20 desember, 2012

Óhöpp eiga sér einnig stað í sveitasælunni

Ég sá fram á óendanleg rólegheit í dag - einn heima, með fD í vinnunni og nýkominn danska Kvisthyltinginn í kaupstaðarferð.
Þá heyrði ég að sorpsöfnunarbifreiðin kom í hlað.
Ég nennti ekki einusinni að fá staðfestingu á því að þetta væri sorpsöfnunarbifreiðin - fannst það bara á þeim hljóðum sem bárust til mín að utan. Þegar þessum eðlilegu ruslatæmingarhljóðum linnti heyrði ég hann aka af stað. Velti því ekki frekar fyrir mér, en þar kom, að mér fannst vélarhljóðunum ekkert linna. Það var þess vegna sem ég fór fram í eldhús, leit út um gluggann og sá þá að fyrrgreind sorpsöfnunarbifreið hafði farið út af heimreiðinni, sem fD ók niður, slysalaust í býtið á ónegldri Corollunni.

Ég velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að gera í þessu, enda ljóst að ég myndi ekkert geta gert.
Eftir nokkrar innhverfar pælingar ákvað ég þó að fara út með skóflu - reyndi við sandhauginn sem varð afgangs við sandkassasmíðar sumarsins, en hann reyndist gaddfreðinn. Mér tókst þó að skafa af honum nokkra efstu millimetrana og þannig að ná mér í lítilræði af sandi sem dugði til að ég flygi ekki á höfuðið við að kynna mér allar aðstæður.

Það reyndist rétt hjá mér, að þarna vera ekkert sem nærvera mín myndi breyta. Því var það, að ég skellti mér bara inn og náði í EOS-inn og myndaði síðan í gríð og erg atganginn þegar Þórarinn á Spóastöðum kom á stóru dráttarvélinni, með teygjureipið og kippti laskaðri sorpsöfnunarbifreiðinni upp.

Að öðru leyti læt ég myndirnar tala.
Hvað verður um Alaskavíðinn sem bjargaði sorpsöfnunarbifreiðinn frá að velta, á næsta sumri, verður líklega að koma í ljós.

08 desember, 2012

Háski á hálum ís

Það leit nú ekkert illa út með færið þegar við fD lögðum af stað heim úr vinnunni í gær og hugðumst hafa viðkomu í höfuðstað Suðurlands til að fylla á fyrir næstu viku. En það átti eftir að fara öðruvísi.

Laugarvatnsvegurinn var svo sem fremur óskemmtilegur til aksturs enda hafði snjóað  og myndast krapi. Sjókoman var við það að breytast í rigningu þegar hér var komið. Eins og oft er við slíkar aðstæður lagði fD fljótlega í þessari ferð til, að kaupstaðarferð yrði frestað og þess frekar freistað að komast heima í öryggið. Ég tók nú lítt undir þær vangaveltur - var frekar á því að ljúka þessu verki af - við skyldum sjá til hvort ekki léttist á veginum. Þegar við mættum síðan snjóruðningstæki við Apavatn styrktist ég í þeirri ákvörðun að ljúka því sem að var stefnt. Segir ekki af ferðinni fyrr en við náðum Svínavatni án þess að fleira yrði til tíðinda. Farkosturinn var framhjóladrifin japönsk fólksbifreið á heilsársbörðum, sem þýðir auðvitað það að engir voru naglarnir. Við Svínavatn virtist koma í ljós, að Biskupstungnabraut væri bara greið og því lá beint við að stefna niður úr.
Það var ekki löngu eftir að sá hluti ferðarinnar hófst, að farþeginn fór að gefa til kynna, bæði með krampakippum, sem birtust sem högg í farþegadyrnar innanverðar og í hægri upphandlegg minn, og sem lágværar upphrópanir eins og ÚFF! eða AAAH!. Ég áttaði mig auðvitað ekki á ástæðum þessa, svo upptekinn var ég við aksturinn. Þetta var á þeima kafla sem er milli Svínavatns og Borgar, en hann var í góðu lagi miðað við aðstæður að öðru leyti. Það sama má segja um "Torg hinnar stóru Borgar", með stórborgarlegu yfirbragði sínu.

Þegar þarna var komið þurfti að ákveða hvort haldið skyldi áfram, eða tekinn 360° hringur á í torginu. Fyrri kosturinn var valinn, sem ég verð, eftir á að hyggja, að viðurkenna, að var nokkurt glapræði.
Frá Stóru-Borg blasti við allt önnur mynd.

Framundan var hágljáandi vegurinn og minnsta snerting mín við stýrið myndaði ákveðna keðjuverkun: örlitla og vart merkjanlega hliðarhreyfingu farartækisins, og í beinu framhaldi mikið umrót í farþegasætinu. Við vorum ekki komin langt inn á gljáann, þar sem fyrsti gír var nánast ónothæfur vegna þess hve hraðinn var mikill, þegar sú einróma ákvörðun var tekin, að snúa við við fyrsta tækifæri. Það var síðan ekki síst fD sem skannaði vegkantinn og nágrenni í leit að mögulegum stað til að snúa við. Hún sá hlíð, lengst út í móa og mátti telja líklegt að þar væri þá afleggjari af aðalveginum, sem svo reyndist ekki vera þegar við brunuðum framhjá í inngjafarlausum fyrsta gír. Það var svo ekki fyrr en við vegamótin þar sem Kiðjabergsvegur mætir Biskupstungnabraut, að unnt virtist að snúa við. Það var nákvæmlega með það í huga, og til þess að þurfa ekki að bakka neitt og þar með taka áhættuna af að komast ekki af stað aftur, sem ég tók góðan sveig inn á afleggjarann og hugðist þannig snúa við án þess að þurfa að stoppa. Þegar öðrum farþegum (farþega, reyndar) varð ljóst að þetta var ætlun mín, var mér umsvifalaust skipað að stöðva þá þegar, jafn vel þó bíllinn væri nú kominn út á miðjan veg og aðrir bílar sáust nálgast óþægilega hratt. Ég lét þessar skipanir sem vind um eyru mér þjóta og hélt mínu striki, fálmlaust og fumlaust. Allt gekk þetta eins og upp var lagt með. Sama leið ekin til baka af rólegri yfirvegun, þar til við komum að "Torgi hinnar himnesku Borgar". Eftir það voru allir vegir færir og enn fæ ég ekki nógsamlega þakkað þeim sem söltuðu veginn frá Brúará að Laugarási fyrir nokkru.

Ég hef ekki sagt margt um bílstjórann í þessari ferð, enda málið skylt. Ég vil samt geta þess að aldrei bar skugga á eindæma færni hans við að stýra ökutækinu í gegnum þann háska sem okkur var búinn. Ég læt einnig hjá líða að fjalla mikið um það að fyrir hálfum mánuði þurfti þessi sami bílstjóri að nýta sér þá staðreynd að bifreið hans er kaskótryggð.
-------
Það er rétt að taka fram að það er varasamt að reikna  með að allt sem sagt er hér að ofan sé fullkomlega í sátt við sannleikann. Kjarninn er réttur - annað kallast skáldaleyfi, nú eða að færa í stílinn.

06 desember, 2012

Skálholtsbrekkan og fleira


Þetta kurteislega erindi sendi ég til svæðisstjóra Vegagerðarinnar ásamt oddvita og sveitarstjóra Bláskógabyggðar, á þessum góða degi:


Sæl
Það er skemmtilegra að fjalla um það sem vel er gert og því vil ég leyfa mér að þakka það að einhversstaðar hefur verið ákveðið að salta veginn milli Laugaráss og Brúarár. Þetta er mér meira fagnaðarefni en mörgum þar sem ég ek þarna um til vinnu á hverjum morgni yfir veturinn. Þetta hef ég gert frá haustinu 1986 og hefur leið mín legið á Laugarvatn. Þau eru ófá tilvikin sem ég hef nálgast það að fara með bænirnar mínar þar sem svellgljáandi Skálholtsbrekkan blasir við mér snemma morguns. Iðulega hefur hvarflað að mér við slík tækifæri, að bjóða þeim sem hafa með þennan vegarspotta að gera, í salíbunu um þessa brekku, en hún er ekki síður óhugnanleg þegar haldið er niður hana í ofangreindu ástandi.
Ég hef, sem betur fer, oftast komist upp, en hef stundum horfið frá áður en ég hef lagt í brattann.


Eftir að hafa sigrast á Skálholtsbrekkunni tekur við tiltölulega láréttur vegarkafli sem er sannarlega einnig varasamur rétt eftir að maður fer fram hjá aðalheimreiðinni á Skálholtsstað. Þar er, á stuttum kafla, hár bakki niður á gilbotn. Í hvössu veðri er fátt til ráða á þessum stað ef bifreið tekur að renna til. Komist maður klakklaust framhjá þessu tekur við brekka númer tvö á þessari leið, en um hana má segja svipað og þá fyrri: það er ekki eftirsóknarvert hlutskipti að sitja í bíl sem lætur ekki að neinni verulegri stjórn. Þegar þessi brekka er frá tekur við það sem kalla mætti Spóastaðahálsinn. En upp hann er vegurinn auðvitað búinn að ver til vandræða vegna missigs frá því hann var byggður.. Í fljúgandi hálku getur hvað sem er gerst á þessum kafla.
Niður hálsinn hinumegin í átt að vegamótunum við Brúará er brekkan aflíðandi og maður hefur ekki á tilfinningunni að að þar geti margt gerst, en það hefur komið fyrir að mér hefur mistekist að komast þarna upp á heimleið, vegna súrrandi hálku.


Auðvitað veit ég vel, að það verður aldrei svo að maður geti treyst því að komast leiðar sinnar að vetri til á þessu landi, en það er jafnvíst að allir vilja gera eins vel í þessum efnum og efni standa til - ekki efa ég það.


Hvað er hægt að gera við Skálholtsbrekkuna til að bæta þar öryggi og/eða sálarástand þeirra sem um hana þurfa að fara?


Skömmu eftir að þessi brekka kom til sögunnar veit ég að foreldrar voru mjög uggandi um börn sín í skólabíl þarna um. Ég veit til þess að það var farið fram á að þarna yrðu sett upp vegrið. Það var ekki gert og sú ástæða gefin, að vegrið myndi safna snjó í brekkuna. Þar með gerðist ekkert frekar í því. Síðan þá hefur komið til sögunnar ný tegund vegriða sem ekki safnar snjó á vegi. Þau má t.d. finna á Hellisheiði, við hringtorgið mikla á Borg í Grímsnesi og í brekkunni við Litla-Fljót. Nú vil ég fara fram á það, að vegrið af þessu tagi verði sett með veginum um Skálholtsbrekkuna, þó ekki væri nema bara þar - helst, auðvitað líka við Spóastaðabrekkurnar.


Ég leyfi mér ennfremur að mælast til þess að snjómokstur á þessum vegarkafla hefjist það snemma að morgni, að hann nýtist þeim sem þurfa að sækja vinnu milli þéttbýlisstaða í uppsveitum. Loks fer ég fram á það, að missigið við Spóastaði, sem ég nefni hér að ofan verði lagfært. Ég á bágt með að trúa því, að vegurinn eigi eftir að síga meira en orðið er.


Með von um að áfram verði haldið á þeirri braut með hálkuvarnir sem ég hef upplifað þessa síðustu daga (þó svo mér sé meinilla við að aka fína bílnum mínum í saltpækli) og von um að erindi mitt að öðru leyti verði tekið til alvarlegrar skoðunar.


Páll M Skúlason
Kvistholti, Laugarási

02 desember, 2012

Að öskra sig inn í þjóðarsálina

"Still waters run deep" Þegar þetta máltæki er yfirfært á mannfólkið felur það í sér, að sá sem ekki fer með látum um jarðlífið, búi yfir einhverskonar persónulegri dýpt; velti fyrir sér því sem hann hefur fram að færa, er skynsamur, sér fleiri en eina hlið á málum. Andstæðan væri lækurinn sem skoppar niður brekku í stjórnleysi sínu.

Í Hávamálum segir að þagalt og hugalt skyldi þjóðans barn vera.

Ég var ekki lengi að læra það í mínu starfi, að það leysti engin mál að reyna að yfirgnæfa nemendur með því að tala hærra en þeir. Það virkaði betur að tala lægra og skýrar, nota færri orð.

Skrítinn inngangur atarna.

Línan sem forystumenn Flokksins fara með um þessar mundir virðist hljóða upp á eftirfarandi:
Tala hratt - svo hratt að engum takist að spyrja nánar út í það sem þeir voru að segja.
Tala hátt - svo hátt að það yfirgnæfi öll önnur hljóð.
Tala í frösum - nota sömu hugtökin aftur og aftur svo fólk þurfi ekki að hugsa út merkinguna, enda varla hægt vegna hraðans.
Tala í endurtekningum - endurtaka sömu frasana minnst fjórum sinnum í hverju viðtali, enda er það eina leiðin til að fólkið viti hvað verið er að segja, fyrir utan það að þá virðist maður hafa eitthvað að segja og tekst að fylla upp í tímann sem maður fær.
Hneykslast og móðgast - í eins stórum tíl og mögulegt er. Telja alla vera á móti sér og Flokknum (að ógleymdri sjálfri þjóðinni)

Í gær var viðtal á RUV við sigurvegarann í höfuðborginni. Ég heyrði ekki hvað hann sagði því ég var svo upptekinn af að dást að því hver hratt hann gat talað. Hann minnti mig á fjallalækinn sem hoppar og skoppar niður hlíðarnar. Það var það eina sem eftir stóð, en sigurvegarinn kom ótal orðum í loftið.

Í morgun var viðtal á Bylgjunni við formann Flokksins. Hann talaði ekki jafn hratt og hefði því tapað að því leyti, en hann sigraði hinsvegar með góðum yfirburðum í "tala hátt" hlutanum og "tala í frösum" hlutanum. Ég hafði reyndar áhyggjur af hátölurunum í frúarbílnum og lækkaði því í útvarpinu.

----

Fólk sem talar hátt og hratt, í frösum og endurtekningum nær engan veginn að höfða til mín. Þannig fólk sendir frá sér þá mynd að það sé ekki í jafnvægi og ekki treystandi til að takast á hendur þá ábyrgð sem forysta í ríkisstjórn krefst.





20 nóvember, 2012

Fordómar í fyrirrúmi

Þeir virðast vera harla margir sem telja það vera viturlega leið, að ætlast til þess að þessi þjóð greiði atkvæði um aðild að ESB áður en fyrir liggur niðurstaða í samningaviðræðum og í ljós komi um hvað er þar að ræða.

Þetta finnst mér einstaklega óskynsamlegt.

Kannski er rétt að ég skelli hér inn yfirlýsingu um að ég hef ekki gert upp hug minn um þetta mál, enda tel ég það fyrir neðan virðingu mína (hrokinn, Guð minn almáttugur!) að taka einarða afstöðu með eða móti einhverju á grundvelli fordóma minna einna saman.

Það er búið að karpa um þetta ESB mál í ansi mörg ár. Það er tími til kominn að upplýst þjóðin fái að afgreiða það með einum eða öðrum hætti. Að öðrum kosti heldur karpið áfram um ókomna tíð. Óupplýst þjóðin myndi taka slíka afstöðu á grundvelli fordóma sinna með eða á móti, en ekki þekkingar á því sem þessi aðild hefði í för með sér.

