27 júní, 2018

Eins og Gordon Banks


Það æxlaðist þannig, mögulega vegna þess að ég hafði það ekki í mér að eltast við boltann um allan völl, eða verjast eða prjóna mig í gegnum varnir andstæðinganna, að ég fór að standa í marki hjá knattsoyrnuliði Ungmennafélags Biskupstungna einhverntíma í kringum 1970. Þarna var auðvitað um að ræða gullaldarlið þessa félags, eins og segja má um önnur lið félagsins sem ég var hluti af. Við æfðum eitthvað og svo kepptum við. Ég minnist þess að ég var frekar feginn að þurfa ekki að standa í þessum endalausu hlaupum, heldur fékk að einbeita mér að markvörslunni.
Sannarlega held ég því fram að fáir markvarða keppinauta okkar hafi verið magnaðri en ég. Þannig bara var þetta. Við kepptum víða í uppsveitunum og unnum glæsta sigra og niðurdrepandi töp, en um það snérist þetta auðvitað ekki.  Keppnin sjálf var aðalatriðið, að taka þátt, finna spennuna, renna sér eftir þeim tilfinningarússíbana sem einn knattspynuleikur geymir.

Ég er auðvitað ekki að ýkja þegar ég fjalla um glæsta sögu mína sem markmanns hjá Umf. Bisk. Um það get ég vitnað og þeir sem þykjast vita betur eru nú farnir að eldast talsvert og muna ekki, svo á sé byggjandi, hvernig þetta var. Þar með stendur það sem ég segi. 
Það er ekki eins og það hafi verið 50 myndavélar sem  gerðu leikjum okkar skil, engir videódómarar sem greindu örlitla snertingu við bolta eða andstæðing, engir milljarðar manna að fylgjast með. Nei, Kódak Instamatic vélarnar voru ekki einusinni notaðar til að skjalfesta undraverða markvörslu mína hvað eftir annað.  Það er leitt, svona eftir á að hyggja. Ég get þó huggað mig við það að í eitt skiptið, þegar ég hafði varið skot sem enginn hefði átt að geta varið, tautaði einn andstæðingurinn: "Bara alveg eins og Gordon Banks!"  
Myndskeiðið sem fylgir hér, sýnir stórfenglegustu markvörslu Banks á ferlinum.

Öll búum við saman í einskonar hringjum. Sá minnsti felur í sér nánasta umhverfi manns, það umhverfi sem skiptir mann mestu máli svona dags daglega. Svo stækka hringirnir sem geyma mann, allt upp í að fela í sér allan alheiminn, langt út fyrir það sem ímyndun okkar nær utan um.

Að vera aðalmarkvörður hjá unglingaliði Ungmennafélags Biskupstungna var heilmikið mál í sjálfu sér, hlutfallslega, í litla heiminum mínum í þá daga. Það sem við erum að upplifa þessa dagana er ekki ósvipað því og ef unglingalið Ungmennafélags Biskupstungna væri að leika á Wembley og standa þar í landsliði Englendinga.

Þátttaka okkar á því sviði sem heimsmeistaramót í knattspyrnu er, er einhvernveginn meira en maður nær að hugsa rökrétt um. Maður reynir að skilja hvað þessir gaurar okkar hafa lagt á sig til að ná þeim árangri sem við höfum orðið vitni að, en því meira sem maður veltir því fyrir sér, því óskiljanlegra verður það.  Þessi upplifun er nánast eins og það hafi opnast gat inn í aðra vídd, einhvern hliðarveruleika, en samt er það ekki svo. 

Sem betur fer virðist svo sem við kunnum að meta framlag piltanna þó svo ekki hafi þeir alveg náð því markmiði sem þeir stefndu að, og/eða sem við stefndum að.  Regnvotur júní sumarið 2018 er að kveðja, en í minningunni verður hans ekki minnst fyrir rigninguna, heldur sem mánaðarins þegar karlalandslið okkar í knattspyrnu var nokkrum sentimetrum frá því á komast í hóp sextán bestu knattspyrnuliða heims. Ekki svo lítið afrek það. 


