það sem kannski er markverðast við bæinn er, að það er víðfræg glerverksmiðja. Á hverju vori er haldin mikil bæjarhátíð þarna, þar sem hápunkturinn er litríkur dans í kringum Maístöngina.

Svensson tók auðvitað þátt í þessu öllu með hinum íbúum bæjarins, sem eru ríflega 700 að tölu. Hann sagði að þessi hátíð væri í rauninni það eina merkilega sem gerðist í Orrefors á ári hverju og hann hefði alltaf þurft að berjast við þunglyndi í kjölfar hennar. Af þessum sökum hefði hann verið farinn að skvetta meira og meira í sig á hátíðinni. Það var einnig svo á hátíðinni í vor. Það sem var með öðrum hætti í vor, hinsvegar var, að eftir að hann og félagar hans höfðu skemmt sér ótæpilega í aðdraganda hátíðarinnar, var svo komið að þeir voru búnir að missa raunveruleikatengingu. Það síðasta sem Svensson segist muna frá hátíðinni var, þegar þeir félagrnir voru farnir að skora hver á annan að gera hitt og þetta. Síðan man Svensson ekkert fyrr en hann vaknaði um borð í flugvél á leið til Íslands. Því varð ekki breytt og þarna enduðu þeir á bæjarhátíð á Íslandi.

Svensson vill ekki fara aftur til Orrefors og vill helst dvelja á Íslandi í einhver ár. Hann spurði hvort hann gæti kannski fengið að setjast upp hjá okkur í Kvistholti.

Auðvitað tókum við þessu vel, tvö í kotinu. Hann er nú kominn Í Laugarás og virðist una sér vel. Hann mun í engu trufla tilveru okkar fD og er ekki þungur á fóðrum.

Svensson er dálítið sérkennilegur útlits; afar smávaxinn með skotthúfu á höfði. Augun eru skásett og endurspegla depurð hans í kjölfar vorhátíðarinnar í Orrefors. Hann virkar talsvert aldraður, en þó er ómögulegt að geta sér til um aldur hans.

Ég reikna með að næstu árin muni hann dvelja meira og minna á pallinum í Kvistholti, sem einhvers konar verndargripur - hann hefur fengið hlutverk.





--------------------------

Ég bið alvörugefna lesendur að afsaka þessa léttúðugu færslu.

24 júní, 2011

Þjóðin: "Það gerðist ekkert hér!"

Þjóðin fær tækifæri til að ausa lofi og lasti yfir þann hluta sinn sem hlustar að tiltekna útvarpsstöð. Undanfarin ár hef ég nokkuð oft orðið fyrir því að vera þar sem stillt er á þessa útvarpsstöð eftir kl 16 á virkum dögum. 
Ef mann langar að upplifa firrta þjóð þá er gott að hlusta á lastarana sem þarna láta ljós sitt skína. 
Ef það er eitthvað sem ég þoli illa síðustu árin þá er það sú arfleifð útrásarbólunnar, að allir eigi að geta fengið allt, nákvæmlega þegar þeir vilja, eins og ekkert hefði í skorist. 

Baráttan við eigendur fjármagnsins og þjóðarskömm, sem er, að því er virðist ófær um að sjá eitthvert heildarsamhengi út úr stöðu mála, stefnir í að tapast, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ég leyfi mér að lýsa undrun minni á því að skötuhjúin Jóhanna og Steingrímur skuli ekki löngu vera komin á hvíldarheimili með tilheyrandi áfallahjálp, eftir þá orrahríð sem á þeim hefur dunið frá því þau tóku að sér, með fulltingi meirihluta þjóðarinnar, að leiða þjóðina út úr mestu hörmungum sem á henni hafa dunið á lýðveldistímanum.


Hvernig hélt fólk að þetta gengi fyrir sig, eiginlega? Kannsi bara PÚFF - kreppan farin og norræn velferð eins og hver vildi komin í staðinn?  

Ég hef auðvitað sömu möguleika og hver annar til að hringja í útvarpsstöð og lofa og lasta. Það geri ég auðvitað ekki, þar sem það samræmist ekki skoðun minni á þannig innhringingum. Ef ég hringdi þá myndi ég lofa núverandi stjórnvöld fyrir að standa ennþá í lappirnar gagnvart óvígum her fjármagnseigenda, sem gætu þurft að taka eitthvað á sig (hvort sem það eru refsingar vegna landráðastarfsemi þeirra á bólutímanum, eða skerðing á réttindum til sjálftöku af þjóðarkökunni, eða auknar álögur), og gasprara, sem virðast ófærir um að hugsa umhverfi sitt í einhverju samhengi.

"Fram, fram, aldrei að víkja" - eða þannig.

23 júní, 2011

Úrhelli

Ekki beinlínis búið að vera hitabeltisveður á Fróni undanfarið, en það kom ekki í veg fyrir að himnarnir opnuðu sig svo rækilega að ískristallarnir höfðu ekki tíma til að þiðna fyllilega áður en þeir féllu til jarðar og þar með á mannvirki Kvisthyltinga.
Svona er Kvistholt í dag.




21 júní, 2011

Afleggjarar

Útlandaferð vorsins lá til Görlitz, austast í Þýskalandi, en þar býr þessi unga kona ásamt foreldrum sínum. Heldur var nú skemmtilegt að endurnýja kynnin við hana.
Júlía Freydís Egilsdóttir
 Skömmu eftir að við snérum úr Evrópuferðinni átti þessi ungi maður leið til landsins frá Álaborg, þar sem hann elur manninn ásamt foreldrum sínum. Hann kom við og leyfði okkur fD að njóta nærveru sinnar um stund.
Gabríel Freyr Þorvaldsson

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...