27 febrúar, 2016

Að vera blaðamaður

Það gerðist bara einhvernveginn fyrir um það bil ári síðan, að ég var settur (eða kannski: það var sett mig) inn í ritnefnd merkisrits sem er gefið út í Biskupstungum og sem ber nafnið Litli Bergþór. Þarna var auðvitað á ferðinni kolóleg aðgerð þar sem með réttu skal ritnefnd kjörin á aðlfundi Ungmennafélags Biskupstungna, en það félag stendur að útgáfu þessa rits. Það kann að fara svo á aðalfundi félagsins, sem ekki er langt undan, að ég tel, að sú gjörð að taka mig inn í nefndina verði vítt og mér sparkað, en það kemur þá bara í ljós.
Litli Bergþór kemur út tvisvar á ári, að vori (ef það tekst, annars í lok sumars) og í nóvember eða desember.

Nú er ég búinn að taka þátt í útgáfu tveggja tölublaða Litla Bergþórs og undirbúningur að útgáfu þess þriðja er hafinn.

Þetta blað á sér orðið talsvert langa sögu. Undir þessu nafni hefur  það verið gefið út síðan 1980. Vinnsluaðferðin þá var talsvert frumstæðari en nú. Blaðið var vélritað, skrifað og teiknað á blekstensla, sem stöðugt færri hafa hugmynd um hvað var. Síðan þróaðist það með bættri tækni og fleiri áskrifendum þar til það komst í núverandi mynd. Hvert framtíðarútgáfuformið verður, er erfitt að ímynda sér, en ekki finnst mér úr vegi að ímynda sér að rafræn útgáfa sé það sem verður raunin.

Fyrsta tölublaðið sem ég koma að. Að
sjálfsögðu tókst mér að troða teikningu
eftir frumburðinn á forsíðuna.
Ég kom til starfa við Reykholtsskóla 1979, árið eftir kom fyrsta blaðið út og fyrir því stóð Grímur Bjarndal, sem þá var skólastjóri.  Ég dróst síðan inn í útgáfuna og kom að henni til 1985.  Síðan þá, eða í ein 30 ár, hef ég ekki haft annan snertiflöt við þetta ágæta blað annan en venjulegir áskrifendur hafa.
Nú er ég mættur aftur á svæðið, orðinn blaðamaður og farinn að safna og skrifa efni. Hvernig það gengur verður tíminn að leiða í ljós og þar getur margt gerst, þetta helst:
1. Ég verð settur úr útgáfunefndinni á aðalfundi ungmennafélagsins.
2. Áskrifendur deyja frá áskriftum sínum og rekstrargrundvöllur brestur.
3. Útgáfunefndinni tekst að ná til yngri kynslóða og efla blaðið.

Það má kannski segja og það í fullri alvöru, að útgáfa eins og sú sem hér um ræðir, sé ómetanleg í sögulegu samhengi. Í nútímanum er maður nefnilega ekkert mikið að spá hvernig nútíminn núna birtist í nútímanum eftir 30 ár.

Mér finnst, að stærsta verkefnið sem blasir við útgefendum Litla Bergþórs sé, að fjölga áskrifendum; ná til yngri kynslóða.
Hvernig gerum við það?
Varla með því að freista þess að efla útgáfuna með því að setja karl á sjötugsaldri nýjan inn í nefndina, er það?  Nefndarfólkið sem fyrir var þar, var svo sem að stórum hluta engin unglömb. Vissulega ungt og hresst í andanum, en með árafjöld að baki.

Megi Litli Bergþór lifa.

16 febrúar, 2016

"The Condom King" - eða þannig

Ekki veit ég hvaða afleiðingar þessi pistill hefur fyrir mig en ég verð að láta á það reyna. Ég treysti því í það minnsta að þeir sem þekkja taki þessum skrifum eins og til er ætlast.

Það varð nokkur kurr meðal nemenda í ML í morgun þegar þessi fyrirsögn birtist á vísi punktur ís:







Ég nokkuð viss um að fólk sem hefur ekki fylgst með fréttum undanfarna daga hafi skilið þessa fyrirsögn talsvert öðruvísi en hún átti að skiljast.  Skilningur einhverra var með þessum hætti (með því að lesa fyrirsögnina):

"Það er kominn tími til, í ljósi ástandsins meðal nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni að bregðast við og ræða við þá um mikilvægi smokkanotkunar" 
Undirtextinn væri þá sá að nemendur stundi ábyrgðarlaust kynlíf í stórum stíl og nauðsynlegt sé að freista þess að koma þeim í skilning að til sé fyrirbæri sem kallast smokkar sem hafa þann megin tilgang að koma í veg fyrir þunganir, sem séu alltof margar.

Svona er ástandið þetta auðvitað ekki í mínum ágæta skóla og það má fastlega reikna með því að nemendur stundi kynlíf í svipuðum mæli og jafnaldrar þeirra vítt um landið.

Þarna er við fréttamann vísis að sakast, en hann hefði sannarlega átt að setja fréttina í viðeigandi samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu, um mikilvægi smokksins við að koma í veg fyrir  fjölónæmar lekandasýkingar.

Samhengið var miklvægt þar sem það verður æ erfiðara að ná til einhvers umtalsverðs fjölda fólks í gegnum fjölmiðla, ekki síst ungs fólks og auðvitað þeirra sem lesa bara fyrirsagnirnar og telja sig fá úr þeim þær upplýsingar sem þörf er á.

Í ML fá nemendur sannarlega upplýsingar um gagnsemi smokksins strax á fyrsta ári (ef þeir hafa þá ekki fengið slíka fræðslu áður). Auk þess er vinsælasti fyrirlesarinn, á Dagamun á hverju ári, kynfræðingur sem fjallar um kynlíf og kynheilbrigði.

Eftir þennan dag situr skólameistari ML uppi með, í hugum einhverra, titilinn sem þessi pistill ber, hafandi birst við hliðina á litríkum smokkahaug á vefmiðli, eftir að hafa í grandaleysi svarað spurningum fréttamanns um það hvort í ML væru smokkasjálfsalar, ef ekki:hversvegna og hvað væri meiningin að gera í sambandi við það.
Þá má það teljast undarlegt að ekki skuli, í sömu frétt fjallað um svör skólameistara FSu varðandi þetta mál. Það má túlka þannig, að líklegt sé talið að ML-ingar séu duglegri í kynlífinu en jafnaldrar þeirra í þeim skóla.
Orð og frramsetning þeirra eru vandasöm fyrirbæri.

Það fyndnasta er, líklegast, að hér sit ég í svipuðu hlutverki og Jóhannes Þór Skúlason þegar hann freistar þess að túlka orð forystumanns ríkisstjórnarinnar.

Svona er lífið ófyrirsjáanlegt.

14 febrúar, 2016

Í raun afar merkilegt - Hljómaskál

Georg Kári, Unnur Malín, Hreiðar Ingi
Ég viðurkenni það strax, að þegar kemur að tónlist verð ég að teljast í hópi þeirra sem, þegar þeir eru spurðir um uppáhalds tónlist, sem ég hef reyndar aldrei verið spurður um, finna helst eitthvað við sitt hæfi í fortíðinni, hvort sem það er svokölluð klassísk tónlist, eða meira léttmeti.  Því vil ég halda til haga að ég tel mig ekki eiga uppáhalds neitt, hvort sem það er tónlist eða annað.
Að þessu sögðu greini ég frá því, að nú sit ég í súpunni í hlutverki mínu sem tenór í kirkjukór. Súpan felst í því að það eru að spretta fram tónskáld með sterkar tengingar við Laugarás, sem senda frá sér hvert tónverkið á fætur öðru, sem tenórinn ég hef sogast inn í flutning á.

Ég hef áður greint frá því að óvenju öflug sveit doktora á rætur í Laugarási og nú get ég bætt við tónskáldum. Reyndar ætla ég nú ekki að gera meira úr því en ástæða er til, en þrjú tónskáld, með umtalsverðan snertiflöt við Þorpið í skóginum kynna verk sín í Skálholtskirkju, miðvikudaginn  17. febrúar, næstkomandi. Flytjendur á þessum tónleikum verða Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar, Kammerkór Suðurlands sem Hilmar Örn Agnarsson stýrir og Duo harpverk, en þar leika þau  Frank Aarnink á slagverk and Katie Buckley á hörpu.

Tónskáldin sem um er að ræða eru Unnur Malín Sigurðardóttir, sem bjó fyrir skömmu í Laugarási, en er nú flutt á Reykjavelli, Hreiðar Ingi Þorsteinsson sem ólst upp í Launrétt í Laugarási, hjá Rut og Gylfa, en hann er sonur Rutar og Georg Kári Hilmarsson, sem eyddi barnæskunni í Skálholti, sonur Hilmars Arnar og Hófíar, en Skálholt er nú samasem Laugarás.

Tónleikarnir, Hljómaskál eru stórmerkilegir, ekki bara fyrir ofangreinda tengingu tónskáldanna við Laugarás, heldur ekki síður fyrir þær sakir, að þarna verða frumflutt ein 5 eða sex verk.

Sögulegur viðburður framundan:

Hljómaskál í Skálholti
miðvikudagur 17. febrúar
kl. 19:30




Á leikskólahraða í Brúðkaup

Íris Blandon í hlutverki sínu
Það verður seint ofmetið að þegar fólk í fullu starfi leggur á sig óhemju viðbótarvinnu til að gleðja samborgara sína. Vissulega er þessi vinna skemmtileg og gefandi, en hún gefur ekkert af sér í aðra hönd. Launin eru bara ánægjan af því að taka þátt, að reyna sig og taka loks við klappinu í lokin. Það eru líka ágætis laun.
Ég var einusinni í þessum sporum og fæ enn smá fiðring þegar farið er að æfa næsta verk, ekki nægilegan samt til að vera með.

Á föstudagskvöld lögðum við fD ásamt hópi þeim sem hefur gefið sjálfum sér nafnið "Gullaldargellurnar"*  leið okkar í Aratungu til að sjá leikverkið Brúðkaup eftir  Guðmundar Ólafssonar, í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar, sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar og það var gaman.
Hér er ekki um að ræða leikdóm, enda þykist ég þess ekki umkominn að leggja mat á frammistöðu leikaranna, leikstjórans eða annarra. Að mínu mati stóðu leikararnir vel fyrir sínu og náðu að kalla fram hláturrokur okkar sýningargesta. Ég þakka fyrir mig.

Þessar leiksýningaferðir Gullaldargellanna eru orðinn fastur liður í tilveru okkar sem alveg má kalla "betri helminga" þeirra.  Þeim fylgir, að á undan  leiksýningunum er snæddur leikhúskvöldverður í veitingahúsi. Það stóð til einnig nú.   Þar var á borið fram einhver besta "ribeye" steik sem ég hef fengið, þegar hún var borin fram, 10 mínútum áður en tjaldið var dregið frá. Ég neita því ekki, að ég sakna þess að hafa ekki getað klárað steikina mína og notið "tira misu" í eftirrétt. Það var haft orð á því í hópnum að við yrðum bara að borða jafnhratt og vaninn var í leikskólanum á gullaldartímanum. Ekki fleiri orð um það.


*Gullaldargellurnar er lítill hópur kvenna sem starfaði saman í leikskólanum Álfaborg fyrir æ fleiri árum og telur að sá tími hafi markað gullöld þess leikskóla og þá aðallega vegna þeirra starfa þar, að sjálfsögðu.  Þetta er svipað því og þegar talað er um gullaldarlið Tungnamanna í körfubolta, sem ég tilheyrði að sjálfsögðu. Það góða lið gerði garðinn frægan um og upp úr 1980 og annað eins höfum við ekki átt í Tungunum síðan, þrátt fyrir að það hafi verið byggt heilt íþróttahús til að freista þess að ná svipuðum árangri í körfuknattleik aftur.

04 febrúar, 2016

Ég á bara ekki heima þar!

 Ætli ég sé ekki þessi maður sem er alltaf að láta smáatriðin fara í taugarnar á sér, með þeim afleiðingum að aukaatriðin verða að aðalatriðum.  Það koma þeir tímar, að ég verð að blása, oftast inn á einhverjum samfélagssíðum eins og þessari.  Með því er ég yfrleitt búinn að koma viðkomandi málefni frá og fer að hugsa um eitthvað annað.

Nú þarf ég að koma þessu frá.

Ég bý í Laugarási, og lagði meira að segja í það að stofna sérstaka síðu helgaða þessu heimaþorpi mínu á snjáldru/Fb/Facebook. Þangað fer ég stundum til að skoða eða til að bæta einhverju inn sem mér finnst í lagi að setja þangað.  Ég lít á mig sem tandurhreinan Laugarásbúa, ómengaðan af nágrannasvæðum, þó ég eigi kannski sögu hér og þar. 
Þarna inni á þessari sérstöku síðu Þorpsins í skóginum birtist mynd mín og nafn, en jafnframt er þess sérstaklega getið að ég sé frá Hruna. Hér með hafna ég því að ég sé frá Hruna. Ég hef reynt ýmislegt til þess að bera þessi heimkynni af mér, án árangurs.

Nú hef ég ekkert nema gott um Hruna að segja, merkur sögustaður þar sem dansaður var frægur dans með óvæntum endalokum. Það hefur margt góðra karla og kvenna átt heima gegnum aldirnar og þar ráða nú húsum indælis prestur  og prestsfrú (hér þurfti ég á ákveða hvort óhætt væri að kalla konu prests prestsfrú. Ég skýli mér á bakvið það að ég ólst upp við þá venju, og ætla ekkert að fara að breyta út af henni. Velti því hinsvegar fyrir mér hvernig ég hefði farið að ef konan hefði verið presturinn. Hefði ég sagt prestur og prestsherra? Læt það liggja millli hluta). Í sveitinni í kring, Hrunamannahreppi, býr margt ágætisfólk í þéttbýli og dreifbýli. Allt þetta breytir því ekki að ég er afar andvígur því að  vera sagður eiga heima í Hruna. 

Viti einhver gott ráð til að breyta þessari óvelkomnu heimilisfesti, bið ég þann hinn sama að benda mér á ráð sem dugir.


Sr Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna


31 janúar, 2016

Ylur minninga á þorra

Hvað er betra þegar maður er búinn að leyfa hrímköldum þorra að leika um lungun, búinn að njóta þess, með frostbitið nefið, að skella sér í kraftgöngu um Laugarási í þrítugum kraftgallanum, en að ylja sér við minningar í myndasafninu, sem vex með hverju ári.
Í samræmi við ofangreint rakst ég á stutt myndskeið frá 2010.
Við fD skelltum okkur til Þýskalands til að fara á útitónleika þar sem tenórinn okkar tróð upp ásamt ítölsku sóprandívunni Luciu Aliberti. Upplifun okkar þarna gerði ég auðvitað skil hérhér og hér.
Þarna varð minna úr upptökum en til stóð þar sem allt slíkt var harðbannað og ég auðvitað, sem ávallt, fór að þeim, reglum sem giltu, að langmestu leyti.  Þó lét ég mig hafa það að taka skot og skot.
Hér er stutt myndskeið þar sem tenórinn er að flytja O, sole mio á umræddum útitónleikum. Það má glöggt sjá á þessu myndskeiði hver áhrif flutningurinn hafði á föðurinn, sem auðvitað gleymdi alveg að fylgjast með hvort myndefnið væri í rammanum.




23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...