Sýnir færslur með efnisorðinu Frásagnir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Frásagnir. Sýna allar færslur

17 apríl, 2016

X3990

Þetta númer var síðast á Nissan Prairie.
Hlutverki þess lauk með dramatískum hætti
16. nóvember, 1996
"Hver var þetta?"
"Ekki hugmynd."
Hve oft skyldu nú samskipti af þessu tagi hafa átt sér stað þar sem við fD stundum kraftgöngu eftir malbikuðum gangstígnum sem stuðlar að bættu líkamsástandi og betri líðan Laugarásbúa og gesta þeirra?
Tilefni spurningarinnar og svarsins er ávallt bíll sem ekur hjá og við greinum óljósar útlínur handar sem veifar.  Stundum læt ég mig hafa það að veifa á móti, vegna þess að það telst kurteisi að heilsa fólki. Einnig vegna þess, að ef ég ekki veifa þá gæti bílstjórinn eða farþeginn í bílnum fengið þá flugu í höfuðið að mér væri eitthvað í nöp við hann, og þyrfti síðan að berjast við þá  tilhugsun næstu daga.  Ég hef vissulega sleppt því að veifa á móti, hef þess í stað látið sem svo, að ég væri mjög einbeittur við gönguna, því ganga er alvörumál, gæðatími.
Hvernig sem viðbrögð mín eru, hverju sinni má halda því fram að þau séu vandræðaleg og feli í sér ólíklegustu gildrur sem forðast ber í mannlegum samskiptum.

Þetta var einfaldara áður fyrr. Þá þekkti maður helstu númer og gat þannig með góðum fyrirvara brugðist rétt við hverju til viki, allt frá því, auðvitað, að þekkja ekki númerið og þar með sleppa því að veifa í kurteisisskyni, upp í það að spandera breiðu breiðu brosi, ásamt því að veifa kröftuglega.  Allt auðveldara og engin móðgun möguleg,

Það er nú farið að fenna dálítið yfir helstu bílnúmer, en ég man að pabbi var með X1567, Ég með X3990, lengst af, Ólafur læknir með G44, Grímur læknir með X1000, lögreglubílarnir (svarta María) með X1, X2, X3 og svo framvegis (ekki það að ég hafi átt mikið samamn við lögregluna að sælda).

Mér hnykkti dálítið við um daginn, en í einhverri spurningakeppni þar sem æska landsins tók þátt var spurt hvar bílar með tilteknum númerum hefðu verið á landinu. Það stóð á svörum og þau komu ekki.  Auðvitað á hvert mannsbarn að læra hvernig þessu var háttað áður fyrr. X-bílar vori í Árnessúslu, R í Reykjavík, G í Hafnarfirði (Gullbringusýslu), Y í Kópavogi og svo framvegis.  Þetta er þekking sem ætti að varðveita eins og hver önnur menningarverðmæti.

Ég verð að viðurkenna, að í ákveðnum tilvikum var frekar óhagstætt að búa við gamla númerkerfið. Þegar maður fór til Reykjavíkur á bíl með X-númeri brugðust innfæddir ekki alltaf vel við "sveitalúðanum" sem kunni ekki að keyra í höfuðstaðnum. Nokkur flautin fékk ég meðan ég var að ná tökum á tilverunni að þessu leyti í borginni.


Til gamans, bara vegna þess að ég fann, læt ég fylgja lista yfir gömlu númerin, en undir lok síðustu aldar tóku þau að víkja fyrir þeim sem við nú þekkjum.


A-Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla
B-Barðastrandasýsla
D-Dalasýsla
E-Akraneskaupstaður
F-Siglufjarðarkaupstaður
G-Hafnarfjarðarkaupstaður og Gullbringu- og Kjósarsýsla
H-Húnavatnssýsla
Í-Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla
K-Sauðárkrókskaupstaður og Skagafjarðarsýsla
L-Rangárvallasýsla
M-Mýra- og Borgarfjarðarsýsla
N-Neskaupstaður
Ó-Ólafsfjarðarkaupstaður
P-Snæfells- og Hnappadalssýsla
R-Reykjavík
S-Seyðisfjarðarkaupstaður og Norður-Múlasýsla
T-Strandasýsla
U-Suður-Múlasýsla
V-Vestmannaeyjakaupstaður
X-Árnessýsla
Y-Kópavogur
Z-Skaftafellssýsla
Þ-Þingeyjarsýsla
Ö-Keflavíkurkaupstaður

03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

28 mars, 2016

Í villum á páskadagsmorgni

Ég veit ekki hvað varð til þess að ég villtist í skóginum í gær. Ég hélt að það gæti ekki gerst og er ekki enn sannfærður um að það hafi gerst. Það gerðist samt mögulega. Hvernig gat það gerst? Er ég líklega farinn að missa eitthvað? Veit ekki.
Á páskadagsmorgni varð haldið í heilsubótargöngu eins og kveðið er á um.
"Ég er að fara út að viðra mig. Ætlar þú?" Þetta er nokkuð algengur aðdragandi að því að við fD höldum af stað í kraftgöngu út í ægifagurt umhverfi Þorpsins í skóginum. Í þetta sinn tók dóttirin á bænum þátt í göngunni, en að öðru leyti stefndi í ósköp hefðbundinn lið í heilsueflingunni. Ég tók reyndar með mér EOS-inn ef vera skyldi að ég fyndi færi á því, eina ferðina enn að festa á minniskort hans þá endalausu fegurð sem við blasir hvert sem litið er.
Þessu sinni lá leið í átt að brúnni, en þegar við komum að götunni sem liggur inn í Vesturbyggð (Skyrklettagata eða Ásmýri) gaf fD skýrt til kynna að hún hefði ákveðið að ganga þá leið, og gaf okkur hinum kost á að fara hana líka, en því réðum við að sjálfsögðu. Við fylgdum henni.  Leiðin lá framhjá Slakka og síðan upp götuna sem kallast Ásmýri á Google maps en Holtsgata á ja.is (svona er það með margar götur í Laugarási).

Þegar við vorum komin upp á brún brekkunnar í Holtsgötu ákvað fD að snúa við og ganga niður að á og þar einhverjar krókaleiði heim á leið. Ég ákvað hinsvegar að fara aðra leið, enda með EOS-inn með mér og 70-300 linsuna. Þarna skildi leiðir.  Ég og uG héldum þarna áfram, yfir brú á skurði og inn á Krosslandið (þar sem barnaheimili RKÍ var áður). Þaðan er einstakt útsýni yfir Hvítá og Vörðufell og ég skellti í panorama-mynd.

Síðan gengum við niður í kvosina þar sem barnaheimilið stóð, en minjar um það eru nánast engar, utan það sem ég tel hafa verið rotþró og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Í framhaldi af rotþrórskoðuninni héldum við upp brekkuna í átt að Kirkjuholti, en þar uppi á brekkubrúninni má sjá fyrrum hliðstaur, veglegan, steyptan, sem markaði innkeyrsluna að Krossinum.


