25 mars, 2016

Var það kannski valdarán?

Það er fjallað um siðferði, siðferðistilfinnningu, lög, formreglur og hitt og þetta í þeim dúr í kjölfar færslu konu nokkurrar á samfélagsmiðli fyrir nokkru. Sitt sýnist hverjum um þau mál og ég held að engum sem kíkir hingað inn blandist hugur um mína afstöðu.
Í kjölfar þess sem gerðist árið 2008 var þjóðin reið. Svo reið að hún ákvað að fela stjórn fyrrum flokkssystur minnar úr Þjóðvaka að freista þess að hreinsa til og reisa þjóðina úr rústum.
Það gekk  eins og það gekk.
Það kom nefnilega í ljós, að til þess að bjarga því sem bjargað varð þurfti að færa fórnir. Þegar þjóð þarf að færa fórnir verður hún reið og kennir um þeim sem leggja þá klafa sem fórnunum fylgja á hana, með réttu eða röngu. Svo var þjóðin líka reið út í þá, sem að hennar  mati ollu hruninu, en það var nú ekki alveg sátt um hverja þar var um að ræða.  Að stærstum hluta var þeim kennt um sem flugu hæst í bönkum landsins og stórfyrirtækjum. Þeir hafa síðan verið tíðir gestir í dómsölum og sumir hlotið fyrir viðunandi refsingar.
Sannarlega var á fyrstu árum eftir hrun einnig leitað að sökudólgum meðal stjórnmálaflokkanna og þar fundust þeir helst sem refsað var í kosningunum 2009.

Árin frá 2009-2013 tóku á, á stjórnarheimilinu og á Alþingi.
Á stjórnarheimilinu vegna þess að það er gömul saga og ný, að í svokallaða vinstri flokka velst fólk sem stendur fastar á hugsjónum sínum, en í þeim flokkum þar sem segl ráða vindi og hagsmunir skipta meira máli en hugsjónir.
Á Alþingi þar sem fyrrum hrunflokkar börðust með fordæmalausum hætti fyrir lífi sínu og tókst smám saman að sannfæra vel ríflega helming þjóðarinnar að þeir hefðu þær lausnir sem dygðu.  Þjóðin var, fjórum árum eftir hrun, að byrja að gleyma því sem gerst hafði í aðdraganda ársins 2008.

Það sem þjóðin var einna reiðust yfir, í kjölfar hrunsins, var hugmyndin um að fólkið sem hafði safnað að sér gífurlegum fjármunum á bólutímanum, hefði komið þeim undan fyrir hrun og léti síðan almenning í landinu um að greiða skuldirnar taka á sig skerðingarnar.  Eyjan Tortóla varð ein táknmynd þeirrar svívirðu sem hafði átt sér stað, og er það jafnvel enn.

"Ágætu kjósendur. Ég fullvissa ykkur um að ég hef þær lausnir sem munu leiða þjóðina aftur á braut hagsældar. Núverandi ríkisstjórn hefur skorið niður á öllum sviðum og það er kominn tími til að heimilin í landinu fái það sem þeim ber.  Vissulega er það svo, að við, fjölskyldan eigum miklar eignir á Tortóla, en það skiptir engu máli því það er fullkomlega löglegt og það er ekkert að því siðferðilega heldur.  Það er ekki síst þess vegna sem ég fullvissa ykkur um að ég mun leggja allt mitt í að heimilin í landinu fái risið úr þeim rústum, sem þau eru í eftir verk núverandi ríkisstjórnar".

Ef þetta hefði verið stefið í málflutningi núverandi "forsætisráðherra" í aðdraganda kosninganna 2013, velti ég því fyrir mér hver niðurstaðan hefði orðið.  Mér finnst það fullkomlega lögmætar vangaveltur.

Sögunni verður ekki breytt, en af henni eigum við að læra.  Ég er hinsvegar svo mikill svartsýnismaður, að ég reikna með, að á árinu sem í hönd fer muni það gerast sem veldur því að heimilin í landinu, svokölluð, muni áfram flykkja sér um grænbláan lit auðmanna, í þeirri von að fá að njóta fjármálasnilli þeirra.




22 mars, 2016

Þar sem ljósið nær ekki að skína

Öll eigum við hliðar sem við kjósum að vera ekkert að halda á lofti út á við. Það er mjög eðlilegt, enda erum við bara mannleg.  Þau hlutverk sem við tökum að okkur í lífinu kalla á að við nýtum þann styrk sem við búum yfir, hæfileikar okkar til að leika hlutverk okkar eru stundum miklir, stundum minni.  Flest reynum við að leika eins vel og geta okkar leyfir, hvort sem við störfum á eigin vegum eða hljótum umbun fyrir frá þeim sem við störfum fyrir. Hvernig sem það er, þá skiljum við alltaf hluta af okkur eftir, þar sem ljósið ekki skín. Við viljum geta ákveðið hvað við höfum bara fyrir okkur.  Fyrir lang flesta er þetta fullkomlega eðlilegt. Það getur enginn krafið okkur um að sýna þá þætti lífs okkar sem koma hlutverki okkar ekki við.

Þau eru mörg og margvísleg, hlutverkin og krefjast mis mikils. 

Fólk býður sig fram til að starfa í þágu almennings. Það býður fram krafta sína í þágu íbúa sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar allrar.  Við slíkar aðstæður, ekki síst eftir það sem gerðist haustið 2008, spyrjum við hvað þar liggur að baki. Við viljum að það fólk sem býður fram krafta sína geri okkur grein fyrir bakgrunni sínum og forsendunum að baki framboðsins.  Sum okkar eru búin að læra að þær bakgrunnsupplýsingar sem við erum mötuð með og forsendurnar fyrir því að einstaklingar bjóða sig fram til almannaþjónustu, kunna að vera aðrar en þær sem upp eru gefnar. Við komumst að því þegar samfélagið riðaði til falls, að það er oft harla lítið að marka það sem gerist á yfirborðinu. Við áttuðum okkur á því að það var annað í gangi en okkur var sagt.

Þar með fauk traustið. En það leið ekki á löngu áður en upp reis fólk með ásjónur engla og kvaðst hafa allar lausninrnar fyrir íslenska þjóð og stór hluti þjóðarinnar þjáðu gleypti við boðskapnum.
Það er byrjað að falla á engilsásjónurnar. Sumum finnst að merki um að þær séu að umbreytast í guðlegar ásjónur,  öðrum finnst að smám saman, undir ódýrum leikhúsfarðanum sé að koma í ljós, smátt og smátt andlit spillingar, undirferli og dulins tilgangs.

"Skortur á gegnsæi leiðir til vantrausts
og djúpstæðs öryggisleysis".
Ég ber lítið traust  til þeirra afla sem nú stýra þessu landi og það er vissulega slæm tilfinning. Ég les fullt af orðum, ég heyri endalaust orðaflóð, en á þessum tímum eru orð ódýr. Fólkið sem við kusum til að leiða okkur, virðist hafa tileinkað sér þá aðferð að segja bara eitthvað á þeirri forsendu að eitthvað sé nógu gott, nú eða segja bara hreint ekki neitt, hugsandi sem svo: "Það bíður sér til batnaðar".
Sannleikur, réttsýni, hugsjónir, mannúð, jafnrétti, virðing. Allt eru þetta hugtök sem eiga að vera þrungin merkingu, en eru léttvæg fundin þar sem þau leka eða renna, jafnvel frussast út úr munnum stjórnmálamanna meðan ljósið skín á þá og myndavélarnar eru í gangi.

Hvað gerist þegar ljósin slokkna eða þegar myndvélunum er beint annað?

Við þessar aðstæður myndast kjöraðstæður fyrir samsæriskenningar og ekki ætla ég mér að feta þá braut, þó margt komi upp í hugann. Eitt veit ég þó fyrir víst: þar sem ljósið ekki skín og þar sem myndvélarnar og hljóðnemarnir ná ekki til, þar heldur líf stjórnmálamanna eða annarra sem gegna háum embættum í opinberum stofnunum eða stórum fyrirtækjum sem þjóna almenningi, áfram. Hvað er þetta fólk að gera þá? Varla er það bara að kúra. Ekki leggst það í hýði.

Þetta er birtingarmynd vantraustsins í mínum huga.

Þessi stubbur er skrifaður undir áhrifum frá talsverðri reynslu af því að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi, kosningabaráttu forsetaframbjóðenda í landi hinna frjálsu og sjónvarpsþættinum "Spilaborg", sem RUV sýnir þessar vikurnar, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.







