04 febrúar, 2014

Ungur Norðmaður varð úti

Þann 6. desember, 1929 kom ungur maður, 21 árs, að Torfastöðum til frú Sigurlaugar og séra Eiríks. Hann kom austan frá Hallormsstað og fyrir lá, að hann myndi hefja störf á Syðri-Reykjum, hjá Stefáni og Áslaugu um mánaðamótin janúar febrúar, 1940. Hann fékk þarna inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði sökum kunningsskapar frú Sigurlaugar og frú Sigrúnar Blöndal á Hallormsstað, en hana kallaði þessi ungi maður, Skúli Magnússon, "fóstru".
Það  hefur greinilega verið ætlun hans að skrásetja nú vel og rækilega þann tíma sem hann átti hér fyrir sunnan og hélt því dagbók um daglegt líf í eitt ár, árið 1940, svo ekki söguna meir.

Dagbókin geymir aðallega frásagnir af daglegu lífi á Torfastöðum og Syðri-Reykjum. Það sem hér fer á eftir er frásögn af einum atburði, og því sem honum fylgdi.

29. janúar, 1940
Austan gola og dálítil rigning. Þeir menn sem eru nú í vinnu hjá Stefáni eru Magnús Sveinsson frá Miklaholti, Bergur Sæm(undsson), Olav hinn norski og ég.
Færslurnar næstu daga greina að mestu leyti frá daglegum störfum, en síðan kemur laugardagurinn 17. febrúar:

Mbl. 23. febrúar
Laugardagurinn 17. febrúar, 1940
Norðaustan kaldi, bjart veður, 10°frost. Ég var í ýmsum snúningum, svo sem fægja rör, láta rúður í glugga og grafa skurði. ég fékk bréf að heiman og frá móður Hlyns.
Ólav fór upp að Efstadal.

Sunnudagurinn 18. febrúar.
Norðan og norðaustan gola og 2°frost, mikil snjókoma með morgninum.
Olav var ókominn frá Efstadal.

Mánudagurinn 19. febrúar
Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson (hann kom að S.-Reykjum 31. janúar til að leggja miðstöð í gróðurhusin), Bergur (Sæmundsson) og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoman og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar við vorum koomnir norður fyrir Brúará var kl. 9.50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt, því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt lær og mitti og jafnvel enn meira sumsstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var.
Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hve veðrið var orðið ískyggilegt.
Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir, jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20' til hálftíma) og vorum flestir orðnir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um (við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman) lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir þar um kl. 5.
Jón fór með Guðmundi til baka aftur, því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri.
Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.

Þriðjudagurinn 20. febrúar
Hvass norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum manni að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. febrúar
Austan kaldi, úrkomulaust, en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað, en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs.
Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara áðurnefndu bæja. Var nú tekið að safna lið hér í nágrenni til að leita á morgun.

Fimmtudagurinn 22. febrúar
Austan strekkingur, krapahríð. Laitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta, sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvert afdrep var, var kafald og him mesta ófærð.
Okkur þótti fullvíst að leit yrði árangurslaus meðan þessi snjóþungi væri á þessum slóðum. Var því ákveðið að geyma hana þar til þiðnaði.

Föstudagurinn 23. febrúar.
Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4°frost.
Við lögðum rör í 4 og 5 (númer gróðuhúsa), en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.

Næstu daga er ekki vikið að hvarfi Olavs, en veðri lýst, svo og daglegum störfum á Syðri Reykjum.

Föstudagurinn 1. mars.
Hæg suðvestan átt, éljaveður en bjart á milli. 1°frost. Lokið var við að logsjóða miðstöðina í 4 og 5. Ég fór niður að Torfastöðum með Agli logsuðumanni.
Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmviðris tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Laugardagurinn 2. mars
Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5°hiti. Ég batt upp tómata í 6 og lauk því.
Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.

Mánudagurinn 3. mars
Norðaustlæg átt, bjart veður, 5°frost.
Jarðarför fór fram á Torfastöðum.
Í framhaldi af þessum lestri komst ég að því að Olav sá sem þarna lét lífið hét fullu nafni Olav Sanden og systir hans, Liv Sanden var kona Stefáns Þorsteinssonar, garðrkjufræðings í Hveragerði á þessum tíma. Þau höfðu gengið í hjónaband 1938. 1946 fluttu Liv og Stefán að Stóra-Fljóti og bjuggu þar saman til 1951, en þá lést Liv úr berklum. Stefán bjó áfram á Stóra-Fljóti til 1956. Hann lést 1997.



 Myndin er komin frá Jarle Sanden í Molde í Noregi, með aðstoð Sigrúnar Stefánsdóttur, dóttur Stefáns og Liv. Á henni eru Liv og Stefán, ásamt elstu börnum sínum, Aðalbjörgu (f. 1940), Þorsteini (f. 1938) og Guri Liv (f. 1941). Mynd: Vigfús Sigurgeirsson (1943).


02 febrúar, 2014

Laugarás - sjöundi áratugurinn: Vatnsveitufélagið

Vatnsveitukofinn og safntankurinn.
"Nú er hún Snorrabúð stekkur."
Ég held að stærsti þátturinn í annarri bylgju í íbúaþróun í Laugarási hafi verið tilkoma Vatnsveitufélags Laugaráss. Fram að því að ákveðið var að stofna þetta félag hafði hver bjargað sér; það var notast við kælt hveravatn til vökvunar í gróðurhúsum og kalt neysluvatn var að skornum skammti. Hvernig, nákvæmlega fólk aflaði þess er mér ekki alveg ljóst, en ég geri ráð fyrir að annaðhvort hfi verið notast við kælt hveravatn (ansi vont á bragðið), eða þá að það hafi verið útbúnir brunnar sem vatn var tekið úr. Ég veit um einn slíkan, sem er á lóðarmörkum Kvistholts og Lyngáss. Það var steypt utan um hann og þar safnaðist yfirborðsvatn. Ég veit svo sem ekki hvort umræddur brunnur var eingöngu notaður til að safna vatni fyrir fé Hveratúnsmanna, 

Þegar Sláturfélag Suðurlands ákvað að byggja sláturhús í Laugarási þurfti augljóslega mikið kalt vatn. Því var það, að 1964 var VL stofnað. Auk SS komu að stofnun: Rauði krossinn vegna barnaheimilisins, Laugaráslæknishérað, sem eigandi jarðarinnar, Biskupstungnahreppur, sem hafði með málefni Laugaráss að gera og síðan íbúarnir sjálfir.
Þetta framtak varð mikil lyftistöng fyrir Laugarás og á sjöunda áratugnum fjölgaði íbúum mjög og ég ætla mér að gera grein fyrir þeirri þróun síðar. 

