27 janúar, 2011

Spor í mosa

"Hefur þú eitthvað verið á ferðinni fyrir utan stofugluggann?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu, þegar ég kom heim fyrir skömmu.
"Nei, ekki síðan ég tók niður fögru jólaljósin fyrir þrem vikum", svaraði ég með góðri samvisku, end ekkert að hlaupa í kringum húsið nema brýna nauðsyn beri til.
"Ertu alveg viss um að þú hafir ekkert verið þarna á ferðinni?"
"Já, það er er ég."
"Eða ertu ef til vill að gabba mig!?" (smá útúrdúr)

"Það hefur einhver verið á ferðinn fyrir utan gluggann. Sporin eru greinileg."
Það var orðið nánast alrökkvað þegar samtalið átti sér stað svo ekkert varð úr því að ég rannsakaði málið, enda ekki til vasaljós á heimilinu, eins og áður hefur komið fram. Það næsta sem gerðist var þetta, um það bil þegar gengnið var til náða:
"Ertu örugglega búinn að læsa öllu og loka öllum gluggum?"
"Já", fór síðan og lokaði því sem eftir var, en þar með var húsið nánast loftþétt og spurning um að lifa af nóttina vegna súrnefnisskorts. Á leið inn í draumaheim reikaði hugurinn til þeirra aðgerða sem ég myndi grípa til, kæmi til þess að ég vaknaði upp við að einhver væri að róta í eigum okkar og fjarlægja það verðmætasta. Það var enginn sími í svefnherberginu, en ég var ekki alveg nægilega ófsóknabrjálaður til að fara fram og ná í hann. Þá velti ég fyrir mér hvort það væri kannski rétt að athuga hvort fengist hafnaboltakylfa í höfuðstað Suðurlands - hvort ég ætti kannski að verða mér úti um slíkan grip til að geyma undir koddanum. Þá velti ég fyrir mér hvort ég ætti kannski að athuga hvort ég gæti fengið rafstuðbyssu á Amazon.com. Kannski væri bara rétt að fara alla leið og reyna að verða mér úti um, þó ekki væri nema kindabyssu til að hafa í náttborðinu. Þar með væri ég endanlega orðin ameríkaniseraður - einmitt það sem ég þrái svo mjög, eða þannig. Fleira datt mér í hug að ég gæti tekið mér fyrir hendur: notað samanbrotið ferðabarnarúmið til að berja á illmennunum.  Margt var hugsað áður en svefnhöfgin leiddi mig inn í heiminn þar sem greiðist úr flækjum dagsins.


Það var síðan í dag sem mér varð litið út um stofugluggann og viti menn, þarna mátti sjá nýleg spor niður stallana. Eins og í amerískum glæparannsóknaþætti seildist ég Í EOS-inn og smellti myndum af sporunum. Um mig fór ónotahrollur. Gat það verið raunverulegt, að einhverjir óvandaðir einstaklingar (kónar) væru að leita leiða til að komast hér inn til að ræna og rupla? Maður hefur svo sem séð fésbókarmyndir að undanförnu frá helsta spæjara í Laugarási, af dularfullum mönnum í bíl að taka myndir. Vissulega er þetta raunverulegt.


"Það verður bara að fá öryggiskerfi. Geturðu ekki fengið bróður þinn til að panta fyrir þig frá Kína?"

Þetta er staðan núna. Hvernig má það vera, að glæpalýður valsi hér um aldeilis óáreittur - um lítið, friðsælt þorp þar sem vökul augu eftirlitsmyndavéla vakta mögulegar aktursleiðir? 

Kannski er það bara byssan, (sem er)
best af öllu í heimi hér.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...