20 júní, 2018

Geymsla fyrir gersemar

Skálholtsdómkirkja og það sem hún geymir er ekki bara það sem við köllum oft guðshús. Sannarlega var hún byggð á þessum helga stað, Guði til dýrðar. Kirkjubyggingin er hinsvegar meira en það og því er mikilvægt að halda til haga. 
Skálholt er einn mikilvægasti staðurinn í sögu þjóðarinnar og geymir magnaða sögu um sigra og töp, gleði og sorgir, upprisu og niðurrif, fátækt og ríkidæmi, vald og valdaleysi, misbeitingu og góðverk. Það hefur sjaldan ríkt friður um þennan merka stað og fram á þennan dag hefur verið tekist á um völd, mis opinskátt þó. Það er eitthvað við þessa "þúfu" sem kallar fram í fólki bæði það besta og versta. Það er ekkert öðruvísi með mig. Í mér hafa tekist á mjög andstæð viðhorf til Skálholts, sem ég vil ekki fjölyrða um hér og nú. Það fer þó ekki á milli mála, að Skálholt skiptir þess þjóð miklu máli, ef ekki vegna sögu okkar sem kristinnar þjóðar, þá bara vegna sögunnar, því án hennar værum við ekkert. Svo einfalt er það.

Ég ætla ekki að minnast frekar á mikilvægi Skálholts sem kirkjustaðar eða sögustaðar.
Skálholt geymir þjóðargersemar og stórar gjafir frá vinaþjóðum. 

Þessa mánuðina er verið að flytja listglugga Gerðar Helgadóttur til Þýskalands til viðgerðar og lagfæringar. Nú er unnið við að taka niður siðasta skammtinn, og hann mun svo koma með haustskipum til baka til uppsetningar. Þessu verki hefur miðað ótrúlega vel og þeir eru margir sem hafa lagt hönd á plóg við að fjármagna þetta verk og vinna að því í stóru og smáu.

Gluggarnir eru hinsvegar aðeins fyrsta skrefið í þeirri endurreisn sem unnið er að í Skálholti.

Mósaikmynd Nínu Tryggvadóttur yfir altarinu þarfnast viðgerðar, en í hana komu sprungur í Suðurlandsskjálftunum.

Þak kirkjunnar kallar á yfirhalningu, en í votviðri þarf kórinn að sitja með tilteknum hætti til að forðast dropana sem að ofan falla.

Turnþakið er orðið verulega mosavaxið.

Uppi í turni liggur brotin klukka og hefur legið þar í 16 ár.

Kirkju­klukka í Skál­holts­kirkju féll niður og brotnaði við upp­haf hátíðarmessu í lok Skál­holts­hátíðar um miðjan síðasta sunnu­dag. Þrír bolt­ar sem héldu klukk­unni uppi gáfu sig og heyrðist mik­ill dynk­ur þegar klukk­an, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkju­gesta var í kirkj­unni og mun þeim hafa brugðið við dynk­inn. Sr. Eg­ill Hall­gríms­son, sókn­ar­prest­ur í Skál­holti, seg­ir að fall klukk­unn­ar hafi verið inn­an við tvo metra. Klukk­an hafi brotnað í tvennt a.m.k. og seg­ir Gutt­orm­ur Bjarna­son staðar­hald­ari að þegar hafi verið haft sam­band við fyr­ir­tæki sem taka að sér að gera við slík­ar klukk­ur og að ljóst sé að gert verði við klukk­una. Hann seg­ir ómögu­legt að segja til um viðgerðar­kostnað að svo stöddu sem og um virði klukk­unn­ar sjálfr­ar. Alls voru fimm klukk­ur í turn­in­um og seg­ir hann að vandi yrði að finna klukku sem hefði sama tón og sú sem brotnaði. Klukk­an er úr kop­ar­blöndu og seg­ir Eg­ill að hún gæti verið um metri á hæð og eitt­hvað svipað á breidd. Klukk­an er gjöf frá Dön­um og stend­ur ár­talið 1960 á henni. Gutt­orm­ur tel­ur þó að hún sé eldri, seg­ir að gert hafi verið við hana áður en hún kom til Íslands. - mbl 22.07.2002
Tröppurnar upp að kirkjunni eru orðnar illa farnar.

