11 maí, 2013

Hvernig sumir sjá mig

Ég er viss um að við eigum það flest sameiginlegt, að velta því stundum fyrir okkur hvernig samferðamenn okkar sjá okkur. Sannarlega teljum við að við séum ósköp eðlilegar manneskjur og að það hljóti að vera sú mynd sem aðrir sjá einnig. Okkur er hinsvegar hollt að gera okkur grein fyrir því að sú er ekki endilega raunin. Það ætti að duga að minna á myndirnar sem eru teknar af okkur, þar sem við sjáum stundum eitthvað allt annað en það sem við töldum okkur standa fyrir. Ég nefni nú varla hvernig reynsla það er að sjá sjálfan sig fyrsta sinni á hreyfimynd.

Hvernig haldiði að það sé að upplifa það þegar einhverjir sem þú þekkir, taka sig til og leika þig, eins og þeir sjá þig. Þetta þarf starfsfólk skóla oft á tíðum að upplifa, líka starfsfólk Menntaskólans að Laugarvatni.
Þar til á síðustu árum hafa nemendur sem eru að ljúka námi, flutt það sem þeir kalla Kennaragrín í þann mund er kennslu lýkur að vori. Þeir hafa sett upp ýmsar aðstæður þar sem starfsfólk skólans birtist í fremur ýktum útgáfum af sjálfu sér. Þetta vekur ávallt mikla kátínu annarra nememnda, og að öllu jöfnu einnig þeirra sem spjótin beinast að, enda er það sú pæling sem lagt er af stað með.

Á síðustu árum hefur kennaragrínið í æ meira mæli færst yfir í upptökur sem eru síðan notaðar sem hluti dagskrárinnar. Á þessu ári fékk ég góðan skammt. Allt í lagi með það. Hvort ég birtist þarna að öllu eða einhverju leyti eins og ég birtist samferðamönnum mínum á degi hverjum, er ég auðvitað ekki fyllilega dómbær um. Væntanlega eru þarna einhverjir punktar sem eru eins og raunin er.

Til útskýringar fyrir þá sem ekki vita þá er það mitt hlutverk meðal annarra, að taka nemendur í viðtöl þegar eitthvað bregður út af í skólasókn, og að leysa út ýmsum spurningum sem varða námsferla.

Að öðru leyti leyfi ég tveim myndböndum, sem sýna fremur miðjumikinn mann (sem er nú reyndar ekki raunin með mig í dag) sýna af sér framkomu gagnvart nemendum, sem er síður en svo til eftirbreytni.

Það fyrra

Það síðara


27 apríl, 2013

Svona rétt áður en ég held á kjörstað

Ég er nú búinn að komast að þeirri mikilvægu niðurstöðu, að ég ætla að láta mig hafa það að ræsa Qashqai fyrir ferð á kjörstað og það sem meira er, ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að kjósa - hef reyndar aldrei verið í vafa um stóru línurnar í þeim efnum og tel mig ekki hafa haldið þeim skoðunum neitt sérstaklega með sjálfum mér. Ég ætla nú samt að láta hjá líða að tilkynna nákvæmlega hvert val mitt verður í þessum kosningum.

Það eru ekki endlega stjórnmálaflokkarnir sem hafa valdið því að mér hugnast lítt það sem er í gangi í þessu samfélagi okkar. Það eru miklu frekar kjósendurnir; þeir sem hafa um það úrslitaáhrif hvaða flokkar leiða hér landstjórnina:
 -  Hvernig má það vera, að einn flokkurinn sópar að sér atkvæðum í kjölfar dóms i útlöndum? Með því að veðja rétt á niðurstöðu dómstóls hlotnaðist þessum flokki skyndilegur trúverðugleiki. Ef dómurinn hefði fallið  á annan veg, værum við að fást við annarskonar veruleika nú á kosningadegi. Í krafti trúverðugleikans getur þessi flokkur nú lofað lausnum sem allar sorgir undanfarinna ára munu bæta. Þessu trúir talsvert stór hluti kjósenda.
- Hvernig má það vera að þeir tveir flokkar sem saman eiga langstærstan hluta ábyrgðarinnar á því hvernig landið var keyrt í þrot, standa nú með pálmann í höndunum í huga þjóðarinnar?
- Hvernig má það vera að ríkisstjórnin sem nú fer frá virðist, að mati þjóðarinnar, bera ábyrgð á því sem hér fór úrskeiðis?
- Hvernig má það vera að flokkurinn sem nú mælist stærstur í skoðanakönnunum og var megin gerandi í því ferli sem leiddi þjóðina fram af bjargbrún og hefur í engu gert upp við þá fortíð sína, nýtur nú þessa trausts þjóðarinnar?