Það var eftir þetta, sem svo virðist sem ég hafi tapað áttum. Við ákváðum að ganga frá hliðstaurnum, og niður holtið, heim. Gekk vel til að byrja með. Á ákveðnum tímapunkti skildi þó leiðir, ég ákvað að fara aðeins sunnar og koma niður að Kvistholti þeim megin.  Áður en ég vissi af var ég kominn inn í skóginn og við mér blöstu feikna mikil grenitré og mörg þeirra  voru brotin eftir vetrarstorma, Eitt leiddi af öðru, ég sá sífellt fleiri brotin tré, hugsaði mér mér að það þyrfti nú að fara þarna upp með keðjusög og taka til. Það undarlega var, að þó svo mér fyndist þetta óvenju stór tré miðað við að ég væri í landi Kvistholts, kom það ekki upp í huga mér að ég væri bara hreint ekki þar.
Það var ekki fyrr en ég var kominn enn sunnar, að það blöstu skyndilega við mér byggingar, sem við nánair skoðun reyndust vera í Laugargerði. Þarna var eins og ég vaknaði upp úr einhverri leiðslu og snéri við á punktinum og hélt til baka í gegnum skóginn, sá glytta í íbúðarhúsið í Lyngási, en Lyngási tilheyra öll þessi brotnu tré. Enn hélt ég áfram og kom út á autt svæði. Það var eiginlega ekki fyrr en þá, að ég kveikti á því sem aldrei hefði átt að slokkna á: Það eru nánast engin tré efst í landi Kvistholts. En þarna var ég kominn heim og engin leið að villast eftir það.



Hér má sjá leiðina sem farin var í þessum villum:
Leiðin. Upphafspunkturinn er rotþróin sem um er rætt.

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

14 mars, 2016

Mánudagsflug

Mánudagar eru, að margra mati, erfiðastir daga vikunnar. Helginni lokið og framundan 5 vinnudagar. Með árunum hafa viðhorf mín til þessara daga vikunnar breyst smám saman þannig, að ég tel þá hvorki vera betri né verri en aðra daga. Ég hef öðlast heimspekilegra og yfivegaðra viðhorf til þeirra, sem annarra daga. Maður vaknar fyrir allar aldir, talsvert á undan pípinu í vekjaraklukkunni, situr og hugleiðir í núvitundarstíl um stund, athugar hvort eitthvað hafi borið til tíðinda í veröldinni, fær sér kaffisopa og aðra morgunhressingu. Kemur sér síðan af stað þannig að tilsettum tíma á vinnustaðnum verði náð.  
Einfalt og alltaf svipað. 
Allt í föstum skorðum.
Engin óvænt atvik sem raska því sem venja er til. 


Svona var það ekki í morgun.

Þetta byrjaði svosem nógu vel: vaknaður klukkutíma áður en vekjarinn næði að angra mig. Sinnti hefðbundnum morgunverkum. Lokaði útidyrum, Settist upp í Qashqai og ók af stað niður svellbunkann á heimreiðinni. Ekki gaf ég mér tíma, þar sem ég var að vanda mig við aksturinn á svellbunkanum, til að athuga hvort allt væri með felldu. Það var ekki fyrr en ég hafð ekið nokkur hundruð metra á alauðum aðalveginum, að mér varð litið á mælaborðið og varð ljóst að þar var ekki allt eins og vera skyldi. Rauð mynd af bílvél blasti við, einnig gult tákn sem sýndi skrensandi bíl og fleira sem þarna var ekki venjulega.  Að sjálfsögðu setti ég umsvifalaust spurningamerki við þetta allt saman; reiknaði með að þarna hlyti bara að vera um að ræða einhvern samslátt í tölvunni, en ákvað samt að snúa við. Það var engin ástæða til að taka neina áhættu. Það var annar bíll tilbúinn heima í hlaði.  Þar með snéri ég við og ók hem aftur, upp svellbunkann, og lagði Qashqai í hreiðrið sitt.  Á þessari stundu beindist hugsun mín og einbeiting fyrst og fremst að því sem gæti verið að Qashqai, hvernig best væri að leita lausna á því og hversu mikil fyrirhöfn það gæti verið.  Mitt í þessum hugsunum opnaði ég dyrnar og steig út.
Það var vinstri fóturinn sem kyssti klakabunkann fyrir utan og í þann mund sem hann var að taka til sín allan minn þunga, gerðist það sem auðvitað átti aldrei að gerast og sem skýringamyndin hér fyrir neðan lýsir nokkuð vel.

Ég vissi ekki fyrr til, í miðju hugsanaferlinu varðandi það hvað ég gæti gert í Qashqaimálum, en að ég tókst á loft og lá síðan kylliflatur á bakinu. Fyrsta hugsunin var hvort ég væri óbrotinn, og svarið við henni var strax jákvætt. Þarna þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af þvi hvort einhver hefði séð þessa óvirðulegu lendingu. Ég vissi að fD sat inni og kynnti sér fréttir morgunsins og gat því ekki hafa verið vitni.
Ég reis á fætur, fann svo sem ekki fyrir neinu sérstöku, og kom mér inn til að óska eftir láni á og síðan nálgast lykla að Yaris, sem beið þarna þess albúinn að flytja mig til vinnu, með góðfúslegu leyfi eigandans.

Hófst þar með önnur tilraun mín til að komast til vinnu á þessum mánudagsmorgni. Það voru engin óþægileg ljós í mælaborðinu á Yaris og ferðin niður svellbunkann gekk vel, enda vel negld dekk.

Þegar ég var búinn að aka nokkur hundruð metra fannst mér eitthvað vera undarlegt og renndi í huganum gegnum tékklistann. Niðurstðan leiddi mig að þeirri niðurstöðu að ég var ekki með gleraugun. Í kjölfarið lá beint við að álykta að án gleraugnanna væri til lítils að fara í vinnuna.
Þar með snéri ég við, án frekari málalenginga.
Á leiðinni til baka renndi ég í gegnum ýmsar hugsanir, sem flestar tengdust mögulegum afdrifum gleraugnanna. Mér þótti ljóst, að þau hefði ég misst þar sem ég lenti á bakinu á svellbunkanum. Mér fannst samt ótrúlegt að ég skyldi ekki hafa orðið var við þegar þau yfirgáfu andlit mitt. Hvar hefðu þau þá endað? Var ég kannski búinn að stíga á þau? Höfðu þau ef til vill flogið undir Yarisinn ég ég síðan keyrt yfir þau í annarri tilraun minni til að komast í vinnuna?

Heim komst ég aftur, upp svellbunkann, þrátt fyrir gleraugnaleysið. Lagði Yaris í nokkurri fjarlægð frá slysstaðnum og var næstum floginn á hausinn aftur þar sem ég steig út úr honum. Ég grandskoðaði vettvang slyssins, gleraugnalaus, en sá engin gleraugu þrátt fyrir umtalsverða leit. Fór síðan bara inn í hús, eftir að hafa ákveðið að bíða betri birtu til leitarinnar.

"Hver skyldi það nú vera sem vill ekki kaupa sér mannbrodda?"  Það var fD sem tók á  móti mér með rödd sem var þrungin vorkunnsemi.
"Ætli ég þurfi ekki að koma mér í garma og fara út að leita" hélt hún áfram. Treysti greinilega ekki sjón minni til þess arna. Kom sér í garma, setti upp Hagkaupagleraugun, dreif sig út og endaði á maganum á svellbunkanum hjá Qashqai.
"Þarna eru þau". Og viti menn undir miðjum bílnum mátti greina gleraugun og fD renndi sér á maganum nægilega langt til að hún næði þeim, ósködduðum.

Þar með hélt ég af stað í vinnuna þriðja sinni þennan mánudagsmorgun orðinn miklu nær því að trúa að forsjónina, sem líklega hafði valdið óhöppum morgunsins til að koma í veg fyrir að ég færi mér að voða einhversstaðar á leiðinni.

Afleiðingarnar? Jú, það er engu líkara en það sem rifjahylkið geymir hafi tognað eða gengið til. Ég var auðvitað óþreytandi í lýsingum mínum á ævintýrum morgunsins, á vinnustaðnum. Viðbrögðin þar voru misjöfn. Þau bestu sennilega þessi: "En er hjartað ekki enn á réttum stað?"

10 mars, 2016

Ég stend mig að því að......

Í Njáluferð í 1. bekk. Þarna fylgist ég með, auðvitað 
áhugasamur, fróðleik úr munni dr. Haralds Matthíassonar. 
Hvítu prjónahúfuna og lopapeysuna á ég móður minni
að þakka.
Þegar maður uppgötvar eitthvað í fari sínu sem var ekki talið eiga þar stað, bregst maður við með því að þegja um það, eða þá að maður lætur eðlið hafa sinn gang og tekur því jafnvel bara fagnandi.   
Fyrir nokkrum árum skaut því óvænt upp í huga mér, að það gæti verið gaman að taka saman upplýsingar um húsin og íbúana í Laugarási. Þarna var varla um meira en 70 ára sögu að ræða svo það ætti nú að vera hægt að ná utan um það.
Söfnun á þessum upplýsingum hefur staðið yfir síðan, svona í hjáverkum og mörgu er þar ólokið.

Önnur saga hefur orðið mér hugleikin með árunum, en hún tengist vinnustað mínum til næstum 30 ára. Þar hafa lengi verið til gamlar ljósmyndir af ýmsu tagi og einnig fullur kassi af skyggnum (slædsmyndum /"slides" - en aðeins þeir sem  eru orðnir fullorðnir vita hvað það er).
Njáluferð 1971: Kristinn Kristmundsson sinnir fróðleiksþorsta
tveggja bekkjarfélaga minna, Eiríks Jónssonar frá Vorsabæ 
og Magnúsar Guðnasonar.
Við uppgötvun þessa vaknaði hjá mér áhugi á að koma þessum myndum í rafrænt form, og vista þær síðan þar sem ML-ingar á öllum tímum gætu notið þeirra og yljað sér við minningar frá löngu liðnum tíma.  
Skólinn og júbílantar hafa lagt fram fé til tækjakaupa vegna þessa og ég hef, þegar eyður myndast í daglegu amstri, lokað mig af í þar til ætluðu herbergi og skannað eða myndað myndirnar sem um er að ræða.  Þetta hefur gengið ágætlega og nú eru komnar um 800 myndir, flokkaðar og fínar að sérstakt vefsæði sem stofnað var til af þessu tilefni. Heilmikið bíður skönnunar og þá aðallega myndir sem Rannveig Pálsdóttir/Bubba tók stóran hluta þess tíma sem þau Kristinn Kristmundsson gistu Laugarvatn.
Njáluferð 1971: Þarna má sjá, auk vormanna Íslands,
dr. Harald og Björn Inga Finsen, enskukennara.
Það er ætlunin að þróa þessa hugmynd lengra og nú liggur fyrir að leita til júbílanta næstu 5 ára, biðja þá að kíkja í gömlu albúmin sín, velja skemmtilegar myndir frá Laugarvatnsárunum, merkja þær og gefa skólanum til vistunar á vefnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Áhugi minn á þessari myndvinnslu efldist til muna þegar ég fann nokkrar myndir frá mínum árum í ML frá 1970-74. Megi þær verða fleiri.

04 febrúar, 2016

Ég á bara ekki heima þar!

 Ætli ég sé ekki þessi maður sem er alltaf að láta smáatriðin fara í taugarnar á sér, með þeim afleiðingum að aukaatriðin verða að aðalatriðum.  Það koma þeir tímar, að ég verð að blása, oftast inn á einhverjum samfélagssíðum eins og þessari.  Með því er ég yfrleitt búinn að koma viðkomandi málefni frá og fer að hugsa um eitthvað annað.

Nú þarf ég að koma þessu frá.

Ég bý í Laugarási, og lagði meira að segja í það að stofna sérstaka síðu helgaða þessu heimaþorpi mínu á snjáldru/Fb/Facebook. Þangað fer ég stundum til að skoða eða til að bæta einhverju inn sem mér finnst í lagi að setja þangað.  Ég lít á mig sem tandurhreinan Laugarásbúa, ómengaðan af nágrannasvæðum, þó ég eigi kannski sögu hér og þar. 
Þarna inni á þessari sérstöku síðu Þorpsins í skóginum birtist mynd mín og nafn, en jafnframt er þess sérstaklega getið að ég sé frá Hruna. Hér með hafna ég því að ég sé frá Hruna. Ég hef reynt ýmislegt til þess að bera þessi heimkynni af mér, án árangurs.

Nú hef ég ekkert nema gott um Hruna að segja, merkur sögustaður þar sem dansaður var frægur dans með óvæntum endalokum. Það hefur margt góðra karla og kvenna átt heima gegnum aldirnar og þar ráða nú húsum indælis prestur  og prestsfrú (hér þurfti ég á ákveða hvort óhætt væri að kalla konu prests prestsfrú. Ég skýli mér á bakvið það að ég ólst upp við þá venju, og ætla ekkert að fara að breyta út af henni. Velti því hinsvegar fyrir mér hvernig ég hefði farið að ef konan hefði verið presturinn. Hefði ég sagt prestur og prestsherra? Læt það liggja millli hluta). Í sveitinni í kring, Hrunamannahreppi, býr margt ágætisfólk í þéttbýli og dreifbýli. Allt þetta breytir því ekki að ég er afar andvígur því að  vera sagður eiga heima í Hruna. 

