22 nóvember, 2015

Skálholtskórinn til Þýskalands og Frakklands 1998 (1)


Það sem hér birtist í tveim hlutum er ferðsaga sem ég færði í letur í nóvember 1998 og hún birtist síðan í Litla Bergþór, (19. árg. 3. tbl, desember 1998).
Ferðasöguna birti ég einnig á vefsíðu sem ég var þá að reyna að koma mér upp, en umsýsla með henni fjaraði út, þó enn hangi hún þarna eftir um 20 ár. Internetið gleymir engu.

Ég fór að leita að myndum úr þessari ferð,af tilteknu tilefni, eitt leiddi af öðru og ég ákvað að setja þessa ferðasögu hér inn og tengja hana við myndirnar sem voru teknar á myndavél í minni eigu í ferðinni. Þetta geri ég nú bara til að halda þessu til haga - geri ekki ráð fyrir að fólk fari að leggja í lestur, enda margt þarna sem aðeins þeir sem í ferðinni voru munu mögulega skilja.

Textann hef ég óbreyttan og óaðlagaðan. Slóðin á myndirnar

Ferð Skálholtskórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands 1.- 8. október 1998 

1. hluti

tímalaust

tilurðin, ábyrgðin, frásögnin

Sú frásögn sem hér fer á eftir er ekki opinber ferðasaga Skálholtskórsins þó svo hún greini nokkurn veginn í réttri tímaröð frá því sem gerðist í ferðinni. Ýmsir atburðir eru færðir í stílinn til að fullnægja kröfum um óábyrga frásögn. Ég valdi þá leið að fjalla ekki um fólk undir nafni nema í undantekningartilfellum. Ástæða þess er aðallega sú, að með því að fjalla um nafngreint fólk er höfundur að taka á sig meiri ábyrgð en ég er tilbúinn til á þessu stigi. Ef þið lesendur góðir teljið ykkur þurfa nánari útskýringar á því sem ýjað er að í frásögninni þá skuluð þið bara hafa samband við einhvern þeirra sem í ferðina fóru. Meðfylgjandi er listi yfir þá. Ég fékk í hendur punkta frá Perlu, formanni og hef nýtt þá mikið, bæði beint og óbeint, þannig að hennar hlutur í frásögninni er umtalsverður. Hinsvegar verð ég einn að teljast ábyrgur (svo fremi að hægt sé að tala um ábyrgð í því sambandi, því ég hef þegar vísað frá mér ábyrgðinni og gert grein fyrir því) fyrir skrifunum en tek það strax fram, að öllum hugsanlegum ákúrum fyrir óvönduð eða ófagleg vinnubrögð við skriftirnar vísa ég til föðurhúsanna fyrirfram.

miðvikudagurinn, 30. september 

eftirvæntingin, lýsingin, flugstöðin 

Það er nú varla hægt að segja annað en að hópur sá, sem tók sig upp frá landinu elds og ísa að morgni hins 1. október, hafi fundið til eftirvæntingar og spennu. Eftirvænting og spenna eru hér notuð einvörðungu í þeim tilgangi að nota einhver lýsingarorð um allar þær kenndir sem ég tel að hafi bærst í hugum og hjörtum ferðalanganna úr hinni íslensku sveit þennan dag. Reyndar var það nú svo, að til að taka örlítið forskot á dýrðina dvaldi stór hluti hópsins, sem utan fór, á Hótel Keflavík nóttina fyrir brottför. Því var ég fegnastur þar, að hafa ekki kvartað undan því við hótelstjórann, að rafmagni á herberginu okkar hjóna hlyti að hafa slegið út. Hefði ég gert það hefði komist upp þvílíkur sveitamaður var hér á ferð. Það var nefnilega svo á þessu hóteli, að til þess að "ræsa" lýsinguna í herberginu þurfti að beita lykilígildinu á þar til gerðan útbúnað.

fimmtudagurinn, 1. október 

morgunverðurinn, fríhöfnin 

Klukkan 4.30 var risið úr rekkju, snæddur indæll morgunverður og því næst haldið í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einhvern veginn hefur það þróast þannig að Fríhöfnin er nauðsynlegur þáttur í utanferð hvers Íslendings; táknmynd fyrir hinn framandi heim sem ekki allir fá að upplifa og njóta. Þeir sem komast í þá aðstöðu þurfa að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eyða þar drjúgum tíma áður en þeir setjast upp í Flugleiðavélina og ferðin yfir Atlantshafið hefst. Þetta allt gerðist þarna.

2. hluti - Þýskaland

Erst Deutschland 

rútan, Bæjarajakkinn, afþrýstibúnaðurinn 

Ferðin yfir hafið hafði sinn endapunkt í Luxembourg í hlýju veðri, og gaf það góð fyrirheit um framhaldið. Rútubílstjórinn sem þar tók þar á móti okkur og seldi okkur gosdrykki, meðal annars, alla ferðina á 2 mörk, er íslenskur og við það létti sumum ferðalanganna töluvert, hann myndi skilja hið sérstaka íslenska hegðunarmynstur sem yrði áberandi í rútuferðum og annars staðar næstu 8 daga.

Ferðin frá flugvellinum til næsta áfangastaðar tók nokkra stund og reyndi leiðsögumaðurinn að fræða landann um sögu svæðisins. Athyglin var upp og ofan hjá farþegum.

Til hinnar sögufrægu borgar Trier kom hópurinn. Gengu menn þarna frá borði rétt við hið forna borgarhlið, Porta Nigra (Svarta hliðið) . Út frá hliðinu var síðan aðal verslunargatan í bænum. Voru menn fljótir að finna helstu stórmarkaðina á svæðinu: Kaufhof og Karstadt (undirritaður reyndist hafa klætt sig á ófullnægjandi hátt fyrir þann lofthita sem var á staðnum, svo hann varð sér þarna úti um jakka einn ágætan, sem kórstjórinn síðar tjáði honum að kallaðist "Bæjarajakki" og að ekkert vantaði á hann nema merki þýskra þjóðernissósíalista.) Þarna dvöldum við um stund svona aðallega til að fá tilfinningu fyrir hinu erlenda andrúmslofti, svona eins og þegar kafarar eru settir í afþrýstibúnað. Fyrir utan að kynna sér verslunarhætti þýskra, setjast á útikaffihús og virða fyrir sér fornar byggingar, kynntust nokkrir úr hópnum lífi innfæddra næstum því náið, að því er sagt er.

