09 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (2)

Framhald af þessu.

Fyrst aðeins um Dúbæ, sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem eru 7 að tölu. Þau eru, auk Dubai, Abu Dhabi, sem er langstærst að flatarmáli, Sharjah, Ajman, Umm Al Quwain, Ras Al Khairmah og Fujairah.  Höfuðborg þessara furstadæma er Abu Dhabi, en Dubai er þettbýlasta borgin og  einkonar alþjóðleg miðstöð á svæðinu með þennan feiknastóra alþjóðaflugvöll sem við áttum leið um. 
Olíuframleiðsla Dubai fer stöðugt minnkandi að sögn kunnugra og áherslan á ferðaiðnað eykst að sama skapi. Það eru stórar fyrirætlanir fyrir svæðið og markmiðið sett á að tvöfalda íbúafjöldann á næstu 10 árum, úr 4 milljónum í 8. Þetta sást glöggt á gríðarlegum byggingaframkvæmdum hvar sem drepið var niður fæti.  Meiri fróðleikur um ýmis skringilegheit í Dúbæ síðar.

Flugstöðin í Dúbæ

Þar sem við komum þarna úr flugvallarstrætó inn í flugstöðina, blasti við kona sem hélt á skilti með nöfnum okkar fimmmenninganna. Það var aldeilis ekki vegna þess að til stæði að hindra för okkar, skal ég segja ykkur. Ætli sé ekki rétt að útskýra þetta aðeins. 
Þannig var, að sögur höfðu borist af því til landsins bláa, að flugstöðvarbyggingin væri ógnarstór og fyrri gestir hefðu þurft að ganga á annan kílómetra til að komast þar á milli staða. Auðvitað stökk fD af þessum sökum, á upplýsingar frá Dúbæ um, að það væri hægt að panta fylgdarþjónustu frá flugvél að útgangi. Það hafði sem sagt verið gengið frá því, að hS pantaði þjónustu af þessu tagi fyrir tengdaforeldra sína og okkur hin. Það skildist okkur, að með því móti myndi bíða okkar rafmagnsknúinn kaggi, sem myndi síðan flytja okkur sem leið lá gegnum vegabréfaeftirlit og töskumóttöku.

Konunni með skiltið fylgdi enginn rafmagnskaggi, heldur benti hún okkur á að fylgja sér að stærðar lyftu, sem flutti okkur á næstu hæð fyrir neðan (eða ofan - hvað veit ég). Þegar úr lyfunni kom blasti við mikið kraðak af fólki sem beið þess að komast í gegnum vegabréfaeftirlit. Fylgdarkonan fór hinsvegar með okkur í gegnum sérstakt hlið, sem lá beint að borði, þar sem hvítklæddur landamæravörður tók ljúflega á móti okkur, skoðaði vegabréfin og tók af okkur andlitsmyndir.  Lítið mál það. 

Þessu næst leiddi konan okkur áfram inn gríðarstóran sal og þar bættist henni liðsauki, karlmaður, sem þýddi að við vorum komin með tvær fylgdarmanneskjur. Þau fóru með okkur að töskufæribandinu og sögðu okkur að setjast niður og bíða meðan þau fyndu töskurnar okkar. Ekki neita ég því, að mér fannst nú ekkert sérlega þægilegt að sitja þarna og fylgjast með ókunnugu fólk leita að töskunum okkar, sem við vissum hvernig litu út og hefðum því haft minna fyrir að finna. Fylgdarfólkið var búið skönnum sem það notaði við að þefa uppi töskurnar.

Fylgdarfólk leitar að töskum, Dúbæfarar slappa af.

Hátt til lofts og vítt til veggja
Töskurnar fundust, að sjálfsögðu og þá var bara að koma sér út með farangurinn. Auðvitað sá fylgdarfólkið um töskurnar, en við fylgdum, eins og fínt fólk, sem við vorum auðvitað.  Gangan reyndist enginn kílómetri, svo það hefði verið harla ankannalegt að keyra þessan spotta í rafmagnsrútu. 
Fljótlega komum við að þar sem fólk beið til að taka á móti flugfarþegum og meðal þess voru Dúbæingarnir, fÁ og hS, sem ætluðu að vera gestgjafar okkar næstu 10 daga, eða svo.  Þau voru auðvitað á tveim bílum, ekki dugði nú minna. Svo var haldið frá flugstöðinni að áfangastað, sem reyndist miklu lengra í burtu en ég hafð ímyndað mér. Reyndar var bara allt miklu stærra en ég hafði ímyndað mér, ef út í það væri nú farið.

Fyrir utan það að hitinn sem skall á okkur þegar við stigum úr flugvélinni var rúmlega 30°C, þá var mistur í lofti, sem okkur var tjáð að væri einskonar blanda af  sandryki frá eyðimörkinni og einhverskonar raka í lofti.  

Svo fór nú, eins og reikna mátti með, að síðasta legg ferðarinnar lauk á heimili Dúbæinganna þegar nokkuð var liðið á nótt.  Þau búa í borgarhverfi sem er all sérstakt, svo ekki sé meira sagt, en frá því segir næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (6)

Framhald af þessu Þennan þátt tileinka ég því sem flokkast undir ýmis skringilegheit í Dúbæ, sem þýðir, að þar er um að ræða eitthvað sem ég...