Þetta eru nú bara nokkur atriði sem koma í hugann í fljótu bragði, en það sem átti og á að vera kjarninn í því sem ég er að reyna að koma frá mér er þessi:
Það skiptir engu máli hvaða trú við aðyllumst og hvort við trúum yfirleitt, Skálholt er staður sem þessi þjóð þarf að varðveita í virðingarverðu ástandi. Staðurinn er eitt mikilvægasta táknið um að við erum þjóð meðal þjóða, menningarþjóð sem flytur sögu sína og menningu áfram til komandi kynslóða.  Ég neita að trúa því að við séum svo smá í okkur, að okkur takist ekki að horfa framhjá dægurþrasi þegar um er að ræða að bjarga þeim verðmætum sem Skálholt geymir.

Höldum áfram þessu verki.
Lagfæring glugganna er afburðagott skref í þá átt og vísir að öðru og meira.


12 júní, 2018

Í rándýrskjafti

Kettir eru rándýr og hluti af náttúrunni, rétt eins og við öll og eiga þar með sama rétt og við til lífs og lífsviðurværis. Þeir eru heimilis/húsdýr víða, bæði sem innikettir og útikettir, eða hvað sem það er kallað.
Sumir kettir teljast villikettir, enda eiga þeir engan samastað í híbýlum manna. Þessari tegund katta tel ég að ætti að halda í skefjum og einhverjir skilst mér (kattavinir) gera átak í því að fanga villiketti til að gelda þá, í augljósum tilgangi.

Þá er ég kominn að tilgangi mínum með þessum vangaveltum.
Í morgun sá ég svartan loðinn kött undir matarborði smávina okkar Kvisthyltinga. Smávininrnir steinþögðu. Kötturinn var rekinn af staðnum með sérstökum kattafæluhljóðum fD.

Bak við borðið lá tætt hræ fullorðins auðnutittlings og þar skammt frá höfuð af öðrum. Mér var nokkuð létt yfir því að þarna var ekki um að ræða hann Bassa, vin minn, en reyndar hefur hann ekki látið sjá sig í nokkra daga og getur því allt eins hafa farið sömu leið.

Ábyrgð? Ber einhver ábyrgð á svona aðstæðum?
Ætli það. Ef maður færi að benda á hina eða þessa eða hitt eða þetta, kæmist maður fljótt að því að þarna er um að ræða hið eðlilegasta fyrirkomulag í náttúrunni.
Við eigum líf okkar undir býflugum. Þannig er hver dýrategund háð annarri og sú eina sem virðist vinna markvisst að því að raska því jafnvægi sem náttúran byggir á er mannskepnan, sem drepur meira og eyðir meiru en hún þarf til að komast af.

Vissulega gætu kattaeigendur haldið köttunum sínum innandyra yfir þann tíma sem ungar eru að komast á legg, eða troðið svo miklu af mat í þá að þeir hefðu enga þörf fyrir ránsdýrseðli sitt.

Vissulega gæti ég dregið þann lærdóm, að fóðrun fugla á þessum tíma sé misráðin, enda geti þeir alveg bjargað sér sjálfir og fóðrunin þar með tilkomin einvörðungu vegna sjálfselsku.

Þó það hafi ekki verið ánægjulegt að fjarlægja fyrverandi gesti mína líflausa frá matarborðinu, þá er það bara eins og það er. 
Punktur.

.............................................

Að öðru, sem gæti mögulega létt lund eftir svo þunglyndislega færslu.

Ég er búinn að flytja myndirnar sem ég hef tekið af fuglalífinu í kringum okkur í Kvistholti og lítillega einnig í nágrenninu upp í skýið, þar sem þú getur, lesandi góður, skoðað þær að vild, sé viljinn og áhuginn fyrir hendi.




08 júní, 2018

Í störukeppni við veiðibjöllu

Hreiðrið. Mjólkurhús og hlaða í baksýn.
Í gamla daga kölluðum við þennan fugl veiðibjöllu en hann mun einnig heita svartbakur og vera stærsta mávategundin hér á landi. (Ég verð leiðréttur ef þetta reynist ekki vera svartbakur, mér finnst bakið reyndar ekki var svart)

Ég fékk, sem sagt, smáskilaboð frá Kirkjuholtsbóndanum sem hljóðuðu svo:

Mótífin eru mögnuð á tjörninni þessa dagana. Fyrir alvöru linsu :)

Þessi tjörn er uppi á túni, ein og sagt er, þar sem við renndum okkur í gamla daga á skíðasleðum og skautum. Ég er ekki alveg viss um hvort hún á eitthvert nafn.

Starað
Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar greip græjurnar og kom mér á staðinn í fylgd fD, sem einnig taldi sig geta notað þetta tilefni til daglegrar hreyfingar og útivistar. Á leiðinni á staðinn rákumst við á áðurnefndan bónda, sem gerði nánari grein fyrir því sem um var að ræða. Á miðri tjörninni væri veiðibjalla búin að koma sér upp hreiðri og stundaði þaðan loftárásir á endur sem voguðu sér of nálægt.
Í þann mund er við vorum komin upp Hverabrekku/Helgabrekku og sáum á tjörnina flaug veiðibjallan af hreiðrinu og hvarf upp í himinblámann. Þar með var nánast ekkert líf á tjörninni utan tveir óðinshanar sem syntu í hringi og tíndu upp í sig það sem fyrir bar.

Ég var nú ekki sáttur við að vera kominn alla þessa leið, gangandi, finnandi engin "mótíf". Ákvað þar með að koma mér fyrir og bíða þessa að veiðibjallan sneri til baka. 
Tyllti mér á þúfu á tjarnarbakkanum og beið, en engin veiðibjalla lét sjá sig. Áttaði mig fljótlega á því, að sennilega er sjón veiðibjöllunnar í betri kantinum og því gerði hún sér fulla grein fyrir þeirri breytingu á umhverfinu sem nýja þústin (ég) í grennd við hreiðrið var.

Lent á hreiðri
Eftir korters bið varð það niðurstaða mín að hverfa frá bakkanum og vita hver áhrif það myndi hafa. Í um 50 m fjarlægð sá ég hvar móðirinn (nú eða faðirinn) lækkaði flugið, en ekkert umfram það. Ég gekk svona 25 m í viðbót og þá settist hún á bakkann hinumegin tjarnarinnar. Ég settist og beið. Ég horfði á hana og hún á mig, grafkyrr. 

Gerði mér grein fyrir að þetta myndi ekki leiða að neinni niðurstöðu. Gekk aðra 25 m og það var ekki fyrr en þá loksins, sem hún hóf sig á loft og skellti sér á hreiðrið.  

Þetta allt saman kenndi mér ýmislegt í fuglafræðum. Nú er framundan að panta felutjald frá Alibaba og koma því fyrir þar sem fugla er von, ... eða ekki.

Óðinshani
Ég segi nú ekki alveg satt þegar ég fullyrði að ekkert líf hafi verið þarna. Rétt hjá var grágæs, lóa, spói og stelkur. Ég var hinsvegar að leita eftir einhverri aksjón í fuglaveröld, sem ekki reyndist vera.
Kannski er það best þannig.






Grágæs

Heiðlóa

Stelkur


05 júní, 2018

Ellilífeyrir! - Niðurlægjandi fyrirbæri

Ég hef sagt skilið við almenna atvinnuþátttöku og er farinn að fá greiðslur úr sjóði sem ég hef greitt skilmerkilega í, alla mína starfsævi. Tilgangurinn með því að greiða í þennan sjóð var sá, að ég gæti sótt þangað fé þegar að því kæmi að ég hætti að vinna og færi að njóta annarra lífsins gæða.
Það fé sem ég fæ úr þessum sjóði, er endurgreiðsla til mín á því sem ég lagði til hliðar. Þetta er hluti þeirra launa sem ég vann fyrir. Þetta er þar með mín eign og minn réttur að fá það til baka, eftir að sjóðurinn hefur haft það í sinni vörslu til ávöxtunar. Ég hefði auðvitað getað tekið af tekjum mínum sjálfur, í lok hvers mánaðar og lagt fyrir á einhverjum reikningi, en lög munu kveða á um, að ég verði að greiða í fyrirbæri sem kallast lífeyrissjóður. Þar sem þessir lífeyrissjóðir geyma þetta fé ekki sem séreign hvers einstaklings, fær maður greitt úr honum þar til síðast andvarpinu er náð, hvort sem það gerist fyrr eða síðar.