14 mars, 2016

Mánudagsflug

Mánudagar eru, að margra mati, erfiðastir daga vikunnar. Helginni lokið og framundan 5 vinnudagar. Með árunum hafa viðhorf mín til þessara daga vikunnar breyst smám saman þannig, að ég tel þá hvorki vera betri né verri en aðra daga. Ég hef öðlast heimspekilegra og yfivegaðra viðhorf til þeirra, sem annarra daga. Maður vaknar fyrir allar aldir, talsvert á undan pípinu í vekjaraklukkunni, situr og hugleiðir í núvitundarstíl um stund, athugar hvort eitthvað hafi borið til tíðinda í veröldinni, fær sér kaffisopa og aðra morgunhressingu. Kemur sér síðan af stað þannig að tilsettum tíma á vinnustaðnum verði náð.  
Einfalt og alltaf svipað. 
Allt í föstum skorðum.
Engin óvænt atvik sem raska því sem venja er til. 


Svona var það ekki í morgun.

Þetta byrjaði svosem nógu vel: vaknaður klukkutíma áður en vekjarinn næði að angra mig. Sinnti hefðbundnum morgunverkum. Lokaði útidyrum, Settist upp í Qashqai og ók af stað niður svellbunkann á heimreiðinni. Ekki gaf ég mér tíma, þar sem ég var að vanda mig við aksturinn á svellbunkanum, til að athuga hvort allt væri með felldu. Það var ekki fyrr en ég hafð ekið nokkur hundruð metra á alauðum aðalveginum, að mér varð litið á mælaborðið og varð ljóst að þar var ekki allt eins og vera skyldi. Rauð mynd af bílvél blasti við, einnig gult tákn sem sýndi skrensandi bíl og fleira sem þarna var ekki venjulega.  Að sjálfsögðu setti ég umsvifalaust spurningamerki við þetta allt saman; reiknaði með að þarna hlyti bara að vera um að ræða einhvern samslátt í tölvunni, en ákvað samt að snúa við. Það var engin ástæða til að taka neina áhættu. Það var annar bíll tilbúinn heima í hlaði.  Þar með snéri ég við og ók hem aftur, upp svellbunkann, og lagði Qashqai í hreiðrið sitt.  Á þessari stundu beindist hugsun mín og einbeiting fyrst og fremst að því sem gæti verið að Qashqai, hvernig best væri að leita lausna á því og hversu mikil fyrirhöfn það gæti verið.  Mitt í þessum hugsunum opnaði ég dyrnar og steig út.
Það var vinstri fóturinn sem kyssti klakabunkann fyrir utan og í þann mund sem hann var að taka til sín allan minn þunga, gerðist það sem auðvitað átti aldrei að gerast og sem skýringamyndin hér fyrir neðan lýsir nokkuð vel.

Ég vissi ekki fyrr til, í miðju hugsanaferlinu varðandi það hvað ég gæti gert í Qashqaimálum, en að ég tókst á loft og lá síðan kylliflatur á bakinu. Fyrsta hugsunin var hvort ég væri óbrotinn, og svarið við henni var strax jákvætt. Þarna þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af þvi hvort einhver hefði séð þessa óvirðulegu lendingu. Ég vissi að fD sat inni og kynnti sér fréttir morgunsins og gat því ekki hafa verið vitni.
Ég reis á fætur, fann svo sem ekki fyrir neinu sérstöku, og kom mér inn til að óska eftir láni á og síðan nálgast lykla að Yaris, sem beið þarna þess albúinn að flytja mig til vinnu, með góðfúslegu leyfi eigandans.

Hófst þar með önnur tilraun mín til að komast til vinnu á þessum mánudagsmorgni. Það voru engin óþægileg ljós í mælaborðinu á Yaris og ferðin niður svellbunkann gekk vel, enda vel negld dekk.

Þegar ég var búinn að aka nokkur hundruð metra fannst mér eitthvað vera undarlegt og renndi í huganum gegnum tékklistann. Niðurstðan leiddi mig að þeirri niðurstöðu að ég var ekki með gleraugun. Í kjölfarið lá beint við að álykta að án gleraugnanna væri til lítils að fara í vinnuna.
Þar með snéri ég við, án frekari málalenginga.
Á leiðinni til baka renndi ég í gegnum ýmsar hugsanir, sem flestar tengdust mögulegum afdrifum gleraugnanna. Mér þótti ljóst, að þau hefði ég misst þar sem ég lenti á bakinu á svellbunkanum. Mér fannst samt ótrúlegt að ég skyldi ekki hafa orðið var við þegar þau yfirgáfu andlit mitt. Hvar hefðu þau þá endað? Var ég kannski búinn að stíga á þau? Höfðu þau ef til vill flogið undir Yarisinn ég ég síðan keyrt yfir þau í annarri tilraun minni til að komast í vinnuna?

