19 apríl, 2018

Ekkert spor

Sumardagurinn fyrsti. Það held ég nú.
Ekki get ég neitað því, að það eru ýmis merki í umhverfinu um að veturinn er að gefa eftir. Fuglar syngja eins og á hverju vori og ég tek mig til og ætla nú aldeilis að fanga þetta fiðurfé, sem lætur svo dátt, á mynd.
Ég fer í smávegis bíltúr í bítið.
Hvítá umlykur Laugarás á þrjá vegu og það hlýtur að vera talsvert af þessum söngvurum þar að finna.
Jú, mikil ósköp, það vantar nú ekki.
Álftir og grágæsir. Einn tjaldur og einn stelkur.

Eftir fuglaskim byrja ég enn og aftur að efast um að mér sé ætlað að komast í tæri við einhverja merkilega fugla. Annaðhvort fela þeir sig þegar ég nálgast, eða þá að ég fer alltaf á stjá á vitlausum tíma dags.
Eitthvað er það.
Mér kemur í hug, að ef til vill þurfi ég að fara í læri á næsta bæ, nú eða bara að hætta að reyna að sjá aðra fugla en álftir og grágæsir.

Úr því fuglaúrvalið er ekki meira fer ég að huga að öðru. Minnist frásagnar sem ég fékk frá brúarvinnumanni, af því þegar hann synti yfir ána og skildi síðan eftir fórspor sitt í blautri steypu til minningar um afrekið.
Ég fór að leita að þessu 60 ára gamla fótspori, undir syðri stöpli brúarinnar, en fann bara steypuklessu með tveim stöfum: HV.  Hver var þessi HV? Þar sem ég hef ekki lista yfir alla þá sem komu að brúarsmíðinni, veit ég það auðvitað ekki. Kannski er þetta eitthvert seinni tíma verk.
Jæja, kannski er sporið undir nyrðri stöplinum. Mögulega er það undir vatnsyfirborðinu, en það er mikið í ánni núna.
Ég mun finna þetta spor, ef það er finnanlegt.

Meiri gæsir og álftir. Söngur allra hinna, sem ekki vilja leyfa mér að sjá sig.
Kannski er ég bara þessi sem sé bara stóra fugla, ekki þessa litlu ræfla sem þarf að tæla með matargjöfum svo þeir láti sjá sig.

Stórir fuglar eru líka ágætir.

Gleðilegt sumar og takk fyrir vetrarlesturinn.

14 apríl, 2018

Ragnar Lýðsson


Ragnar Lýðsson
Fuglarnir kyrja vorsöngvana síðan fyrir utan gluggann og það er loksins farið að hlýna og sumarkoman liggur í loftinu. Það getur hinsvegar kólnað áður en við er litið. Á Íslandi er ekki á vísan að róa þegar veðurfarið er annars vegar.

Þannig er þetta einnig með líf okkar mannanna: þó vor og sumar blasi við í lífi okkar þá getur napur vetrarkuldinn og myrkrið skollið á áður en minnst varir.

Raggi Lýðs var skólafélagi minn og jafnaldri, þannig séð, í Reykholtsskóla í gamla daga, svo fórum við hvor í sína áttina, bjuggum löngu síðar í sömu götu um tíma og ennþá löngu síðar hittumst við þegar gamlir samnemendur komu saman til að rifja upp barnaskólaárin.

Það er svona.

Þrátt fyrir að leiðir okkar Ragga hafi ekki skarast verulega á lífsleiðinni, hef ég vitað af honum og hann væntanlega af mér.
Maður fréttir alltaf af fólki.

Þann 31. mars, lést Raggi með sviplegum hætti. Útför hans er gerð í dag.


Í október 2011 hittust gamlir skólafélagar og kennarar í Reykholti. Þarna má sjá í aftari röð f.v. Páll M Skúlason,
Sveinn A. Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson, Ragnar Lýðsson,
Eyvindur Magnús Jónasson, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Þorsteinn Þórarinsson, Guðrún Hárlaugsdóttir.
Fremri röð f.v. Geirþrúður Sighvatsdóttir, Renata Vilhjálmsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Þórir Sigurðsson,
Kristín Björnsdóttir.





11 apríl, 2018

"Lifðu núna" Er það nú vitlegt?

Þar sem ég ek niður á Selfoss, tæmi ég plastflöskuna sem ég var að drekka úr, renni niður hliðarrúðunni og hendi henni út.
Ég lifi núna.

Ég finn síðu á facebook og kemst þar í samband við fíkniefnasala og panta stöff hjá honum. Síðan skelli ég því í mig og nýt upplifunarinnar.
Ég lifi núna.

Mig langar að berja nágranna minn. Fer heim til hans og gef honum einn á hann.
Ég lifi núna.

Ég veit fátt betra en sælgæti. Kaupi það í kílóavís og nýt þess í botn að gúffa því í mig.
Ég lifi núna.

Ég læt vaða yfir femínista og réttrúnað í samfélaginu á blogginu mínu.
Ég lifi núna.

Mig langar í 75" sjónvarp á vegginn hjá mér. Ég panta það á Hópkaup.
Ég lifi núna.

Ég nenni ekki að burðast með eitthvert pokadrasl undir innkaupin mín og kaupi þess vegna alltaf plastpoka þegar ég fer í búð.
Ég lifi núna.

Ég er eins og fuglarnir á pallinum. Þeir eru ekkert að spá í hvað gerðist í gær, hvað þá að þeir velti fyrir sér hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
Þeir lifa núna.


Ég veit fullvel hver hugsunin á bakvið þetta tískufyrirbæri "Lifðu núna" er.  Vefurinn sem ber þetta heiti fjallar sannarlaga um mikilsverð málefni:
Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur.