Ég viðurkenni, að ég skil ekki hvernig vel upplýst og vel menntuð íslensk þjóð, getur komst að þeirri niðurstöðu sem nú blasir við að verði raunin. Mér finnst það dapurlegt, í meira lagi.

Ég get vissulega velt fyrir mér ástæðum ofangreindrar stöðu:
- í pólitík hefur fólk álíka mikið langtímaminni og kartöflur.
- á vinstri væng stjórnmálanna virðast safnast þeir sem ekki kunna þá list að vinna saman innbyrðis, enda hafa þeir ákveðnar skoðanir á þjóðmálum, og málamiðlanir eru eitur í beinum þeirra. Þannig eru þeir sjálfum sér verstir þegar upp er staðið. Þjóðin kallar á stöðugleika valdsins.
- á vinstri væng stjórnmálanna virðist safnast fólk með einstrengingslegar og jafnvel ofstækisfullar skoðanir á einstökum málum - fólk sem veit betur en aðrir, sem þá eru jafnframt heimskingjar. Þetta eru hinir svokölluðu mannkynslausnarar.
- þjóð sem lifði í gósenlandi alsnægtavímunnar trúir því ekki að þar hafi verið um að ræða tálsýn. Bólutíminn vandi fólk við að geta fengið flest sem hugurinn girntist, strax. Fyrst það er til eitthvað sem heitir Hinn ameríski draumur, þá hlytur samsvarandi íslenskur draumur að vera til. Þessi hugsum lifir enn góðu lífi. Það er vont fólk sem ekki lofar svoleiðis.
-------
Ég get nú sennilega haldið lengi áfram að fabúlera um þetta allt saman, en ef ég ætla að gefa mér góðan tíma til andlegs undirbúning fyrir hið miklvæga verk sem framundan er, þá er víst best að láta hér staðar numið.

Nú er bara að detta í það og vona að víman endist sem lengst.


04 apríl, 2013

Á maður að láta þetta yfir sig ganga?

Þetta er ekki umræddur hundur.
Sem betur fer fyrir mig, að ég tel, hef ég verið að temja mér það í vaxandi mæli, að fara í gönguferðir eftir vinnu, ekki síst ef veður er þess eðlis. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þetta eigi ég að geta gert í friði og ró, í fullvissu þess að það eina sem gönguferðirnar geta haft í för með sér sé bætt heilsa.