Heim komst ég aftur, upp svellbunkann, þrátt fyrir gleraugnaleysið. Lagði Yaris í nokkurri fjarlægð frá slysstaðnum og var næstum floginn á hausinn aftur þar sem ég steig út úr honum. Ég grandskoðaði vettvang slyssins, gleraugnalaus, en sá engin gleraugu þrátt fyrir umtalsverða leit. Fór síðan bara inn í hús, eftir að hafa ákveðið að bíða betri birtu til leitarinnar.

"Hver skyldi það nú vera sem vill ekki kaupa sér mannbrodda?"  Það var fD sem tók á  móti mér með rödd sem var þrungin vorkunnsemi.
"Ætli ég þurfi ekki að koma mér í garma og fara út að leita" hélt hún áfram. Treysti greinilega ekki sjón minni til þess arna. Kom sér í garma, setti upp Hagkaupagleraugun, dreif sig út og endaði á maganum á svellbunkanum hjá Qashqai.
"Þarna eru þau". Og viti menn undir miðjum bílnum mátti greina gleraugun og fD renndi sér á maganum nægilega langt til að hún næði þeim, ósködduðum.

Þar með hélt ég af stað í vinnuna þriðja sinni þennan mánudagsmorgun orðinn miklu nær því að trúa að forsjónina, sem líklega hafði valdið óhöppum morgunsins til að koma í veg fyrir að ég færi mér að voða einhversstaðar á leiðinni.

Afleiðingarnar? Jú, það er engu líkara en það sem rifjahylkið geymir hafi tognað eða gengið til. Ég var auðvitað óþreytandi í lýsingum mínum á ævintýrum morgunsins, á vinnustaðnum. Viðbrögðin þar voru misjöfn. Þau bestu sennilega þessi: "En er hjartað ekki enn á réttum stað?"

12 mars, 2016

Bönnum það bara

Í sannleika sagt veit ég ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við fregnum af því, að einhver, að öllum líkindum fulltrúi sveitarstjórnar Blaskógabyggðar, eftir að ákvörðun hafði verið tekin þar, er búinn að koma fyrir skilti í brennustæði við Brennuhól, þar sem Laugarásbúar hafa í fjölmörg ár hist á gamlárskvöld, til að njóta ylsins frá veglegum bálkestinum sem safnað hafði verið í allt árið. Þarna hafa Laugarásbúar einnig fengið að njóta skottertu í boði björgunarsveitarinnar og flugeldasýningarinnar í Reykholti í fjarskanum.

Það sem mér finnst mæla með því að banna losun við Brennuhól er aðallega sú misnotkun á staðnum sem erfitt hefur verið að sporna við.
Það er til fólk sem lifir fyrir sig í núinu. Þetta fólk skortir sýn á að verk þess kunna að hafa áhrif á líf/lífsgæði annarra, eða lætur sig það bara engu skipta. Það hefur brenglaða siðferðiskennd og ætti bara að skammast sín. Þetta er fólkið sem fór með ruslið sitt í brennustæðið við Brennuhól; gömul sófasett, eða eldhúsinnréttingar og jafnvel bara úrgang.
Mig grunar að þessi staða sé uppi nú vegna þessa fólks.

Ég tel hinsvegar, að það hefði átt að láta reyna á aðrar leiðir áður en gripið var til þess ráðs að setja þarna upp skilti sem bannar losun af af hvaða tagi sem er,  t.d. sakleysislegt skiltið sem búið var að koma þarna fyrir og sem flutti þessi skilaboð: Hér má einungis henda timbri, engu öðru, annars missum við brennuleyfið.

Það sem nú blasir við, ef við Laugarásbúar, svo hlýðnir og lítillátir sem við erum nú, þurfum að flytja allt timbur sem fellur til hjá okkur, aðallega vegna grisjunar, upp í Reykholt, en það er 12 km. spotti. Þar með þurfum við að eiga bíl með dráttarkúlu og viðeigandi kerru. Síðan þurfum við að fá eins og einn gám af timbri sendan úr Reykholti þegar áramót nálgast, ef við stöndum þá bara nokkuð í þessari áramótavitleysu á annað borð.

