05 júní, 2018

Ellilífeyrir! - Niðurlægjandi fyrirbæri

Ég hef sagt skilið við almenna atvinnuþátttöku og er farinn að fá greiðslur úr sjóði sem ég hef greitt skilmerkilega í, alla mína starfsævi. Tilgangurinn með því að greiða í þennan sjóð var sá, að ég gæti sótt þangað fé þegar að því kæmi að ég hætti að vinna og færi að njóta annarra lífsins gæða.
Það fé sem ég fæ úr þessum sjóði, er endurgreiðsla til mín á því sem ég lagði til hliðar. Þetta er hluti þeirra launa sem ég vann fyrir. Þetta er þar með mín eign og minn réttur að fá það til baka, eftir að sjóðurinn hefur haft það í sinni vörslu til ávöxtunar. Ég hefði auðvitað getað tekið af tekjum mínum sjálfur, í lok hvers mánaðar og lagt fyrir á einhverjum reikningi, en lög munu kveða á um, að ég verði að greiða í fyrirbæri sem kallast lífeyrissjóður. Þar sem þessir lífeyrissjóðir geyma þetta fé ekki sem séreign hvers einstaklings, fær maður greitt úr honum þar til síðast andvarpinu er náð, hvort sem það gerist fyrr eða síðar.

Greiðslur til mín úr þessum sjóði lít ég á sem eftirlaun. Laun sem ég fær greidd eftir að ég hef hætt störfum. Laun, en ekki lífeyrir.

Þegar ég heyri eða sé orðið "ellilífeyrir" sé ég fyrir mér örvasa gamalmenni í torfbæ sem tórir bara vegna þess að hreppurinn hendir í hann lífeyri: eyri sem dugir til þess að hann haldist á lífi - nokkurskonar framfærslustyrk. Tólgarkerti logar við rúmstokkinn og í það er hent við og við trosi eða flís af sauðaketi.

Já, ég get ekki sætt mig við að það fé sem ég vann fyrir, hörðum höndum, skuli nú vera farið að berast mér sem ELLILÍFEYRIR.  Þetta er enginn fjárans lífeyrir, fyrir utan það, auðvitað, að ellin er bara hreinlega ekki sest að í mér.

Fólk sem hefur greitt í þessa svokölluðu lífeyrissjóði alla starfsævina, á það fé sem þangað var greitt. Það fé var hluti að þeim launum sem það fékk fyrir vinnuna. Það sem það fær síðan til baka er ekki neitt sem kalla má lífeyri, eða ellilífeyri, heldur:

EFTIRLAUN.

Sjóðirnir eiga að kallast EFTIRLAUNASJÓÐIR og ég telst EFTIRLAUNAMAÐUR en ekki ELLILÍFEYRISÞEGI, eins og ég sé að þiggja eitthvað frá samfélaginu, vegna gæsku þess í minn garð.
Það bara er ekki þannig.

Mörgum orðum í íslensku hefur verið skipt út fyrir önnur vegna þess að þau fengu á sig aðra merkingu í daglegu tala (yfirleitt neikvæða), en þau höfðu upphaflega.

Orðið "ellilífeyrir" er orð af þessum toga og á að taka af dagskrá, sem allra fyrst.

Út með það.

30 maí, 2018

Siggi á Baugsstöðum níræður

Elsta myndin af piltinum
Það eru nú ekkert mörg ár síðan ég var í sveit á Baugsstöðum. Reyndar fer það eftir því hvaða mælikvarði er notaður, en það hefur líklega verið um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Síðan eru víst liðin ríflega 50 ár.
Þá hefur Siggi verið farinn að nálgast fertugt og rak Baugsstaðabúið ásamt Geira og Unu, afa og ömmu.
Í dag er Siggi orðinn níræður, og hann býr enn á Baugsstöðum.

Þessar sumardvalir á Baugsstöðum skilja eftir sig minningaleiftur, frekar en eitthvað í  samhengi.
Það fyrsta sem kemur í hugann er koks og aska. Koksið var notað til húshitunar og reglulega þurfti að fara með öskuna og henda henni niður fyrir bakka.


Siðan kemur í hugann heyskapur - leiðindin sem fólust í því að raka í kringum sátur,
Fermingardrengurinn
spennan og lífshættan sem fylgdi því að fá að keyra Farmalinn næstum í veg fyrir bíl og að veltast í heyi á palli Flaugarinnar, sem flutti hvert hlassið á fætur öðru heim í hlöðu þar sem það var dregið af með stórmerkilegri aðferð.
Þá kallar hugurinn fram er gult olíubrilljantín sem fékkst hjá Möggu og Gunnu í Rjómabúinu og flórmokstur, þar sem beljurnar héldu stöðugt áfram að framleiða verkefni, amma sem alltaf kom út í dyr þegar Hveratúnsfólkið bara að garði, lyfti upp handleggjunum með orðunum "Blessað góða fólkið mitt". 
Svo var það kindabyssan í skápnum á ganginum í gamla bænum, líklega fyrsta byssa sem ég sá "live".
Það var auðvitað margt bardúsað annað með frændsystkinunum og án, eins og gengur.
Siggi hafði umsjón með vitanum og ferðirnar
þangað fólu í sér talsverð ævintýri, hann var líklega það hæsta sem ég komst frá jörðu þangað til ég fór í flugvél í fyrsta sinn, endalaust útsýni, enda Flóinn ekki verulega fjöllóttur.

Sigurður Pálsson fæddist þann 30. maí, 1928, yngstur fjögurra systkina. Elst var Guðný (1920-1992), næst Elín Ásta (1922-1933) og þriðji Siggeir (1925-2001).

Töffarinn
Samskiptin við Sigga voru auðvitað mest á þeim tíma sem ég var í sveit á Baugsstöðum. Að fara í sveit þýddi að fara á bæ þar sem stundaður varð hefðbundinn búskapur, með heyskap og öllu tilheyrandi. Annað taldist ekki sveit. Vegna þess að ég var formlega í sveit hjá ömmu og afa í gamla bænum og þar bjó Siggi einnig. Hæglátur risi í mínum huga, sem ekkert fékk haggað. Loftsstaðahendurnar og reyndar vaxtarlagið allt ótvírætt vitni um krafta í kögglum.  Krafta sem einvörðungu var beitt við vinnuna, en aldrei misbeitt.








Á besta aldri
Þegar ég óx síðan upp úr að fara í sveit urðu samskiptin vissulega strjálli, en móðir mín var nú talsvert dugleg að fara með okkur í heimsókn og alltaf var nú jafn gaman að heyra kveðjuna: "Blessað góða fólkið mitt", jafnvel þótt táningsárin breyttu sýn á ýmislegt. Svo var boddíinu stundum skellt á pallinn á Flauginni og haldið í sameiginlegar ferðir um Suðurland, sem þó óljósar séu í minningunni, voru ævintýri út af fyrir sig.
Tvisvar, í það minnsta man ég eftir ferðum með foreldrum mínum, austur á land þar sem Siggi var einnig með. Í annarri var meðal annars kíkt í heimsókn að Stóruvöllum í Bárðardal, en þaðan var Páll afi ættaður. Eftirminnileg heimsókn.

Nú er Siggi einn eftir þeirra sem kalla fram minningar um löngu liðinn tíma og að koma á Baugsstaði, í gamla bæinn er eins og að ferðast í tímavél hálfa öld aftur í tímann, klukkan á veggnum, panellinn, lyktin.  Þarna býr Siggi, og gegnir hlutverki akkeris sem minnir okkur á hvaðan við komum, barmafullur af fróðleik sem mikilvægt væri að koma böndum á og flytja áfram. Bara ef hann myndi nú skrifa eitthvað af þessu niður.

Í gær var Sigga haldið ágætt kaffisamsæti, ef svo má segja, á Sólveigastöðum. Karlinn er alltaf eins og það er ekki fyrr en maður skoðar eldri myndir að í ljós kemur að hann er alveg á eðlilegu róli. Sannarlega eru Loftsstaðahendurnar þarna enn, en þó eitthvað séu liðirnar farnir að stirðna er ekki það sama að segja um  höfuðið sem er alveg með hlutina á tæru. Hann lýsti meðal annars óánægju sinni með á Ásta á Grund hefði misst meirihlutann í kosningunum. Þá var hann áfram um að koma því á framfæri að nú væri það sannað, að Flóamenn væru vitrastir manna á Íslandi, með Hannes Stefánsson, frænda, fremstan í flokki.

Níræður með Ástu




26 maí, 2018

Kjördagur

Regnið lemur framrúðuna á Qashqai þar sem við fD leggjum leið okkar í átt að hálendinu. Það er eins og það reyni að koma í veg fyrir að við fáum sinnt erindi okkar, en rúðuþurrkurnar reyna aftur á móti að berjast gegn regninu og vísa þannig leiðina á áfangastaðinn.

Áfram.

Áfram silumst við, hugsi.

Fyrir framan er túristabíll og annar fyrir aftan, svona eins og fara gerir.

Vegurinn býður upp að holudans til að drepa tímann. Eitt feilspor í þeim dansi gæti orðið dýrt. Það kemur sér illa að hafa ekki lagt meira upp úr skíðamennsku, en aðrir kostir vega á móti.

