Framhald af þessu
Þau fÁ og hS búa í hverfi í Dúbæ sem kallast Sustainable city. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir framan er hægt að fá hugmynd um hvað þar er um að ræða. Fyrir þau ykkar sem ekki vita, þá er bein þýðing á nafni þessa hverfis "Sjálfbæra borgin", sem auðvitað þýðir að hverfið er beinlínis byggt með það í huga að innan marka þess sé sjálfbært samfélag. Ég hef nú reyndar átt í nokkrum vandræðum með það gegnum tíðina að skilja þetta hugtak "sjálfbær" fyllilega, en skil það í stórum dráttum þannig að sjálfbært svæði eða samfélag, sé mikið til sjálfu sér nægt og valdi ekki skaða á auðlindum og svo framvegis.
Sjálfbæra hverfið
Dúbæbúarnir sóttu okkur fimmenningana þarna á flugvöllinn í tveim bifreiðum sínum og fluttu okkur til síns heima aðfaranótt 22. október. Þarna var um að ræða um það bil hálftíma akstur, sem var langt umfram það sem ég hafði svo sem átt von á. Aðallega var það nú vegna þess að hugmyndir mínar um þetta furstadæmi komu ekki heim og saman við raunveruleikann, eins og hann birtist mér þessa nótt og dagana sem á eftir fylgdu. Það var margt sérstakt þarna, sem ég vonast til að geta varpað lítilsháttar ljósi á hér, þótt síðar verði.
Þetta er kannski tækifæri til að geta þess, að við ritun þessa texta, hyggst ég einbeita mér að upplifun minni, sem kann að víkja talsvert frá upplifun hinna ferðafélaganna, svo ekki sé nú talað um reynslu og þekkingu Dúbæbúanna á svæðinu. Þannig verður þetta bara að vera og vanþekking mín og mögulegir fordómar verða bara að fá að njóta sín.
Varðmaður í Sustainable city - myndin tekin af vefnum. |
Mér láðist nú að spyrja hvort svona væri staðið að málum í öllum hverfum þessarar borgar, en allavega komum við síðar í ferðinni inn í annað íbúðahverfi, sem varið var með þessum sama hætti. Mér skildist að stærstur hluti íbúanna í þessari sjálfbæru borg, væru útlendingar, mikið til komnir frá vesturlöndum.
Sustainable City - yfirlitsmynd og dæmigerð íbúð. Myndir af vefnum. |
Ekki fjölyrði ég um húsnæðið sem þarna beið okkar. Öll herbergin reyndust vera með baði og sér loftkælingu, þannig að aðbúnaðurinn var eins og hóteli með slatta af stjörnum.
Svo tók svefninn við og nokkur spenningur fyrir því sem byði morguninn eftir.
Mig grunar, að ef ég held svona áfram um það sem ferð fól í sér, muni úr verða helst til mikil langloka. Ég mun því reyna að draga úr orðaflóðinu eins og kostur reynist, í því sem fylgir. Það verður að láta á það reyna, hvort það tekst.
Skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir að fyrsti dagurinn færi í að hvíla sig eftir ferðalagið, enda engin unglömb þarna á ferð. Þetta var vel til fundið og tími gafst til að ná aðeins áttum og ræða stöðuna og framhaldið og mögulega fá sér smók.
Til að ferðast um innan hverfisins, hafa íbúar aðgang að rafmagns "buggy" bílum, eins konar skutlum, sem geta flutt 4 farþega. Íbúar hafa kort sem þeir geta notað til að nálgast ýmsa þjónustu innan hverfisisn, meðal annars til að virkja þessi farartæki og til að komast í sundlaugina. Leið okkar lá einmitt í sundlaugina á fyrsta degi okkar í Dúbæ, til að innbyrða D-vítamín, og/eða kalla fram sólaexem eða annað skemmtilegt. Þetta var ágætur dagur afslöppunar, og til að safna kröftum fyrir næsta dag, en hann kemur til skoðunar næst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli