31 janúar, 2011

Laugaras.is

Ég hef engar áhyggjur af því að aldurinn sé hugsanlega eitthvað farinn að hafa áhrif á það sem ég hugsa eða segi. Hverju ætti það svo sem að breyta?
Ég stend mig að því að vera farinn að hugsa dálítið öðruvísi en áður. Í því sambandi vil ég nefna hugmynd sem er búin að vera að brjótast í mér í nokkurn tíma, en sem hefur ekki komist lengra en það enn sem komið er.

Það var fyrir 30 árum (1980) sem gefin var út mikil ritröð undir heitinu Sunnlenskar byggðir. Síðar var, allavega að einhverjum hluta, gefin út uppfærð útgáfa þar sem ég fékk sess, sem kennari í Reykholtsskóla. 
Það var ráðist í þessa útgáfu í tilefni af 70 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands. Arnór Karlsson, heitinn, hafði umsjón með ritun kaflans um Biskupstungur. Í þessu riti er umfjöllun um hvert einasta býli: stærð, sögu, landshætti, byggingar, fasteignamat og ábúendur.

Það er skemmst frá því að segja að þetta er hið merkasta verk og er oft notað til að afla upplýsinga um fólk, aðallega. Eiginlega ómetanlegt. Stundum er þetta kallað 'glæpamannatalið' í hálfkæringi í mínu umhverfi.

Nú jæja. Búnaðarsamband Suðurlands varð 100 ára 2008. Ekki veit ég hvað var gert til að minnast áfangans.

Mér fyndist það ekki ósniðug hugmynd, að sambandið tæki sig til og setti upp vef þar sem sömu upplýsingar væri að finna, uppfærðar til dagsins í dag. Gífurleg vinna, já, en auðveldari uppfærsla á upplýsingum en að endurtútgefa bækurnar. Skyldi efni bókanna vera til í tölvutæku formi? Fremur ólíklegt, reyndar.

Þegar ég byrjaði að skrifa þennan pistil var hugsunin ekki svona stór - náði bara til Laugaráss. Mig hefur nokkuð lengi langað til að ráðast í uppfærslu á þeim kafla sem snýr að sögu þessa merka staðar.  Mér sýnist að það þyrfti ekki að vera óyfirstíganlegt verkefni, þarf vissulega tíma og grúsk, traustur grunnur hefur verið lagður með Sunnlenskum byggðum

Það er allt í lagi að velta hlutunum fyrir sér.

30 janúar, 2011

Trúarleg afskipti (2)

Síðast þegar ég tæpti á þessu málefni, þann 12. september á síðasta ári, lét ég að því liggja, að ef til vill yrði framhald á. Framhaldið hefur látið á sér standa af ýmsum ástæðum, en nú hyggst ég gera tilraun til að gera grein fyrir sýn minni á aðkomu mína að málefnum Skálholtsstaðar frá þeim tíma.

Þar sem ég er ekkert sérlega minnugur á menn og tíma, hlýtur það sem ég skrái hér og sem vísar til einstakra tilvika, tíma, eða manna, að verða nokkuð ónákvæmt, en það skiptir nú ekki öllu máli.