Þetta er nú ekki nema um 12 km spotti við þessar aðstæður, nægur tími til að gera upp hug sinn. Nægur tími til að velta fyrir sér hver möguleikanna 5 skuli valinn, nema niðurstaðan verði sú að bæta þeim sjötta við.

Nei, það er lýðræðisleg skylda að velja einn þessara fimm.
Þó mér finnist að ýmsu leyti ósanngjarnt að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu, er eiginlega ekki um annað að ræða en nýta þann dýrmæta rétt sem sem ég hef til að tjá vilja minn.

Við nemum loks staðar á áfangastað - kjörstað.
Enn þessi nagandi efi, enn þessi leiðinda pæling um að þetta breyti engu, til eða frá. Er það úrhellið og holurnar sem valda, eða er einhver löngu kæfður uppreisnarandi að reyna að láta á sér kræla?

Hvað með það.
Það verður ekki snúið við úr þessu. Best að ákveða þetta bara á leiðinni inn.

Kominn inn, en engin niðurstaða.

"Gjörðu svo vel, Sigríður, þú er næst." tilkynnir ofurhress dyravörður með gleraugu og beinir máli sínu til eldri konu með grásprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður. Til þess að komast inn á kjörstaðinn þarf nefnilega dyravörð, sem leyfir manni að ganga inn á kjörstaðinn, ganga þar fyrir þrjá valinkunna sveitunga, sem finna á hvaða blaðsíðu maður er í kjörskránni, segja hvert öðru og skrá það loks með penna á blaðsíðu í einhverjum doðranti.

Sigríður hverfur inn um dyrnar, en út kemur í sama mund yngri karlmaður með þykkt rauðsprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður, heldur.

"Má ekki bjóða ykkur kaffi?", gellur í dyraverðinum. "Það verður smá bið. Það eru þrír á undan þér".
"Hversvegna geta ekki fleiri en tveir verið þarna inni í einu?" spyr ég dyravörðinn - augljóslega af nokkurri vanþekkingu á kjörfræðilegum núönsum..
"Það eru nefnilega bara tveir kjörklefar þarna inni," kom svarið um hæl.
"Þarna inni" er salurinn þar sem ég dansaði í gamla daga eins og enginn væri morgundagurinn, við dynjandi rokktóna hljómsveitarinnar ein, Mána, ásamt 3-600 unglingum. Nú er bara pláss þarna inni fyrir tvo kjörklefa.  Spurningin var samt fullkomlega tilgangslaus og annað svar hefði engu breytt.

Ég gleymi að þiggja kaffið. Ég er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Einn oddvitinn er þarna á svæðinu, en það auðveldar mér ekkert að finna rétta svarið.

"Þá ert þú næstur", tilkynnir dyravörðurinn mér og ég geng fyrir hin valinkunnu og þau gera það sem þau gera.
"Þú þarft svo að brjóta saman seðilinn áður en þú setur hann í kassann og strax þegar þú ert búinn að gera við hann það sem þú ætlar að gera", er efnislega það sem einn þeira segir við mig í þann mund er hann réttir mér seðilinn og áður en ég tek við honum og geng inn í annan tveggja kjörklefa, sem híma út við vegg.
Innan tjalds í klefanum (það eru engar dyr, heldur bara tjald) er lítil hilla, útkrotað sýnishorn af kjörseðli og blýantsstubbur.

Nú var mér nauðugur einn kostur að beita lýðræðislegum rétti mínum, sem forforeldrar mínir börðust fyrir með svita og tárum.

Ég hef 5 möguleika í þessari stöðu.
Ég vel á endanum einn. Það þýðir ekki að vera með neinar málalengingar í því sambandi.

Ég vel einn.

Valið er mitt og um það tjái ég mig auðvitað ekki.
Ég finn ekki fyrir neinni sérstakri fullnægju eða stolti eftir að niðurstaðan er fengin.

Út, út.
Enginn tekur mynd af mér þar sem ég set seðilinn í kassann. Ég þykist hissa á þessu og geri við það athugasemd. 
Hin valinkunnu brosa þreytulega. Búin að heyra þennan þreytta brandara oft á þessum degi.

Komið við í búð á heimleið og keyptur ís. með lúxus súkkulaðiídýfu.

Allavega það.

-----------------------------
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þá var hér á ferð prósaljóðið Kjördagur, eftir mig.


19 maí, 2018

Ekki vera neikvæður

Sammála er ég því að það er skemmtilegra að vera jákvæður en neikvæður, í þeirri merkingu sem maður leggur alla jafna í þau orð.
Það er sérlega gaman þegar maður fær að heyra hvað maður sé nú jákvæður, sem í mínu tilviki gerist reyndar afar sjaldan. Að sama skapi er fremur leiðinlegt að fá það framan í sig að maður sé neikvæður: "Vertu nú ekki svona neikvæður!"

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að tjá þá skoðun mína, að það geti verið varhugavert að vera jákvæður, jafnvel neikvætt. Að sama skapi getur verið afar gagnlegt að vera neikvæður, jafnvel jákvætt.
Allt fer þetta eftir samhengi hlutanna, eins og svo oft er nú.


Þú geymir Skálholt, ...
Nú eru kosningar framundan, sveitarstjórnarkosningar, þar með einnig í þessum litlu hreppum okkar í uppsveitunum. Það eru einmitt þær sem valda því að ég velti þessum tveim hugtökum fyrir mér: jákvæðni og neikvæðni í samhengi við hugtökin gagnrýnisleysi og gagnrýni.

Þar sem við höfum valið okkur bústað þykir gagnrýni á sveitarstjórn ekki lýsa sérlega sérlega mikilli jákvæðni. Ástæða þess er einföld: við þekkjum oftar en ekki, fulltrúa okkar í sveitarstjórn persónulega og við slíkar aðstæður getur orðið erfitt að aðgreina gagnrýni á stefnu, aðgerðir eða aðgerðaleysi sveitarstjórnar, og þær persónur eða þá einstaklinga sem í sveitarstjórninni sitja.
Það er frekar ríkt í okkur, að gagnrýna ekki opinberlega fólk sem við þekkjum, þekkjum jafnvel vel. Sömuleiðis er það ríkt í sveitarstjórnarfólki í fremur fámennum samfélögum, að taka allri gagnrýni á störf sveitarstjórnar, persónulega. Því kann að finnast gagnrýnin beinast að sér, fremur en einhverri stefnu eða stefnuleysi þess hóps sem það er fulltrúi fyrir.

... Þingvöll, ...
Það fólk sem setur fram gagnrýni á sveitarstjórn eða stöðu samfélags, telst vera fremur neikvætt fólk. Þeir sem gagnrýna ekki og láta sem allt sé í "gúddí" tilheyra hópi jákvæða fólksins.

Þegar hér er komið, vil ég fullyrða, að ef engin væri gagnrýnin, eða neikvæðnin myndi kyrrstaðan ríkja og deyfðin, aðgerðaleysið og metnaðarleysið.  Þar fyrir utan tel ég auðvitað af ef minnihluti í sveitarstjórn er samsettur af ákaflega jakvæðu fólki, geti það verið harla neikvætt fyrir samfélagið.

Ráðið til þess að gagnrýni, neikvæðni ef það er orðið sem fólk kýs að nota, fái notið sín sem slík, tel ég að það þurfi að færa valdið (sveitarstjórn) lengra frá fólkinu sem kýs. Sveitarstjórnarfólk á að tilheyra mismunandi pólitískum stefnum þar sem það er stefnan, aðgerðirnar eða aðgerðaleysið sem situr undir gagnrýni, en ekki einstaklingarnir sem eru fulltrúar fyrir hana. Hér er ég ekki endilega að tala um að það þurfi að vera einhverjir stjórnmálaflokkar að baki, heldur frekar lífsskoðanir: fólk sem telur sig aðhyllast félagshyggju gætu komið sér saman um framboð, þá einnig talsfólk einstaklingsfrelsisins og loks þeirra sem þar væru mitt á milli. Kjósendur eiga á því rétt, að vita hvar á þessu rófi framboðin eru. Að mínu mati vantar mikið upp á hjá þeim framboðum sem okkur standa til boða  fyrir þessar kosningar.

Með því að færa valdið fjær fá mismunandi stefnur að takast á og bera málefni sín upp fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga.  Það er bara það sem lýðræðið gengur út á og á að ganga út á: val milli mismunandi stefna, frekar en val milli einstaklinga eða búsetu einstaklinga, sem ekkert gefa upp um fyrir hverju hjörtu þeirra slá.

... Haukadal.
Ég get lýst því yfir, að ég tel að næst á dagskrá sé sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu í eitt.

Ég get jafnframt lýst því yfir, að ég er orðinn bara nokkuð þreyttur á þeirri hreppapólitík sem tíðkast í uppsveitum Árnessýslu, þar sem menn vegast á um hin og þessi framfaramálin, sem síðan verða að engu.  Neiti því hver sem vill að svona sé og hafi verið staðan.

Já, já, sjálfsagt munu margir verða til þess að hrista höfuð yfir þessu "neikvæðnirausi" í mér. Ég kýs hinsvegar að líta að þetta litla framlag mitt í umræðuna sem merki um nauðsynlega jákvæðni af minni hálfu.  Ég er jákvæður fyrir hönd þessa svæðis, fái það yfir sig stjórn sem lítur það frá víðara sjónarhorni en raunin er við óbreytt ástand.

