30 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum síðar (7) - lokaþáttur

Já, ætli fari nú ekki að koma nóg af þessu. Það var dálítið Aratunguhlé hjá mér frá 1975-9, en þá kom ég aftur og hóf störf við Reykholtsskóla, sem þá hét svo. Þar fengum við fD, með tvo unga syni, nýbyggt einbýlishús til afnota, sem einmitt stóð í næsta nágrenni við Aratungu - ætli það heiti ekki Miðholt 3. 
Ég var ekki lengur sá sem skellti mér á sveitaball, heldur kom ég nú í auknum mæli að þessum samkomum sem starfsmaður, enda sogðist ég fljótlega inn í starf ungmennafélagsins.
Þarna fékk ég að líta skemmtanalífið frá talsvert öðrum sjónarhóli, og þar var auðvitað margt gott og vont, eins og gengur. Auk þess var ég í þannig starfi að ekki þótti gott að vera of áberandi í skemmtanalífinu. Ég lærði það smám saman. 
Það er eins og mig minni að þegar þarna var komið hafi lögreglan ekki komið lengur að gæslunni, heldur hafi húsið sjálft útvegað fólk í þetta. Þetta ver ekki síst vegna þess hver dýrt var orðið að fá lögregluna.
Í gula húsinu þar sem við bjuggum urðum við nú ekkert sérlega mikið vör við sveitaböllin fyrir utan  bassadrunurnar  - dúmm, dúmm, dúmm - og síðan ef maður leit út á bjartri sumarnótt og leit ungt fólk  vera að dunda sér (það var gerður íslenskur texti við þetta lag, sem lýsir því hvað þarna fór stundum fram:)) á bak við kartöflukofann sem stóð við heimreiðina að skólastjórabústaðnum. 
Þetta var allt ágætt, en nú verð ég að fara setja punktinn á eftir þessari yfirreið hugans um sögu Aratungu - brot af sögu Aratungu, enda farinn að eyða allt of miklum tíma í þetta. Mörgu hef ég eðlilega ekki gert skil, enda er þetta vettvangur þar sem ég ræð nákvæmlega hvað ég skrifa og hvernig. 
Jafnóðum og ég hef verið að slá þetta inn hafa komið ný tilvik upp í hugann, sem ekki eru gerð skil hér, og mér er sagt að eftir því sem tímar líða muni opnast enn frekar fyrir þetta allt saman.

Í lokin nefni ég dæmi um ýmislegt það sem ónefnt er:


  • leiklistarstarfið
  • árshátíðir og þorrablót
  • kjúklingauppreisnina
  • foreldrabyrðina
  • minni fyrrverandi nemenda
  • afsagaðan fingur
...þetta voru bara nokkur dæmi.

Hlutverk Aratungu er mjög breytt frá því var í upphafi:
Það vita auðvitað allir að sveitaböllin eru horfin og koma varla til baka, og menn geta deilt um hvernig þróun það er.  Enn eru haldnar árshátíðir og réttaball, barnaball á jólum og þorrablót og eitthvað fleira svona fast, auk funda og annars slíks. Þá er skólmötuneytið þarna senn sem fyrr, en þar er heldur betur vel mannað í eldamennskunni nú um stundir. 
Þar sem áður var símstöð og íbúð húsvarðar, eru nú skrifstofur sveitarfélagsins, þar sem áður var þykkt rautt teppi í anddyrirnu, eru komna gráleitar flísar, þar sem áður var sjoppan, þar sem maður pantaði í gegnum gat á glervegg, svona eins og í bönkum, þar er komið salerni fyrir fatlaða, þar sem áður var ölsalan (öl og gosdrykkir var ekki selt á sama stað og sælgætið) er nú uppþvottavél.

Allt þróast og breytist þar  með talið svona félagsheimili til sveita. Það eru ýmsir möguleikar í þessu húsi sjálfsagt. Vandinn er að finna þá starfsemi sem gefur það af sér sem til þarf til viðhalds og endurbóta.

Þar með segi ég þetta gott.

29 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (6)

Margt er horfið í gleymskumistur frá sveitaballatíma mínum í Aratungu - nei, það er ekki vegna þess sem þú heldur - það eru nú liðin um það bil 40 ár síðan!
Hér eru nokkur leiftur, sem ég veit ekki einusinni hvort eru frá nákvæmlega þessum tíma:

- Sætaferðir frá BSÍ. Maður vildi helst vera kominn á ballið áður en rúturnar kæmu úr bænum eða frá Selfossi. Það var miðað við að dansleikir hæfust kl. 21.30 og að þeim lyki kl. 02.00. Fólk kom víða að, enda gafst ekki betra tækifæri fyrir ungt fólk til að koma saman og skemmta sér. Ég veit um marga, vítt um land sem eiga afskaplega ljúfar minningar frá þessum "svallsamkomum" eins og margir vildu nú kalla þetta.