Það sem er kannski erfiðast að kyngja í þessu máli er samráðsleysið. Við vitum ekki einusinni hver setti þetta skilti þarna upp þó svo leiða megi líkur að því.

Það er líklega kominn tími til að við stofnum þorpsráð og kjósum okkur þorpshöfðingja til að sinna samskiptum við utanaðkomandi vald.  Ég er viss um að í skóginum leynist fólk sem er tilbúið að tala máli okkar út á við.


Til að fyrirbyggja misskilning, þá var það SA-hvassviðri á þessum degi, sem getur orðið vart við Brennuhól (þó ekki verði þess vart í þorpinu sjálfu), sem felldi bannskiltið. Ég viðurkenni hinsvegar, að ég reisti það ekki upp.

10 mars, 2016

Ég stend mig að því að......

Í Njáluferð í 1. bekk. Þarna fylgist ég með, auðvitað 
áhugasamur, fróðleik úr munni dr. Haralds Matthíassonar. 
Hvítu prjónahúfuna og lopapeysuna á ég móður minni
að þakka.
Þegar maður uppgötvar eitthvað í fari sínu sem var ekki talið eiga þar stað, bregst maður við með því að þegja um það, eða þá að maður lætur eðlið hafa sinn gang og tekur því jafnvel bara fagnandi.   
Fyrir nokkrum árum skaut því óvænt upp í huga mér, að það gæti verið gaman að taka saman upplýsingar um húsin og íbúana í Laugarási. Þarna var varla um meira en 70 ára sögu að ræða svo það ætti nú að vera hægt að ná utan um það.
Söfnun á þessum upplýsingum hefur staðið yfir síðan, svona í hjáverkum og mörgu er þar ólokið.

Önnur saga hefur orðið mér hugleikin með árunum, en hún tengist vinnustað mínum til næstum 30 ára. Þar hafa lengi verið til gamlar ljósmyndir af ýmsu tagi og einnig fullur kassi af skyggnum (slædsmyndum /"slides" - en aðeins þeir sem  eru orðnir fullorðnir vita hvað það er).
Njáluferð 1971: Kristinn Kristmundsson sinnir fróðleiksþorsta
tveggja bekkjarfélaga minna, Eiríks Jónssonar frá Vorsabæ 
og Magnúsar Guðnasonar.
Við uppgötvun þessa vaknaði hjá mér áhugi á að koma þessum myndum í rafrænt form, og vista þær síðan þar sem ML-ingar á öllum tímum gætu notið þeirra og yljað sér við minningar frá löngu liðnum tíma.  
Skólinn og júbílantar hafa lagt fram fé til tækjakaupa vegna þessa og ég hef, þegar eyður myndast í daglegu amstri, lokað mig af í þar til ætluðu herbergi og skannað eða myndað myndirnar sem um er að ræða.  Þetta hefur gengið ágætlega og nú eru komnar um 800 myndir, flokkaðar og fínar að sérstakt vefsæði sem stofnað var til af þessu tilefni. Heilmikið bíður skönnunar og þá aðallega myndir sem Rannveig Pálsdóttir/Bubba tók stóran hluta þess tíma sem þau Kristinn Kristmundsson gistu Laugarvatn.
Njáluferð 1971: Þarna má sjá, auk vormanna Íslands,
dr. Harald og Björn Inga Finsen, enskukennara.
Það er ætlunin að þróa þessa hugmynd lengra og nú liggur fyrir að leita til júbílanta næstu 5 ára, biðja þá að kíkja í gömlu albúmin sín, velja skemmtilegar myndir frá Laugarvatnsárunum, merkja þær og gefa skólanum til vistunar á vefnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Áhugi minn á þessari myndvinnslu efldist til muna þegar ég fann nokkrar myndir frá mínum árum í ML frá 1970-74. Megi þær verða fleiri.

03 mars, 2016

Jákvætt eða neikvætt - kannski bara kvætt.