Ég fór í gönguferð áðan í blíðviðrinu og gekk um slóðir hér í Laugarási, sem teljast vera utan einkalóða. Þegar ég nálgaðist eitt húsið spratt fram gjammandi hundspott af meðalstærð. Ég hef svo sem heyrt hunda gjamma áður og kippti mér því ekkert upp við gjammið í þessum. Taldi víst að hann væri bundinn heima við hús, svona rétt eins og vera ber, en svo reyndist ekki vera. Hann kom hlaupandi alveg út á götun, en hélt sig þar um stund, gjammandi, og sýndi mér með ótvíræðum hætti, að hann teldi að þarna vær ég kominn á hans yfirráðasvæði. Kamburinn var reistur og hann sýndir skjannahvítar tennurnar, urrandi og geltandi á víxl. Var samt hikandi og þorði ekki og nálægt.  Ég prófaði að kalla hann til mín, því slíkt hefur oft dugað til að róa svona hundspott, en það gerðist ekki í þessu tilviki. Ég gekk áfram, og þá gerði hann sig líklegan til að koma að mér að aftanverðu, en þegar ég sneri mér snöggt við, hrökk hann til baka, geltandi og urrandi með uppbrettar varir, ef svo má að orði komast. Með hávaðann á eftir mér hélt ég áfram eftir götunni, leit heima að húsinu og sá þá húseigandann standa sallarólegan fyrir innan einn gluggann. Hafði ekki einusinni rænu á að koma út og kalla kvikindið til sín.  Gjammið fylgdi mér allt þar til ég beygði inn í aðra götu.  Ég viðurkenni það bara alveg, að mér stóð ekki á sama, en ég er viss um að ef kvikindið hefði þekkt mig þá hefði þessi staða ekki komið upp. Það er ekki við hann að sakast í þessu efni, heldur auðvitað eigandann, sem á að hafa undirgengist reglur Bláskógabyggðar um undanþágu til hundahalds. Þær eru svona (það sem er yfirstrikað með gulu eru þau brot sem ég varð fyrir á göngu minni áðan):


Samskipti mín við flesta hunda sem verða á vegi mínum í Laugarási eru með ágætum, enda þekki ég þá flesta og þeir mig. Það breytir ekki því, að það er öldungis ótækt að fólk geti ekki treyst því í gönguferðum sínum um hverfið, að það sé óhult fyrir ógnunum af þessu tagi. Mér þykir miður að þurfa að segja  þetta, því hér eru hundaeigendur sem eru mér tengdir og eiga hunda sem eru einstaklega ljúfir þar sem ég er annars vegar, þeir kunna að vera síður ljúfið við fólk sem ekki þekkir þá. Þeir hundar einir, sem ættu að hafa möguleika að að vera hér óbundnir og þá í fylgd húsbænda sinna, eru þeir sem hlýða húsbónda sínum umsvifa- og möglunarlaust.

Já, mér stóð ekki á sama, en slapp heill heim úr göngunni, efins um að ég leggi leið mína á þær slóðir sem ég fór í dag í bráð, að óbreyttu. Mér finnst ekki skipta máli í þessu samhengi um hvaða hundaeiganda er að ræða, heldur er svona lagað bara almennt séð ótækt.

02 apríl, 2013

See no evil.......


Í gærmorgun setti ég eftirfarandi yfirlýsingu á Fb:
Á þessum bæ þykir sumum fátt ógnvænlegra en þetta agnarsmáa spendýr, sem er í rauninni bara að reyna að lifa af eins og við öll. Hér er um að ræða fjölskyldu sem tók sér bólfestu undir einu blómakerinu fyrir í það minnsta ári síðan. Krílin virðast fá næga fæðu sér til framfærslu og það er ekki síst vegna þess að af borði auðnutittlinganna, sem fD elur í Sigrúnarlundi á fitu og fræjum, falla molar sem nýtast vel til að fita ungviðið undir blómakerinu. Jú, ég tók myndir, en hvað svo?
Í dag datt mér svo þetta í hug:
.........Art thou afeard
To be the same in thine own act and valour
As thou art in desire?
og þetta:
When you durst do it, then you were a man;
And, to be more than what you were, you would
Be so much more the man. Nor time nor place
Did then adhere, and yet you would make both:
They have made themselves, and that their fitness now
Does unmake you.
 
 Ekki svo að það breyti neinu í samhengi við það sem hér fer á eftir, en hér fyrir ofan er Lady Macbeth að brýna eiginmanninn til að myrða Duncan konung, og beitir þar því vopninu sem oft bítur best: "Þú ert aumingi ef þú andskotast ekki til að gera þetta". Það var ekki sú aðferðin sem fD notaði, enda ekki um það að ræða að ég hafi þráð að verða konungur í músaríkinu undir blómakerinu. Hún beitti öðrum aðferðum, sem fólust að mestu í því ýja beinum orðum að því að þarna væri um að ræða að bjarga sálarheill hennar. Ég var nú samt ekkert að flýta mér að hugsa upp aðferðir við að koma ræflunum fyrir kattarnef, enda hafði ég fulla trúa á að sálarheillin væri bara í nokkuð góðu standi; þetta væri mest í nösunum á frúnni - en auk þess verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að taka líf, hversu smátt eða lítilmótlegt sem það kann að vera, er mér síður en svo að skapi (hér undanskil ég flugur og annað svipað).

Skömmu eftir að ég hafði lokið við að mynda fjörug hlaup músarinnar, eða músanna þvers og kruss um og við pallinn, heyrði ég að fD var komin niður í kjallara og farin að rótast eitthvað. Ekki gat verið um að ræða að það tengdist listgjörningi og því lagði ég leið mína niður til að vita hvað væri í gangi.
"Ég er viss um að ég sá hana hérna einhvers staður um daginn."
"Hverja?"
"Nú, músagildruna".
"Músagildruna?"
"Já. Það verður að d...a þessi kvikindi. Ekki ætla ég í sólbað úti á palli fyrri en ég er viss um að öll fjölsyldan er d...ð!"
"Jæja......... Ég hef ekki séð gildruna frá því ég var að veiða mýsnar í Xtrail um árið."

Þar með fór ég aftur upp, og hugðist fara að sinna vorverkum í garðinum í blíðviðrinu.
Það leið ekki á löngu áður en fD birtist í palldyrunum og hélt í hornið músagildru með þumalfingri  og vísifingri, lét hana falla á pallborðið um leið og hún sagði:
"Hér er gildran!"
Það fór ekki á milli mála hvert hlutverk hún ætlaði mér.

Sálarheill tel ég vera miklvægt fyrirbæri, jafnvel mikilvægara en músalíf. Því var það, eftir að ég hafði sinnt vorverkum eins og ekkert væri yfirvofandi; eins og enginn þrýstingur væri fyrir hendi, í svona klukkutíma, að ég græjaði músagildruna, sem kallast því innblásna nafni: "VICTORY". Ætli það sé ekki til þess ætlað að láta músaveiðimönnum líða betur þegar að því kemur að þeir þurfa að takast á við að losa músahræin úr gildrunni og horfa í brostin augu, sem áður voru full af lífi?. Samkvæmt teiknimyndum á maður að setja ost í músagildrur þar sem músum finnst ostur undurgóður - síðasta máltíðin. Af þessum sökum fann ég til ostbita, spennti gildruna og kom henni fyrir þar sem ég hafði, fyrr um daginn, staðið í rúmlega metra fjarlægð frá konunginum í músaríkinu, án þess að hann yrði mín var.
Svo hélt ég áfram að sinna vorverkunum.

"Nei" sagði ég þar sem við fD stóðum við dyrnar út á pall í morgun.
"Ertu búinn að fara að gá?"
Þarna hafði ég, eins og svo oft áður, séð spurninguna fyrir og svarað áður en hún var borin upp. Ég gáði ekki í morgun.

26 mars, 2013

Laugarás 1883,1923 eða 1941 og áfram

Ég hef stundum velt því fyrir mér að búa til vefsíðu sem héldi utan um sögu og mannlíf í Laugarási frá því hér varð til einhver byggð að ráði í byrjun 5. áratugar síðustu aldar. Hér hafði verið búskapur, sem héraðslæknirinn tók við þegar stofnað var til Grímsneshéraðs með aðsetri læknisins hér. Grímsneshérað hlaut síðar nafnið Laugaráslæknishérað.
Ég hef ekki komið þessu í verk enn, enda varla kominn á þann aldur enn að vera farinn að velta mér óhóflega upp út því liðna - það er enn full ástæða fyrir mig til að horfa fram á veg fremur en til baka, þó svo ég haldi því auðvitað statt og stöðugt fram, gegn straumnum að mér finnst stundum, að án fortíðarinnar værum við nú eiginlega bara ekki til.

