07 júlí, 2011

Systrasel í heiði

Lengi hefur blundað með dætrum Þorvalds, óskin um að leita uppi fæðingarstað föður síns. Reyndar fórum við fD þessa ferð fyrir einum 10 árum, en tókst með óskiljanlegum hætti að finna ekki fæðingarstaðinn - vorum þó auðvitað réttum stað, en vantaði bara staðfestingu á að rétt væri.

Fjórar eru systurnar, ef grannt er talið

Það var svo í byrjun árs að Frónbúandi dætur hófu skipulagningu ferðar austur á bóginn, nokkurskonar pílagrímsferðar. Fyrst átti hér að vera um að ræða talsverða ferð, svona tveggja til þriggja daga með fínum aðbúnaði, en eftir því sem nær dró týndust gistingarfjaðrirnar af og eftir stóð dagsferð austur á Kirkjubæjarklaustur og nágrenni, með mig sem bílstjóra. Þrjár voru dæturnar sem í ferðina fóru og tvö viðhengin. Fjórða dóttirin var með í andanum, að því er sagt var, og ekki er útilokað að sú nærvera eigi sér einhverjar birtingarmyndir.
Allt gekk þetta vel fyrir sig og áætlanir stóðust.

Heiðarsel í fjarskanum

Staðurinn sem leitað var heitir Heiðarsel á Síðu. Til að komast að honum er ekið upp hjá Hunkubökkum, veginn þann sem ekinn er til að komast í Laka. Eftir um 5 km akstur blasir Heiðarsel við í dalverpi, ekki amalegt umhverfi á þessum árstíma, en að sama skapi erfitt á vetrum, að sögn kunnugra.

Augljóslega voru byggingarnar á jörðinni ekki frá þeim tíma er Þorvaldur, faðir dætranna, fæddist þar og sleit barnsskónum. Hann fæddist 4. janúar, 1920 þarna í heiðinni, og hafa dæturnar komist yfir frásögn af  því þegar sögumaður ver sendur í Heiðarsel í byrjun janúar til að líta til með húsmóðurinni sem þá var ný orðin léttari. Ræddu þær þessa frásögn mikið, fram og til baka, meðan stansað var í Heiðarseli, en svo illa vildi til að sjálfur textinn hafði orðið eftir heima og því margskonar túlkun komin af stað í umræðunni, sem við viðhengin tókum ekki mikinn þátt í.
Sko - þær voru þarna allar - fv. fS, fP, fA og fD

Staðreyndir í sögunni segja að fjölskyldan hafi flutt frá Heiðarseli 1934. Engin staðfest bygging frá þeim tíma fannst í pílagrímsferðinni, en ímyndunaraflið látið ráða þar sem staðreyndum eða sannleika sleppti.
Þær byggingar sem þarna eru uppistandandi eru að mestu leyti frá um 1950, en nú er ekki föst búseta þarna, en jörðin er samt nytjuð og er í eigu bænda í Landbroti.

Eftir kaffisopa (sumir reyndar meira) í Systrakaffi, í grennt við Systrastapa, Systrafoss og systra-hitt og systra-þetta, var þeyst í vesturátt undir kvöld.

Góður var kvöldverðurinn í Árhúsum á Hellu.

2 ummæli:

  1. Já ég vard var vid ad frú Audur hvarf um stund sídastlidinn thridjudag, tharna er komin skýring á tví.
    Mikid held ég ad gaman hafi verid ad hlýda á umrædur Thorvaldsdætra í thessari ferd.
    Kvedjur úr Furulundi

    SvaraEyða
  2. Hún skemmti sér hið besta frúin, eins og glöggt má sjá, enda ekki annað hægt eins og aðstæður voru.

    Þú hefur notið þín á meðan.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...