Mér er hulið hvernig Bláskógabyggð komst að þeirri niðurstöðu að hafna þátttöku í sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélaög í Árnessýslu. Engin rök hef ég séð fyrir þeirri ákvörðun og ekki veit ég til að leitað hafi verið álits íbúanna á henni, í það minnsta var ég aldrei spurður.





15 maí, 2018

Skurðir

Þegar ég hugsa til baka, finnst mér ekkert hafa verið í umhverfinu hér í Laugarási, sem taldist stafa hætta af. Það hefur ef til vill bara verið vegna þess að ég áttaði mig ekki á því. Þá rann opnn hveralækur með yfir 90°C heitu vatni á löðarmörkunum í Hveratúni, þeim sem snúa að brekkunni. Auðvitað var það svo Hvítá sjálf, þetta jökulfljót nánast við bæjardyrnar.
Ekki minnist ég þess að nokkurntíma hafa foreldrar mínir sett okkur einhverjar sérstakar hömlur í kringum þessar hættur í umhverfinu. Sannarlega voru þarna lífshættulegir staðir, sem eru það enn.
Ekki tel ég að við fD höfum verið sérstaklega á varðbergi gagnvart hættunum í umhverfinu þegar okkar börn voru að alast upp hérna. Það kann að sýna ábyrgðarleysi okkar.

Það eru mörg ár síðan og margt hefur breytst, ekki síst umhverfið. Nú er hverasvæðið að mestu varið fyrir umgangi, þó með góðum vilja geti fólk farið sér þar að voða enn.
Það sem hefur breyst umtalsvert er , að skurðirnir sem grafnir voru á lóðamörkum, þessir fínu skurðir sem gerðu mýrina byggingar- og ræktunarhæfa, eru orðnir gamlir og þreyttir.
Skurðir æsku minnar eru margir hverjir orðnir að einhverjum sakleysislegum dældum, en skurðirnir sem aðskilja lóðirnar sem voru byggðar síðar, eru nú margir hverjir orðnir stórhættulegir.

Mér hefur skilist að viðhald þessara skurða sé á ábyrgð leigutaka á þessum lóðum (vil þó ekki fullyrða um það), en það má öllum vera ljóst, að það þarf mikið að koma til til að þeir taki sig til og lagfæri þá þannig að hættulausir verði.

Það hefur orðið nokkur umræða um skurðamálin hér í Laugarási á undanförnum misserum eftir að hundar hafa lent í þeim og drepist eða brunnið svo þurfti að aflífa (auðvitað á heitt vatn undir engum kringumstæðum að renna í þessa skurði). 

Satt er það, við verðum að varast að gerast ekki of dramatísk í þessu sambandi. Við vitum öll af þeim hættum sem þarna eru, hegðum okkur í samræmi við það og vonum hið besta. Við vitum það jafnframt að vonin ein lætur vandann ekki hverfa.

Það er kominn tími til að leita lausna.

Ég teiknaði að gamni mínu inn á kort (sjá myndina) þá skurði sem ég þykist vita að eru opnir og margir hálffullir af vatni (ég veit af mörgum öðrum skurðum sem þarf að loka, en lét þessa duga í bili).. Þá litaði ég rauða. Ég set grænt á þá skurði sem hafa verið teknir í gegn.

Ég myndi vilja sjá þarna samstarf jarðareiganda og leigutaka um að loka þessum skurðum svo sómi sé að, hvað sem líður ákvæðum samnings (ef þar er að finna ákvæði um þetta, en ég finn minn samning ekki í augnablikinu og vil því ekki fullyrða of mikið).

Jarðareigandi á dágóðan sjóð og gott samstarf hans við leigutakana gæti komið þessu í ásættanlegan farveg.  Ég held að það geti verið þess virði, áður en eitthvað mögulega gerist sem við viljum ekki einu sinni hugsa til.





12 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (3)

Ég ætla að helga Laugarási þennan síðasta hluta upphátthugsana minna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.  
Ég er sem sagt búinn að henda frá mér tveim hlutum. (1) og (2).

Laugarás er afskaplega sérstakur staður og yndislegur og byggðin þar bráðung á mælikvarða byggðar í landinu að öðru leyti.

Örsaga

Árið 1922 komst Laugarásjörðin í eigu... já, í eigu hvers og hvernig?  Enn sem komið er virðist mér sýslunefnd Árnessýslu hafa keypt jörðina, en vil ekki fullyrða um hvort eða hvernig, eða með hvaða skilyrðum uppsveitahrepparnir eignuðust hana undir héraðslækninn sem þá settist að í Laugarási. Hann hafði þá búið í Skálholti í einhver ár og þar áður í Grímsnesinu. Í samræmi við það kallaðist héraðið sem þessi læknir þjónaði, Grímsneshérað. Nafninu var síðan breytt á fimmta áratugnum, í Laugaráshérað, eða Laugaráslæknishérað.
1941 hófst uppbygging í Laugarási, að öðru leyti. Hún var mjög hröð á sjöunda og fram á áttunda áratuginn, eftir að Hvítárbrúin hafði verið byggð. Hvert garðyrkjubýlið af öðru var stofnað.

Þetta átti nú ekki að vera sögustund, sérstaklega, en mér fannst rétt að setja þetta í samhengi við það sem á eftir fer.

Hluti af uppsveitum

Laugarás er, landfræðilega í miðju byggðarinnar á svæðinu sem í daglegu tali er nefnt Uppsveitir Árnessýslu. Það var því ekki að ástæðulausu að læknissetri var valinn staður hér. Þessi staður virtist hafa möguleika til að vaxa og dafna á ýmsa lund og forystumenn í uppsveitum töluðu sumir fjálglega um alla þá möguleika sem blöstu við.

Þetta átti hinsvegar aldrei að verða og hefði svo sem átt að vera fyrirsjáanlegt.
Í staðinn fyrir að verða þessi blómlegi bær, reyndist Laugarás verða heit kartafla, sem enginn vildi afhýða. Hver hreppur fyrir sig hóf uppbyggingu síns þéttbýliskjarna og það þykist ég viss um, að allir hafa þeir, í gegnum tíðina litið á Laugarás sem nokkurskonar ógn.
Engan úr þessum sveitarfélögum hef ég nokkurntíma heyrt tala um, í einhverri alvöru, að uppbygging af einhverju tagi í Laugarási væri mikilvæg fyrir uppsveitirnar, enda væru þeir með slíku tali að grafa undan uppbyggingu innan eigin hrepps.

Það sem þó hefur verið reynt að gera, hefur ekki verið af heilum hug og yfirleitt rifið niður á endanum. Þar má til dæmis nefna fyrirhugaða byggingu á þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara á 10. áratugnum, í landinu þar sem barnaheimili Rauða krossins stóð áður. Þarna var um að ræða metnaðarfullar fyrirætlanir, sem á endanum voru talaðar svo niður að ekkert varð úr. Nágrannarnir vildu allir fá þetta til sín.
Nýjasta dæmið um þetta eru síðan hugmyndirnar um byggingu hjúkrunarheimilis, sem fóru af stað að frumkvæði kvenfélaga fyrir 2-3 árum. Sú umræða fór af stað af krafti, en áður en við var litið upphófust úrtöluraddirnar og ekkert varð úr neinu.

Að óbreyttu mun Laugarás halda áfram að byggja á því einvörðungu, sem íbúarnir skapa sér sjálfir, sem er að mörgu leyti ágætt. Ég fæ ekki betur séð en eigendum jarðarinnar sé talsvert í mun að tryggja að Laugarás fái ekki að vaxa og dafna að þeirra frumkvæði.

Forsenda eignarhalds brostin

Nú er Laugaráslæknishérað ekki lengur til og heilsugæslan orðin hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Með þessu má segja að forsendan fyrir eignarhaldi uppsveitahreppanna sé horfin og þeir hafa enga ástæðu til að eiga Laugarásjörðina lengur.

Biskupstungnahreppur áður og Bláskógabyggð nú, hefur það hlutverk að halda utan um þessa sameign og ber á henni ábyrgð, enda jörðin landfræðilega í því sveitarfélagi.
Það má í raun segja alveg það sama um Bláskógabyggð að hina eigendur jarðarinnar. Sveitarfélagið vill sem minnst af Laugarási vita, telur sig (auðvitað ekki í orði) eiga nóg með hina þéttbýliskjarnana sína tvo.  Nú hefur þessi "sameining" hreppanna þriggja staðið í 16 ár og enn snýst flest um einhverskonar helmingaskipti. Enn er flest litað af því að raunveruleg sameining er ekki orðin og fyrir hendi vantraust á ýmsum sviðum, sem síðan er reynt að fjarlægja með tilheyrandi kostnaði fyrir allt samfélagið.

Von í óvissunni

Það liggur ýmislegt í loftinu í Laugarási um þessar mundir. Það eiga sér stað ánægjulegar breytingar með fólksfjölgun á síðustu árum og heyrst hefur að einhver(jir) eigenda jarðarinnar vilji selja hana.

Ég verð nú að segja það, að ég tel slíka sölu geta verið talsvert gæfuspor fyrir Laugarás. Ég held raunar að hvaða eigandi sem væri, myndi fara betur með þessa eign sína, en núverandi eigendur hafa gert.
Í gegnum eignarhaldið hefur hreppunum tekist að halda aftur af þróun byggðar í Laugarási með því að beita áhrifum í gegnum svokallaða oddvitanefnd. Þar með tel ég Biskupstungnahrepp og síðar Bláskógabyggð. Þetta myndi auðvitað enginn viðurkenna.

Með sölu á jörðinni, líklegast til Bláskógabyggðar, hefðu þessir aðilar ekki lengur þetta tangarhald og  þannig gæti Bláskógabyggð ekki lengur skýlt sér á bakvið það að jörðin væri sameign allra hreppanna.

Já, það getur verið gaman að velta hlutum svona fyrir sér.

Nýtt kjörtímabil

Nú sé ég fyrir mér að næsta kjörtímabil, verði kjörtímabilið þegar þegar fólk fer að fjalla um Laugarás, Laugarvatn og Reykholt í sömu andrá, án þess að blikna.
Ég sé fyrir mér að ég muni ekki lengur tala út í tómið þegar ég nefni Laugarás á nafn, eða fjalla um þau málefni sem þar skipta máli.

Maður verður að vera bjartsýnn og vona það besta.


Auk þess legg ég til......

Svo legg ég til svona í lokin, að við sameinumst öll um að berjast fyrir byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis og/eða þjónustuíbúða fyrir aldraða í Laugarási til ómældra hagsbóta fyrir uppsveitirnar allar og styrkingar á heilbrigðisþjónustu almennt, á svæðinu.










Ástæða til að kíkja á þetta:



11 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (2)

Í fyrsta hluta velti ég upp ýmsum staðreyndum varðandi fyrri kosningar í þessu löngu sameinaða sveitarfélagi, Bláskógabyggð. Ég tæpti á því að enn væri ekki komið á það traust innan þessa sveitarfélags, að fólk geti farið að hugsa eftir öðrum nótum en þeim birta þrjá mismunandi hreppa, eða svæði. Mér finnst kominn tími til þess og þó fyrr hefði verið.
Sættum okkur bara við það að við tilheyrum einni stjórnsýslueiningu, sem ber að huga að og sinna jafnt ÖLLUM þáttum og kimum. Einungis þannig myndast sátt.

Ef ég nú kýs að líta framhjá uppruna frambjóðenda á listunum þrem, hver ættu þá viðmið mín að vera?  Ég veit það fyrirfram að allir vilja sveitarfélaginu hið besta, í það minnsta í orði. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það, því það viljum við öll.

Málefnin
Ef ég kýs að líta framhjá uppruna frambjóðendanna, gæti ég reynt að finna út hvað það er nákvæmlega, sem aðgreinir framboðin. Er það eitthvað? Birtast þar einhver áhersluatriði sem ættu að leiða mig að einu framboði frekar en öðru? Er þetta ef til vill bara svona snakk um metnaðarfullt starf eða metnaðarfullar hugmyndir, sem meira og minna vísa út og suður? Má greina einhverja eina línu sem einkennir hvert framboð og greinir þau frá hvert öðru?
Ég held bara ekki, svei mér þá.

Meirihluti og minnihluti
Eftir kosningar verður til meirihluti og minnihluti í sveitarstjórn. Það er eitt megin hlutverk minnihlutans að veita aðhald, spyrja, gagnrýna.  Minnihlutinn á að setja spurningamerki við allt. Það sem hann samþykkir, samþykkir hann. Hann berst gegn því sem hann er andvígur. Þannig á þetta að vera þar sem hópar með mismunandi stefnu eða sýn á samfélagið hafa verið kjörnir til að fara með málefni sveitarfélags í heil fjögur ár.
Ef maður á í erfiðleikum með að greina hver tilheyrir hvaða lista eða listabókstaf, þá finnst mér þetta ekki alveg vera að gera sig (Ég hef og þurft að hugsa mig nokkuð lengi um varðandi Þ og T).

Ef allir eru bara á sömu nótum er hætt við að ákvarðanir séu teknar, sem ekki eru nægilega vel ígrundaðar og þá vaknar spurningin um hvort, þegar upp er staðið, snúist framboðin eða listarnir um eitthvað annað en einhverja stefnu sem greinir þau hvert frá öðru.

