25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

23 apríl, 2015

Ólygnir sögðu mér

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem lesið hafa þessi skrif mín, að ég hef haft nokkurn áhuga á þróun mála sem tengjast fyrrum sláturhúsi SS hér í Laugarási. Eftir að slátrun lagðist af 1989 var húsið að mestu í reiðileysi þar til það var selt, ásamt landinu 1998, en þar skyldi hafinn veitinga- og hótelrekstur. Í sem stystu mál gekk það upp og ofan og á endanum gekk það ekki og Byggðastofnun eignaðist heila klabbið. Undanfarin sumur hefur einhver hreyfing verið þarna á köflum, fremur fálmkennd, án þess ég viti svosem mikið um það, frekar en það sem hér fer á eftir:

Allir þeir punktar sem hér eru nefndir eru óstaðfestir og því ber að taka þeim með fyrirvara:
Ég hef sem sagt heyrt eftirfarandi:

a. Byggðastofnun seldi húsið (og væntanlega landið) og sveitarstjórn Bláskógabyggðar fékk ekkert að vita um það.

b. Opinber starfsmaður á svæðinu varð var við að eldur logaði utandyra við sláturhúsið, fór á staðinn og benti fólki, sem þar dundaði sér við að bera það sem lauslegt var út fyrir húsið, á bálköst, á að slíkt væri bannað og til þess arna ætti að nota gáma. Hann fékk ekki jákvæð viðbrögð við tilmælum sínum um að viðkomandi létu af verknaði sínum.

c. Kaupendur væru tengdir ferðþjónustufyrirtæki, sem meðal annars væru umsvifamiklir í fólksflutningum.

d. Kaupendur tengdust BSÍ

e. Kaupendur hygðust rífa sláturhúsið og byggja þess í stað hótel.

f. Það hafi sést þrívíddarteikning (módel) af umræddu hóteli, sem flokkast geti undir glæsihótel.

g. Á þrívíddarteikningunni er hótelið bogalaga á þrem hæðum og sú hliðin sem snýr að Hvítá er úr gleri. Þakið er að hluta einnig úr gleri og á hugsunin að vera sú, að þar fyrir neðan geti gestir setið í hægindum og fylgst með norðurljósum.

h. Að kaupandinn og sá sem er í forsvari, sé fyrrverandi vert á ......(vil ekki ganga og langt).


Reynist allt þetta vera rétt og satt (ef frá eru dregnir liðir a. og b.) þá er það sannarlega fagnaðarefni.
Betri staður en Laugarás, í hjarta uppsveita Árnessýsu, með ótal möguleikum til stuttra ferða þar sem helstu djásn landsins er að finna, er vandfundinn.

Reynist þetta allt vera steypa, er það auðvitað leitt, en maður fékk þó að ylja sér við tilhugsunina litla stund :)

Ég kvika, þrátt fyrir þetta, ekki frá þeirri skoðun minni, að í Laugarási verði byggt hjúkrunarheimili í tengslum við Heilsugæslustöðina.