Árið 1975 ákvað Búnaðarsamband Suðurlands að ráðast í það stórvirki, í tilefni af 70 ára afmælinu, 1978, að láta rita sögu sunnlenskra byggða. Það vara skipuð 6 manna nefnd til að gera tillögur að því hvernig staðið skyldi að verkinu. Fyrir Árnessýslu sátu í nefndinni þeir dr. Haraldur Matthíasson, menntaskólakennari á Laugarvatni og Jón Guðmundsson, bóndi á Fjalli á Skeiðum. Nefndin lagði til það sem fram kemur hér:
Úr formála Sunnlenskar byggðir I Tungur, Hreppar, Skeið - 1980
Búnaðarfélag Biskupstungna myndaði starfshóp til að vinna þetta verk að því er varðaði Biskupstungur og Arnór Karlsson var skipaður formaður hópsins. Að efnisöflun og ritun stóðu, auk Arnórs þeir Einar J. Helgason í Holtakotum, Sighvatur Arnórsson í Miðhúsum, Guðmundur Óli Ólafsson í Skálholti, Sigurður T. Jónsson frá Úthlíð, Guðmundur Ingimarsson í Vegatungu og Eiríkur Sæland á Espiflöt.  Hér er inngangur Arnórs þar sem hann lýsir því hvernig staðið var að þessu:
Sunnlenskar byggðir I 
Tungur, Hreppar, Skeið - 1980 bls.10

Arnór sá um að taka saman upplýsingar sem vörðuðu Laugarás, eins og þær voru fram undir 1980. Síðar kom til endurútgáfa á verkinu, en þá var ég kominn til baka úr útlegð minni vegna náms og sestur að með fjölskyldunni í Reykholti. Við komumst á spjöld þessarar sögu í endurútgáfunni. Við vorum í Reykholti þar til leiðin lá aftur í Laugarás 1984.

Sunnlenskar byggðir I - Tungur, Hreppar, Skeið, fyrsta útgáfa 1980, er til á þessu heimili og gengur undir nafninu "Glæpamannatal" dags daglega. Í henni er að finna afskaplega góðar upplýsingar um þróun byggðar í Laugarási og ábúendur/íbúa þar, fram yfir 1980. Árið 2018 verður Búnaðarsamband Suðurlands 110 ára. Mér finnst það harla góð hugmynd að sambandið uppfæri þessar mikilvægu heimildir í tilefni af því. Ef ekki þá ætti, að mínu mati, Bláskógabyggð að skella sér í þetta verkefni fyrir sitt leyti. Alltaf góðar hugmyndir hér.

Það sem mig langar hinsvegar að gera, með mögulegum vef um Laugarás, er að taka saman upplýsingar um byggðina og mannlífið í gegnum áratugina 7 sem eru nú liðnir frá því hér fóru að byggjast upp garðyrkjubýli. Þá var hér fyrir héraðslæknirinn Ólafur H. Einarsson ásamt konunni sinni Sigurlaugu Einarsdóttur og börnum. 
Árið 1941 var fyrsta garðyrkjubýlið stofnað í Laugarási. Það var Daninn J.B. Lemming sem það gerði og þá kallaðist býlið Lemmingsland, en 1946 fluttu foreldrar mínir þangað og gáfu því nafnið Hveratún. 1942 var byggt sumarhús þar sem nú er Lindarbrekka, 1943 var stofnað garðyrkjubýlið Gróska, en mun ekki hafa verið í stöðugum rekstri fyrr en á 6. áratugnum og varð þá Sólveigarstaðir.

Það hefur margt gerst hér í Laugarási síðan þá og það væri gaman að kynna sér þá sögu alla, enda hef ég verið hluti hennar í "hartnær" 60 ár.
Þetta verk væri auðveldara ef allir núverandi og fyrrverandi Laugarásbúar myndu grafa í sögu sinni og fjölskyldunnar hér. Skrá niður allt sem máli skipti og skreyttu það með skemmtilegum sögum af mönnum og málefnum, auk myndefnis.

Til þess þurfa þeir að hafa lesið það sem hér er skráð, en það er víst ekki mjög líklegt.

Framhaldið ræðst að þróun mála. 

