Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholt. Sýna allar færslur

20 júní, 2018

Geymsla fyrir gersemar

Skálholtsdómkirkja og það sem hún geymir er ekki bara það sem við köllum oft guðshús. Sannarlega var hún byggð á þessum helga stað, Guði til dýrðar. Kirkjubyggingin er hinsvegar meira en það og því er mikilvægt að halda til haga. 
Skálholt er einn mikilvægasti staðurinn í sögu þjóðarinnar og geymir magnaða sögu um sigra og töp, gleði og sorgir, upprisu og niðurrif, fátækt og ríkidæmi, vald og valdaleysi, misbeitingu og góðverk. Það hefur sjaldan ríkt friður um þennan merka stað og fram á þennan dag hefur verið tekist á um völd, mis opinskátt þó. Það er eitthvað við þessa "þúfu" sem kallar fram í fólki bæði það besta og versta. Það er ekkert öðruvísi með mig. Í mér hafa tekist á mjög andstæð viðhorf til Skálholts, sem ég vil ekki fjölyrða um hér og nú. Það fer þó ekki á milli mála, að Skálholt skiptir þess þjóð miklu máli, ef ekki vegna sögu okkar sem kristinnar þjóðar, þá bara vegna sögunnar, því án hennar værum við ekkert. Svo einfalt er það.

Ég ætla ekki að minnast frekar á mikilvægi Skálholts sem kirkjustaðar eða sögustaðar.
Skálholt geymir þjóðargersemar og stórar gjafir frá vinaþjóðum. 

Þessa mánuðina er verið að flytja listglugga Gerðar Helgadóttur til Þýskalands til viðgerðar og lagfæringar. Nú er unnið við að taka niður siðasta skammtinn, og hann mun svo koma með haustskipum til baka til uppsetningar. Þessu verki hefur miðað ótrúlega vel og þeir eru margir sem hafa lagt hönd á plóg við að fjármagna þetta verk og vinna að því í stóru og smáu.

Gluggarnir eru hinsvegar aðeins fyrsta skrefið í þeirri endurreisn sem unnið er að í Skálholti.

Mósaikmynd Nínu Tryggvadóttur yfir altarinu þarfnast viðgerðar, en í hana komu sprungur í Suðurlandsskjálftunum.

Þak kirkjunnar kallar á yfirhalningu, en í votviðri þarf kórinn að sitja með tilteknum hætti til að forðast dropana sem að ofan falla.

Turnþakið er orðið verulega mosavaxið.

Uppi í turni liggur brotin klukka og hefur legið þar í 16 ár.

Kirkju­klukka í Skál­holts­kirkju féll niður og brotnaði við upp­haf hátíðarmessu í lok Skál­holts­hátíðar um miðjan síðasta sunnu­dag. Þrír bolt­ar sem héldu klukk­unni uppi gáfu sig og heyrðist mik­ill dynk­ur þegar klukk­an, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkju­gesta var í kirkj­unni og mun þeim hafa brugðið við dynk­inn. Sr. Eg­ill Hall­gríms­son, sókn­ar­prest­ur í Skál­holti, seg­ir að fall klukk­unn­ar hafi verið inn­an við tvo metra. Klukk­an hafi brotnað í tvennt a.m.k. og seg­ir Gutt­orm­ur Bjarna­son staðar­hald­ari að þegar hafi verið haft sam­band við fyr­ir­tæki sem taka að sér að gera við slík­ar klukk­ur og að ljóst sé að gert verði við klukk­una. Hann seg­ir ómögu­legt að segja til um viðgerðar­kostnað að svo stöddu sem og um virði klukk­unn­ar sjálfr­ar. Alls voru fimm klukk­ur í turn­in­um og seg­ir hann að vandi yrði að finna klukku sem hefði sama tón og sú sem brotnaði. Klukk­an er úr kop­ar­blöndu og seg­ir Eg­ill að hún gæti verið um metri á hæð og eitt­hvað svipað á breidd. Klukk­an er gjöf frá Dön­um og stend­ur ár­talið 1960 á henni. Gutt­orm­ur tel­ur þó að hún sé eldri, seg­ir að gert hafi verið við hana áður en hún kom til Íslands. - mbl 22.07.2002
Tröppurnar upp að kirkjunni eru orðnar illa farnar.

Þetta eru nú bara nokkur atriði sem koma í hugann í fljótu bragði, en það sem átti og á að vera kjarninn í því sem ég er að reyna að koma frá mér er þessi:
Það skiptir engu máli hvaða trú við aðyllumst og hvort við trúum yfirleitt, Skálholt er staður sem þessi þjóð þarf að varðveita í virðingarverðu ástandi. Staðurinn er eitt mikilvægasta táknið um að við erum þjóð meðal þjóða, menningarþjóð sem flytur sögu sína og menningu áfram til komandi kynslóða.  Ég neita að trúa því að við séum svo smá í okkur, að okkur takist ekki að horfa framhjá dægurþrasi þegar um er að ræða að bjarga þeim verðmætum sem Skálholt geymir.

Höldum áfram þessu verki.
Lagfæring glugganna er afburðagott skref í þá átt og vísir að öðru og meira.


06 maí, 2018

Bjór á tíkall

Nýi Skálholtsbjórinn, bruggaður í Ölvisholti.
Við fD veltum því fyrir okkur hvort við ættum að skella okkur út í Skálholt í gær til að smakka nýja bjórinn sem þar var kynntur.
Eftir nokkrar pælingar og vangaveltur í tengslum við samhengi kirkjusóknar okkar og áhuga á bjór, sem ekki leiddu til neins, ákváðum við að láta slag standa. Vandi okkar var eiginlega sá, að ekki var ljóst af kynningarefninu sem við höfðum séð, hvernig fyrirkomulag tímans milli 17 og 19 átti að vera. Þar kom aðeins fram hver dagskráin væri, en hvorki í hvaða röð hún væri né hvar hver dagskrárliður færi fram. Af þessum sökum vorum við andlega tilbúin til að fara beint í skólann þegar í Skálholt væri komið, beint í bjórinn, enda hann megin tilgangur viðburðarins.
Þegar við komum í Skálholt lá straumurinn hinsvegar inn í kirkju og við fylgjum straumnum,yfirleitt, að mestu. Það gerðum við einnig þarna.
Í kirkjunni hófst dagskráin með ávarpi sem ég heyrði eiginlega nánast ekkert af. Hélt að allgott hátalarakerfi myndi koma að góðum notum við svona tilefni, enda vita það allir að talað orð, ómagnað, á afar erfitt uppdráttar á því ágæta húsi sem kirkjan er.
Annað var uppi á teningnum þegar Jón Bjarnason flutti toccötu, sem ég veit ekki meira um, með sínum einstaka hætti og á eftir honum söng Unnur Malín, ofurkona á tónlistarsviðinu, tvö lög í tilefni sumarblíðunnar sem hefur látið bíða eftir sér. Vel gert.

sr. Halldór með þúsundkallinn
Þá var komið að sr. Halldóri Reynissyni, sem sagði sögur sem tengjast Skálholti og Skálholtsstað. Mál Halldórs komst vel til skila þar sem hann flutti það frammi í kirkjunni þar sem betur heyrist.
Hann bar fram margvíslegan fróðleik og í ýmsu, skemmtilegan. Þó kom á mig hik þegar hann skipaði gestum að taka fram veskin sín. Ekki varð ég við því, enda veskið mitt ekki með í för, bara nokkrir tíkallar fyrir bjór. Ekki ætla ég hér, að uppljóstra um tilefni þessarar skipunar sr. Halldórs, en hann veifaði þúsundkalli í kjölfarið í góða stund. Þá fjallaði hann um glugga Gerðar Helgadóttur, sem flestir eru í Þýskalandi til viðgerðar og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Þar kom fram hjá honum að maður skyldi ávallt horfa á altaristöfluna í gegnum augnhárin, þá sæi maður Hreppafjöllin í bakgrunni. Ég mun ávallt horfa á hana með opnum augum og huga. Hann bar einnig saman þá Krist og Trump.
Altaristafla Nínu Tryggvadóttur

 Ég hef áður tekið myndir af þessu mikla verki Nínu, en aldrei við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Lýsingin á því er einstök þegar engir steindir gluggar hindra aðgang náttúrulegrar birtu að henni.

Fyrir utan spígsporuðu nokkrar lóur og ég hefði gjarnan viljað vera með fuglalinsuna mína.

Jæja, meðan sr. Halldór leiddi gestina niður í kjallara til frekari upplýsingar um staðinn, lögðum við fD leið okkar í skólann. Þar var fyrir hlaðið borð af matvælum eins og þeim sem rannsóknir benda til að hæft hafi veislum á miðöldum í Skálholti. Kokkurinn, Sölvi B. Hilmarsson, kynnti þennan miðaldamálsverð fyrir gestum, en þarna mátti fólk smakka sitt lítið af hverju.
Drífa á Keldum, formaður stjórnar Skálholts ávarpaði samkomuna.
Sr. Halldór tók þessu næst fyrsta sopann af hinum nýja Skálholtsbjór, sem ber heitið Skálholt og í beinu framhaldi hófst afgreiðsla hans á barnum og var þar heilmikill atgangur, eins og nærri má geta, enda þurfti að greiða hvorki meira né minna en 10 íslenskar krónur fyrir flöskuna (aðeins í gær). Þar mun hafa verið um að ræða verðlag í samræmi við það sem á að hafa tíðkast á miðöldum. Hvernig Skálholtsmenn hafa komist að því, er mér ókunnugt um, en hafi tíkallinn á miðöldum verið hlutfallslega jafn há upphæð og nú, má reikna með að miðaldamenn hafi ekki gert margt annað en sulla í bjórnum. Þar er ef til vill komin skýringin á "hinum myrku miðöldum".

Sýnishorn af málsverðinum.
Hvað sem því líður, þá létu gesti það eftir sér að reiða fram tíukrónu peningana sína möglunarlaust við barinn.
Síðan hófst drykkjan, eða segjum svo, og einnig smakkið. Undir þessu flutti Unnur Malín tónlist sína, sem þarna fór nokkuð framhjá mér vegna þess hve fólk ræddi ákaft munngátina og önnur veisluföng, eða bara skiptist á kjaftasögum, eða loforðum fyrir komandi sveitarsjórnarkosningar.

Bjórinn er hreint ágætur og fallegur á litinn. Ég hef hinsvegar ekkert vit á því hvernig bjór á að vera utan að mér finnst hann eiga að vera frekar fleiri prósent en færri. Þessi er frekar færri, en bragðgóður samt.
Ég gæti alveg hugsað mér að snæða miðaldamálsverð í góðu tómi og renna honum niður með Skálholti. Vonandi gefst tækifæri til þess.

Þarna var talsvert af fólki saman komið til að njóta stundarinnar. Þarna voru ekki allir sem ég hefði reiknað með.

Að veitingunum stóðu Sölvi og hans fólk og var þar allt staðnum til sóma.
Ég þakka fyrir mína hönd og fD fyrir ágæta stund.

Þessi sáu um matinn og bjórinn.
f.v.Hólmfríður Ingólfsdóttir, Sölvi B. Hilmarsson,
Eva Björk Kristborgardóttir og Jóna Þormóðsdóttir


04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

01 júní, 2017

Hálf öld er stuttur tími

F.v. Páll, Pétur, Silli, Einar, Gunni, Steini, Maggi,
sr. Guðmundur, Loftur, Ragnhildur, Þrúða.
Í einhverju limbói milli þess að vera barn og unglingur. Það var engra spurninga spurt, bara gert eins og maður átti að gera. Uppreisn gegn þessu kom aldrei til greina. Eftir að hafa verið reglulegur kirkjugestur, aðallega fyrir tilstuðlan móður minnar, Guðnýjar í Hveratúni, var aldrei spurning um annað en staðfesta skírnina með því að fermast. Ég ímynda mér stundum hvað hefði gerst ef ég hefði sett niður fótinn og harðneitað. Þá sviðsmynd tekst mér ekki að kalla fram í hugann. Ekki neita ég því að það hafa orðið allnokkrar breytingar á samfélaginu á þeim fimmtíu árum sem eru horfin í aldanna skaut síðan.

Það er reyndar ekkert sérstaklega margt sem ég man frá þessum tíma; einstaka smámyndir koma upp í hugann og þá aðallega fyrir tilstuðlan myndefnis í tengslum við þennan merkisviðburð í sögu Hveratúnsfjölskyldunnar.
Ég man eftir fermingarbarnamóti á Laugarvatni, í Húsó (Lindinni). Þangað mætti ég með myndavél (kodak instamatic), man bara eftir einni svarthvítri mynd af jafnaldra sem var að taka mynd af mér. Held að það hafi verið Áslaug Eiríksdóttir frá Grafarbakka í Hrunamannahreppi. Að auki gerðist þarna eitt og eitt atriði, sem ekki verður rifjað upp hér.

Orgelið tekið til kostanna
Um aðdraganda fermingarinnar er frekar fátt að segja.
Ég hafði verið að læra á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni organista, sem síðan gerðist prestur (kannski vegna reynslunnar af að reyna að kenna mér) og ég held að hann hafi lengi starfað sem slíkur í Svíþjóð. Allavega hvarf hann af landi brott einhverntíma. Ég var hinsvegar í orgeltímum hjá honum. Ekki veit ég hvort orgelnám mitt var tilefnið, en í Hvertún kom gamalt kirkjuorgel, svona sem maður þurfti að stíga. Á þessa græju æfði ég mig á "fjárlögunum" og mig grunar að móðir mín hafi lagt að mér að undirbúa mig fyrir að leika á þetta orgel í fermingarveislunni. Sem ég auðvitað gerði - ávallt hlýðinn.

Sr. Guðmundur Óli Ólafsson var presturinn sem undirbjó hópinn með kristilegri uppfræðslu, tvær stúlkur og átta pilta. Einhvern veginn finnst mér að frú Anna (Magnúsdóttir) hafi aldrei verið fjarri og hafi haldið mikið til utan um hina praktísku hlið þessa. Hún var það þeirra hjóna sem hafði agann á okkur. Maður vogaði sér ekki að vera með neinn uppsteyt þegar hún var nálæg, ekki það að ég hafi nokkurntíma verið með uppsteyt - aðrir voru ef til vill meira í því, þó ekki telji ég að svo hafi verið.

Allt annar bragur á fólkinu.
Fermingardagurinn væri í algerri þoku, nema vegna þeirra mynda sem til eru og sem Gústi (Gústaf Sæland) mágur minn og þá tiltölulega nýbakaður faðir, tók. Gústi tók ekki bara myndirnar, hann sá einnig um hárgreiðsluna. Þarna var bítlatískan ekki búin að ná neinni festu hér í uppsveitum. Ennþá réðu þeir Elvis Prestley og Cliff Richards hártísku ungra karlmanna og Gústi kunni sannarlega á slíkri greiðslu lagið, enda sjálfur ávallt vandlega greiddur með  góðum skammti af briljantíni.  Það var þannig greiðsla sem ég fékk, en myndirnar sýna hana glögglega.  Ekki man ég hvort það var á undan eða eftir þessum tím sem menn greiddu í píku, eins og það kallaðist, en þannig greiðslu fékk ég ekki hjá Gústa.

Ég er viss um að einhver fermingarsystkina minna muna eftir athöfninni sjálfri, fyrir hana og eftir. Ég man ekkert um þann tíma, annaðhvort var ég í einhverju losti af streitu, eða ekkert sérstakt gerðist.  Jú, ég man að ég gekk fyrstur á eftir sr. Guðmundi inn í kirkjuna, úr Biskupshúsinu, en þar bjuggu prestshjónin þá, og síðastur út, eftir að skírnin hafði verið staðfest með pomp og prakt, móður minni án efa til mikillar gleði. Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að faðir minn hafi ekki sýnt af sér jafn mikinn áhuga á tilstandinu, en hann lék með, eins og góðum eiginmanni sæmir.

Þetta var nú aðeins
veraldlegt líka.
Svo var það veislan, og allir þessir venjulegu fermingagestir. Það voru fermingargjafirnar, það var veislukaffið, með glæsilegri rjómatertu. (mér hefur alltaf þótt rjómaterta með betra bakkelsi).
Ég lék, kófsveittur á orgelið og fékk klapp og hrós í kjölfarið. Mér fannst ég aldrei ná góðum tökum á þessu spiliríi, kannski vegna þess að ég var frekar latur við æfingar.

Stolt systranna, Sigrúnar og Ástu, leynir sér ekki.
Já, ekki veit eg annað en þetta hafi verið ágætis dagur, þó þarna hafi ég verið í einhverskonar miðpunkti, sem ég var og er allajafna heldur lítið fyrir.

Svo hélt lífið áfram og um haustið hófst samskiptasaga mín við Laugarvatn í Laugardal, sem hefur staðið síðan, með litlum hléum.

Þennan dag, 14. maí, 1967, hvítasunnudag, staðfestu þessi ungmenni skírn sína í Skálholtsdómkirkju:
Einar Jörundur Jóhannsson frá Ljósalandi
Geirþrúður Sighvatsdóttir frá Miðhúsum (Þrúða í Miðhúsum)
Gunnar Sverrisson frá Hrosshaga  (Gunni í Hrosshaga)
Loftur Jónasson frá Kjóastöðum  (Loftur á Kjó)
Magnús Kristinsson frá Austurhlíð (Maggi í Austurhlíð)
Páll Magnús Skúlason frá Hveratúni  (ég)
Pétur Ármann Hjaltason frá Laugargerði (Pési)
Ragnhildur Þórarinsdóttir frá Spóastöðum (Ragnhildur á Spó(astöðum))
Sigurður Þórarinsson  Reykholti (Silli)
Þorsteinn Þórarinsson frá Fellskoti (Steini í Fellskoti).

Sex okkar búa enn í Biskupstungum - geri aðrir árgangar betur.

Fjölskyldan í Hveratúni með tvær nýjar viðbætur, Skúla Sæland
og Agnar Örn Arason.


16 janúar, 2017

Masterclassmaðurinn, ég.

Ég var nú ekki búinn að vera lengi í kór þegar kórstjórinn (ætli það hafi ekki bara verið Glúmur Gylfason) lagði á það áherslu og söngfólkið syngi með opnn munninn. Þetta tileinkaði ég mér strax, en komst auðvitað fljótlega að því, að það er hreint ekki viðtekin venja að opna með þessum hætti fyrr það undrahljóðfæri sem mannskepnan býr yfir. Þetta uppgötvaði ég eiginlega fyrsta sinni þegar ég sá mynd af kórnum sem ég syng í, fyrir allmörgum árum. Þar var greinilega verið að syngja einhvern opinn sérhljóða, t.d. A,  Á þessari mynd var ég sá eini sem opnaði aldeilis upp á gátt og hleypti (væntanlega undrafagurri) tenórröddinni út til áheyrenda. Þar sem ég hef engan sérstakan áhuga á að standa  allt of mikið út úr, hef ég lengi stefnt að því að freista þess að aðlaga opnun míns munns öðrum munnum, en það bara hreinlega gleymist yfirleitt í hita leiksins. Þetta er svona eins og með að læra að hjóla, þú getur eiginlega ekki aflært það.
Ég reyni auðvitað að halda í réttlætinguna fyrir nálgun minni með því að bera saman hljómgæðin sem koma annarsvegar úr mínum munni og hinsvegar úr munni annarra kórfélaga. Þennan samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér þeim óhemju mun sem er á hátalara í farsíma og alvöru græju, sem getur "blastað" silfurtærum tóni í hvaða styrkleika sem er.

Ég læt frekari greiningu á þessu eiga sig, en hún er til komin vegna þess að á samfélagsmiðlum hafa verið að birtast myndir þar sem ég læta vaða við hliðina á heimsfrægum söngvara, honum Paul Phoenix (frb. /fíniks/), sem gerði garðinn frægan með  "The King's Singers", söng í þeim hópi í ein 17 ár, allt til 2014. Hann rekur nú eigið fyrirtæki þar sem hann ferðast um heiminn og heldur námskeið, svokallað "Masterclass" með sönghópum af ýmsu tagi.

Um helgina sem nú er nýliðin var ég,sem sagt á Masterclass námskeiði hjá þessum fræga manni, ásamt mínum kór og þrem öðrum sönghópum. Þarna bættist í reynslubankann, en það sem einkenndi mjög nálgun nafna að verkefninu var, að hann hrósaði heil ósköp, en laumaði síðan með athugasemdum um það sem betur mætti fara. Það er manninum eðlislægt að taka til sín fremur hinar neikvæðu athugasemdir en þær jákvæðu. Ég hef ákveðið, eftir þessa helgi, að hlusta bara á þær jákvæðu, enda tel ég að þær séu að mestu tilkomnar vegna framgöngu minnar.  Ég þykist vita að þessi niðurstaða mín muni ekki falla í frjóan jarðveg hjá öðrum kórfélögum, svo ég dreg hana umsvifalaust til baka.  Kórinn hlýtur allur að taka til sín það jákvæða sem nafni sagði, en einnig ábendingarnar um það sem betur má fara. Þó nú væri!

Nú er bara framundan að vinna úr reynslunni og heita því að gera enn betur. Í mínum huga er það mikilvægasta sem vinna þarf í tvennt: meiri agi og meiri metnaður. Maður á aldrei að sætta sig við að vera kominn á einhvern stað og vera síðan bara ánægður með að vera þar. Það er alltaf pláss fyrir meira og hærra.

Þessi helgi var ánægjuleg og mér fannst gott að fá svona utanaðkomandi aðila til að segja okkur hvað væri gott og hvað megi bæta.

Hér fyrir neðan er tvær þeirra mynda ég nefndi hér efst. Þarna syng ég með "King's Singers" manninum. Augsýnilega afar einbeittur og geri umtalsvert meira úr sérhljóðanum sem sunginn er, en meira að segja hann. Kannski er rétt að loka munninum áður en það er um seinan.
Deiling: Pálína Vagnsdóttir, Veirunum

Deiling: Sigrún Elfa Reynisdóttir, Skálholtskórnum

Masterclass með Paul Phoenix í Seltjarnarneskirkju, 
13.-15. janúar, 2017
Skálholtskórinn
Veirurnar
Góðir grannar
Kvartettinn Barbari

Nokkrar myndir:







