Í kjölfar þess sem gerðist árið 2008 var þjóðin reið. Svo reið að hún ákvað að fela stjórn fyrrum flokkssystur minnar úr Þjóðvaka að freista þess að hreinsa til og reisa þjóðina úr rústum.
Það gekk eins og það gekk.
Það kom nefnilega í ljós, að til þess að bjarga því sem bjargað varð þurfti að færa fórnir. Þegar þjóð þarf að færa fórnir verður hún reið og kennir um þeim sem leggja þá klafa sem fórnunum fylgja á hana, með réttu eða röngu. Svo var þjóðin líka reið út í þá, sem að hennar mati ollu hruninu, en það var nú ekki alveg sátt um hverja þar var um að ræða. Að stærstum hluta var þeim kennt um sem flugu hæst í bönkum landsins og stórfyrirtækjum. Þeir hafa síðan verið tíðir gestir í dómsölum og sumir hlotið fyrir viðunandi refsingar.
Sannarlega var á fyrstu árum eftir hrun einnig leitað að sökudólgum meðal stjórnmálaflokkanna og þar fundust þeir helst sem refsað var í kosningunum 2009.
Árin frá 2009-2013 tóku á, á stjórnarheimilinu og á Alþingi.
Á stjórnarheimilinu vegna þess að það er gömul saga og ný, að í svokallaða vinstri flokka velst fólk sem stendur fastar á hugsjónum sínum, en í þeim flokkum þar sem segl ráða vindi og hagsmunir skipta meira máli en hugsjónir.
Á Alþingi þar sem fyrrum hrunflokkar börðust með fordæmalausum hætti fyrir lífi sínu og tókst smám saman að sannfæra vel ríflega helming þjóðarinnar að þeir hefðu þær lausnir sem dygðu. Þjóðin var, fjórum árum eftir hrun, að byrja að gleyma því sem gerst hafði í aðdraganda ársins 2008.
Það sem þjóðin var einna reiðust yfir, í kjölfar hrunsins, var hugmyndin um að fólkið sem hafði safnað að sér gífurlegum fjármunum á bólutímanum, hefði komið þeim undan fyrir hrun og léti síðan almenning í landinu um að greiða skuldirnar taka á sig skerðingarnar. Eyjan Tortóla varð ein táknmynd þeirrar svívirðu sem hafði átt sér stað, og er það jafnvel enn.
"Ágætu kjósendur. Ég fullvissa ykkur um að ég hef þær lausnir sem munu leiða þjóðina aftur á braut hagsældar. Núverandi ríkisstjórn hefur skorið niður á öllum sviðum og það er kominn tími til að heimilin í landinu fái það sem þeim ber. Vissulega er það svo, að við, fjölskyldan eigum miklar eignir á Tortóla, en það skiptir engu máli því það er fullkomlega löglegt og það er ekkert að því siðferðilega heldur. Það er ekki síst þess vegna sem ég fullvissa ykkur um að ég mun leggja allt mitt í að heimilin í landinu fái risið úr þeim rústum, sem þau eru í eftir verk núverandi ríkisstjórnar".
Ef þetta hefði verið stefið í málflutningi núverandi "forsætisráðherra" í aðdraganda kosninganna 2013, velti ég því fyrir mér hver niðurstaðan hefði orðið. Mér finnst það fullkomlega lögmætar vangaveltur.
Sögunni verður ekki breytt, en af henni eigum við að læra. Ég er hinsvegar svo mikill svartsýnismaður, að ég reikna með, að á árinu sem í hönd fer muni það gerast sem veldur því að heimilin í landinu, svokölluð, muni áfram flykkja sér um grænbláan lit auðmanna, í þeirri von að fá að njóta fjármálasnilli þeirra.