20 nóvember, 2012

Fordómar í fyrirrúmi

Þeir virðast vera harla margir sem telja það vera viturlega leið, að ætlast til þess að þessi þjóð greiði atkvæði um aðild að ESB áður en fyrir liggur niðurstaða í samningaviðræðum og í ljós komi um hvað er þar að ræða.

Þetta finnst mér einstaklega óskynsamlegt.

Kannski er rétt að ég skelli hér inn yfirlýsingu um að ég hef ekki gert upp hug minn um þetta mál, enda tel ég það fyrir neðan virðingu mína (hrokinn, Guð minn almáttugur!) að taka einarða afstöðu með eða móti einhverju á grundvelli fordóma minna einna saman.

Það er búið að karpa um þetta ESB mál í ansi mörg ár. Það er tími til kominn að upplýst þjóðin fái að afgreiða það með einum eða öðrum hætti. Að öðrum kosti heldur karpið áfram um ókomna tíð. Óupplýst þjóðin myndi taka slíka afstöðu á grundvelli fordóma sinna með eða á móti, en ekki þekkingar á því sem þessi aðild hefði í för með sér.

Ég veit að þeir eru margir sem telja sig hafa höndlað hinn eina sannleik um þetta hræðilega bandalag. "Sjáiði, Spán, sjáið bara Portúgal! Viljum við fara sömu leið og Grikkland? Vitiði ekki að meirihluti Breta vill ganga úr Evrópusambandinu? Við munum missa yfirráðin yfir fiskimiðunum!, Ég vil ekki að Þjóðverjar ráði yfir Evrópu (lesist: fyrrverandi Nazistar, væntanlega)" - og svo framvegis.

Hvenær varð Evrópa svona hræðilegt fyrirbæri?


Mér finnst að að mörgu leyti megi bera saman umræðu um þessa aðildarumsókn og þegar einstaklingar eru sviptir ærunni fyrir framan alþjóð, sárasaklausir. Skotið fyrst og spurt svo. Það má ekki verða í þessu máli.

Ég held að við ættum að anda rólega og bíða þar til í fyllingu tímans með að greiða atkvæði okkar um þetta mikilvæga mál. Þá getum við hætt þessum illþolandi, innihaldslausu upphrópunum um eitthvað sem við vitum í rauninni ekki hvað er.

---

Þá er það frá í bili.

19 nóvember, 2012

Að berjast fyrir málstað

Það gengur mikið á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af ýmsu tagi þessa dagana vegna svokallaðrar varnarbaráttu Ísraelsmanna. Það eru birtar myndir af líkum palestínskra barna, af þróun ísraelskra yfirráða í Palestínu, af þeim samhljómi sem finna má með Þýskalandi nazismans og Ísraelsríki nútímans.

Fólk er reitt, skilur ekki hvernig það má vera að ástandið sé svona. Fólk krefst þess að þessum ósköpum linni, fer jafnvel á mótmælafundi, auk þess sem það hellir úr skálum vanþóknunar sinnar og reiði hvar sem við verður komið.

Ég fylli flokk þess fólks sem leitar að þeim orðum sem geta hugsanlega orðið til að breyta einhverju, en ég finn þau ekki. Það er að segja, ég finn ekki réttu orðin. Ég finn vissulega óhemju mikið af orðum, en jafnskjótt og þau koma í hugann, átta ég mig á því að þau munu ekki breyta neinu. Ef ég færi að slá þessi orð inn í tölvuna mína þannig að þau birtist einhversstaðar fyrir augum annarra, væru þau þá ekki bara einhverskonar friðþæging fyrir mig? Gæti ég þá kannski bara sagt við sjálfan mig: "Nú er ég búinn að sýna umheiminum hvað mér finnst og get með góðri samvisku farið að skella steikinn í ofninn."  Hvaða máli skiptir það fyrir það fólk sem veit ekki hvort það fær að draga andann á morgun?  Hverju breytir það þótt einhver smáþjóð í Ballarhafi hrópi vandlætingu sína á því sem á sér stað við botn Miðjarðarhafsins? Þau öfl sem þar véla um líf og dauða hafa ekki kvikað neitt umtalsvert frá stefnu sinni eftir átölur frá umheiminum. Þar er það í gangi sem meira að segja "stórasta land í heimi" getur lítið haft um að segja.

Land hinna frjálsu styður aðgerðir herveldisins með ráðum og dáð. Það virðist ekki munu breytast. Meðan svo er, skiptir litlu þó við berjum okkur á brjóst og deilum myndefni sem orð ná ekki að lýsa.  Ég man þegar sex daga stríðið gekk yfir. Ég hélt með Ísrael. Fjölmiðlarnir sem sögðu frá gerðu það einnig. Mín sýn breyttist, en ég spyr mig hvort það breyti einhverju. Það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og geri.  Ég veit hvert svarið við því er: "Ef allir hugsuðu þannig, væri leiðin greið fyrir ofbeldismenn, harðstjóra, kúgara eða heimsvaldasinna heimsins greið."