25 desember, 2016

Sópraninum krossbrá

Messur eru nú yfirleitt þess eðlis að fátt kemur á óvart. Það stefndi í eina slíka á þessum degi í Skálholti, nema ef til vill að því leyti, að nokkrum mínútum fyrir upphaf messunnar lá fyrir hvað sálmar eða verk yrðu sungin, en þannig er það bara.
Svo hófst messan, reyndar ekki alveg eins og til stóð, en kór og kirkjugestir fengu fyrirmæli um að ganga í kringum jötu sem komið hefur verið fyrir í kirkjunni í tilefni jólanna og syngja á meðan öll fjögur erindi sálmsins "Nóttin var sú ágæt ein". Látum vera, þetta var, eins og maður segir öðruvísi, þó fD hafi haft um það orð eftir á.
Að þessu búnu hófst síðan messan samkvæmt því ritúali sem finna má í bók séra Bjarna sem kallast "Messa á jólum". Allt eins og við var búist.
Þá kom að prédikun.
Prédikanir eru þannig í Skálholti, að kórinn heyrir allajafna vart orðaskil fyrir glymjanda og það var ekkert óvenjulegt við það. Í stað þess að lyftast í andanum undir kraftmikilli prédikun var sett í hvíldargírinn þar til kæmi að sálmi eftir prédikun.
Þetta fór nú talsvert á annan veg þessu sinni; byrjaði allt svo sem venja er til, en skyndilega, þegar nokkuð var á liðið prédikunina "blöstuðu" tenórarnir þrír vísunni "Fjármenn hrepptu fögnuð þann"  af slíkum krafti, að hárið á saklausum sópraninum bærðist, en hvort það var vegna kraftsins í ténórunum, eða skelfingarefans sem heltók þær, skal ekki fullyrt. Það hefði verið gaman að sitja í kirkjunni sem gestur og sjá hvernig andlitsdrættir þeirra endurspegluðu líðanina.
Til útskýringar á þessari mikilfenglegu innkomu tenórsins í miðja prédikum, skal geta þess, að tveim mínútum fyrir messubyrjun kom presturinn að máli við einn tenórinn og fól honum og hans mönnum að bresta í söng  á tilteknum stað í prédikuninni, svo sem lýst er hér að ofan. Sá sem tók við fyrirmælum prestsins leiddi síðan félaga sína tvo í allan sannleik um hvað til stæði, í þann mund er messa hófst með kraftmiklu orglespili.
Sópranarnir flettu í huganum í gegnum gögn um framgang messunnar og fundu innkomunni í prédikunina engan stað. Þegar tenórarnir stukku síðan aftur inn á tilteknum stað með annað erindi úr sama sálmi, varð ljóst að allur ketill sóprananna hafði fallið í eld og það mátti greina vantrúar- og uppgjafar fas í titrandi hárinu, sem var þeð eina sem tenórarnir, heldur sperrtir í glæsileik sínum, gátu nýtt til að meta innibyrgð viðbrögðin í sætaröðinni fyrir framan.

Það var síðan þegar síðustu tónar orgelsins hljóðnuðu í lok messunnar, sem flóðgáttir brustu. Allt sem sópranana hafði langað að segja var þá sagt og meira að segja á kjarnyrtri íslensku. Sumir héldu áfram að tjá sig um það sem gerst hafði, langleiðina heim.

Hver var svo að tala um að messur væru fyrirsjáanlegar?

14 nóvember, 2016

Dyngjan og athvarfið

Drungavaldandi regn undanfarinna vikna hefur engan veginn náð að slá Kvisthyltinga út af laginu. Listin er að verða búin að grípa stóran hluta þessarar Laugarásfjölskyldu heljartökum, þannig að daglegt líf snýst um að kanna þau mörk sem hún setur þessum ofurprúða hópi.
Eftir að fD tók sig til og sýndi afurðir sínar á þessu sviði fyrir nokkru, hefur hún æ meir horfið inn í dyngju sína, þar sem leirfígúrur eru hannaðar, mótaðar og málaðar. Við og við kíkir hún fram að talar um að fara út að ganga eða skjótast á Selfoss til að setja vetrardekkin undir. 
Þessi hendir burt andleysinu og hnoðar sama texta fyrir innansveitarblaðið, kemur því síðan frá sér upp á drævið. Hann tekur svo óvæntar syrpur á EOS-inn, smellir og smellir og gerir síðan tilraunir með útkomuna með dularfullum tölvuforritum, sem oftar en ekki hlýða ekk því sem þeim er ætlað að gera. 

Í aðdraganda aðventu sameinast þessi tvö í því að raða nótum í möppur, vita ekkert hvenær næsta æfing er, eða með hverjum, sem vissulega skapar gundvöll til hástemmdra umræðna um tilgang þessa alls. Þau líta svo að á tvo viðburðir á tónlistarsviðinu á næstunni beri hæst og séu mikilvægastir: útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi þann 26. nóvember þar sem frumburðurinn fylgir glænýjum hljómdiski sínum, sem kallast 'Leiðsla', úr hlaði og síðan árlegir aðventu- eða jólatónleikar í Skálholti þann 9. desember, þar sem ofangreindur frumburður og sunnlenskur eðalsópran leiða gesti inn í jólaskapið með aðstoð okkar sem erum búin að vera að flokka nótur og ruglast á æfingum, sem eru einhverntíma, einhversstaðar með einhverjum.

Við ætlum fyrir utan þessa tvo viðburði, að vera virkir þátttakendur í tónleikum á Laugalandi í Rangárþingi ytra þann fyrsta desember og Skálholti þann 3. desember, með rangæskum ágætis kór. 

Þessi hefur haft það á orði, að það sé eins gott að hann er farinn að minnka við sig. 

Málaralist, ljósmyndlist, ritlist og sönglist veita öllum litum regnbogans inn í drunga regnvotra vikna. 