Glúmur Gylfason
Hér hóf ég kennslu við Reykholtsskóla haustið 1979, og smám saman hóf ég að kynnast samfélaginu aftur. Hafði verið fjarverandi í 4 ár. Það liðu einhver ár áður en að því kom að mér datt í hug að hefja þátttöku í starfi Skálholtskórsins, en þá stjórnaði Glúmur Gylfason honum. Hann var þó þarna til bráðbirgða, að mig minnir - man ekki hve lengi ég var þarna undir hans stjórn.
dr. Róbert Abraham Ottósson
Ólafur Sigurjónsson
Að koma inn í svona gróinn kór, reyndist mér nú ekkert auðvelt, en ég haði áður tekið þátt í kórstarfi, m.a. með Árnesingakórnum í Reykjavík og vissi út á hvað þetta gekk. Þar að auki hafði ég lært að spila lítillega á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni, sem var þá að læra til prests og sem ég held að starfi nú sem slíkur í Svíþjóð. Ég var nokkuð viss um að tenór væri sú rödd sem helst hentaði mér, en þar voru fyrir í kórnum, ekki minni söngvarar en Sigurður á Heiði og Bragi á Vatnsleysu, sem þá höfðu verið í kórnum, undir stjórn Róberts Abrahams Ottósonar, frá því kórinn var stofnaður fyrir vígslu kirkjunnar árið 1963.
Örn Falkner
Ég man að það auðveldaði mér mjög að koma þarna inn í tenórinn með svo örugga og öfluga tenóra mér við hlið. Vissulega var ég ekki alltaf sáttur þegar til stóð að æfa einhvern sálm sem ég hafði aldrei komið nálægt og hinir reyndu kórfélagar tilkynntu: "Við kunnum þetta. Alveg óþarfi að vera að æfa það eitthvað". Mér fannst ég nú samt vera furðu fljótur að aðlagast þessu umhverfi, og fannst þetta skemmtilegur félagsskapur.
sr. Guðmundur Óli Ólafsson
Fljótlega hvarf Glúmur af vettvangi og í hans stað kom til skjalanna Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti. Mér líkaði ágætlega við hann sem stjórnanda, en það kom að því, af einhverjum ástæðum, að hans stjórnunartíð lauk. Það gerðist ekki með friði og spekt og það var þá sem kórinn leystist upp í einhvern tíma. Við þá "sprengingu" sem þarna varð hurfu margir þeirra sem höfðu myndað hryggjarstykkið í kórnum af vettvangi. Stofnfélagar, voru þá búnir að vera í kórnum í 20-30 ár. Hvað gerðist næst og hvernig er ég ekkert viss um. Ég man að það var haldið áfram eftir einhvern tíma. Þá vara ráðin ung kona til að stjórna, en ég man ómögulega hvað hún heitir. Þá var ráðinn til starfa annar ungur kórstjóri, Örn Falkner. Þarna fór einnig að tínast inn nýtt fólk.  Það var svo um það bil sem 10. áratugurinn hófst, þegar ég var í sóknarnefnd í Skálholti, sem að því koma að ráða nýjan organista að kirkjunni, á breiðari grunni en verið hafði. Hann skyldi hafa búsetu í Skálholti. Þáverandi sóknarprestur, sr. Guðmundur Óli Ólafsson, mælti eindregið með einum umsækjandanum og sagði um hann, að hann hefði aðeins einn galla, hann kynni ekki á klukku. Þessi umsækjandi var Hilmar Örn Agnarsson. Hann var að koma frá námi í Hamborg, hafði áður starfað um hríð við kórstjórn í Þorlákshöfn og verið meðlimur í hljómsveitinn "Þeyr". Þetta vissum við um manninn. Hann var ráðinn og flutti með fjölskyldu sinni, konu og tveim sonum í Skálholt.



Hér er gert hlé á þessari umfjöllun. Það kemur kannski meira síðar.

Mér þætti auðvitað vænt um, ef einhver sem er betur að sér í nöfnum fólks og ártölum, léti mig vita um það sem betur  má fara í þessum efnum, eða rétt væri að láta fylgja með.

27 janúar, 2011

Furðuskafi

"Ég fékk Arnald" sögðu menn. "Ég er að lesa Arnald" segja menn. "Ég er að lesa Arnald" segi ég. Það kom þannig til, að ég rakst á bók Arnaldar á náttborði fD og fór að lesa. Ég var búinn að heyra umfjöllun um bókina í Kiljunni, þar sem henni var hælt nokkuð og þess meðal annars getið, að nú færi hann aðrar leiðir með Erlend; austur á land á æskuslóðir hans þar sem hann gerði með einhverjum hætti upp við fortíð sína. Það kvæði við nýjan tón hjá Arnaldi þessu sinni og að hann væri að feta sig inn á svið alvöru bókmennta. Allt í lagi með það.
Síðustu allmörg kvöld er ég síðan búinn að vera að lesa Arnald. Þegar ég nálgaðist miðja bók og hann var lítið farinn að hugsa sér til hreyfings austur, byrjaði ég að velta fyrir mér hvernig söguþráðurinn sem ég var að lesa gæti leitt til þess að hann hyrfi frá líklegum glæpamálum í miðjum klíðum til að heimsækja æskuslóðirnar. Lesnum köflum fjölgaði jafnt og þétt án þess að fararsnið væri á Erlendi. Ég hugsaði með mér, að þetta hlyti að verða afar snörp og eftirminnileg ferð þegar að henni kæmi, úr því bókmenntafræðingarnir höfðu fjallað svo mikið um þann þátt sögunnar.

Svo varð það í gærkvöld, áður en ég hóf lestur, og átti eftir 11 blaðsíður, án þess að í sjónmáli væru miklir atburðir fyrir austan, að ég spurði fD upp úr eins manns hljóði: 
"Hvenær fer hann austur eiginlega?"
"Hver?"
"Nú, Erlendur."
"Hvaða Erlendur?"
"Erlendur þarna í Arnaldi."
"Hann fer ekkert austur."
"Fer ekkert austur. Bölvuð della. Það var fjallað um það í Kiljunni!"
"Já, en þar var verið að tala um nýjustu bókina - hún heitir Furðustrandir. Þú ert að lesa Harðskafa
Ég ætla ekki að segja frá því hvernig viðbrögð fD við þessu öllu voru  í framhaldinu.

Ég er hinsvegar hugsi.

Spor í mosa

"Hefur þú eitthvað verið á ferðinni fyrir utan stofugluggann?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu, þegar ég kom heim fyrir skömmu.
"Nei, ekki síðan ég tók niður fögru jólaljósin fyrir þrem vikum", svaraði ég með góðri samvisku, end ekkert að hlaupa í kringum húsið nema brýna nauðsyn beri til.
"Ertu alveg viss um að þú hafir ekkert verið þarna á ferðinni?"
"Já, það er er ég."
"Eða ertu ef til vill að gabba mig!?" (smá útúrdúr)

"Það hefur einhver verið á ferðinn fyrir utan gluggann. Sporin eru greinileg."
Það var orðið nánast alrökkvað þegar samtalið átti sér stað svo ekkert varð úr því að ég rannsakaði málið, enda ekki til vasaljós á heimilinu, eins og áður hefur komið fram. Það næsta sem gerðist var þetta, um það bil þegar gengnið var til náða:
"Ertu örugglega búinn að læsa öllu og loka öllum gluggum?"
"Já", fór síðan og lokaði því sem eftir var, en þar með var húsið nánast loftþétt og spurning um að lifa af nóttina vegna súrnefnisskorts. Á leið inn í draumaheim reikaði hugurinn til þeirra aðgerða sem ég myndi grípa til, kæmi til þess að ég vaknaði upp við að einhver væri að róta í eigum okkar og fjarlægja það verðmætasta. Það var enginn sími í svefnherberginu, en ég var ekki alveg nægilega ófsóknabrjálaður til að fara fram og ná í hann. Þá velti ég fyrir mér hvort það væri kannski rétt að athuga hvort fengist hafnaboltakylfa í höfuðstað Suðurlands - hvort ég ætti kannski að verða mér úti um slíkan grip til að geyma undir koddanum. Þá velti ég fyrir mér hvort ég ætti kannski að athuga hvort ég gæti fengið rafstuðbyssu á Amazon.com. Kannski væri bara rétt að fara alla leið og reyna að verða mér úti um, þó ekki væri nema kindabyssu til að hafa í náttborðinu. Þar með væri ég endanlega orðin ameríkaniseraður - einmitt það sem ég þrái svo mjög, eða þannig. Fleira datt mér í hug að ég gæti tekið mér fyrir hendur: notað samanbrotið ferðabarnarúmið til að berja á illmennunum.  Margt var hugsað áður en svefnhöfgin leiddi mig inn í heiminn þar sem greiðist úr flækjum dagsins.


Það var síðan í dag sem mér varð litið út um stofugluggann og viti menn, þarna mátti sjá nýleg spor niður stallana. Eins og í amerískum glæparannsóknaþætti seildist ég Í EOS-inn og smellti myndum af sporunum. Um mig fór ónotahrollur. Gat það verið raunverulegt, að einhverjir óvandaðir einstaklingar (kónar) væru að leita leiða til að komast hér inn til að ræna og rupla? Maður hefur svo sem séð fésbókarmyndir að undanförnu frá helsta spæjara í Laugarási, af dularfullum mönnum í bíl að taka myndir. Vissulega er þetta raunverulegt.


"Það verður bara að fá öryggiskerfi. Geturðu ekki fengið bróður þinn til að panta fyrir þig frá Kína?"

Þetta er staðan núna. Hvernig má það vera, að glæpalýður valsi hér um aldeilis óáreittur - um lítið, friðsælt þorp þar sem vökul augu eftirlitsmyndavéla vakta mögulegar aktursleiðir? 

Kannski er það bara byssan, (sem er)
best af öllu í heimi hér.

26 janúar, 2011

Tittlingaskítur eða feis

Skýring á fyrra orðinu getur verið eitthvað, svo lítið  eða ræfilslegt að það skiptir ekki máli. Væntanlega varð orðið til sem lýsing á úrgangi frá litlum fugli (t.d. snjótittlingi) 

Líklegasta merking síðara orðsins, sem er FACE með stafsetningu þess tungumáls sem það kemur úr, og er að öllum líkindum stytting á orðatakinu "In your face" og er útskýrð þannig: Marked by or done in a bold, defiant or aggressive manner. (flestar útskýringar á þessu enska slanguryrði eru þess eðlis að þær eiga ekki heima á svo virðulegri síðu sem hér er um að ræða).





Það var kosið til stjórnlagaþings. Kostaði náttúrulega helling. Fullt af fólki í framboði. Álag á þjóðina að velja fulltrúa (segir meira um þjóðina en margt annað, hve lítil þátttaka var í kosningunum - ég hef oft áður fjallað um þjóðina). Það fékkst niðurstaða. Þjóðin kaus bara einhverjar manneskjur sem buðu sig fram, á eigin forsendum eftir því sem talið hefur verið. Það kvartaði enginn yfir að hafa ekki fengið að nýta sér kosningarétt sinn með eðlilegum hætti, eftir því sem ég best veit. Það hefur enginn sýnt fram á að þetta hafi ekki gengið fyrir sig eins og best verður á kosið, eftir því sem ég best veit. Það heyrðust engar deilur opinberlega um að brotið hefði verið á lýðræðislegum rétti þjóðarinnar til að greiða atkvæði í kosningum, eftir því sem ég best veit. Ekkert.

Þá gerist það að einstaklingar stíga fram. Ég veit svo sem ekkert um þá, eða hvað vakti fyrir þeim, eða hvort eitthvað meira lá að baki en einlæg virðing þeirra fyrir lögum. Þeir töldu að framkvæmdin hefði ekki verið í samræmi við lög og allir vita hvernig það fór: Hæstiréttur úrskurðaði kosningu til stjórnlagaþings ógilda.

Hæstiréttur komst að því að ágallar hefðu verið slíkir á ekki kæmi annað til greina en ógilding. Þau atriði sem greint er frá á vef RÚV (allra landsmanna) eru taldir fram hér fyrir neðan. Ég sem þátttakandi í kosningunum ætla hér að skauta stuttlega yfir miklvægi þessara annmarka eins og þeir blasa við mér:

1. kjörseðlar voru strikamerktir og tölumerktir og því afar auðvelt að rekja hver fyllti út hvern seðil
Ég fór nú bara þarna og kaus. Fékk afhentan efsta seðilinn úr bunkanum. Við borðið sat kjörstjórnarfólkið og merkti við mig í kjörskrá (eru þetta bara ekki persónunjósnir? Kemur einhverjum við að ég skuli greiða atkvæði?) Ég varð ekki var við að neinn þeirra dundaði sér við að tengja saman strikamerki og nafn mitt - hvaða hag gæti þetta fólk hugsanlega hafa haft af því að merkja mér seðilinn?  Það veit kannski einhver betur en ég. TS