12 mars, 2013

Ég lýsi áhyggjum mínum

Ég lýsti fyrir nokkru þeirri skoðun minni hér í þessum tiltölulega áhrifalitla miðli mínum, að það væri sannarlega vel athugandi að breyta sláturhúsinu hér í Laugarási í dvalar- og hjúkrunarheimili. Viðbrögðin eru kannski að gerjast ennþá, en þau hafa nú ekki verið neitt yfirþyrmandi, eftir því sem ég veit best.
Þessa skoðun mína lét ég ekki í ljós að ástæðulausu:
Í fyrsta lagi er hér hin ágætasta heilsugæslustöð sem má alveg við því að eflast enn meir og skapa enn fleiri störf.
Í öðru lagi er varla hægt að ímynda sér fegurri stað fyrir starfsemi af þessu tagi með útsýni yfir Hvítá og glæsilega hengibrúna, svo ekki sé nú minnst á Vörðufell.
Í þriðja lagi vegna þess að það styttist í að stór hópur fólks hér í uppsveitum þurfi að fara að huga að sólarlagsárunum.
Í fjórða lagi stefnir í að stór hluti þessa fólks þurfi ekki að flytjast nema nokkur hundruð metra þegar þar að kemur. Þannig er því nefnilega háttað, að íbúar hér í Laugarási gera orðið fátt nema eldast og hafa flestir misst getuna til að skapa nýtt líf með beinum hætti (utan auðvitað að sá fyrir grænmeti og blómum). Líf þeirra snýst æ meir um að njóta friðsældarinnar sem fylgir vaxandi aldri. Vissulega gefst þeim færi, flestum, á að umgangast ungviðið sem börnin þeirra færa þeim í sívaxandi mæli, en svo er hinsvegar í pottinn búið að þessi börn með barnabörnin virðast ekki sjá framtíð sína fyrir hugskotssjónum hér, væntanlega vegna þess að ekki er á vísan að róa með örugga atvinnu sem gefur af sér viðunandi laun - í það minnsta er ástæðan örugglega ekki eitthvert óhrjálegt þorpskríli, því slíku er hreint ekki til að dreifa, þvert á móti er vandfundinn hlýlegri og vinalegri staður en "Þorpið í skóginum".

Lausleg skoðun mín, sem stenst vonandi skoðun, hefur leitt í ljós að yngsta barnið í Laugarási er að verða 13 ára. Ég hef látið hugann reika á bæina sem hér er að finna (ef vel er að gáð) og sé fyrir mér að stærstum hluta íbúa á sextugs eða sjötugs aldri, jafnvel þaðan af eldri. Eftir 10-20 ár verður allt þetta fólk komið á dvalarheimilisaldur, ef því endist aldur.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessari íbúaþróun og ég get haft mínar skoðanir á því. Þar vil ég auðvitað t.d. nefna, að hér er ekki grunn- eða leikskóli, sem er ekki augljós skýring þar sem samskonar íbúaþróun virðist eiga sér stað í Laugardalnum. Þá dettur mér í hug ástæða, sem ég hef nefnt áður og lýtur að meðvitaðri eða ómeðvitaðri stefnumörkun sveitarfélagsins Bláskógabyggðar eftir sameininu hreppanna þriggja ssem mynda sveitarfélagið. Það virðist jafnvel enn vera svo, að þar á bæ sé mikið lagt upp úr því, til að halda bæði Tungnamönnum og Laugdælingum í góðum fíling (afsakið orðskrípið); að tryggja að hvorki Laugarvatn né Reykholt missi spón úr aski. Á niðurskurðartímum má því ímynda sér að hagur Laugaráss hafi verið fyrir borð borinn. Ekki ætla ég sveitarstjórnarmönnum að ástunda slíkt viljandi, en ég fæ ekki varist þeirri hugsun að þetta hafi verið að gerast, í það minnsta ómeðvitað. Ég vona að einhverjir séu tilbúnir að mótmæla þessari skoðun kröftuglega.