29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

21 ágúst, 2016

Reynir Sævarsson og Skálholt 1974-5

Reynir Sævarsson (mynd: Kaja og Sævar)
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk í Laugarási, lést í Kaupmannahöfn að morgni 13. ágúst s.l. eftir erfið veikindi. Reynir fæddist 1959 og var því á 58. aldursári. Eftir að hafa gengið í Reykholtsskóla, lokið 9. bekk (Miðskóladeild) í Lýðháskólanum í Skálholti og stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, lá leið Reynis fyrst til Noregs þar sem hann vann eitt sumar við trjáfellingar. Hann nam síðan kvikmyndagerð um tíma, en lærði síðan frönsku í dönskum háskóla. Árangur hans í því námi leiddi til þess að franska ríkið bauð honum að stunda frönskunám í Frakklandi í eitt ár. Í kjölfar þess hóf hann þátttöku í hjálparstarfi á vegum Rauða krossins og ferðaðist um allan heim, en hann bjó sér heimili í Kaupmannahöfn. Árið 2002 veiktist hann alvarlega og varð þar með að gefa frekari starfaþátttöku upp á bátinn.
Kynni mín af Reyni stóðu nú svo sem ekki lengi, eða veturinn 1974-75, þegar hann var í  fyrsta nemendahópnum sem ég kenndi. Ég held að fyrsti nemendahópur hvers kennara hljóti að verða sá eftirminnilegasti og maður hlustar eftir því sem maður fréttir af þeim hópi síðan.
Í minningunni fór ekkert sérstaklega mikið fyrir Reyni. Hann var þarna að braska í gegnum táningsárin, eins og bekkjarfélagarnir. Hann var ljúfur nemandi, tranaði sér ekki fram, var jafnvel feiminn, en féll vel í hópinn, var góður námsmaður og sinnti sínu vel.
Foreldrar Reynis eru þau Karítas Óskarsdóttir og Sævar Magnússon. sem byggðu Heiðmörk. Börn þeirra urðu fjögur: Ómar, Reynir, Þór og Jóna Dísa (Sigurjóna Valdís).  Þór lést með sviplegum hætti árið 1993, svo ljóst má vera að mikið hefur verið lagt á heiðurshjónin Kaju og Sævar og systkinin.

Við andlát Reynis  hefur hugurinn reikað til vetursins í Skálholti, fyrir 42 árum. Margt er þar í móðu auðvitað, en þetta var ágætur vetur og ég á örugglega eftir að gera meira úr honum þótt síðar verði.

*********
Í Skálholti 1975: Þarna er afar góð vinkona okkar æ síðan,
Guðrún Ingólfsdóttir með okkur á mynd.
Þegar ég lauk stúdentsprófi frá ML vorið 1974 þurfti ég að gera upp við mig hvað ég ætlaði að gera til að skapa mér möguleika til framtíðar. Ég var ekki tilbúinn að skella mér beint í framhaldsnám, og það varð úr, að sr. Heimir Steinsson, þá rektor Lýðháskólans í Skálholti, tók áhættuna á því að  ráða mig, nýstúdentinn, til starfa. Þáverandi unnusta mín og síðar eiginkona, Dröfn Þorvaldsdóttir fékk einnig starf í mötuneyti skólans þennan vetur.

Vissulega var kennsla eitt þeirra starfa sem til greina komu hjá mér og ég taldi, að með því að kenna í Skálholti einn vetur myndi ég átta mig á hvort þessi starfsvettvangur gæti hentað mér.


Í Lýðháskólanum þennan vetur voru um 24 lýðháskólanemar, en einnig hafði skólinn tekið að sér að sjá um kennslu nemenda 9. bekkjar, en þeir Tungnamenn hefðu að öðrum kosti þurft að fara í Héraðsskólann á Laugarvatni og einhver(jir) tók(u) reyndar þann kost.  Það voru 14 nemendur í 9. bekk þennan vetur, 12 "Tungnamenn" og 2 sem höfðu tengsl við sveitina, en sem áttu fjölskyldur annarsstaðar. Þetta voru þær Svala Hjaltadóttir, sem mig minnir að hafi verið í skólanum í gegnum Ásakot, líklegast systurdóttir Vigdísar, þó ég þori ekki að fullyrða það, og Ásbjörg Þórhallsdóttir, systir Dóru, konu sr. Heimis.
Aðrir nemendur í bekknum voru þessir:
Atli V. Harðarson frá Lyngási.
Birgir Haraldsson frá Höfða.
Eiríkur Már Georgsson frá S-Reykjum þá, en síðar Vesturbyggð í Laugarási.
Grímur Þór Grétarsson frá S.Reykjum.
Guðmundur Hárlaugsson frá Hlíðartúni.
Guðmundur B. Sigurðsson frá Heiði.
Guðrún Sverrisdóttir frá Ösp.
Hallveig Ragnarsdóttir frá Ásakoti.
Inga Birna Bragadóttir frá Vatnsleysu.
Jón Ingi Gíslason frá Kjarnholtum.
María Sigurjónsdóttir frá Vegatungu.
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk.