Þetta tengist línuritunum sem finna má neðar, en hefur
enga skírskotun til einhverrar skoðunar höfundar.
Ég fann þessi merki á netinu og tek enga
afstöðu til litanna
Börn eru alltaf að fæðast eins og hver einn veit. Algengast er að kyn þeirra við fæðingu sé annað hvort kvenkyn eða karlkyn. Það mæta litlar stúlkur og litlir piltar á svæðið, foreldrum sínum til mikillar gleði, í það minnsta ef það sem á undan fór fæðingunni var í samræmi við það sem almennt er talið rétt og eðlilegt.
Ástríkir foreldrarnir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að sá jarðvegur sem barnið þroskast síðan upp úr verði sem allra næringarríkastur og að ávestir ástar þeirra njóti besta mögulega atlætis.  Sumir birta meira að segja myndir af litlu krúsidúllunni á samfélagsmiðlum, væntanlega til að leyfa öðrum að njóta þessarar dásemdar með sér eða kannski til að fá eilítið hrós fyrir vel smíðaðan grip. Fljótlega fer hinsvegar ýmislegt að koma í ljós, jafnvel eitthvað sem öðruvísi en foreldrarnir bjuggust við; lífið sjálft eins og það birtist í hversdagsleik sínum, allar flækjur þess og hömlurnar sem unginn setur á ástfangna/ástríka foreldrana. Þeir þurfa að fara að neita sér um það sem sjálfsagt þótti áður og reynist það mis auðvelt. Þeir komast að því að barn er ekki bara krúsídúlla heldur einnig beisli, eða haft.

Svo er það þetta með kynið.
Hvað á nú að gera í því?
Má klæða unga stúlkubarnið í bleikan kjól, eða piltbarnið í bláar buxur?
Hvert á hlutverk móðurinnar að vera eða hlutverk föðurins?
Hvað á að ganga langt í því að láta stúlkuna leika sér með bíla eða piltana með brúður?
Stærsta spurningin er kannski: Hver er hinn raunverulegi munur á piltum og stúlkum?

Svo tekur samfélagið við, því foreldrarnir þurfa að afla tekna til heimilisins.
Fyrst er það leikskólinn. Þar mætir barninu móðurleg veröld.


Hefur leikskólagangan einhver varanleg, mismunandi áhrif á kynin? Hvar byrja þau að leita sér fyrirmynda? 
Allt í lagi með það. 
Við tekur grunnskólinn þar sem móðirin er enn allsráðandi. Móðirin verður alltaf kona, hvað sem við reynum að gera til að breyta því.
Í grunnskólanum má reikna með að kynin fari að pæla í hlutverkum hvors um sig. Það eru strákar og það eru stelpur. "Til hvers er það nú?", spyrja blessuð börnin og leita svara. 
Stelpurnar sjá fyrirmyndar konur allan daginn. Strákarnir sjá fyrirmyndarkonur allan daginn, sem segja þeim að vera stilltir eins og stelpurnar, kannski af því þær eru konur. Konur eru konur, en ekki karlar, nefnilega.  Strákarnir vita oftast af pabbanum, þeir sjá hann yfirleitt á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir  með pabba. Eiga jafnvel pabba sem er ekkert svo mikið í tölvunni þegar hann kemur heim úr vinnunni.  Strákarnir fara að velta fyrir sér hvað það er að vera karlmaður; átta sig á því að þeir muni verða svoleiðis. Hvar geta þeir fundið sýnishorn af þannig fyrirbæri. Jú, vissulega heima, á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir. Hvar annars?  Jú, í sjónvarpinu þar sem hetjurnar ríða um héruð og drepa mann og annan, kannski. Og í tölvunni þar sem er nú aldeilis úrval af ímyndum hinnar sönnu karlmennsku, ekki síst eftir að hvolpavitið er farið að beina  huganum inn á ýmsar framandi slóðir.

Eftir grunnskólann tekur við framhaldsskólinn. Þá ber aðeins nýrra við:


Það var ekki fyrr en skólaárið 2005-6 sem konur urðu fjölmennari en karlar við kennslu í framhaldsskólum. 
Maður skyldi ætla að þarna fái allir nauðsynlegar fyrirmyndir. Fyrirmyndar kvenkennara og fyrirmyndar karlkennara.  Ekki verður hér og nú, í þessum pistli á hálu svelli, gerð tilraun til að draga miklar ályktanir. Kannski má halda því fram að þegar komið sé á framhaldsskólastig sé of seint að kynna fyrir piltunum venjulega karlmenn, sem ekki eru hasarmyndahetjur, íþróttahetjur eða jafnvel klámstjörnur með þann búnað sem þær hafa.  Það kann meira að segja að vera svo, að grámóskulegir karlkennararnir í framhaldsskólunum, með einhverjar undarlegar hugmyndir um samskipti standist hreinlega ekki mál þegar leitað er að fyrirmynd í lífinu. Þær geta ekki verið svona! Þarna er mögulegt að vonbrigði piltanna verði mikil og þeir ákveði að þrátt fyrir fyrirmyndar kvenkennarana sé ekki líft innan veggja framhaldsskólans. Skýrir það mögulega að einhverju leyti umtalsvert meira brotthvarf pilta úr framhaldsskólum en stúlkna?

