24 júní, 2016

Seríos áskorunin

"Börn í leik" Dröfn Þorvaldsdóttir (2015)
Þar sem  ég hef ákveðið að blanda mér ekki í mismislita umræðuna sem á sér stað um Brexit, forsetakosningar eða EM, hef ég þessu sinni valið mér að fjalla í stuttu máli, auðvitað, um börn og foreldra (aðallega feður, að mér sýnist).
Ef ekki fæddust nein blessuð börn væri mannkynið sannarlega í djúpum skít - en það fæðast börn. Reyndar eru íbúar svokallaðra þróaðra þjóða, sem mér sýnist að, að mörgu leyti megi kalla úrkynjaða (þetta var illa sagt og vanhugsað - kannski), komnir að þeirri niðurstöðu, að börn séu til vandræða fremur en eitthvað annað.  Í það minnsta fækkar börnum meðal þessara þjóða og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um ástæðurnar, þó á þeim hafi ég vissulega ótæmandi úrval skoðana.


Hversvegna ætti fólk að eignast börn, yfirleitt?
Varla fyrir slysni, enda hægur vandi að skipuleggja barneignir á þessum tímum.
Ég get alveg tínt til nokkrar mögulegar ástæður.

1. Meðfædd þörf mannskepnunnar, eins og annarra dýra, að geta af sér afkvæmi. Það er reyndar ekkert meira um það að segja. Örugglega góð og gild ástæða.

2. Krafa stórfjölskyldunnar (ekki síst mæðra, ímynda ég mér) um að fjölgun eigi sér stað. Með öðrum orðum, utanaðkomandi þrýstingur. "Er eitthvað að? Geturðu ekki átt börn?"

3. Þörf samfélagsins til að til verði einstaklingar til að standa undir samfélagi framtíðarinnar. Það verður að búa til framtíðar skattgreiðendur til að halda hjólunum gangandi, standa undir efnahagslegum vexti. Það þurfa alltaf að vera til neytendur framleiðslunnar. Einhvernveginn  þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, ævikvöld foreldranna og annað það sem hver kynslóð þarf að geta  staðið undir.

4. Þrýstingur jafnaldra. Allir vinirnir eru búnir að eignast börn og birta dásemdar myndir af á þeim á samfélagsmiðlum. Þessar myndir tjá endalausa hamingju foreldranna. "Þetta er frábært! Ætlar þú ekki að fara að koma með eitt?"

5. Sú hugmynd að börn séu stöðutákn. Þau sýna fram á að foreldrarnir eru færir um að fjölga sér og sjá fyrir sér og sýnum. Foreldrar og börn njóta virðingar umfram þá sem einhleypir eru eða barnlausir.

6. Krydd í tilveru hverrar manneskju. Sá tími kemur að djammið um hverja helgi fullnægir ekki lengur þörfinni fyrir merkingarbært líf. Tákn um það að einstaklingurinn er orðinn fullorðinn og maður meðal manna. Nýr taktur í lífið.

Ég gæti örugglega haldið lengi áfram að skella fram mögulegum ástæðum fyrir barneignum fólks. Það má segja að allar ástæðurnar sem ég taldi hér fyrir ofan tengist með ýmsum hætti og að þannig ráði oftast ekki ein ástæða umfram aðrar. Ég held því hinsvegar fram, að þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn, ráði ástæða númer þrjú minnstu.

Hvað um það, barn er getið og það fæðist, eftir dálítið dass af bumbu- og/eða fósturmyndum á facebook. Það er hægt og bara harla auðvelt, að deila hamingju foreldranna með öðrum, og hversvegna þá ekki að gera það?

Það er okkur öllum ljóst, að öllum foreldrum finnst sitt barn fallegast og best. Því ekki að fá staðfestingu á því? Það er alltaf gott að fá hrós. Við höfum öll þörf fyrir það.  Við þekkjum öll slíkt hrós: "AWWWW", "Dúllan", "Þetta krútt" og svo framvegis.

Sumum er þetta ekki nóg, og ganga lengra.  Það má jafnvel segja, að hrósþörfin verði að fíkn, að gleðin og hamingjan vegna krúttsins verði æ mikilvægari eftir því sem það verður fyrirferðarmeira.
Það verður smám saman ekki nóg að birta krúttmyndir með fyrirsjáanlegum viðbrögðum. Það þarf meira.
Þá koma oftar en ekki til hugmyndaríkir pabbar. Dæmin felast í myndunum sem hér fylgja.

Er rétt að líta á börn sem leikföng, eða nota þau í því samhengi?  Því verður hver að svara fyrir sig, en í stóra samhenginu, sem felst í lið númer þrjú hér fyrir ofan, held ég nú að leikfangsvæðing barna geti verið nokkuð varasöm. Hlutverk foreldra er að skila af sér einstaklingi sem þeir eiga ekki og hafa aldrei átt, nema kannski í orði kveðnu. Það er sannarlega í góðu lagi að þeir njóti þess að eignast barn og njóti samvistanna við það. Foreldrarnir mega hinsvegar ekki líta framhjá þeirri staðreynd að litla krúttið vex og þroskast út frá því umhverfi sem það fæddist inn í og ólst upp í.

Ég get svo haldið áfram og fjallað um aðkomu samfélagsins og ábyrgð þess, en ég nenni því eiginlega ekki að svo komnu máli.




17 júní, 2016

Íslendingar að léttast?

Ég neita því ekki að á síðustu mánuðum finnst mér eins og það hafi verið að léttast upplitið á þessari þjóð; þjóðinni sem fagnar í dag á þjóðhátíðardegi. Mér hefur fundist áhugavert að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessari breytingu og að sjálfsögðu fann ég nógu góða skýringu, fyrir mig í það minnsta. Ég reikna ekki með að skýringin henti þó öllum, en hver sem hún er í raun, þá tel ég að þjóðin sé að nálgast eitthvert jafnvægi aftur, eftir næstum 15 ára óstöðugleika.

1. kafli  Bláeyg þjóð
Til að gera langa sögu stutta, hefst skýring mín á Hrunadansinum (hrundansinum) í kringum gullkálfinn, sem lyktaði með margumræddu hruni.

2. kafli Reið þjóð
Þetta fjármálahrun og þjóðarhrun neyddi okkur til að hugsa margt í lífi okkar upp á nýtt. Tveim stjórnmálaflokkum var aðallega kennt um hvernig komið varog í kosningum komust þeir flokkar til valda sem síður voru taldir hrunvaldar. Það máttu allir vita, að verkefnið sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir jaðraði við sjálfsmorð. Þjóð, sem áður hafði lifað í vellystingum með fjármagni sem engin innistæða hafði verið fyrir, var hreint ekki sátt við allan þann niðurskurð sem hér varð. Það risu upp lukkuriddarar í forystu fyrir flokkana sem hafði verið kennt um hrunið, sem töldu sig vita betur en stjórnvöld og lögðu sig fram um að rýra trúverðugleika þeirra. Þrátt fyrir miklar árásir og niðurrif ásamt innbyrðis átökum, tókst þessari stjórn að skapa grunn að endurreisn.  Sú vinna varð henni dýrkeypt.

3. kafli  Reið og bláeyg þjóð
Þjóðin var ekki sátt. Í kosningum, 4 árum eftir hrun voru það lukkuriddararnir sem báru sigur úr býtum. Sögðust myndu ganga frá vondu hrægömmunum sem ógnuðu þjóðinni. Sögðust myndu afturkalla allar vondu ákvarðanirnar sem ræstingafólkið hafði tekið. Áttu varla orð yfir hve lélegt ræstingafólkið hefði verið og þjóðin, sem auðvitað var enn ósátt við hvernig farið hafði, var búin að gleyma. Þjóðin man ekki langt, enda er það það sem brennur á skinninu hverju sinni sem ræður ákvörðunum hennar.
Með lukkuriddurum hófst, að þeirra sögn, hin raunverulega endurreisn. Þeir gerðu fátt annað en setja hvert heimsmetið af öðru með frábærum ákvörðunum sínum, að eigin sögn.  Svo kom í ljós að þeir voru ekki allir þar sem þeir höfðu verið séðir. Þeir höfðu ekki komið hreint fram.

4. kafli  Reið þjóð með opin augu.
Þjóðin fór að sjá hlutina í meira samhengi en áður. Efnahagurinn tók að batna, reyndar mest hjá þeim sem síst höfðu þörf á. Reiðiöldur risu þegar flett hafði verið ofan af hluta þess sem falið hafði verið. Aðal lukkuriddarinn neyddist til að segja af sér og hvarf af vettvangi. Þá fyrst fannst mér ég verða var við að það færðist meiri ró yfir þjóðlífið og umræðuna. Þetta ástand finnst mér hafa fest sig betur í sessi eftir því sem vikurnar hafa liðið.

5. kafli Sátt þjóð?
Ég veit ekki hve langan tíma það tekur þessa þjóð að verða sátt við hlutskipti sitt. Nú er meiri von til þess, en oft áður, að hún nálgist einhverskonar sátt.  Stærsta merkið um það virðist mér vera að hún hyggst hafna, í komandi forsetakosningum, hugmyndinni um forystumann á Bessastöðum, af því tagi sem verið hefur. Hún virðist vilja hafa á þeim stað einhvern sem kveðst vilja vera raunverulegt sameingartákn þjóðarinnar. Sá sem hefur nú setið á Bessastöðum í tvo áratugi, er um margt merkilegur forseti, sem á margskonar fögur eftirmæli skilin, en hann er þeirrar gerðar að í stað þess að sameina þjóðina, stuðlaði hann að sundrungu hennar á margan hátt.
Í haust verða svo kosningar, nema það verði ekki kosningar.  Ég hef nokkra trú á því að þær kosningar muni endurspegla meiri sátt meðal þessarar örþjóðar en verið hefur um langa hríð.
Ég vona að þjóðin hafni lukkuriddurum sem segjast munu gera allt fyrir alla. Við vitum að það er ekki mögulegt.  Megi okkur auðnast að kjósa til valda öfl sem vilja gera eitthvað fyrir alla, jafnt.

Þessa dagana er þrennt sem elur á bjartsýni minni fyrir hönd íslenskrar þjóðar:

1. Knattspyrna (sem meira að segja fD er farin að sýna örlítinn áhuga á, reyndar ekki í verki, heldur með óljósum viðbrögðum sem benda til þess að þjóðarstoltið sé að bera knattspyrnuandúðina ofurliði)
2. Handknattleikur
3. Forsetakosningar

Hafir þú komst alla leið hingað í lestrinum  
óska ég þér gleðilegrar þjóðhátíðar.


Við lifum viðsjárverða tíma í okkar góða landi nú um stundir og í ár er kosningaár og er því hætt við að inn á svið landsmála skeiði pólitískir lukkuriddarar með fullar skjóður loforða og tillagna. 
Úr fundargerð aðalfundar Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, 
sem haldinn var þann 20. maí 2016 




01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

23 maí, 2016

Þegar leikurinn stóð sem hæst


Árla morguns, ofarlega í Grímsnesinu, rétt hjá Svínavatni, gæti þetta samtal hafa átt sér stað:

"Góðan daginn dúllan mín. Það er ekki laust við að það sé hrollur í manni. Ég held að það hafi farið talsvert niður fyrir frostmark í nótt. Hvernig gengur, annars?"

"Góðan daginn, ljúfur. Ég held að þetta gangi bara vel. Ég er alveg búin að ná mér eftir gærdaginn. Þetta eru flottustu fjögur egg sem ég hef séð og ég er viss um að ungarnir okkar verða yndislegir".

"Það er enginn vafi á því. Spennandi að verða svona foreldrar í fyrsta sinn."

"Ég er mjög ánægð með þúfuna sem við völdum og okkur tókst bara vel með hreiðrið, finnst þér það ekki?"

"Ekki spurning.  Heyrðu annars, hvernig væri nú að reyna að ná úr sér næturhrollinum? Eigum við að koma í eltingaleik smástund?"

"Eltingaleik? Kommon, ert þú ekki að verða pabbi bráðum, kallinn minn?"

"Kva, það er nægur tími til að vera fullorðinn eftir að krílin eru komin á stjá. Komdu!"

"Jæja, allt í lagi þá. En ekki lengi. Eggin mega ekki kólna."

"Þú ert 'ann. Reyndu að ná mér!"

"Bíddu bara, ég verð ekki lengi að ná í stélið á þér, stelkapabbi!"

"Vúúú, frábært!"

"Klukk, þú ert 'ann!"

"Heyrðu mig, þú varst ekki................"

PÚFF

Qashqai brunaði áfram.
Í baksýnisspeglinum mátti sjá stelksfjaðrir þyrlast í kjölsoginu.
Fjögur egg tóku að kólna í hreiðri.




16 maí, 2016

Karlaraddir / Männerstimmen

Það sem hér fer á eftir verður til í framhaldi af aldeilis ágætum tónleikum sem ég fór á í gær í Skálholtskirkju.  Þar var kominn karlakór frá Sviss, Männerstimmen Basel, margverðlaunaður og sigldur. Hann var búinn að vera á landinu um tíma og tók m.a. þátt í miklu karlakóramóti í Hörpu.
Ég skildi þarna hversvegna þessi kór hefur verið hlaðinn verðlaunum og ég er viss um að hann hann getur kennt íslenskum karlakórum og kórum yfirleitt, margt, ekki aðeins að því er varðar sönginn sjálfan, heldur ekki síður framgöngu alla. Þessi kór umkringdi áheyrendur þannig að hljómurinn endurómaði og varð nánast yfirjarðneskur á köflum. Hefðir sem við erum vön, voru brotnar eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar sem sjórnandinn tók sér, til dæmis, stöðu í fyrir framan altarið og kórinn snéri "öfugt".  
Það sem ég var einna hrifnastur af við framgöngu þess kórs var tvennt, fyrir utan auðvitað afar vandaðan/fágaðan sönginn. 
Annarsvegar fannst mér styrkleikabreytingar áhrifamiklar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlusta á 25 karlaraddir syngja svo veikt að eyrað nær varla að nema, en nemur samt. Ég hef löngum fengið það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að því meiri sem söngstyrkur sé í karlakórsöng, því flottara og því karlmannlegra. Það kann að vera að hefðbundin karlakóralög kalli á mikinn styrk og jafnvel samkeppni innan radda og milli radda um hver getur gefið frá sér mestu hljóðin. 
Hinsvegar var ég hrifinn af aganum. Stjórnandinn var íklæddur kjólfötum, alger andstæða söngvaranna, sem voru næstum í "lederhosen" með axlaböndum. Hann hafði fullkomna stjórn  á sínum mönnum, ein lítil bending og kórinn skipti fumlaust um uppstillingu fyrir næsta lag. 

Efnisskráin var af ýmsum toga, kirkjuleg og veraldleg, allt krefjandi og skemmtilega framreitt. Ég missti þó af, líklega einu áhrifamesta laginu, sem mér heyrðist að fjallaði um ein stærstu mál nútímans, flóttamenn og hryðjuverkaógn, Svei mér ef ég heyrði ekki skothvell, þar sem ég var að fikra mig niður úr  "Þorláksstúku?" (skömm að því að vera ekki viss um heitið á stúkunni fyrir ofan innganginn) eftir myndatökutilraun. Þegar ég var síðan kominn niður vildi ég ekki opna dyrnar inn í kirkjuna til að ná í það minnsta hluta að verkinu.  

Þess var getið sérstaklega á dreifildi um kórinn, að meðal annars væri hann styrktur af einhverjum bjórframleiðanda, og væri duglegur við að innbyrða framleiðsluna, enda þarna á ferð karlmenn á besta bjórneyslualdri, 18 til 32 ára.


Það var ákveðin rælni sem olli því að við, heimaverandi Kvisthyltingar, skelltum okkur á þessa tónleika. Við sáum auðvitað ekki eftir að hafa látið verða af því. 
  

14 maí, 2016

Síðasta áminning Töru

Fyrir nokkrum árum.
Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum
Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum.
Tíkin Tara (Rexdóttir frá Hveratúni?) frá Sólveigarstöðum sá til þess að húsmóðir hennar fékk nauðsynlega hreyfingu í, á annan áratug. Hún hafði einnig góða nærveru, var afar skynug og fljót að læra bestu aðferðina við að fá fólk til að gefa sér að éta.  Þegar maður spurði: "Viltu mat?" Svaraði hún umsvifalaust með gelti sem mátti vel túlka sem "Já, já, já".
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.

Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.
 Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.
Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.

Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa  fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru  grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki.  Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.

Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
 Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.

Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.

Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.

Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.


07 maí, 2016

Upphaf ferðar nokkurrar (1)


Hér segir af upphafi námsferðar STAMEL til Helsinki í lok apríl.
Svona átti upphaf ferðarinnar sem hér um ræðir að vera:  
Brottför frá Laugarvatni með fólksflutningabifreið kl. 03:30, koma á Flugstöð í Keflavík eigi síðar en kl. 05:30, flug til Helsinski kl. 07:30.
Frásögnin sem hér fer á eftir ber þess auðvitað merki, að ég var ekki hluti af þeim dramtísku atburðum sem eru tilefni hennar. Þannig má segja að hún sé byggð á munnlegum heimildum þeirra sem beinlínis komu að málum, annaðhvort sem beinir þátttakendur eða þá áhorfendur.

Við dómkirkjuna í Helsinki
Við fD vorum komin á Laugarvatn fyrir tilsettan tíma, eins og okkar er von og vísa, þar sem við ákváðum að nýta fólksflutningabifreiðina frekar en greiða himinhátt gjald fyrir bílastæði í Keflavík.
Þar sem við renndum í hlað var fólk byrjað að tínast að og það var ferðaspenningur í loftinu. Þegar áætlaður brottfarartími rann upp var engin fólksflutningabifreið komin á staðinn, en að sögn kunnugra átti fólksflutningabifreið, við svona aðstæður, að vera komin á brottfararstað, eigi síðar en 15 mínútum fyrir áætlaðan brottfarartíma.
Þegar komið var nokkuð fram yfir brottfarartímann fór að gæta nokkurrar óþreyju, sem lauk með því að hringingar hófust í síma þeirra sem í forsvari eru fyrir fólksflutningabifreiðafyrirtækið sem um ræddi og fljótlega kom í ljós að það væri engin fólksflutningabifreið á leið á Laugarvatn. Síðar kom í ljós að fyrirtækið hafði ruglast á nóttum, ætlað að flytja hópinn næstu nótt.
Þarna hófst upphaf merkrar atburðarásar með því að ákvörðun var tekin um að ferðalangarnir sameinuðust í þær bifreiðar sem til reiðu voru og brunuðu á Selfoss, þar sem fólksflutningabifreið myndi bíða hópsins og flytja áfram.  Fyrsta bifreið af stað frá Laugarvatni var Qashqai með mig við stýrið, fD og aukafarþega. Í kjölfarið fylgdu síðan aðrir bílar, hlaðnir farþegum og farangri.
Lagið tekið í plati í Kirkjunni í klettinum í Helsinki
Ég ætla ekki að greina frá ökuhraðanum niður Grímsnesið, en vegurinn var oftast þurr þessa nótt, en sumsstaðar fannst mér eins og væru blettir þar sem mögulega gæti verið hált, enda hiti við frostmark. Þessir blettir voru helst í gegnum Þrastaskóg og undir Ingólfsfjalli. Í eitt skiptið fannst mér ég meira að segja finna fyrir því að Qashqai skrikaði örlítið dekk, sem varð til þess að ég tók ökuhraðann talsvert niður.
Við komumst skilmerkilega á Selfoss, settum töskur í fólksflutningabifreiðina sem þar beið okkar og síðan lagði ég Qashqai á öruggum stað. Á eftir okkur fylgdi nokkrir bílar og fólkið var bara í góðum gír og tók þessu spennandi upphafi ferðarinnar bara vel.
Svo komu ekki fleiri bílar, mínúturnar komu og fóru hver af annarri (það, sem sagt, leið og beið) og jafnframt styttist fyrirsjáanlegur tími í Fríhöfninni, en það var kannski fyrsta hugsunin, næsta hugsum fól í sér vangaveltur um hvað valdið gæti því að ekki komu fleiri bílar.
Svo brunaði sjúkrabíll með blá, blikkandi ljós framhjá.

(framhald síðar)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...