30 janúar, 2011

Trúarleg afskipti (2)

Síðast þegar ég tæpti á þessu málefni, þann 12. september á síðasta ári, lét ég að því liggja, að ef til vill yrði framhald á. Framhaldið hefur látið á sér standa af ýmsum ástæðum, en nú hyggst ég gera tilraun til að gera grein fyrir sýn minni á aðkomu mína að málefnum Skálholtsstaðar frá þeim tíma.

Þar sem ég er ekkert sérlega minnugur á menn og tíma, hlýtur það sem ég skrái hér og sem vísar til einstakra tilvika, tíma, eða manna, að verða nokkuð ónákvæmt, en það skiptir nú ekki öllu máli.

Glúmur Gylfason
Hér hóf ég kennslu við Reykholtsskóla haustið 1979, og smám saman hóf ég að kynnast samfélaginu aftur. Hafði verið fjarverandi í 4 ár. Það liðu einhver ár áður en að því kom að mér datt í hug að hefja þátttöku í starfi Skálholtskórsins, en þá stjórnaði Glúmur Gylfason honum. Hann var þó þarna til bráðbirgða, að mig minnir - man ekki hve lengi ég var þarna undir hans stjórn.
dr. Róbert Abraham Ottósson
Ólafur Sigurjónsson
Að koma inn í svona gróinn kór, reyndist mér nú ekkert auðvelt, en ég haði áður tekið þátt í kórstarfi, m.a. með Árnesingakórnum í Reykjavík og vissi út á hvað þetta gekk. Þar að auki hafði ég lært að spila lítillega á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni, sem var þá að læra til prests og sem ég held að starfi nú sem slíkur í Svíþjóð. Ég var nokkuð viss um að tenór væri sú rödd sem helst hentaði mér, en þar voru fyrir í kórnum, ekki minni söngvarar en Sigurður á Heiði og Bragi á Vatnsleysu, sem þá höfðu verið í kórnum, undir stjórn Róberts Abrahams Ottósonar, frá því kórinn var stofnaður fyrir vígslu kirkjunnar árið 1963.
Örn Falkner
Ég man að það auðveldaði mér mjög að koma þarna inn í tenórinn með svo örugga og öfluga tenóra mér við hlið. Vissulega var ég ekki alltaf sáttur þegar til stóð að æfa einhvern sálm sem ég hafði aldrei komið nálægt og hinir reyndu kórfélagar tilkynntu: "Við kunnum þetta. Alveg óþarfi að vera að æfa það eitthvað". Mér fannst ég nú samt vera furðu fljótur að aðlagast þessu umhverfi, og fannst þetta skemmtilegur félagsskapur.
sr. Guðmundur Óli Ólafsson
Fljótlega hvarf Glúmur af vettvangi og í hans stað kom til skjalanna Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti. Mér líkaði ágætlega við hann sem stjórnanda, en það kom að því, af einhverjum ástæðum, að hans stjórnunartíð lauk. Það gerðist ekki með friði og spekt og það var þá sem kórinn leystist upp í einhvern tíma. Við þá "sprengingu" sem þarna varð hurfu margir þeirra sem höfðu myndað hryggjarstykkið í kórnum af vettvangi. Stofnfélagar, voru þá búnir að vera í kórnum í 20-30 ár. Hvað gerðist næst og hvernig er ég ekkert viss um. Ég man að það var haldið áfram eftir einhvern tíma. Þá vara ráðin ung kona til að stjórna, en ég man ómögulega hvað hún heitir. Þá var ráðinn til starfa annar ungur kórstjóri, Örn Falkner. Þarna fór einnig að tínast inn nýtt fólk.  Það var svo um það bil sem 10. áratugurinn hófst, þegar ég var í sóknarnefnd í Skálholti, sem að því koma að ráða nýjan organista að kirkjunni, á breiðari grunni en verið hafði. Hann skyldi hafa búsetu í Skálholti. Þáverandi sóknarprestur, sr. Guðmundur Óli Ólafsson, mælti eindregið með einum umsækjandanum og sagði um hann, að hann hefði aðeins einn galla, hann kynni ekki á klukku. Þessi umsækjandi var Hilmar Örn Agnarsson. Hann var að koma frá námi í Hamborg, hafði áður starfað um hríð við kórstjórn í Þorlákshöfn og verið meðlimur í hljómsveitinn "Þeyr". Þetta vissum við um manninn. Hann var ráðinn og flutti með fjölskyldu sinni, konu og tveim sonum í Skálholt.Hér er gert hlé á þessari umfjöllun. Það kemur kannski meira síðar.

Mér þætti auðvitað vænt um, ef einhver sem er betur að sér í nöfnum fólks og ártölum, léti mig vita um það sem betur  má fara í þessum efnum, eða rétt væri að láta fylgja með.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...