24 desember, 2010

Að höndum fer......

Það blæs úti og hitinn skriðinn upp fyrir frostmark. Þorláksmessuliðir eru afgreiddir með skötusuðu utandyra á æskuheimilinu. Reykelsi bjargaði því sem bjargað varð í húslyktarmálunm á þeim bæ í kjölfar framkvæmdar þess einkennilega siðar. Hangikjötið hefur hlotið viðeigandi suðu, skreytiþörfinni hefur verið fullnægt, árleg þrifnaðargleði sem stundum hefur verið kallað "jólaskap", er líklega afstaðin. 
Framundan er dagur friðar og hugleiðinga, væntanlega, nema eitthvað ófyrirséð komi upp úr dúrnum.

Í herbergjum sínum hvíla nú þau sem deila munu jólum með okkur fD þessu sinni: ungfrúin á bænum, sem komin er heim frá borginni vestan Eyrasunds yfir hátíðarnar, og sá yngsti sem dvelur þennan veturinn í því sem sumir vilja kalla borg óttans.

Nokkru sunnar, í landamærabænum Görlitz má finna elsta afkomandann, þar sem hann ætlar að finna jólaandann á nýjum stað ásamt konu og dóttur, sem nú upplifir jólin fyrsta sinni með því móti að hún geti tjáð sig um það sem fyrir ber. 

Í austfirskum bæ dvelur sá næst elsti og nýtur jóla með sinni konu og syni, sem kom hér við eina dagstund eftir komuna frá þeim norður jóska bæ sem Álaborg nefnist. Þessi fjölskylda á leið í Laugarás til stuttrar dvalar áður en haldið verður aftur í ríki drottningar.

Svona ganga nú hlutirnir fyrir sig. Líklega ekki ósvipað og hjá mörgum öðrum sem komnir eru á þann aldur sem hér er um að ræða. Veruleiki sem hægt er að venja sig við og aðlagast. Þetta þýðir samt ekki að ævihlutverkinu sé að verða lokið, heldur aðeins að skipt er um gír; ekið áfram hægar og af meiri yfirvegun en oft áður.

Líklega er það ósköp eðlilegt að hugurinn hvarfli til liðinna jóla og ýmiss þess sem Kvisthyltingar hafa gengið í gegnum saman, súrt og sætt. Það ber að þakka fyrir þá sögu um leið og vonast er til að hún megi eiga sér framtíð þó í öðru formi verði.

---------------------------

Hvaða skilboð eru mest við hæfi á þessum tíma árs, til þess nafnlausa hóps sem lætur sig hafa það, að renna yfir það sem skráð er á þessa síðu, við og við?
Einfaldasta og eðlilegasta svarið er auðvitað að óska þess að allir þeir sem þeim hóp tilheyra, og fjölskyldur þeirra til sjávar og sveita, til fjalla og dala, hérlendis sem erlendis, njóti þess að geta haldið friðsæl og fagnaðarrík jól, hver með sínum hætti.

Það geri ég hér með.

17 desember, 2010

Svo jólakortin springi ekki!

Hjónin sem hér um ræðir eru nafnlaus, en samtalið átti sér stað þegar þau áttu leið í kaupstað skömmu fyrir jól. Í farteskinu voru jólakortin sem send skyldu vítt og breytt til vina og ættingja. Klukkan varð að nálgast 4, en þá er pósthúsinu yfirleitt lokað.

"Ég þarf að fara með kortin á pósthúsið áður en það lokar."

"Af hverju seturðu kortin bara ekki í póstkassann?"

"Ef hann er kannski ekki tæmdur fyrr en í fyrramálið?! Kemur ekki til greina!"

"Það er þá sem sagt hætta á að kortunum verði kalt?"

"Maður veit aldrei hvað getur gerst. Maður er alltaf að heyra af því að það sé verið að sprengja upp póstkassa. Ég er búin(n) að hafa fyrir að útbúa kortin og ætla sko ekki að taka sénsinn á að setja þau í póstkassa!"

Fleira var ekki sagt. 
Ekið á pósthúsið þar sem jólakortin komust inn í hlýjuna, og þeim stafaði engin hætta af  því að verða sprengd í loft upp.

