02 janúar, 2012

Önd á eftir Capsicums

Áfram streymir, endalaust, nú árið er liðið, engu er við að bæta, en ég geri það samt þó ekki sé um að ræða nein tímamótaskrif.
Capsicums forrétturinn sem ég fjallaði um hér, reyndist vera hreint sælgæti, og það var reyndar engin furða þar sem það var ég sem lagði hjarta og sál í undirbúninginn.

Annað verð ég að segja um öndina sem var ætlað að skipa aðalréttinn. Þrátt fyrir mikla yfirlegu, dögum saman, þar sem margtryggt var, að enginn misskilningur væri varðandi uppskriftina. Allt var eins og það átti að vera. Þessi fína fylling fór inn í kvikindið og inn í ofninn fór það. Ég gerði ráð fyrir ríflegum tíma í ofninum, en uppskriftin sagði 90 mínútur á 160°C - sem mér fannst ótrúlega stutt, en sættist á það þar sem öndin virkaði ekki sérlega vöðvamikil. Inni í ofninum var hún í 115 mínútur - það blæddi úr henni þegar hún var tekin út!!!  Mikil er ábyrgð þess sem uppskriftina gerði. Þarna voru góð ráð dýr. Vöðvafjallið, hátíðarkjúklingurinn, sem var öndinni að hluta til samferða í gegnum steikinguna, reyndist rétt tímasettur, fD til umtalsverðrar ánægju. Andartryppinu var skellt aftur í ofninn og nú með kjöthitamæli í vöðva og hita á 200°C. 
Hátíðarkvöldverðurinn hófst með formlegum hætti um það bil klukkustund síðar en áætlun gerði ráð fyrir, á dýrlegum Capsicums forréttinum.

Það er með ólíkindum hvað er lítið kjöt á önd. 





------------

Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu um skaupið, utan það að ákveðnir þættir þess voru stórgóðir.
Ég ætla ekki, að svo stöddu, að taka þátt í umræðu um meinta yfirlýsingu þjóðhöfðingjans.
Það er nóg af sjálfskipuðum spekingum að viðra skoðanir sínar á þessum helstu fréttaviðburðum áramótanna.

Mig langar að taka hatt minn ofan fyrir Margréti Tryggvadóttur, eftir framgöngu hennar í svokallaðri Kryddsíld á gamlársdag. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...