Ég veit að þeir eru margir sem telja sig hafa höndlað hinn eina sannleik um þetta hræðilega bandalag. "Sjáiði, Spán, sjáið bara Portúgal! Viljum við fara sömu leið og Grikkland? Vitiði ekki að meirihluti Breta vill ganga úr Evrópusambandinu? Við munum missa yfirráðin yfir fiskimiðunum!, Ég vil ekki að Þjóðverjar ráði yfir Evrópu (lesist: fyrrverandi Nazistar, væntanlega)" - og svo framvegis.

Hvenær varð Evrópa svona hræðilegt fyrirbæri?


Mér finnst að að mörgu leyti megi bera saman umræðu um þessa aðildarumsókn og þegar einstaklingar eru sviptir ærunni fyrir framan alþjóð, sárasaklausir. Skotið fyrst og spurt svo. Það má ekki verða í þessu máli.

Ég held að við ættum að anda rólega og bíða þar til í fyllingu tímans með að greiða atkvæði okkar um þetta mikilvæga mál. Þá getum við hætt þessum illþolandi, innihaldslausu upphrópunum um eitthvað sem við vitum í rauninni ekki hvað er.

---

Þá er það frá í bili.

19 nóvember, 2012

Að berjast fyrir málstað

Það gengur mikið á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af ýmsu tagi þessa dagana vegna svokallaðrar varnarbaráttu Ísraelsmanna. Það eru birtar myndir af líkum palestínskra barna, af þróun ísraelskra yfirráða í Palestínu, af þeim samhljómi sem finna má með Þýskalandi nazismans og Ísraelsríki nútímans.

Fólk er reitt, skilur ekki hvernig það má vera að ástandið sé svona. Fólk krefst þess að þessum ósköpum linni, fer jafnvel á mótmælafundi, auk þess sem það hellir úr skálum vanþóknunar sinnar og reiði hvar sem við verður komið.

Ég fylli flokk þess fólks sem leitar að þeim orðum sem geta hugsanlega orðið til að breyta einhverju, en ég finn þau ekki. Það er að segja, ég finn ekki réttu orðin. Ég finn vissulega óhemju mikið af orðum, en jafnskjótt og þau koma í hugann, átta ég mig á því að þau munu ekki breyta neinu. Ef ég færi að slá þessi orð inn í tölvuna mína þannig að þau birtist einhversstaðar fyrir augum annarra, væru þau þá ekki bara einhverskonar friðþæging fyrir mig? Gæti ég þá kannski bara sagt við sjálfan mig: "Nú er ég búinn að sýna umheiminum hvað mér finnst og get með góðri samvisku farið að skella steikinn í ofninn."  Hvaða máli skiptir það fyrir það fólk sem veit ekki hvort það fær að draga andann á morgun?  Hverju breytir það þótt einhver smáþjóð í Ballarhafi hrópi vandlætingu sína á því sem á sér stað við botn Miðjarðarhafsins? Þau öfl sem þar véla um líf og dauða hafa ekki kvikað neitt umtalsvert frá stefnu sinni eftir átölur frá umheiminum. Þar er það í gangi sem meira að segja "stórasta land í heimi" getur lítið haft um að segja.

Land hinna frjálsu styður aðgerðir herveldisins með ráðum og dáð. Það virðist ekki munu breytast. Meðan svo er, skiptir litlu þó við berjum okkur á brjóst og deilum myndefni sem orð ná ekki að lýsa.  Ég man þegar sex daga stríðið gekk yfir. Ég hélt með Ísrael. Fjölmiðlarnir sem sögðu frá gerðu það einnig. Mín sýn breyttist, en ég spyr mig hvort það breyti einhverju. Það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og geri.  Ég veit hvert svarið við því er: "Ef allir hugsuðu þannig, væri leiðin greið fyrir ofbeldismenn, harðstjóra, kúgara eða heimsvaldasinna heimsins greið."