Jól í nánd.

14 desember, 2010

Gegn straumnum

Það sem ég skrifa hér á eftir er ekki allra. 
Auðvitað er punkturinn sem ég vel til að senda þetta frá mér, af gefnu tilefni, sem enn skýtur stoðum undir áratuga skoðun mína á því hvernig námi verður best háttað. Ég er strax kominn með efasemdir um að rétt sé að leggja af stað í þessa vegferð, ekki síst vegna þess að hún virðist harla tilgangslaus. Ég er líklega kominn á það lífsskeið að það er auðvelt að afgreiða mig sem fastan í einhverri fortíð og að ég beri ekki skynbragð á nútíma skólastefnur.

Það má bara vel vera.

Á þessum tímapunkti nenni ég nú ekki að fara út í að skrifa langloku máli mínu til stuðnings, því enda þótt ég eigi nokkra trausta og rétthugsandi lesendur, þá lít ég bara á það sem of mikla vinnu fyrir ekki meira fjölmenni.

Í mínum huga felst traust nám í því af öðlast góða heildarmynd. 
Það er byrjað að mála þessa mynd strax í fæðingu í faðmi foreldra, síðan fer málningarvinnan fram með stöðugt skipulegri hætti í leikskóla og grunnskóla. Í framhaldsskólanum hefst ákveðin sérhæfing, en þó þannig, að mikilvægi almennrar þekkingar og færni fá að fylla út í málverkið og tengja þannig saman þá fleti sem fókusinn er mestur á. 
Í lok framhaldsskólans á að vera komin góð mynd á verkið. Þá tel ég eðlilegt að þess sé farið á leit að viðkomandi geti gert grein fyrir myndinni, lýst henni og því samspili sem á sér stað milli ólíkra þátta hennar. 
Til að vera nú ekki að týna mér í þessari samlíkingu þá þýðir þetta einfaldlega, að það er í mínum huga afskaplega mikilvægt í menntun ungs fólks að það öðlist heildarmynd af því samfélagi sem það á eftir að eyða ævinni í: sögu þess, menningu þess, reglum þess, samskiptum innan þess, ábyrgð sinni innan þess, og svo framvegis, og svo framvegis. 
Nú, þegar samfélagið er flóknara en nokkurn tíma og því enn meiri ástæða til að tryggja staðgóða þekkingu á því og færni til að komast af innan þess, er drifið í því, undir taktslætti útrásarvíkinga, að stefna að því leynt og ljóst að stytta nám í framhaldsskólum. 

Það voru sett ný lög.

Við erum búin að komast að því á undanförnum árum, að það er ekki allt með felldu í íslensku menntakerfi. Þetta bara fullyrði ég, og ætla ekki hér og nú að leiða að því rök, enda tel ég þess ekki þörf.

Kröfur eru stöðugt að aukast á skóla um innra eftirlit og skýra markmiðssetningu. Þetta er komið á það stig að ég, í það minnsta, fæ það á tilfinninguna, að eftirlitið og markmiðssetningin séu að verða mikilvægara í skólastarfi en að koma unga fólkinu til manns. Það má halda því fram, að skólum sé ekki lengur treystandi til að sinna meginhlutverki sínu af bestu getu.

Það hefur verið að aukast stemning fyrir því að búta námið niður í vel skilgreindar einingar, án þess að úr því myndist hin nauðsynlega heildarmynd. Svo ég taki aftur samlíkinguna við málverkið. Bútanámið felur í sér, að það er málað þetta fína græna hús í hægra hornið. Svo er það bara búið. Því næst er máluð rauð glæsibifreið í vinstra hornið. Svo er hún búin. Þá kemur þessi dásamlega manneskja í óræðum lit efst fyrir miðju. Henni er þar með lokið.  Það sem vantar í þessa mynd er samhengið milli þessara þátta. Hvernig tengist t.d. bíllinn húsinu, eða manneskjan bílnum? Hvernig leiðir liggja þarna á milli? Það er sem sagt talsverður skortur á bakgrunni í þessa mynd.

Skyldi það vera svo, að hraðnámið sem hefur verið til umræðu undanfarna daga sé eitthvað í likingu við svona mynd. Er ekki hætta á að myndin sem verður máluð með styttra námi í framhaldsskólum verð jafn brotakennd.