Á tilsettum tíma hittist svo hópurinn á tilsettum stað og hafði ferðalöngunum flestum tekist ná aftur yfirvegun hugans. Þótti þá einhverjum við hæfi að hefja umræðu um íslensk sveitastjórnarmál, og segir ekki fleira af þeirri umræðu.

Síðasti áfanginn þennan daginn var stuttur spölur til smábæjarins Leiwen í

Móseldalnum, en þar var síðan samastaður okkar næstu fjóra daga.

vínræktin, hjónarúmið

Beggja vegna árinnar Mósel eru hlíðar dalsins þaktar vínviði. Þar er nú aldeilis ekki eyðilegt um að litast. Viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þorpið Leiwen er fremur ríkmannlegt, enda býr þar vínræktarbóndi í nánast hverju húsi (Weingut), auk þess sem stór hluti íbúanna hefur atvinnu af ferðaþjónustu.

Þegar inn í þorpið var komið tók Ásborg þeirra Leiwenmanna, Frau Spieles-Fuchs, á móti okkur og vísaði okkur til dvalarstaða, en hópurinn dvaldi þarna í nokkurs konar bændagistingu vítt og breitt um þorpið á einum átta stöðum segja þeir sem töldu.

Það verð ég að segja, fyrir okkur hjónin í það minnsta, að á betra varð ekki kosið í aðbúnaði öllum á þessum stað. Í okkar hlut kom íbúð með baðherbergi, eldhúsi og risastóru hjónarúmi. Það sama held ég sé hægt að segja um flesta aðra.

kvöldverðurinn, aðlögunin

Það var hjá stórhöfðingjanum Jóhanni Lex sem allir komu saman eftir að hafa tekið upp út töskunum. Lexarnir reka nefnilega all umfangsmikla ferðaþjónustu auk vínræktarinnar og fóru því létt með að taka við ríflega 40 manns í kvöldmat. Þarna var borið fram hið indælasta "schweinerschnitzel" að hætti þeirra Leiwen manna (í 98% tilvika gerði svínakjöt ferðalöngunum gott, þannig að á annað verður ekki minnst.) Eftir matinn skemmti hópurinn sér hið besta við söng og grín fram eftir kvöldi, eins og sagt er.

Það var feikilega dimmt í Leiwen á þeim tíma sólarhrings sem hér um ræðir og því ekki að undra, og reyndar vel skiljanlegt, að ferðalöngunum hafi gengið misvel að finna sinn næturstað þessa nótt. Ýmsar sögur gengu svo sem meðal fólks um óvænta gesti, en skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því að þetta var dimmt, framandi umhverfi og kennileiti fá, í það minnsta verður sú skýring að duga.

Til þess var sömuleiðis tekið um tíma, hve utan við sig faglegur stjórnandi hópsins er sagður hafa verið. Það verður í því sambandi að taka mið af því hvílíkt álag var á stjórnandanum við þessar aðstæður. Hann var þarna mættur með heilan kór á erlenda grund til að syngja í stærstu kirkjum fyrir háa sem lága, hátt og lágt, sterkt og veikt. Eðlilega var hann með hugann við það vandasama verkefni sem framundan var, en ekki húsdyralykil. Lyklinum hélt hann auðvitað á í hendinni allan tímann sem leit stóð yfir að honum. Ég veit ekki einu sinni til hvers ég er yfirleitt að minnast á þennan lykil!

Það annað sem nefna má, og sem fylgdi þessu kvöldi (þegar ég segi "kvöldi" er það auðvitað ekki mjög afmarkað hugtak) var auðvitað að sá kvittur heyrðist morguninn eftir, að líkur væru á að heimilisfólki á nokkrum bæjum í íslenskri sveit fjölgaði. Staðfestingar er enn beðið á því hvort nokkur fótur er fyrir þessu.

föstudagurinn, 2. október

klettasyllan, kastalinn, Jungfrauin, söngurinn, iðnaðarmennirnir, þrautagangan, útsýnið

Undir hádegið var lagt í hann til Bernkastel, og voru allir endurnærðir eftir góðan nætursvefn (svona er þetta orðað í ferðasögum).

Á leiðinni um Móseldalinn var mest áberandi, auk árinnar Mósel, vínviðurinn. Hver einasti skiki lands, í bókstaflegri merkingu, er þarna nýttur til ræktunar vínviðar. Ef einhvers staðar var smá klettasylla þá hafði þar verið plantað 5-6 vínviðartrjám. Í fljótu bragði verða vinnuaðstæður þarna í hlíðunum að verða að teljast illa viðunandi, á íslenskan mælikvarða.

Borgin Bernkastel-Kues á sér langa sögu og merkilega, sem ég treysti mér ekki til að rekja hér, enda alger óþarfi þegar hafður er í huga tilgangurinn með þessum skrifum. Það verð ég hinsvegar að segja að sagan helltist yfir okkur þarna í formi þess andrúmslofts sem við upplifðum á þessum stað. Þröngar göturnar, bindiverkshúsin og kastalarústirnar. Þetta var eins og að ganga inn í gamalt ævintýri.

Iðnaðarmennirnir í hópnum urðu fyrir vægri heilabilun…jæja, allavega smávægilegu menningarlegu áfalli, þegar þeir litu þá byggingarlist sem þarna hafði tíðkast. Ég fullyrði hér með að, þarna hafi þeir áttað sig á því að það er hægt að reisa falleg hús án þess að vinklar, tommustokkar eða hallamál komi mikið við sögu. Ég tel að þeir komi miklu frjálslyndari að þessu leyti til baka og þess muni sjást merki í húsagerð í uppsveitunum á næstu árum.

Á litlu torgi, sem iðaði af mannlífi og sögu, tróðum við upp fyrsta sinni í ferðinni og það með glæsibrag. Þarna var gefinn tónninn fyrir framhaldið.

Í fjarska glitti í kastalarústir. Þangað lögðu flestir leið sína. Og leiðin var löng og ströng: í það minnsta 2 km. og öll upp á við. Það verður að segjast eins og er, að í það minnsta ég var þeirrar skoðunar á tímabili, og reyndar heyrði ég aðra einnig hafa á því más á leiðinni upp að kastalanum, að þarna hefði ef til vill verið færst of mikið í fang. Hreppsnefndin í Bernkastel-Kues þyrfti að huga að því að koma þarna upp svona nokkurs konar togvíralyftu eins og tíðkast í Ölpunum til að ekki verði gert upp á milli ferðalanga eftir því hvort þeir stunda keppnisíþróttir að staðaldri eða ekki.

Hún gleymdist fljótt, þrautagangan þegar upp var komið. Köstulum var valinn staður með tilliti til þess hve víðsýnt var (þetta er nú speki sem varla er þörf á að hafa mörg orð um). Þessi kastali er engin undantekning. Ef ekki hefði komið til nagandi samviskubit vegna aumingja þjónustustúlkunnar, "Die Bernkastler Jungfrau", sem stóð og reytti hár sitt yfir þessu vandræðafólki sem þarna helltist yfir hana óundirbúna og krafðist þess að fá að borða, meira að segja úti, þá finnst mér að kastalagangan hafi verið einn af hápunktunum í þessari ferð.

Sökum þess hve tímafrek máltíðin í kastalaveitingahúsinu varð, gafst minni tími til að rölta um hjarta bæjarins og njóta andblæs liðinna alda í bland við höfgan ilminn af Kebab og Bratwurst. Þetta gerði samt hver sem betur gat, þó mest þau þrjú sem ekki lögðu í brattann.

snitzelin, salatbarinn, knattspyrnuleikurinn

Þetta kvöld fór hópurinn á veitingahús að borða. Borðhaldið hófst með salathlaðborði. Það hvarf snarlega í maga, og það þrátt fyrir að einhver teldi sig hafa orðið vara við líf í því. Þá gat fólk valið um 3 tegundir af svínakjöts Schnitzel í aðalrétt: Wienerschnitzel, Jägerschnitzel og einhverja þriðju tegund af Schnitzel. Megin munurinn á þessum þrem tegundum var sósurnar. Um 2% hópsins fengu nautasteik.

Þarna var sem sagt borðað og sungið í kapp við knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Segir ekki meira af þessu kvöldi, enda flestir tilbúnir að hvílast eftir fjallgönguna.

laugardagurinn, 3. október

stundvísin, kirkjurnar, baðhúsin

Það var nú bara haldið snemma af stað þennan daginn, því margt var á dagskránni – eins og reyndar allan tímann. Íslendingar hafa það orð á sér að sveigja fyrirmæli og reglur án þess að hafa svo sem stórar áhyggjur af því. Það bar eðlilega á þessum eðlisþætti í þessari ferð. Þetta gerir þá bara auknar kröfur á útsjónarsemi fararstjórans og sveigjanleika ferðaáætlunarinnar. Það getur þó komið fyrir að seinkun í ferðaáætlun geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, eins og varð þennan dag. Þarna varð alvarlegur árekstur milli hins mikla heraga og reglufestu sem Þjóðverjar hafa tamið sér, en ekki Íslendingar. Kem ég að því hér nokkru síðar á þessum degi.

Hópurinn hélt nú aftur til Trier, hinnar fornu borgar Rómaveldis. Þar hittum við annan tveggja kórstjóra sem tóku á móti okkur í tónlistarlegum skilningi, í ferðinni. Þetta var hann Heiko. Þarna fengum við hina bestu leiðsögn um borgina; kynntumst glæsilegum dómkirkjum og rómverskum baðhúsum.

Meginmarkmið okkar sumra var náttúrulega að leyfa þeim sem kost áttu á, að njóta þeirrar fegurðar sem sönglist okkar hafði upp á að bjóða. Af þessum sökum tók Skálholtskórinn lagið hvar og hvenær sem unnt var eða leyft, alla ferðina. Þess vegna fer ég ekkert að tilgreina hvert einstakt tilvik þar sem kórinn hóf upp raust sína. Þarna í Trier fórum við í þrjár risakirkjur: dómkirkjuna, Maríukirkjuna, sem var næstum sambyggð dómkirkjunni og var í laginu eins og rós, sem mun vera tákn hinnar helgu meyjar, og síðan í feikilega stóra mótmælendakirkju, sem átti sér sögu frá tímum Rómaveldis og hafði gengt ýmsum hlutverkum á þeim tíma sem liðinn er síðan þá.

elliheimilið, áheyrendurnir

Eftir kirkjuskoðunarferðina var komið að hádegisverði sem beið okkar á elliheimili í göngufæri frá miðborg Trier. Eftir á að hyggja var sú leið sem fara þurfti nú ekki ýkja flókin, en reyndist þó flóknari en svo að öllum tækist að rata, meira að segja þó allir væru í einum hóp með Heiko í fararbroddi.

Maturinn á elliheimilinu tókst hið besta og þetta var sérlega snyrtileg og hlýleg stofnun. Næstum því örugglega einkarekin og fyrst og fremst á færi ákveðins þjóðfélagshóps að eyða þar síðustu árunum.

Þá kem ég að frásögninni af árekstrinum milli íslenskrar og þýskrar menningar. Okkur þykir ekki tiltökumál þótt eitthvað dragist fram yfir tilsettan tíma að mæta á samkomur eða fundi, en það finnst Þjóðverjum hinsvegar. Skálholtskórinn og föruneyti kom til hádegisverðarins svona hálftíma - klukktíma of seint miðað við þá áætlun sem gerð hafði verið. Þannig er það með eldra fólk, eins og ungabörn, að það þarf á meiri hvíld að halda en gengur og gerist um þá sem eru á besta aldri, eins og sagt er. Í stuttu mál gerðist það þarna, að þegar Skálholtskórinn og föruneyti hafði lokið við að snæða hádegisverð og hugðist taka til við að syngja nokkur lög fyrir íbúana, eins og um hafði verið samið þá var, samkvæmt klukkunni, kominn hvíldartími eldri borgaranna. Og þegar sá tími var kominn þá hvíldu eldri borgararnir sig, hvað sem tautaði og raulaði. Allir utan tveir. Í samkomusalnum sátu tvær gamlar konur (sem eiga alveg örugglega ættir sínar að rekja til föðurlands vors). Það skipti engum togum að Skálholtskórinn upphóf þarna raust sína fyrir þessar gömlu konur og það reyndist alveg þess virði. Það sannaðist þarna eins og svo oft áður, að það er ekki magnið sem skiptir máli, heldur gæðin. Þessir áheyrendur fóru glaðari af fundi okkar. Hinir sváfu svefni hinna réttlátu eins og reglur gerðu ráð fyrir. Heiko sannaði þarna snilli sína sem hljóðfæraleikari þar sem hann var undirleikari okkar við Húmljóð Lofts S. Loftssonar. Hann spilaði þarna óaðfinnalega verk sem hann var að sjá í fyrsta sinn.

baðhúsin, garðurinn, kommúnísminn

Eftir viðkomuna á elliheimilinu var haldið áfram um stund skoðunarferðinni um Trier. Við komum þarna við í rústum rómverskra baðhúsa og garði keisarahallar og var hvort tveggja eftirminnilegt. Ég hafði fyrir tilviljun rekist á að einhvers staðar í Trier hafði Karl Marx fyrst séð ljós þessa heims. Mig langaði töluvert að sjá staðinn þar sem það gerðist. Á leið okkar um borgina heyrðist mér ég einu sinni heyra fararstjórann okkar spyrja fólk hvort það langaði að heimsækja staðinn þar sem þessi áhrifamikli einstaklingur fæddist, en viðbrögð hópsins, allavega þeirra sem hæst létu, voru á þann veg að ég treysti mér ekki til að hvetja til heimsóknarinnar. Þar fór það. Öreigar allra landa, sameinist!

messan, kaþólikkarnir, kuldinn, trúarbragðastyrjöldin

Það sem næst var á dagskrá ferðarinnar var söngur við messu í bæ sem heitir Fell. Þessi messa var kl. 18.00 og því lá á að drífa sig heim til Leiwen og skella sér í kórgallann: svörtu buxurnar, hvítu skyrtuna, græna vestið, SVARTA BINDIÐ og viðeigandi búnað annan.

Með Skálholtskórnum sungu við þessa messu tveir kórar, annar var kirkjukórinn á staðnum undir stjórn Heikos og ekki veit ég hvaðan hinn var, en stjórnandinn var yngri bróðir Heikos sem heitir Ralf. Þannig var, að þessi messa var sú fyrsta í kirkjunni um all langan tíma þar sem umfangsmikil viðgerð hafði staðið yfir á henni. Þarna var kirkjusókn góð og söngurinn ekki síðri. Í messunni las séra Egill ritningarorð.

Með einhverju móti hafði sú hugmynd skotið upp kollinum, allavega í huga prestsins á staðnum, að Skálholtskórinn væri kór kaþólska safnaðarins á Íslandi. Þetta held ég að ekki hafi tekist að leiðrétta, allavega ekki formlega, enda breytir það sjálfsagt ekki neinu. Trúarbragðastyrjaldir heyra sögunni til, og þó…….

Ég hef fengið ábendingu um að geta þess sérstaklega að eitthvað skorti á að hitakerfið í kirkjunni virkaði sem skyldi og að innfæddir hljóta að hafa haft af því pata. Þeir komu til messu dúðaðir í hlý föt, meðan Frónbúar gerðu enn ráð fyrir því, á þriðja degi ferðarinnar, að það væri hlýtt í Þýskalandi á þessum árstíma. Eftir messuna heyrðust heitingar um að kvarta aldrei aftur yfir kulda í Skálholtskirkju.

móttakan, lopapeysurnar, veiðimaðurinn

Að lokinni messunni buðu kórarnir okkur til móttöku í safnaðarheimili sínu. Nóg var þar af hvítvíni, pylsum, kjötbollum, osti og brauði. Þarna undum við okkur hið besta um stund hjá sérlega gestrisnu og alúðlegu fólki. Það var þarna sem þeim Heiko og Ralf voru afhentar lopapeysurnar sem Helga María prjónaði (fallegar peysur að sjálfsögðu). Það mun hafa verið kórstjórinn Hilmar sem hafði gefið upp málin á þeim bræðrum, sem peysurnar voru síðan prjónaðar eftir. Vandinn var bara sá, að þegar hann sá þá bræður síðast var Heiko frekar lágvaxinn og grannur, en núna bara lágvaxinn, og Ralf hafði einnig verið lágvaxinn og grannur, en núna hvorki lágvaxinn né grannur. Þetta kom þó ekki að sök, því hefðbundnar íslenskar lopapeysur eru yfirleitt víðar. Nú vill hinsvegar svo til, að tískan hefur ákveðið að þær skuli vera þröngar. Þær voru sem sagt bara alveg eins og til stóð þegar upp var staðið. Helsta áhyggjuefni Hilmars, fyrir utan það að eiga að halda utan um stjórnina á kórnum, hafði þar með verið rutt úr vegi.

Einn makinn hvarf þarna út í nóttina með skuggalegum, þýðverskum veiðimanni og skildi eiginkonuna eftir á nálum. Myndi hún nokkurntíma sjá elskuna sína aftur? Ó, já - makinn kom aftur, hlaðinn gjöf. Ekki skal fullyrt neitt um það hvort þetta voru heimagerð ilmkerti, en svo mikið er víst að plastpokinn utan um gjöfina ilmaði heil ósköp.

Hugmyndin, sem upp hafði komið um að kíkja á hátíð í nágrenninu þetta kvöld, reyndist sjálfdauð þar sem það var orðið áliðið þegar heimsókninni til Fell lauk. Þessi laugardagur var nefnilega þjóðhátíðardagur í Þýskalandi; dagurinn þegar þýsku ríkin voru sameinuð.

Í stað hátíðarinnar héldum við heim til Leiwen.

sunnudagurinn, 4. október

samhljómurinn, heimsklassinn, toppurinn

Þegar svona hópur fær tækifæri til að eyða nánast öllum sólarhringnum saman (sumir kannski mis ánægðir með það) við söng, borðhald og ekki síst allt það nýja sem mætir honum nánast í hverju skrefi, verður vart hjá því komist að það myndist einhver óútskýranlegur samhljómur í honum. Sama reynsla, sama hugsun eykur líkurnar á að það finnist hinn eini sanni hljómur.

Þetta er allavega sú skýring sem ég hef á því sem gerðist þennan dag á tónleikum Skálholtskórsins með kirkjukórnum og karlakórnum í Leiwen, sem voru haldnir í kirkjunni þeirra Leiwenbúa. Ég ætla hér að gefa Perlu, formanni orðið: "Þetta voru skilyrðislaust bestu tónleikar sem haldnir hafa verið hjá okkur. Það var eins og fólkið hafi lent í einhvers konar leiðslu, ekki bara einn eða tveir, heldur allir" Ég held að ég geti bara tekið undir þetta. "Weltklasse!"

skugginn, slysið, drykkirnir, þvotturinn,

Allt annað, sem gerðist á þessum síðasta degi í Þýskalandi, féll í skuggann. Meira að segja ímynduð stórslys sem áttu að hafa átt sér stað þegar hundtryggir eiginmenn mættu ekki á "treffpunkt" á réttum tíma, eða þegar ákveðinn fjöldi kóladrykkja var pantaður með matnum um kvöldið, eða þegar verið var að gera upp við Frau Spieles-Fuchs á heimili hennar, eða þegar gerð var tilraun til að þvo óhrein föt á ónefndum stað og tíma og allt hitt. Svona er nú lífið.


framhald..........

21 nóvember, 2015

Hlátur hljóðnar

Magga ásamt sr. Agli Hallgrímssyni
í garðveislu sem kórnum var boðið
til í Mülheim í Þýskalandi árið 1998
"Hvaða kona er þetta eiginlega?"
Aðstæðurnar voru þær, að leikhópur Menntaskólans að Laugarvatni var að sýna leikritið Land míns föður í Félagsheimili Seltjarnarness og leikararnir áttu erfitt með það halda andlitinu í hlutverkum sínum vegna þess að einhver kona úti í sal hló svo innilegum og smitandi hlátri að öllu því sem talist gat fyndið eða skemmtilegt í verkinu.
Konan var hún Margrét Oddsdóttir, eða Magga Odds.

Magga Odds lést þann 13. nóvember síðastliðinn, á 62. aldursári, nokkrum mánuðum yngri en ég.  Útför hennar fer fram frá Skálholtskirkju í dag.

Þýskaland 1998: Áning með tilheyrandi.
Þarna má líta Geirþrúði Sighvatsdóttur,
Pál M Skúlason og Gísla Einarsson
Enn einu sinni er maður minntur á að maður getur ekki gengið að neinu vísu þegar um er að ræða ævilengdina.  Með Möggu er látinn fjórði einstaklingurinn á nokkrum mánuðum, úr hópi fólks sem ég þekki til og sem voru á svipuðum aldri og ég. Í öllum tilvikum var krabbameinið afgerandi þáttur í því að lífsganga þeirra fékk ekki að verða lengri.  Svona er það nú bara.Við hin höldum áfram þann tíma sem okkur er mældur.
Magga kom í Tungurnar um svipað leyti og ég sneri aftur til að kenna í Reykholtsskóla. Hún og þáverandi maður hennar, Páll Óskarsson frá Brekku, byggðu yfir sig Brekkuskógi. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, Odd Óskar, Heklu Hrönn og Kristin Pál, en þar kom að leiðir hjónanna skildi. Magga var þó áfram í Tungunum þar til hún tók sig upp og flutti á Suðurnesin í einhver ár. Síðan kom hún aftur og bjó í Reykholti til dauðadags.
Kórferð til Ítalíu 2007: Vatíkanið
Magga Odds var stór. Sannarlega var hún stórvaxin, en ég held að enn meira máli hafi skipt að hún hafði stórt hjarta. Konan var mikill ljúflingur, hress og brosmild og hláturmild og bar það ekki utan á sér ef líf hennar var ekki alltaf dans á rósum.
Snertifletir mínir við þessa ágætis konu voru aðallega af tvennum toga. Annarsvegar fæddust elstu börnin okkar árin 1977 og 1979. Þar með hittumst við nokkuð á vettvangi grunnskólans.  Hinsvegar vorum við saman í Skálholtskórnum um alllangt skeið, en í gegnum kórstarfið var ýmislegt brallað fyrir utan sönginn og með okkur tókst ágætur kunningsskapur. Skálholtskórinn fór reglulega í söng- og skemmtiferðir til útlanda á þeim tíma sem við vorum þar. Meðal annars fórum við eftirminnilega ferð kórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands í október 1998 og í mikla Ítalíuferð árið 2007, en þá held ég að Magga hafi komið með sem svokallaður áhangandi.

Kórferð til Ítalíu 2007: Caprí. Magga
ásamt, Dröfn , Hilmari, Hófí,og Þrúðu
Það er nokkuð síðan ég frétti af því að Magga hefði greinst með meinið sem hefur nú lagt hana að velli. Ætli ég hafi ekki hitt hana síðast fyrir um hálfu ári síðan, talsvert breytta, en augljóslega með sama hjartalagið.

Hér er horfin á braut ein af þeim manneskjum sem maður hefur aldrei haft nema gott eitt af að segja. Ef Magga átti einhverjar aðrar hliðar þá voru þær mér huldar.


17 nóvember, 2015

Það tókst

F.v. Magnús, Ólafur, Helgi, Halla, Héðinn, Jónína,
Kristján, Páll, Haraldur, Lára, Baldur, Smári,
Björn, Jarþrúður, Jason, Hólmfríður og Eiríkur.
Myndina tók einkaþjónn hópsins 
og notaði til þess myndavél Eiríks Jónssonar.
Þetta á ekki að vera ellibelgsblogg, enda standa vonir til að ævidagarnir sem framundan eru verði margir og vonandi farsælir. Auðvitað er maður samt farinn að hugsa til þess sem bíður, en ég mun örugglega fjalla um það síðar. 
Þetta er hinsvegar nokkurskonar fagnaðarblogg í tilefni af ánægjulegum endurfundum, en fyrir nokkrum dögum gerðist það sem ekki hefur gerst síðan vorið 1974, að stærstur hluti stúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni það vor,  hittist í eina kvöldstund. Það má halda því fram að það sem varð til þess að hópurinn hittist hafi ekki verið jafn ánægjulegt, en fyrr í haust létust tvær bekkjarsystur okkar þær Jóhanna Gestsdóttir og Sigurveig Knútsdóttir.  Þegar svo var komið fór af stað sá bolti sem varð til þess, að 17 af 25 bekkjarfélögum hittust á Hótel Holti. Hluta þessa hóps hafði ég ekki séð í á fimmta tug ára og því var ekki laust við að ákveðins spennings gætti. Reyndin var, svo undarlegt sem það nú er, að svo virtist sem við hefðum öll hist í síðustu viku. Það var eins og samskiptamynstrið hefði varðveist í frosti og síðan þiðnað í óbreyttu ástandi. Það var ekki fyrr en þetta fólk fór að segja frá hvað hefði á dagana drifið, að mér varð ljóst hvílíkur tími hafði liðið frá því við héldum út í vorið frá Laugarvatni. Fólk sagði frá áratuga námi og störfum, fjölskyldum og rígfullorðnum börnum og barnabörnum, allt án þess að ég hefði haft um það hugmynd. Það kom mér ekki síst á óvart hve mörg orð hver og einn þurfti til að greina frá, oft ansi fjölbreyttu æviskeiði. Þessi liður í dagskránni sem ákveðin hafði verið, stóð yfir ungann úr kvöldinu, og var afar skemmtilegur og upplýsandi, þó kennslufræðilega hefði ef til vill verið æskilegra að fá þessa fyrirlestraröð í smærri skömmtum. Ég stend mig að því að muna hreint ekki allt sem allir höfðu reynt um ævina.

Við strákarnir berum þess meiri merki en stelpurnar að árunum hefur fjölgað (kannski vegna ýmisskonar húðkrema frá L'Oreal, hvað veit ég?), en ekki hafa persónueinkennin breyst umtalsvert. Þetta var svona eins og míkrórannsókn á því sem gerist þegar mannskepnan eldist: sá hlutinn sem sést tekur óhjákæmilegum breytingum, sem eru jafnvel til bóta hjá sumum og auka við virðuleik annarra. Mér fannst á þessari kvöldstund, að innrætið, eða það sem einkennir persónuleikann, hafi haldið sér harla vel og sú breyting sem helst mátti greina fólst í talsvert meiri þroska í viðhorfum og víðari sýn á tilveruna.

Ég sat uppi með að vera  einhverskonar veislustjóri. Það hlutverk var mér ekkert sérstaklega að skapi og má kannski segja að þeir sem ákváðu þá skipan mál, hafi ekki lesið mig neitt sérstaklega vel. Þetta slapp þó allt til.
Ég hef verið afar gleyminn á atburði og aðstæður í fortíðinni, en tókst að tína saman nokkur tilvik sem komu upp í hugann, og las þessar hugsýnir mínar yfir hópinn og það var undantekning ef einhver gat ekki prjónað við, oft í talsvert lengra máli en ég, hvað um var að ræða í hverju tilviki.

Einn gaurinn hafði tínt saman myndaseríu frá árunum á Laugarvatni, þar sem gat að líta einhverja unglinga, sem ekki höfðu hugmynd um hvað ævigangan myndi bera í skauti sér.

Fyrir utan bekkjarsystur okkar tvær, sem hafa nú yfirgefið jarðvistina, vantaði 6 peyja, alla úr eðlis- og náttúrufræðideild. Þetta voru þeir: Heimir Geirsson, Þorvaldur Stefánsson, Hjálmur Sighvatsson, Kjartan Þorkelsson, Magnús Guðnason og Sigfinnur Snorrason. Þeir töldust löglega afsakaðir, að ég tel, en ætli við getum ekki reiknað með að við hittum þá síðar.

Á Holtinu þetta kvöld voru: Baldur Gunnarsson, Eiríkur Jónsson, Helgi Þorvaldsson, Hólmfríður Svavarsdóttir, Jarþrúður Þórhallsdóttir, Lára Hjördís Halldórsdóttir, Páll M. Skúlason, Björn Sigurðsson, Haraldur Hálfdanarson, Jónína Einarsdóttir, Halla I. Guðmundsdóttir, Jason Ívarsson, Kristján Aðalsteinsson, Magnús Jóhannsson, Ólafur Þór Jóhannsson, Smári Björgvinsson og Héðinn Pétursson.

Ég er bara talsvert þakklátur fyrir þessa kvöldstund, skal ég segja ykkur.





05 október, 2015

Af ljósinu á pallinum

Nú er liðinn sá tími að sólarljósið dugi til að lýsa upp sólpallinn. Í staðinn er nú notast við rafljós til að varpa birtu yfir svæðið.
Fyrir nokkru gerðist þetta:

"Það þarf að kaupa nýja peru í ljósið"

Við athugun varð mér ljóst að þetta var rétt. Langlíf peran sem gegnt hafði hlutverki sínu vel og lengi, gerði það ei meir.

"Er ekki til ný pera inni í búri? Við keyptum einhvern slatta til að hafa til vara".

Það leið ekki á löngu áður en pera sem reyndist vera til, var komin að dyrunum út á pallinn og þar með var kominn þrýstingur sem ekki var hægt að misskilja, á að það þyrfti að skipta um peru.  Ástæðuna fyrir þessum áhuga á peruskiptum má rekja til tiltekins viðhorfs fD til tiltekinnar smávaxinnar nagdýrategundar.
Sem oft áður þá hljóp ég ekki til og það var ekki fyrr en ég heyrði hurðinni út á pall lokað hratt nú rétt fyrir helgina og með fylgdu athugasemdir um að sést hefði til músar á pallinum.  Með þessari þróun mála óx þrýstingur á aðgerðir meira en svo að ég stæðist. og því var það að um helgina skipti ég um peru, setti nýja langlífis orkusparandi peru í ljósastæðið, með tilheyrandi átökum og veseni.

Og það varð ljós á ný.

Það næsta sem gerðist var þetta:
"Ferlega er óþægilegt þetta blikk á ljósinu."

Blikk, já. Hvað skyldi nú vera til í því? Ég athugaði málið og viti menn, ljósið blikkar lítillega. Ég hugsaði hratt, hafandi í huga að líkur hefðu vaxið á að aftur þyrfti að skipta um peru.
"Já, já. Þetta er sérstök tegund að perum sem blikka örlítið, en það dugir til að fæla burt mýs".

"Fæla burt mýs?"

"Já, það er vel þekkt, að þegar mýs lenda í svona ljósi fá þær oftar en ekki flogakast".

Við þessu öfluga svari gerðist ekki annað en fD ákvað að snúa sér að öðru og ég keypti mér smá frest.

Já, svona' er það við sjóinn víða,
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi að lifa og líða 
uns lausakaupamet er sett.

02 október, 2015

Með mólikúl að vopni

Gönguferð með Jóni
67 ár lífs í þessum nútímaheimi okkar finnst mér ekki vera fullnægjandi ævilengd.
En það er víst ekki spurt að því hvað mér finnst í þeim efnum.
Öll getum við átt von á að sjúkdómar leggi okkur að velli án þess við höfum nokkuð það aðhafst sem gæti stytt ævina umfram það sem venjulegt er hjá fólki í vestrænum samfélögum.
Ætli við séum ekki mörg sem hugsum gott til þess að hætta brauðstritinu og eiga síðan mörg góð ár til að njóta lífsins fram í ellina.
Við sjáum fyrir okkur heimsreisur, eða eitthvert dund í því sem áhuginn beinist að.
Við sjáum fyrir okkur samvistir við börnin okkar og barnbörn, að fylgjast með fólkinu okkar, að samfagna þeim árangri sem það nær í lífinu og hvetja það til dáða, taka þátt í gleði þess og sorgum, lifa.
Við viljum deyja södd lífdaga, sátt við að þann tíma sem við fengum.
En það er ekki spurt að því.

Mig grunar að Hilmar hafi ekki verið sáttur við að hverfa af vettvangi svo snemma.
En það var ekki spurt að því.

Í Sulzbach-Rosenberg
Hilmar Jón Bragason var samstarfsmaður minn í Menntaskólanum að Laugarvatni frá því ég hóf þar störf  árið 1986 og  til ársins 2010. Það eru hvorki meira né minna en nánast aldarfjórðungur, segi og skrifa.
Hilmar var einn þeirra sem kaus að fara á eftirlaun í samræmi við 95-ára-regluna svokölluðu. Hann keypti sér hús í Svarfaðardal og sá sennilegast fyrir sér það sem ég lýsi hér að ofan, en það átti ekki að fara svo. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdóminum sem fellir svo marga langt um aldur fram. Hann lést 24. september og útför hans er gerð í dag.

Formlega var Hilmar raungreinamaður og kenndi að mestu raungreinar og stærðfræði. Hann var hinsvegar flóknari persóna en svo að hann félli alveg undir þá klassísku skilgreiningu á raungreinamönnum að þeir séu frekar ferkantaðir í hugsun. Ég vil halda því fram að hann hafi ekki síður átt heima í húmanískum fræðigreinum þar sem það skiptir ekki höfuð máli hvort tveir plús tveir eru fjórir. Þannig fékk hann áhuga á esperanto og varð virkur félagi í samtökum esperantista, þýddi yfir á esperanto og sótti þing esperantista víða um Evrópu. Þetta tungumál var eitt af áhugamálum hans og hann kenndi það í nokkur ár í ML.  Þá var skák einnig áberandi áhugamál hans.

Í samstarfi innan skólans var ávallt hægt að treysta því að Hilmar færi ekki með neitt fleipur, var undirbúinn og búinn að hugsa um þau verkefni sem fyrir lágu. Hann lenti oft í hlutverki málefnalegrar stjórnarandstöðu, veitti aðhald og benti á það sem var illa undirbúið eða mætti við meiri umfjöllun.
Það varð öllum fljótt ljóst að Hilmari var hægt að treysta. Þannig gegndi hann stöðu trúnaðarmanns starfsfólks árum saman. Hann sat einnig í samstarfsnefnd um gerð stofnanasamnings frá því sú nefnd varð til, þar til hann lét af störfum  Þar fylgdist hann vel með og gekk í málin ef eitthvað var með öðrum hætti en vera skyldi.


Þessi ágæti samstarfsmaður var skapmaður talsverður, var fljótur að skipta skapi og hikaði ekki við að tjá skoðanir sína á því sem honum mislíkaði. Hann var fljótur upp og jafnfljótur niður, því var hægt að treysta.
Ég gæti kinnroðalaust talið upp, í tengslum við Hilmar, afskaplega mörg  þeirra jákvæðu lýsingarorða sem eru notuð notuð um fólk eða eiginleika þess, ekki síst að því gengnu. Ég kýs að gera það ekki, enda var Hilmar ekki sá sem sóttist eftir hrósyrðum um sjálfan sig.

Nánast varð samstarf okkar Hilmars sennilega í tengslum við samskipti við menntaskólann í Sulzbach-Rosenberg í Bæjarlandi. Hann var auðvitað þýskumaður par excellence, enda hafði hann stundað háskólanám hjá Þjóðverjum.  Við fórum saman þarna suður eftir vorið 1996 til að undirbúa heimsókn nemendahóps frá okkur þangað og síðan til að taka á móti hópi frá S-R. Samskiptin við þennan þýska skóla stóðu síðan með hléum til 2009.

Þá er það  kennarann Hilmar. Það kom oft fyrir að nemendur í neðstu bekkjum kvörtuðu undan þessum kennara. Það lærðist okkur fljótt að taka þær kvartanir ekki of alvarlega því það var Hilmari ljóst, að til þess að ná árangri í námi verður að vera fyrir hendi agi, bæði agi á sjálfum sér og agi í vinnubrögðum. Hann leit á það sem sitt verkefni, með réttu, að efla með nemendum vísindalega hugsun og öguð vinnubrögð. Hann gerði kröfur til nemenda, með réttu, og þeir hafa síðan verið duglegir að þakka það í þeim könnunum sem gerðar hafa verið meðal fyrrverandi nemenda skólans.
Í efri bekkjum, þegar Hilmar hafði náð fram markmiðum sínum gagnvert vinnu nemenda, naut hann síðan óskoraðs trausts og virðingar.