Það er rétt. En hvað svo?


07 október, 2012

Að svindla? - Ekki séns.

Hjálparfoss
Áður en af stað er farið með þessar skriftir vil ég taka fram, að ég er ógurlegur andátaka- og andþemamaður. Það, til dæmis, hvarflar ekki að mér að fara að safna yfirskeggi í mars, eða klæða mig upp í kúrekafatnað til að fara í partí þar sem er kúrekaþema. Þá er það frá.
-----
Þrjátíu mínútur á dag, að lágmarki. Einn hreyfimöguleikinn er ganga, en reyndar ekki tekið fram hvar í litrófi göngutegunda hana er að finna. Það er, svo nokkur dæmi séu tekin, hægt að ganga rösklega (fD segir að í því felist að maður á ekki að geta talað undir göngunni því allt súrefni og orka eigi að nýtast beint í ganglimina), svo er hægt að tala um svona stinningsgöngu, samanber stinningskaldi. Það má nefna það sem maður kallar í daglegu máli LABB (hvaðan sem það orð kemur nú, eins ótótlegt og það nú er). RÖLT er þarna einhversstaðar líka. Ég hef kosið að ganga stinningsgöngu.

Í Sandártungu í Þjórsárdal
Þetta göngutal er nú ekki komið til af engu. Stofnunin sem ég vinn við hefur í heild sinni, verið skráð í Lífshlaupið svokallað. Þarna er um að ræða eitthvað á þriðja hundrað manns sem á að hreyfa sig í það minnsta 30 mínútur á dag til að hala inn stig fyrir sína stofnun, nú eða sitt lið, því innan stofnunarinnar hefur fólkinu verið skipt upp í hópa, hver bekkur myndar einn hóp og starfsfólk myndar siðan einn sameiginlegan og þar hafa allir verið settir inn jafn vel þeir sem engar líkur eru á að hreyfi sig.
Það er eitthvað þessu sinni, sem veldur því að ég hef tekið þá ákvörðun að ganga í 30 mínútur á dag í hálfan mánuð. Þegar ég hef ákveðið svona þá verður því ekki haggað. Í myrkri og slagveðursrigningu skal ég ganga svo tryggt sé að það verði allavega ekki mín sök ef liðið sem ég er í tapar.  Ég sé, þegar ég skoða frammistöðu liðsfélaganna, að talsvert vantar upp á að ýmsir málsmetandi aðilar, sem ættu nú, samkvæmt starfslýsingu að vera á fullri ferð allan daginn, hafa í engu sinnt því að skrá hreyfingu sína og hafa þannig markvisst dregið úr sigurlíkum liðsins. Það er ekki  gott.

Skaftholtsréttir
Í dag lá leið í Þjórsárdal til að auka fjölbreytni í gönguleiðum. Ekki það að ekki sé nóg ag þeim í Laugarási - það er nú öðru nær, auðvitað. Það þótti bara við hæfi, í nafni víðsýninnar, að skoða haustfegurðina í Þjórsárdal. Fegurðin hefð getað verið meiri í raun, en samt er nú ekki hægt að kvarta. Rúmur tími var genginn og haustlitir myndaðir

Ég veit nú ekki hvaða merkingu þessar
tölur hafa í keppninni, en svo virðist
sem aðeins einn skóli komi til
greina sem sigurvegari.
Við heimkomu var afrek dagsins skráð. Annað kom ekki til greina. Það þarf að sinna því sem maður tekur að sér.

Staðan í keppninni milli framhaldsskóla landsins er nú fremur óhagstæð öðrum stofnunum en minni. Hinsvegar er liðið mitt ekki á nógu góðu róli. Það gengur ekki að unglingar sigri fullþroskaðar manneskjur með þessum hætti. Það er enn eftir ein og hálf vika og ýmislegt hægt að gera til að bæta stöðuna.

Áfram nú. Engar 0 mínútur!
Þarna má enn sjá
of mörg núll




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...