Í stuttu máli:
Ég vil 4 ára námí framhaldsskóla þar sem náminu lýkur með því að nemandinn geti lýst allri myndinni sem hann er búinn að vera að mála undanfarin 20 ár. 

Þá er hann tilbúinn til að halda áfram.

11 desember, 2010

5,49

Alltaf er nú jafn skemmtilegt og gefandi að fara yfir blessuð prófin, ekki síst vegna tilfinningarinnar sem hellist yfir mann að því verki loknu.
Ég er nú búinn að ljúka mínum þætti í slíku verki á þessari haustönn.

Þannig er með einkunnagjöf í framhaldsskólum, að kennurum ber að gefa einkunnir í heilum tölum, þ.e. 3,4,5,6.... o.s.frv. Ég segi nemendum mínum, að þegar endaleg einkunn lendir einhversstaðar mitt á milli heilla talna þá leyfi ég mér að horfa á nemandann, ekki bara út frá þeirri hæfni eða hæfnisskort sem hann sýnir í greininni, heldur þeim eiginleikum öðrum sem hann býr, eða býr ekki yfir. Þarna koma til athugunar svo ófrumlegir þættir sem tímasókn, framkoma, viðhorf, holning, skipulag á námsgögnum, og margt annað sem ekki verður upp talið hér, en fellur undir huglægt mat mitt. 
Því miður kemur það ekki oft fyrir, að lokaniðurstaðan, þegar allt hefur verið reiknað saman, lendir á þessum óskastað mínum á einkunnaskalanum. Það kemur þó fyrir. Við þær aðstæður lendi ég oftar en ekki í þeim klassísku aðstæðum kennarans, að fara að vorkenna ræflinum, eftir að hafa haft í heitingum með sjálfum sér, aftur og aftur, að meta niður frekar en upp ef aðstæðurnar yrðu þannig.

Skyldi ég nú hafa fengið langþráð tækifæri til að færa nemanda niður samkvæmt þessum viðmiðum?
Skyldi ég hafa gert það með góðri samvisku?
Skyldi mér bara líða nokkuð vel með það?

Jah, ætli maður verði ekki, í ljósi meðferðarinnar sem sálfræðilektorinn fékk þegar hann lét í ljós frústrasjónir sínar á fésbók, vegna óþolandi lélegrar námsvinnu verðandi sálfræðinga, að láta lesendum eftir að giska á hver niðurstaða mín varð.

10 desember, 2010

Stemmningsbræla



Það er eins með flatkökur og epli: í gamla daga voru þær ekki á borði manns hversdags. Hinsvegar var móðir mín mikill flatkökubaksturssnillingur og var komin út í heilmikinn bísness við að framleiða fyrir Verslun G. Sæland. Fram til þess tíma, að hóf var á flatkökubakstri, eða meðan hún bakaði aðeins fyrir heimilið, var þeim skellt á eldavélarhellu til bökunar. Þetta hafði í för með sér mikla brælu sem fór um allt hús. Mér fannst þessi bræla reyndar alltaf ágæt. Þegar framleiðslan fór að aukast átti sér stað þróun í framleiðslutækni. Hún fólst því að koma upp aðstöðu frammi í þvottahúsi. Þarna var komið fyrir bökunarplötu og fjárfest í gasbrennara sem tengdur var við kút. Með þessu móti hvarf brælan og það var hægt að hafa betri stjórn á bökuninni. Ég tók talsverðan þátt í að baka flatkökur með þessum hætti með henni, á tímabili.
Það hefur nú ekki komið oft fyrir, að við fD höfum skellt okkur í flatkökubakstur, ekki síst vegna þess, að það er svo auðvelt að kaupa þær úti í búð, fjöldaframleiddar í bakaríum. Þar er meira að segja hægt að fá hreint ágætar flatkökur sem þannig eru til orðnar.  Vandinn er bara sá, að þær eru orðnar daglegt brauð og því lítil tilbreyting.
Það var eiginlega þess vegna sem ég tók því ekki illa þegar fD stakk upp á að VIÐ skelltum okkur í flatkökubakstur á þessum hlýja desemberdegi á aðventu. Bökunaraðferðin sem varð fyrir valinu, þar sem ekki reyndist kostur á öðrum, var eldavélarhella. Það tók nokkrar kökur áður en hæfileg stilling á þykkt og helluhita náðist, en brælan sem gaus upp vakti upp gamlar minningar. Smám saman náðist talsverð leikni við virkið.

