04 október, 2013

Þrjú hjól undir bílnum - mínum

Ég hef óendanlega trú á fólki og fagmennsku. Ég hef ótrúlegan skilning á ófullkomleika mannsins. Ég hef mikinn skilning á að mannfólkið geti gert mistök, því ekki einu sinni ég hef sloppið við að gera eitthvað rangt, misstíga mig eða segja eitthvað sem betur hefði verið ósagt.
Það er í þessu ljósi sem ég læt frá mér það sem hér fer á eftir.

Ég og Qashqai skelltum okkur í höfuðstað Suðurlands í dag (höfuðstað og höfuðstað - það má nú deila um það eftir skilningsleysi það sem stjórnvöld í þessu þorpi hafa sýnt á mikilvægi þess að taka þátt í nauðsynlegri þjónustu við skóla á Suðurlandi), til að nálgast þjónustu á hjólbarðaverkstæði og þar með leggja okkar af mörkum til að skjóta stoðum undir tilveru íbúa þar.
Það er spáð snjókomu næstu daga og ég er forsjáll maður, sem er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra, því enginn beið eftir umfelgun og ég gat rennt Qashqai snyrtilega inn á gólf. Því næst fór ég inn í móttökuna og þar var bíleigandi að ganga frá sínum málum og spurði sá meðal annars hvort ekki hefðu örugglega allar rær verið hertar - spurning sem mér fannst nokkuð út í hött og það sama gilti augljóslega einnig um starfsmanninn sem svaraði spurningunni játandi.

Þegar ég hafði tékkað okkur inn og látið í ljós óskir mínar (umfelga Qashqai), fór ég afsíðis, í ágæta setustofu þar sem hægt var að njóta þess að lesa Se&hör á íslensku. Ég las og las og las meira - veit orðið margt um brúðkaup fræga fólksins íslenska (6 blaðsíður að myndum með hverju brúkaupi og hnyttnar lýsingar á því sem fyrir augu bar á þeim).

Eftir um það bil 25 mínútur af lestri og skoðun kom maður og tjáði mér að Qashqai væri klár. Ég greiddi fyrir (ISK1650 fyrir hvert dekk) fór síðan fram í vélasalinn, en þá reyndist annar maður vera að leggja lokahönd á umfelgunina en hafði hafið hana.  Allt í lagi með það.

Ég settist inn og bakkaði út, betur en flestir aðrir. Síðan ók ég af stað frá dekkjaverkstæðinu og út á þjóðveg nr 1, en þar var talsverð föstudagsumferð. Mér fannst ég heyra lítilsháttar marr eða brak, sem svo hvarf og taldi það hlyti að stafa af því að nú voru TOYO harðskeljadekkinn komin undir og bíllinn þyrfti lítilsháttar aðlögunar að þeim við. Eftir um 50 metra akstur á þjóðvegi 1 fór að braka aðeins meira - að mér læddist illur grunur, en ég neitaði samt að trúa að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera og ók um 50 metra í viðbót, en þá þótti mér liggja fyrir að ekki yrði af frekari akstri fyrr en ljóst væri hvað þarna var um að vera. ÞAr með stöðvaði ég Qshqai úti í kanti. Sennilega til að hugsa málið og leggja drög að því sem tæki við næst. Fyrsta niðurstaða mín var að freista þess að halda til baka - sú niðurstaða reyndist hinsvegar harla vanhugsuð, því um leið og ég lyfti tengslafetlinum (kúplingunni) heyrðist mikið brak og Qashqai pompaði lítillega niður vinstra megin að framan. Í beinu framhaldi þess atviks ákvað ég að stíga út og athuga hverju þetta sætti.
Þá varð mér eftirfarandi ljóst: allar rærnar sem höfðu það hlutverk að festa hjólið við Qashqai að öðru leyti, lágu á þjóðvegi 1 og hjólið hallaði eins og það væri laust - sem það var, auðvitað.

Þarna var nú ekki um annað að ræða en ganga til baka á dekkkjaverkstæðið og gera þeim sem þar starfa, að lagfæra það sem lagfæra þyrfti. Þarna fékk ég 100 metra göngu, sem auðvitað er jákvætt í sjálfu sér. Á verkstæðinu tilkynnti ég um ofangreint atvik. Viðbrögðin voru nú ekki beinlínis eins og himinn og jörð hefðu farist. Þarna voru tveir menn fyrir að sinna verkum sínum við umfelganir. Annar, sá sem lokið hafði umfelguninni á Qashqai, brást við og fór út í dyr til að sjá hvar Qashqai stóð í 100 metra fjarlægð. Hann hvarf síðan bak bakvið. Hinn virtist láta sér þetta í léttu rúmi liggja, en ég neita því ekki að ég hefði vilja sjá meiri viðbrögð hjá honum, t.d. þannig að hann fyndi til með mér í þessum raunum öllum saman, en því var ekki að heilsa.
Eftir þetta tók eitt við af öðru. Sá sem ábyrgðina tók á sig fór með mér á staðinn og hafði tekið með sér græjur til að lyfta upp og festa rær. Það verk tók lengri tíma en til stóð í fyrstu, af ástæðum sem ég nenni ekki að fjölyrða um, en m.a. þurfti hann að fara aftur á verkstæðið til að ná í nýjar rær og loks þegar allt var tilbúið til að festa hjólið á, varð rafknúin græjan, sem til slíks er ætluð, rafmagnslaus. Því varð að grípa til handvirks felgulykils til að klára verkið og ganga úr skugga um hvort fleiri hjól væru laus. Svo var allt klárt og ég var beðinn afsökunar á óþægindunum, en það sem dró nokkuð úr vægi þeirrar beiðnar var glottbrosið sem henni fylgdi. Ég kvaðst skyldu reyna, enda er ég eins og ég greini frá hér efst uppi.

Að þessu búnu hélt ég mína leið.

Hér eftir mun ég spyrja, um leið og ég geri upp eftir felguskipti, hvort ekki sé örugglega búið að herða allar rær.  Um leið þakka ég fyrir að rónum hafði bara verið tyllt á, um leið og ég bý til aðstæður þar sem hjólið flýgur af þar sem ég ek heim til mín á löglegum hámarkshraða.

Ég var varla kominn heim þegar þessi samskipti áttu sér stað á Fb:

29 september, 2013

95 ára unglingur

Ég hef stundum kallað föður minn "gamla unglinginn". Þetta með að hann sé orðinn gamall, segir sig svo sem sjálft, maðurinn kominn vel á tíræðisaldur. Unglingsnafngiftin er nú til komin einfaldlega vegna þess hve vel honum hefur tekist að viðhalda æsku sinni í anda. Hann á afskaplega létt með að gera að gamni sínu, tala þvert um hug sér til að ögra til umræðna og skopskynið er aldrei langt undan. Þessir eiginleikar hans hafa kosti og galla. Kostirnir eru þeir að hann er einstaklega auðveldur í umgengni og kvartar aldrei og kveinar. Gallarnir eru þá augljóslega sá persónueiginleiki hans að vera ekkert fjalla um líðan sína, þarfir, vonir eða væntingar. Það er eitthvað sem hann heldur mikið til hjá sjálfum sér. Hann biður ekki um aðstoð nema í ýtrustu neyð. Það hefur löngum einkennt hann að fara sínar eigin leiðir  án þess að vera mikið að ræða það. Þannig var það þegar hann kom heim einn daginn fyrir um 50 árum, akandi á brúna
Sigurður Blöndal og Skúli.
Landróvernum, splunkunýjum úr kassanum, án þess nokkur úr fjölskyldunni hefði grun um að það stæði til að kaupa bíl.
Ég held að mér sé alveg óhætt að halda því fram að pabbi sé bara ansi skemmtilegur kall, þó ekki hafi hann nú verið sérlega áberandi, eða látið mikið fara fyrir sér út á við.

Hann fæddist á Rangárlóni í Jökuldalsheiði á þessum degi árið 1918. Foreldrar hans voru þau Ingibjörg Björnsdóttir, fædd á Seyðisfirði og Magnús Jónsson frá Freyshólum ( í Vallahreppi) á Héraði. Fyrstu 4 æviár hans, bjó fjölskyldan á Rangárlóni og börnunum fjölgaði. Hann var þriðji í röð 6 systkina að komust á legg. Tveir eldri bræður hans voru Alfreð og Haraldur, en yngri en hann voru þær Björg, Sigfríður og Pálína. Um 1922 flutti fjölskyldan í Freyshóla, en þegar pabbi var 6 ára fór hann í fóstur í Mjóanes til Sigrúnar og Benedikts Blöndal. Þau stofnuðu Húsmæðraskólann á Hallormsstað nokkrum árum síðar og hann flutti þangað með þeim og ólst upp hjá þeim eftir það.
Skúli og Guðný
Um tvítugt, eftir að hafa stundað nám í Menntaskólanum á Akureyri í tvö ár, hugðist hann fylgja eftir þeim fyrirætlunum sínum að læra garðyrkju. Til að komast í það nám þurfti hann að hafa starfað í greininni í einhvern tiltekinn tíma og það varð úr að hann hóf störf hjá Stefáni og Áslaugu á Syðri-Reykjum hér í Biskupstungum. Á þeim tíma sem hann var þar mótaðist samband þeirra mömmu og þau hófu síðan búskap sinn í Hveratúni árið 1946. Ári síðar fæddist fyrsta barnið, en þau urðu 5 þegar upp var staðið.
Í Hveratúni bjuggu þau svo bara allan sinn búskap. Mamma lést árið 1991 og því hefur pabbi búið einn í ríflega tuttugu ár.
Fyrir rúmu ári flutti hann svo á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og dvelur þar í góðu yfirlæti, gerandi að gamni sínu við konurnar.

27 september, 2013

Frá núllpunkti

VARÚÐ - RANT
Baráttan um athygli mannanna og ekki síst þeirra sem ungir eru, er í algleymingi. Það er svo margt skemmtilegt í gangi að við eigum erfitt með að velja úr því öllu: vinir okkar á Fb, snapptsjattið, Gray's Anatomy, Dr. Phil, The Biggest Loser, Happy endings, Diary of a Nymphomanic, og svo framvegis og svo framvegis.
Hver í veröldinni getur ætlast til þess, þegar við höfum svo margt skemmtilegt að velja úr, að okkur detti til hugar að gera eitthvað leiðinlegt? Jú, við lærum það með tíð og tíma, að við getum ekki treyst endalaust á að einhver borgi ofan í okkur matinn, ali upp börnin okkar, sjái um allar okkar þarfir, stórar og smáar. Við verðum víst, með góðu eða illu, að axla þá ábyrgð að sinna því sem lífið færir okkur. Það er stundum leiðinlegt og jafnvel ömurlegt eða fáránlegt, en það er samt þannig. Við reynum kannski í lengstu lög að komast hjá því að axla sjálf ábyrgðina á öllu því sem að okkur snýr - leitum leiða til að gera aðra ábyrga fyrir ýmsu eða lýsum þá seka um ýmislegt sem við eigum í raun að bera ábyrgð á sjálf.

Ég hef oft spurt sjálfan mig hvenær er réttur tími fyrir einstakling að byrja að taka ábyrgð á sjálfum sér. Sjálfsagt er það misjafnt eftir því hver á í hlut.
Það má líka spyrja hve lengi eiga foreldrar að taka á sig alla ábyrgð á börnum sínum, námi þeirra, líkamlegum þörfum og félagslegu umhverfi: öllu því sem mögulega felur í sér eitthvað leiðinlegt. Hvenær rennur upp sá tímapunktur að foreldrar sleppi takinu, losni undan ábyrgðinni, líti svo á að þeir séu búnir að skila af sér einstaklingi sem er tilbúinn að takast á við líf í heimi hinna fullorðnu?

Það er svo gaman að vera ungur og geta lifað í núinu eins og enginn sé morgundagurinn og engin fortíðin. Allir dagar eru byrjun og allir endir. Er það ekki þannig hjá dýrunum sem fylgja, væntanlega hugsunarlítið (þó ég viti nú ekki mikið um hugsun dýra), einhverjum erfðum lífsferli, þar sem megin markmiðið virðist ekki vera flóknara en það að ná sér í eitthvað að éta og fjölga sér.

Það liggur við að mér finnist að við mennirnir séum að einhverju leyti að þróast í þessa átt.
Það sem er gamalt er víst ömurlega leiðinlegt, maður elskar ekki það sem er erfitt, maður er ekkert að pæla í framtíðinni því breyting á því sem er í dag virðist óhugsandi. Lífið á að vera skemmtilegt, alltaf. Maður á að fá það sem mann langar í, núna. Það eru bara helv....tis hálfvitar sem segja manni eitthvað annað, eða krefjast einhvers annars af manni. Það er þeim að kenna ef maður getur ekki gert það sem maður vill, þegar maður vill.

Sú skoðun, að undirbúningurinn fyrir fullorðinsárin eigi að vera skemmtilegur og bara skemmtilegur, er að verða áberandi. Það er dregið í efa að einstaklingur eigi að þurfa að sanna kunnáttu sína, færni og getu með því að standa fyrir máli sínu. Það er erfitt og getur skaðað sálarlífið. Það er dregið í efa að það eiga að gera kröfu um það að grunnskólabörn eigi að geta lesið sér til gagns texta sem eru skrifaðir fyrir 60 árum. Það er dregið í efa að það sé mikilvægt að grunnskólabörn "kunni" eitthvað. Það þurfi ekkert að kunna, því þekkingin er alltaf í fingurgómunum (bara að hún sé ekki eldri en vikugömul). Það sem leggja ber áherslu á er að fólk sé fært um að leita upplýsinga um það sem það þarf á hverjum tíma. Til þess þarf lítið meira en kunna að slá á lyklaborðið.

Ég veit það vel, að það sem ég hef verið að þusa um hér að ofan, eru talsverðar alhæfingar. Það sem ég held þó að sé raunin í afar mörgu tilliti sé að málfari, lesskilningi, þekkingu á fortíðinni, skilningi á því sem framtíðin kallar á, sé að mörgu leyti mjög ábótavant.

Ég skil grunnskólann, því samkeppnin um sál og huga barna og unglinga er ójöfn, eins og svo oft er þegar barist er við óvígan her. Hvernig geta menn ætlast til að einhver læri/lesi sér til um/ fjalli um Jónas Hallgrímsson? Það er ekki einu sinni til APP um hann (eða er það?)!

Við eigum eða áttum öll foreldra, afa og ömmur, langafa og langömmur; fólk sem smátt og smátt leiddi til þess að við urðum til og síðan það sem við erum. Við verðum sjálf einhverntíma langafar eða langömmur. Munum við geta rætt við barnabörnin - nú eða barnabarnabörnin. Eigum við nokkuð að vera að pæla í því?

Kannski er ég bara að missa af öllu þessu skemmtilega. Orðinn svona "grumpy old man"

#agaleysi   #sjálfhverfa   #undanlátssemi   #gekt leiðilegt   #ömurlegt   #fáránlegt

Það hafa nú ekki margir undir þrítugu komist hingað. Ef einhverjir gerðu það, þá eru þeir í góðum málum. #meðetta.

24 september, 2013

Laugarás - Christiania

Á leið í vinnuna í morgun heyrði ég fréttaritara í Kaupmannahöfn fjalla um málefni sem tengjast Christianiu, sem var eins konar fríríki (getur verið að svo sé enn) og íbúar þar fóru sínu fram oft í trássi við það sem yfirvöld á hverjum tíma voru að stússa annarsstaðar. Þarna dafnaði menning sem vék frá norminu. Ég þykist nú ekki vita um þá sögu alla, en líklega fer að styttast í að þetta svæði í Kaupmannahöfn missi sérstöðu sína.
Það sem fréttaritarinn sagði fékk hugann ósjálfrátt til að hvarfla til stöðu mála í Laugarási, því ýmislegt var þar með sama eða svipuðum hætti og lýst var. Í famhaldinu velti ég fyrir mér fleiri sameiginlegum þáttum:

1. Íbúar Christianiu eru að eldast og barnafólk er orðið fátt. Mig grunar að meðaldur í Christianiu og Laugarási sé ekki ósvipaður. Einhvern heyrði ég segja frá því fyrir nokkru, að næsta vetur verði 1 nemandi í grunnskóla úr Laugarási.

2. Christiania hefur lengi vel heldur skorið sig úr í umhverfi sínu. Íbúarnir hafa byggt upp samfélag sem víkur talsvert frá því sem er í kring. Svæðið hefur verið nokkurskonar fríríki. Þarna er að finna talsverðan samhljóm við Laugarás, sem er nokkurskonar fríríki, en þá aðallega vegna þess að uppsveitahrepparnir, sem eiga landið, virðast ekki geta hugsað sér að standa að neinni sameiginlegri starfsemi á því, eða halda málefnum svæðisins á lofti. Hver um sig vill halda sínu sem næst sér.

3. Það orð hefur farið af Christianiu að þar neyttu menn fíkniefna umfram það sem tíðkast fyrir utan. Sannarlega hafa menn lagt stund á framleiðslu fíkniefna í Laugarási, og þannig má finna samhljóm með hverfunum tveim.

4. Í Christianiu er mikið um smáfyrirtæki sem stunda sölu og þjónustu og þar mynda fyrrum hippar kjarna þeirra íbúa sem þar hafa ílengst. Þarna er sannarlega samhljómur með því Laugarási er húsdýragarður, heimasala á grænmeti, lífræn ræktun, völundargarður og fleira af þessum toga - allt svona dálítið hippalegt.

Sannarlega er margt sem þarna er með svipuðum hætti þó stundum sé það með öfugum formerkjum.

Nú þarf ég bara að fara að heimsækja Christianiu og finna þar aftur tóninn sem mér líkar svo undur vel.

21 september, 2013

Klukknahljómur á haustmorgni

Það er meira logn en venjulega á þessum haustmorgni í Laugarási.  Það liggur við að heyrist þegar hélan bráðnar undan hikandi geislum morgunsólar sem er æ seinna á ferðinni. Slitrur af kóngulóarvef í rennunum, sölnandi laufblað á pallinum, einmana fuglstíst í lundinum.
Klukknahljómur.
Lagt við hlustir.
Virðist vera alveg venjuleg hringing, bara á óvenjulegum tíma.
Ef ég væri í sumarleyfi á sólarströnd og gæti alla jafna sofið fram á morguninn, myndi ég líklega fara ófögrum orðum um þá sem stjórnuðu klukknatökkunun, en þar sem hið síðastnefnda er ekki raunin voru einu viðbrögð mín þau, að velta fyrir mér ástæðum. Líklega er þarna bara verið að hringja til morgunandaktar. Ætli mönnum sé það nokkuð of gott, ekki síst ef morgunninn er þeirra tími.

Látum klukkurnar hringja því þær munu þagna.
Leyfum haustinu að koma  því það vorar á ný.
Fögnum lækkandi sól því hún hækkar aftur á himninum.
Fáum okkur kaffisopa, því fyrsti bollinn er bestur.







