16 ágúst, 2022

Baugsstaðir - 1892-1910 botninn nálgast.

Hér getur fólk af þessari ætt
mátað sig inn, eftir því sem við á.
Þá er komið að smantekt um ári 1892 til 1910. Þetta er talsvert viðameira en ég hafði reiknað með þegar ég, í sakleysi mínu, ætlaði að fá einhverja mynd af þeim jarðvegi sem ég er sprottinn úr í móðurætt.  Við þessa yfirferð vakna margar spurningar, en ég verð að sætta mig við að svör við þeim fást sennilega aldrei.

En, áfram með smjörið.

1892

Það má kannski segja að þetta ár hafi farið í að jafna sig á áföllum síðasta árs. Áfram voru Þau Stefán Jóhann og Guðlaug Jóhannsbörn á Hólum.
Stefán hjá Sigurði Einarssyni (69) og Kristínu Maríu Hansdóttur (65), en Sigurður og Guðmundur á Baugsstöðum voru systkinabörn.
Guðlaug var hjá Hannesi Magnússyni (33), móðurbróður sínum og Þórdísi Grímsdóttur (24). 

Kristín var á Tóftum hjá Einari Sigurðarsyni (36) og Ingunni Sigurðardóttur (28).

Á Baugsstöðum voru þau Elín í austurbænum og Páll í vesturbænum, 5 ára og væntanlega farin að leika sér saman á hlaðinu. Siggeir, 13 ára farinn að taka virkan þátt í bústörfunum.

Hannes Einarsson í Tungu, faðir Jóhanns lést þann 6. október úr brjóstveiki.   

 1893

Nú var farið að líða að kynslóðaskiptum á Baugsstöðum. Þau hófust með því  Magnús Hannesson í austurbænum, 75 ára, lést í júlí úr taksótt, og við tók sonur hans Magnús, 32 ára að aldri. Bústýra hjá honum og síðar eiginkona, var Þórunn Guðbrandsdóttir (24). Þau voru skráð, ásamt Hólmfríði Bjarnadóttur (16) vinnukonu (Fríðu í Hólum), sem önnur fjölskyldan í austurbænum.
Í hinni fjölskyldunni í austurbænum voru bróðir Magnúsar, Jón Magnússon (35) bóndi og ráðskona hans, Helga Þorvaldsdóttir (33). Þriðji bróðirinn. Sigurður Magnússon (24), smiður, var skráður hjá þeim.  
Þessir bræður voru, svona til að halda því til haga, bræður Elínar Magnúsdóttur (39), langömmu minnar, sem nú var allt í einu orðin hluti fjölskyldunnar í vesturbænum, ásamt Elínu dóttur sinni. Hún bar þar titilinn "húskona". Um ástæður þess að þær fluttu sig þarna milli bæja hef ég engar upplýsingar, en þarna voru afi og amma, 6 ára að aldri, orðin hluti af sömu fjölskyldunni, ef svo má segja.
Að gamní mínu set ég hér skilgreiningu vísindavefsins á hugtakinu húskona/húskarl:

Hjú, vinnufólk, griðfólk, karlmenn líka kallaðir húskarlar. Þetta fólk bjó inni á heimilum bænda og hafði oftast vinnuskyldu hjá þeim allt árið. Fyrir það fékk fólk húsnæði (lítið meira en rúm til að sofa í), fæði og líklega oftast vinnulaun, að minnsta kosti karlmenn.

 Að öðru leyti bjuggu þessi í vesturbænum: Guðmundur Jónsson, bóndi (44), Guðný Ásmundsdóttir kona hans (41), Siggeir (14) og Páll (6) synir þeirra. Elín Erlindsdóttir húskona (35) og Jón Ásmundsson (36) vinnumaður.

 1894

Ekkert bar til  tíðinda á Baugsstöðum þetta árið, utan að  Elín Erlindsdóttir, húskona, fór burt.
Stefán Jóhann og Guðlaug voru áfram á Hólum, en Kristín (11) fór í Kampholt í Hraungerðishreppi.

 1895

Magnús bóndi í austurbænum og Þórunn bústýra, eignuðust dótturina Margréti í júní. Að öðru leyti hélt fólkið á Baugsstöðum áfram með daglegt líf. 
Kristín Jóhannsdóttir (12) fór frá Kampholti að Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi. Þar var hún síðan til 1898. Staða Stefáns Jóhanns og Guðlaugar á Hólum var óbreytt.

 1896

Þetta ár fól ekki í sér neitt það sem ástæða hefur verið að skrá í kirkjubækur.

 1897

Í vesturbænum urðu tíðindi, þegar Elín Magnúsdóttir eignaðist dótturina Viktoríu þann 22. febrúar. Hún lýsti Guðmund Brynjólfsson föður að stúlkunni.  Guðmundur var, árið áður, 29 ára gamall, til heimilis hjá foreldrum sínum á Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi, en þar var einmitt einnig dóttir Elínar,  Kristín Jóhannsdóttir, þá 12 ára.  Auðvitað hef ég engar heimildir um það, að hve miklu leyti Elín fylgdist með, eða heimsótti börn sín, sem hún hafði ekki hjá sér, en mér finnst líklegt að hún hafi heimsótt þau og jafnvel dvalið eitthvað á viðkomandi bæjum. Svona hluti geymir hin óskráða saga.

 Það vekur athygli mína að nafn stúlkunnar er þarna skráð "Wictoría" og og væri fróðlegt að vita hvort þessi stafsetning hafi verið frá móðurinni komin.


Í austurbænum bar það til tíðinda, að Sigurði Magnússyni og Ólöfu Þorkelsdóttur fæddist sonurinn Sigurður Þorkell. Hann þekktum við sem síðar sem Þorkel sem var kvæntur Bjarneyju á Ránargötu 9A í Reykjavík. Hann var seinna, í nokkur ár í vesturbænum á Baugsstöðum, eftir að foreldrar hans fluttu til Reykjavíkur, 

Jón Magnússon og Helga Þorvaldsdóttir í austurbænum eignuðust soninn Magnús, í september, en hann dó hálfum mánuði síðar úr krampa.

 1898

Á þessu ári voru 8 sálir skráðar í vesturbænum og þar varð engin breyting. Í austurbænum  fæddist Guðlaugur Magnús Sigurðsson í október, en hann dó 7 vikna gamall.
Vigfús Ásmundsson (39) bróðir Guðnýjar kom í vesturbæinn frá Stóra Hrauni.
Kristín Jóhannsdóttir (16) fór frá Sóleyjarbakka að Högnastöðum í Hrunamannahreppi

 1899

Hér urðu nokkur þáttaskil þegar Magnús Magnússon, bóndi í austurbænum lést um miðjan september úr „innvortis meini“. Hann var 36 ára og nýtekinn við búinu.

Til Jóns Magnússonar (41) snikkara og Helgu Þorvaldsdóttur (38) voru komnir tveir tökudrengir, þeir Jón Kristjánsson (10) og Ólafur Gunnarsson (3). Helga var föðursystir Ólafs, en móðir hans lést við fæðingu hans.

Í vesturbænum var ekki heldur tíðindalaust, en Guðlaug Jóhannsdóttir (17) kom frá Hólum.

Þarna voru þau Páll og Elín orðin 12 ára og Siggeir tvítugur. Jón Ásmundsson (37) var enn vinnumaður ásamt bróður sínum Vigfúsi (40).
Kristín Jóhannsdóttir flutti frá Högnastöðum, eftir ársvist, í Roðgúl á Stokkseyri.

 1900

Þá er það aldamótaárið.   Sigurður  og Ólöf í austurbænum eignuðust  soninn Guðmund, í maí, en hann dó hálfs mánaðar gamall úr naflakviðsliti.  Þau fluttu til Reykjavíkur 1902.

Þó svo áfram hafi verið fjölskyldutengsl milli bæjanna á Baugsstöðum, meðan Jón Magnússon lifði, en hann lést 1921, hyggst ég hér eftir einbeita mér að vesturbænum, ekki síst til að flækja ekki málin um of.
Við vitum það mörg, að Ólafur Gunnarsson, fóstursonur Jóns og Helgu, tók þar við búi eftir fóstra sinn og varð að Óla í austurbænum.
Vigfús Ásmundsson fór að Framnesi á Skeiðum og Jón bóðir hans fór einnig burtu.

Í sóknarmannatali þetta ár voru þessir einstaklingar skráðir í vesturbænum:
Guðmundur Jónsson (52) bóndi
Guðný Ásmundsdóttir (47) kona hans
Siggeir Guðmundsson (21) sonur þeirra
Páll Guðmundsson (13) sonur þeirra
Elín Magnúsdóttir (43) húskona
Elín Jóhannsdóttir (13) dóttir hennar
Viktoría Guðmundsdóttir (3) dóttir hennar
Guðlaug Jóhannsdóttir (18) dóttir hennar.