Viti einhver gott ráð til að breyta þessari óvelkomnu heimilisfesti, bið ég þann hinn sama að benda mér á ráð sem dugir.


Sr Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna


09 janúar, 2016

Formannavísur á Stokkseyri 1891

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum

Ég verð seint talinn til hóps þess fólks sem ber skynbragð á sjósókn á einhverjum tíma. Þrátt fyrir það á ég ekki langt að sækja tengsl við sjómenn og þá aðallega vegna þess að móðir mín, Guðný, fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi og þar bjuggu foreldrar hennar Elín Jóhannsdóttir og Páll Guðmundsson og bræðurnir Siggeir og Sigurður. Af þessum hópi er Sigurður einn eftir og býr enn í gamla bænum, en hann fæddist 1928 og er því 87 ára um þessar mundir.  Hjá Sigga er flest með sama hætti og hjá foreldrum hans. Hann setur upp jólatré sem langafi minn smíðaði og býr yfir mikilli þekkingu á ættarsögunni.


Sjóbúðir á og í grennd við Baugsstaði
Foreldrar afa míns og ömmu bjuggu einnig á Baugsstöðum og þaðan voru stundaðir sjóróðrar á opnum bátum og ég  man eftir þeim síðasta sem var kallaður Græðir. Ég geri fastlega ráð fyrir að um útgerðina frá Loftsstaðasandi hafi þegar verið skrifað heilmikið þó ekki viti ég það. Þó svo væri ekki, yrði það aldrei mitt hlutverk að færa þá sögu í letur.


"Frá Baugsstöðum" - sjóbúðir

Það sem varð til þess að ég set inn þessa færslu voru 45 vísur sem ég rakst á úr fórum foreldra minna. Ekki veit ég hvort þær eru þegar til á prenti, en geri þó frekar ráð fyrir því, hef að minnsta kosti séð nokkrar þeirra í vísnaþáttum héraðsfréttablaða.

Höfundur vísnanna: Magnús Teitsson

Þetta er meðal þess sem ég fann um Magnús:
Magnús Teitsson (1852-1920) fæddist í Kolsholti í Villingaholtshreppi, var formaður í Garðbæ á Stokkseyri, síðar á Brún á Stokkseyri. Foreldrar hans voru Teitur Jónsson bóndi í Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi og kona hans Kristrún Magnúsdóttir.
Árið 1920 dó á Stokkseyri aldraður maður, Magnús Teitsson að nafni. Hann var ættaður af Eyrum og mun hafa átt þar heima alla sína ævi. Aðalatvinna hans framan af ævi voru sjóróðrar á vetrum og kaupavinna á sumrum. Stundum var hann líka háseti á þilskipum við Faxaf lóa, er sá útvegur tók að færast í aukana. Magnús var vel verki farinn og hinn hagasti, að hvaða verki sem hann gekk. Kunnastur er hann samt fyrir hinar smellnu vísur, er hann hafði jafnan á hraðbergi, því að hann var prýðilega hagmæltur og oft ótrúlega fljótur að koma saman vísu.
 Magnúsi er svo lýst, að hann hafi verið tæplega meðalmaður að hæð, en þrekinn og svarað sér vel, og beinvaxinn var hann fram á elliár. Hann var kringluleitur, réttnefjaður, fullur að vöngum og nokkuð kinnbeinahár. Hann var ekki ennismikill né höfuðstór. Það sem einkenndi hann sérstaklega frá öðrum, voru augun, þau voru fremur lítil, dökkmóleit, eldsnör og gáfuleg. Hann var dökkur á hár og skegg, alskeggjaður, og yfirskeggið úfið. Hann tók í nefið, og vildi þá neftóbak hnoðast í hið úfna yfirskegg og loka nösunum. Þess vegna hóf hann oft mál sitt með því að blása snöggt út um nefið. — Vín þótti honum mjög gott.  

Hér eru vísur Magnúsar um formenn á Stokkseyri 1891

Formennina veit ég ekkert um og flestar vísnanna skil ég hreint ekki. Það getur vel verið að þarna finni einhver vísu um langafa sinn.

Það skal heyra þjóðin svinn
þá, sem keyra um skervöllinn
fiska leira fákinn sinn
frá Stokkseyri um veturinn.

Adólf keyrir kaðla jó
kalt þó heyrist Ránar hó
örum meiri áls um mó
á Stokkseyri halur bjó.

Afla notar alvanur
ára gota framsettur
á keilu slotið kappsamur
frá Keldnakoti Bernharður.

Bensi ferðast fiska um lá,
fín þó skerðist lognin blá,
aðsókn herðir ötull sá,
Íragerði vestra frá.

Askinn fjarða um ýsu lá,
ei þó skaði bylgjan há,
blágóms jarðir beitir á
Bárður, Garði ytra frá,

Út á stikar ægi lon
á árablika í happa von,
breið þó lyki bláleits kvon,
Bjarni Nikulásarson.

Brátt ef slotar bylgjan há,
ber sig otalandi frá
báru gota á byrðings lá,
Bjarni, koti Hellu frá.

Flæðar músa frambrunar
frekt og knúsar bárurnar
bjargar fús um breiðan mar
Bjarni í húsi Símonar.

Ört, nær liggur aldan stinn,
ára Frigg á skervöllinn,
otar hygginn æ hvert sinn
Einar byggir Pálsbæinn.

Fokku barða fetar á,
frek nær skarðar kólgan há,
alúð sparar enga sá,
Einar, Garðhúsunum frá.

Siglu bolla um síla lá
setur holt í afla stjá
með ýta stolta á öldu blá,
Einar, holti Borgar frá.

Borða kjóa beita má,
breið þá hói aldan grá,
gedduflóa gruggið á
Grímur, Móakoti frá.

Árna kiði á öldu knur
ýtir sniðugt hugaður,
straums á iðu stöðugur,
Steindórs niður, Guðmundur.

Oft þó heyrist hrönin blá
Halldór keyrir neglu má,
hjá Stokkseyrarseli
siglir leirinn mjaldurs á.

Þó Ægir vaði öflugur
ára naðinn framsetur
á keilu traðir kappsamur,
Kolbeinsstaða Hallgrímur.

Hannes eigi hræðast má,
hátt þó geygi röstin blá,
ríður fleyi Roðgúl frá
rastar veginn breiðan á.

Ingvar Karels kundur snar,
kalt þó svari hafmeyjar,
lætur fara fokku mar
fram á þara leiðirnar.

Létt þó blundi báru són,
borða hundi laus við tjón,
Vernharðs kundur vaskur, Jón
vel fær heundið sels á lón.

Hvals á frón hinn hugdjarfi
hlunni lóna stýrandi,
gildur þjónar gæfunni
gætinn Jón í Framnesi.

Eins þó láar ærist knur,
aflann háa Jón finnur,
Holti frá um haföldur
hestinn ráa fram setur

Jón þó sveimi jötuns gól,
jóinn teymir ára á ról,
ekki feimins áls á ból,
á nú heima á Rauðárhól.

Á húna kiði ei hræðist tjón,
hátt þó iði bylgju són ,
þræðir sniðugt þorska lón
Þórðar niður, ungur, Jón.

Flæðar keyrir fákinn sinn
á fiska leirinn vel heppinn,
þó jötuns heyrist jögunin,
Jón, Stokkseyrar húsbóndinn.

Dvergasteinum dregur frá,
djarft þó veini bylgjan há,
Jón, með sveina um síla lá
sinn að reyna kaðla má.

Jafnt þó brúsi báru frón,
borða krús á mjaldurs lón,
ýtir fús með afla bón,
á Móhúsum bóndi, Jón.

Eins þó blekki báran há,
bila ekki stjórinn má,
öllum þekkur ýtum sá,
ungur Kekki, Jón er frá.

Þó virða lýi veðra þrá,
viskustiginn sigla má,
húna kríu á höfin blá
hann Júníus, Seli frá.

Áls um bungu æ forsjáll
ára lungi beitir þjáll,
þó seltu drungi sýnist háll
sonur ungur Þórðar, Páll.

Pálmar keyrir kaðla, dýr,
kaldan þeyinn ekki flýr.
Áls á leirinn ötunn, skýr,
á Stokkseyri núna býr.

Dreka hnellinn ára á,
þó aldan skelli flúðum hjá,
mjaldurs svellið miðar á
Magnús, Helli kominn frá.

Magnús beitir ára örn,
áls um bleytu reynir vörn,
borinn Teiti um byrðings tjörn,
þó báran þeyti reiði gjörn.

Hafs á fletin, hugdjarfur,
hlunnjó setur öflugur,
aflann metur auðfengur,
Árna getinn, Sigurður.

Sigurð glaðan met ég minn,
más um traðir velheppinn,
keipa að hlaða kak fann sinn
Kalastaða húsbóndinn.

Fokku hundinn framsetur,
fyrr en blundar hræsvelgur,
hafs á grundu hugaður,
Hinriks kundur, Sigurður.

Teignum beina ferðast frá,
frek þó kveini aldan blá,
Siggi á hreina sela lá,
sigluteina jónum á.

Hrauk frá gengur, hugaður,
hót ei lengur við dvelur,
síls á engi, Sigurður,
sínum drengja hóp meður.

Upp þó skvettist ýsu frón,
orkumettur, laus við tjón,
aflar þétt á ára ljón
einn frá Stéttum, Sigurjón.

Eins þó bralli aldan blá,
ekki hamla ferðum má,
djarft að svamla um síla lá,
Símon, Gamla hrauni frá.

Lungi hröðum ára á,
oft með glöðum huga sá,
lýsu tröðum löngum  á,
Leiðólfsstöðum, Snorri, frá.

Sturlaug fúsan svo ég sá,
sigla brúa um löginn blá,
stýra húsum Starkaðs frá,
stór ei knúsan gæfan má.

Þórður ráa þægum gant,
þeysa náir, laus við stant,
Skipum frá um laxa lant,
liðugt gáinr, tefji brant.

Torfi Söndu treður frá,
tjóni og gröndum horfinn frá,
keipa bröndusina sá,
sesttur löndin karfa á.

Öldu glaði ýta má
ei hann skaðar bylgjan há,
þá með hraða um þorska lá
Þórður Traðarholti frá.

Þröst á fjala þéttur gengur,
Þorkell, valinn Magnús bur,
hátt þó gali Hræsvelgur,
heppinn talinn, formaður.

Ýta og fljóðin æ hvert sinn,
annist góður drottinn minn,
svo má þjóðin, þýð og svinn
þylja ljóðin, stirðkveðin.






04 janúar, 2016

Gamanvísur um Skitu-Lása

smella til að stækka
Ég var að leita að einhverju þegar ég rakst á vélrituð, samanheftuð blöð í pappírum sem foreldrar mínir skildu eftir sig.  Ég blaðaði í gegnum þetta og fannst kveðskapurinn eitthvað undarlegur þar til ég áttaði mig á að þarna voru vísur til söngs við sama lag og Bílavísur sem er þekkt revíulag og byrjar svona:
Halló þarna bíllinn ekki bíður.Æ, blessuð flýtið ykkur tíminn líður.Sæti, fröken, sestu þarna manni. Þau ætluðu nefnilega rétt sem allra snöggvast að skreppa suður í Hafnarfjörð og auðvitað  íleyfisleysi og banni.
Nafn höfundarins var skráð undir vísunum. Ég reiknaði í fyrstu með að það væri dulnefni.  Ég ákvað samt að gúgla,  með þeim árangri að þarna reyndist vera um að ræða raunverulegan einstakling: Hjörmund Guðmundsson 
Hjörmundur Guðmundsson (1876-1960) var fæddur á Hjálmsstöðum í Laugardal, vinnumaður á Hjálmsstöðum, síðar verkamaður í Hafnarfirði. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum og kona hans Gróa Jónsdóttir.
Í minningargrein Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti um Hjörmund segir:
Hjörmundur var sérstaklega skemmtilegur, kátur og glaður, hagorður í bezta lagi, enda mikið um vísna- og ljóðagerð á Hjálmsstöðum á þeim árum, oft orti hann af munni fram, og fauk þá margt sem ekki var ætlazt til að lifði, en oft voru orðatiltækin hnittin og vöktu kátínu og gleðskap. Hann var sérstakur geðprýðismaður, og ég fullyrði að ég sá hann aldrei reiðan.
Í framhaldi af þessum fundi ákvað ég að prófa að gúgla Skitu-Lása og viti menn:
Hann var sagður förumaður, tómthúsmaður og hjónabandsmiðlari.Það mun vera þáttur um þennan mann í bókinni "Grímsnes: búendur og saga"
Nikulás Helgason "Skitu-Lási" var fæddur 5. apríl 1855 í Ölvaðsholtshjáleigu í Holtum. Foreldrar hans voru Helgi Jónsson (1822-1894) og k.h. Guðríður Magnúsdóttir (1821-1894). Nikulás giftist Sigríði Jónsdóttur (1861-?) og áttu þau tvö börn. Hann andaðist 18. janúar 1929 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Með alla þessa vitneskju fengu þessar vélrituðu vísur allt aðra merkingu og ég fór að reyna að átta mig á hvenær þær hefðu verið ortar. Nafn einnar konu í vísunum kannast ég við, en það er Sigríður Tómasdóttir í Brattholti. Hún fæddist 1874 og af því má álykta að vísurnar hafi verið samdar 1923-24, þar sem Sigríður er sögð vera á "fimmtugasta ári".