- Löggan var á svæðinu. Viðhorfið til laganna varða var harla misjafnt og talsvert var um að það skærist í odda. Það voru sveitalöggurnar okkar sem komu best út úr þessu - höfðu mannlegri aðferðir við að hjálpa fólki að losna við streitu eða reiði, nú eða ölæðisalgleymi. Bragi á Vatnsleysu og Hárlaugur, heitinn, í Hlíðartúni voru meðal þeirra sem sinntu löggæslustörfum á þessum árum og það vita allir sem þá þekkja, að þar er/var ekki um neina svíðinga að ræða. Það er ekki óliklegt að fleiri sveitungar hafi komi fram í lögguhlutverki, en nánast viss um það.

-Niðri í kjallara í Aratungu var fangaklefi, sem mér þótti afskaplega merkilegur áður en ég hafði aldur til ballferða. Þá þótti mér þessi klefi vera til marks um illsku mannanna. Þarna gat maður séð þornaða blóðbletti  á veggjum. Seinna varð þetta í huganum eitthvað sem nýttist þjónum laga og reglu og þar með almenningi sem staður til að kæla niður einstaklinga sem ekki tókst að hafa taumhald á sjálfum sér.

Ef að kraftur orðsins þver

á andans huldu brautum,
gefa á kjaftinn verðum vér
vorum skuldunautum.
Káinn
- Það gengu af því sögur að slagsmálagengi gerði sér ferð á sveitaböll til að "snapa fæting". Aððallega heyrði ég af, eða varð var við hóp af þessu tagi sem kom frá Selfossi. Það myndaðist stundum núningur milli Selfyssinga annarsvegar og annarra hinsvegar. Þarna voru í fararbroddi miklir slagsmálahundar, sem ég sé stundum enn í dag í virðulegu afahlutverkinu. Mér fannst þeir vera hálf glataðir í þá daga, ekki síst þar sem þeir lágu, alblóðugir í rifnum fatalörfum fyrir hunda og manna fótum.




- Það losnaði sannarlega um ýmsar hömlur á sveitaböllum, svo sem eins og á öðrum samkomum af svipuðum toga fyrr og nú, hér og þar. Maðurinn er alltaf samur við sig. Þegar ég tala um að losna við hömlur, þá var ekki bara um að ræða hömlur sem leiddu af sér barsmíðar, heldur hjálpuðu aðstæðurnar ekki síður við að lyfta loki feimninnar, sem víða var nóg af, og sýna þannig hvað raunverulega bjó undir (meðan enn var ekki komið of mikið í belginn af göróttum drykkjum).





- Eftir á að hyggja finnst mér að það megi segja margt gott um sveitaböllin:

  • þau auðvelduðu mörgum leitina að framtíðar maka.
  • þau voru vettvangur fyrir ung fólk til að hittast og kynnast því nýjasta sem var í gangi 
  • þau auðvelduðu að mörgu leyti skrefin sem hver einstaklingur þarf á einhverjum tímapunkti að stíga úr bernskunni yfir í heim fullorðins fólks.
  • tilvera þeirra varð til að efla íslenska tónlistarmenn.
  • þau sköpuðu tekjur inn í sveitirnar.
Ætli það hafi ekki verið þegar félagsheimilin fengu vínveitingaleyfi sem sveitaböllin fóru smám saman að renna sitt skeið.

(enn og aftur get ég bölsótast yfir þeirri vitleysu að hækka lögræðisaldur í 18 ár og gera með þeim hætti fullorðið fólk að börnum fram eftir öllu).

(þá er bara eftir einn þáttur)


Aratunga, fimmtíu árum seinna (5)

Ég var svo óheppinn, á þeim tíma sem maður var að öðlast réttindi af ýmsu tagi, að vera fæddur síðast í árinu. Mig minnir nefnilega að það hafi verið tilgreindur fæðingardagur á nafnskírteininu sem ákvarðaði hvort mað komast inn á dansleiki þess tíma sem hér um ræðir. Ég fékk nú ekki að reyna að fara í á svona samkomur fyrr en ég var orðinn fullra 16 ára, frá og með janúarbyrjun 1970. Þá hef ég líklega átt mín fyrstu sveitaballaspor á sumarvertíðinni það ár og næstu 4 ár þar á eftir - minna eftir það.