Tuttugasta öldin hefst.

Svo held ég inn í tuttugustu öldina og væntanlega verður fólk og viðburðir æ þekktari í elsta hópnum sem þetta les.

1901

Guðlaug Jóhannsdóttir (19) fór aftur að Hólum sem vinnukona, en þar hafði Sæmundur Þórðarson tekið við búi af Sigurði Einarssyni, sem lést 1899. Þau Guðlaug og Sæmundur gengu í hjónaband, eignuðust son og fluttu síðan til Reykjavíkur 1903. Þau urðu einnig foreldrar Kristínar Maríu (Stínu Maríu) meðal annarra barna. Stefán Jóhann (18) fór með þeim til Reykjavíkur.
Þá eru tvö barna þeirra Elínar Magnúsdóttur og Jóhanns Hannessonar úr sögu þessari að mestu og með þeim voru ættmenni horfin á braut frá Hólum.

Kristín Jóhannsdóttir (18) flutti frá Roðgúl á Stokkseyri í Skipholt í Hrunamannahreppi. þar var hún þar til hún kom að Baugsstöðum árið 1904.

1902

Siggeir Guðmundsson varð þarna 23 ára og kominn á giftingaraldur.  Hann hefur án efa verið búinn að taka eftir Kristínu Jóhannnsdóttur, ekki síst á meðan hún var í Roðgúl. Nú var hún hinsvegar í Skipholti og hver veit hvernig þetta þróaðist allt saman. Kannski eitthvert ykkar sem þetta lesa. 

Þá má reikna með að 15 ára unglingarnir á Baugsstöðum, þau Elín og Páll, hafi verið farin að velta ýmsu fyrir sér.

1903

Það varð til tíðinda, að Sigurður Þorkell Sigurðsson (6) var kominn á bæinn sem tökubarn.  Sannarlega veit ég ekki ástæður þess, en foreldrarnir fluttu til Reykjavíkur árið áður. Vel kann að vera að föðursystir hans, Elín Magnúsdóttir, hafi tekið hann að sér, ekki síst til að fá leikfélaga handa Viktoríu, en þau voru jafnaldrar.

1904

Þar kom að því að Kristín Jóhannsdóttir (21) kom aftur á Baugsstaði, en frá því faðir hennar lést, var hún búin að vera á Tóftum, Kampholti, Sóleyjarbakka, Högnastöðum, Roðgúl og Skipholti, en hún kom einmitt frá Skipholti.  Þarna var hún skráð sem vinnukona. Þarna var Siggeir orðinn 25 ára.

Kristín og Siggeir

 1905

Hjónaband þeirra Kristínar og Siggeirs, sem var innsiglað þann 10. nóvember 1905, hefur líklega ekki komið neitt á óvart og haft talsvert lengri aðdraganda en það tæpa ár sem Kristín hafði verið á Baugstöðum. Þetta var annar tveggja stórra viðburða í vesturbænum þennan veturinn.

 1906

Rúmum fjórum mánuðum (þann 24. mars) eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust þau Siggeir og Kristín fyrsta barn sitt, Guðmund Siggeir.

1907 - 1908

Allt óbreytt í vesturbænum, en örugglega ýmiskonar gerjun í gangi, ef að líkum lætur.

1909

Þann 12. ágúst kom Jóhann Siggeirsson í heiminn. Hann var skírður í Stokkseyrarkirkju.

1910

Það kom að þvi að Elín Jóhannsdóttir, 23 ára, hleypti heimdraganum og færi aðeins út í heim. Hún gerðist „vetrarstúlka“ hjá hjónunum Sigurði Thoroddsen og Maríu Kristínu Thoroddsen á Fríkirkjuvegi 3 í höfuðborginni. Þetta þýðir samkvæmt mínum skilningi, að hún hafi verið í borginni á veturna, en komið í sumarstörfin á Baugsstöðum. Sigurður var á þessum tíma menntaskólakennari og verkfræðingur.
Elín virðist hafa verið vetrarstúlka í borginni til vorsins 1917 og góð vinátta hélst með henni og Thoroddsen fjölskyldunni ævina á enda, og vináttan erfðist, að minnsta kosti í kvenlegg. Þannig var María Louisa, barnabarn Sigurðar og Kristínar "sumarstúlka" í Heratúni nokkur ár.

Kannski keypti amma jólagjafirnar þarna.

Fátt er vitað af Elínu í borginni í þessi ár, en það verður að reikna með að sveitamennskan hafi aðeins rjátlast af henni. Ætli Páll hafi haft áhyggjur?  Voru þau yfirleitt nokkuð að pæla í einhverri framtíð saman? 

Áður en ég fer lengra út í einhverjar spurningar sem engin svör eru fáanleg við, ætla að ég láta staðar numið í bili. Svo held ég áfram þar sem frá er horfið hér og fer að feta slóðir þar sem þekking í þessum hópi fer hratt vaxandi, en ég hef allta kirkjubækurnar til að styðjast við. Ekki ljúga þær - eða?


FRAMHALD

13 ágúst, 2022

Baugsstaðir - þingeyskt blóð

f.v. Ásmundur Benidiktsson, Guðmundur Jónsson og
Páll Guðmundsson. Því miður hef ég ekki fundið myndir
af konum, sem þarna koma við sögu og skipta miklu máli.

Mest orkan hingað til, í þessari yfirferð um sögu Baugsstaðaættarinnar - aðallega eins og hún birtist í kirkjubókum, hefur verið með áherslu á forfeður ömmu, Elínar Jóhannsdóttur.  
Nú ætla ég hinsvegar að skoða leiðina sem forfeðurnir fóru til að mynda afa á Baugsstöðum, Pál Guðmundsson.

Það vill svo til, að ég er áður búinn að skrifa nokkuð um þetta viðfangsefni, annarsvegar í tilefni af því, að ég tók á móti frænda mínum frá Kanada fyrir fimm árum. Hann heitir Jón Ásmundsson (John Asmundson). Þau skrif má  finna hér: Jón frændi  Þarna er að finna allmikið um Ásmund Benidiktsson og Sigurlaugu Jónsdóttur sem fluttu í Haga í Gnúpverjahreppi frá Stóruvöllum í Bárðardal. Hinsvegar sá ég ástæðu til að fjalla um þetta fólk þegar ég kom að Fjalli á Skeiðum fyrr í sumar og fór þá að afla mér upplýsinga um tengsl ættmennanna við þann bæ. Þá umfjöllun má finna hér: Tengslin við Fjall á Skeiðum


Foreldrar Páls afa voru þau Guðný Ásmundsdóttir  (1853-1920)  og Guðmundur Jónsson (1849-1918). 
Þar sem ég er búinn að gera Þingeyingunum nokkuð góð skil að ég held, með skrifunum sem ég vísa til hér að ofan, mun ég einbeita mér að langafa, Guðmundi Jónssyni og hans sögu, þar til þau Guðný voru komin sem hjón á Baugsstaði. 
Einhver ykkar muna kannski það sem fram kom í þessum þætti. Þar kemur það fram, í sem stystu máli, að árið 1788 keypti Einar Jónsson (1719-1796) hálfa Baugsstaði. Við þessum helmingi tók síðan sonur hans, Jón Einarsson (1765-1824). Jón var kvæntur Sesselju Ámundadóttur (1778-1866).  Þau eignuðust  dótturina Margréti (1804-1897). Margrét giftist Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) á Minnanúpi í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust síðan, meðal margra annarra barna, Guðmund Jónsson (1849-1918). Einmitt, þar var kominn langafi minn og einnig skýringin á því að fólk ofan úr Gnúpverjahreppi settist að í vesturbænum á Baugsstöðum.

Tengsla Guðmundar Jónssonar við Baugsstaði, verður fyrst vart í kirkjubókum Gaulverjabæjarsóknar árið 1861, en þá er hann, 13 ára gamall, talinn til heimilis í vesturbænum, hjá ekkju sem þar bjó Guðrúnu Guðmundsdóttur (45) og Jóni Einarssyni (39) fyrirvinnu. Þau kom ekki frekar við sögu þessa, Guðmundur var vikadrengur og síðan hjú til 17 ára aldurs, þarna í vesturbænum í 5 ár. Það vekur athygli mína, að hann er einnig talinn til heimilis hjá foreldrum sínum á Minnanúpi á þessum tíma, sem helgast væntanlega af því, að prestarnir skráðu þessar upplýsingar á mismunandi tímum. 


Víkjum sögu í Gnúpverjahreppinn aftur.  Það var fremur rólegt yfir heimilinu á Minnanúpi og í mörg ár gerði fólk þar ekki annað en bæta við sig árum í samræmi við það hvernig tíminn leið.
Árið 1870 Þegar Guðmundur var 22 ára og enn í foreldrahúsum, fluttu þau Ásmundur Benidiktsson (43) og Sigurlaug Jónsdóttir (41) norðan úr Bárðardal  með 7 börn sín. Meðal þeirra var Guðný Ásmundsdóttir, þá 18 ára.  (Elsta barn þeirra, Benedkt Ásmundsson, var ekki skráður með fjölskyldunni þarna).
Það má ljóst vera að þarna voru þau Guðmundur og Guðný á þeim aldri þegar fólk er farið að skoða umhverfið í leit að maka, Nema hvað.  Verðum við ekki að gera ráð fyrir því, að þau hafa fljótlega vitað hvort af öðru, en kirkjubækurnar eru fremur fáorðar um samdráttinn - nefna hann ekki einu orði. 
Guðmundur, þá orðinn 28 ára, birtist loks sem vinnumaður í Haga, þar sem Guðný var enn hemasæta (25). Hann er svo þarna í Haga næsta ár og tilhugalífið sjálfsagt að komast á annað stig, enda birtist færsla í sóknarmannatalinu árið 1879, þar sem Guðný og Guðmundur eru skráð sem hjón, meira að segja "geðug hjón". Hann var þrítugur en hún var 26 ára. 

Húsvitjun í Stóra-Núpssókn nóv,-des, 1880
 
 
Árið eftir (1880), er Guðmundur húsmaður í Haga, Guðný er kona hans, og fæddur sonurinn Siggeir, þann 10. júní. Allt eftir bókinni, sem sagt. Árið eftir, 14. mars, eignuðust  hjónin annan son sem hlaut nafnið Ásmundur. Hann var skírður þann 14. mars, 1881. Hann virðist hafa dáið á fyrsta ári, en þess er ekki getið í prestþjónustubók.



Flutt að Baugsstöðum
Svo var það árið 1882 sem Guðmundur (33) og Guðný (29) fluttu í vesturbæinn Baugsstöðum ásamt syninum Siggeir (3).

Svona eignaðist Guðmundur Jónsson vesturbæinn á Baugsstöðum:

Guðni Jónsson segir svona frá því hvernig vesturbærinn á Baugsstöðum erfðist milli kynslóða í ritinu Bústaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi:

Helming Einars Jónssonar erfði einkasonur hans, Jón hreppsstjóri Einarsson á Baugsstöðum, en eftir hann ekkja hans Sesselja Ámundadóttir, og seinni maður hennar Þorkell bóndi Helgason, að nokkru, en að sumum hluta Einar bóndi í Hólum, sonur Jóns hreppsstjóra Einarssonar. Hluta Einars í Hólum erfði Bjarni, sonur hans, en hluta Sesselju og Þorkels erfði dóttir hennar, Margrét Jónsdóttir á Minna-Núpi.
Báða þessa parta eignaðist sonur Margrétar, Guðmundur bóndi Jónsson á Baugsstöðum með erfð og með kaupi.  Árið 1910 eru þáverandi Baugsstaðabændur Guðmundur Jónsson og Jón Magnússon eigendur jarðarinnar, En núverandi bændur þar [1952], Páll Guðmundsson og Ólafur Gunnarsson, uppeldissonur Jóns Magnússonar, eiga nú jörðina, sinn helminginn hvor. Baugsstaðir hafa þannig að mestu leyti haldist í eigu sömu ætta, síðan þeir urðu aftur bændaeign fyrir meira en 160 árum."

 

Næst verð ég aftur á Baugsstöðum og held áfram þar sem frá var horfið.


12 ágúst, 2022

Baugsstaðir - leit að botni 1888-1891

Sigurður Pálsson (f. 1928)
Hve gamall skyldi hann vera þarna?

 Ég ákvað nú að byrja þessu sinni á að greina frá því sem ég hef komist að um Eyfakot á Eyrarbakka, þar sem langafi minn Jóhann Hannesson og langamma, Elín Magnúsdóttir, bjuggu í nokkur ár. Þar fæddist amma mín. 
Það getur vel verið að þið vitið langflest hvað Eyfakot á Eyrarbakka var eða er. Ég vissi nú bara ekkert, heyrði bara alltaf talað um að amma hafi fæðst í Eyfakoti á Eyrarbakka. Það hafa sennilega verið taldar nægilegar upplýsingar, eða þá að ég spurði bara aldrei.
Þessi staður virðist hafa verið mikill örlagastaður fyrir langömmu og langafa, því þangað komu þau með tvö elstu börnin, Stefán og Guðlaugu, þar eignuðust þau fimm börn til viðbótar og þrjú þessara 7 barna dóu og eitt fór sem tökubarn í austurbæinn á Baugsstöðum.
Mér fannst ég þurfa að vita aðeins meira um þetta Eyfakot.
Jú, ég hafði séð meinta mynd af Eyfakoti. Eftir að ég hafði skoðað sóknarmannatal, fannst mér ótrúlegt að þær 11 fjölskyldur sem þar voru taldar, gætu allar komist fyrir húsinu á myndinni. Ég fór því aðeins á stúfana. Spurði Eyrbekking sem var nágranni minn hér, sem vissi ekkert um Eyfakot, en öll ummerki um það eru horfin. Hún benti mér á að tala við Ingu Láru Baldvinsdóttur, sagnfræðing, sem ætti að vita allt um Eyrarbakka, sem ég gerði og kom ekki að tómum kofanum. 
Eyfakot var hverfi, þyrping lítilla torfhúsa líklegast, þar sem ekkert húsanna þar hefur varðveist. Þarna bjuggu aðallega tómthúsmenn [sjómaður eða daglaunamaður í verstöð eða kauptúni sem hefur ekki afnot af jörð, þurrabúðarmaður].
Ég hafði líka sambandi við Óðin K. Andersen sem skrifar blogg um Eyrarbakka - sögu og atburði, hér: http://eyrbekkingur.blogspot.com/.../eyrarbakka-annall.html
Hann sagði mér, að í þessum hverfum hafi þetta oftast verið svona:
Algengast var að karlmenn stunduðu sjómennsku á vertíðum og vegavinnu að sumri eða dútluðu við búskap. En eldri menn aðalega hjá versluninni yfir sumarannir. Haustin eftir sláturtíð var lítið um að vera, einhverjir höfðu verkamannavinnu t.d. við grjóthleðslur o.þh. og byggingavinnu hér og í nærsveitum.

Þarna hafði ég komist að því hvað þetta Eyfakot var og held svo áfram með að pæla í gegnum sögu Baugastaðaættarinnar, eins og hún birtist í kirkjubókum og víðar.  Eini mögulegi heimildamaðurinn sem er á lífi er móðurbróðir minn Sigurður Pálsson og smávegis hef ég eftir honum. 

Árið 1887 fæddust þau amma mín, Elín Jóhannsdóttir í Eyfakoti á Eyrarbakka og Páll Guðmundsson í vesturbænum á Baugsstöðum. Það sem ég hef tekið saman hingað til er mikið til um forfeður ömmu, en en hyggst einnig grafast fyrir um hvað leiddi til þess að afi kom þarna í heiminn. Fyrst ætla ég þó að greina frá örlagasögu þeirra sem stóðu að ömmu og held því áfram það sem frá var horfið síðast.


1888

Staðan í austurbænum á Baugsstöðum var óbreytt stærstan hluta þessa árs, allavega í sóknarmannatalinu.  Þar bjó Magnús Hannesson og varð sjötugur á árinu, ásamt konu sinni Guðlaugu Jónsdóttur, 63 ára  og 4 sonum, þeim Jóni (32), Hannesi (31), Magnúsi (19) og Sigurði (17). Auk þess var hjá þeim tökubarnið Guðlaug Jóhannsdóttir 6 ára (dóttir Elínar og Jóhanns) og vinnukonan Þóra Einarsdóttir (44).  Sem sagt, það voru 9 sálir í austurbænum.
Síðla árs varð hinsvegar mikil breyting á, þegar fimm manna fjölskylda flutti í bæinn frá Eyfakoti á Eyrarbakka. Þarna voru þau komin, Elín Magnúsdóttir, 34 ára og Jóhann Hannesson, 35 ára, ásamt börnum sínum þrem, Kristínu, 5 ára, Stefáni Jóhanni 3ja ára og Elínu eins árs.  Eins og fólk ætti að vita, þá var Elín Magnúsdóttir dóttir hjónanna í austurbænum.  

Með þessu voru sálirnar í austurbænum við árslok orðnar hvorki meira né minna en 13.

Allt var með ró og spekt í vesturbænum. Þar var Guðmundur Jónsson bóndinn, 39 ára að aldri, ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur, 35 ára, sonunum tveim Siggeir 9 ára og Páli eins árs. 
Jón Ásmundsson (32) var vinnumaður á bænum og Guðrún Sigurðardóttir (18) vinnukona, Jón Bjarnason (53) var húsmaður og Guðrún Guðmundsdóttir (72) húskona.  

Alls voru því 8 sálir í vesturbænum í árslok og alls bjuggu þá 21 á Baugsstöðum .

Ekki hef ég forsendur til að kveða upp úr um ástæður þess að Elín og Jóhann fluttu frá Eyfakoti í austurbæinn á Baugsstöðum, en vissulega hvarflar að mér að aðstæður þeirra á Eyrarbakka hafi verið orðnar illþolanlegar. Siggi (Sigurður Pálsson) sagði mér, eftir föður sínum (Páli afa) að áfengið hafi farið illa með Jóhann. Sömuleiðis (sem ætti að vera hægt að staðfesta þó ég sé ekki á leiðinni þangað) að Elín hafi verið eigandi Byggðarhorns þegar þau fluttu á Eyrarbakka, en að þegar þau síðan yfirgáfu Eyfakot, hafi ekki verið til matur handa börnunum. Allavega var fjölskyldan þarna komin í skjól og meira öryggi.  

1889

Í austurbænum voru 12 einstaklingar, en vinnukonan var farin. Prestþjónustubókin greinir frá því að Hannes Magnússon hafi eignast son, Magnús, með Þórdísi Grímsdóttur og að þau væru ógift par á Baugsstöðum. Þórdís og Hannes fluttu að Hólum 1891 og bjuggu þar. Amma Þórdísar og amma Hannesar voru systur. Þá er það sagt.

Í vesturbænum eignuðust þau Guðmundur og Guðný dóttur, Margréti, þann 3. október, en hún dó þann 20. desember og er ekki getið í sóknarmannatali og ekki í Íslendingabók.

1890

Aldurinn færðist yfir hjónin í austurbænum, þau Magnús Hannesson (72) og Guðlaugu Jónsdóttur (65). Meðal ævilengd Íslendinga um aldamótin 1900 var nú ekki nema 47 ár. (frettabladid.is/skodun/lengri-og-betri-aevir/). Þann 30. nóvember lést Guðlaug.

Að öðru leyti var líf fólksins á Baugsstöðum tíðindalítið í opinberum gögnum.

1891

Þetta má segja að þetta hafi verið talsvert mikið örlagaár í sögu Baugsstaðaættarinnar.  Í sóknarmannatali þetta ár er íbúum á Baugsstaðabæjunum skipað niður að 4 býli.

Á 1. býli var bóndinn enn Magnús Hannesson (73), synir hans tveir, Magnús (30) og Sigurður (22), Sigríður Sigurðardóttir (30) hjú og Hólmfríður G. Bjarnadóttir (15) á sveit.  Hólmfríður fór síðar að Hólum og við sem heyrðum á tal foreldra okkar áður fyrr munum eftir henni sem Fríðu í Hólum.

Á 2. býli, sem þá tilheyrði einnig austurbænum voru þau Jón Magnússon (35) húsmaður og Helga Þorvaldsdóttir (31) ráðskona, verðandi eiginkona Jóns.

Á 3. býli, sem einnig tilheyrði austurbænum, var í lok þessa árs, skráð ekkjan Elín Magnúsdóttir (37), ásamt dóttur sinni Elínu Jóhannsdóttur (4).

Á 4. býli, sem var vesturbærinn voru sem fyrr Guðmundur Jónsson, 42, bóndi, Guðný Ásmundsdóttir (38) kona hans, Siggeir (12) og Páll (4) synir þeirra, Jón Ásmundsson (35) bróður húsfreyju, vinnumaður og Elín Erlendsdóttir (31) hjú.

Eins og ljós má vera, voru þarna orðnar breytingar á austurbænum frá síðasta ári.  
Hannes Magnússon (34), sonur Magnúsar bónda, var orðinn húsmaður á Hólum og bjó þar á 2. býli með konu inni Þórdísi Grímsdóttur, syninum Magnúsi (1) og Guðlaugu Jóhannsdóttur (9) systurdóttur hans, dóttur Elínar og Jóhanns Hannessonar.  Sex ára sonur þeirra Elínar og Jóhanns, Stefán Jóhann var kominn að Hólum líka, skráður á 1. býli hjá þeim Sigurði Einarssyni (68) og Kristínu M. Hansdóttur (64) konu hans.

Þriðja barn þeirra Elínar og Jóhanns, Kristín (8) var komin sem tökubarn að Tóptum (Tóftum) til þeirra Einars Sigurðssonar (35) bónda og Ingunnar Sigurðardóttur (27). Þau voru þá nýflutt þangað frá Hólum, með son á fyrsta ári, Sigurð Kristin (0).  Sigurður varð síðar faðir Ingunnar Óskar (Ingu á Efra-Hvoli) og Einars, sem við Hveratúnsfólk, allavega, þekktum vel í samhenginu "Einar og Imma".

Já, hér eitt nafn ónefnt af þeim sem hefðu átt að vera á Baugsstöðum síðari hluta þessa árs.   

Í Lögbergi, frá 29. júlí þetta ár segir svo:
Slysfarir. — „Mánudaginn 22. þ. m. var Jóhann Hannesson tómthúsm. frá Bergsstöðum [Baugsstöðum] í kaupstaðarerindum út á Eyrarbakka; mun hafa orðið þaðan nokkuð síðbúinn, en töluvert óveður var; kom hann ekki heim um kveldið, en um morguninn fannst hann örendur skammt frá heimili sínu. Er helzt til getið að hann hafi dottið af baki og steinn hafi orðið undir honum, þar eð vottað hafði fyrir blett eða meiðslaáverka á höfði fyrir ofan gagnauga, en hestur hans var með reiðtygjum eigi alllangt frá. Jóhann sál. var einn af sonum Hannesar bónda í Tungu, Einarssonar frá Kaldaðarnesi. Hann lætur eptir sig ekkju heilsuveika og fjögur börn í ómegð. Formaður var hann talinn góður, en efnalítill. Hann mun hafa verið nær fertugsaldri“

Jóhann Hannesson var 37 ára þegar hann lést. Í kirkjubókum er hann sagður hafa orðið bráðkvaddur og hann hafi verið jarðaður á Stokkseyri.


Þegar ég ræddi dauða Jóhanns aðeins við Sigga (Sigurð Pálsson) hafði hann það eftir föður sínum, sem  væntanlega heyrði það í umhverfi sínu í uppvextinum, að Jóhann hafi dottið af baki þar sem hann var á leiðinni að Leiðólfsstöðum umrædda nótt. Ég er nokkuð viss um,  að hann hafi talað um þennan bæ. Hestur hans hafi síðan verið kominn að Baugsstöðum um morguninn og að við leit hafi Jóhann fundist, ekki langt frá Leiðólfsstöðum. 

Svo eru auðvitað aðrar skýringar, eins og gengur.  Þannig birtir Skúli Sæland, sagnfræðingur og systursonur minn, eftirfarandi í bloggi sínu í febrúar, 2010. en þar er um að ræða frásögn í ritinu Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur II, sem Guðni Jónsson skrásetti og sem kom út 1941:

Um þær mundir [~1870] bjó í Eyfakoti á Eyrarbakka Jóhann Hannesson frá Tungu, Einarssonar spítalahaldara í Kaldaðarnesi, atorkumaður og formaður góður. Kona hans var Elín Magnúsdóttir bónda á Baugsstöðum, Hannessonar á Baugsstöðum, Árnasonar, efnileg og dugleg kona. Það varð nú úr, að þau Jóhann og Elín fluttust að Baugsstöðum og fóru að búa þar. Vildu þau þá fá bæ Guðrúnar [Guðmundsdóttur] rifinn og byggja nýjan á sama stað. En það vildi Guðrún ekki heyra nefnt og aftók það með öllu. Því var þó ekki sinnt, og var bærinn rifinn móti vilja Guðrúnar, og urðu þau Jón [Björnsson] og hún að hrekjast frá Baugsstöðum. En daginn sem Guðrún fór þaðan, stumraði hún út að tóftinni, vappaði kringum hana, laut yfir rústina og tuldraði eitthvað yfir henni. Heyrði enginn, hvað hún sagði, en hitt vissu menn, að henni var ærið þungt í skapi. Byggði Jóhann þarna nýjan bæ. eins og ráð var fyrir gert, en þau Guðrún og Jón fluttust í verbúð eina úti í Stokkseyrarhverfi.

Skömmu eftir að þau Jóhann og Elín fóru að búa í nýja bænum á Baugsstöðum, brá svo við, að Elín, sem aldrei hafði kennt sér neins meins, varð undarlega veik, aðallega á sinninu. Lá hún rúmföst í tvö ár, þannig að hún mátti ekki á heilli sér taka, en var þó aldrei líkamlega þjáð. Á öðru ári, sem þau bjuggu á Baugsstöðum, bar svo við um Jónsmessuleytið um vorið, að Jóhann fór ríðandi út á Eyrarbakka. Kom hann ekki heim um kvöldið fyrir háttatíma, en engum datt þó í hug að undrast um hann. En morguninn eftir stóð hestur hans með reiðtygjum á hlaðinu. Var þá farið að leita Jóhanns. Fannst hann rétt fyrir vestan túngarðinn á Baugsstöðum, örendur og mikið skaddaður að kunnugra sögn, en lítið orð var borið í það út í frá. [Jóhann varð úti 22. júní 1891.] Var margt um atburð þennan talað. En af Elínu er það að segja, að hún tók að hjarna við upp úr þessu og varð aftur heil heilsu.

    
Þá ræddi Siggi það, að það hafi veri algengt að þegar karlar, sem voru að koma frá Eyrarbakka, og lentu í einhverjum óhöppum á leiðinni, hefðu ítrekað kvartað yfir ásókn drauga og kenndu þeim um  hvernig fór. Draugar voru hinsvegar aldrei til trafala á leiðinni út á Eyrarbakka, að sögn Sigga.

Ekki meira um það.  Atburðir þessa árs höfðu varanleg áhrif á þau sem eftir lifðu.

-----------------------

Framhald þessarar miklu sögu kemur vonandi innan tíðar, en næst hyggst ég taka fyrir forsögu þess, að Páll Guðmundsson, afi minn, fæddist á Baugsstöðum árið 1887.


FRAMHALD

11 ágúst, 2022

Hörður Vignir Sigurðsson - minning

Hörður V. Sigurðsson
Mynd frá Asparlundi
Þegar við þurftum að fara upp í Holt lá leiðin eftir veginum sem nú kallast Skúlagata, út á þjóðveg og svo bara yfir mýrina sem tók við. Þar varð á vegi okkar vatnsauga eða dý og ef maður leit ofan í það þá sást ekki til botns þó vatnið væri alveg tært. Við pössuðum okkur alltaf að loka munninum og helst halda líka fyrir nefið, svo brunnklukkurnar gætu ekki flogið upp í okkur, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Svo héldum við áfram upp í Holt, þar sem Magnús afi og pabbi voru með lítið fjárhús og þarna var líka útiræktun, kartöflukofi og aflögð aðstaða til að reykja kjöt.

Ég var 10 ára þegar Hörður og Ingibjörg fluttu í Laugarás, með tvo spekingslega syni, þá Atla Vilhelm og Bjarna. Dóttirin, Kristín, fæddist síðan ári eftir að þau komu í Gamla bæinn.
Þarna var Hveratúnsfjölskyldan nýflutt í nýja íbúðarhúsið og gamli bærinn beið einhvers hlutverks. Það hlutverk fékk hann þarna og ungu hjónin bjuggu á hlaðinu hjá okkur þar til þau höfðu byggt sér gróðurhús og íbúðarhús á landinu þar sem dýið með brunnklukkunum hafði áður verið. Landið hafði þá verið ræst fram og þar reis síðan, meðfram þjóðveginum, risastórt gróðurhús.

Sökum þess að ég var hvorki kominn til vits né ára, að neinu ráði á þessum tíma, man ég svo sem harla lítið eftir þessu nýja fólki í gamla bænum, utan það, að Ingibjörg átti það til að bjóða okkur inn til að þiggja eitthvert góðgæti.

Eldri spekingurinn var til í að spjalla við pabba, sem spurði hann út í hitt og þetta, eins og gengur. Sá stutti átti oftast auðvelt með að svara, en þegar að því kom að hann átti ekki svar, sagði hann: „Mamma mín segir að ég megi ekki tala við ókunnugt fólk“. Gamli maðurinn þreyttist ekki á að segja frá þessum samskiptum.


Hörður var rétt að verða þrítugur og Ingibjörg nokkrum árum yngri, þegar þau komu í Laugarás. Þá voru þar fyrir Skúli og Guðný í Hveratúni, Jón Vídalín og Jóna á Sólveigarstöðum, Helgi og Gauja í Helgahúsi, Jóna og Guðmundur á Lindarbrekku, Fríður og Hjalti í Laugargerði (bjuggu þá í Lauftúni) og Sigmar og Sigga í Sigmarshúsi. Laugarás var þétt samfélag á þessum árum og nýbúarnir Hörður og Ingibjörg féllu strax inn í það, enda þannig innréttuð bæði tvö. Þau tóku þátt í öllu og stuðluðu ötullega að því sem betur mátti fara. Ég hef oft séð þau fyrir mér sem tappann sem tekinn var úr, þannig að ungar garðyrkjufjölskyldur gætu streymt að. Það bættust átta nýjar garðyrkjustöðvar við í Laugarási næstu sex árin.

Garðyrkjubændurnir í Laugarási framleiddu aðallega tómata og gúrkur á þessum árum, en með Herði kvað við nýjan tón. Hann ræktaði alla tíð bara blóm. Krusa (eins og við kölluðum þessi blóm sem voru af ýmsum litum, stærðum og gerðum) og seinna einnig jólastjörnu. Svo held ég að hann hafi farið að einbeita sér meira að því að rækta græðlinga fyrir aðra blómaframleiðendur. Þó svo ég hafi einhverntíma á unglingsárum starfað um stund í Lyngási, man ég þetta ekki nákvæmlega.

Hörður tók auðvitað virkan þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi í Laugarási, sat í stjórnum hagsmunafélagsins, hitaveitunnar og vatnsveitufélagsins og alltaf þegar eitthvert samfélagsverkefni lá fyrir, voru hjónin bæði mætt fyrst manna. Þau skildu sannarlega mikilvægi samstöðunnar í samfélagi eins og Laugarási.

Hörður kom mér fyrir sjónir sem maður sem hafði allt á hreinu. Mér fannst hann oftast hafa afar skýrar og ákveðnar skoðanir á málum, allavega í orði kveðnu. Þannig var hann ávallt tilbúinn að skoða aðra fleti og ég man ekki önnur en hnökralaus samskipti við hann. Ég hafði oft gaman af því, þegar þau Ingibjörg voru bæði viðstödd og Hörður sagði eitthvað hafa verið með einhverjum hætti. „Hvaða bölvuð vitleysa“ gall þá stundum í henni, áður en hún leiðrétti það sem eiginmaðurinn hafði sagt. Hörður hafði sérstakan hlátur, sem var yfirleitt grunnt á og hann reykti pípu í þá daga. Hann var sjálfstæðismaður, allavega að nafninu til, sem kannski má segja að hafi verið ljóður á persónu hans, en hann virkaði aldrei á mig sem slíkur. ég hef það á tilfinningunni, að félagshyggjan hafi staðið honum nær.

Skúli Magnússon í Hveratúni og 
Hörður V. Sigurðsson í Lyngási.
Það er nú svo, að oft er vísað til hjóna sem eins og hins sama. Mér finnst, þar sem ég er að reyna að setja saman einhverjar minningar mínar um Hörð, að þar sé Ingibjörg alltaf líka. Þau voru ólík og það var líklega einmitt styrkur þeirra.

Við byggðum okkur hús í Holtinu, við hliðina á Lyngási og fengum að njóta nærveru þessara ágætu nágranna. Þannig fannst þeim ekkert sjálfsagðara en að við fengjum að leggja vatnsslöngu og rafmagnskapal yfir á byggingarsvæðið og um greiðslu fyrir það þýddi ekki að að ræða. Allt var bara sjálfsagt.

Ekki síst eru það börnin okkar, sem eiga ljúfar minningar um Hörð og Ingibjörgu, sem voru þeim nánast eins og þriðja parið af ömmu og afa. Á grunnskólaárum barnanna lá stysta leiðin í skólabílinn, sem tók börnin upp í við búðina, í gegnum lóðina hjá þeim. Þessi leið var aldrei kölluð annað en Ingibjargarleið. Eftir að þau hurfu á braut og börnin uxu úr grasi, greri smám saman yfir Ingibjargarleið, en minningin um hjónin í Lyngási er ávallt vakandi.

Hörður og Ingibjörg voru Laugarásbúar eins og þeir gerðust bestir og mig grunar, að það hafi ekki verið þeim auðveld ákvörðun að selja Lyngás, en líklega var hún skynsamleg. Starf garðyrkjubóndans er harla strembið og tekur á skrokkinn. Það er betra að láta staðar numið í tíma og fá góð ár til að njóta lífsins í öðru samhengi. 

Það eru liðin ansi mörg ár frá því ég stóð við dýið, með lokaðan munninn og horfði ofan í djúpið. Ekki sá ég fyrir mér þá, hvernig þetta færi nú allt saman. Það fór eins og það fór, ég ég tel mig heppinn að hafa fengið að vaxa upp og búa í nágrenni við Hörð og Ingibjörgu. Fyrir það erum við Kvisthyltingar þakklát.

Hörður lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þann 29. júlí og útför hans er gerð frá Hveragerðiskirkju í dag.

