Þetta er framhald af þessum pistli.
Það er aðrir færari en ég til að reikna út hver þörfin er fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu, en Ríkisendurskoðun vann skýrslu um þessi mál 2012 og þar kemur fram að fjölda dvalarrýma á Suðurlandi fækkaði um 43% á milli áranna 2006 og 2011. Það blasir síðan við að öldruðum mun fjölga mjög á næstu árum. Þetta er orðið áhyggjuefni, ekki síst hjá fólki á mínum aldri, tilheyrandi einhverri fjölmennustu kynslóð sem gist hefur þessa jörð: barnasprengukynslóðinni eftir seinni heimsstyrjöld.
Hvað um það, eins og fram kom hjá mér í fyrsta hluta þessara skrifa þá voru íbúar í uppsveitum, sem voru 70 ára og eldri þann fyrsta janúar í fyrra, 294. Á Suðurlandi öllu voru 2011 41.5 dvalarrými á hverja 1000 aldraða (67 ára og eldri). Þá hafði dvalarrýmum fækkað um 43% á 5 árum, en íbúum sem voru 67 ára eða eldri hafði fjölgað um 16% á sama tíma.
Ég ætla ekkert að rökstyðja það frekar, en mér sýnist mikil þörf vera á að byggja upp dvalarheimili fyrir aldraða, í einhverri mynd á þessu svæði okkar. Verkefni af þessu tagi þarf að fara að ræða af fullri alvöru, en mér vitanlega hafa umræður um stofnun af þessu tagi ekki verið fyrirferðarmikil allt frá því horfið var frá íbúðunum sem til stóð að byggja í Laugarási fyrir um 20 árum.
Það er sjálfsagt ýmislegt sem stendur í veginum fyrir því að samfélag sem telur tæplega 3000 íbúa treystir sér ekki til að ráðast í verkið. Ég ætla að vona að stærsta ástæðan sé tregða af hálfu ríkisins, en ég hef séð (bygging hjúkrunarheimilis í Kópavogi 2010) að hlutur ríkisins í byggingakostnaði sé 85% en hlutur viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga 15%.
Ef ástæður fyrir því að ekki er unnið að þessum málum er áhugaleysi meðal sveitarfélaganna í uppsveitum þá er það eitthvað sem mikilvægt er að vinna í.
Ég hef fullan skilning á því, að hvert sveitarfélaganna fjögurra í uppsveitum fyrir sig, vilji helst fá dvalar og hjúkrunarheimili sem næst sér, á Flúðum, í Brautarholti eða Árnesi, á Borg eða á Laugarvatni eða í Reykholti. Það verður hinsvegar að byrja á því að meta hvort slíkt er mögulegt. Augljóslega væri það ekki svo, nema eitthvert sveitarfélaganna hreinlega næði verkefninu til sín á meðan hin fengju það ekki.
Það er aðeins einn staður í uppsveitum sem ætti að geta verið nauðsynleg málamiðlun, en það er Laugarás og ástæður þess eru þessar helstar:
a. Sveitarfélögin eiga Laugarásjörðina saman.
b. Heilsugæslustöð fyrir uppsveitirnar er í Laugarási.
c. Það eru til góðar lóðir undir þessa starfsemi í Laugarási.
d. Frá þrem þorpum í uppsveitum er jafn langt í Laugarás, um það bil 25 km. Frá öðrum styttra.
Ef fólk er tilbúið að sættast á það, að besti kosturinn, dvalarrými fyrir aldraða í eigin þéttbýliskjarna, sé ekki raunhæfur, þá verður varla framhjá því litið að Laugarás er sá kostur sem næstur hlýtur að koma.
Ef mönnum (sveitarstjórnarmönnum og þeim sem um véla eða vilja hafa á þessu skoðanir) líst ekki á að byggja upp dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási, þá langar mig afskaplega mikið að heyra helstu ástæður fyrir því. Mér finnst alveg kominn tími til, með stórbættum samgöngum, að sveitarfélög í uppsveitum sameininst aftur um að tiltekin grunnþjónusta, sem hvert þeirra fyrir sig á erfitt með að standa undir, verði sett í Laugarás.
Auk þessa legg ég til að sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu sameinist. Það er löngu tímabært.