2. bannað að brjóta kjörseðilinn saman
Þegar ég hafði fyllt út kjörseðilinn, með því að skrifa 22 fjögurra stafa tölur sneri ég honum á hvolf og stakk í rauf á kjörkassanum. Einfalt og þægilegt. Við kjörkassann stóð fulltrúi í kjörnefnd og leiðbeindi mér þannig að ég skyldi setja seðilinn í raufina með framhliðinni niður. Hann hafði ekki á sér sjáanlega, skriffæri, eða upptökutæki sem auðveldlega var hægt að greina. Hvað hefði hann svo sem átt að gera við talnarununa? TS

3. ekki var hægt að læsa kjörkössum og auðvelt var að taka þá í sundur og komast í atkvæði.
Það er nú nokkuð viðurkennt í nútímanum, að við þessar aðstæður sé innsigli jafngilt lás. Sé innsigli rofið á kjörkassa þá er það merki um að líklegt sé að búið sé að fara í kassann og eiga við atkvæðin, alveg með sama hætti og þegar kjörkassi með lás er brotinn upp. Ég átta mig engan veginn á muninum. Hvaða hag gæti einhver hugsanlega haft af því að eiga við einhvern kjörkassa með atkvæðaseðlum þar sem fimmhundruðogeitthvað manns er í kjöri? Ekki hef ég grænan grun um það. Einhver gæti kannski upplýst mig. TS

4. talningin ekki fram fyrir opnum tjöldum
Hvað þýðir nú þetta yfirleitt? Líklega það sama og þegar talin eru atkvæði í sveitarstjórnarkosningum í Bláskógabyggð: hver seðill tekinn  fyrir sig og formaður kjörstjórnar les hvar krossinn er og í framhaldinu fá fulltrúar þeirra sem eru í kjöri að ganga úr skugga um að rétt sé frá greint. Ég ætla ekki að byrja að lýsa talningu þar sem lesa þarf upp fjögurra stafa tölur frá einni og upp í 25 á hverjum einasta seðli. Einhver tilbúinn í slíkt? Hér var um að ræða rafræna úrvinnslu á atkvæðaseðlum - seðlunum rennt í gegnum skanna. Hverju, nákvæmlega hefði það breytt að draga tjöldin frá?  Horfa á dauða vél draga til sín og senda frá sér atkvæðaseðla? Fór yfirleitt einhver fram á það og fékk höfnun? TS

5. fulltrúar frambjóðenda fengu ekki að vera viðstaddir kosningarnar og talninguna
Ég verð nú nánast að segja að þetta finnist mér fyndin tilhugsun. Ég, Jón Jónsson, býð mig fram til stjórnlagaþings. Hvaða gagn gæti ég hugsanlega haft af því að koma fyrir fulltrúa mínum í öllum kjördeildum á landinu? Hvernig ætti ég að framkvæma slíkt yfirleitt? Hvað gæti hugsanlega verið með öðrum hætti í framkvæmdinni ef fimmhundruðogeitthvað fulltrúar frambjóðenda væri í hverri kjördeild? TS

6. sumum kjörstöðum verið notað pappaskilrúm í stað hefðbundinna kjörklefa, þar sem hægt var að sjá á kjörseðil kjósandans með því að standa fyrir aftan hann.
Setjum svo, að ég væri á kjörstað og gengi framhjá einhverjum sem væri að kjósa. Ég tæki mig til og gægðist yfir öxlina á honum (gæti nú varla staðið þar lengi án þess að hann tæki eftir því). Þarna myndi, til dæmis, blasa við mér talan 4363. Hvernig gæti ég hugsanlega hagnýtt mér þessar mikilvægu upplýsingar? Fjárkúgun? 
Á mínum kjörstað voru pappaskilrúm. Létt og þægilegt efni til þess arna. Eini gallinn væntanlega sá, að  kjósandi gæti tekið sig til og gert gat á pappaskilrúmið fyrir framan sig og til beggja hliða og þannig njósnað um þá sem þar voru að skrifa fjögurra stafa tölurnar sínar. Það er ekki ólíklegt, að þeir sem yrðu fyrir hnýsninni yrðu varir við þegar ég væri að útbúa gatið mikilvæga og í framhaldinu gerðu kjörstjórn viðvart um háttsemi mína.