Það sem hefur verið að gerast nýtt í Laugarási á undanförnum árum, fyrir utan frábært starf á nokkrum garðyrkjustöðvum við að þróa áfram og efla sig og garðyrkjuna, er uppbygging sumarhúsa. Á því hefur þó orðið hlé frá hruni en fyrir það var varla selt hérna neitt nema til vel stæðra einstaklinga sem voru að kaupa sér sumarhús. Þetta er allt hið ágætasta fólk, en mér er til efs að það efli byggðina og skjóti einhverjum rótum hér þannig að lífvænlegra teljist fyrir fólk sem sækist eftir að flytja hingað til að finna lífsviðurværi.

Ég á eftir að nefna eina hugmynd í málefnum Laugaráss, en hún er einfaldlega sú, að núverandi íbúar haldi bara áfram að búa í húsunum sínum, en sláturhúsinu verði breytt í stúdíóíbúðir fyrir umönnunaraðila, sem færu síðan á milli íbúanna og sinntu vaxandi þörf þeirra fyrir þjónustu.

Jamm, þetta var svona hugmynd.


09 mars, 2013

Vitleysingar úr hófi fram?

Ég viðurkenni það, að þó svo ég beri það ekki utan á mér dags daglega, þá blundar í mér vitleysingur sem er til ýmislegt sem víkur af þeirri braut sem ég ætti að ganga ef tekið er mið af aldri og stöðu í samfélaginu. Ég komst að því fyrir nokkrum dögum, að það sama gildir um flesta samstarfsmenn mína.

Í gærkvöld var haldin árshátíð nemendafélagsins í skólanum þar sem ég starfa. Það hafði komið fram ósk um það frá nemendum að starfsmenn myndu hafa eitthvað fram að færa, enda boðið til ágætis hátíðakvöldverðar með vönduðum skemmtiatriðum. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það gerðist, en svo fór að fólk var kallað saman á kennarastofunni á tilteknum tíma í vikunni, því þar skyldi tekið upp atriði fyrir árshátíðina. Það lá fyrir að til stæði að skella í Harlem shake, svokallað, en það er eitt þeirra tískufyrirbæra sem skella yfir veröldina, eða í það minnsta hinn vestræna heim, hvert á fætur öðru. Einhver spurði svo skemmtilega sem svo: "Hvernig væri nú að heimurinn hætti að planka, eða dansa Gangnam style, nú eða fíflast í Harlem skake og færi í staðinn að hugsa?". Þeir sem ekki vita þegar, í hverju þetta felst, þá er til dæmis slóð að fyrirbærinu hér.

Ekki ætla ég að fjölyrða um hvernig upptakan gekk, að öðru leyti en því, að rétt eftir hádegið, í miðri viku, má segja að dagfarsprúðir starfsmenn hafi nánast gjörsamlega tapað sér í stigvaxandi taumleysi þessa fyrirbæris. Ef ekki hefði verið gripið í taumana áður en það varð of seint, er ekki erfitt að ímynda sér hvað hefði getað gerst.

Það var ákveðið fyrirfram, að uppökunni yrði eytt að lokinni einni sýningu á árshátíðinni. Meðal annars þessvegna varð þetta nú úr.

Í gærkvöld var afraksturinn síðan sýndur. Ég hef farið á tónleika heimsfrægra popphljómsveita og upplifað fagnaðarlæti æstra áhanga, séð upptökur frá tónleikum Bítlanna á hátindi ferilsins. Ég hef ekki áður upplifað önnur eins fagnaðar- og hrifningarlæti og þau sem þarna brutust fram.  Sannarlega viðurkenni ég að ég hafði kviðið þessari sýningu nokkuð - svona verandi eins og ég er. Kvíðinn reyndist hafa verið ástæðulaus og nú finnst mér miklu frekar að þarna hafi starfsmenn skólans sýnt á sér hlið sem lýsir ansi vel þeim óþvinguðu samskiptum sem ríkja í hópnum og góðum starfsanda.
Ég er meira að segja orðinn efins um að rétt sé að eyða upptökunni, en auðvitað verða allir þátttakendur að samþykkja að hún fái að fara sem eldur í sinu um veröld alla.

Þetta var í það minnsta bara ansi gaman.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...