Það er rétt. En hvað svo?


07 október, 2012

Að svindla? - Ekki séns.

Hjálparfoss
Áður en af stað er farið með þessar skriftir vil ég taka fram, að ég er ógurlegur andátaka- og andþemamaður. Það, til dæmis, hvarflar ekki að mér að fara að safna yfirskeggi í mars, eða klæða mig upp í kúrekafatnað til að fara í partí þar sem er kúrekaþema. Þá er það frá.
-----
Þrjátíu mínútur á dag, að lágmarki. Einn hreyfimöguleikinn er ganga, en reyndar ekki tekið fram hvar í litrófi göngutegunda hana er að finna. Það er, svo nokkur dæmi séu tekin, hægt að ganga rösklega (fD segir að í því felist að maður á ekki að geta talað undir göngunni því allt súrefni og orka eigi að nýtast beint í ganglimina), svo er hægt að tala um svona stinningsgöngu, samanber stinningskaldi. Það má nefna það sem maður kallar í daglegu máli LABB (hvaðan sem það orð kemur nú, eins ótótlegt og það nú er). RÖLT er þarna einhversstaðar líka. Ég hef kosið að ganga stinningsgöngu.

Í Sandártungu í Þjórsárdal
Þetta göngutal er nú ekki komið til af engu. Stofnunin sem ég vinn við hefur í heild sinni, verið skráð í Lífshlaupið svokallað. Þarna er um að ræða eitthvað á þriðja hundrað manns sem á að hreyfa sig í það minnsta 30 mínútur á dag til að hala inn stig fyrir sína stofnun, nú eða sitt lið, því innan stofnunarinnar hefur fólkinu verið skipt upp í hópa, hver bekkur myndar einn hóp og starfsfólk myndar siðan einn sameiginlegan og þar hafa allir verið settir inn jafn vel þeir sem engar líkur eru á að hreyfi sig.
Það er eitthvað þessu sinni, sem veldur því að ég hef tekið þá ákvörðun að ganga í 30 mínútur á dag í hálfan mánuð. Þegar ég hef ákveðið svona þá verður því ekki haggað. Í myrkri og slagveðursrigningu skal ég ganga svo tryggt sé að það verði allavega ekki mín sök ef liðið sem ég er í tapar.  Ég sé, þegar ég skoða frammistöðu liðsfélaganna, að talsvert vantar upp á að ýmsir málsmetandi aðilar, sem ættu nú, samkvæmt starfslýsingu að vera á fullri ferð allan daginn, hafa í engu sinnt því að skrá hreyfingu sína og hafa þannig markvisst dregið úr sigurlíkum liðsins. Það er ekki  gott.

Skaftholtsréttir
Í dag lá leið í Þjórsárdal til að auka fjölbreytni í gönguleiðum. Ekki það að ekki sé nóg ag þeim í Laugarási - það er nú öðru nær, auðvitað. Það þótti bara við hæfi, í nafni víðsýninnar, að skoða haustfegurðina í Þjórsárdal. Fegurðin hefð getað verið meiri í raun, en samt er nú ekki hægt að kvarta. Rúmur tími var genginn og haustlitir myndaðir

Ég veit nú ekki hvaða merkingu þessar
tölur hafa í keppninni, en svo virðist
sem aðeins einn skóli komi til
greina sem sigurvegari.
Við heimkomu var afrek dagsins skráð. Annað kom ekki til greina. Það þarf að sinna því sem maður tekur að sér.

Staðan í keppninni milli framhaldsskóla landsins er nú fremur óhagstæð öðrum stofnunum en minni. Hinsvegar er liðið mitt ekki á nógu góðu róli. Það gengur ekki að unglingar sigri fullþroskaðar manneskjur með þessum hætti. Það er enn eftir ein og hálf vika og ýmislegt hægt að gera til að bæta stöðuna.

Áfram nú. Engar 0 mínútur!
Þarna má enn sjá
of mörg núll




23 september, 2012

Það skyldi þó ekki vera komið haust?