Hvað gerist síðan í sambandi við framhaldið, eftir að framhaldsskóla er lokið? Þá gerist þetta:


 Er mögulegt á finna í þessu samsvörun við eitthvert meint kvenlegt uppeldi og skort á eðlilegum fyrirmyndum pilta?

Ég leyfði mér einhverju sinni að nefna það sem möguleika, en slíkar hugmyndir voru slegnar fast út af borðinu með: Allar rannsóknir hafa sýnt að það breytir engu. Mig langar dálítið að sjá þær rannsóknir. Rannsóknir eru af ýmsum toga.

Ég kann að fjalla meira um þessi mál síðar. 


28 febrúar, 2016

Opnun fyrir mannkynslausnara

Ég hef ekki, alllengi, tjáð mig neitt um stjórnmál, en gerði talsvert af því fyrir einhverjum árum. Meginástæða þessarar þagnar minnar er tilgangsleysi þess að fjalla málefnalega um stjórnmál á þessu landi. Í skúmaskotum leynist fólkið sem hefur öll svörin og bíður færis að láta á sér kræla ef það telur sig finna færi á.

Ástæða þess að ég skelli hér nokkrum línum á blað um stjórnmál er ákveðinn ótti um að stjórnmálaaflið sem hefur notið mikils og vaxandi fylgis í skoðanakönnunum um langt skeið verði fórnarlamb fólksins í skúmaskotunum, sem ég hef kosið að kalla "mannkynslausnarana".  Flokkurinn sem um ræðir er fremur óskrifað blað og þar með berskjaldaður fyrir tilraunum til yfirtöku. Það vill svo til, að ég hef lítilsháttar reynslu af svona löguðu.

Þjóðvaki

Ég bendi þeim sem eru að lesa þetta og ekki vita neitt um þetta fyrirbæri, að gúgla bara. Þarna var um að ræða stjórnmálaafl sem kom fram  í aðdraganda þingkosninga 1995. Þetta var eiginlega flokkur sem var stofnaður af og í kringum Jóhönnu Sigurðardóttur og stærsti tilgangurinn með stofnun hans var að freista þess að búa til einhverskonar sameiningarafl vinstri manna, en ýmsum hefur orðið fótaskortur við slíkar tilraunir.
Þjóðvaki  mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent.

Á þessum tíma var ég einhvernveginn tilbúinn að taka þátt í stjórnmálastarfi og var mjög fylgjandi því að fólk sem skilgreindi sig á vinstri vængnum ætti að finna sér sameiginlegan farveg.  Þjóðvaki varð þarna til og vettvangurinn virtist sá rétti. Ég lét slag standa og fór að sækja fundi.  Ég var mikið barn á stjórnmálasviðinu, hélt að þar starfaði fólk af heilindum fyrir hugsjónum.  Ég var nokkuð fljótur að læra, að aðrir þættir og ógeðfelldari, voru jafnvel enn mikilvægari. 

Það var boðað til stofnfundar Þjóðvaka á Suðurlandi og þar var saman komið margt ágætis fólk, sem hafði heilbrigða sýn á það sem framundan var. Þar var líka fólk sem var komið til starfa á allt öðrum forsendum. Það kom nefnilega í ljós að X (nefni hann ekki þar sem persóna hans skiptir engu máli í því samhengi sem ég skrifa þetta) hafði eytt miklum tíma og fyrirhöfn í að ferðast vítt og breitt um Suðurland til að afla sér fylgismanna. Þeir reyndust síðan fjölmennir á fundinum. X hafði góðan talanda og virðist hafa öll svör á reiðum höndum og ég neita því ekki að mér fannst bara nokkuð til hans koma.  Það kom fljótlega í ljós, að það bjó annað undir hjá honum en baráttan fyrir sameiningu vinstri manna. Hann ætlaði sér forystuna með fulltingi stuðningsmanna sem hann hafði safnað um persónu sína fremur en málefnin sem flokkurinn átti að standa fyrir fyrir. 

