14 janúar, 2012

Pilsfaldakapítalismi

Mér hefur alltaf fundið þetta áhugavert hugtak og lýsandi fyrir baráttumenn frelsis á þessu landi. Í rauninni er þetta hugtak svo miklu víðtækara í mínum huga en að lýsa aðeins því þegar hugsjónamenn um einkaframtakið fara fram undir gunnfána frjálsrar samkeppni, í nafni frelsis einstaklingsins, í samræmi við kenninguna um að þeir hæfustu lifi af. 

Ég hef ekkert á mót því að frelsiselskandi einstaklingar fari sínar leiðir. Í flestum tilvikum eru þetta góðir og heiðarlegir einstaklingar, sem kunna fótum sínum forráð og eru tilbúnir með leiðir til að bjarga sér ef illa fer; hafa sjóð til að grípa til þegar mögru árin koma, eða kaupa sér tryggingar til að takast á við óvænt áföll. Allt bara gott og blessað.

Hugtakið pilsfaldakapítalismi  nær yfir öll þau tilvik, þar sem fólk nýtir sér frelsi sitt til að taka einhverja áhættu, sem getur leitt til persónulegs hagnaðar af einhverju tagi, hvort sem það snýst um fjárhagslegan ávinning, eða persónulegan, en gerir síðan kröfur á samfélagið þegar á bjátar. "Nú eigið þið að bjarga mér."
Hugmyndin um frelsið er sannarlega lokkandi og er höfð í hávegum í landi hinna frjálsu og hugrökku, sem margir þegnar þessarar þjóðar telja vera fyrirmyndarríkið.  

Frelsi einstaklingsins til athafna var orðið nánast óheft í þessu landi fyrir nokkrum árum. Margir gengu langt í nafni þessa frelsis, það vitum við. Það var nánast allt hægt - peningar ekki fyrirstaða. Það var skrifað undir margskonar skuldbindingar  sem voru ávísanir á ofsahagnað framtíðarinnar. Það var tekin mikil áhætta í mörgum tilvikum. Hér er ég ekki bara að tala um fjárhagslega áhættu.

Mér finnst með engu móti siðferðilega verjandi og gera kröfur á samfélagið eftir að hafa tekið mikla áhættu á eign vegum, sem síðan gengur ekki eins og vonir stóðu til. Þarna virðist víða hafa skort á forsjálni.  

Við höfum öll okkar hugsjónir: 
- þær lúta að heilsteyptri lífssýn sem við erum trú alla ævi, meira og minna, með kostum og göllum.
- þær lúta að núinu -  eru í líkingu við pælingar fugla himinsins.
- þær eru einhversstaðar þarna á milli. 

Hvernig sem allt veltist þá þurfum við að taka lífinu eins og hæfir hugsjónum okkar. Ef við viljum hafa frelsi til að fara á einhverja einkastofu til að láta sprauta siliconi í ræfilslegu varirnar okkar, þá þurfum við jafnframt að gera ráðstafanir sem miða ekki við björgunarpakka samfélagsins, ef illa fer. 

-----

Alltaf er maður í rauninni að tala um það sama :) - svona er það bara.
Ég ætti kannski frekar að fjalla um rafmagnssnúruuppgröft við jólalok - kannski væri það áhugaverðara, en ég tel mig nú hafa náð þeim árangi með þessum skrifum, að sleppa við að nota orð janúarmánaðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...