11 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (4)

Þetta er framhald af þessu.

Kalífaturninn í arabíska furstadæminu Dubai er 829,9 metra hár. Hæðirnar eru 163 og spíran eft á honum er 12 metrar í þvermál. Þetta er hæsta mannvirki í heimi og hlaut þann heiður við opnun árið 2010. Næst hæsta byggingin í dag er Merdeka í Kuala Lumpur, sem var tekin í notkun 2023. Hún er ekki nema 679 metrar og hæðirnar 118. 
Turninn sérstaklega byggður til að vera hærri en fyrrverandi hæstu turnar heims: Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu. Þetta er, með öðrum orðum, algjör montturn. (fararheill.is)


Það má teljast rétt vera að um sé að ræða "montturn", en ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Hinsvegar munu hafa borist að því fregnir fyrir nokkru, að Kínverjar hygðust byggja hærra en Dúbæjar og það mun ekki verða látið óátalið, því teikningar liggja fyrir á turni sem gæti orðið 1.3 km á hæð.  Nenni ekki að pæla meira í því.

Burj Khalifa er alveg sæmileg bygging og fyrir sérstakt áhugafólk. set ég hér hæðina á honum inn á tvö kort, annað af Selfossi, en þar myndi turninn ná frá Bónustorginu að Pálmatréblokkunum.  Hitt er kort af Laugarási en þar myndi turninn ná frá Skúlagötu, eftir Skógargötu og Höfðavegi, langleiðina að Brennuhól.  

 

Turninn sigraður

Eftir hvíldardaginn var lagt af stað um hádegisbil sem leið lá að Dubai verslunarmiðstöðinni, sem er sannarlega risastór, ef ekki stærst í heimi, en hún er einmitt sambyggð Burj Khalifa. Það var fÁ sem flutti hópinn þangað í bílaumferð sem jaðrar við geðveiki, en ég mun koma nánar að henni síðar. Smátt og smátt fór að sjást meira til turnsins í mistrinu og ég tók fleiri myndir en ég hefði þurft, þar sem turninn breyttist lítið sem ekkert milli mynda. Þessar fjórar myndir hér fyrir neðan sýna fram á þetta.


Til að vera nú ekki að lengja þetta úr hófi, þá endaði þessi ferð í bílakjallara, skínandi hreinum og fínum, og þaðan lá leiðin upp í verslunarmiðstöðina, Dubai Mall. Auðvitað var þetta bara háborg kapítalismans í sinni tærustu mynd, en þar var einnig ógnarstórt fiskabúr, sem tekur 10 milljón lítra af vatni og stærðin er lengd: 51 m, breidd:20 m. og hæð:11 m. Í búrinu eru 140 tegundir sjávardýra, þar af einir 300 hákarlar.

 

Glerið í búrinu er 75 cm á þykkt og auðvitað það stærsta glerplata (panel) í heimi.

Í Dubai Mall
Það er líka foss í þessari miklu byggingu, en þrátt fyrir að við röltum vítt og breytt munum við ekki hafa náð að komast í nema í mesta lagi 10% af henni.
 Tilgangur okkar var sannarlega fyrst og fremst að renna upp turninn mikla, en til þess að komast þangað þurftum við að fara um þá glyshöll sem þessi verslunarmiðstöð er. Það var auðvitað búið að ganga frá miðakaupum fyrir okkur og því allt klárt.

Gangan í turninn hefst
Miðatékkun nálgast.
Ég hafði, meðan ég var enn hér á Fróni, verið að velta aðeins fyrir mér heimsókninni í turninn, reiknað með, að þetta yrði svona nánast einkaheimsókn okkar öldunganna þarna upp, en því reyndist aldeilis ekki að heilsa.
Þarna, rétt eins í á annatíma á Keflavíkurflugvelli, voru uppi mannfjöldastjórnunarbönd, sem sáu til þess að leiðin að turninum færi nú eftir settum reglum. Við vorum þarna eins og leikskólabörn með fÁ í hlutverki fóstrunnar (eldra og betra nafn en leikskólakennari). Hún hafði nefnilega keypt miða fyrir okkur á netinu og var því með miðana okkar í símanum sínum. Þar sem miðar voru tékkaðir af, þurfti hún að gera grein fyrir okkur og framvísa gögnum þar að lútandi, áður en hún sneri frá, enda hafði hún áður upplifað leyndardóma turnsins. 
Eftir að við vorum komin gegnum miðahliðið, tók við sprengjuleit, þar sem við þurftum að renna öllu okkar gegnum skanna eins og gerist á flugvöllum. Þar með vorum við komin inn og bara framundan að koma sér að lyftunum sem myndu flytja ökkur til himna og niður aftur, en frá því ferðalagi greini ég næst.

FRAMHALD síðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...