Páll og Dröfn frá Kvistholti.

Mynd frá Jakob Narfa Hjaltasyni

09 ágúst, 2022

Baugsstaðir - leit að botni 1874 - 1887

Annað húsannar er Eyfakot en hitt læknishúsið,
eftir því sem ég kemst næst, ennþá.
(mynd af sarpur.is)
Ég er að reyna að fá botn í þetta allt saman.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji bara árið 1874,  árið sem danski kóngurinn  Kristján IX kom færandi hendi með nýja stjórnarskrá. Er það bara ekki ágætur staður til að byrja á?

Á þeim tíma eru það aðallega þrír bæir í Flóanum sem þurfa að koma til athugunar: Tunga, Baugsstaðir og Eyvakot. Þessir fyrrnefndu eru nágrannabæir og loftlínan milli þeirra ekki nema rúmur kílómetri og vegalengdin eftir núverandi vegi er rétt um tveir kílómetrar. Byrjum bara á Tungu og Baugsstöðum og síðan bætist Eyfakot á Eyrarbakka við.

1874 

Þarna 1874 bjuggu í Tungu þau Hannes Einarsson. 62 ára og Kristín Bjarnadóttir 55 ára, ásamt fimm börnum sínum, þeim Bjarna (31), Jóhanni (22), Kristínu (20), Einari (18) og Guðmundi (16). Auk fjölskyldunnar voru á bænum fertug hjón með 7 ára dóttur og 16 ára niðursetningur. 
Hannes bjó áður í Kaldaðarnesi.

Í austurbænum á Baugsstöðum bjuggu þau Magnús Hannesson, 59 ára og kona hans Guðlaug Jónsdóttir, 49 ára, ásamt sex börnum sínum, en þau voru:  Jón (24), Elín (21), Jón (18), Hannes (17), Magnús (13) og Sigurður (6).

Í vesturbænum bjó ekkjan Guðrún Guðmundsdóttir (58) ásamt fyrirvinnu og vikadreng og þau koma í rauninni ekkert við sögu þessa.

Þarna voru þau Jóhann Hannesson í Tungu og Elín Magnúsdóttir í austurbænum á Baugsstöðum farin að skjóta sér saman (urðu síðar langafi minn og langamma, fyrir þau ykkar sem finnst erfitt að fylgja þessu).

1875 

Árið eftir höfðu þær breytingar orðið helstar, að Bjarni Hannesson og kona hans Sólveig  Eyjólfsdóttir, höfðu tekið við búinu í Tungu af foreldrum sínum, og Jóhann var vinnumaður hjá þeim. Þá var kominn á bæinn 3ja ára dóttursonur gömlu hjónanna, Hannes Sigurðsson, sonur Ragnheiðar Hannesdóttur, sem þá var flutt að heiman fyrir nokkru.

1876 

Á þessu ári fór nú ýmislegt að gerast. Fyrst ber að geta þess, að Jóhann Hannesson (24) var kominn á austurbæinn á Baugsstöðum og Elín (23), heimasætan á bænum kynnt sem kona hans. Fjórir bræður hennar voru þá á bænum, Jón (20),  Hannes (19), Magnús (15) og Sigurður (8). Auk þessa hóps var þarna ekkjan Steinunn Jónsdóttir (66).

Í vesturbæinn var komið nýtt fólk og óskylt Baugsstaðafólki, Þorsteinn Teitsson (31) með bústýru og vinnuhjú, en auk þeirra var ekkjan Guðrún áfram, svo og fyrirvinnan hennar, Jón Björnsson.

1877 

Hér eignuðust þau Jóhann og Elín fyrsta barnið sitt, Stefán Jóhannsson. Þar með voru íbúarnir í austurbænum orðnir níu talsins.  Það varð líka fjölgun á hinum bænum og þar voru níu sálir taldar á þessu ári, án þess að það komi svo sem málinu við hér, en þar fór Þorsteinn Teitsson fyrir áfram.

1878 

Á þessu ári fluttu þau Jóhann (26) og Elín (24)  frá Baugsstöðum í Tungu, en þar tók Jóhann við búsforráðum á öðru býlinu, því sem Bjarni bróðir hans hafði stýrt, en hann, kona hans og dóttir voru þá horfin á braut. Með þeim í Tungu fór sonurinn Stefán (2) og þau eignuðust dótturina Guðlaugu (0), en hún fæddist í lok nóvember þetta ár. Hinu býlinu í Tungu stýrði Jón Magnússon frá Baugsstöðum, bróðir Elínar.

Í austurbænum á Baugsstöðum fóru þau Magnús og Guðlaug áfram með búsforráðin. Með þeim voru þar fjórir synir, Jón yngri, Hannes, Magnús og Sigurður.  Á vesturbænum bjó áfram óskylt fólk.

1879  

Enn fluttu þau Jóhann og Elín og það er alveg ástæða til að velta fyrir sér hversvegna þeim gekk svo hægt að finna sér einhvern varanlegan samastað.  Í lok þessa árs voru þau komin á Eyrarbakka, í Eyfakot/Eifakot. Það er engu líkara en að Eyfakot hafi verið einhverskonar fjölbýlishús, en á árinu voru þarna skráð 7 býli með samtals  36 sálum.  Það er líka mögulegt að þarna hafi verið um að ræða nafnlaus smáhýsi eða kot sem voru byggð í landi Eyfakots. Í fljótu bragði hef ég ekki fundið neitt bitastætt um þetta, en mun reyna áfram að fá botn í það húsnæði sem þarna var um að ræða.  Mér finnst líklegast að þarna hafi verið um að ræða einskonar þurrabúðir.

Þarna í Eyfakoti fór lífið ekki mjúkum höndum um Jóhann og Elínu og börn þeirra.  Guðlaug lést úr barnaveiki í ágúst og eftir því sem Siggi tjáði mér hallaði mjög undan fæti hjá hjónunum. Jóhann kvað hann hafa verið dugandi formann, en að hann hafi farið illa út úr viðskiptum sínum við áfengið. Að sögn Sigga stunduðu kaupmenn á Bakkanum það, að mæta niður á bryggju þegar bátarnir komu að með aflann, og veittu þá ótæpilega af göróttum drykkjum, sem síðan lauk með því að sjómennirnir komu allslausir heim.
Á þessu ári var skráð hjá Jóhanni og Elínu vinnukona, Guðríður Bergsdóttir (22).

Aðstæður á Baugsstöðum voru óbreyttar þetta ár á báðum bæjum.

1880 

Gerðist ekkert sem ástæða er til að greina frá hjá þessu fólki. Jóhann var orðinn 28 ára og Elín 27 og sonur þeirra, Stefán varð 3ja ára. Enn var vinnukonan hjá þeim.

1881 

Hér urðu hjónin í Eyfakoti fyrir öðru stóráfalli, þegar sonur þeirra, Jóhann, sem fæddist þann 12. maí, lést úr kíghósta 1. júní, eftir því sem prestsþjónustubókin greinir frá.
Hjá þeim var enn vinnukonan Guðríður Bergsdóttir.  

Enn var staðan óbreytt á Baugsstöðum.

1882  

Það var hinn 3. júlí þetta ár sem Guðlaug Jóhannsdóttir fæddist í Eyfakoti. Hún var hinsvegar skráð sem tökubarn hjá hjónunum í austurbænum á Baugsstöðum árið eftir.  Af því má draga þá ályktun, að ekki hafi lífið í Eyfakoti verið neinn dans á rósum. Þarna var Jóhann orðinn þrítugur, Elín 29 ára og Stefán 5 ára. Ekki var lengur hjá þeim vinnukona.

Mikil tíðindi urðu á Baugsstöðum á þessu ári, reyndar var allt óbreytt í austurbænum. Í vesturbæinn voru flutt þau Guðmundur Jónsson, 33 ára og kona hans Guðný Ásmundsdóttir, 29 ára. Með þeim var þriggja ára sonur þeirra Siggeir. Þau komu, ásamt Gróu Magnúsdóttur (26) vinnukonu, frá Haga í Gnúpverjahreppi. 

Til að flækja ekki málin um og, ætla ég að fjalla, í næsta hluta, um ástæður þess að þessi hjón fluttu á Baugsstaði. Ég ætla því að halda mig við þau Jóhann og Elínu, enn um sinn, en samt greina einnig frá breytingum á öðum bæjum sem hér koma við sögu og skipta máli.

1883  

Jóhann og Elín í Eyfakoti eignuðust  dóttur þann 28. september á þessu ári og hlaut hún nafnið Kristín.  Þarna var Stefán sonur þeirra orðinn 7 ára.

1884 

Þetta ár var fremur tíðindalítið, allavega í sóknamannatölum eða prestsþjónustubókum.