Það er ákveðin eldskírn að kenna í fyrsta sinn, ekki síst þegar maður er aðeins 5 árum eldri en nemendurnir. Þessum bekk kenndi ég ensku og fyrirmyndir mínar við þá iðju hlutu að verða þeir Benedikt Sigvaldason, sem var skólastjóri og enskukennari í Héraðsskólanum á Laugarvatni og Björn Ingi Finsen, sem var enskukennarinn minn í ML. Ég hugsa að ég hafi frekar nýtt aðferðir Björns Inga, enda hafði ég ekki í mér ýmislegt það sem einkenndi kennsluaðferðir eða kennsluhætti Benedikts.
Ég kenndi Lýðháskólanemendunum auðvitað einnig, ensku og frönsku. Þeir voru enn nær mér í aldri og sumir jafnaldrar.

Samstarfsfólkið var hið ágætasta. Sr. Heimir var einstaklega hæfur í starfi. Hann hafði kynnst lýðháskólahugmyndinni  þegar hann kenndi við danskan lýðháskóla í þrjú ár áður en hann var ráðinn til starfa í Skálholti.  Dóra hélt utan um mötuneytisreksturinn, en annað starfsfólk var það sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Fimm úr þessum hópi eru nú látin, en við hin höldum áfram að eldast, svona rétt eins og gerist.

Í sem stystu máli má segja að þessi fyrsta reynsla mín af kennslu hafi orðið til þess að ég ákvað að nema ensku og uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Kennslan varð síðan ævistarf mitt.


Bestu þakkir færi ég Jónu Dísu fyrir upplýsingar um lífshlaup bróður hennar.

16 maí, 2016

Karlaraddir / Männerstimmen

Það sem hér fer á eftir verður til í framhaldi af aldeilis ágætum tónleikum sem ég fór á í gær í Skálholtskirkju.  Þar var kominn karlakór frá Sviss, Männerstimmen Basel, margverðlaunaður og sigldur. Hann var búinn að vera á landinu um tíma og tók m.a. þátt í miklu karlakóramóti í Hörpu.
Ég skildi þarna hversvegna þessi kór hefur verið hlaðinn verðlaunum og ég er viss um að hann hann getur kennt íslenskum karlakórum og kórum yfirleitt, margt, ekki aðeins að því er varðar sönginn sjálfan, heldur ekki síður framgöngu alla. Þessi kór umkringdi áheyrendur þannig að hljómurinn endurómaði og varð nánast yfirjarðneskur á köflum. Hefðir sem við erum vön, voru brotnar eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar sem sjórnandinn tók sér, til dæmis, stöðu í fyrir framan altarið og kórinn snéri "öfugt".  
Það sem ég var einna hrifnastur af við framgöngu þess kórs var tvennt, fyrir utan auðvitað afar vandaðan/fágaðan sönginn. 
Annarsvegar fannst mér styrkleikabreytingar áhrifamiklar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlusta á 25 karlaraddir syngja svo veikt að eyrað nær varla að nema, en nemur samt. Ég hef löngum fengið það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að því meiri sem söngstyrkur sé í karlakórsöng, því flottara og því karlmannlegra. Það kann að vera að hefðbundin karlakóralög kalli á mikinn styrk og jafnvel samkeppni innan radda og milli radda um hver getur gefið frá sér mestu hljóðin. 
Hinsvegar var ég hrifinn af aganum. Stjórnandinn var íklæddur kjólfötum, alger andstæða söngvaranna, sem voru næstum í "lederhosen" með axlaböndum. Hann hafði fullkomna stjórn  á sínum mönnum, ein lítil bending og kórinn skipti fumlaust um uppstillingu fyrir næsta lag. 

Efnisskráin var af ýmsum toga, kirkjuleg og veraldleg, allt krefjandi og skemmtilega framreitt. Ég missti þó af, líklega einu áhrifamesta laginu, sem mér heyrðist að fjallaði um ein stærstu mál nútímans, flóttamenn og hryðjuverkaógn, Svei mér ef ég heyrði ekki skothvell, þar sem ég var að fikra mig niður úr  "Þorláksstúku?" (skömm að því að vera ekki viss um heitið á stúkunni fyrir ofan innganginn) eftir myndatökutilraun. Þegar ég var síðan kominn niður vildi ég ekki opna dyrnar inn í kirkjuna til að ná í það minnsta hluta að verkinu.  

Þess var getið sérstaklega á dreifildi um kórinn, að meðal annars væri hann styrktur af einhverjum bjórframleiðanda, og væri duglegur við að innbyrða framleiðsluna, enda þarna á ferð karlmenn á besta bjórneyslualdri, 18 til 32 ára.


Það var ákveðin rælni sem olli því að við, heimaverandi Kvisthyltingar, skelltum okkur á þessa tónleika. Við sáum auðvitað ekki eftir að hafa látið verða af því. 
  

28 mars, 2016

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...