09 janúar, 2012

Einföld þjóð í flóknum heimi

Það þyrmdi nánast yfir mig þegar ég hafði búið til þessa mögnuðu fyrirsögn. Hún er ekki aðeins falleg í sjálfri sér, heldur algerlega þrungin sannleika.

Þá hef ég lýst þessu og lái mér hver sem vill.

Ég þekki sjálfan mig nokkuð, nemendur í talsverðum mæli ásamt samstarfsmönnum, fjölskyldu og fleirum.  Það sem við eigum flest sammerkt er, að við forðumst texta ef við beinlínis þurfum ekki að lesa hann. Þegar ég hef dagblað í höndunum skauta ég yfir fyrirsagnir og myndir og læt það duga í flestum tilvikum (læt reyndar algerlega vera að líta einu sinni í áttina að einu dagblaðanna, hvort sem er á pappír eða tölvuskjá).

Ég finn alloft fyrir lítilsháttar vorkunn í garð þeirra sem eru búnir að hafa fyrir því, að skrifa langar og lærðar greinar, hvort sem er í pappírsblöð eða vefblöð - velti fyrir mér hve margir nenni, í öllu upplýsingaflóðinu, að lesa skrifin. Ekki eru þeir nú margir sem nenna að lesa þann andans fjársjóð sem birtist á þessum síðum hér, og ég finn fyrir ákveðinni vorkunn í garð þeirra sem af missa.

Þeir sem eiga sitt undir því að koma skilaboðum til fólks, hvort sem er til að selja því eitthvað, kynna því, eða hafa áhrif á skoðanir þess, er auðvitað búnir að átta sig á því, að það gerist ekki með neinu sem er langt. Það sem virkar er mynd, hljóðbútur eða textabútur. Hratt, hratt, hratt, hratt og grípandi.
Það er grundvallaratriði að líma fólk við eitthvað, að það er auðvitað fyrir löngu orðin heil vísindagrein.

Ég vil hér taka eitt dæmi af frétt sem ég las í dag til að skýr  hvernig þetta virkar:

Í DV er fyrirsögnin: VILL DEYJA ÁÐUR EN MYND ER GERÐ. Fljótt á litið gæti þetta falið í sér að hann óski þess að fá að deyja áður en myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum, s.s. innan skamms. Síðan þegar textinn er lesinn kemur auðvitað í ljós að það sem hann á við er, að honum finnist eðlilegt að svona mynd sé gerð eftir að viðkomandi er horfinn yfir móðuna miklu - allt önnur merking. Alltof oft fellur maður fyrir þessum bútum í formi fyrirsagna.

Því er ekki að neita, að stjórnmálaöflin í landinu eru komin mislangt í að tileinka sér þessar aferðir við að hafa skoðanamyndandi áhrif. Þrátt fyrir sögu sína í náinni fortíð rýkur einn stjórnmálaflokkurinn upp vinsældalistann, einmitt á hljóð-, mynd- og textabútum. Grundvallaratriðið er að flækja aldrei málin, endurtaka alltaf það sama, aldrei láta flækja sig í neinar hugmyndafræðilegar pælingar. 
Þeir flokkar sem missa sig stöðugt í að færa rök fyrir málum, ræða fram og til baka, útskýra - tapa stöðugt fylgi þar sem langlokan nær ekki í gegn.

Dapurleg þróun, en þróun samt.

Veröldin verður flóknari með hverjum deginum sem líður - við köfum stöðugt grynnra í leit að því sem satt er og rétt.

(Hvað skyldu margir hafa lokið þessum lestri?)

-------------

Það er ekki laust við að mögulegt sé að ýmsir hafi leitt hugann að því að hafa samband við mig.

1 ummæli:

  1. ... og þeir gusa mest sem grynnst vaða. Þetta vitum við kæri Páll.

    Hirðkveðill í Bárðardal...

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...