---------------------------------

Feisarar segja sem svo, að rétt skuli vera rétt og auðvitað er það mikið rétt. Sannarlega má segja að það hafi verið mistök að tengja kosningar til stjórnlagaþings með einhverjum hætti við framkvæmd Alþingiskosninga. Þessar kosningar eru, eins og hver maður getur séð aldeilis ólíkar í eðli sínu: annars vegar eru pólitísk öfl að eigast við, en hinsvegar einstaklingar sem hafa ekki grun um hvert bakland þeirra er. Það er því, í mínum huga spurning um almenna skynsemi, að aðlaga framkvæmd kosninga eins og þeirra sem nú hafa verið dæmdar ógildar, að eðli þeirra og þeirri staðreynd, að það er margt breytt frá þeim tíma þegar ekki var til lím til að innsigla kassa, eða vélar til að telja atkvæði.

Það er gott að þurfa ekki að segja að maður sé sammála niðurstöðu Hæstaréttar, sem er í stöðu til að túlka eðli og inntak laga, þó þannig að í engu sé vikið frá anda þeirra. Ég er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar, kannski ekki síst vegna þess, að ég tel að úrskurður hans byggist á hreinum og tærum tittlingaskít, eins og ég hef fjallað um út frá sjálfum mér hér að ofan. Það held ég að megi einnig segja um þann hluta þjóðarinnar, oftnefndu, sem vill breytingar eða gagngera endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins.

Hverra hagur er það, að ekkert verði stjórnlagaþingið? Í þeirra ranni er að leita skýringa á þeirri stöðu sem nú er uppi.

Ég get auk þess sem að ofan hefur verið talið farið út í allskyns samsæriskenningar sem tengjast þessu öllu saman, en ætli ég láti bara ekki staðar numið hér.




25 janúar, 2011

Spennandi tímar


Janúar er nú oft fremur óaðlaðandi mánuður í mínum huga. Það er þó erfitt að kvarta yfir þessum. Stanslaus spenna, sveifla milli sigra og ósigra, bæði hér og nú, og í framtíð. Það lliggur við að maður viti ekki alveg hvernig maður á að vera.
Það helsta sem um er að ræða er eftirfarandi:

Spenna magnast í aðdraganda að vali víglubiskups í Skálholti. Margir kallaðir, að sögn, en hvaða sjónarmið munu ráða valinu? Hver ræður valinu, yfirleitt? 

Mikil tölvupóstabarátta um nafn stofnunarinnar sem ég vinn við stóð yfir um síðustu helgi. Stóð tæpt um tíma. Lá við að þátttakendur misstu svalann.

Íslenskt landslið sýnir svarthvítan leik sem fjöldi áhugasamra fær ekki að horfa á. 

Línur að skýrast í orrustunni um Ísland. Maður vissi nú svosem hvar víglínan er, en nú birtist hún þjóðinni smám saman, æ skýrar. 

Fræðslumál í Bláskógabyggð fá stöðugt meira vægi í nánasta umhverfi. Hvert skal stefna?

Beðið í ofvæni eftir því að símaþjónustufyrirtækið sendi fulltrúa sinn til að skipta um myndlykil (ætli 3ja vikna bið eftir svoleiðis sé eðlileg?)

Það liggur við að þessi mánuður sé of þrunginn spennu. Hann fer nú að hverfa í aldanna skaut. 
Skyldi hans verða minnst fyrir eitthvað sérstakt?

20 janúar, 2011

Live handball & RÚV


Svartsýnisraus mitt um að geta ekki horft á það sem ekki þarf að nefna, sljákkar hér með. Á 40" háskerpuskjá njótum við Kvisthyltinga leikjanna í gegnum tölvu frá vef sem heitir livehandball.tv og síðan á Rás2 þar sem lýsandinn er alveg eins og viljum hafa hann. Maður sem veiet hvað hann er að tala um og talar gott mál. Knattspyrnumenn eiga ekki að lýsa svonalöguðu að mínu mati. 

Ég ætla ekki að bæta við hástemmd lýsingarorð sem þjóðin lætur sér um munn fara þessa stundina, en tek undir þau í huganum.

Svo er haldið áfram......

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...