11 maí, 2013

Hvernig sumir sjá mig

Ég er viss um að við eigum það flest sameiginlegt, að velta því stundum fyrir okkur hvernig samferðamenn okkar sjá okkur. Sannarlega teljum við að við séum ósköp eðlilegar manneskjur og að það hljóti að vera sú mynd sem aðrir sjá einnig. Okkur er hinsvegar hollt að gera okkur grein fyrir því að sú er ekki endilega raunin. Það ætti að duga að minna á myndirnar sem eru teknar af okkur, þar sem við sjáum stundum eitthvað allt annað en það sem við töldum okkur standa fyrir. Ég nefni nú varla hvernig reynsla það er að sjá sjálfan sig fyrsta sinni á hreyfimynd.

Hvernig haldiði að það sé að upplifa það þegar einhverjir sem þú þekkir, taka sig til og leika þig, eins og þeir sjá þig. Þetta þarf starfsfólk skóla oft á tíðum að upplifa, líka starfsfólk Menntaskólans að Laugarvatni.
Þar til á síðustu árum hafa nemendur sem eru að ljúka námi, flutt það sem þeir kalla Kennaragrín í þann mund er kennslu lýkur að vori. Þeir hafa sett upp ýmsar aðstæður þar sem starfsfólk skólans birtist í fremur ýktum útgáfum af sjálfu sér. Þetta vekur ávallt mikla kátínu annarra nememnda, og að öllu jöfnu einnig þeirra sem spjótin beinast að, enda er það sú pæling sem lagt er af stað með.

Á síðustu árum hefur kennaragrínið í æ meira mæli færst yfir í upptökur sem eru síðan notaðar sem hluti dagskrárinnar. Á þessu ári fékk ég góðan skammt. Allt í lagi með það. Hvort ég birtist þarna að öllu eða einhverju leyti eins og ég birtist samferðamönnum mínum á degi hverjum, er ég auðvitað ekki fyllilega dómbær um. Væntanlega eru þarna einhverjir punktar sem eru eins og raunin er.

Til útskýringar fyrir þá sem ekki vita þá er það mitt hlutverk meðal annarra, að taka nemendur í viðtöl þegar eitthvað bregður út af í skólasókn, og að leysa út ýmsum spurningum sem varða námsferla.

Að öðru leyti leyfi ég tveim myndböndum, sem sýna fremur miðjumikinn mann (sem er nú reyndar ekki raunin með mig í dag) sýna af sér framkomu gagnvart nemendum, sem er síður en svo til eftirbreytni.

Það fyrra

Það síðara


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...