Það væri ekki leiðinlegt ef einhver kynni betri skil á þessum vísum og því fólki sem þar er tilgreint.

Gamanvísur um Skitu-Láka

Hjörmundur Guðmundsson

Það þekkja flestir farfuglinn hann Lása,
sem flögrar milli sveita rödd með hása.
Hans starf er nú að kynna konur mönnum.
Honum þykir það afturför í landinu hve lítið að unga fólkinu giftir sig og ungu piltarnir líta varla við
fagur leitum svönnum.

Hann sér að fólkið síst er glatt í lyndi
og seglunum það hagar eftir vindi,
en hugsar sér að bíða og sjá hvað setur.
Svo hefur hann tekið eftir að stúlkurnar eru hálf daufar og niðurdregnar þegar 
kemur fram á vetur.

En sumir fóru að segja Lása í hljóði
hvort sæi hann nokkurstaðar völ á fljóði,
sem gæti þénað búskapsþörfum bráðum,
bara að hún væri snotur útlits, og ekki mjög gömul og 
sniðug vel í ráðum.

Hann Lási sagðist lítið hafa að gera
og líklegur til útréttinga vera.
Já, þetta er eitt sem þarf í hasti að laga,
svo þaut hann upp og fór í bestu flíkurnar, setti upp harða hattinn og hvítan flibba sem tók honum 
langt niður á maga.

Og bílstjórinn á Borg hann fyrstur sendi
og bíður honum gjaldið strax í hendi,
ef kæmi hann með konu til sín fríða.
Ég er kominn undir fertugt, alveg uppgefinn á lausamennskunni 
og hálfþreyttur að bíða.

Það er sagt að Lási svæfi ei vært þá nóttu,
hann sveif á burtu löngu fyrir óttu
og barði á dyr um fótaferð í Hólum,
spurði hvað framorðið væri, flensaði snjóinn burt af 
slitnum göngutólum.

En heimasætuna Hildi vildi hann finna
og henni þessa málaleitan kynna,
en samningurinn síður er mér kunnur,
en svo mikið er víst að Lási hrópaði "halló" og 
opinn var hans munnur.

Hann Sigurð, karlinn setti dáltið hljóðan,
þeir sögðu hann ýmist hvítan eða rjóðan.
Hann tók á líku traustum karlmannshöndum
það tekur ei að æðrast út af svona smámunum 
svo sem ljón í böndum.

Hann tekur Lása á eintal úti í kofa
því inni fyrir sá til skýja rofa,
og biður hann í Brattholt strax að hlaupa
og biðja fyrir sig heimasætuna þar - þeir 
óðar þessu kaupa.

En ef þér lukkast ferðin, frændi góður,
þá færðu Grána strax og allt hans fóður
og þrettán ærnar þrifa og kosta gildar.
Þú skalt svei mér ekki ver haldinn hjá mér, en þeim sem 
sendi þig til Hildar.

Hann Lási brá sér leiðina inn með Hlíðum,
í léttum göngumannabúning víðum
og barði svo í Brattholti að dyrum
og bóndadótturina Sigríði
Tómasdóttur spyr um.

Það segir ekki af Siggu og Lása fundum,
því samtal oft eru heimulegt með sprundum.
Hún sendi aftur silfur lokk af hári,
sem sagður fullur meter á lengd, en Sigríður nú á
fimmtugasta ári.

Í bakleið aftur Efstadal hann finnur,
þar ekkja býr hún Guðný mest sem vinnur.
Hann býður henni að bjarga henni í skyndi,
semsé að útvega henni mannsefni, sem veiti
henni skjól og yndi.

En þetta gjörðu þau ei lengur ræða,
en þegar hann var búinn sig að klæða
þá skaust hann eins og kólfur eða kúla,
kom hvergi á bæi, kokkaði málið og trúlofaði hann 
Ingvar bónda í Múla.

Svo brá hann sér í Borgar háa ranninn
og býður Hrefnu að útvega henni manninn.
Hún var hálf treg og gaf þó síðar svarið:
"Mér er alveg sama hvort eða síðar
tekið verður af skarið".

Hann Lási þurfti þarna ekki meira
og þessi svörin hrópar Karli í eyra,
en Kalli sá að happ var honum hlotið.
Það var hreinasta undur
hve vel hann fór með skotið.

Að Gýgjarhóli gekk hann einhvern daginn
og guðaði að kvöldlagi á bæinn.
Hann hafði mér sér umboð ýmsra sveina
að inna að því við heimasæturnar þar
hvort þeir mættu reyna.

Því gullæðin um Gýgjarhólinn streymir,
um gullnar vonir marga pilta dreymir,
Og gullhár hefur heimasætan bjarta.
Það kvað hafa töluverð áhrif á
mannlegt auga og hjarta.

Hann bauð henni Magnús, búfræðinginn unga,
sem bragna og meyja lofar sérhver tunga.
En stúlkan hafði ei bónorð fegnið betri,
hún bara vildi giftast honum sem fyrst,
helst á þessum vetri.

Svo hélt hann áfram út um sveitir allar
og alltaf hann um sama málið fjallar,
uns sextán pör hann saman hefur bundið.
Það kostaði hann talsverða fyrirhöfn og skófatnað og 
margra að því fundið.

Hann þreytist ekki góðverkin að gera,
fyrir giftingunum vill hann agitera.
Hann sjálfan vantar aðstoð þó í elli,
það eru helst efnaðar piparmeyjar og ríkar ekkjur sem
þar í kramið félli.

Og sjálfan hafði hann sig á bak við eyra
svona jafnvel lét það á sér heyra,
að ef sér yrði gerður dáldill greiði,
þá gæti hugsast að Tjarnarkot í Tungum fari ei
næsta vor í eyði.



