29 desember, 2011

Capsicums

Tilbúið: char grilled capsicums au pms

Ég þekki ýmis nöfn á þessu fyrirbæri, en paprika er það sem notast er við hérlendis. Tegundarheitið á þessari venjulegu papriku mun vera Capsicum Annuum, en það munu vera til ríflega 30 afbrigði til innan þessarar ættar. Ég hafði, þar til í fyrradag, aldrei heyrt eða sé þetta nafn notað um papriku. Það er þessvegna sem ég fer aðeins yfir þetta.

Þetta átti nú ekki að vera neitt fræðilegt hjá mér, en er til komið vegna þess að ég hef tekið að mér að sjá um forrétt í hátíðarkvöldverði á gamlárskvöld - og raunar einnig stóran hluta aðalréttar einnig. Það er sem sagt mikið sem srtendur til hjá þessum manni.

Forrétturinn sem varð fyrir valinu er þessi: (fékk gagnrýni fyrir að birta ekki uppskriftina að Sörunum, svo ég klikka ekki á uppskriftaleysi aftur)
Ristaðar paprikur, ólífur og Mozzarella í kryddlegi
2 krukkur Char-Grilled Capsicums
60 gr. svartar ólífur
1 stk. (125 gr.) Mozzarella, skorin í teninga
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. ferskt oregano (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1 tsk. ferskt basil (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1/2 tsk. fersk salvía (eða 1/8 tsk. þurrkuð)
1/2 tsk. salt
1/8 tsk. pipar
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
Setjið paprikurnar, ólífurnar og ostinn í skál. Setjið afganginn af innihaldinu í ílát með loki og hristið vel. Hellið innihaldinu síðan yfir paprikublönduna. Lokið skálinni og geymið í ísskáp í amk. 4 klst.; hrærið nokkrum sinnum í.
Ég fjölyrði ekki um það, en auðvitað fékkst ekki allt sem þarna er nefnt, í höfuðstað Suðurlands, nefnilega aðalatriðið: ristaðar paprikur (char grilled capsicums).
Ég var búinn að ákveða að hafa þennan forrétt og ég breyti ákvörðunum mínum ekki auðveldlega. Því var það að ég gúglaði char grilled capsicums og fann leiðbeiningar um hvernig maður útbýr slíkt. Að upplýsingum fengnum framkvæmdi ég þetta verk í dag. Í grunninn er hér um að ræða að skera papriku í hæfilega bita og skella undir grillið í eldavélinni. Þar er það látið vera uppundir 10 mínútur, eða þar til hýðið er farið að kolast. Allt gekk þetta vel, enda ekki von á öðru þar sem þarna var ég sjálfur á ferð. Reyndar var ekki til rauðvínsedik og ekki heldur venjulegt edik, en það var til rauðvín og það var til balsamik edik. Ég þoli afar illa að eiga ekki nákvæmlega það sem sagt er að eigi að vera í viðkomandi rétti og því var það ekki af fullkomlega fölskvalausri gleði sem ég lauk framkvæmdinni. Ég hef þó fulla trú á að hér sé á ferð forréttur eins og forréttir gerast bestir.

3 ummæli:

  1. Uhhhmmmm.... og hvað verður í aðalrétt?
    Soltinn hirðkveðill;)

    SvaraEyða
  2. Ja´já já og TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ minn kæri;)

    S.Hirð.

    SvaraEyða
  3. Aðalrétturinn verður svo stórfenglegur að fátækleg orð ná ekki að fanga hann.
    Ég efa ekki að fH nái að seðja hungrið með vel fullnægjandi hætti.

    Loks þakka ég afmæliskveðju, þó á þeim aldri sé, að þurfi að telja frá fæðingu til að vita hver aldurinn er - kannski best að vita ekki.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...