Hinumegin við girðinguna

Auðvitað er við hæfi að óska ykkur, ágætu lesendur, þess að sumarið megi verða ykkur gjöfult og gott (með mikilli sól á pallinum).
Þessi fyrsti morgunn sumars kveikti einhvern neista til að skjótast að Geysi og Gullfossi. Veðurblíðan í Laugarási var einstök, eins og ávallt, og ég henti mér í jakka (ekki tók ég húfu með, eða trefil, eða vettlinga), greip myndvél og tilheyrandi græjur og síðan lá leið okkar fD í norðurátt þar sem við blasir ægifagur, fannhvítur fjallahringur (reyndar ekki neinn hringur, heldur bara fjöll sem standa hlið við hlið á mörkum óbyggðar og byggðar, en það er bara flottara og venjulegra að segja fjallahringur).
Við Geysi var mannlaust (tveir túristar).
Það var einnig kalt á Geysi (ég ómögulega klæddur fyrir næðinginn). Þar var umhverfið heldur nöturlegt. Undanfarin ár hefur umhverfið sem geymir þetta einstaka svæði verið að drabbast niður, hellulögnin, þar sem hún er, er meira og minna úr lagi gengin, bandspotti sem afmarkar gönguleiðir hangir á skökkum steyputeinum, grasþúfur graslausar, útfellingar orðnar að dufti, runnið úr göngustígum, allt úttroðið og þunglyndisvaldandi. Geysir hefur verið niðurlægður.
Það var ekki laust við að einhver vonleysistilfinning kæmi yfir Kvistholtsbóndann við að ganga um þetta umhverfi eyðilagðrar náttúruperlu. Framundan eru heimsóknir hundraða þúsunda ferðamanna, sem eru fullir tilhlökkunar að líta gersemarnar, en við þeim mun blasa eyðilegging. Strokkur mun að vísu standa fyrir sínu, en skelfing er þarna lítið annað áhugavert.
Geysissvæðið er í mínum huga táknmynd græðginnar, sem flytur inn ferðamenn selur þeim mat, selur þeim drykk, selur þeim gistingu, selur þeim ferðir, selur þeim glingur.
Selur þeim ekki aðgang að náttúrunni svo unnt verði að auka þol hennar fyrir ágangi.
Já, græðgin lætur ekki að sér hæða.

Ég varð bjartsýnni við að fara út fyrir girðinguna og yfir veginn, en þar er allt að gerast. Hótel, veitingastaðir og verslun, allt snyrtilegt og vel við haldið. Fyrir norðan hótelið er búið að grafa fyrir mikilli stækkun, og þyrla lenti á þyrlupallinum í þann mund sem við áttum leið hjá. Það er ánægjulegt að sjá hve myndarleg og kröftug uppbyggingin er þarna megin við veginn.

Það er ekki sama hvorumegin vegar maður er við Geysi.

Hver getur krafist þess að eigendur landssvæðisins sem flestir ferðamenn sem til landsins koma sækja, taki til óspilltra málanna við að bjarga því sem bjargað verður? Svona gengur þetta ekki lengur.


Við lögðum leið okkar einnig að Gullfossi, en það er önnur saga.


03 apríl, 2015

Að eiga kökuna og étana

Álftirnar kvökuðu í morgun þar sem volgran frá lóninu rennur í Hvítá og ég freistaði þess að láta sem ég svæfi, en vissi að það myndi ekki leiða til þess að það yrðu úr því einhver raunverulegur svefn. Sú varð heldur ekki raunin. Ég er farinn að sjá afskaplega margt jákvætt við að þurfa ekki að sofa langt fram eftir morgni. Eitt af því sem gefur morgnum gildi er tækifærið sem þeir veita manni til að velta fyrir sér stóru málunum. Gallinn við þær vangaveltur, hinsvegar er, að þær verða ekkert nema vangaveltur. Sannarlega tekst mér að leysa mörg stór mál í huganum, en jafnskjótt geri ég mér grein fyrir tilgangsleysi pælinganna og þeirra lausna sem spretta fram í hugskotinu.

Hér læt ég fylgja eitt dæmi um það sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ég hef lengi velt fyrir mér hversvegna þessi þjóð horfir meira vestur yfir haf, til Bandaríkja Norður Ameríku þegar leitað er fyrirmynda eða lausna á verkefnum í íslensku samfélagi, en til þeirra þjóða sem næst standa okkur sögulega og landfræðilega. Mér hefur fundist þetta undarlegt og illskiljanlegt. Hér á ég t.d. við eftirfarandi:

- ameríski daumurinn og sá íslenski fela í sér það sama. Hér á einstaklingurinn hafa hafa frelsi til að verða ríkur og frægur. Þennan draum ala menn með sér þó möguleikarnir virðist oftast harla litlir. Þeir eru valdir til forystu sem lofa peningum í vasann, jafnvel þó það sé ekki það sem lofað er í raun. Það hljómar bara svo vel.