15 september, 2013

Einhverjir þunnir í dag

Myndirnar eru frá Tungnarétturm, 2011
Ég fór ekki í réttir í gær. Þar með gæti ég sett punkt og ýtt á "publish", en það ætla ég ekki að gera. Ég hef í raun aldrei farið í réttir, þannig séð. Ég hef að vísu all oft skellt mér á réttardegi í Tungnaréttir eða Reykjaréttir, en ég kalla það ekki að fara í réttir. Það er meira svona að sýna sig og sjá aðra. Það sem ég hef komist næst því sem ég kalla að fara í réttir var fyrir einhverjum áratugum, þegar ég hafði um tíma tiltekin tengsl við Torfastaði, og komst í gegnum þá klíku í að reka fé að afloknum drætti til síns heima. Það var líklega einnig í eina skiptið sem ég hef dreypt á réttamjólk í réttum.  Af rekstrinum man ég fátt (eingöngu vegna þess að það er langt síðan) utan það þegar hesturinn/hrossið/gæðingurinn.... sem var settur undir mig af þessu tilefni skellti mér utan í gaddavírsgirðingu og reif stærðar gat á réttabuxurnar mínar. Þatta var í eina skiptið sem ég hef haft gaman af að vera viðstaddur réttir. Þarna hafði ég hlutverk, en  var ekki eins og hver annar fákunnandi túristi, sem ber ekkert skynbragð á þá alvöruþrungnu gleði sem réttardegi fylgir.

Maður gerði það barnanna vegna, þegar enn voru börn á bænum, að skjótast þarna uppeftir á réttadegi. Eftir það hefur minna farið fyrir réttaferðum, og þá helst notuð sú afsökun að taka myndir. Það er sæmilega viðurkennd iðja.

Ég neita því ekki, að ég öfunda sauðfjáreigendur og fjölskyldur þeirra nokkuð af því að eiga dag sem þeir njóta svo mjög sem raun ber vitni. Mér hefur skilist að þær hefðir sem tengjast þessum degi gefi aðfangadagskvöldi ekkert eftir: fara í leitir, fara á móti safninu, ríða í réttirnar með réttapelann, draga féð í dilka, þreifa á hryggjum, skála, syngja, reka heim, belgja sig út af indælis kjötsúpunni og enda svo daginn á réttaballi fram undir morgun, fara í fjósið klukkan hálf sjö. Hvað veit ég svo sem um þetta allt? Svo mikið veit ég að þetta er nánast heilagur dagur og einnig flest sem að honum lýtur.

Á unglingsaldri gat maður skellt sér á þrjá dansleiki í réttavikunni því þá voruTungnaréttir á miðvikudegi, Hrunaréttir og Skaftholtsréttir á fimmtudegi og Reykja(Skeiða)réttir á föstudegi. Ball á hverju kvöldi við undirleik merkra hljómsveita þess tíma: Steina spil, Mána, Tríói Óskars Guðmundssonar. Þetta var mörgum erfið vika, en ógnar skemmtileg.
Réttadögunum var breytt, ekki síst til að fleiri gætu tekið þátt í gleðinni, en ýmsir bændur áttu erfitt með að sætta sig við breytingarnar, enda fannst þeim einhverjum óinnvígðum ekki koma þetta neitt við. Ég minnist þess að ef maður ætlaði að vara viðstaddur það sem raunverulega gerist í réttum, þurfti að drífa sig á fætur fyrir allar aldir - vera kominn uppeftir um áttaleytið á réttadag, að öðrum kosti var allt búið. Með tilkomu meiri túristaáherslu eru menn víst að byrja aðeins seinna.

Eins og ég nefni hér ofar, voru Reykja(Skeiða)réttir á föstudegi og þar var oft mest fjörið og mest rigningin, svona í minningunni. Mér líður seint úr minni að sjá dauðadrukkna réttagesti slást eins og hunda í einhverskonar leðjuslag. Ég reikna með að það hafi heyrt til undantekninga, en greyptist í barnsminnið.

Já - ég lét réttir framhjá mér fara þetta haustið, en samfagnaði í huganum þeim sem njóta þess að eiga svona dag sem hluta af af þeirri hringrás sem árin flytja með sér.