1885 

Enn knúði dauðinn dyra hjá þeim Jóhanni og Elínu í Eyfakoti. Stefán sonur þeirra, á níunda ári, lést þann 4. febrúar úr barnaveiki.  Þarna voru þau búin að eignast 5 börn. Þrjú þeirra voru látin og eitt var tökubarn á Baugsstöðum.  Hjónin gátu þó glaðst yfir 6. barninu sínu sem fæddist þann 17. september, syni sem hlaut nöfn beggja látinna bræðra sinna, Stefán Jóhann.

Allt var óbreytt á Baugsstöðum þetta árið – nema fólkið bætti við sig einu ári.

1886  

Tíðindalítið ár.  Það kom þó nýr vinnumaður á vesturbæinn á Baugsstöðum, Jón Ásmundsson (30), bróðir Guðnýjar.

1887 

Þetta ár markar heilmikil tímamót – allavega að því er mig varðar og einnig mörg ykkar.

Þann 31. júlí fæddist Páll Guðmundsson í vesturbænum á Baugsstöðum  og þann 29. nóvember fæddist Elín Jóhannsdóttir í Eyvakoti á Eyarbakka. Þau áttu eftir að færast nær hvort öðru, blessuð.

Í tilefni af þessu, geri ég hér hlé á umfjöllun, en það kemur meira síðar.


FRAMHALD

Baugsstaðir - Hannes og ofurölvi prestur

Teikning Finns Jónssonar á Kerseyri,
bróðursonar séra Guðmundar.
Þetta er lítilsháttar millileikur og fyrir honum eru fyrst og fremst tvær ástæður: 
1. Ég ætla að taka mér góðan tíma til að reyna að greina í og koma frá mér því sem gerðist á og í kringum Baugsstaði í grennd við og um aldamótin 1900. Það er eins gott að ljúga allavega engu. Hvort ég skauta framhjá einhverju er annað mál, sem kemur í ljós. 
2. Verkefni bíða mín í hrönnum og má ætla að það verði til þess að ég þarf að setja annað í forgang.
Til að þið sem þetta lesið og bíðið í ofvæni, birti ég hér frásögn úr lesbók Morgunblaðsins frá 1957, þar sem Hannes Einarsson (faðir Jóhanns Hannessonar, sem var faðir Elínar Jóhannsdóttur, sem var móðir Guðnýjar Pálsdóttur, sem var móðir mín - sem sagt langa-langafi minn í móðurætt) málar Reykjavíkurbæ rauðan með kófdrukknum presti. 
Hannes var bóndi í Kaldaðarnesi áður en fjölskyldan fluttist að Tungu, sem er í næsta nágrenni við Baugsstaði. 


Hér er frásögnin

ÞEGAR Stefán Gunnlaugsson var bæjarfógeti í Reykjavík hófst hann handa gegn drykkjuskapnum í bænum. Þótti kaupmönnum sér nær höggvið með því og kærðu fyrir stiftamtmanni, í bréfi, sem Stefán skrifar sér til varnar, segir hann meðal annars: „Það er kunnugt, að fyrrum var drykkjuskapur dagleg iðkun allt of margra, þar i meðal virðulegra embættismanna, sem gáfu almúganum þar með illt fordæmi. Það var því nauðsynlegt að grípa í taumana og sýna alvöru. Og hinn 29. maí 1839 var t. d. prestur nokkur tekinn fastur fyrir ölæði á götu og dæmdur til að greiða 10 rdl í sjóð fátækra prestsekkna og 4 mörk í löggæzlusjóð Reykjavíkur. Þetta varð til þess að hann hætti að drekka og hefir nú að maklegleikum fengið gott embætti".

ÞESSI prestur var séra Guðmundur Torfason, er þá átti heima í Kálfhaga en þjónaði Kaldaðarnesi. En málavextir voru þessir, samkvæmt aukaréttarbók Reykjavíkur:

Séra Guðmundur var staddur í Reykjavík ásamt meðreiðarmanni sínum, Hannesi Einarssyni frá Kaldaðarnesi. Þeir komu inn í búð hjá Einari borgara Hákonarsyni, og var prestur allmjög ölvaður. Margir fleiri menn voru þá þarna í búðinni, en enginn þeirra er nafngreindur nema Jón nokkur Skúlason frá Ögmundarstöðum í Skagafirði.

Séra Guðmundur var knár maður og glíminn og hætti honum til þess að bjóða mönnum í glímu þegar hann var við öl, og var þá allsvakafenginn. Ekki er nú vitað hvort hann vildi glíma við þessa menn, er hann hitti í búðinni, en brátt lenti þarna í ryskingum og var prestur hinn æfasti. Hannes fylgdarmaður hans bað hann hvað eftir annað að koma með sér og ætlaði að reyna að koma honum burt úr bænum, áður en hneyksli yrði af drykkjuskaparlátum hans. En prestur var nú ekki á því, og er Hannes ætlaði að stilla til friðar og ganga á milli, hratt prestur honum svo óþyrmilega af höndum sér, að Hannes hentist út í glugga og mölbraut hann, en meiddist um leið í andliti og þó einkum á nefinu. Varð af þessu mikill brestur er glugginn brotnaði og heyrðist, nú út á götu hávaðinn og lætin inni í búðinni. Þusti þá þegar að margt fólk og myndaðist brátt þyrping á götunni úti fyrir húsinu, en það stóð á horninu á Brattagötu og Aðalstræti.

Tveir voru lögregluþjónar þá í bænum og báðir íslenzkir, Magnús Jónsson og Þorsteinn Bjarnason í Brunnhúsum. Þeir komu nú þarna að og réðust til inngöngu í búðina. Báðu þeir séra Guðmund með góðu að hætta öllum illindum, en hann skeytti því engu. Þá skipuðu þeir honum að koma með sér í skrifstofu bæjarins, sem þá var í vesturendanum á húsinu þar sem nú er Haraldarbúð í Austurstræti. Ekkert segir frá því hvort hann hlýddi þeim af fúsum vilja, eða þeir urðu að beita hann valdi, en í skrifstofuna komu þeir með hann „hvar nefnds prests ástand var prófað og fannst hann þá að vera töluvert kenndur af brennivíni og Séra Guðmundur Torfason (Teikning Finns á Kerseyri) sterkar en máske kynni að geta álitist eiga við hans geistlega stand“.

Til skrifstofunnar voru og kvaddir menn til að bera vitni, þar á meðal Einar Hákonarson, Hannes Einarsson og Jón Skúlason. En auk þess voru kvaddir þangað þeir Jón Snorrason hreppstjóri og bæarfulltrúi á Sölvahóli, og Helgi Jónsson snikkari (faðir þeirra tónskáldanna Helga og Jónasar). Skyldu þeir dæma um ástand prestsins og áverka Hannesar.

Presturinn var ofurölvi og dró upp úr vasa sínum rauðbláan brennivínspela og stútaði sig á honum inni í þingsalnum. Var þá pelinn af honum tekinn. En Hannes stóð þarna með bólgið og blóðugt nef og kvaðst ekki mundu heimta neinar bætur fyrir, en bauðst til þess að greiða helming kostnaðar af rúðubrotinu.

Þeir Einar Hákonarson og Jón Skúlason skýrðu frá því sem gerðist í búðinni, og var framburður þeirra mjög á sama veg og framburður Hannesar. Þess er getið í dómabókinni, að þeir Jón Thorsteinsson landlæknir og séra Ólafur Einarsson Hjaltested hafi orðið vottar að drykkjuskap séra Guðmundar.

Það er almælt, að vegna ölvunar og óstýrilætis séra Guðmundar, hafi bæjarfógeti sett hann í tugthúsið, en ekki er þess skilmerkilega getið í dómsgerðinni, enda þótt skilja megi að svo hefir verið gert. Fer bæarfógeti mildum orðum um það, því að hann segir:

„Prestinum var fleirum sinnum boðið að fara strax í burtu af götum og alfaravegi bæjarins, hverju hann með drykkjurabbi þverneitaði, hvers vegna honum, sem ófærum til að vera laus á almannafæri, var boðið til svefns á óhultum stað. En blárauður brennivínspeli, sem prestur var að drekka úr hér inni í skrifstofunni, og sem þar var eftir skilinn, er nú afhentur Hannesi Einarssyni til að ráðstafa honum til eigandans“.

Þessi „óhulti svefnstaður" hefir sjálfsagt verið uppi á loftinu yfir bæjarþingstofunni, því að þar var hið svonefnda „svarthol", sem vant var að stinga ölvuðum mönnum í, einkum aðkomumönnum. Þar hefir séra Guðmundur verið látinn dúsa um hríð. Síðan segir:

„Eftir nokkurn tíma rann svo ölið af presti, að hann kvaðst vilja fara á stað frá bænum með Hannesi Einarssyni, hvað að svo komnu ekki áleizt vert að hindra, þó með geymdum rétti frá pólitísins hálfu til í það minsta 4 marka óeirðar bóta til pólitíkassans — þó upp á háyfirvaldsins væntanlegt samþykki, undir eins og yrði að álitum gert hvaða verkan slík truflun á opinberri rósemi og góðri orðu kynni að hafa á ins seka geistlega verðugleik og embættisstöðu".

 Finnur Jónsson á Kerseyri, sem var bróðursonur séra Guðmundar, ritar um hann alllangan þátt í bók sinni „Þjóðhættir og ævisögur“. Segir hann þar frá þessu máli, en mjög á annan veg, því að hann hefir þar farið eftir sögusögnum annarra og segist aldrei hafa spurt séra Guðmund um það. Hann segir þar meðal annars: „Steingrímur biskup spurði séra Guðmund hvort hann ætlaði ekki að höfða mál á hendur landfógeta fyrir tiltækið. Ekki helt séra Guðmundur það, kvaðst heldur vilja sækja málið á vopnaþingi. „Láttu þá vopnin bíta“, mælti biskup. Það eru víst engin önnur dæmi til þess, að Steingrímur biskup hafi hvatt menn til að jafna á náunganum mótgerðir".

Séra Guðmundur hafði verið við nám hjá Steingrími biskupi meðan hann var prestur í Odda á Rangárvöllum. Gaf hann Guðmundi vitnisburð á jólunum 1812 og hælir honum mjög fyrir „gáfur hans, skarpleika, næmi og minni“. Var Steingrímur biskup honum jafnan síðan hliðhollur, en ekki egndi hann séra Guðmund upp á móti landfógeta, eins og sjá má á þessu:

Þegar er séra Guðmundi hafði verið sleppt, sendi landfógeti afrit af réttarhaldinu til Bardenfleth stiftamtmanns, en hann skrifaði biskupi þegar og skaut undir hans úrskurð hvað gera skyldi. En biskup skrifaði Jakob prófasti Árnasyni í Gaulverjabæ og fól honum að tilkynna séra Guðmundi, að ef hann vildi komast hjá opinberri lögsókn út af framferði sínu, þá verði hann að varast drykkjuskap framvegis og afplána þetta hneyksli með 10 rdl. sekt til fátækra prestekkna og 4 mörkum í bætur til lögreglusjóðs Reykjavíkur.

Séra Guðmundur mun ekki hafa séð sér annað fært en greiða þessar sektir og lofa bót og betrun Varð hann svo miklu hófsaman upp frá þessu og varð hinn vinsælasti meðal sóknarbarna sinna, glaður og reifur fram á elliár Hann fekk Miðdalsþing 1847 og Torfastaði 1860 og helt þá til 1875 Hafði hann þá verið prestur í 50 ár. Lýsir Finnur frændi hans honum svo: „Hann var því manna fjarlægastur að láta heyra til sín mögl eða harmatölur, þó eitthvað væri andstætt, lengst af efnalítill og mjög óeigingjarn, lítt fallinn til búskapar, en vann þó eins og vinnumaður fram á síðustu ár“. Dr. Hannes Þorsteinsson segir að fyrsta prestverk séra Guðmundar í Tungunum hafi verið að skíra sig og seinasta prestverk hans þar að ferma sig. Hann ber séra Guðmundi vel sögu, segir að hann hafi verið mesta ljúfmenni og vel þokkaður.
-----------------------------------

Reyndar mun helsti tilgangurinn með þessari frásögn hafa verið að birta brag sem sr. Guðmundur orti og sem kallaðist Reykjavíkurbragur yngri. Þið sem áhuga hafið, getið fundið hann hér.

06 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (2)

Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum.
F.v. Siggeir Pálsson (1925-2001), Elín Jóhannsdóttir (1887-1980),
Sigurður Pálsson (1928 - ), Guðný Pálsdóttir (1920 - 1992)
Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum. 
Í fyrri þætti þessarar samantektar er rennt yfir þann hluta Baugsstaða, sem Einar Jónsson keypti í stólasölunni árið 1788. Hér er samskonar grein gerð fyrir hinum hluta jarðarinnar: þeim sem Magnús Jónsson keypti. Sem fyrr byggir þetta að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.


Magnús Jónsson - (1715-1797) bjó á Baugsstöðum 1775-1797. 
Magnús bjó áður á Stokkseyri og kona hans var Ólöf Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Brynjólfssonar á Baugsstöðum (sjá fyrri þátt) og þar með afkomandi Brynjólfs "sterka". 
Magnús og Ólöf eignuðust tvo syni: Bjarna eldri og Bjarna yngri, sem síðan bjó á Leiðólfsstöðum. 

Ólöf Bjarnadóttir (1726-1805) - bjó eftir mann sinn á Baugsstöðum til 1805.
Ólöf bjó góðu búi og var jafnan talin fyrir meðan hún lifði, en Bjarni eldri, sonur hennar stóð fyrir búinu.

Bjarni eldri Magnússon (1762-1807) - bjó með Ólöfu móður sinni til dauðadags 1807. 
Bjarni var vel efnaður og nam dánarbú hans rúmum 1800 ríkisdölum. Átti hálfa Baugsstaði og Götu í Stokkseyrarhreppi.
Kona Bjarna var Elín Jónsdóttir, hreppsstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar. Þau áttu einn son, Magnús á Grjótlæk, en um hann hef ég ekkert fundið frekar, en vísað er til hans í Bergsætt, 115-116 - hvað sem það nú þýðir.

Elín Jónsdóttir  (1778-1853) - ekkja Bjarna var í góðum efnum. Giftist Hannesi Árnasyni á Baugsstöðum. Þau eignuðust Magnús Hannesson, sem varð síðar langafi Elínar Jóhannsdóttur (sjá mynd efst), sem flestir sem komnir eru til vits og ára, ættu nú að kannast við, en hún var t.d. amma mín.  
Hér erum við, sem sagt, að tala um austurbæinn á Baugsstöðum. 

Hannes Árnason (1777-1846) - byggði Baugsstaði frá 1808-1844.
Hannes var efnabóndi og formaður. 
Elín og Hannes eignuðust 5 börn og þar var yngsti sonurinn, Magnús Hannesson, sem tók við jörðinni af foreldrum sínum.

Magnús Hannesson (1818-1893) - bjó á Baugsstöðum frá 1854-1892. 
Magnús var áður bóndi á Fljótshólum, en þangað fluttu foreldrar hans þegar hann tók við Baugsstöðum. 
Magnús var góður bóndi. Kona hans var Guðlaug Jónsdóttir (1826-1890). Þau eignuðust 9 börn en sex þeirra náðu að verða fulltíða: Jón Magnússon í Austur Meðalholtum(1851-1921), Elín Magnúsdóttir (1854-1944), Jón Magnússon  (1857-1934), Hannes Magnússon bóndi í Hólum (1858-1937), Magnús Magnússon (1862-1899) og Sigurður Magnússon (1869-1926) smiður á Baugsstöðum. 

Magnús Magnússon (1862-1899) - bjó á Baugsstöðum frá 1892- til dauðadags 1899.
Magnús dó af "innvortis meini", 36 ára gamall. Kona hans var Þórunn Guðbrandsdóttir í Kolsholti. 
-----------
Svo segir Guðni Jónsson: "Um þessar mundir bjuggu hver um sig nokkur ár á Baugsstöðum, þeir Jóhann Hannesson, áður í Eyvakoti, Hannes Magnússon, síðar í Hólum og Sigurður Magnússon smiður, en ekki höfðu þeir jarðnæði."  
Það er eiginlega þarna sem málin fara að flækjast verulega og ég ætla mér að reyna að gera þessum umbrota og umskiptatímum skil í sérstökum þætti.
-----------
Jón Magnússon (1857-1899), var bóndi í austurbænum frá 1897-1933. 
Jón var sonur Magnúsar Hannessonar og tók við þegar bróðir hans, Magnús, lést.  Kona  Jóns var Helga Þorvaldsdóttir í Brennu í Flóa, Þorvaldssonar.  Guðni Jónnson segir í riti sínu, að þessi hjón hafi eignast einn son, en að hann hafi dáið ungur.  Umræddur son dó úr krampa, 9. september, 1897, 9 daga gamall og hafði fengið nafnið Magnús.  
Sama ár tóku hjónin að sér 8 ára dreng, Jón Kristjánsson, sem kom frá Bollastöðum. Hann var síðan hjá þeim til 15 ára aldurs. Hann drukknaði árið 1913 við England. 
Árið 1899 tóku þau Jón og Helga að sér annan dreng, 3ja ára, bróðurson Helgu. Þarna var kominn til skjalanna Ólafur Gunnarsson (1896-1984), sem ávallt var kallaður Óli í Austurbænum.  
Móðir Ólafs Guðríður Oddsdóttir á Ragnheiðarstöðum, lifði fæðingu Ólafs ekki af, en hún varð 24 ára.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...