Beðið eftir lyftunni. |
Þar sem við fimmmenningarnir, héldum sem leið lá, að lyftunum upp í turninn mikla, hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, bar aðallega tvennt til tíðinda, fyrir utan það, að við vorum hreint ekki ein á ferð. Hið fyrra gerðist þegar við vorum búinn að ganga stillt og prúð í röð eftir gangi sem bar okkur áleiðis. Þá kom maður hlaupandi á eftir okkur og veifaði úri. Hann var að leita að eigandanum og eigandinn reyndist vera ég. Úrið hafði orðið eftir í bakka í öryggisleitinni. Ég var sannarlega þakklátur fyrir að öryggisvörðurinn hafi ákveðið að elta uppi úreiganda meðal mannfjöldans sem þarna fór í gegn.
Hitt sem gerðist á leið okkar varð þegar við nálguðumst lyfturnar. Þá stóð þar maður og bað fólk að sýna aðgöngumiða. Við sáum auðvitað fram á að þarna lyki ævintýrinu, þar sem fÁ var með alla miðana í símanum sínum og hún var hreint ekki með í för! Góð ráð voru dýr og þegar ég kom að þessum öryggisverði brá ég á það ráð að brosa blíðlega og útskýra í örfáum, vel völdum orðum, stöðu mála frá okkar hlið. Þetta virkaði án nokkurra vandræða.
Á leiðinni að lyftunum, sem var ansi löng, hafði verið komið fyrir sýningu á myndum, teikningum og líkönum, sem sýndu turninn á ýmsum byggingarstigum. Við vorum hinsvegar að drífa okkur og litum varla við öllum þeim fróðleik sem þarna var í boði. Svo komum við að lyftunum, en þær voru tvær og á stöðugri ferð upp og niður með ferðafólk. Þeir sem biðu niðri gátu varla leynt spenningi sínum, en þeir sem komu út úr lyftunni sem var að koma niður, sýndu engin merki þess að þeir hefðu upplifað eitthvert stórkostlegt ævintýri.
Þarna var okkur raðað fyrir framan lyfturnar og þar stóðum við eins og prúðum túristum sæmdi, þar til önnur lyftan var komin niður frá 124. hæð. Við þyrptumst inn í hana og spennan var áþreifanleg á leiðinni upp meðan arabískur sheik fjallaði um eitthvað tengt þessu mikla mannvirki.
Lyftan ferðast allra lyfta lengst, fer hraðar en nokkur önnur lyfta (36 km/klst). Það tók um 1 mínútu að komast upp þessar 124 hæðir.
Þarna upp tók svo við mikill fjöldi fólks í sömu erindagerðum og við. Það var varla hægt að finna lausan glugga til að taka myndir út um. Svo var allstór minjagripaverslun á þessari útsýnishæð. Sem sagt, þetta var all öðruvísi en ég hafði séð fyrir mér.
Það sem mér kom svo einna helst á óvart var, að við fystu sýn virtist eins og það væru bara varla nokkrar byggingar í kringum turninn; bara nokkrir turnar á stangli. Við nánari athugun kom auðvitað í ljós að ansi verklegar byggingar þarna niðri virtust varla rísa upp fyrir jafnsléttu. Þetta má sjá á myndunum sem hér fylgja, en þar er ég búinn að setja bláan ramma utan um hluta efri myndarinnar og stækka svo það sem er í bláa rammanum í þeirri neðri:
Þarna undum við okkur við að drekka í okkur útsýnið og ég var sérlega duglegur að bæta myndum inn á myndflöguna. Rykmistrið sá til þess, að sjáanlegur fjarski var ekkert svo fjarri. Það grillti í 7 stjörnu lúxushótelið Burj Al Arab, en ekki tókst mér að sjá til Palm Jumeirah. Að því búnu lá leiðin niður aftur, en ég læt hér fylgja nokkrar myndir úr þessum stóra turni. (Svo kemur aðeins meira fyrir neðan)
fA, fD og fS í Burj Khalifa |
Lyftubiðröð beið okkar þar sem við reyndum að komast niður og meintur áhrifavaldur, truflaði nokkuð ánægjuna af því að standa í biðröðinni. Það fór þó allt vel, þótt tvísýnt væri á tímabili og ég tók meira að segja áhrifavaldalega mynd til að krydda þetta aðeins.
Niður aftur
Fyrir framan turninn fundum við vökvunarstað og undum þar við umtalsverða gleði þar til okkar beið bókað borð á líbönskum veitingastað rétt hjá, með útsýni að turninum og tjörninni fyrir framan hann. Þar fór svo fram þekkt sýning með samspili vatns, ljóss og tónlistar, undir kvöldverðinum.
Einn þessara daga sem seint gleymist víst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli