20 janúar, 2012

Skamm og sveiattan

Ég borga fyrir þetta. Hef lengi reynt að líta svo á að þarna sé stofnun sem á skilið tilhlíðilega virðingu. Í dag verð ég að viðurkenna að ég hef haft rangt fyrir mér að talsvert miklu leyti.

Ég var með umræðu, sem staðið hefur yfir í allan dag, í bakgrunni í vinnunni (ég borga fyrir þetta, og á rétt á að vita hvernig löggjafinn hagar vinnunni sinni). Mikið skelfing reyndi þetta blessað fólk að klæða málflutninginn sinn í málefnalegan búning. Talaði eins að það byggi  yfir einhverri meiri innsýn í sannleikann og réttlætið en dauðlegir menn. Það var hinsvegar ótrúlega grunnt niður á aðra og ógeðfelldari þætti mennseðlisins.

Þarna er á ferðinni mál, þar sem er hægt að tína til einhvern sæmilegan rakapakka fyrir nánast hverju sem er og þessvegan alveg hreint upplagt tækifæri til hefnda fyrir eitthvað sem einhver kann að hafa gert á hlut einhvers. Stórfínt tækifæri til að kom höggi á andstæðinga eða samherja, ekki með beinum orðum, að sjálfsögðu, en samt með mjög afgerandi og ótvíræðum hætti.

Stórkostlegt tækifæri til hefnda - fyrir tapaðan ráðherrastól, kannski - fyrir útilokun í þingflokki, kannski.

Einn kom nokkuð vel út, en það var sá sem kallaði á varaformann þess flokks sem telur sig ávallt vera að tala í nafni þjóðarinnar: "Hlustaðu á þjóðina!"  Var það von - þau voru að gera eitthvað allt annað en það þarna á þingi í dag.

Það sem þarna á sér stað í dag og reyndar stöðugt oftar, er, já ég segi það bara, skammarlegt.

Leikurinn að  byrja - nú er bara að freista þess að gleyma hörmunginni um stund.

18 janúar, 2012

Mismunað á grundvelli stærðar og fótafjölda

"Framvegis verður þeim bara gefið uppi á borðinu!" segir fD um leið og hún skellir hurðinni út á pall, þar sem við erum búin að koma upp aðstöðu til að auka líkur á að fuglar himinsins lifi af harðan veturinn á voru ísakalda landi. Aðstaðan felst í borði sem við komum fyrir þarna úti með það í huga, að undir því gæti verið gott skjól fyrir greyin þegar ekki viðrar nægilega vel uppi á því.
"Ég kæri mig ekkert um að vera að fóðra þessi kvikindi  til að þau fari að búa sér til hreiður þarna og fjölga sér".  Það er sem sagt um það að ræða, að lítil mús hefur verið að laumast í kornið við og við. Hurðaskellurinn sem nefndur er hér efst var til kominn vegna þess að það sást til lítils ræfils gægjast út úr holu sinni í snjóbing, rétt við hliðina á gjafastaðnum.

Músin er ekki eina tegundin í þeirri fánu sem þrífst í Laugarási, sem er nokkurskonar persona non grata þegar fuglgæska fD er annarsvegar. Frekjan í starraskrattanum hrekur auðnu- og snjótittlingana á brott. Hann lemur þá frá sér og hámar svo í sig rándýrar fitukúlurnar. Þessi ódámur á ekkert með að vaða hér yfir allt og alla á lúsugum fjöðrunum! Þetta er svona endurorðað það sem sagt hefur verið um starrann síðustu vikur.

Það hafa komið kettir á gjafastaðinn - örugglega til að fá korn, enda útigangskettir, sem enginn ann eða ber ábyrgð á. Sannarlega er þeim vorkunn, eins og öðrum sem eiga ekki annars kost en að berjast fyrir lífi sínu í óblíðri veðráttuni á landinu bláa.
Ég hef gert mig sekan um að stugga við köttum.

Kannski er bara best að hætta að dreifa korni úti á palli, meðan ekki finnst aðferð til að greina í sundur þær lífverur sem mega og þær sem ekki mega.

16 janúar, 2012

Brimsaltir iðnaðarsílikonsbrjóstapúðar.

Ég botna orðið ekkert í hvað það er í þessu þjóðfélagi okkar, sem veldur því, að við þurfum að ganga í gegnum hverja vanstilltu fjölmiðlaumræðuna á fætur annarri. Það virðist ekki ætla að verð neitt lát á þessu. Það þurfti hvorki meira nér minna en stóra iðnaðasaltsmálið til að láta stóra brjóstapúðamálið hverfa. Iðnaðarsaltsmálið mun síðan hverfa í skuggann eftir nokkra daga þegar stóra Haarde-málið brýst fram á ný í allri sinni yndislegu jákvæðni og upplífgandi umræðustemningu.

Ég fæ það ansi oft á tilfinninguna að samfélagið sé að rifna í sundur á einhverjum saumum - það sem hefur haldið því saman sé smám saman að rakna upp og út um rifurnar gjósi úr fúlum pyttum spillingarinnar sem hefur fengið að gegnsýra hvern einasta kima lengur er nokkur kærir sig um að muna.

Ég vil samt reyna að trúa því að svo sé ekki, heldur sé hér um að ræða blaðamennsku sem áttar sig ekki á því að stundum er nóg, nóg. Fínt að stinga á kýlum, eðli máls samkvæmt, en það þarf ekki að láta vella úr þeim dögum saman.
Hversvegna gera þeir það?
Er tilgangurinn kannski göfugur?
Byggir þetta á þeirri vitneskju að þessi þjóð hefur gullfiskaminni?   Já - líklega. Það dugir ekki að segja okkur hlutina þremur sinnum - það dugir ekki minna en þrjúhundruðþrjátíu og þremur sinnum.


14 janúar, 2012

Pilsfaldakapítalismi

Mér hefur alltaf fundið þetta áhugavert hugtak og lýsandi fyrir baráttumenn frelsis á þessu landi. Í rauninni er þetta hugtak svo miklu víðtækara í mínum huga en að lýsa aðeins því þegar hugsjónamenn um einkaframtakið fara fram undir gunnfána frjálsrar samkeppni, í nafni frelsis einstaklingsins, í samræmi við kenninguna um að þeir hæfustu lifi af. 

Ég hef ekkert á mót því að frelsiselskandi einstaklingar fari sínar leiðir. Í flestum tilvikum eru þetta góðir og heiðarlegir einstaklingar, sem kunna fótum sínum forráð og eru tilbúnir með leiðir til að bjarga sér ef illa fer; hafa sjóð til að grípa til þegar mögru árin koma, eða kaupa sér tryggingar til að takast á við óvænt áföll. Allt bara gott og blessað.

Hugtakið pilsfaldakapítalismi  nær yfir öll þau tilvik, þar sem fólk nýtir sér frelsi sitt til að taka einhverja áhættu, sem getur leitt til persónulegs hagnaðar af einhverju tagi, hvort sem það snýst um fjárhagslegan ávinning, eða persónulegan, en gerir síðan kröfur á samfélagið þegar á bjátar. "Nú eigið þið að bjarga mér."
Hugmyndin um frelsið er sannarlega lokkandi og er höfð í hávegum í landi hinna frjálsu og hugrökku, sem margir þegnar þessarar þjóðar telja vera fyrirmyndarríkið.  

Frelsi einstaklingsins til athafna var orðið nánast óheft í þessu landi fyrir nokkrum árum. Margir gengu langt í nafni þessa frelsis, það vitum við. Það var nánast allt hægt - peningar ekki fyrirstaða. Það var skrifað undir margskonar skuldbindingar  sem voru ávísanir á ofsahagnað framtíðarinnar. Það var tekin mikil áhætta í mörgum tilvikum. Hér er ég ekki bara að tala um fjárhagslega áhættu.

Mér finnst með engu móti siðferðilega verjandi og gera kröfur á samfélagið eftir að hafa tekið mikla áhættu á eign vegum, sem síðan gengur ekki eins og vonir stóðu til. Þarna virðist víða hafa skort á forsjálni.  

Við höfum öll okkar hugsjónir: 
- þær lúta að heilsteyptri lífssýn sem við erum trú alla ævi, meira og minna, með kostum og göllum.
- þær lúta að núinu -  eru í líkingu við pælingar fugla himinsins.
- þær eru einhversstaðar þarna á milli. 

Hvernig sem allt veltist þá þurfum við að taka lífinu eins og hæfir hugsjónum okkar. Ef við viljum hafa frelsi til að fara á einhverja einkastofu til að láta sprauta siliconi í ræfilslegu varirnar okkar, þá þurfum við jafnframt að gera ráðstafanir sem miða ekki við björgunarpakka samfélagsins, ef illa fer. 

-----

Alltaf er maður í rauninni að tala um það sama :) - svona er það bara.
Ég ætti kannski frekar að fjalla um rafmagnssnúruuppgröft við jólalok - kannski væri það áhugaverðara, en ég tel mig nú hafa náð þeim árangi með þessum skrifum, að sleppa við að nota orð janúarmánaðar.

09 janúar, 2012

Einföld þjóð í flóknum heimi

Það þyrmdi nánast yfir mig þegar ég hafði búið til þessa mögnuðu fyrirsögn. Hún er ekki aðeins falleg í sjálfri sér, heldur algerlega þrungin sannleika.

Þá hef ég lýst þessu og lái mér hver sem vill.

Ég þekki sjálfan mig nokkuð, nemendur í talsverðum mæli ásamt samstarfsmönnum, fjölskyldu og fleirum.  Það sem við eigum flest sammerkt er, að við forðumst texta ef við beinlínis þurfum ekki að lesa hann. Þegar ég hef dagblað í höndunum skauta ég yfir fyrirsagnir og myndir og læt það duga í flestum tilvikum (læt reyndar algerlega vera að líta einu sinni í áttina að einu dagblaðanna, hvort sem er á pappír eða tölvuskjá).