Uppskriftin að flatkökunum kemur úr fórum móður minnar, en gallinn við það er sá sami og með kleinuuppskrift sem hún lét í té, að aðferðir hennar við baksturinn voru orðnar svo þróaðar, að efnahlutfallið sem  notað var og aðferðirnar sem beitt var, byggðust alfarið á tilfinningu. Grammafjöldi af hinu og þessu sagði ekki alla söguna; það vantaði punktinn yfir i-ið, eins og sagt er - tötsið.

Kökur dagsins virðast hafa heppnast með ágætum, en þó svo þær hafi kannski ekki náð þeim flokki sem sóst er eftir, þá skilja þær eftir indælis bökunarilminn.

09 desember, 2010

10:00-12:00 &13:00-14:15

Fyrirsögnin þessu sinni felur í sér afleiðingar kreppu, geri ég ráð fyrir. Með þessu móti þurfum við, þjóðin (það er að segja sá hluti hennar sem greiðir skatt á annað borð, sem eru all of fáir) að greiða minna fyrir reksturs hins opinbera, væntanlega.
Fyrirsögnin felur í sér raun opnunartíma Sýsluskrifstofunnar á Selfossi, ef maður þarf að erinda þar eitthvað annað en að borga skattinn eða ná í ökuskírteini. Auglýstur opnunartími gerir ekki ráð fyrir að lokað sé milli kl. 12:00 og 13:00, eins og rauntíminn leiðir í ljós.
Þegar upp er staðið, er hægt að ná sambandi við fólk á þessari opinberu þjónustustofnun í 3 klukkustundir á dag, ef það er þá ekki veikt (bara einn sem sinnir hverri tegund erindis - ef um er að ræða veikindi þess starfsmanns bíða málin þar til hann kemur aftur til starfa), eða bundið við skyldustörf  úti á akrinum, eins búast má við þegar um er að ræða löglærða fulltrúa sýslumanns.

Ég átti, sem sé, leið á Sýsluskrifstofuna á þessum góða degi. Ég ákvað að vera kominn tímanlega til að ná góðu sambandi við fulltrúann, sem ég reiknaði með að sæti og biði mín. Ekki lá leið mín þangað til að borga skatta og ekki til að ná mér í ökuskírteini og ekki í yfirheyrslu (eins og einhver óvelviljaður gæti freistast til að álykta). Ég þurfti að eiga orð við löglærðan fulltrúa sýslumanns um til tekið málefni. Sá fulltrúinn sem sér um mál af þessu tagi var og er veikur. Málin bíða hans í stöflum. Óvíst um hvernig honum tekst að hressast. Hinn löglærði fulltrúinn var upptekinn fyrir Héraðsdómi Suðurlands og ekki væntanlegur fyrr en eftir hádegið  (þetta var haft eftir honum). Þetta gerðist kl. 12:15.  
Ég beitti fyrir mig lítilsháttar kaldhæðni í fullri kurteisi, sem hitti hreint ekki í mark hjá starfsmönnunum tveim sem þarna voru fyrir til að taka við peningum fólks. Það var ekki einu sinni með góðum vilja hægt að greina brosviprur þegar ég lét saklaus orð falla, sem að öðru jöfnu hefði kallað fram lítið jólabros.  Ég treysti mér ekki til að hafa eftir þau orð sem fD lét sér um munn fara við þessar aðstæður.

Þarna varð niðurstaða um að sinna öðrum erindum í höfuðstað Suðurlands og koma síðan aftur þegar sá tími væri upp runninn að von væri til að óveiki löglærði fulltrúinn væri viðstaddur. Sá tími rann upp. Fulltrúinn kominn og farinn og ekki við meira í dag. Skilaboð fékk ég frá honum um að það væri reynandi að hringja til hans og panta tíma síðar.  Orð féllu þó ekki væri úr mínum talfærum.