Ég held að ég hafi nú aðallega farið á böllin í Aratungu þó vissulega hafi ég komið í hin húsin þrjú líka. Árið 1982 (sjá fundargerð í síðustu færslu) var hægt að fara á 19 dansleiki í uppsveitunum frá miðjum maí fram í lok september, þar af voru 6 í Aratungu. Það get ég fullyrt og ekki var ég svo sprækur að  eltast við þá alla 19, en mér finnst ekki ólíklegt að ég hafa farið á 5-6 yfir sumarið og þá ekki alla í Aratungu þar sem ég eyddi sumrunum á þessum árum við að smíða brýr vítt um landið.

Hljómsveitin Mánar, sem var stofnuð 1965, átti sinn blómatíma á sama tíma og sveitaballavirkni mín var mest. Það var nánast guðlast ef aðrar hljómsveitir spiluðu á sveitaböllunum - gerðist reyndar við og við, en það minnir mig að hafi nú ekki verið algengt. Ég ætla nú ekki að fara út í neina greiningu á hvað það var við þessa hljómsveit sem höfðaði til þess markaðar sem þarna var um að ræða, en allavega féll það sem þeir kusu að spila, vel að tónlistarsmekk mínum á þessum tíma. Til marks um það, hve minni mitt er gloppótt, ennþá, þá gat ég ómögulega munað hvaða lag það var sem ölllum Mánaböllum lauk á. Ég var viss um að það hafi verið eitthvað með Jethro Tull, fann ekkert líklegt. Ég fékk lítil viðbrögð við tilmælum um að lesendur gaukuðu að mér upplýsingum um þessa: einn brást við og minnti að þarna hafi verið um að ræða Black Magic Woman með Santana.

Nútímamaðurinn, ég, hélt áfram leit minni og komst á að því að til er fésbókarsíða um Hljómsveitina Mána. Ég varpaði fyrirspurn inn á vegginn þar og viti menn - ég fékk svar: Vangalagið hjá Mánum var July Morning með Uriah Heep


Þá liggur það fyrir. Margt sem Mánar og Uriah Heep hafa á samviskunni. Þetta lag kom út 1971, spurning hvert var vangalagið hjá þeim á undan því?

Ég neita því ekki, að það komu tímabil þar sem ég var búinn að fá alveg nóg af Mánum, alveg eins og margir fengu nóg af Steina Spil, Ómari Ragnarssyni nú eða hverjum þeim sem er yfir og allt um kring, of lengi.

(meira kemur..)

28 október, 2011

Síðdegissleggjudómaþátturinn

Einstaka sinnum kemur það fyrir að ég stilli á þátt sem ber nafnið Reykjavík síðdegis og er á útvarpsstöðinni sem kallast Bylgjan. Undanfarin ár hefur þessi þáttur hafist á því að fólki gefst kostur á að hringja þarna inn og lofa eða lasta.


Ég hlustaði áðan, eins og stundum áður.
Bylgjan góðan dag. Vilt þú lofa eða lasta eitthvað, eða einhvern.
Já ég vil lofa lögregluna. Þetta er frábær lögregla sem við eigum.
Já, einmitt. Lögreglan stendur sig við þrátt fyrir að hún hafi ekki úr miklu að moða.
Já þetta eru hörkukallar í lögreglunni - kalla ekki allt ömmu sína.
Það er satt hjá þér. En á einhver að fá lastið frá þér.
Ég vil lasta ríkisstjórnina.
Nú, hversvegna viltu gera það?
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu.
Einmitt, þakka þér fyrir það. Já það má sannarlega gera betur. Jæja þá er það næsti. Hvern vilt þú lofa eða lasta?

....þetta samtal er alveg eins og hið  fyrra, utan að síðasta setning viðmælandans er á þessa vegu:
Það á bara að henda þess helvítis drasli út úr kofanum þarna við Austurvöll.

Þarna kom síðan inn ung kona, sem, eins og hinir, lofaði lögregluna, en vildi ekki lasta ríkisstjónina.
Hva....styðurðu ríkisstjórnina?!!! spurði spyrjandinn, hneykslunarrómi.

Það kom á konuna. Henni vafðist tunga umm tönn. 
Eeee...sko...nei, nei. Mér finnst bara að það þurfi ekki að vera alltaf að útvarpa þessari neikvæðni.
Má, þá fólkið ekki segja skoðun sína? Eigum við kannski að banna fólki að lasta ríkisstjórnina.

