27 janúar, 2011

Furðuskafi

"Ég fékk Arnald" sögðu menn. "Ég er að lesa Arnald" segja menn. "Ég er að lesa Arnald" segi ég. Það kom þannig til, að ég rakst á bók Arnaldar á náttborði fD og fór að lesa. Ég var búinn að heyra umfjöllun um bókina í Kiljunni, þar sem henni var hælt nokkuð og þess meðal annars getið, að nú færi hann aðrar leiðir með Erlend; austur á land á æskuslóðir hans þar sem hann gerði með einhverjum hætti upp við fortíð sína. Það kvæði við nýjan tón hjá Arnaldi þessu sinni og að hann væri að feta sig inn á svið alvöru bókmennta. Allt í lagi með það.
Síðustu allmörg kvöld er ég síðan búinn að vera að lesa Arnald. Þegar ég nálgaðist miðja bók og hann var lítið farinn að hugsa sér til hreyfings austur, byrjaði ég að velta fyrir mér hvernig söguþráðurinn sem ég var að lesa gæti leitt til þess að hann hyrfi frá líklegum glæpamálum í miðjum klíðum til að heimsækja æskuslóðirnar. Lesnum köflum fjölgaði jafnt og þétt án þess að fararsnið væri á Erlendi. Ég hugsaði með mér, að þetta hlyti að verða afar snörp og eftirminnileg ferð þegar að henni kæmi, úr því bókmenntafræðingarnir höfðu fjallað svo mikið um þann þátt sögunnar.

Svo varð það í gærkvöld, áður en ég hóf lestur, og átti eftir 11 blaðsíður, án þess að í sjónmáli væru miklir atburðir fyrir austan, að ég spurði fD upp úr eins manns hljóði: 
"Hvenær fer hann austur eiginlega?"
"Hver?"
"Nú, Erlendur."
"Hvaða Erlendur?"
"Erlendur þarna í Arnaldi."
"Hann fer ekkert austur."
"Fer ekkert austur. Bölvuð della. Það var fjallað um það í Kiljunni!"
"Já, en þar var verið að tala um nýjustu bókina - hún heitir Furðustrandir. Þú ert að lesa Harðskafa
Ég ætla ekki að segja frá því hvernig viðbrögð fD við þessu öllu voru  í framhaldinu.

Ég er hinsvegar hugsi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...