Auðvitað langaði mig að brjóta allt og bramla í þessari óþjónustustofnun, en hef meiri stjórn á mér en svo. Auðvitað var ekki við það starfsfólk sem þarna var að sakast. Það er ekki í öfundsverðum störfum. Aðrir ollu því að skorið var niður. Megi þeir r****a í h*****i, eða þannig.

Nú liggur fyrir að freista þess að ná sambandi við hina löglærðu fulltrúa eftir öðrum, tiltækum leiðum.. 

------------------------

Þessi vísa léttir manni skapið þótt ekki sé umfjöllunarefnið fallegt. Hana sá ég skrifaða niður eftir gamla unglingnum, en hef ekki getað fundið út hver höfundurinn er.

Dimm og þung er dómsins raust,
dæmt, frá engu' er þokað.
Helvíti er hurðalaust
en himnaríki lokað.

08 desember, 2010

Áskriftarþjóð

Ég verð víst að hefja mál mitt á að viðurkenna að ég hef umgengist hugtakið "þjóð" nokkuð frjálslega á þessu svæði mínu, undanfarin ár. Notkun mín á hugtakinu hefur falið í sér tiltekna sýn á tiltekinn hluta þess hóps fólks sem telst tilheyra hinni íslensku þjóð. Oftar en ekki hef ég gert þetta í þeim tilgangi að gera fremur lítið úr fyrirbærinu, sem er til komið vegna einhverra eiginleika þess, sem mér falla ekki í geð.

Vissulega tala stjórnmálamenn fjálglega um hvað þjóðinni finnst um hitt og þetta, eða hvað þjóðinni kemur best í hinum eða þessum málaflokknum, jafnvel þegar þeir eru að tala um tiltölulega fámenna sérhagsmunahópa. En stjórnmálamenn eru nú bara stjórnmálamenn. 

Það er full ástæða til að endurskoða leyfilega notkun á þessu ágæta orði. 

Hvenær er hægt að tala um þjóð þannig að um geti verið að ræða alla þá sem byggja þetta land og teljast vera íslenskir ríkisborgarar?  Hreint ekki svo augljóst.

Er hægt að segja: "Í dag gengur þjóðin að kjörborðinu"?
Já, ef skilgreiningin á þjóð í þessu samhengi eru þeir sem hafa kosningarétt samkvæmt lögum, að öðrum kosti er hér ekki um að ræða nema hluta þjóðarinnar. Hér væri væntanlega nákvæmar að segja: "Í dag geta einstaklingar með kosningarétt gengið að kjörborðinu"

Er hægt að segja: "Þjóðin mótmælti við Alþingishúsið"?
Já, ef þannig er litið á, að öll þjóðin hafi haft sömu möguleika á að skunda á Austurvöll, eða ef menn líta svo á að hægt sé að tala um fulltrúa einhvers tiltekins hóps þjóðarinnar sem þjóð. 
Þetta verður hinsvegar að teljast sérlega frjálsleg notkun á hugtakinu. 
Réttara væri að segja: "Sá hluti þjóðarinnar sem nennti, eða átti um sárt að binda, var reiður, eða komst yfirleitt til höfuðborgarinnar, mótmælti við Alþingishúsið"

Þá er ég kominn að tilefninu, en það er þetta:

Þjóðin sameinast dagana 13. - 30. janúar fyrir framan skjáinn til að hylla strákana okkar og alla leiki liðsins getur þjóðin séð á Stöð 2 Sport. (kynning á vef Stöðvar 2)

Nú veit ég, að þetta mál var komið inn á borð Mennta- og menningarmálaráðherra. Hvort, eða þá hvað hún hefur aðhafst í málinu, veit ég ekki, en sé engin merki þess á vef ráðuneytisins.
Auðvitað vill hin einkarekna sjónvarpsstöð að öll þjóðin kaupi sér áskrift til að fylgjast með, en það gerist varla. Því er orðavalið heldur frjálslegt. Betur færi á að segja: "Áskrifendur sameinast....." og "...geta áskrifendur séð".