Þarna spurði spyrjandinn áfram þar til konan hrökklaðist af línunni.

ÞÁ KEM ÉG AÐ TILGANGI MÍNUM MEÐ ÞESSU FJASI.

Ef éf segi við einhvern:
Þú ert nú meira helvítis fíflið.
Er ekki eðlilegt að ég þurfi að rökstyðja það með einhverjum hætti? Til dæmis, svara þessari spurningu:
Hversvegna segir þú það?
Ég get alveg skellt fram einhverri sleggju:
Það vita það nú allir!
Hvað áttu við?
Nú bara allir.
Hvaða allir?

...... svona getur spyrjandinn haldið áfram að spyrja þar til í ljós kemur hvort þarna er um vel ígrundaða skoðun að ræða, eða bara hreina sleggjudóma.


Hversvegna héldu spyrjendurnir ekki áfram að spyrja í dag, nema þegar konan kvartaði yfir neikvæðninni?


Mig langar að fá, til dæmis, svona framhald af þessum fyrstu viðmælendum:
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu!
Hvernig er hún að fara með heimilin?
Nú, það eru allir að missa íbúðirnar sínar. 
Allir? Er það rétt?
Jæja þá, margir. Er þetta velferðarstjórnin sem ætlaði að bjarga þessu öllu? 
Ætlaði hún að bjarga öllu?
Já!
Hvaðan hefurðu það?

,..... svona má spyrja, fá fólk til að rökstyðja mál sitt. Kannski hefur það þessi fínu rök  fyrir skoðununm sínum. Kannski eru þetta bara algerir hálfvitar. 


Það væri skemmtilegt verkefni hjá Bylgjunni að gera á því rannsókn úr hvaða þjóðfélagshópum innhringjendur koma.

27 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (4)

Ég ætla nú að leika biðleik, áður en ég tekst á við að lýsa einhverju af því sem ég og aðrir reyndu og upplifðu á blómatíma sveitaballanna hér í uppsveitum. Þaðan búa margir miðaldra, virðulegir borgarar, að ótrúlegum reynslusögum, en eins og með svo margt: það sem gerðist á sveitaböllunum, verður áfram í þeim minningasjóði - það væri varla á það hættandi fyrir marga að ljóstra slíku upp við afa- og ömmubörnin í samfélagi nútímans.

Biðleikurinn er til kominn vegna þess að ég get ómögulega munað hvaða lag það var sem Mánar enduðu öll sín sveitaböll á. Kannski einhver sem veit gauki því að mér. Mig minnir að það hafi verið Jethro Tull með flautuleik, en er ekki viss.

Biðleikurinn, já...
Það kom upp í hendurnar á mér fundargerð, í tengslum við afmæliskvöldvökuna sem áður er nefnd. Hún er frá því í marz, 1982. Síðan þá erum við búin að ganga í gegnum samkeppnisbrjálæðið allt saman, með tileyrandi hruni, meðal annar þar sem kapítalisminn virkaði ekki í frænda-, kunningja-, vina- og flokksbræðrasamfélaginu.

Kannski felst einmitt blómatími sveitaballanna í uppsveitunum í því sem gerðist á árlegum fundum eins og þeim sem hér um ræðir.

Sviðið var, að hér voru komi 4 félagsheimili hvert öðru glæsilegra, Aratunga, Borg í Grímsnesi, Árnes í Gnúpverjahreppi og Flúðir í Hrunamannahreppi. Það var blómatími í dægurtónlistarlegu tilliti. Fólk taldist fullorðið og hæft til að fara á dansleiki þegar það var 16 ára.
Allt frá árinu 1966 komu saman tveir fulltrúar frá hverju félagsheimilanna og röðuðu niður helgunum, ekki síst yfir sumarið. Þeir gerðu nú heldur meira en það.
Á fundinum sem ég nefndi var eftirfarandi ákveðið um verðlag:
Miðaverð: kr. 150
Ölflaska: kr. 10
Flatkökur: kr. 15
Brauðsamloka: kr. 20
Fatagæsla: kr. 5 (á flík)

Þarna fundu þessir hagsmunaaðilar þann flöt, að það gæti verið betra fyrir alla aðila að skipta kökunni jafnt á milli sín, frekar en slást um hana.