09 september, 2013

Hugans íþrótt og ævintýr

Ég er ekki skákmaður og þar af leiðandi ekki viðræðuhæfur um þau ævintýr sem menn geta ratað í með því að færa taflmenn fram og aftur um taflborð, drepandi mann og annann.

En ég á þessa fínu spjaldtölvu. 
Ef maður á spjaldtölvu og segir þannig A, þá þarf maður einnig að segja B með því að velja sér einhver viðeigandi (helst ókeypis) ÖPP til að koma fyrir undir fingurgómunum, í þau skipti sem maður metur sem svo að þörf sé að liðka gripinn.
Ég er sem sagt búinn að appa spjaldtölvuna mína talsvert.

Eitt appanna sem ég ákvað að skella þarna inn er skákapp, ekki síst vegna þess að mér fannst litirnir í því hæfa vel spjaldtölvunni minni, og einnig vegna þess að það kann að gefa nokkuð jákvæða mynd af mér að vera með svona app, ef einhver skyldi nú rekast inn á appasafnið mitt.

Þegar maður er búinn að fá sér app, blasir við að það þarf að nota það (app sem er ekki notað er til einskis gagns, og því ber að eyða). Ég ákvað, sem sagt að smella létt á skákappið á skjánum, og óðar breiddist það yfir allan gluggann. Ég gat þarna valið um ýmsa möguleika, en í sem stystu máli þá valdi ég að tefla á 1. stigi við appið (eða forritið sem stýrir því). Taflborðið birtist á skjánum, og ég mátti byrja, sem var augljóst, þar sem hvítu mennirnir voru mín megin á borðinu. (Ég væri að ljúga (sem er sannarlega fjarri mér), ef ég héldi því fram að ég hafi aldrei prófað svona skákforrit í tölvu, því það hef ég svo sannarlega gert, en það eru líklega ein 10 ár síðan, svo lenti ég einhverntíma í byrjun 9. áratugs síðustu aldar í að stýra skákmótum í grunnskólanum sem ég starfaði við eftir Monrad kerfi (Reykholtsskóla)). Ég kann mannganginn, og ýmis fleiri grundvallaratriði, en ég hef aldrei komist svo langt að fara að hugsa út meira en einn leik fram í tímann.

Hvað um það, sem hvítur ákvað ég að flytja fram peð um tvo reiti (veit ekki hvort það var Sikileyjarvörn). Appið brást við með því að dúndra samsvarandi svörtu peði samsvarandi vegalengd fram á borðið. Svona hélt þetta áfram þar til ég ákvað að koma drottningunni minni í leik - það var ómögulegt að hafa hana aðgerðalausa þarna í bakgrunni orrustuvallarins. Ég skellti henni á ská, nokkra reiti fram á borðið, en var ekki fyrr búinn að því, en appið skaust fram með biskupsfjanda sem mér hafði yfirsést, og steindrap drottinguna. Fyrstu viðbrögð mín (eitt sekúndubrot) voru vonbrigði með sjálfan mig og ef til vill örlítið skert sjálfsmynd. Ég vissi auðvitað að drottningin er einn mikilvægast bardagamaðurinn í skák. Ég var ótrúlega fljótur að skima um skjáinn - kann að hafa gotið auga örskamma sund í átt til fD, sem auðvitað reyndist ekkert vera að fylgjast með taflmennskunni - neðst á skjánum, mín megin, var bjargvættur minn, UNDO-takkinn. Eftir að ég hafði smellt á hann, lifnaði drottningin mín við, eins og ekkert hefði gerst, og biskupsskömmin hvarf aftur í launsátur, en nú vissi ég hvar hann var og gat haldið áfram með það í huga.

Ég ætla hreint ekki að rekja þessa skák leik fyrir leik, en mikið óskaplega reyndist hann mér vel, UNDO-takkinn og ég vann með glæsibrag og appið óskaði mér til hamingju með árangurinn.

Lifi UNDO.

Ég vona að einhverjir átti sig á hver "moralen er" með þessari sögu.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...