Haustið hefur nú aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér og ástæður þess eru sjálfsagt blanda af einhverju sem ég geri mér grein fyrir og öðru sem læðist að mér óafvitandi. Þau eru ekki mörg haustin á ævi minni sem hafa ekki falið í sér skólabyrjun, annðhvort með mig sem nemanda eða starfsmann. Kannski er það bara þessvegna sem mér finnst haustin ekkert kalla til mín ljúfum róm. Þau ískra frekar inn, með talsverðum hávaða. Það sem lifði og blómstraði yfir sumarmánuðina verður dauða og rotnun að bráð. Ekki neita ég þvi að haustlitirnir eru fjölbreyttir og gleðja augað að mörgu leyti, en það sem þeir standa fyrir og boða, er ávallt yfir og allt um kring. Það má segja að í haustinu takist á fegurðin og dauðinn......... en nú er ég sennilega kominn of djúpt.

Eftir að sumargestirnir eru farnir burtu til að sinna sínu, hljóðnar yfir Kvistholti. FD er búin að setja lokið yfir sandkassann, það er búið að bjarga grillinu inn í skot, en sumarhúsgögnin standa enn ófrágengin í fullvissu um viðvarandi lognið í Þorpinu í skóginum.

Ekki eru íbúarnir á þessum bæ neinir hávaðaseggir dags daglega og ekki truflar umferðarniður, vindgnauð, partístand hjá nágrönnum, eða hanagal og hundgá.

Hér ríkir kyrrðin ein, þar sem litbrigði haustsins eru smám saman að breytast í órætt litleysi vetrar.

Hvernig er það - ætli ég þurfi ekki að fara að huga að því að fjárfesta í vetrardekkjum?

26 ágúst, 2012

Hugsjónaflakk og sálar

Það tók mig einhvern tíma, í gamlagamla daga, að sætta mig við að knattspyrnumaður, sem einn daginn keppti fyrir Fram var viku síðar farinn að keppa með KR á móti Fram. Mér fannst þetta ekki ósvipað því að  ég, félagi í og keppandi fyrir Umf Bisk, færi að keppa gegn Umf Bisk með Hrunamönnum. Slík uppákoma hefði verið óhugsandi.
Árin liðu og ég sættist mám saman á, að sum lið hefðu meira að bjóða en önnur, launin hærri og þarna gat verið um að ræða tekjur fyrir liðin sem ólu upp knattspyrnumennina, o.s.frv. Knattspyrna snérist sem sagt ekki um að berjast fyrir sinn hóp vegna þess að maður vildi vera trúr einhverri hugsjón eða baklandi, heldur voru það aðrir hagsmunir sem réðu - í langflestum tilvikum snérist og snýst það um peninga þegar leikmenn skipta um lið. Þegar betur er að gáð get ég sætt mig við að svona sé þessu háttað, enda um að ræða beitingu einstaklinga á líkamlegri færni sinni  til framdráttar einhverjum málstað, en ekki hugsjónir, eða lífsskoðanir.

Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það þegar einstaklingar skipta um hugsjónir eða lífsskoðanir jafn léttilega og skipt er um knattspyrnulið. Látum liggja milli hluta þegar óflokksbundið fólk, eins og t.d. ég, skiptir um skoðun milli kosninga. En það að einstaklingur fari í framboð fyrir stjórnmálaflokk, berjist fyrir málstaðinn af eldmóði, komist inn á Alþingi þar sem hann berst hatrammri baráttu fyrir hinn góða málstað, segi sig bara si svona frá málstaðnum, flokknum, félögum sínum, fólkinu sem kaus hann, og gangi í raðir andstæðinganna, það finnst mér fremur traustsvæfandi.

Jæja, auðvitað er það réttur manna að skipta um skoðun, sjá að sér, aðlaga hugsjónirnar, átta sig á að ljós gamla flokksins, sem hugsjónirnar beindust að, var villuljós. Ég skal láta það vera. Það er leyfilegt að skipta um skoðun, þó svo það gefi ekki til kynna að hugsjónaeldurinn brenni skært.

Þegar staðan er hinsvegar orðin sú, að sá sem fór úr flokknum A yfir í flokkinn B heldur uppteknum hætti í gagnrýni sinna á flokkinn B eins og hann væri enn í flokknum A, þá er það meira en ég get kyngt, án frekari úrskýringa.

Það má svo sem alveg klína ástæðum þess, að flokkaflakk er búið að vera óvenjumikið meðal þingmanna undanfarin ár, á hrunið og ólguna í kjölfar þess, en ég held ekki að hrunið sé megin ástæðan. Hennar held ég að sé að leita í tvennu:
a. óskýrum átakalínum - það gengur illa að halda kommagrýlunni að fólki,
b. gapuxahætti/gasprarahætti/innrás kverúlantanna - það hefur komið fram fjöldi fólks sem auðvitað telur sig búa yfir hinum eina sannleik, og býr sannarlega yfir færni til að tjá sig í svo stórfenglegum mæli að minni spámenn geta ekki annað en fyllst aðdáun.  Þessum snillingum hefur ekki gengið sérlega vel að höndla hugsjónina sína, Hún hefur breyst og aðlagast því sem það telur þjóðarsálina vilja. Þjóðarsálin er hinsvegar reikul sál og hverful.

Það sem er eiginlega alverst í þessum málum, að mínu mati, er að um leið og einhver kverúlantinn ákveður að skipta um flokk er hann umsvifalaust orðin vinsæll álitsgjafi í fjölmiðlum. Fjölmiðlar, eins og flestum má vera ljóst, leita ávallt eftir sensasjón. Flokkaflakkarar eru ávallt vel til þess fallnir að segja hlutina umbúðalaust, þó svo enginn viti nema þeir verði farnir að viðra aðrar skoðanir á morgun.




18 ágúst, 2012

Hátignardeiluvaldur


Ég sé í anda frásögn af þessu tagi um Kristján Eldjárn eða Vigdísi Finnbogadóttur.
Að þetta skuli vera orðin raunin um þetta eina embætti sem öll þjóðin hefur lýðræðislegan rétt til að velja beint, er til þess eins fallið að sundra og eyðileggja - ekki sameina og byggja upp.
Jú, jú, til eru þeir sem tala um að forsetaembættið sé bara einhver framlenging af danska kónginum, og það er vel hægt að líta þannig á. Það má hinsvegar einnig líta svo á, að forsetaembættið eigi að vera þannig rækt, að ekki skapist um það stöðugar deilur. Við kjósum pólitíska fulltrúa á Alþingi. Þar er deilt og þar á lýðræðislegur meirihluti að ráða ferð hverju sinni.
Í mínum huga er það sérlega fáránleg hugmynd að forsetaembættið eigi einnig að vera póitískt og þar með uppspretta stöðugra deilna. Þannig ástand er hreint ekki það sem við þurfum, en það er hinsvegar sérlega gagnlegt til að hjálpa þjóðinni að gleyma aðdraganda hrunsins. Það er þó satt.

Þetta embætti mun aldrei aftur verð þess eðlis sem ég vildi sjá það.

Að standa með sínu í þraut bæði' og pínu.

Lífið sem við mennirnir (bæði karlar og konur eru menn), lifa, er margslungið, eins og öllum má vera ljóst.  Við erum sagðir vera komnir að endimörkum greindarinnar.
Ég hef áður, í lítillæti mínu eða hroka, lýst þeirri skoðun minni, að greind sé ekki að plaga ríflega helming þessarar þjóðar.  Með því er ég ekki að fullyrða að hún sé neitt sérstaklega að birtast í mér frekar en ýmsum öðrum.

Það þekki ég af sjálfum mér, að þegar ég tek ákvörðun af einhverju tagi, þá stend ég með henni svo lengi sem stætt er, þó svo hún reynist hafa verið einstaklega vanhugsuð. Þetta getur átt við ótal atriði, smá og stór:

Ég hef keypt mér sokka, sem síðan reyndust detta í göt eftir eina eða tvær íverur. Ég henti þeim þegjandi og hljóðalaust, en viðurkenndi ekki að ég hefði átt að kaupa vandaðri sokka.
Ég hef keypt mér skyrtur sem síðan reyndust ekki hæfa vaxtarlagi mínu, í stað þess að viðurkenna að ég hefði betur athugað hvort þær væru aðsniðnar, og velt kaupunum betur fyrir mér að öðru leyti, hef ég þagað tilveru þeirra, þar sem þær hanga í fataskápnum, í hel.
Ég hef farið í bíó, í leikhús eða á tónleika, sem reyndust hreint ekki standa undir væntingum, en fjandinn fjarri mér að ég hafi farið að viðurkenna, að sýningin/tónleikarnir hafi veið hundléleg.
Ég hef keypt mér utanlandsferð sem var hálf glötuð, hún var samt frábær í frásögninni, og ég hélt áfram trúnaði við ferðskrifstofuna.
Ég hef stutt menn og málefni sem hafa reynst vera lítið annað en yfirborðið. Jafnvel þó þeir hafi skaðað hagsmuni mína hef ég staðið með þeim til að þurfa ekki að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér.
Ég hef úthúðað manneskju, sem síðan reyndist gull af manni, það hefur litlu breytt í afstöðu minni, því ég hef alltaf getað fundið einhverja galla á henni.

Ég hef, eins og við flest, tekið ákvarðanir af ýmsu tagi, sem hafa reynst rangar, og ekki fengið af mér að viðurkenna að væru rangar. Þess í stað hef ég staðið með þeim, en kosið að fara hljótt með stuðninginn eftir að ljóst varð hver raunin var.

Fyrir fleiri árum en ég kýs að nefna ákvað ég að kjósa tiltekið forsetaefni..........

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...