Ég vil kalla þessa aðferð NÚ MÁ ÉG - NÚ MÁTT ÞÚ aðferðina við að lifa saman. Það væri gaman ef sagnfræðingur tæki sig til og rannsakaði ris of fall sveitaballanna.

Þau voru allavega harla mikilvæg, í mörgu tilliti.

26 október, 2011

Setið yfir í stærðfræðiprófi

Hver veit nema innan fárra ári verið glæpasagan mín - sálfræðitryllirinn á allra vörum.  Það kemur fyrir einstaka sinnum að ég tek að mér að sitja yfir hinum og þessum prófum - í morgun var það stærðfræði, sem er nú ekki beinlínis það sem ég er að velta fyrir mér dags daglega.
Ég hef það þannig við aðstæður sem þessar, að ég er með blað og skriffæri  og sé til hvað gerist.

Þetta var útkoman í morgun:

Eftir því sem tímar liðu varð erfiðara fyrir hann að takast á við illskuna sem kraumaði djúpt í sálarfylgsnunum. Hvert árið sem leið færði hann nær  þeirri óumflýjanlegu stund þegar hann gæti ekki lengur ..... haldið henni í skefjum. Hún vissi að hverju stefndi og bjó sig undir það, samviskulaus, hiklaus, þolinmóð, einbeitt ... að losna. Því lengri tími sem leið, því öflugri varð hún.
Hann óskaði þess með sjálfum sér, að hann hefði hleypt henni út strax og hann varð var við hana fyrst. Nú var það of seint. Með hverjum mánuðinum jókst þrýstingurinn.

Þetta er nú aldeilis skemmtileg byrjun á 600 síðna stórvirki.
Það virðist stefna í einstakalega frumleg efnistök.
Nú er bara að bíða eftir að komast á eftirlaun, væntanlega.

25 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (3)

Það kom fram í yfirferð Garðars Hannessonar, sem var fyrsti húsvörður í Aratungu, að tvennt hafi orðið til þess að salurinn varð minni en upphaflega var gert ráð fyrir:
- Leikhúsmenn einhverjir hvöttu menn til að dýpka leiksviðin á öllum þessum félagsheimilum sem var verið að byggja um allt land á þessum tíma. Það þyrfti til þess að Þjóðleikhúsið gæti komið með sýningar í húsin. Þetta var gert í  Aratungu. Sviðið var dýpkað um einn metra, en á móti minnkaði salurinn á lengdina um einn metra.
- Vegna skorts á þaksperruefni var síðan gripið til þess ráðs að lækka þakið um 30 sentimetra.

Það var svo í þessu húsi sem Tungnamenn hófu að iðka íþróttir sínar þegar það var leyft - það virðist hafa verið talsverð andstaða við að hleypa svo eyðileggjandi starfsemi sem íþróttum inn í húsið. Leikfimin í barnaskólanum var ekki flutt niður í Aratungu fyrr en um það bil 5 árum eftir að húsið var tekið í notkun - leikfimin var iðkuð áfram af krafti á gangi í barnaskólanum sem er um það bið 3m á breidd og kannski 15-20 m á lengd.  Ég er ekki hissa á hve góðu valdi við, sem þarna iðkuðum leikfimi af krafti undir stjórn Þóris Sigurðssonar frá Haukadal, höfum náð á fínhreifingum.

Það kom að því að ég fékk að fara á fyrstu körfuboltaæfinguna í húsinu - giska á að það hafi verið 1966 eða 7. Sú reynsla hafði svo djúpstæð áhrif á mig, ungan sveininn, að ég svaf ekki alla nóttina á eftir - man enn örvæntinguna yfir þessu svefnleysi klukkan sex um morguninn.

Þarna var síðan lagður grunnurinn að gullaldarliði Tungnamanna í körfubolta, sem ég var auðvitað hluti af. Í þessu liði voru margir öndvegis leikmenn, sem náðu undraverðum tökum á þessum leik í þessu húsnæði sem varð stöðugt smærra eftir því sem leikmennirnir eltust og stækkuðu.
Þegar liðið góða fór síðan í önnur hús til að keppa við nágranna, þá var að jafnaði hærra til lofts (hafði ekki verið timburskortur á landinu). Þar vakti skottækni þeirra í liðinu sem tóku langskotin talsverða athygli - körfurnar urðu samt ekkert færri þess vegna.

Á æfingum var hléið alltaf talsvert tilhlökkunarefni, en það var farið í ölkælinn og tekið úr eins og einni Sinalco, ískaldri.

(enn verður áfram haldið - framundan er að fjalla um sumardansleikina - þar gerðist allt)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...