- foreldrar líta á það sem skyldu sína að borga allt uppihald og skólagöngu fyrir börnin sín og finna hjá sér þörf til að safna í sjóð "college fund" í því skyni.

- það eiga að vera lágir skattar og á móti á fólk að þurfa að greiða sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu og skólagöngu barna sinna.

- ljósvakafjölmiðlar keppast um áhorf með auðmeltu afþreyingarefni sem að mestu eru framleitt í Bandaríkjunum, þar sem "góði kallinn" sigrar og amíslenski draumurinn fær að rætast.

- það er horft til dollarans þegar rætt er um nýja mynt.

- unga fólkið fer á "deit" og það gefur Valentínusardagsgjafir.

Ég gæti tínt margt til sem bendir til þess að þessi þjóð þrái að líkjast þjóðunum sem byggja risaveldið í vestri, en ég nenni því bara ekki.

Skv uppl. frá Hagstofu Íslands. Ef rennt er yfir dagskrá
Stöðvar 2 og Skjás 1s blasir við að stærstur hluti erlends
efnis á uppruna í Bandaríkjunum.
Áhrif þessa á þjóðarsálina þurfa ekki að koma á óvart.
Á sama tíma og þráin eftir að "meikaða" eða verða rík og fræg einkennir þjóðina, með öllum þeim óstöðugleika sem því fylgir, eru háværar kröfur um að við fáum að njóta þess sem kallað er "norræn velferð". Ef fólkið "meikar" það ekki á þessu landi og fær ekki fullnægjandi aðstoð þegar ekkert gengur, þá er horft til nágrannalandanna þar sem, jú, skattar eru háir, en launin eru hærri og samfélagið veitir á móti þjónustu án endurgjalds. Þar er ekki greitt fyrir læknisþjónustu, túlkaþjónustu og skóla svo einhver dæmi séu nefnd.  Þessi samfélög eru kannski ekki mjög spennandi fyrir fólk sem elur í brjósti sér íslenska drauminn. Þau eru  fyrirsjáanleg og kannski frekar leiðinleg að einhverra mati, en veita á sama tíma öryggi og stöðugleika.

Lukkuriddarar samtímans berja á því að þetta land sé land hinna frjálsu, land möguleikanna, landið þar sem fólkið getur orðið svo óendanlega ríkt af veraldlegum auði. Það er minna gert úr því að þetta sé ef til vill einnig landið þar sem yfirborðsmennska, populismi, sjálfsdýrkun og plebbaskapur eru helstu einkennin.

Ég held að fari ekkert á milli mála hvora tegund þjóðfélags ég aðyllist. Þessi þjóð veit hinsvegar varla í hvorn fótinn hún á að stíga.



01 apríl, 2015

Iðuferja á ný

Ég á stundum leið niður að Hvítárbrú eða Iðubrú, eins og við köllum hana venjulega. Þar er alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Í morgun, þegar ég ætlaði að athuga hvort einhverjir fuglar væru sjáanlegir til að ég gæti æft mig við myndatökur, blasti við mér heldur óvenjuleg sjón. Sjón sem ég hef ekki séð á þessum stað í ein 50 ár.  Úti á miðri ánni var sérkennilegur bátur. Ég varð auðvitað agndofa, en tókst þó að smella einni mynd, en að öðru leyti velti ég fyrir mér hvað væri í gangi.  Þar sem báturinn var á leið að bakkanum austan megin fékk ég fljótlega þær upplýsingar sem ég þurfti.
Nýtt fyrirtæki sem hefur hlotið nafnið Áriða ehf. ætlar að gera tilraun með að sigla með ferðamenn upp og niður Hvítá á komandi sumri. Þessar ferðir verða bæði útsýnisferðir og svokallaðar partíferðir þar sem litlir hópar geta leigt bátinn með manni og mús, hvort sem er um helgi eða bara eina kvöldstund.
Þau sem standa að Áriðu eru hjónin Elsa Dagbjartsdóttir og Hallsteinn Sigurgeirsson, en þau hafa undanfarin 15 ár búið í Thailandi. Þau ákvaðu í fyrra að flytja heim til Íslands og jafnframt að flytja heim með sér bátinn, sem þau höfðu haft atvinnu af í litlum bæ, Laem Chabang, sem er skammt frá Bangkok. Þar stunduðu þau siglingar með ferðamenn í allmörg ár og eru því þaulvön.
Ég fékk að prófa að sigla um ána í morgun og það var einstaklega gaman að sjá Laugarás og Iðubrúna frá alveg nýju sjónarhorni.
Í dag ætla þau Elsa og Hallsteinn að bjóða gestum í stutta prufusiglingu.

29 mars, 2015

Einskis manns eða allra.

Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð  þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti  þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.

Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.

Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.

Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.

Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.

Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.

Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.

Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.

Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.

14 mars, 2015

Hreinn og beinn

Starfsfólk ML fór í námsferð á Íslendingaslóðir í Kanada 2008
og þar fann Hreinn Silfur hafsins á bókasafni Manitóbaháskóla
og var sáttur við það. 
"Vitiði hvernig við gerðum þetta í Héraðsskólanum?" Auðvitað vissi það enginn og það voru ekki margir sem voru yfirleitt tilbúnir að fá kynningu á því hvernig þeir höfðu gert þetta í Héraðsskólanum. Þarna var á ferð andblær sögunnar eða reynslunnar að freista þess að fá áheyrn í nútímanum, en eins og mér er nú orðið ljóst og líklega öllum þeim sem búa yfir langri reynslu, að smám saman hættir nútiminn að hlusta á söguna, ef reynslan passar ekki inn í nútíma aðstæður. Sprenglærður nútíminn telur sig vita betur en svo að það þurfi að leita til öldunga um ráð sem duga.

Hreinn Ragnarsson kom með fjölskyldu sinni á Laugarvatn 1970 og hóf að kenna við Héraðsskólann. Eftir því sem líftími Héraðsskólans styttist lét Hreinn sig flæða æ meir inn í kennslustofur menntaskólans. Mér finnst þetta hafi bara gerst einhvernveginn af sjálfu sér.

Í annarri ferð starfsmanna ML, til Bæjaralands 2011,
varð á vegi okkur sölubás í Nürnberg þar sem hægt var 
að kaupa MATJES. Ég fékk fyrirlestur um það fyrirbæri, sem
er einhver ákveðin síldartegund.
Hreini kynntist ég til að byrja með í gegnum blakæfingarnar og blakleiki í gamla íþróttahúsinu við Héraðsskólann þegar ég var í ML í upphafi 8 áratugar síðustu aldar. Mér fannst hann í eldri kantinum (rétt ríflega þrítugur) eins og aðrir kennarar á staðnum sem stunduðu blakið af krafti með okkur ML-ingunum. Síðan áttum við samleið að hluta þegar við renndum okkur saman í gegnum uppeldis- og kennslufræði  við HÍ nokkrum árum seinna, en á þeim tíma stundaði hann þar framhaldsnám í sögu og íslensku. Síðan var það ekki fyrr en ég kom aftur á Laugarvatn 1986, sem starfsmaður ML að leiðir okkar lágu saman á ný og upp frá því var það svo.

Ætli mér sé ekki óhætt að segja að Hreinn hafi verið kennari af gamla skólanum, eldri skóla en mínum og ævafornum skóla ef tekið er mið af nútíma kennsluháttum. Á hans tíma í Héraðsskólanum var kennarapúltið á upphækkun svo vel sæist yfir. Þar sat kennarinn oftar en ekki og talaði við eða yfir bekkinn milli þess sem nemendur voru teknir upp með því að þurfa að svara spurningum eða skila af sér verkefnum á töflunni.  Ég kenndi um tíma í Héraðsskólanum undir lokin á skólahaldi þar og þá voru þar þessar upphækkanir, sem gerðu ekkert nema þvælast fyrir þar sem ég með mína, þá nýjustu kennsluhætti, dansaði um stofuna fram og til baka, stundum gleymandi upphækkuninni og því hrasandi fram af henni eða hrasandi um hana. En svona var hlutunum fyrir komið í Héraðsskólanum og því varð ekki breytt.

Það áttu sér stað umtalsverðarbreytingar á kennsluháttum á þeim tíma sem Hreinn starfaði í ML. Hann hélt nú samt sínu striki og framkvæmdi sín verk eins og hann taldi að best hentaði markmiðunum. Ég skil hann nú og finn það á sjálfum mér hve fjarri nútíma kennsluhættir eru þeim sem mér voru innrættir á sínum tíma. Um það gæti ég sagt margt en læt það vera þessu sinni.

Þeir sem starfa lengi í kennslu kynnast stöðugum breytingum á starfsumhverfi sínu, en þegar upp er staðið eru það ekki kennsluaðferðirnar sem eru úrslitaatriðið þegar gagnsemi kennslunnar eða námsins eru metin, heldur eðlislæg hæfni til starfsins og þekkingin á viðfangsefninu.  Hreinn hefði líklega ekki starfað við kennslu alla sína starfsævi nema hafa það til að bera sem þurfti. Hann bjó yfir djúpri þekkingu á viðfangsefnum sínum og gat tekið að sér ólíkar námsgreinar. Hann átti í engum vandræðum með að tjá sig og koma efninu til skila þannig að unga fólkið hefði af gagn bæði og gaman, kysi það svo. Mig grunar, eða réttara sagt ég veit, að tilkoma tölvunnar inn í skólastarfið, hafi ekki verið honum sérlega að skapi og hann taldi sig ekkert sérstaklega knúinn til að tileinka sér neina umtalsverða færni á því sviði. Með tilkomu fartölvunnar fór Hreinn fram á að nemendur stunduðu frekar prjónaskap í kennslustundum en tölvuspil.

Þar kom þó að Hreinn fékk ekki hunsað tölvuöldina og þar kom til lokafrágangur á stórvirki hans Silfur hafsins, gull Íslands. Það þurfti að lesa yfir, bæta við og lagfæra og ég reikna fastlega með að við þá vinnu hafi Hreinn uppgötvað nytsemi tölvunnar þó hann hafi aldrei viðurkennt hana eða tekið í sátt í orði.

Samstarfsmaðurinn Hreinn var, í mínum huga, tengingin við söguna. Hann var þar í flokki með Kristni skólameistara og Óskari Ólafssyni. Ég er af þeirri kynslóð sem þeir félagar leiddu í gegnum skólana á Laugarvatni ég var svo gæfusamur að fá að kynnast þessum ágætu körlum frá ýmsum hliðum. Ég hafði skilning á stöðu þeirra í því flóði breytinga sem með reglulegu millibili æðir fyrir skólakerfið. Ég skildi og skil efasemdir þeirra um að við værum á réttri leið með uppfræðslu ungmenna.

Hreinn kenndi ML-ingum á bíl áratugum saman og ökukennslan og umferðarmál voru honum alltaf ofarlega í huga. Hann hélt áfram að kenna á Nissan eftir að að lét gott heita í störfum utan heimilis að öðru leyti.

Oft lá leið piltsins upp í menntaskóla eftir að hann hætti þar störfum, en frú Guðrún (fG) starfaði þar áfram nokkur ár eftir að Hreinn hætti.

Hreinn lést þann 3. mars, s.l. og útför hans fór fram frá Skálholtskirkju í gær. Ég reikna ekki með að gleyma kynnunum af honum í bráð.






Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...