26 ágúst, 2012

Hugsjónaflakk og sálar

Það tók mig einhvern tíma, í gamlagamla daga, að sætta mig við að knattspyrnumaður, sem einn daginn keppti fyrir Fram var viku síðar farinn að keppa með KR á móti Fram. Mér fannst þetta ekki ósvipað því að  ég, félagi í og keppandi fyrir Umf Bisk, færi að keppa gegn Umf Bisk með Hrunamönnum. Slík uppákoma hefði verið óhugsandi.
Árin liðu og ég sættist mám saman á, að sum lið hefðu meira að bjóða en önnur, launin hærri og þarna gat verið um að ræða tekjur fyrir liðin sem ólu upp knattspyrnumennina, o.s.frv. Knattspyrna snérist sem sagt ekki um að berjast fyrir sinn hóp vegna þess að maður vildi vera trúr einhverri hugsjón eða baklandi, heldur voru það aðrir hagsmunir sem réðu - í langflestum tilvikum snérist og snýst það um peninga þegar leikmenn skipta um lið. Þegar betur er að gáð get ég sætt mig við að svona sé þessu háttað, enda um að ræða beitingu einstaklinga á líkamlegri færni sinni  til framdráttar einhverjum málstað, en ekki hugsjónir, eða lífsskoðanir.

Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það þegar einstaklingar skipta um hugsjónir eða lífsskoðanir jafn léttilega og skipt er um knattspyrnulið. Látum liggja milli hluta þegar óflokksbundið fólk, eins og t.d. ég, skiptir um skoðun milli kosninga. En það að einstaklingur fari í framboð fyrir stjórnmálaflokk, berjist fyrir málstaðinn af eldmóði, komist inn á Alþingi þar sem hann berst hatrammri baráttu fyrir hinn góða málstað, segi sig bara si svona frá málstaðnum, flokknum, félögum sínum, fólkinu sem kaus hann, og gangi í raðir andstæðinganna, það finnst mér fremur traustsvæfandi.

Jæja, auðvitað er það réttur manna að skipta um skoðun, sjá að sér, aðlaga hugsjónirnar, átta sig á að ljós gamla flokksins, sem hugsjónirnar beindust að, var villuljós. Ég skal láta það vera. Það er leyfilegt að skipta um skoðun, þó svo það gefi ekki til kynna að hugsjónaeldurinn brenni skært.

Þegar staðan er hinsvegar orðin sú, að sá sem fór úr flokknum A yfir í flokkinn B heldur uppteknum hætti í gagnrýni sinna á flokkinn B eins og hann væri enn í flokknum A, þá er það meira en ég get kyngt, án frekari úrskýringa.

Það má svo sem alveg klína ástæðum þess, að flokkaflakk er búið að vera óvenjumikið meðal þingmanna undanfarin ár, á hrunið og ólguna í kjölfar þess, en ég held ekki að hrunið sé megin ástæðan. Hennar held ég að sé að leita í tvennu:
a. óskýrum átakalínum - það gengur illa að halda kommagrýlunni að fólki,
b. gapuxahætti/gasprarahætti/innrás kverúlantanna - það hefur komið fram fjöldi fólks sem auðvitað telur sig búa yfir hinum eina sannleik, og býr sannarlega yfir færni til að tjá sig í svo stórfenglegum mæli að minni spámenn geta ekki annað en fyllst aðdáun.  Þessum snillingum hefur ekki gengið sérlega vel að höndla hugsjónina sína, Hún hefur breyst og aðlagast því sem það telur þjóðarsálina vilja. Þjóðarsálin er hinsvegar reikul sál og hverful.

Það sem er eiginlega alverst í þessum málum, að mínu mati, er að um leið og einhver kverúlantinn ákveður að skipta um flokk er hann umsvifalaust orðin vinsæll álitsgjafi í fjölmiðlum. Fjölmiðlar, eins og flestum má vera ljóst, leita ávallt eftir sensasjón. Flokkaflakkarar eru ávallt vel til þess fallnir að segja hlutina umbúðalaust, þó svo enginn viti nema þeir verði farnir að viðra aðrar skoðanir á morgun.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...