Eins og við vitum nú öll þá greiðir þjóðin fyrir áskrift að einni sjónvarpsstöð. Þjóðin getur horft á það sem þar fer fram ef hún svo kýs. Fyrir þessa áskrift greiðir hún hóflegt gjald á ári hverju. Þessi sjónvarpsstöð gæti auðveldlega notað kynningartextann hér fyrir ofan, með réttu.

Í mikilli kynningu á dýrðinni, í áskriftarstöðinni í gær, var mikið gert úr mikilvægi þess fyrir þjóðina á krepputímum, að geta sameinast og fylgst með þessu eina íþróttaliði sem þessi þjóð hefur fylgst með af kappi undanfarin ár. 
Það stefnir í það að sá hluti þjóðarinnar, sem helst hefur þörf fyrir að létta lundina í skammdeginu og horfa um stund upp úr fjárhagsbasli, þar sem búið er að skera niður allt sem hægt er að skera í útgjöldum, þar á meðal fjölmiðla, verði af því að fylgjast með heimsmeistarakeppninni í handbolta í janúar, þar sem "strákarnir okkar" berjast fyrir hennar hönd, í hópi sterkustu handknattleiksliða heims.

Mér þykir þessi tilhugsun þyngri en tárum taki og enn eitt dæmið um það hve vanhugsað það er, þegar fjármagnið eitt er látið ráða hver fær.  Mér liggur við að segja að þetta sé ekki hægt að sætta sig við, síst á þessum tímum og reyndar aldrei. Áskriftarstöð má mín vegna sýna áskrifendum sínum leiki úr öllum heimsins íþróttadeildum, en þegar um er að ræða landsleiki af þeim toga sem hér er um að ræða, eiga allir að hafa sömu möguleika, öll þjóðin, án tillits til þess hvernig þeir eru staddir fjárhagslega.

Sé ráðherrann búinn að taka þarna í taumana, og það farið framhjá mér, þá lætur mig einhver vita af því og þá mun ég auðvitað gleðjast. Þangað til ríkir gleðiskortur að þessu leyti.

04 desember, 2010

Skoðanir - til hvers?

Ef maður er sammála því sem sagt er, eða gert, þá virðist það vera svo, að það sé harla lítil þörf á að tjá það að neinu verulegu marki. Ef maður er hinsvegar ósáttur við eitthvað, virðist vera einstaklega auðvelt að tjá það í orðum og æði. Svona erum við sýnist mér.





Ég er farinn að túlka líf mitt út frá þessu og með þessum hætti, til dæmis:
 - það lýsir sig aldrei neinn sig ósammála mér í bloggskrifum mínum og þessvegna er ég að tjá hinar einu réttu skoðanir.
- nemendur mínir kvarta ekki yfir mér og þess vegna er ég besti kennari "ever".
- það hefur enginn kvartað yfir smákökunum sem ég bakaði í dag og þessvegna eru þær aldeilis óaðfinnanlegar (vissulega hafði fD efasemdir um smjörlíkismagn og eitthvert bragð sem hún gat ekki staðsett, en ég kýs að telja það ekki með (í það minnsta ekki á þessum vettvangi)).
- ég á stundum erfitt með að fá sum systkini mín til að svara tölvupóstum frá mér (öll reyndar yfir fimmtugt), þannig að það sem ég er að braska á þeim vettvangi er frábært.
- það hefur enginn vegfarandi beinlínis sagt mér, að ljósaskreytingar mínar (sem fóru upp um síðustu helgi) skeri í augun og séu vanhugsuð á krepputímum. Þessvegna eru þær einstaklega smekklegar (eins og stundum er sagt) og glæsilega setteraðar og stíliseraðar (eins og sagt var á Innlits/útlits tímanum).

---------------------------

Nú þegja allir sem fá stórfelldar niðurfellingar eða niðurfærslur á skuldum sem í mörgum tilvikum er til orðnar vegna ótrúlegrar skammsýni og sjálfgæsku. Þeir sem eru ósáttir eru þeir sem eru búnir að sína ráðdeild og forsjálni. Þeir munu væntanlega láta í sér heyra.

Meðan maður heyrir ekkert er allt í þessu fína. 
Þannig er Ísland í dag.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...