26 júní, 2011

Svensson fær hlutverk

Hann var þarna með fleiri löndum sínum á bæjarhátíð í Hveragerði í gær, þegar við fD áttum þar leið um. Það æxlaðist svo, að við tókum tal saman og þá kom í ljós að hann heitir Alf Svensson og er frá smábæ í Smálöndunum í Svíðþjóð sem heitir Orrefors. Þar hafði hann búið frá fæðingu, en var nú kominn á óræðan aldur. Aðspurður um ástæður þess að hann var hingað kominn með félögum sínum, sagði hann skrýtna sögu.
Þannig mun hátta til í Orrefors, að svo langt sem augað eygir er allt þakið skógi, en þar á milli er ræktarland, en það sem kannski er markverðast við bæinn er, að það er víðfræg glerverksmiðja. Á hverju vori er haldin mikil bæjarhátíð þarna, þar sem hápunkturinn er litríkur dans í kringum Maístöngina.

Svensson tók auðvitað þátt í þessu öllu með hinum íbúum bæjarins, sem eru ríflega 700 að tölu. Hann sagði að þessi hátíð væri í rauninni það eina merkilega sem gerðist í Orrefors á ári hverju og hann hefði alltaf þurft að berjast við þunglyndi í kjölfar hennar. Af þessum sökum hefði hann verið farinn að skvetta meira og meira í sig á hátíðinni. Það var einnig svo á hátíðinni í vor. Það sem var með öðrum hætti í vor, hinsvegar var, að eftir að hann og félagar hans höfðu skemmt sér ótæpilega í aðdraganda hátíðarinnar, var svo komið að þeir voru búnir að missa raunveruleikatengingu. Það síðasta sem Svensson segist muna frá hátíðinni var, þegar þeir félagrnir voru farnir að skora hver á annan að gera hitt og þetta. Síðan man Svensson ekkert fyrr en hann vaknaði um borð í flugvél á leið til Íslands. Því varð ekki breytt og þarna enduðu þeir á bæjarhátíð á Íslandi.

Svensson vill ekki fara aftur til Orrefors og vill helst dvelja á Íslandi í einhver ár. Hann spurði hvort hann gæti kannski fengið að setjast upp hjá okkur í Kvistholti.

Auðvitað tókum við þessu vel, tvö í kotinu. Hann er nú kominn Í Laugarás og virðist una sér vel. Hann mun í engu trufla tilveru okkar fD og er ekki þungur á fóðrum.

Svensson er dálítið sérkennilegur útlits; afar smávaxinn með skotthúfu á höfði. Augun eru skásett og endurspegla depurð hans í kjölfar vorhátíðarinnar í Orrefors. Hann virkar talsvert aldraður, en þó er ómögulegt að geta sér til um aldur hans.

Ég reikna með að næstu árin muni hann dvelja meira og minna á pallinum í Kvistholti, sem einhvers konar verndargripur - hann hefur fengið hlutverk.





--------------------------

Ég bið alvörugefna lesendur að afsaka þessa léttúðugu færslu.

1 ummæli:

  1. Karl er loks kominn í höfn
    hjá konu - ég nefn' ekki nöfn
    sælan og hýran
    sænskætta fýrann
    hér sé harla gleiðan- fDröfn!

    Hirðkveðill kveður til dýrðar nýbúanum í Kvistholti - og hans húsmóður.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...