Greiðslur til mín úr þessum sjóði lít ég á sem eftirlaun. Laun sem ég fær greidd eftir að ég hef hætt störfum. Laun, en ekki lífeyrir.

Þegar ég heyri eða sé orðið "ellilífeyrir" sé ég fyrir mér örvasa gamalmenni í torfbæ sem tórir bara vegna þess að hreppurinn hendir í hann lífeyri: eyri sem dugir til þess að hann haldist á lífi - nokkurskonar framfærslustyrk. Tólgarkerti logar við rúmstokkinn og í það er hent við og við trosi eða flís af sauðaketi.

Já, ég get ekki sætt mig við að það fé sem ég vann fyrir, hörðum höndum, skuli nú vera farið að berast mér sem ELLILÍFEYRIR.  Þetta er enginn fjárans lífeyrir, fyrir utan það, auðvitað, að ellin er bara hreinlega ekki sest að í mér.

Fólk sem hefur greitt í þessa svokölluðu lífeyrissjóði alla starfsævina, á það fé sem þangað var greitt. Það fé var hluti að þeim launum sem það fékk fyrir vinnuna. Það sem það fær síðan til baka er ekki neitt sem kalla má lífeyri, eða ellilífeyri, heldur:

EFTIRLAUN.

Sjóðirnir eiga að kallast EFTIRLAUNASJÓÐIR og ég telst EFTIRLAUNAMAÐUR en ekki ELLILÍFEYRISÞEGI, eins og ég sé að þiggja eitthvað frá samfélaginu, vegna gæsku þess í minn garð.
Það bara er ekki þannig.

Mörgum orðum í íslensku hefur verið skipt út fyrir önnur vegna þess að þau fengu á sig aðra merkingu í daglegu tala (yfirleitt neikvæða), en þau höfðu upphaflega.

Orðið "ellilífeyrir" er orð af þessum toga og á að taka af dagskrá, sem allra fyrst.

Út með það.

30 maí, 2018

Siggi á Baugsstöðum níræður

Elsta myndin af piltinum
Það eru nú ekkert mörg ár síðan ég var í sveit á Baugsstöðum. Reyndar fer það eftir því hvaða mælikvarði er notaður, en það hefur líklega verið um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Síðan eru víst liðin ríflega 50 ár.
Þá hefur Siggi verið farinn að nálgast fertugt og rak Baugsstaðabúið ásamt Geira og Unu, afa og ömmu.
Í dag er Siggi orðinn níræður, og hann býr enn á Baugsstöðum.

Þessar sumardvalir á Baugsstöðum skilja eftir sig minningaleiftur, frekar en eitthvað í  samhengi.
Það fyrsta sem kemur í hugann er koks og aska. Koksið var notað til húshitunar og reglulega þurfti að fara með öskuna og henda henni niður fyrir bakka.


Siðan kemur í hugann heyskapur - leiðindin sem fólust í því að raka í kringum sátur,
Fermingardrengurinn
spennan og lífshættan sem fylgdi því að fá að keyra Farmalinn næstum í veg fyrir bíl og að veltast í heyi á palli Flaugarinnar, sem flutti hvert hlassið á fætur öðru heim í hlöðu þar sem það var dregið af með stórmerkilegri aðferð.
Þá kallar hugurinn fram er gult olíubrilljantín sem fékkst hjá Möggu og Gunnu í Rjómabúinu og flórmokstur, þar sem beljurnar héldu stöðugt áfram að framleiða verkefni, amma sem alltaf kom út í dyr þegar Hveratúnsfólkið bara að garði, lyfti upp handleggjunum með orðunum "Blessað góða fólkið mitt". 
Svo var það kindabyssan í skápnum á ganginum í gamla bænum, líklega fyrsta byssa sem ég sá "live".
Það var auðvitað margt bardúsað annað með frændsystkinunum og án, eins og gengur.
Siggi hafði umsjón með vitanum og ferðirnar
þangað fólu í sér talsverð ævintýri, hann var líklega það hæsta sem ég komst frá jörðu þangað til ég fór í flugvél í fyrsta sinn, endalaust útsýni, enda Flóinn ekki verulega fjöllóttur.

Sigurður Pálsson fæddist þann 30. maí, 1928, yngstur fjögurra systkina. Elst var Guðný (1920-1992), næst Elín Ásta (1922-1933) og þriðji Siggeir (1925-2001).

Töffarinn
Samskiptin við Sigga voru auðvitað mest á þeim tíma sem ég var í sveit á Baugsstöðum. Að fara í sveit þýddi að fara á bæ þar sem stundaður varð hefðbundinn búskapur, með heyskap og öllu tilheyrandi. Annað taldist ekki sveit. Vegna þess að ég var formlega í sveit hjá ömmu og afa í gamla bænum og þar bjó Siggi einnig. Hæglátur risi í mínum huga, sem ekkert fékk haggað. Loftsstaðahendurnar og reyndar vaxtarlagið allt ótvírætt vitni um krafta í kögglum.  Krafta sem einvörðungu var beitt við vinnuna, en aldrei misbeitt.








Á besta aldri
Þegar ég óx síðan upp úr að fara í sveit urðu samskiptin vissulega strjálli, en móðir mín var nú talsvert dugleg að fara með okkur í heimsókn og alltaf var nú jafn gaman að heyra kveðjuna: "Blessað góða fólkið mitt", jafnvel þótt táningsárin breyttu sýn á ýmislegt. Svo var boddíinu stundum skellt á pallinn á Flauginni og haldið í sameiginlegar ferðir um Suðurland, sem þó óljósar séu í minningunni, voru ævintýri út af fyrir sig.
Tvisvar, í það minnsta man ég eftir ferðum með foreldrum mínum, austur á land þar sem Siggi var einnig með. Í annarri var meðal annars kíkt í heimsókn að Stóruvöllum í Bárðardal, en þaðan var Páll afi ættaður. Eftirminnileg heimsókn.

Nú er Siggi einn eftir þeirra sem kalla fram minningar um löngu liðinn tíma og að koma á Baugsstaði, í gamla bæinn er eins og að ferðast í tímavél hálfa öld aftur í tímann, klukkan á veggnum, panellinn, lyktin.  Þarna býr Siggi, og gegnir hlutverki akkeris sem minnir okkur á hvaðan við komum, barmafullur af fróðleik sem mikilvægt væri að koma böndum á og flytja áfram. Bara ef hann myndi nú skrifa eitthvað af þessu niður.

Í gær var Sigga haldið ágætt kaffisamsæti, ef svo má segja, á Sólveigastöðum. Karlinn er alltaf eins og það er ekki fyrr en maður skoðar eldri myndir að í ljós kemur að hann er alveg á eðlilegu róli. Sannarlega eru Loftsstaðahendurnar þarna enn, en þó eitthvað séu liðirnar farnir að stirðna er ekki það sama að segja um  höfuðið sem er alveg með hlutina á tæru. Hann lýsti meðal annars óánægju sinni með á Ásta á Grund hefði misst meirihlutann í kosningunum. Þá var hann áfram um að koma því á framfæri að nú væri það sannað, að Flóamenn væru vitrastir manna á Íslandi, með Hannes Stefánsson, frænda, fremstan í flokki.

Níræður með Ástu




26 maí, 2018

Kjördagur

Regnið lemur framrúðuna á Qashqai þar sem við fD leggjum leið okkar í átt að hálendinu. Það er eins og það reyni að koma í veg fyrir að við fáum sinnt erindi okkar, en rúðuþurrkurnar reyna aftur á móti að berjast gegn regninu og vísa þannig leiðina á áfangastaðinn.

Áfram.

Áfram silumst við, hugsi.

Fyrir framan er túristabíll og annar fyrir aftan, svona eins og fara gerir.

Vegurinn býður upp að holudans til að drepa tímann. Eitt feilspor í þeim dansi gæti orðið dýrt. Það kemur sér illa að hafa ekki lagt meira upp úr skíðamennsku, en aðrir kostir vega á móti.

Þetta er nú ekki nema um 12 km spotti við þessar aðstæður, nægur tími til að gera upp hug sinn. Nægur tími til að velta fyrir sér hver möguleikanna 5 skuli valinn, nema niðurstaðan verði sú að bæta þeim sjötta við.

Nei, það er lýðræðisleg skylda að velja einn þessara fimm.
Þó mér finnist að ýmsu leyti ósanngjarnt að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu, er eiginlega ekki um annað að ræða en nýta þann dýrmæta rétt sem sem ég hef til að tjá vilja minn.

Við nemum loks staðar á áfangastað - kjörstað.
Enn þessi nagandi efi, enn þessi leiðinda pæling um að þetta breyti engu, til eða frá. Er það úrhellið og holurnar sem valda, eða er einhver löngu kæfður uppreisnarandi að reyna að láta á sér kræla?

Hvað með það.
Það verður ekki snúið við úr þessu. Best að ákveða þetta bara á leiðinni inn.

Kominn inn, en engin niðurstaða.

"Gjörðu svo vel, Sigríður, þú er næst." tilkynnir ofurhress dyravörður með gleraugu og beinir máli sínu til eldri konu með grásprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður. Til þess að komast inn á kjörstaðinn þarf nefnilega dyravörð, sem leyfir manni að ganga inn á kjörstaðinn, ganga þar fyrir þrjá valinkunna sveitunga, sem finna á hvaða blaðsíðu maður er í kjörskránni, segja hvert öðru og skrá það loks með penna á blaðsíðu í einhverjum doðranti.

Sigríður hverfur inn um dyrnar, en út kemur í sama mund yngri karlmaður með þykkt rauðsprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður, heldur.

"Má ekki bjóða ykkur kaffi?", gellur í dyraverðinum. "Það verður smá bið. Það eru þrír á undan þér".
"Hversvegna geta ekki fleiri en tveir verið þarna inni í einu?" spyr ég dyravörðinn - augljóslega af nokkurri vanþekkingu á kjörfræðilegum núönsum..
"Það eru nefnilega bara tveir kjörklefar þarna inni," kom svarið um hæl.
"Þarna inni" er salurinn þar sem ég dansaði í gamla daga eins og enginn væri morgundagurinn, við dynjandi rokktóna hljómsveitarinnar ein, Mána, ásamt 3-600 unglingum. Nú er bara pláss þarna inni fyrir tvo kjörklefa.  Spurningin var samt fullkomlega tilgangslaus og annað svar hefði engu breytt.

Ég gleymi að þiggja kaffið. Ég er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Einn oddvitinn er þarna á svæðinu, en það auðveldar mér ekkert að finna rétta svarið.

"Þá ert þú næstur", tilkynnir dyravörðurinn mér og ég geng fyrir hin valinkunnu og þau gera það sem þau gera.
"Þú þarft svo að brjóta saman seðilinn áður en þú setur hann í kassann og strax þegar þú ert búinn að gera við hann það sem þú ætlar að gera", er efnislega það sem einn þeira segir við mig í þann mund er hann réttir mér seðilinn og áður en ég tek við honum og geng inn í annan tveggja kjörklefa, sem híma út við vegg.
Innan tjalds í klefanum (það eru engar dyr, heldur bara tjald) er lítil hilla, útkrotað sýnishorn af kjörseðli og blýantsstubbur.

Nú var mér nauðugur einn kostur að beita lýðræðislegum rétti mínum, sem forforeldrar mínir börðust fyrir með svita og tárum.

Ég hef 5 möguleika í þessari stöðu.
Ég vel á endanum einn. Það þýðir ekki að vera með neinar málalengingar í því sambandi.

Ég vel einn.

Valið er mitt og um það tjái ég mig auðvitað ekki.
Ég finn ekki fyrir neinni sérstakri fullnægju eða stolti eftir að niðurstaðan er fengin.

Út, út.
Enginn tekur mynd af mér þar sem ég set seðilinn í kassann. Ég þykist hissa á þessu og geri við það athugasemd. 
Hin valinkunnu brosa þreytulega. Búin að heyra þennan þreytta brandara oft á þessum degi.

Komið við í búð á heimleið og keyptur ís. með lúxus súkkulaðiídýfu.

Allavega það.

-----------------------------
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þá var hér á ferð prósaljóðið Kjördagur, eftir mig.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...