Í hönd fóru fundir vítt og breitt um Suðurland. Þetta reyndust ekki vera neinir skemmtifundir og það rann upp fyrir okkur sem þarna höfðum komið bláeyg til leiks, að ef eitthvað ætti að verða úr þessu framboði, yrðum við að láta sverfa til stáls.  Sem við og gerðum, en auðvitað varð það til þess, að ágreiningurinn komst í fjölmiðla og þá var ekki að sökum að spyrja. Hér er umfjöllun í ónefndu dagblaði eftir afskaplega erfiðan og harðan fund:
2. mars, 1995:  
Tveir bítast um efsta sætið hjá Þjóðvaka í Suðurlandskjördæmi, Þorsteinn Hjartarson skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum og X. 
Á fundi Þjóðvaka sem haldinn var á Þingborg í Flóa á þriðjudagskvöld urðu átök um fyrsta sætið. Greidd voru atkvæði á fundinum um skipan tveggja efstu sætanna eftir orðaskipti milli fylkinga. Á fundinum var síðan samþykkt að talning færi ekki fram fyrr en eftir klukkan 19 á laugardag og að fram til þess tíma hefðu þeir félagar í Þjóðvaka á Suðurlandi sem ekki mættu á fundinn rétt til að greiða atkvæði um skipan efstu sætanna á listanum.
Fundurinn snerist upp í prófkjör
Fyrir fundinum lá tillaga um að Þorsteinn Hjartarson, Skeiðum, Ragnheiður Jónasdóttir, Hvolsvelli, og Hreiðar Hermannsson, Selfossi, skipuðu þrjú efstu sætin. Á fundinum kom fram tillaga um að Þorsteinn Hjartarson  skipaði fyrsta sætið og X, annað sætið. Fundurinn á Þingborg snérist því upp í prófkjör fram til laugardagskvölds um tvö efstu sætin á framboðslistanum.
Þorsteinn Hjartarson kvaðst mundu taka niðurstöðunni hver svo sem hún yrði. X hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að hann taki annað sæti á listanum fái hann ekki fyrsta sætið. Hann vísar til tilnefninga sem félagsmenn gerðu um fólk á listann. Hann hefði fengið mun fleiri tilnefningar en Þorsteinn og vill að farið sé eftir þeim.
Í mínum huga er þetta stærsta áskorunin sem blasir við þegar ný stjórnmálaöfl reyna að ná fótfestu. Þar sjá ýmsir tækifæri til persónulegs ávinnings og hugsjónirnar víkja fyrir vongóðum smákóngum sem langar að komast í valdastöðu.
7. apríl, 1995:Yfirlýsing frá 60 Sunnlendingum Hörð gagnrýni á forystu Þjóðvaka
Sextíu Sunnlendingar hafa undirritað yfirlýsingu til stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka, sem barst blaðinu í gær, þar sem forysta og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi eru harðlega gagnrýnd.
Í fréttatilkynningu, sem fylgdi yfirlýsingunni, segir m.a. að í tilefni þess, að undanfarna daga hafi umræða átt sér stað um framboðslista Þjóðvaka á Reykjanesi og víðar og að ritari flokksins hafi sagt að um einstakt óánægjutilvik sé að ræða, vilji 60 Sunnlendingar tilkynna að svo sé alls ekki. Gríðarleg óánægja hafi lengi verið með forystu og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi og mál þar þróast með þeim endemum að þeir sem undirriti yfirlýsinguna hafi kosið að nota þetta tækifæri til þess að segja skilið við flokkinn. Í yfirlýsingunni er meirihluti stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka sakaður um að hafa margbrotið lög félagsins og traðkað á lýðræðislegum réttindum félagsmanna.

Svo mörg voru þau orð. Daginn eftir voru síðan haldnar þingkosningar.

Því miður held ég, að þessi sömu örlög bíði Pírata í kosningum eftir rúmt ár ef forystumönnum þeirra tekst ekki að loka fyrir skúmaskotin og halda aftur af mannkynslausnurunum sem þau fylla.




Sæludagar í sandkassanum (3)

Framhald af þessu Þau fÁ og hS búa í hverfi í Dúbæ sem kallast   Sustainable city . Með því að smella á hlekkinn hér fyrir framan er hægt að...