Vatnsveitufélagið skipti áhemju miklu máli fyrir íbúana í Laugarási, og þeir skiptust á að sitja í stjórn og vinna þeirra að málefnum félagsins var hugsjónastarf. Árin liðu og áratugir og það kom nýtt fólk í Laugarás sem hafði ekki þessa sömu sýn á félagið. Það þurfti bara sitt neysluvatn.  Það fór smátt og smátt að fjara undan félaginu og ég þykist nú ekki vita allt um ástæður þess, en hér eru nokkrar tilteknar:
a. Rauði Krossinn og Sláturfélag Suðurlands hættu starfsemi í Laugarási.
b. Vatnið, sem kom úr lind í Vörðufelli, var takmarkað. Kröfur um að fá kalt vatn til vökvunar í gróðurhúsum urðu smám saman háværari og aðferðir við að takmarka slíka notkun ollu óánægju og deilum. Það má kannski segja að meðal íbúa í Laugarási á 9. og 10. áratug síðustu aldar hafi ekki verið fyrir hendi sú hugsjón frumbýlingsins sem ráðið hafði för í málefnum félagsins.
c. Það höfðu aldrei náðst samningar við eigandur Iðu um vatnið. Þau mál voru stöðugt umfjöllunarefni í fundagerðum, en niðurstaða náðist aldrei, mér vitanlega.
d. Nýr eigandi húss og lóðar Sláturfélagsins, gerði kröfur til meints eignarhluta SS í vatnsveitufélaginu, sem þáverandi stjórn félagsins gat með engu móti sæst á. 

Í sem stystu mál varð það úr að félagar í VL samþykktu að afhenda Biskupstungnahreppi veituna gegn því að hreppurinn tryggði kalt vatn eftir þörfum. Þetta varð síðan til þess að innan einhvers tíma var hætt að nota vatn úr lindinni í Vörðufelli, og í staðinn fékk Laugarás vatn úr Biskupstungnaveitu.

Þar sem ég þykist ekki vera að ástunda sagnfræði læt ég aðra um að nálgast þessi mál öll frá því sjónarhorni.

Ég sat í stjórn VL á þeim tíma sem félagið var lagt niður, gegn vilja mínum, eins og flestir á þeim tíma; enginn hugsjónaeldur lengur (ég sat s.s. í stjórn gegn vilja mínum). Þetta voru átakatímar, en ég tel að niðurstaðan hafi orðið góð. Nú hafa íbúar Laugaráss aðgang að öllu því kalda vatni sem þeir þurfa á að halda. 

Það sem hér fer á eftir er:
a. Listi yfir þá sem sátu í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss á hverjum tíma.
b. Punktar úr fundagerðarbókum félagsins, sem ég tók saman í aðdraganda þess að félagið var lagt niður.



Listi yfir stjórnarmenn 

í Vatnsveitufélagi Laugaráss frá upphafi (í stafrófsröð)


Punktar úr fundargerðabókum 
Vatnsveitufélags Laugaráss

Stofnfundur 12. júní 1964.
Stofnfundinn sátu:


Fyrir Biskupstungnahrepp: Skúli Gunnlaugsson oddviti, Bræðratungu og Þórarinn Þorfinnsson, hreppsnefndarmaður, Spóastöðum
Fyrir sláturhús Sláturfélags Suðurlands: Rögnvaldur Þorkelsson, verkfr.
Fyrir stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs: Jón Eiríksson formaður
Fyrir Sumardvalarheimili RKÍ: Jóna Hansen
Auk ofangreindra sátu fundinn garðyrkjubændurnir Skúli Magnússon, Hveratúni, Jón V. Guðmundsson, Sólveigarstöðum og Hjalti Jakobsson, Laugargerði.
Fyrir Skálholtsstað, áheyrnarfulltrúi: Sveinbjörn Finnsson, staðarráðsmaður.

Samkv. áætlun sem kynnt var á stofnfundi skyldi virkjuð lind í Vörðufelli 3-4 sek.l. Vatnið yrði leitt í asbestpípum að dælustöð þar sem væri allt að 15 m3 þró.
Gert var ráð fyrir tveim dælum í dælustöð, annarri öflugri til að mæta álagi í sláturtíð.
Upphafleg kostnaðaráætl. hljóðaði upp á kr. 575.000 - búist við hækkun.
Fram kom hjá verkfræðingnum að með veitunni sköpuðust möguleikar á fullkomnum brunavörnum og þess vegna lækkuðum iðgjöldum.
Fram kom að ríkissjóður myndi styrkja framkvæmdina um allt að kr 300.000.
Á fundinum var lögð fyrir og rædd samþykkt fyrir félagið.

Auk þeirra sem að ofan er getið undirrituðu fundargerðina eftirtaldir:
Ólafur Einarsson, læknir, Hörður V. Sigurðsson, Lyngási, Einar Ólafsson, Jóhann Eyþórsson og Sigmar Sigfússon.

Aðalfundur 11. apríl 1965
Fram kom að byggingarkostaður veitunnar til áramóta 1964-65 var 717.656.55, að stofnframlög kr. 176.000 hefðu öll verið greidd, að loforð lægi fyrir frá ríkissjóði um framlag kr. 358.000.
Á þessum fundi var samþykkt að breyta samþykkt félagsins þannig að getið væri um upphæð stofngjalda hvers stofnanda:
Sláturhús SS kr. 110.000, læknisbústaðir og sumardvalarfeimili RKÍ kr. 20.000 hvert, aðrir stofnendur kr. 4.000 hver og Biskupstungnahreppur kr. 4.000 vegna hverrar leigulóðar.
Þá var á fundinum lögð fram tillaga að samningi milli eigenda Iðu I og Iðu II og stjórnarnefndar Laugaráslæknishéraðs varðandi skipti á réttindum kalds og heits vatns. Fundurinn féllst á tillöguna.
Helgi Indriðason bóndi í Laugarási fékk aðild að veitunni.
Á stjórnarfundi 20. ágúst 1965 var ákveðið að taka í félagið eftirtalda:
Sigurð Sigurðsson, Krosshól, Guðmund Indriðason, Lindarbrekku og Læknishéraðið vegna gamla læknishússins.

Aðalfundur 16. apríl 1966

Útskýrt hvernig fastagjald væri fundið: Sláturhúsið og barnaheimilið greiddi 1/2 fastagjaldsins, eyðslugjald var 60 aur. pr.tonn á síðasta ári, en nú yrði að hækka það.

Stjórnarfundur 25. ágúst 1966
Þar er að finna þessa bókun:
Stjórnin ræddi um skiptingu stofnkostnaðar vatnsveitunnar og gerir í því sambandi eftirfarandi bókun:

Á stofnfundi veitunnar var ákveðið af þeim sem að því unnu, að Sláturfélag Suðurlands tæki að sér að greiða hálfan stofnkostnað og áskildi sér rétt til tveggja sek.ltr. af vatni. En bókun þessara atriða hefur fallið niður í samþykktum veitunnar og fundargerð stofnfundar. Vegna seinni tíma ákveður stjórnin, að eignahlutur og vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands og annarra aðila verði samkvæmt því, sem umrætt var á stofnfundi sbr. bókun hér að framan. Verði aukning á vatnsmagni frá því sem nú er, þ.e. ca. 4 sek.ltr., þá skal Sláturfélag Suðurlands eiga rétt á að halda óbreyttum hlutföllum um eignarrétt og vatnsrétt.

Þótt vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands sé 2 sek.l., þá skal félaginu heimil meiri notkun, sé nægilegt vatn fyrir hendi, en samkomulag þetta gildir að fullnýtingu 4 sek.ltr., sem er það vatnsmagn, sem eigendur Iðu hafa boðið fram.

Viðvíkjandi greiðslu stofnkostnaðar skal tekið fram, að Sláturfélag Suðurlands og hverfisbúar greiða tvo jafna hluti þegar hlutur Rauða Kross Íslands hefur verið dreginn frá, og eftir þeim hlutföllum verði aðveitukerfi veitunnar við haldið, miðað við óbreytt eignahlutföll, en rekstur vatnsveitunnar sjái um dælur og búnað þeirra.

Aðalfundur 2. apríl 1967
Umræður urðu um fyrningu veitunnar þar sem fyrningarreikningur er ekki færður, en þar sem vatnsveitan er ekki skattskyld var ekki talin ástæða til að breyta því.

Aðalfundur 30. mars 1968
Rætt um ákvörðun vatnsskatts og vatnsmæla sem voru að verða úr sér gengnir.
Rétt þótti að hafa mæla áfram hjá stærstu aðilunum, en samþykkt að fela stjórninni að ákveða vatnsskatt hjá öðrum með hliðsjón af nokkrum síðustu árum.

Stjórnarfundur 19. mars 1970
Jóhann Ragnarsson hefur neitað að greiða stofngjald vegna sumarbústaðar síns í landi Ólafs Einarssonar. Hann telur sig ekki eiga að greiða stofngjald, en [greiði] notkunargjald.
Stjórn veitunnar lítur svo á að nýjum notanda beri að greiða sömu gjöld og öðrum notendum, þar með talið stofngjald, og verði notaðir þeir hlutir er Biskupstungnahreppur tók að sér að greiða við stofnun veitunnar, meðan þeir endast, svo ekki raskist hlutföll eigenda í veitunni.

Aðalfundur 2. apríl 1970
Á þessum fundi var samþykkt félagsins 6. gr. breytt í framhaldi af máli Jóhanns Ragnarssonar.

Aðalfundur 11. sept 1971
Þórarinn Þorfinnsson talaði um stofna þá er Biskupstungnahreppur lagði á sinni tíð og væri óafturkræft framlag til veitunnar. Nú hefði verið lagður nýr stofn norðaustur að Höfðavegi og lagði hreppurinn hann á sinn kostnað, sem er um kr. 38.000, en hreppurinn taldi sjálfsagt að veitan annaðist þessar lagnir og því bæri hann fram tillögu um breytingu á samþykktum félagsins, þannig að 4. grein verði þannig: Frá og með árinu 1970 kostar vatnsveitan aukningu og viðhald allra stofna vatnsveitunnar frá fyrstu greiningu að heimæðum notenda. Tillagan var samþykkt.

Þá kom fram tillaga frá Skúla Magnússyni um breytingu á 5. grein: Stjórninni er þó heimilt að leyfa notkun vatns til græðlingaræktunar svo og blómaræktunar í þeim tilfellum sem hveravatn er sannanlega ónothæft. Tillagan var samþykkt.

Stjórnarfundur 13. sept. 1971
Ákveðið að greiða Bisupstungnahreppi kostnað við lagningu stofns norðaustur að Höfðavegi ca. kr. 38.000 fyrir áramót.
Ákveðið að hækka gjaldskrá um sem næst 50%. Samsvarandi hækkun verði hjá SS og RKÍ.
Lágmarksgjald á leyfðri notkun í gróðurhúsum verði 2 hlutar notkunargjalda.

Stjórnarfundur 6. júlí 1972
Beiðni Auðshyltinga um vatn frá vatnsveitu Laugaráss. Stjórnin samþykkir að fresta ákvörðun og gefa Jóni H. Bergs þannig tækifæri til að fá umboð stjórnar Sláturfélags Suðurlands til þess að samþykkja breytingu á vatnsnotkuninni sbr. fundarsamþykkt 25. ágúst 1966, sjá efst á bls. 15.(fundagerðarbók)

Stjórnin samþykkir að skora á stjórnarnefnd Laugaráslæknishérðs að ganga formlega, hið fyrsta frá samningum um vatnsréttindi vatnsveitunnar skv. áður gerðu munnlegu og bréflegu samkomulagi við eigendur jarðarinnar Iðu. Stjórnin samþykkir að fela formanni að skrifa stjórnarnefndinni um þetta mál.

Aðalfundur 16. september 1972
Formaður ræddi um ósk Auðsholtsmanna um aðild að veitunni, en taldi ekki möguleika á því eins og sakir standa.
Nokkrar umræður urðu um samninga við Iðueigendur vegna vatnsréttinda, en það mál er ekki komið á hreint ennþá. Oddvitanefnd Laugaráshéraðs hefur unnið að því máli.

Stjórnarfundur haldinn 21. sept 1972
Ákveðið að gefa RKÍ 20% afslátt af notkunargjaldi fyrir s.l. gjaldár.

Aðalfundur 6. október 1973
Formaður ræddi um að réttast væri að fella niður af notendum stofngjald. Fundarmenn hreyfðu ekki mótmælum. Var talið eðlilegast að stjórnin tæki ákvörðun í málinu.
Formaður upplýsti að enn væri ósamið við Iðumenn um vatnsréttindi. Var í sumar haldinn fundur með Iðumönnum, en sættir tókust ekki og er málið nú í höndum lögfræðinga.

Stjórnarfundur 18. október 1973
Samþykkt að leggja niður stofngjöld og hækka fastagjald úr 900 kr í 1000 kr. pr. hlut og notkunargjald úr 330 kr. í 500 kr pr. hlut og notkunargjald pr. tonn verði kr. 1,52.
Samþykkt að verða við ósk RKÍ um að fella niður notkunargjald af barnaheimilinu að óbreyttri vatnsnotkun þess.

Aðalfundur 14. mars 1976
Formaður las bréf frá stjórnarformanni Laugaráslæknishéraðs frá 15. janúar 1975 varðandi vatnsréttindi og samninga þar að lútandi við eigendur Iðu. Svo og svarbréf stjórnar veitunnar. Að því búnu las formaður annað bréf frá sama aðila dags. 22. október 1975 um sama mál.

Formaður óskaði eftir afgreiðslu á seinna bréfi stjórnarformanns Laugaráshéraðs. Var stjórn Vatnsveitunnar falið að svara því bréfi þannig: Eigendum Iðu sé heimilt að fá kalt vatn úr dælustöð veitunnar með sömu réttindum og skyldum sem aðrir notendur veitunnar. En telur jafnframt óframkvæmanlegt að leyfa þeim vatnstöku úr stofnæð veitunnar. Samþykkt var að senda öllum eigendum Iðu afrit af bréfi þessu.

Aðalfundur 11. des 1976
Samþykkt var breyting á 9. grein samþykkta félagsins og var hún við það þannig:Aðalfundur er lögmætur hafi réttilega verið til hans boðað og þriðjungur félagsmanna mætir.

Stjórnarfundur 26. sept 1977
Rætt var um fyrirsjáanlega stofnlögn , umsókn um inntak í vinnuhús og rætt var almennt um notkun vatnsins í gróðurhúsum. Einnig var rætt um umbúnað við vatnsból.

Aðalfundur 20. nóvember 1977
Umræður um vatnsréttindin - ekkert hefur gengið í samningsgerð. Jón Eiríksson á að hafa lýst því yfir að lokað verði fyrir heita vatnið til Iðu í vor og að Iðumenn hafi hótað á móti að loka fyrir kalda vatnið en ljóst væri að þeim myndi ekki verða stætt á því samkvæmt lögum um vatnstöku til heimilisnota.

Stjórnarfundur 18. júlí 1979
Fundurinn var haldinn með Jóni H. Bergs vegna bréfs eigenda Iðu, dags. 3. júlí 1979 um makaskipti á heitu og köldu vatni. Ákveðið var að leita til Haraldar Blöndals lögfræðings. Stjórnin átti viðræður við Harald sama dag og fellst hann á að senda vatnsveitunni álitsgerð um rétt hennar í þessu máli.

Stjórnarfundur 11. ágúst 1979
Tekið fyrir bréf frá Haraldi Blöndal dags. 8. ágúst 1979 vegna bréfs eigenda Iðu dags. 3. júlí 1979, ákveðið var að synja kröfum eigenda Iðu á hendur Vatnveitu Laugaráss, á grundvelli álitsgerðar Haraldar Blöndals.
Lagning kaldavatnsstofns í nýtt íbúðarhverfi í Laugarási. Vatnsveitan sér sér ekki fært að leggja nýjan stofn í hverfið nema hreppurinn borgi stofngjöld fyrir óúthlutaðar lóðir. Ákveðið að ræða við viðkomandi ráðamenn.

Stjórnarfundur 12. des 1979
Farið fram á að Biskupstungnahreppur leggi fram tengigjöld vegna hluta af óúthlutuðum lóðum í nýju íbúðarhúsahverfi á Laugarástúni.

Stjórnarfundur 24. ágúst 1980
Umsókn frá Skálholtsstað im inngöngu í félagið. Samþykkt að heimila vatnstöku úr stút RKÍ í 15 daga vegna bráðs vanda.

Stjórnarfundur 3. okt 1980
Vegna umsóknar Skálholtsstaðar. Ákveðið að athuga lagalega stöðu gagnvart eigendum Iðu ef Skálholtsstaður fengi vatn fram að þeim tíma er fyrirhuguð "Reykholtsveita" taki við.

Aðalfundur 9. nóvember 1980
Ósk Skálholtsstaðar rædd og stjórn falið að leysa málið.

Stjórnarfundur 9. nóvember 1980
Samið bréf til Biskupstungnahrepps - óskað eftir upplýsingum um hugsanlega vatnsveitu í sveitina og hvort Skálholtsstaður sé inni í þeirri mynd.

Aðalfundur 13. desember 1981
….að Skálholtsstaður hefði sótt um fulla aðild að veitunni og lagt stofn frá Skálholti að Ljósalandi 2-3" víðan að öllu leyti á sinn kostnað.

Í bráðabirgðasamkomulagi hefði þeim verið heimilað að fá næturrennsli frá 20-8, en heimilt væri að loka fyrir vatnið ef þurfa þætti þegar sláturhúsið væri að störfum. Nokkuð var rætt um vatnsveitu Biskupstungna og hvernig Vatnsveita Laugaráss myndi tengjast því máli og stjórninni falið að kanna þau mál.

Fundur 17. febrúar 1982
Fjallað um kaldavatnsþörf og ástand í vatnsmálum. Vísað til þess að við stofnum veitunnar var gert ráð fyrir að úr lindinni í Vörðufelli kæmu 3-4 sek.ltr. Við nákvæmar mælingar frá síðari hl. jan. til 15. feb. hefði vatnsmagnið reynst vera 2.84 sek.ltr.

Stjórnarfundur 7. júní 1982
Greint frá endurteknum mælingum á vatnsmagni á tímabilinu mars til apríl. Það mesta sem mældist mun hafa verið 3,81 sek.ltr.
Ítarlega rætt um samningsdrög vegna vatnsafnota Skálholtsstaðar. - ákveðið að láta lögfræðing ganga frá samningnum.

Stjórnarfundur 3. nóvember 1982
Frekari mælingar á vatnsmagni:
21. júni var vatnsmagn 2,97 sek.ltr.
8. ágúst 3,42 sek.ltr.
26. sept. 3,3 sek.ltr.

Stjórnarfundur 15. nóvember 1982
Bókaður samningur við Skálholtsstað.

Stjórnarfundur 13. janúar 1986
Samþykkt að fella niður fastagjald á RKÍ.

Stjórnarfundur 28. mars 1988
5. Miklar umræður urðu um stöðu félagsins almennt með tilliti til ýmissa mála sem komið hafa upp á yfirborðið á síðustu árum. Töldu menn að kominn væri tími til að staldra við og athuga þann grundvöll sem félagið var stofnað á í upphafi og að nauðsynlegt væri að reyna að vekja félagsmenn til umhugsunar um þau mál. Var ritara fálið að gera uppkast að dreifibréfi til félaga í vatnsveitunni í þessu skyni og skal bréf þetta sent út með fundarboði.

Stjórnarfundur 27. júní 1988
Fram kom að ákveðið hefur verið að leggja 4" kaldavatnslögn ofan úr Bjarnarfelli í Reykholt of etv. að Torfastöðum.
Ákv. að ritari skrifi hreppsnefnd og fari fram á að Laugarás verði reiknað inn í þetta dæmi.

Stjórnarfundur 4. október 1988
7. Fram kom að enn hefur ekki borist [svar] við bréfi stjórnar til hreppsnefndar um könnun á þátttöku í Bjarnarfellsveitu.

Stjórnarfundur 29. júní 1989
Mætt var stjórn og Birkir Þrastarson. Birkir skýrði svo frá að hann hefði fengið aðstöðu til fiskeldis í Sláturhúsi SS. Vatnsþörf er áætluð 24m3*6 á sólarhring. Samningurinn er til 15/9 1989.
Í framhaldi af því var ritara falið að semja bréf til hreppsnefndar. Afrit af því bréfi er í bréfamöppu. Haft var samband við Jóhann Bergmann bæjarverkfræðing í Keflavík til að skoða aðstæður.

Stjórnarfundur 23. október 1989
Bréf frá Óskari Magnússyni hdl fyrir hönd landeigenda Iðu I og Iðu II. Ákveðið að kynna efni bréfsins á fundi með fulltrúum hreppsins.
Kynnt bréf frá oddvita þar sem Sverrir (Gunnarsson) og Þorfinnur (Þórarinsson) eru tilnefndir til viðræðna við stjórn V.L.

VANTAR AÐALFUND 1990 og 1992 !

Aðalfundur 22. maí 1993
Sagt frá viðræðum við Iðumenn og að þær hefði litlum sem engum árangri skilað.

Aðalfundur 13. júní 1994
Umræður um veitumál við hreppinn

Aðalfundur 30. nóvember 1995
Hugmyndir ræddar um sameiningu við hreppsveitu og að því máli verði ýtt af stað.

Stjórnarfundur 22. febrúar 1995
2. Samþykkt að fela ritara að senda hreppsnefnd bréf til að fá upplýsingar um með hvaða móti hreppsnefnd sjái fyrir sér að V.L. komi inn í hreppsveituna.

Stjórnarfundur 7. desember 1997
Ákveðið að SS verði sendur reikningur vegna hálfs árs notkunar. Rætt verði við nýja eigendur vegna seinni hluta ársins og settur upp mælir. Reikningur sendur vegna sömu upphæðar og SS greiðir.

Kynnt bréf Biskupstungnahrepps frá 1. okt. 1997

ENGINN AÐALFUNDUR HEFUR VERIÐ HALDINN Í FÉLAGINU SÍÐAN 1995

Stjórnarfundur 1. júní 1999
Fjallað um stöðu og framtíð félagsins út frá punktum sem ritari lagði fram og hann hafði tínt saman úr bókum félagsins. Þykir stjórnarmönnum þörf á að fyrir liggi hvernig eignarhaldi í félaginu er háttað og hver lagaleg staða þess er. Ákveðið að fela ritara að koma á fundi með lögfræðingi vegna þessa.


Ákveðið að bíða með boðun aðalfundar þar til eftir fund með lögfræðingi.

01 febrúar, 2014

"Er langt síðan þú varðst 67?"

Þarna sat ég í stólnum á sömu rakarastofunni og venjulega. Fannst kominn tími til að létta á hárlubbanum, sem er þó mis lubbalegur eftir því hvar er á höfðinu. Höfuðhárin eru farin að lýsast talsvert, svona eins og verða vill þegar bætist við árafjöldann. Ég þurfti ekki einu sinni að taka ákvörðun um það þegar hvít hár fóru að blandast þeim dökku fyrir um 30 árum, hvort rétt væri að freista þess að halda uppruinalegum háralit. Grásprengt hár er merki um reynslu og virðuleik í mínum huga og því hef ég nánast fagnað hverju hári sem hefur tekið á sig þannig litleysi.

Hvað um það, þarna þurfti ég klippingu fyrir þorrablót eldri borgara sem famundan var. Við hárskerinn ræddum þorrablót eldri borgara fram og til baka. Þar sem hann er kominn á áttræðisaldur hafði hann mikla reynslu af slíkum samkomum og sagði mér frá hvernig þær gengu fyrir sig í hans heimabyggð. Þessi umræða er svo sem ekki í frásögur færandi. Þar kom hinsvegar, að hárskerinn spurði spurningarinnar í titli þessa pistils.  Ég neita því ekki að spurningin kom á mig og viðbrögð mín voru nánast ósjálfráð: "Ertu galinn?"
Sem betur fer hef ég allmikla reynslu af setu í stól hjá þessum hárskera og hann brást því ágætlega við þessari ágengu spurningu minni. Ég þurfti í framhaldinu að útskýra fyrir honum, að þegar Tungnamenn verða sextugir opnist fyrir þeim tækifæri til að fara á þorrablót eldri borgara.

Ekki meira um það.

Í sömu ferð skellti fD sér í svona salon í hársnyrtingu sem á að taka svona 10-15 mín., en hver maður getur ímyndað sér að sú tímasetning stóðst ekki og þar með skellti ég mér í þolinmæðisgírinn, þann sama og ég nota þegar ég er að aka á eftir bíl á óskiljanlegum lúsarhraða, án möguleika á að komast framúr.

Þegar heim var komið eftir klippingaferðina hélt fD áfram að sinna hári sínu á þann veg sém ég geri ekki; lít reyndar á það sem hálfgerðan vítahring.

Þorrablót eldri borgara var hið ágætasta og öfugt við það sem venjulega er þegar ég fer á samkomur, þá held ég að ég hafi þekkt upp undir 90% þorrablótsgesta. Ég varð hugsi við þá staðreynd.

Eftir matinn, sem var á hlaðborði, og eftir að ég hafði eina ferðina enn freistað þess að smakka hákarl, með sama árangri og venjulega og látið vera að smakka sama mat og venjulega, voru gestum flutt ágæt skemmtiatriði Torfastaðasóknar. Mér fannst það þakkarvert að flytjendurnir skyldu koma þarna og flytja sömu dagskrá og á aðalþorrablótinu um síðustu helgi.

Svo kom að heimferð, ekki undir morgun, eins og venja var í þá tíð, heldur um kl. 23. Fínn tími og möguleiki á góðum nætursvefni.

26 janúar, 2014

Ég, gikkurinn

fD finnst kæstur hákarl góður........tvisvar ár ári - á Þorláksmessu á vetri og á Þorra. Henni finnst kæst skata góð........einu sinni á ári - á Þorláksmessu á vetri. Mér finnst hinsvegar lítið til þessa meinta góðgætis koma.........aldrei - ekki einusinni í þau skipti sem ég hef látið mig hafa það að prófa eftir að hafa deyft bargðkirtlana á tiltekinn hátt. Það er hreint ekki svo að ég fyllist viðbjóði við að leyfa þessum matvælategundum að velta í munninum, mér finnst þetta bara hreinlega ekki gott og það tel ég vera fullnægjandi rök gegn því að sameinast fD í þeim helgiathöfnum sem neyslu þessarra fæðutegunda fylgja. 
Nú er sem sagt Þorrinn og ég hef séð hverja myndina á fætur annarri á fb og víðar þar sem fólk finnur sig knúið til að sýna dásemdarhákarlinn sinn ásamt upplýsingum um hvaðan hann er kominn. Það er nefnilega ekki sama hvar hákarlinn er verkaður. Ef ég tæki mig nú til og verkaði hákarl hér í Laugarási þyrfti ég talsvert mörg ár til að sannfæra Tungnamenn um að þar væri á ferð vara sem viturlegt væri að flagga mikið á samfélagamiðlum.
En að hafa náð í vænt stykki af hákarli frá Bjarnarhöfn, svo maður tali nú ekki um ef hann skyldi vera kominn alla leið frá einhverjum kæsingarsnillingnum á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Maður getur kinnroðalaust birt myndir af slíkum hákarli á fb. Ef maður fer hinsvegar í einhverja lágvöruverðsverslunina í höfuðstað Suðurlands og kaupir þar niðurskorinn hákarl í lofttæmdum plastpoka, án upprunamerkingar, þá birtir maður ekki mynd af honum neinsstaðar.
Maður hefur ekki hátt um hvaðan slíkur hákarl er kominn. Neysla hans er meira svona inn á við. Það má kannski líkja þessu við það þegar tvær konur kaupa sér kjóla. Önnur kaupir kjól frá Dior eða í búð með útlensku nafni, en hin kaupir á verksmiðjuútsölu í Allabúð. Hvor er líklegri til að auglýsa kaupin? Já, það er sama hver kaupin eru - ef maður telur sitt vera betra en náungans, finnst manni mikilvægt að láta náungann vita af því. Það er svona  minns-er-flottari-en-þinns.

Ég ætlaði nú ekki að eyða miklu púðri í hákarlinn þegar ég byrjaði á þessari tjáningu minni.  Ég ætlaði að skrá hugrenningar mínar í tilefni af því að nú er hafinn Þorri.
Við fD fórum ekki á þorrablót í Aratungu á bóndadag. Það, út af fyrir sig, getur talist fremur lélegt. Þetta þorrablót var áður fyrr einhver stærsta skemmtun ársins á þessum bæ, eins og víðar, en eftir því sem dregið hefur úr sambandi okkar við það sem gerist í þessum hluta Bláskógabyggðar, hefur dregið úr áfergjunni í að taka þarna þátt. Oftar en ekki fór rútufarmur úr Laugarási á þorrablót í Aratungu. Síðan, oftar en ekki, kom maður heim undir morgun því sumir farþeganna vildu njóta þorrablóts lengur en aðrir, við ættjarðarsöngva og aðra tjáningu sem þeir létu vera svona dags daglega.

Ég neita því ekki að mig langar heilmikið að fá að njóta þess græskulausa gamans sem sveitungarnir setja saman um hver annan og flytja á þorrablóti og þætti ekki verra að fá að njóta þess án þess að til þurfi að koma allt tilstandið sem því fylgir.

Það er þetta með þorramatinn; þessar kræsingar, sem sumir kalla svo. Þessa þrá eftir að nálgast frummanninn í sjálfum sér - rífa í sig kjammann, skella í sig brennivíninu, hlæja stórkarlalega að gríninu, sleppa fram af sér beisli hvunndagsins. Allt er þetta gott og blessað, og ég hef sannarlega tekið þátt í því og notið, meira að segja í meiri mæli en góðu hófi hefur gegnt.

Til þess að fara á þorrablót í Tungnamanna í Aratungu þarf heilmikinn undirbúning. Á þetta þorrablót kemur hver með sinn þorrabakka með úrvali af þorramat að eigin vali. Það er ekki síst þorrabakkinn sjálfur sem er mikilvægur þegar haldið er til blóts. Góður þorrabakki er völundarsmíð og sannarlega ekki framleiddur af börnum í Kína. Þorrabakkar er pantaðir hjá valinkunnum völundarsmiðum og verða jafnvel ættargripir. Ingólfur á Iðu smíðaði þorrabakka Hveratúnsmanna.
Þegar haldið er á blótið er bundinn ferningslagaður dúkur utan um trogið með tveim hnútum.
Það er síðan helgiathöfn þegar dúknum er svipt af borðhaldið hefst. Þá blasa kræsingarnar við þeim sem bakkinn tilheyrir og fólkið tekur að stynja og rymja af tilhlökkun, góðgætið hverfur síðan í magana og vellíðunarstunurnar hækka með hverjum bitanum og snafsinum. Í Aratungu eru að jafnaði hátt á þriðja hundrað þorrablótsgestir og þegar borðahaldið stendur sem hæst hættir maður að heyra í sjálfum sér og hverfur inn í einhvern undarlegan þorrablóts heim, þar sem allir verða eitt, en þó hver í sínu.
Ég neita því ekki, að mér hugnast þessi aðferð við þorrablótsfagnað betur en sú sem algengust er orðin - hlaðborðin.

Þorrablót Tungnamanna í þessari mynd hafur lifað af heiftarlegar árásir gegnum árin. Það gekk svo langt, að í mótmælaskyni komu andstæðingar trogablóta eitt sinn til blóst með plastbox í stað trogs og steiktan kjúkling, franskar og kokteilsósu í stað þorramatarins. Sannarlega var tiltækið umtalað og Tungnamenn skiptust í fylkingar þeirra sem voru með og á móti trogablóti. Þeir fyrrnefndu stóðu árasirnar af sér.

Nú virðist mér þessi tegund þorrablóts vera fastari í sessi hér en nokkurntíma, ekki síst vegna þess að það víkur frá því sem algengt er nú til dags. Tungnamenn eru ekki fólk sem stekkur á nýjungar.

Leiðbeiningarstöð heimilanna (áður húsmæðra ;)) telur upp matvæli og drykki sem eru við hæfi þegar þorravevisla er annarsvegar: (Það sem ég hef merkt með rauðu er það sem ég myndi geta sett í mig í svona veislu)

Það sem hæfir slíku borði er:Blóðmör og lifrarpylsa, bæði súr og nýsviðasulta súrsuð og  sviðalappir (þurfa góða suðu)svínasulta, súrsuð og nýsúrsaðir hrútspungar, lundabaggar, bringukollar og hvalsrengi.HangikjötReyktur magáll Saltkjöt (helst heitt) fyrir þá sem ekki eru mikið fyrir súrmatSoðnir sviðakjammar Síldarréttir hvers konar  t.d. kryddsíld eða maríneruð síld og síldarsalötHarðfiskurKæstur hákarl 
Soðnar gulrófur, gulrófustappa, soðnar kartöflur, kartöflumúsLjóst og dökkt rúgbrauð, flatkökur og smjörHvítur jafningur (uppstúf) með hangikjötinu
Drykkjarföng með þorramat fara að sjálfsögðu eftir smekk t.d. öl eða gos og mörgum finnst gaman að fá staup af brennivíni með. 

Varast skal að láta þorramat standa lengi við stofuhita eftir að borðhaldi lýkur. Nauðsynlegt er að kæla afganga eins fljótt og við verður komið.  
Á eftir þorramat þarf ekki nauðsynlega eftirrétt en sumum finnst tilheyra að fá pönnukökur, upprúllaðar eða með sultu og rjóma ásamt góðu kaffi.Smákökur, konfektmoli og gott kaffi eða te er einnig tilvalið.
Hér má bæta við ýmsu og þá kemur í hugann það sem nýjast er á boðstólnum: súrsaður lambatittlingar og væri akkur í að fá upplýsingar fyrir áhugasama um hvernig þeir fara um bragðlauka neytenda.

Já, gikkur er ég.

19 janúar, 2014

Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar

Þessi mynd er tekin 1961 frá læknishúsinu.
Þarna er nýja húsið í Hveratúni í byggingu.
Það stefnir hraðbyri í að ég tilheyri elstu kynslóðinni sem spígsporar á jörðinni. Síðastliðin 20-30 árin hefur kynslóðin á undan mér verið að ljúka jarðvist sinni, nú síðast heiðurskonan Ingibjörg á Spóastöðum.
Mér telst svo til, án þess að ég sé viss um það að nú séu þau sex eftir, sem voru í blóma lífsins að koma upp barnahópnum sínum hér í Skálholtssókn á fyrstu árum ævi minnar.
Á þeim tíma var samgangur talsvert mikill meðal íbúa í sókninni, meiri en er í dag og fjölskyldurnar flestar frekar stórar, enda var þetta á barnasprengjuárunum eftir seinni heimsstyrjöld.
Hér á eftir fylgir fremur óvísindalegt yfirlit um það umveerfi sem ég fæddist inn í og ólst upp við fyrstu árin á sjötta áratug síðustu aldar.

Spóastaðir
Á Spóastöðum bjuggu Ingibjörg Guðmundsdóttir (1916-2014) og Þórarinn Þorfinnsson (1911-1984). Steinunn (Stenna) (40), Sigríður (Sigga) (?), Þorfinnur (43),Guðríður Sólveig (Gurra) (45), Bjarney Guðrún (Badda) (46) og Ragnhildur (53).

Skálholt
Í Skálholti bjuggu þau María Eiríksdóttir (1931- ) og Björn Erlendsson (1924-2005). Dætur þeirra eru, Kristín (52), Jóhanna (55), Kolbrún (60)

Þá eru það prestshjónin í Skálholti, sr. Guðmundur Óli Ólafsson,(1927-2007) og frú Anna Magnúsdóttir (1927-1987), en þeim varð ekki barna auðið.

Höfði
Í Höfða var á þessum tíma ráðsmaður, Stefán J. Guðmundsson, "Stebbi í Höfða", (1912-1972) og tvær Rúnur, þær Guðrún Þóra Víglundsdóttir (1918-2002) og Guðrún Jónsdóttir (systir Eiríks á Helgastöðum, frá Neðra-Dal) (1899-1995)

Helgastaðir
Hinumegin við Laugarás voru síðan þrír bæir, Iða, Helgastaðir og Eiríksbakki. Ég man nú ekki mikið eftir fólkinu sem bjó á Helgastöðum eða Eiríksbakka á 6. áratugnum Á Helgastöðum bjuggu á þessum tíma Eiríkur Jónsson (1894-1987) og Ólafía Guðmundsdóttir (1901-1983). Ég man eftir syni þeirra Gísla (50), sem er eitthvað aðeins eldri en ég. Þau Eiríkur Jónsson og Ólafía fluttu frá Helgastöðum 1967.

Eiríksbakki
Á Eiríksbakka bjó lengst af á þeim tíma sem ég man Hulda Guðjónsdóttir (1917-1995). Hún bjó þar ein, og tók við búi foreldra sinna.

Iða
Á Iðu var stórt heimili og ég man eftir Bríeti Þórólfsdóttur (1899-1970), Lofti Bjarnasyni (1891-1969), syni Bríetar, Ingólfi Jóhannssyni (1919-2005) og Margréti Guðmundsdóttur (1920-). Þau Magga og Ingólfur eignuðust 4 börn, Jóhönnu Bríeti (45), Guðmund (47), Hólmfríði (51) og Loft (55).

Laugarás 
Uppi á hæðinni í Laugarási bjuggu Helgi Indriðason (bróðir Guðmundar á Lindarbrekku) (1914-1995) og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir (systir Jóns Vídalín á Sólveigarstöðum) (1913-1993). Þau ólu upp tvö börn sem voru tiltölulega nálægt mér í aldri, Birgi (48) og Gróu (52).

Laugarás læknishús
Í læknishúsinu voru til 1956 Knútur Kristinsson, læknir (d. 1972) og Hulda Þórhallsdóttir (d. 1981). Ég man eiginlega ekkert eftir þeim, enda á þriðja ári þegar þau fluttu burt. Í stað þeirra  komu þau Grímur Jónsson (1920-2004) og Gerða Marta Jónsson (1924-2013). Þau voru hér í 10 ár og áttu 6 börn, Grím Jón (Nonna)(49), Lárus (Lalla)(51), Þórarin (Dodda)(52), Jónínu Ragnheiði (56), Bergljótu (Beggu)(59) og Egil (62).

Lindarbrekka
Á Lindarbrekku bjuggu Guðmundur Indriðason (1915-) og Jónína Sigríður Jónsdóttir (1927-). Þau fluttu nýlega í þjónustuíbúð á Flúðum. Þau eignuðust 4 börn, Indriða (51), Jón Pétur (55), Katrínu Gróu (56) og Grím (61).

Launrétt - dýralæknishús
Bragi Steingrímsson (1907-1971) tók við dýralæknisembætti 1958 og flutti ásamt konu sinni Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999), í nýbyggt dýralæknishúsið í Launrétt þagar það var tilbúið (mér sýnist að þangað til nýja húsið var tilbúið hafi þau búið á Stóra-Fljóti). Þau áttu 8 börn:
Grímhildi (37), Baldur Bárð (39), Halldór (41), Steingrím Lárus (42), Kormák (44), Matthías (45), Þorvald (48), Kristínu (49). Eðlilega man ég lítið eftir börnum Braga og Sigurbjargar, og þaf helst af Sigurbjörgu að til henna sóttum við nokkur n.k. forskóla áður en formleg skólaganga hófst.


Tekið í gróðurhúsi Jóns Vídalín 1961.
Aftastur er líklega Erlingur Hjaltason, fyrir framan hann
Guðmundur Daníel Jónsson og systir hans, Lára.
Mig grunar að fremstur standi síðan Jakob Narfi Hjaltason.
Sólveigarstaðir
Á Sólveigarstöðum bjuggu Jón Vídalín Guðmundsson (1906-1974) og Jóna Sólveig Magnúsdóttir (1928-2004). Jóna kom með 2 börn inn í hjúskap þeirra þau Magnús Þór Harðarson (1946-1966), Hildi E.G. Menzing og saman eignuðust þau Guðmund Daníel (Mumma)(55), Láru (57) og Guðnýju (60) og Arngrím (1962-2003)

Einarshús og síðar Laugargerði 
Fríður Pétursdóttir (1935 -) og Hjalti Ólafur Elías Jakobsson (1929-1992) fluttu í Laugarás snemma á sjötta áratugnum og þau eignuðust sex börn, Pétur Ármann (53), Erling Hrein (55), Hafstein Rúnar (57), Jakob Narfa (60), Guðbjörgu Elínu (64) og Mörtu Esther (68). 

Hveratún
Þarna bjuggu foreldrar mínir frá 1946, en þau voru Guðný Pálsdóttir (1920-1992) og Skúli Magnússon (1918 -). Þau eignuðust 5 börn, Elínu Ástu (47), Sigrúnu Ingibjörgu (49), Pál Magnús (53), Benedikt (56) og Magnús (59)

Ég vona að ég hafi ná hér saman nöfnum allra sem við sögu komu í Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar. Af þessari upptalningu má sjá að barnafjöldinn var mikill, en hér fyrir ofan eru upp talin 43 börn í sókninni. Nú er öldin önnur.

Fyrst ég er nú búinn að safna þessu saman, tel ég vera kominn grundvöll til að halda áfram - skoða kannski betur sögu þessa fólks og afkomendanna, safna saman myndum (nú þegar er ég kominn með þó nokkrar) og loks má spjalla um samspil fólksins í Skálholtssókn á síðari hluta síðustu aldar.
En þegar íbúasprengingin varð í Laugarási á sjöunda áratugnum fóru málin að flækjast heldur betur og til að ná saman upplýsingum um alla sem þar komu við sögu þarf heilmikla rannsóknavinnu.

Það er ljóst að þetta er stærra verkefni en ég treysti mér mér í að svo stöddu
-----
Vinsamlegast látið mig vita um villur sem kunna að leynast í þessari samantekt.

11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...