Ég finn alloft fyrir lítilsháttar vorkunn í garð þeirra sem eru búnir að hafa fyrir því, að skrifa langar og lærðar greinar, hvort sem er í pappírsblöð eða vefblöð - velti fyrir mér hve margir nenni, í öllu upplýsingaflóðinu, að lesa skrifin. Ekki eru þeir nú margir sem nenna að lesa þann andans fjársjóð sem birtist á þessum síðum hér, og ég finn fyrir ákveðinni vorkunn í garð þeirra sem af missa.

Þeir sem eiga sitt undir því að koma skilaboðum til fólks, hvort sem er til að selja því eitthvað, kynna því, eða hafa áhrif á skoðanir þess, er auðvitað búnir að átta sig á því, að það gerist ekki með neinu sem er langt. Það sem virkar er mynd, hljóðbútur eða textabútur. Hratt, hratt, hratt, hratt og grípandi.
Það er grundvallaratriði að líma fólk við eitthvað, að það er auðvitað fyrir löngu orðin heil vísindagrein.

Ég vil hér taka eitt dæmi af frétt sem ég las í dag til að skýr  hvernig þetta virkar:

Í DV er fyrirsögnin: VILL DEYJA ÁÐUR EN MYND ER GERÐ. Fljótt á litið gæti þetta falið í sér að hann óski þess að fá að deyja áður en myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum, s.s. innan skamms. Síðan þegar textinn er lesinn kemur auðvitað í ljós að það sem hann á við er, að honum finnist eðlilegt að svona mynd sé gerð eftir að viðkomandi er horfinn yfir móðuna miklu - allt önnur merking. Alltof oft fellur maður fyrir þessum bútum í formi fyrirsagna.

Því er ekki að neita, að stjórnmálaöflin í landinu eru komin mislangt í að tileinka sér þessar aferðir við að hafa skoðanamyndandi áhrif. Þrátt fyrir sögu sína í náinni fortíð rýkur einn stjórnmálaflokkurinn upp vinsældalistann, einmitt á hljóð-, mynd- og textabútum. Grundvallaratriðið er að flækja aldrei málin, endurtaka alltaf það sama, aldrei láta flækja sig í neinar hugmyndafræðilegar pælingar. 
Þeir flokkar sem missa sig stöðugt í að færa rök fyrir málum, ræða fram og til baka, útskýra - tapa stöðugt fylgi þar sem langlokan nær ekki í gegn.

Dapurleg þróun, en þróun samt.

Veröldin verður flóknari með hverjum deginum sem líður - við köfum stöðugt grynnra í leit að því sem satt er og rétt.

(Hvað skyldu margir hafa lokið þessum lestri?)

-------------

Það er ekki laust við að mögulegt sé að ýmsir hafi leitt hugann að því að hafa samband við mig.

02 janúar, 2012

Önd á eftir Capsicums

Áfram streymir, endalaust, nú árið er liðið, engu er við að bæta, en ég geri það samt þó ekki sé um að ræða nein tímamótaskrif.
Capsicums forrétturinn sem ég fjallaði um hér, reyndist vera hreint sælgæti, og það var reyndar engin furða þar sem það var ég sem lagði hjarta og sál í undirbúninginn.

Annað verð ég að segja um öndina sem var ætlað að skipa aðalréttinn. Þrátt fyrir mikla yfirlegu, dögum saman, þar sem margtryggt var, að enginn misskilningur væri varðandi uppskriftina. Allt var eins og það átti að vera. Þessi fína fylling fór inn í kvikindið og inn í ofninn fór það. Ég gerði ráð fyrir ríflegum tíma í ofninum, en uppskriftin sagði 90 mínútur á 160°C - sem mér fannst ótrúlega stutt, en sættist á það þar sem öndin virkaði ekki sérlega vöðvamikil. Inni í ofninum var hún í 115 mínútur - það blæddi úr henni þegar hún var tekin út!!!  Mikil er ábyrgð þess sem uppskriftina gerði. Þarna voru góð ráð dýr. Vöðvafjallið, hátíðarkjúklingurinn, sem var öndinni að hluta til samferða í gegnum steikinguna, reyndist rétt tímasettur, fD til umtalsverðrar ánægju. Andartryppinu var skellt aftur í ofninn og nú með kjöthitamæli í vöðva og hita á 200°C. 
Hátíðarkvöldverðurinn hófst með formlegum hætti um það bil klukkustund síðar en áætlun gerði ráð fyrir, á dýrlegum Capsicums forréttinum.

Það er með ólíkindum hvað er lítið kjöt á önd. 





------------

Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu um skaupið, utan það að ákveðnir þættir þess voru stórgóðir.
Ég ætla ekki, að svo stöddu, að taka þátt í umræðu um meinta yfirlýsingu þjóðhöfðingjans.
Það er nóg af sjálfskipuðum spekingum að viðra skoðanir sínar á þessum helstu fréttaviðburðum áramótanna.

Mig langar að taka hatt minn ofan fyrir Margréti Tryggvadóttur, eftir framgöngu hennar í svokallaðri Kryddsíld á gamlársdag. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...