26 janúar, 2011

Tittlingaskítur eða feis

Skýring á fyrra orðinu getur verið eitthvað, svo lítið  eða ræfilslegt að það skiptir ekki máli. Væntanlega varð orðið til sem lýsing á úrgangi frá litlum fugli (t.d. snjótittlingi) 

Líklegasta merking síðara orðsins, sem er FACE með stafsetningu þess tungumáls sem það kemur úr, og er að öllum líkindum stytting á orðatakinu "In your face" og er útskýrð þannig: Marked by or done in a bold, defiant or aggressive manner. (flestar útskýringar á þessu enska slanguryrði eru þess eðlis að þær eiga ekki heima á svo virðulegri síðu sem hér er um að ræða).





Það var kosið til stjórnlagaþings. Kostaði náttúrulega helling. Fullt af fólki í framboði. Álag á þjóðina að velja fulltrúa (segir meira um þjóðina en margt annað, hve lítil þátttaka var í kosningunum - ég hef oft áður fjallað um þjóðina). Það fékkst niðurstaða. Þjóðin kaus bara einhverjar manneskjur sem buðu sig fram, á eigin forsendum eftir því sem talið hefur verið. Það kvartaði enginn yfir að hafa ekki fengið að nýta sér kosningarétt sinn með eðlilegum hætti, eftir því sem ég best veit. Það hefur enginn sýnt fram á að þetta hafi ekki gengið fyrir sig eins og best verður á kosið, eftir því sem ég best veit. Það heyrðust engar deilur opinberlega um að brotið hefði verið á lýðræðislegum rétti þjóðarinnar til að greiða atkvæði í kosningum, eftir því sem ég best veit. Ekkert.

Þá gerist það að einstaklingar stíga fram. Ég veit svo sem ekkert um þá, eða hvað vakti fyrir þeim, eða hvort eitthvað meira lá að baki en einlæg virðing þeirra fyrir lögum. Þeir töldu að framkvæmdin hefði ekki verið í samræmi við lög og allir vita hvernig það fór: Hæstiréttur úrskurðaði kosningu til stjórnlagaþings ógilda.

Hæstiréttur komst að því að ágallar hefðu verið slíkir á ekki kæmi annað til greina en ógilding. Þau atriði sem greint er frá á vef RÚV (allra landsmanna) eru taldir fram hér fyrir neðan. Ég sem þátttakandi í kosningunum ætla hér að skauta stuttlega yfir miklvægi þessara annmarka eins og þeir blasa við mér:

1. kjörseðlar voru strikamerktir og tölumerktir og því afar auðvelt að rekja hver fyllti út hvern seðil
Ég fór nú bara þarna og kaus. Fékk afhentan efsta seðilinn úr bunkanum. Við borðið sat kjörstjórnarfólkið og merkti við mig í kjörskrá (eru þetta bara ekki persónunjósnir? Kemur einhverjum við að ég skuli greiða atkvæði?) Ég varð ekki var við að neinn þeirra dundaði sér við að tengja saman strikamerki og nafn mitt - hvaða hag gæti þetta fólk hugsanlega hafa haft af því að merkja mér seðilinn?  Það veit kannski einhver betur en ég. TS

2. bannað að brjóta kjörseðilinn saman
Þegar ég hafði fyllt út kjörseðilinn, með því að skrifa 22 fjögurra stafa tölur sneri ég honum á hvolf og stakk í rauf á kjörkassanum. Einfalt og þægilegt. Við kjörkassann stóð fulltrúi í kjörnefnd og leiðbeindi mér þannig að ég skyldi setja seðilinn í raufina með framhliðinni niður. Hann hafði ekki á sér sjáanlega, skriffæri, eða upptökutæki sem auðveldlega var hægt að greina. Hvað hefði hann svo sem átt að gera við talnarununa? TS

3. ekki var hægt að læsa kjörkössum og auðvelt var að taka þá í sundur og komast í atkvæði.
Það er nú nokkuð viðurkennt í nútímanum, að við þessar aðstæður sé innsigli jafngilt lás. Sé innsigli rofið á kjörkassa þá er það merki um að líklegt sé að búið sé að fara í kassann og eiga við atkvæðin, alveg með sama hætti og þegar kjörkassi með lás er brotinn upp. Ég átta mig engan veginn á muninum. Hvaða hag gæti einhver hugsanlega haft af því að eiga við einhvern kjörkassa með atkvæðaseðlum þar sem fimmhundruðogeitthvað manns er í kjöri? Ekki hef ég grænan grun um það. Einhver gæti kannski upplýst mig. TS

4. talningin ekki fram fyrir opnum tjöldum
Hvað þýðir nú þetta yfirleitt? Líklega það sama og þegar talin eru atkvæði í sveitarstjórnarkosningum í Bláskógabyggð: hver seðill tekinn  fyrir sig og formaður kjörstjórnar les hvar krossinn er og í framhaldinu fá fulltrúar þeirra sem eru í kjöri að ganga úr skugga um að rétt sé frá greint. Ég ætla ekki að byrja að lýsa talningu þar sem lesa þarf upp fjögurra stafa tölur frá einni og upp í 25 á hverjum einasta seðli. Einhver tilbúinn í slíkt? Hér var um að ræða rafræna úrvinnslu á atkvæðaseðlum - seðlunum rennt í gegnum skanna. Hverju, nákvæmlega hefði það breytt að draga tjöldin frá?  Horfa á dauða vél draga til sín og senda frá sér atkvæðaseðla? Fór yfirleitt einhver fram á það og fékk höfnun? TS

5. fulltrúar frambjóðenda fengu ekki að vera viðstaddir kosningarnar og talninguna
Ég verð nú nánast að segja að þetta finnist mér fyndin tilhugsun. Ég, Jón Jónsson, býð mig fram til stjórnlagaþings. Hvaða gagn gæti ég hugsanlega haft af því að koma fyrir fulltrúa mínum í öllum kjördeildum á landinu? Hvernig ætti ég að framkvæma slíkt yfirleitt? Hvað gæti hugsanlega verið með öðrum hætti í framkvæmdinni ef fimmhundruðogeitthvað fulltrúar frambjóðenda væri í hverri kjördeild? TS

6. sumum kjörstöðum verið notað pappaskilrúm í stað hefðbundinna kjörklefa, þar sem hægt var að sjá á kjörseðil kjósandans með því að standa fyrir aftan hann.
Setjum svo, að ég væri á kjörstað og gengi framhjá einhverjum sem væri að kjósa. Ég tæki mig til og gægðist yfir öxlina á honum (gæti nú varla staðið þar lengi án þess að hann tæki eftir því). Þarna myndi, til dæmis, blasa við mér talan 4363. Hvernig gæti ég hugsanlega hagnýtt mér þessar mikilvægu upplýsingar? Fjárkúgun? 
Á mínum kjörstað voru pappaskilrúm. Létt og þægilegt efni til þess arna. Eini gallinn væntanlega sá, að  kjósandi gæti tekið sig til og gert gat á pappaskilrúmið fyrir framan sig og til beggja hliða og þannig njósnað um þá sem þar voru að skrifa fjögurra stafa tölurnar sínar. Það er ekki ólíklegt, að þeir sem yrðu fyrir hnýsninni yrðu varir við þegar ég væri að útbúa gatið mikilvæga og í framhaldinu gerðu kjörstjórn viðvart um háttsemi mína.

---------------------------------

Feisarar segja sem svo, að rétt skuli vera rétt og auðvitað er það mikið rétt. Sannarlega má segja að það hafi verið mistök að tengja kosningar til stjórnlagaþings með einhverjum hætti við framkvæmd Alþingiskosninga. Þessar kosningar eru, eins og hver maður getur séð aldeilis ólíkar í eðli sínu: annars vegar eru pólitísk öfl að eigast við, en hinsvegar einstaklingar sem hafa ekki grun um hvert bakland þeirra er. Það er því, í mínum huga spurning um almenna skynsemi, að aðlaga framkvæmd kosninga eins og þeirra sem nú hafa verið dæmdar ógildar, að eðli þeirra og þeirri staðreynd, að það er margt breytt frá þeim tíma þegar ekki var til lím til að innsigla kassa, eða vélar til að telja atkvæði.

Það er gott að þurfa ekki að segja að maður sé sammála niðurstöðu Hæstaréttar, sem er í stöðu til að túlka eðli og inntak laga, þó þannig að í engu sé vikið frá anda þeirra. Ég er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar, kannski ekki síst vegna þess, að ég tel að úrskurður hans byggist á hreinum og tærum tittlingaskít, eins og ég hef fjallað um út frá sjálfum mér hér að ofan. Það held ég að megi einnig segja um þann hluta þjóðarinnar, oftnefndu, sem vill breytingar eða gagngera endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins.

Hverra hagur er það, að ekkert verði stjórnlagaþingið? Í þeirra ranni er að leita skýringa á þeirri stöðu sem nú er uppi.

Ég get auk þess sem að ofan hefur verið talið farið út í allskyns samsæriskenningar sem tengjast þessu öllu saman, en ætli ég láti bara ekki staðar numið hér.




1 ummæli:

  1. Það er bara svo þægilegt að geta vísað í bókstafstrú þegar er verið að færa "rök" fyrir máli sínu, sama hvort um sé að ræða eitthvað sem skiptir máli eða ekki. "Ef við byrjum á því að fara á svig við lög, hvað verður þá um okkur í framtíðinni", eins og það skipti einhverju helvítis máli, við erum í þeim dýpsta skít sem við getum verið, hverjum er ekki sama.......já einmitt fávitum! Stundum er bara gaman að vera "ómálefnalegur" það er stundum/oftast það eina sem er í boði :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...