Eitt mikilvægasta áhugamál Hilmars var útivist, fjallgöngur, skíðagöngur og annað af þeim toga, sem ég kann ekki að segja mikið frá, enda deildi ég ekki því áhugamáli með honum. Jafnskjótt og snjó festi, var hann búinn að taka fram gönguskíðin og haldinn af stað upp í heiði á samt Jóni, félaga sínum.
Ég viðurkenni að ég óttaðist Jón talsvert, lengi framan af, en þegar ég hafði einu sinni náð að klóra honum bakvið eyrað varð hann sáttur við tilveru mína og ljúfastur hunda.
Það óttuðust margir Jón.
-------
Vorið 2012 hélt hópur starfsmanna ML norður land og heimsótti þá Hilmar í Svarfaðardalnum, en þar bjó hann í Tjarnargarðshorni. Hann tók á móti hópnum af mikilum höfðingsskap og hópurinn gæddi sér á dýrindis kjötsúpu. Það var sérlega ánægjulegt að hitta þennan gamla félaga aftur, en þetta var í síðasta skiptið sem ég hitti Hilmar, en við höfum reglulega heyrt af honum og frá honum síðan.

Heimsókn Tjarnargarðshorni 2012: Gríma, Hilmar, Halldór Páll og Guðrún


Tjarnargarðshorn er efsta húsið til vinstri.
Mynd: Árni Hjartarson. 








25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

19 september, 2015

"Þú, þarna við súluna"

Aðdragandann að fyrirsögninni má rekja til ákvörðunar sem var tekin snemmsumars, þegar fréttir bárust af því, að víðfrægur sönghópur hyggðist halda tónleika í Skálholtskirkju þann 17. september. Hér var um að The King's Singers.  Það var ákveðið að kaupa miða á þessa tónleika.
Af málinu segir ekki frekar fyrr en á tónleikadegi þegar haldið var tímanlega til kirkju. EOS-inn var í farteskinu, ef heimilt skyldi reynast að taka myndir af hinum heimsþekktu listamönnum á hinum sögufræga stað.
Fyrir tónleikana spurði ég þann sem var í forsvari fyrir viðburðinum, hvort leyft væri að taka myndir og fékk við því afdráttarlausa neitun.  Við upphaf tónleikanna ítrekaði forsvarsmaðurinn í ávarpi til tónleikagesta, að myndatökur væru ekki leyfðar. Allt í góðu lagi með það. Þar sem ég er, í flestu afar, löghlýðinn maður, geymdi ég EOS-inn í töskunni þar til í hléi. Listamennirnir hurfu af vettvangi og þá fannst mér ekki úr vegi að taka myndir af söngpúltum þeirra félaga, sem ég og gerði. Þá bar að áðurnefndan forsvarsmann, sem hafði það á orði, að það myndi vera í lagi ef ég tæki einhverjar myndir af hópnum þegar þeir væru ekki að syngja, líklega fékk ég þarna ákveðna undanþágu vegna þess að hver maður gat séð að ekki hefði ég í huga að draga upp neinn farsíma til myndatökunnar, heldur sjálfan EOS-inn, sem er hið verklegasta tæki.

Hléinu lauk. Fólk fór að koma sér fyrir og ég stillti mér við súlu um miðja kirkju og stillti EOS-inn þannig að tryggt væri lysingin yrði viðunandi. Ég komst að því að ég myndi þurfa 12800 ISO til að myndirnar yrðu nægilega vel lýstar. Með því móti yrðu þær vissulega grófar, en einhverju varð að fórna.
"Þú þarna við súluna" Ég snéri mér við að um tveim metrum fyrir aftan mig sat mikilúðleg og ábúðarfull kona í sæti sínu. Ég gekk til hennar og viðurkenndi þar með að ég væri sá sem stóð við súluna.
"Já"
"Veistu ekki að það er bannað að taka myndir? Heyrðirðu ekki þegar það var tilkynnt áðan?"
Þarna var komin ein af þessum manneskjum sem telja það vera hlutverk sitt að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Kallast það ekki "vigilante" á erlendum tungum?
"Jú, ég hef hinsvegar leyfi til að taka nokkrar myndir".
Þar með breyttist málflutningurinn snarlega og hún gerðist talsmaður annarra tónleikagesta sem þarna höfðu orðið fyrir grófu óréttlæti.
"Það er annað en var sagt við okkur". 
"Það getur vel verið"
Þar með snéri ég mér við, skildi vandlætingarfullt andlit talsmanns laga, regluverks og réttlætis, eftir, enda síðari hluti tónleikanna að hefjast.

Listamennirnir gengu inn kirkjugólfið og tónleikagestir fögnuðu og fögnuðu eins og full ástæða var til.
Ég smellti af tveim myndum þar sem hópurinn hneigði sig áður að söngurinn hófst á ný.

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015
....
Mér hefur orðið hugsað til þess að ef til vill ætti ég að verða mér úti um vesti sem myndi auðvelda mér lífið við aðstæður sem þessar. Dæmi um svona vesti má sjá á myndinni hér til vinstri. Með því móti myndi ég aðgreina mig frá "múgnum með myndsímana" og losna við leiðindi eins og þarna var um að ræða, að mínu mati. Ég er viss um að konan var að tjá það sem margir sem sáu til mín hugsuðu.
...........
Tónleikar The King's Singers voru afskaplega skemmtilegir, en öðrum lætur betur að lýsa hinum tónlistarlega þætti en mér.

Forsvarsmaðurinn, sem ég nefni hér að ofan er Margrét Bóasdóttir og mér skilst, án þess að hafa fyrir því fulla vissu, að hún hafi átt stóran þátt í að þessir tónleikar voru haldnir í Skálholti. Fyrir það á hún bestu þakkir.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...