28 desember, 2015

Í hvítri og friðsamri sæng - rafræn útgáfa

Skúli Magnússon upp úr 1940
Það sem hér fer á eftir er umfjöllun sem birtist í Litla-Bergþór, 2. tbl., 36. árg, desember 2015. Ég set hana hér inn til að eiga hana á þessu svæði. Ég neita því ekki, að það fór ansi mikill tími í að afla upplýsinga sem gætu varpað meira ljósi að það sem gerðist þarna  fyrir um 75 árum. Flestir þeir sem á þessum tíma voru komnir af barnsaldri eru horfnir af vettvangi, mér tókst ekki að komast í samband við fólk sem mögulega gæti munað þennan atburð, og minni þeirra sem ég ræddi við var auðvitað ekkert sérstaklega skýrt, enda þarna oftast um upprifjun á atburði sem þeir mundu að hefði komið til tals síðar. Það var þannig, eins og við þekkjum mörg, að um erfiða atburði að áföll, var ekki rætt við börn, eða lítið rætt yfirleitt.. 
Þó pabbi hefði verið þarna virkur þátttakandi í leitinni að Olav, var það ekki fyrr en eftir að hann lést á síðasta ári, þegar ég rakst á dagbók sem hann hafði skrifað árið 1940 (fyrsta árið sem hann var á Syðri-Reykjum) að ég fékk vitneskju um  þá hörmung sem þarna hafði átt sér stað. 
Ég leitaði að frásögnum en fann ekkert annað en fréttir í dagblöðum og fannst þessvegna mikilvægt að 
reyna að afla frekari upplýsinga og 
koma dagbókarfærslunum á prentað form. Það tókst á endanum og viðleitni mína má nú finna í ofangreindu tölublaði Litla-Bergþórs. 
_____________________________________________________
M1:Olav Sanden í byrjun árs 1940
Árið 1938 kom ungur Norðmaður, Olav Sanden (f. 29.11.1918 (í skrá um legstaði í Torfastaðakirkjugarði er hann sagður hafa fæðst 29.1.1918 og þarna er líklega um að ræða skrifvillu í annarri heimildinni)), til landsins og hóf störf á Syðri-Reykjum hjá Stefáni Árnasyni (1911-2002) og Áslaugu Ólafsdóttur (1909-1996). Þau áttu tvö börn á þeim tíma sem hér er fjallað um: Ingveldi Björgu (3) og Ólaf (2). 

Það sem hér fer á eftir eru færslur úr dagbók (feitletrað) Skúla Magnússonar, síðar garðyrkjubónda í Hveratúni (1918-2014) frá árinu 1940. Þessar færslur fjalla um aðstæður þegar Olav varð úti á leið sinni frá Efstadal til Syðri-Reykja, 19. febrúar, 1940. 

Veður var ágætt vikuna 11.- 17. febrúar 1940. Framan af var hæg austan átt og hiti um og yfir frostmarki. Um miðja vikuna fór að kólna með norðaustan golu. 

Lífið á Syðri Reykjum gekk sinn vana gang og unnið að undirbúningi fyrir vorið: rör voru fægð og lökkuð, stungið upp og byrjað að planta út tómötum. 
M2:Séð frá S.-Reykjum. Brúará í forgrunni,
Efstidalur ofarlega til hægri
Laugardagurinn 17. Norðaustan kaldi bjart veður 10 gráðu frost. Olav fór upp að Efstadal.
Til þess að fara frá S.-Reykjum upp í Efstadal, var farið á bát yfir Brúará. Erindi Olavs í Efstadal var að hitta þar jafnaldra sína, en einhverjir þeirra voru í íhlaupavinnu á Syðri-Reykjum á þessum tíma. Þá bjuggu í Efstadal II hjónin Jórunn Ásmundsdóttir (59) og Sigurður Sigurðsson (60). Börn þeirra sem þá voru heima voru: Steinunn (22), Magnús (21), Ingvar (20), Björn (19) og Magnhildur (17). Á hinum bænum í Efstadal bjuggu hjónin Sigþrúður Guðnadóttir (43) og Karl Jónsson (35), síðar í Gýgjarhólskoti, ásamt börnum sínum Helgu (11) Jóni (10), Guðrúnu (8), Ingimar (7), Guðna (6), Arnóri (4), Margréti (3) og Gunnari (á fyrsta ári) og bróður Karls, Grími (29).
M3:Róið yfir Brúará um 1940
Sunnudagurinn 18. Norðan og norðaustan gola 2 gráðu frost mikil snjókoma með morgninum. Olav var ókominn frá Efstadal. 
 Mánudagurinn 19. Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson, Bergur og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoma og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar vorum komnir norður fyrir Brúará var kl. 9:50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt læri og mitti og jafnvel enn þá meira sumstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var. Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan, sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl. 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hversu veðrið var ískyggilegt. Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20 mín til hálftíma) og vorum flestir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um, við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman, lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir um kl. 5. Jón fer með Guðmundi til baka aftur því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri. Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.
Mennirnir fjórir voru Stefán Árnason (28), Skúli Magnússon (21), Ingibergur Sæmundsson (19) og Jón Guðmundsson (28) frá Blesastöðum, en hann hafði komið að Syðri-Reykjum nokkru fyrr til að leggja miðstöð í gróðurhús.

M4:Afstöðumynd: Efstidalur, S.-Reykir,
Böðmóðsstaðir
Í dagbókinni er talað um að fjórmenningarnir hafi verið búnir að ganga „æði spöl“ í átt að Efstadal þegar þeir mættu pilti þaðan. Á meðfylgjandi korti er mögulegur staður þar sem þeir hittu piltinn (merktur með A). Þessi piltur mun hafa verið Ingvar Sigurðsson, þá tvítugur og var hann ríðandi. Það má teljast líklegt að þeir hafi valið stystu leiðina að Böðmóðsstöðum frá þeim stað sem þeir mættust og er möguleg leið sýnd á kortinu með mjórri punktalínu frá A. Vissulega er hér um ágiskun að ræða.

Á Böðmóðsstöðum bjuggu á þessum tíma hjónin Karólína Árnadóttir (42) og Guðmundur Ingimar Njálsson (45). Börn þeirra, sem komust á legg, voru: Guðbjörn (19), Ólafía (18), Aðalheiður (17) (síðar í Neðra-Dal), Kristrún (15), Jóna Sigríður (14), Valgerður (13), Lilja (11), Fjóla (11), Njáll (10), Ragnheiður (8), Árni (7) (síðar á Böðmóðsstöðum), Guðrún (6), Herdís (5) og Hörður (4) (síðar á Böðmóðsstöðum) og Ólafía Guðmundsdóttir, móðir Guðmundar (72). 