Það sem ég er að reyna að segja er, að til þess að til staðar sé minnihluti og meirihluti í sveitarstjórn, þarf að vera til ólík stefna í veigamiklum málum.
Auðvitað eru flest mál sem koma á borð sveitarstjórnar samþykkt samhljóða þar sem þau eru þess eðlis. Önnur snúast um grundvallaratriði af  ýmsu tagi, og ættu óhjákvæmilega að kalla á átök.  Til að útskýra aðeins hvað ég á við með því, vil ég t.d. nefna umhverfismál, sem eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans, hvar sem er. Í þessu sveitarfélagi eru skoðanir vísast mjög skiptar um þennan mikilvæga málaflokk, en svo virðist mér ekki hafa verið í þeirri sveitarstjórn sem nú situr. Þar virðist mér allir ganga í takt, hvar í flokki sem eru.

Nei, ekki held ég að sé einfalt mál að velja sér lista til að kjósa út frá málefnunum.

Ef maður vill horfa framhjá bæði heimilisfangi frambjóðenda og málefnaskrám framboðanna, hvað getur maður þá látið ráða atkvæði sínu?

Framsókn og íhald
Það hvarflar æ oftar að mér, að skást væri að bjóða fram pólitíska lista með öllum þeirra göllum. Við búum ekki lengur í samfélagi þar sem allir þekkja alla eins og áður var. Ég spurði einhverntíma hvar fólkið í sveitarstjórninni stæði í pólitík og fékk það svar að þar væri ekkert nema íhald og framsókn í einhverjum hrærigraut. Ég veit svo sem ekki hvað er satt í því. Hinsvegar finnst mér óþægilegt að vita ekki um grundvallarviðhorf þeirra sem í framboði eru til að ráða málum okkar. Finnst ég reyndar eiga rétt á því, sem kjósandi. Það skiptir mig engu mál hver hjúskaparstaðan er, eða hve mörg börnin eru, eða hvernig bíllinn er á litinn. Ég vil vita hvar þeir standa á hinu pólitíska litrófi.
Það breytir kannski engu alla jafna, en stóru málin snúast alltaf um grundvallaratriðin og þá reynir á lífssýn, eða hugsjónir.
Ég vil geta valið fólk til sveitarstjórnar, sem hefur svipuð grunngildi að þessu leyti og ég. 
Mér finnst það virðingarvert að nú er komið framboð í Hrunamannahreppi þar sem fólk lætur vita fyrirfram fyrir hvað það stendur í þessum efnum.

Ekki hefur mér heyrst að við Bláskógabyggðarbúar séum tilbúnir að fara þessa leið.
Hvað er þá eftir, sem gæti aðstoðað okkur við að finna framboð sem við gætum talið einna skást.

Persónur
Auðvitað stendur þessi möguleiki eftir. Á einhverjum listanna eru einn eða tveir sem ég myndi treysta til að sitja í sveitarstjórn umfram einhverja aðra og kýs því listann hans. Í mínum huga er þetta afar veikburða forsenda fyrir vali að framboðslista.
Þó að ég finni einn frambjóðanda sem afar vandaður einstaklingur í alla staði, er ekki þar með sagt að það sama megi segja um meðframbjóðendur hans. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir, fyrir hvað standa þeir? Jú, við fáum ef til vill að vita um barnafjöldann eða áhuga þeirra á hrossum eða kórsöng. Það sem við þyrftum að vita um þá er kannski ósagt. Þar dettur mér í hug hagsmunir af hinu og þessu. Hefur frambjóðandinn persónulegan hag af ákvörðunum sveitarstjórnar?  Ákvörðunum sem kunna að reynast honum hagfelldar, en baggi í sveitarfélaginu að öðru leyti?

Ef persónur eiga að vera helsta viðmiðið við val á lista, tel ég að fyrir þurfi að liggja skrá yfir alla hagsmuni viðkomandi, sem mögulega kunna að hafa áhrif á störf hans í sveitarstjórn.

Sannarlega ætla ekki ég því fólki sem situr í sveitarstjórn nú, eða sækist eftir sæti í þeirri næstu, að sigla undir einhverju fölsku flaggi. Ég er hinsvegar að halda því fram að við eigum að hafa svo glöggar upplýsingar sem mögulegt er um frambjóðendur, áður en við ákveðum hvernig við ráðstöfum atkvæðum okkar. Við þekkjum ekki allt þetta fólk sem býður sig fram.

Eftir hverju kjósum við í raun?
Nú er ég búinn að fara yfir helstu forsendur sem ég tel að kjósendur í Bláskógabyggð horfi til. Tveggja þeirra held ég að flestir horfi til umfram aðrar: búsetu frambjóðenda, annarsvegar og hverjir þeir eru, hinsvegar. Með öðrum orðum, þá tel ég ekki að metnaðarfullar málaskrárnar breyti miklu, enda fremur loðnar, teygjanlegar og líkar.




---------
Ég hyggst efna í einn kafla í viðbót og beina þá sjónum að málefnum þorpsins í skóginum, í samhengi við tilveru þess innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...