Í ævisögu Páls á Hjálmsstöðum, „Tak hnakk þinn og hest“ sem Vilhjálmur S. Vilhjálmsson færði í letur og sem kom út 1954, er þáttur sem ber heitið „Erfið beitarhúsaferð“. Þar er fjallað ítarlegar um veðrið sem greint er frá í dagbókinni:
…allt í einu bar svo við, á þorranum, að hann fór að snjóa á galauða jörð. Algert logn var, og kyngdi niður snjónum í tvo sólarhringa samfleytt. Ég fór fram í beitarhús og Guðmundur sonur minn með mér. Ætluðum við að gæta að fénu og leita hesta, sem áttu að vera þarna ekki langt frá. Við gáfum á jötur og fórum að því loknu heim með hestana. Enn snjóaði, og nú ákafar en áður, og stóð svo í marga daga. Ég þorði ekki að senda drenginn einsamlan, og tók ég þá það ráð að fara ríðandi ásamt Hilmari syni mínum. Var þá bæði ákafur snjógangur og þoka, en það var óvenjulegt veðurlag. Svo svört var hríðin, að við sáum ekki út úr augunum og snjórinn var í miðjar síður á hestunum. Við fundum þó fjárhúsin um síðir. Þegar við vorum hálfnaðir með gegningar rauk á með hvassviðri og varð moldin svo mikil að varla sáum við niður á hnén á okkur.
og áfram heldur Páll og segir hér frá ferðinni til baka frá beitarhúsunum:
Lausamjöllin var komin í skafla, sem náðu upp fyrir hestana. Þeir brutust um og við gengum með þeim, því að ekkert viðlit var að sitja á þeim. Þarna kútveltumst við og hestarnir í snjónum og okkur fannst að ekkert miðaði.
M5: Mbl 23.02.1940
Áfram héldu þeir þó og á endanum „bókstaflega rákust þeir á bæinn“ fimm tímum eftir að þeir lögðu af stað frá beitarhúsunum. Að lokum segir svo:
Ég held að ég hafi aldrei komist í krappari dans á ævi minni. Þessi ofsi stóð í heilan sólarhring og linnti aldrei. Þá varð danskur maður úti skammt frá beitarhúsi í dalnum. Hann hafði farið frá Efstadal, en ekki náð heim til sín, að Reykjum í Biskupstungum.
Þriðjudagurinn 20. Hvöss norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum mann að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. Austan kaldi úrkomulaust en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs. Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara, áðurnefndra bæja. Var nú tekið að safna liði hér í nágrenni til að leita á morgun.
Fimmtudagurinn 22. Austan strekkingur, krapahríð. Leitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvað afdrep var, var kafald og hin mesta ófærð. Okkur þótti fullvíst að leit væri árangurslaus meðan þessi snjókyngi væri á þessum slóðum, var því ákveðið að geyma hana uns þiðnaði.
 Föstudagurinn 23. Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4 gráðu frost. Við lögðum rör í 4 og 5 en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.
Næstu daga var norðaustan gola, bjart veður og hiti frá -2° niður í -10°, en fimmtudaginn 29. varð breyting á.
Fimmtudagurinn 29. Allhvass að sunnan með dálítilli rigningu 2 gráðu hiti.
Föstudagurinn 1. Hæg suðvestan átt éljaveður en bjart á milli. 1 gráðu frost. Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmveðurs tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Grundarhúsin sem þarna eru nefnd eru að öllum líkindum svokölluð Flatarhús. Ekki ber heimildum saman um hver eða hverjir fundu lík Olavs, né nákvæmlega hvar. Ákveðnasta vísbendingin um þetta greinir frá því að Ingvar Sigurðsson, sem áður er nefndur, hafi verið við gegningar í beitarhúsum í svokölluðum Múla. Hann var með hund með sér. Hundurinn mun hafa tekið á rás niður á mýrarnar þar sem hann fann lík Olavs ekki langt frá Bleikhól, sem er merktur á meðfylgjandi korti. Það er í samræmi við það sem aðrir viðmælendur töldu.
Laugardagurinn 2. Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5 gráðu hiti. Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.
Bergur, sem þarna er nefndur, er Ingibergur Sæmundsson.

Systir Olavs, Liv Gunnhild (1915-1951), hafði, tveim árum fyrr gifst Stefáni Þorsteinssyni (1913-1997), garðyrkjufræðingi, sem þetta ár hóf störf sem kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði að loknu námi í Noregi. Stefán og Liv ráku garðyrkjustöðina á Stóra-Fljóti í Biskupstungum um skeið frá 1946, en Liv lést úr berklum 1951. Þá höfðu þau Stefán eignast 6 börn og var Liv Gunnhild þeirra yngst, fædd árið áður en móðir hennar lést, þá 26 ára að aldri. Önnur börn Liv og Stefáns voru Þorsteinn (1938), Aðalbjörg (1940), Guri Liv (1941), Sigrún (1945) og Birgir (1948). Eftir lát konu sinnar var Stefán á Stóra-Fljóti til 1956. 

Eitt barna þeirra Stefáns og Liv, Birgir, fór í fóstur til Guðnýjar Guðmundsdóttur og Helga Indriðasonar í Laugarási og var hjá þeim til fullorðinsára.
Sunnudagurinn 3. Norðvestan kaldi, 4 gráðu hiti. Ekkert nýtt bar til tíðinda.
Mánudagurinn 4. Norðaustlæg átt bjart veður 5 gráðu frost. Jarðarför fór fram á Torfastöðum.

Eftirmáli

Feitletraði textinn er orðréttur úr dagbók föður míns frá þessum tíma, þeim hluta sem fjallar um veður og Olav. Þess ber að geta, að þegar Olav varð úti var faðir minn búinn að vera hálfan mánuð á Syðri-Reykjum og tæpa tvo þar á undan á Torfastöðum, en hann kom í fyrsta skipti hingað suður, austan af Fljótsdalshéraði, í byrjun desember 1939. Fósturfaðir hans Benedikt Blöndal, varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Héraðs í janúar það ár. 

Ég hef leitast við að fylla í eyður með heimildum úr timarit.is og samræðum við fólk sem mögulega var talið hafa vitnesku um þann atburð sem um ræðir þar á meðal dætur Liv og Stefáns, þær Sigrúnu og Aðalbjörgu. Hjá þeim fékk ég einnig myndina af honum með hestinum. Þá mynd höfðu þær fengið frá Ingveldi Stefánsdóttur frá Syðri-Reykjum. Aftan á myndinni stendur: O Sanden 1940. Hina myndina af Olav fékk ég hjá Ólafi á Syðri-Reykjum, en hún er líklegast tekin 1939.

Ég ræddi einnig við Ólaf Stefánsson á Syðri-Reykjum, Theodór Vilmundarson í Efstadal, Snæbjörn Sigurðsson í Efstadal, Hörð Guðmundsson á Böðmóðsstöðum, Guðnýju og Gróu Grímsdætur á Ketilvöllum, Jón Karlsson og Ragnhildi Magnúsdóttur í Gýgjarhólskoti, Friðgeir Stefánsson í Laugardalshólum og tvö barna Ingvars Sigurðssonar, þau Sigurð og Sigþrúði. Þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir aðstoðina.

M6: Olav Sanden til vinstri. Myndin líklega tekin 1939.
Ekki hef ég nafn hins mannsins.

M7: Skúli Magnússon reynir að hafa stjórn á Ólafi Stefánssyni,
1941-42 (?)

M8: Skúli Magnússon og Stefán Árnason prikla upp úr 1940

Myndirnar á síðunni eru frá Syðri-Reykjum utan M2, M4 og M5. Á frumbýlingsárum Stefáns og Áslaugar voru í það minnst tveir miklir áhugamenn um ljósmyndun, með góð tæki og því mikið myndefni til, sem mér finnst að mikilvægt sé að halda til haga og merkja eftir föngum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...