Það sem ég óttast hinsvegar er, að margir skilji þetta sem svo, að við eigum í æ meiri mæli og fara að hegða okkur eins og fuglar himinsins.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? (Mt. 6:26)

Við eigum hvorki að byggja á reynslu fortíðar, né velta fyrir okkur hvað er framundan. Við eigum að lifa núna. Það verður séð til þess að allt verði í lagi hjá okkur (Hver sem á nú að sjá til þess)

Því miður eru þetta skilaboðin sem maður heyrir orðið allt í kringum sig. Þetta er að verða næstum eins og kveðja:
"Lifðu núna!" = Bless
"Já, einmitt. Lifðu núna!" = Bless.
Skilaboðin skiljast óhjákvæmilega sem ákveðið ábyrgðarleysi gagnvart öllu öðru en núinu, sem er til dæmis ekki æskilegt ef hugað er að  umhverfisvernd, heilsunni eða afleiðingum þess sem maður gerir. 

Niðurstaða mín er því sú, að við ættum frekar að segja:
NJÓTTU LÍFSINS 
Hugsaðu til þess sem gerðist í gær og lærðu af því. veltu fyrir þér hvað morgundagurinn ber í skauti sér og gerðu þitt til að hann verði ekki síðri en dagurinn í dag. Að þessu búnu skaltu njóta dagsins, njóta þess að lifa.

Svo mörg voru þau óskiljanlegu orð.




08 apríl, 2018

Gústaf Ólafsson

Við Hvítá, hjá Auðsholtshamri 1980
Unglingar hafa einhvernveginn fengið á sig það orð á öllum tímum, líklegast, að geta verið snúnir viðureignar, enda undir það seldir að vera að ganga í gegnum þá miklu umbreytingu sem á sér stað þegar barninu er skipt út fyrir fullorðna manneskju.
Haustið 1979 fór ég að kenna ensku og dönsku í Reykholtsskóla og auðvitað mikið til reynslulaus, en hafði þó kennt unglingum einn vetur (1974-5) í Lýðháskólanum í Skálholti, .

Sannarlega voru unglingarnir sem ég stóð frammi fyrir í Reykholti ekkert ólíkir unglingum svona almennt. Þeir voru með ýmsum hætti eins og við var að búast og mis auðvelt við þá að eiga, fyrir utan það, auðvitað, að ég kann að hafa verið mis fær um að takast á við verkefnið.

Ég var viðstaddur minningarstund um einn þeirra í Skálholti í gær, Gústaf Ólafsson frá Arnarholti, en hann lést í Sundsvall í Svíþóð þann 29. janúar síðastliðinn eftir baráttu við ágengan og banvænan sjúkdóm, rétt rúmlega fimmtugar.
1980 - Við minnismerkið um Sigríði í Brattholti
ásamt Brynjari á Heiði.

Þessi piltur var einn þeirra sem ég fékk að kenna fyrstu árin mín í Reykholti. Hann var einn þeirra ótal ungmenna sem ég hef fengist við í gegnum árin, en hafa síðan horfið sjónum mínum þó minningin um þau skjótist stundum í hugann. Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um allt þetta unga fólk: hvort það fór inn á þær brautir sem ég hafði ímyndað mér eftir kynnin við þau.
Í gær fékk ég að vita ýmislegt sem ég ekki vissi um lífshlaup Gústafs, sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hér, enda brallaði hann víst margt eftir að hann slapp frá mér um og upp úr 1980.

Hann er eftirminnilegur eins og reyndar flestir nemendur mínir fyrstu árin.
Ég get sagt það sama um Gústaf og bræður hans tvo, Jónas Inga og Ingvar, að þeir báru með sér að vera afar heilsteyptir ungir menn. Fremur rólyndir, að mig minnir, léttir í lund, lifandi, góðlegir, kurteisir. Þeir báru heimili sínu gott vitni.


Það er auðvitað gömul tugga, þetta með að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Gömul tugga, vegna þess óréttlætis sem okkur finnst í því fólgið, en jafnframt staðfesting á því, að ekkert okkar getur búið við þá fullvissu að fá að lifa eins lengi og við viljum helst.

Fjölmargir skólafélagar Gústafs voru viðstaddir ágæta minningarathöfn í Skálholti í gær. Mér fannst afar sérstakt að sjá þarna nokkra fyrr um nemendur mína, sem ég hef geymt í hugarfylgsnum óbreytt, sem börn,  næstum 40 ár.  Það má segja að þetta hafi verið ákveðin áminning um það sem maður veit svo sem, að hvað sem öðru líður, leiðir tíminn allar lífverur, jafnt og þétt, hiklaust og fumlaust, allt frá upphafi lífs til loka þess. Við verðum víst að sætta okkur við það.

1980: Ingólfur á Iðu segir frá Iðuferju. 
Myndirnar sem ég læt fylgja hér, eru frá vormánuðum 1980, þegar nemendur Reykholtsskóla fóru í vettvangsferðir til að kynna sér ýmislegt um árnar sem setja mark sitt á líf okkar í Biskupstungum. Eldri hópurinn  tók Hvítá fyrir. Leiðin lá, meðal annars, að Gullfossi og að ferjustöðunum tveim: Iðuferju, þar sem Ingólfur Jóhannsson á Iðu, spjallaði við krakkana, og Auðsholtsferju, þar sem Einar Tómasson kom yfir um á ferjubát til að hitta okkur.

27 mars, 2018

Þá er það frá (3)

...framhald þessa og þessa.

Sundið að stiganum gekk svo sem ágætlega að mér fannst og ekkert sem ég sá fyrir sem fyrirstöðu þess að ég gæti gengið um borð bara nokkuð hnarreistur. Að auki var hafflöturinn undir skut tvíbytnunnar í hvarfi frá öllum mögulegum áhorfendum, nema auðvitað sjókattarstjóranum og bananabátsfarþegunum þrem.
Ég náði til stigans, ætlaði að svifta mér upp úr, en uppgötvaði þá að ég hefði átt að skella mér í ræktina í vetur og styrkja upphandleggsvöðvana og jafnvel minnka  einnig lítillega þá þyngd sem vöðvunum var þarna ætlað að koma úr sjó.
Ég gat með öðrum orðum, ekki komið fæti upp í stigann, en neðsta trappa hans náði varla niður í hafflötinn.
Ég reyndi....
og ég reyndi...
og ég reyndi aftur. 
Ég komst að þvi, að ég virtist hafa grennst við átökin í kringum bananabátinn og sjóköttinn því ég varð var við að óþægilega mikið að þeim hluta líkamans, sem ekki hafði séð sól í ferðinni birtist áhorfendunum fjórum, skjannahvítur. Við svo búið mátti ekki standa og við tók hlé frá tilraunum til uppgöngu sem nýtt var til að reyna að bjarga því sem bjargað varð af virðingu minni að þessu leyti. 
Síðan reyndi ég aftur við stigann....
og aftur.
Handleggirnir titruðu, en hlýddu ekki. 
Hnjánum tókst ekki að ná festu á neðstu tröppunni.
Hversvegna í and......um gat sjókattarstjórinn ekki sett mig af við stefni bátsins, þar sem ég hefði getað stigið um borð í tvíbytnuna, tiltölulega vel á mig kominn?  Þessi spurning kom reyndar ekki í hugann fyrr en ég fór að fara yfir málið eftir á.
Þarna svamlaði ég sem sagt við stigann upp í tvíbytnuna án þess að komast lönd né strönd.
Hvar var áhöfn tvíbytnunnar?  Hví kom enginn mér til aðstoðar?

Björgunin

Frásögn fD eftir þessa atburði bendir til þess að talsvert löngu eftir að ég var þarna farinn að basla við að komast upp í stigann, hafi heyrst í talstöð tvíbytnunnar eitthvert kall sem varð til þess að skipstjórinn að stýrimaðurinn þustu aftur í skut og fD mun þá ekki hafa orðið um sel.
Loksins birtist mér efst í stiganum, stýrimaður tvíbytnunnar, fikraði sig niður stigann og rétti mér hönd, sem ég greip í og þar með tókst mér að troða vinstra hnénu upp í neðstu tröppuna.
Þar með var mér borgið.
Upp stigann lagði ég leið mína, rólega, titrandi fótum, þrútinn af adrenalínskoti, léttur í lund svona miðað við allar aðstæður, eins tilbúinn og ég gat verið til að mæta augnaráði hinna farþeganna  á tvíbytnunni. 
Það fagnaði enginn uppgöngu minni, þessari björgun minni úr háska. Engin samkennd, bara látið eins og ég væri ekki þarna. 
Það fékk ég að vita eftir á hjá fD (nema hvað) að þarna hefði ég birst, með sundbuxurnar óþægilega neðarlega, skjálfandi og másandi.  Það kom sér sannarlega vel, sem ég sagði í upphafi, að eina vitnið að ævintýri mínu, sem yrði til frásagnar á móðurmálinu var fD. Aðra sem þarna voru mun ég aldrei þurfa að hitta aftur og sannarlega hefði ég ekki þurft að skrifa neina frásögn af upplifun minni. Það geri ég ekki síst til þess að hún verði rétt frá fyrstu hendi, því ekki dettur mér annað í hug en að  eini samlandi minn í þessari ferð muni, með viðeigandi hætti segja frá þar sem því verður við komið. Sem sagt, rétt skal vera rétt.

Ekki tel ég ástæðu til að fjölyrða um framhaldið, jú það kom í ljós að ég hafði hlotið nokkrar skrámur við átökin í stiganum, en það var varla umtalsvert.

Moralen er.....

Hvað lærði ég, þessi ævintýradraumóramaður, svo af þessu öllu saman?
Ég lærði bara hreint ekkert umfram það sem ég vissi áður, t.d. það að maður ætti ávallt að taka sér það fyrir hendur og þróa áfram, sem maður hefur hæfileika, getu, aldur  og burði til. 
Svo einfalt er það. 
Einhverntíma var sagt: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".  Ég finn það eiga við mig í þessu sem ýmsu öðru, sem leiðir hugann að því, að ég á enn eftir að fara í fallhlífarflug (para-gliding). Ég er búinn að nefna það nokkrum sinnum við fD, hvort við ættum ekki að skella okkur í svoleiðis ævintýri. Ég þarf ekki að fjalla um viðbrögðin.
Hvað af verður? Byr hlýtur að ráða.

Fallhlífarflug - Para gliding

 

 

26 mars, 2018

Þá er það frá (2)

Örin bendir á höfund. Mynd fD
.... framhald af þessu

Nei, þetta var ekki að gerast!
En auðvitað var það að gerast.

Öll könnumst við miðflóttaaflið, sem felst í því að sá hlutur sem er á ferð í einhverja átt, leitast við að halda áfram í þá átt, jafnvel þó svo annar kraftur komi til sem reynir að breyta stefnu hans. Það þekkja, til dæmis hjólreiðamenn, að til þess að beygja þarf að halla sér inn í beygjuna þannig að krafturinn í þá átt verði meiri sem sá sem vill draga mann áfram í beina línu. En nóg um eðlisfræði.

Sjókattarstjórinn, sem sagt, ákvað að taka krappa beygju á fullri ferð, líklegast í þeim tilgangi að gera túrinn meira spennandi fyrir okkur, sem á bananabátnum sátum.

VELTAN

Ég hallaði mér ekki inn í beygjuna (hafði öðrum hnöppum að hneppa, sem kölluðu á fulla einbeitingu). Þar með sat ég uppréttur í þann mund er bananabáturinn kipptist inn í beygjuna í kjölfar sjókattarins. Ekki veit ég hvort meðreiðarfólk mitt hafði vit á að taka á móti beygjunni eins og full þörf var á, en það skipti ekki máli.
Banabáturinn valt.
Tíminn hægði á sér.
Ég fór á kaf.
Þegar maður er við það að falla fram af kletti, reynir maður að ná handfestu í einhverju. Ég hafði auðvitað handfestu. Henni sleppti ég ekki fyrr en mér varð ljós fáránleiki þess að hanga í bananabát á fullri ferð á hvolfi, neðansjávar.

Í SJÓNUM

Auðvitað var engin hætta á ferð, en þarna vorum við öll fjögur komin í sjóinn, Sjókattarmaðurinn brunaði til baka, sagði "sorrí" og velti bananabátnum á réttan kjöl og benti okkur á að klífa um borð.
Klífa um borð, já.
Það var einmitt það.
Þarna fyrir framan mig gnæfði bananabáturinn. Mér varð það strax ljóst, að upp í hann kæmist ég aldrei. Reyndi samt og var næstum búinn að velta honum aftur. Sjókattarstjórinn sagði okkur að klifra upp í bátinn beggja megin frá. Allt í lagi, breski strákurinn flaug auðvitað upp sín megin, en ég var engu nær, jafnvel þó svo pjakkurinn reyndi að toga mig upp. Ég held að fyrr hefði ég togað hann niður mín megin.
Örin bendir á höfund. Mynd fD

Að þessu fullreyndu og ég orðinn nokkuð móður, sagði sjókattarstjórinn mér að skella mér upp á pallinn sem var aftast á sjókettinum. Þarna voru allir samferðamenn mínir á bananabátnum komnir um borð í hann. Ég einn eftir í sjónum og gerði atlögur að því að komast um borð í sjóköttinn, en þær báru harla lítinn árangur. Við eina tilraunina munaði minnstu að sjókötturinn ylti og stjórinn hrópaði upp yfir sig: "No, no, no!".

Á SJÓKETTINUM

Örin bendir á stigann sem um er rætt.
(mynd af síðu Aqua Sports)
Það var svo ekki fyrr en mér var nánast alveg þrotinn kraftur, að mér tókst að smeygja vinstra hné upp á pallinn aftast á kettinum. Titrandi áði ég þar litla stund, brölti síðan upp og tókst einhvern veginn að setjast fyrir aftan sjókattarstjórann, sem tók stefnuna á tvíbytnuna sem þarna var í nokkurri fjarlægð (sem betur fer).
Um það bil 10 metrum fyrir aftan tvíbytnuna spurði stjórinn hvort ég kynni að synda, hverju ég játti, auðvitað. Þá spurði hann hvort ég gæti synt að stiganum í skut tvíbytnunnar (sjá mynd), hverju ég svaraði einnig játandi og sem ég síðan gerði, eftir að hafa stungið mér með eins umtalsverðum glæsibrag og efni stóðu til af sjókettinum.

VIÐ STIGANN

Ég gerði, eðlilega, ráð fyrir því að uppganga mín úr hafinu inn á þilfar tvíbytnunnar gæti orðið mér til eins mikil sóma og hæfði persónu minni, eftir þær svaðilfarir sem að ofan er lýst.

Það varð sannarlega ekki svo.

Frá því mun ég greina í síðasta hluta, í fyllingu tímans.

FRAMHALD>>>>>>

25 mars, 2018

Þá er það frá (1)

I
Þetta er bananabátur sá sem fjallað er um, en þó ekki með
sömu ævintýramönnunum.
nngangur að þessu er fremur óáhugaverður, en telst samt nauðsynleg undirbygging þess sem á eftir kemur.

Það blundar í mér ævintýramaður og þeirri tilfinningu deili ég ekki með fD, sem helst vill vera með belti, axalabönd og frauðgúmmíhellur allsstaðar þar sem hún kemur við.
Ég hef átt mér ýmsa drauma varðandi ævintýri og hef fylgst með öðrum lenda í ævintýrum, en það hafa, af einhverjum ástæðum, ekki verið örlög mín að leitast beinlínis eftir einhverju sem kemur blóðinu á hreyfingu og kýlir mig upp af adrenalíni. 
Viljinn er og hefur verið fyrir hendi og ég hef nálgast það æ meir, eftir því sem árin líða, að verða mér úti um einhver þau ævintýr sem eftir má taka. Innri krafa um að takast eitthvað spennandi og krefjandi á hendur hefur farið vaxandi eftir því sem árunum hefur fjölgað. Það var því beinlínis ákvörðun mín, í nýafstaðinni ferð okkar fD til Taurito á Gran Canaria, á slóðir þar sem ekki heyrðist önnur íslenska en okkar í nánast tvær vikur, að  láta til skarar skríða. 

Þetta var inngangurinn.

Aqua sports - Catamaran - Bananabátur

Aqua Sports

CATAMARAN tvíbytnan
Hér er um að ræða fyrirtæki sem býður sólarferðalöngum mikið úrval af allskyns ævintýralegri reynslu bæði á láði og legi. Það sem varð fyrir valinu hjá okkur fD var sigling með tvíbytnu, svokallaðri Catamaran. Hluti af þessari siglingu átti síðan að vera ýmislegt, eins og gengur, en allavega varð niðusrstaðan að skella sér í þessa ferð.
Af minni hálfu var þar einn þáttur sem kitlaði mest: • Banana boat ride var það, heillin. Að því ævintýri öllu kem ég betur síðar, en sú reynsla er beinlínis tilefni þess að ég sest niður og skrifa eitthvað um harla venjulega túristaupplifun. Við vitum öll hvernig slík upplifun er: þú verður að einhverri vöru sem þarf að fara í gegnum eitthvert tiltekið ferli gegn einhverju tilteknu gjaldi.

Catamaran tvíbytnan og höfrungaskoðun

Siglt til hafs í höfrungaleit. Taurito í baksýn.
Í bænum Mogan gengum við um borð í þessa fínu tvíbytnu ásamt um 20 öðrum (tvíbytnan er gerð fyrir 100 farþega) og síðan var siglt til hafs, einhvern slatta af mílum, í leit að höfrungum. Seljandi ferðarinnar hafði sagt okkur að nú væri "höfrungatíminn" og sýnt okkur myndskeið í símanum sínum því til staðfestingar.
Hvað um það, enginn sást höfrungurinn, en á móti sáum við eina talsvert stóra skjaldböku svamla í yfirborðinu og einu sinni eða tvisvar sáum við hvalsbak í fjarska. Svo var haldið til baka og þeir sem ekki voru sjóveikir snæddu innifalinn málsverð.
Þegar komið var að ströndinni var tvíbytnan fest við akkeri og þeir sem vildu (þrír) fengu færi á að snorkla stutta stund.

Bananabáturinn

Sjóköttur á fullri ferð. Svona var þetta.
Í þann mun er snorklararnir voru búnir að snorkla litla stund kom sjóköttur (jet-ski) á fleygiferð að afturenda tvíbytnunnar, með bananabát í eftirdragi. Fyrir þá sem ekki vita, þá er bananabátur uppblásinn, ílangur belgur með minni belgjum á hvorri hlið, augljóslega til að halda honum á réttum kili. Ofan á belgnum eru síðan handföng fyrir farþegana.
Nú var kallað í hátalarakerfið að til boða stæði ókeypis ferð með bananabátnum.
Mér dettur ekki í huga að neita því, að þar sem ég stóð þarna frammi fyrir ákvörðun, sem hafði eiginlega verið meginforsenda þess að ég var nokkuð áfram um að fara í þessa siglingu, komu á mig innri vöflur, sem ég held að ekki hafi verið greinanlegar hið ytra. 
Það var kallað eftir þátttakendum í bananabátsferðina og ég lýsti mig reiðubúinn ásamt þrem öðrum. Ég spurði reyndar einn starfsmanninn hvort þetta væri mögulega eitthvað sem ekki hentaði mér, að teknu tilliti til aldurs og líkamlegs atgerfis. Starfsmaðurinn gaf ekki til kynna að ákvörðun mín væri út í hött.
Þar með greip ég björgunarvesti sem stóð til boða, en var fljótlega klæddur aftur úr því og síðan í annað, heldur verklegra.
Bananabátnum var lagt að skut tvíbytnunnar og fyrstu farþegarnir skutluðust upp á hann fremst, sænskt par um tvítugt. Þá kom að mér, eins og ég er. Eitthvað lét mjöðmin af sér vita þar sem ég klöngraðist léttilega (reyndi að láta það virðast léttilegt og gretti mig í átt frá mögulegum áhorfendum) um borð í bátinn, eða réttara sagt upp á belginn, þar sem ég greip um handfang fyrir framan mig. 
Síðasti farþeginn var táningspiltur, breskur og hann settist fyrir aftan mig. Þarna vorum við þá komin fjögur (19-19-64-16).
Svona var bananabáturinn. Farþegarnir eru aðrir.
Þar sem við vorum búin að koma okkur fyrir var ekkert til fyrirstöðu og sjókattarmaðurinn brunaði af stað. Eðlilega byggðist upp talsverð spenna innra með mér þar sem smám saman strekktist á kaðlinum sem tengdi sjóköttinn og bananabátinn. Allskyns hugsanir sóttu að, meðal annars pælingin um hvað í ósköpunum ég væri þarna búinn að koma mér út í. Þetta væri bara eitthvert unglingasport og engan veginn hæfandi virðingu eftirlaunamanns með minn starfsferil.  Ég huggaði mig við það, jafnharðan, að eina vitnið að þessum atburði, sem til frásagnar yrði í mínu málumhverfi, væri fD og hún rétt réði því hvort hún léti eitthvað frá sér fara einhversstaðar (sem hún svo auðvitað gerði). 

Nú var kaðallinn orðinn fullstrekktur og farskjótinn tók við sér. Það var eins og við manninn mælt, á skammri stund vorum við komin á fulla ferð, hoppandi og skoppandi um hafflötinn og við og við gengu lítilsháttar gusur yfir okkur þegar við brunuðum í gegnum öldugang sem sjókötturinn myndaði þar sem hann þeyttist áfram í sveigum til beggja hliða. 
Þetta var bara gaman. 
Stúlkan skríkti, það heyrðist minna í piltunum tveim  og ekkert í mér. Sannarlega hefði ég getað rekið upp einhver öskur hér og þar, en þar setti ég mörkin. Nóg var samt.
Svona gekk þetta fyrir sig um stund, gleðin, spennan, kitlið í maganum. Harla gott, bara.

En svo ákvað sjókattarstjórinn að taka krappa beygju........

Framhald þessarar frásagnar verður skráð þegar ég hef náð að móta í kringum það viðeigandi orðaheim. 


06 mars, 2018

Töffari

Erna var farin að velta fyrir sér hvort ekki væri bara réttast að flytja til Tenerife. Lét þeim pælingum fylgja, að hún nennti ekki "þessu rugli" lengur. Hún var ekkert að skafa utan af hlutunum frekar en fyrri daginn þessi baráttukona fyrir betra veðri, réttlátara samfélagi og fjölskyldunni.
Veðrið var síðasta umfjöllunarefni hennar á Facebook síðuna sína, daginn sem hún lést öllum að óvörum, þann 25. febrúar, nýskriðin inn á 73. aldursárið.

Guðríður Erna Halldórsdóttir hét hún og leiðir okkar lágu saman í allmörg ár, þegar hún var gjaldkeri Mötuneytis Menntaskólans að Laugarvatni. Á samskipti okkar bara auðvitað aldrei skugga, enda held ég að við höfum haft svipaða sýn á flest sem skiptir máli og það sem er fyndið, allavega  hlógum við yfirleitt á sömu stöðum, hún þessum grallaralega hlátri þess sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Tepruskapur er það síðasta sem ég gæti tengt við þessa ágætu samstarfskonu. Það var nú eitthvað annað.

Svo hætti hún á Laugarvatni þegar hún hafði aldur til. Hvarf niður á Selfoss og þaðan fékk ég að fylgjast með henni og fjölskyldu hennar. Þó svo flest það sem hún sendi frá sér á samfélagsmiðlum bæri með sér svipaðan keim og fram kemur hér efst, var annað uppi á teningnum þegar hún birti myndir af barnabörnunum, eða deildi fréttum af knattspyrnumanninum sínum í Ísrael eða tónskáldinu sínu, sem hún missti af að fylgja síðasta spölinn í undankeppni Evrópusöngvakeppninnar. Hún var afar stolt af afkomendum sínum og mig grunar að þeir hafi átt hauk í horni í ættmóðurinni.

Á Laugarvatni var hún hinsvegar Erna gjaldkeri, sem stóð við og við upp, kom inn á kaffistofu til að "kjafta", eins og hún myndi kalla það.

Já, mér líkar vel við svona konur, konur sem mæðast ekki í hlutunum, segja hug sinn án þess að skreyta meiningu sína neitt sérstaklega, eru fyndnar án þess að það komi illa við nokkurn mann. Það duldist þó aldrei að undir alveg sæmilega hrjúfu yfirborðinu bjó einstakt hjartalag þess sem kallaði stöðugt eftir réttlæti og sanngirni.  Það var ekkert verið að berja sér á brjóst, bara gengið í verkin af festu.

Ég ætla ekki að halda því fram, að ég hafi endilega gjörþekkt hina raunverulegu Ernu, reyni bara að búa til mynd af henni eins og hún kom mér fyrir sjónir. Ef sú mynd er nokkuð rétt, þá hefur nú kvatt hin ágætasta kona og ég mun sakna þess að sjá ekki lengur færslurnar hennar á hreinni íslensku, lausri við skrúðmælgi.

Ég neita því ekki, að mér finnst það sóun á mannauð, að missa Ernu. Hún átti margt ósagt og mörg ár inni til að njóta í samvistum við fólkið sitt. Um það er bara ekki spurt frekar en fyrri daginn.
Ætli frúin sé bara  ekki komin til sinnar Tenerife, þar sem veðrið leikur við hana.

Samúðarkveðju læt ég fylgja til Viðars og allra afkomendanna.

Útför Ernu er gerð í dag frá Selfosskirkju.

25 febrúar, 2018

Hegðunarreglur - Code of conduct - étiquette

Ég veit varla hvort þessara erlendu hugtaka sem nefnd eru í fyrirsögninni eiga betur við það sem ég hyggst fjalla um hér.
"Í hverju ætlarðu að fara?" spyr fD. Ég spyr hana aldrei í hverju hún ætlar. Hún spyr mig oftast og lætur mér í famhaldinu oft í té vinsamlegar ábendingar um það sem betur megi fara í fyrirætlunum mínum.
"Í hverju á maður að fara?" spyr ég stundum, og svarið er nánast undantekningalaust "Bingófötum".  Mér skilst að þannig föt séu vel þekkt fyrirbæri meðal fataspekúlanta.

Ég ætla mér ekki að fjalla um föt, en þau virðast standa mér nær en ég hélt.
Tilefni þess að ég legg hér í enn eina færsluna, er óvenjutíð menningarneysla okkar fD að undanförnu og í tengslum við hana, brot af þeim reglum sem maðurinn hefur komið sér upp við slík tækifæri.

FATNAÐUR
Ég spurði ekki um klæðaburð þegar við skelltum okkur á Sálir Jónanna í Aratungu, því ég þykist þekkja mitt heimafólk. Bingóföt urðu fyrir valinu og fóru vel með rauðvínsdrykkjuaðferðunum sem ég beitti þar.
Þegar maður leggur leið sína í sjálft Þjóðleikhúsið, gegnir nokkuð öðru máli. Það hefur mér í það minnsta fundist. Þá "klæðir maður sig upp á".  Þegar maður gerir það, er  það jakki og bindi ásamt betri buxum, en auðvitað komst ég að því að tiltölulega formlegur klæðnaður tilheyrir nú nánast liðinni tíð í leikhúsumhverfi. Maður gengur ekki lengur inn í hóp uppstrílaðs fólks í þessu þjóðarleikhúsi. Þarna var fólk mætt, klætt í fatnað sem varla náði bíngóstaðli í sumum tilvikum. Ég hef sennilega verið meðal þeirra sem voru hvað uppstrílaðastir (hvað þýðir þetta orð eiginlega?  Svarið er: decked-out, overdressed, dressed to kill, dressed to the nines, skv orðabók).
Í þriðju menningarreisunni lá leiðin í Hörpu og þá tók ég af skarið, til að stinga ekki of mikið í stúf og skellti mér í bingófötin. Þá bar svo við, að slík föt voru ekkert sérlega algengur klæðnaður, en þarna gat að líta allan fatnaðarskalann, allt frá fatnaði sem maður færi varla í, í uppskipunarvinnu (já, ég stundaði slíka vinnu eitt sinn) í klæðskeraðasaumaðan alklæðnað, pelsa og perlufestar.  Niðurstaðan af þessara reynslu var, að það má allt, alltaf.
Mér finnst sú þróun reyndar fremur dapurleg, að ýmsu leyti, þó ég sýti hana ekki að öðru leyti. Það var nefnilega heilmikill viðburður að fara í leikhús, þegar ég hafði ekki safnað jafn mörgum árum og nú.  Ætli hugtakið virðing hafi ekki verið í meiri hávegum haft á þeim tíma. Klæðaburðurinn fól í sér túlkun leikhúsgesta á virðingunni sem þeir báru fyrir leikhúsinu og einnig fyrir sjálfum sér og öðrum.
Túlkun Oskar Schlemmer á hinum sjálfmiðaða manni.
Nú er inni að gera bara nákvæmlega það sem manni dettur í hug og virðing fyrir einhverju, síðasta hugtakið sem kemur upp í hugann. Kannski er það afleiðing þess að virðingin hvarf þegar fólk uppgötvaði innihaldið í fólkinu sem virðingar naut í aðdraganda margumfjallaðs hruns, eða kannski var hrunið afleiðing af virðingarleysinu; þessu frelsi fólks til að gera nákvæmlega það sem því datt í hug og skeyta engu um annað fólk; innreið hins sjálfmiðaða manns: HOMO EGOCENTRICUS.

Þetta leiðir mig að hinum þættinum sem ég ætlaði að koma frá mér um þær óskráðu reglur sem gilda eða giltu í mannlegu samfélagi.  Mannlegt samfélag er til, vegna þess, að mennirnir hafa komið sér upp tilteknum aðferðum við að lifa saman á þessari jörð okkar, í stórum dráttum í sátt og samlyndi í einhver þúsund ára.

AÐ SETJAST
Ein af þessum reglum, sem mér finnst vera fremur víkjandi hjá hinum sjálfmiðaða manni, tengist einmitt leikhúsferðum.
Ef ég kaupi miða í leikhús, þá sé ég umsvifalaust í hvaða röð ég á að sitja og í hvað sæti. Þetta er allt númerað í bak og fyrir.  Ef sætisnúmerið mitt vísar á sæti sem er í enda raðar, get ég verið alveg rólegur þó svo mér seinki aðeins. Seinkoma mín truflar ekki annað fólk. Ég sest bara í sætið mitt á endanum eins og vera ber.
Ef númerið mitt er hinsvegar í miðri röðinni, geri ég mitt besta til að vera kominn tímanlega í sæti mitt. HOMO EGOCENTRICUS, sem á sæti í miðri röðinni, kemur hinsvegar rétt í þann mun sem sýningin hefst, helst aðeins seinn, með "Sjáið mig, hér kem ég, fokk jú" svipbrigðin á andlitinu og veldur því að upp undir tuttugu manneskjur þurfa að rísa úr sætum fyrir honum.
Ég viðurkenni, að ég á erfitt með að sætta mig við mannleg samskipti af þessu tagi. Þau verða hinsvegar æ meira áberandi.


Mér finnst ekki ólíklegt að HOMO EGOCENTRICUS sé dálítið að misskilja hlutina, blanda saman virðingu fyrir öðrum annarsvegar og virðingu fyrir sjálfum sér hinsvegar.   Hann hafnar því að bera virðingu fyrir öðrum, vegna þess, að geri hann það, sýni hann sjálfum sér virðingu, sem er auðvitað grundvallarmisskilningur þegar nánar er skoðað.
Beri maður ekki virðingu fyrir öðrum, þá ber maður ekki heldur virðingu fyrir sjálfum sér.
Maður breytist í lítinn kall, eða litla kellingu.

21 febrúar, 2018

Er það í raun bara þriðjungur?

Heildarvökutími 3ja ára barns á ári, miðað við 14 klukkustundir á sólarhring er 5110 klukkustundir.

Ef skoðað er dagatal leikskóla fyrir veturinn 2017 og 2018 og miðað við að þetta barn sé í 8 tíma vistun dvelur það í um 1810 klukkustundir á ári í umsjón annarra en foreldranna. Í umsjá foreldranna væri barnið þá 3300 klukkustundir. . Í þeirri tölu eru allir þeir dagar á árinu sem leikskólinn starfar ekki og 6 klukkustundir á hverjum virkum degi, fyrir og eftir að leikskóla lýkur.

Þetta þýðir að í um það bil 36% af vökutíma sínum dvelur barnið í umsjá leikskóla og þar með um það bil 64% í umsjá foreldra eða forráðamanna.

Svona getur þetta verið fyrstu 4-5 æviárin, ef frá er talið það fyrsta. Þannig má segja að barn í 8 tíma leikskóla á virkum dögum  í 4 ár, eyði þar 7240 klukkustundum.

Eftir er að svara spurningunni, að hve miklu leyti þessi 64% af vökutímanum getur talist vera svokallaður „gæðatími“, þar sem foreldrarnir taka með virkum hætti þátt í lífi barnsins: lesa fyrir það, tala við það, kenna því, skemmta sér með því, og svo framvegis. Hve mikill hluti þessa tíma fer í þætti þar sem barnið kemur eiginlega ekki við sögu: samfélagsmiðla, sjónvarp, matargerð, heimilisstörf, heilsurækt, skemmtanir, verslunarferðir og annað að þeim toga?

Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu, en geng út frá því, að foreldrarnir séu þreyttir eftir vinnudaginn og vilji helst hvíla sig. Barnið er einnig þreytt eftir sinn dag sem hefur verið undirlagður af áreiti frá jafnöldrum. Líklega vill það einnig hvíla sig. Það væri ef til vill nær að ætla að virkur tími með foreldrunum sé talsvert lægra hlutfall vökutímans en 64%. Mér kæmi ekki á óvart ef hann er í kringum 30% eða þaðan af minna, en ég ítreka auðvitað, svo sanngjarn sem ég nú er, að þetta bara veit ég ekki og þetta er vísast misjafnt eftir fjölskyldum og fjölskylduaðstæðum.

Til samanburðar og gamans ætla ég að hverfa aftur um 60-70 ár, til reykvískrar fjölskyldu. Fjölskyldur þá voru taslvert barnfleiri en nú, enda svokölluð barnasprengja í gangi, börnin oft 5 eða fleiri. Ekki voru miklir möguleikar á að fá pössun fyrir þessi börn og það kom í hluta konunnar að gæta bús og barna meðan karlinn aflaði tekna til heimilishaldsins.

Ekki veit ég nákvæmlega hvenær dagvistun fyrir börn kom fram á sjónarsviðið fyrst, en hér neðst er umfjöllun frá 1928, sem er gaman að lesa.

Á stríðsárunum var tekið til við að senda börn úr borginni í sveit á sumrin og þá ekki síst vegna hættu á loftárásum á borgina. Á þeim tíma og síðar dvaldi mikill fjöldi reykvískra barna fjarri fjölskyldum sínum yfir sumartímann, annaðhvort á sveitabæjum, eða á sérstökum barnaheimilum. Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom upp og rak heimili af þessu tagi, meðal annars í Laugarási, en þar var, frá 1952, tekið við um 120 börnum, 3-8 ára, til 8 vikna dvalar á sumrin. Sem sagt, börn, allt niður í þriggja ára, voru send að heiman í júní og komu ekki aftur í bæinn fyrr en í ágúst. Þegar ég nefni þetta, tekur fólk andköf. Börnin sem send voru til sumardvalar voru þar í átta vikur, og ef miðað er við sama vökutíma og ég geri hér efst, 14 tíma á sólarhring, gerir það 770 klukkustundir á ári, sem var þá sá tími sem börnin eyddu í umsjá annarra en foreldra sinna. Til upprifjunar þá dvelur 3ja ára barn nú 1810 klukkustundir í umsjá annarra en foreldranna, jafnvel í 4 ár.

Þegar upp er staðið, má segja að aðgengi barna að foreldrum sínum nú, sé umtalsvert minna en á þeim tíma þegar sumardvalarheimili fyrir reykvísk börn voru rekin víða um land.
Til að halda því nú til haga, þá sjá nútímabörnin allavega foreldra sína á hverjum degi.  
Eftir stendur spurningin um nýtingu þess tíma sem börn og foreldrar eru samvistum. Um það má margt segja, en það verður ekki gert hér og nú.

------------------------------------------

Sumargjöfin, í apríl. 1928 

Dagheimilið.

Ilt er að horfa á börnin á götunni hjer í Reykjavík alt sumarið, og góðir þykjast þeir foreldrar og eru það líka, sem hafa einhver ráð með að koma þeim þaðan og upp í sveit einhvern part úr sumrinu. Og þó að þeir sjeu orðnir margir, sem sjá ráð til þess, þá eru hinir fleiri, sem engin hafa ráðin. Barnavinafjelagið Sumargjöf rjeðst í það í fyrrasumar, að hafa nokkurskonar sveitaheimili, getur maður vel sagt, fyrir börn í Kennaraskólanum. Dagheimili var það kallað, því að börnin fóru heim til sín á kvöldin. Tilgangur félagsins var sá fyrst og fremst, að koma þeim, sem þar voru af götunni og veita þeim þar gott heimili, sem var svo í garðinn búið, að þau fengu góðan og einfaldan mat og nóga mjólk, — og vöndust þar góðum siðum, jafnframt því, sem þau gátu lifað lífi sínu úti í Guðs grænni náttúrunni, á Grænuborgartúnunum og melunum þar í kring, laus við götuna og alt, sem henni fylgir. Þyrftu þau einhvers með eða óskuðu einhvers, var hjálpin við hendina, þar sem við vorum, sem tekist höfðum á hendur að vera höfuð heimilisins. Ekki gat heldur verið um það að tala, að hópurinn væri nokkra stund eftirlitslaus, slíkt ungviði, sem þar var saman komið.  

Reynsla var hér engin fyrir, hvernig þetta mætti takast, eða hvert gagn mætti af verða, og undirbúningurinn heldur lítill. Félagið ungt, stofnað um sumarmálin í fyrra, og hafði litlu öðru yfir að ráða, en góðum og einlægum vilja, til þess að verða börnunum að liði. 

2000 kr. sem safnast höfðu á sumardaginn fyrsta í fyrra, var það eina fje, er það byrjaði þessa starfsemi sína með. Með sannfæringu og von þeirra, sem mestan áhuga höfðu fyrir að eitthvað gæti fjelagið gert fyrir uppeldi barna, var byrjað með þessu litla dagheimili, þannig að þó að þessi vísir, sem alveg væri ókunnugt um árangur af, væri lítill, þá myndi fjelagið altaf geta bygt upp af honum og haldið áfram, þótt ef til vill yrði breytt eitthvað til. 

Hvað voru nú börnin að gera? 
Þau veltu sjer og ljeku á túnunum, þau mokuðu upp melinn með skóflum sínum, óku sandi fram og aftur í litlu hjólbörunum. Stundum var stafrófið á ferðinni, blýantar og teiknibækur, og búnir til rammar o. fl. úr basti. Þau hlupu af stað, þegar bjallan kallaði í máltíðir, og þá var að þvo sjer, áður en tiltækilegt var að setjast að borðum, og þá varð oft handagangur í öskjunni, því höndurnar voru margar og moldugar, enda fór líka stundum vatn á gólfið, en þau hjálpuðu sjálf til að þurka það upp, eins og þau líka þurkuðu af í dagstofunni sinni og löguðu þar til á morgnana til skiftis og báru af borðinu eftir máltíðir og sópuðu molana, sem dottið höfðu af borðum. Borð öll og sæti voru lág og við þeirra hæfi. Þegar þau höfðu sest niður að borða, lásu þau öll í einu og hvert fyrir sig góða og gamla borðbæn, tóku "mundlínuna, sem lá í umslagi á hverjum diski og létu framan á sig og tóku sér skamt, eftir að búið var að biðja þau að gera svo vel. Stóðu upp frá borðum þökkuðu fyrir sig og fóru til leikja sinna. Þessu líkt liðu dagarnir þarna þessa tvo mánuði, júlí og ágúst. Foreldrar barnanna voru ánægð með börnin sín þarna, og unnið var í þeim anda eins og áður er áminst, að þau ættu þarna heimili, sem ljeti sjer ant um að þeim liði

18 febrúar, 2018

Af öllu karlkyni meðal yðar skal skera eyrnasnepilinn.

Nýjasta atlagan að trúarbrögðum heimsins er gerð þessar vikurnar. Hún felst í því, að banna með lögum að framfylgt verði á Íslandi sáttmála sem Abraham nokkur, þá 99 ára á að hafa gert við Drottin.  Sáttmálinn fólst í því að Drottinn ætlaði að gera þetta:

Fyrsta Mósebók, 17. kafli

Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."

Á móti átti Abraham að gangast undir þetta:
"Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera".

Ég birti 17. kafla 1. Mósebókar hér neðst, fyrir þau ykkar sem áhuga hafið.

Í þessum kafla kemur fram, að Abraham, sem svo gamall ssem kemur fram hér að ofan muni eignast syni með konu sinni, henni Söru, sem er níræð.
Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem trúa. Þeir hafa fullan rétt á því, og ég er meira að segja svo óstöðugur í vantrú minni að ég tek reglulega þátt í trúarathöfnum.  
Ég trúi ekki á vitleysu.
Þá er auðvitað spurningin: Hvað er vitleysa?  Svarið við henni er ekki einfalt. Mín vitleysa er einhvers annars, jafnvel, dýpsta speki.

Ég er æ meir að komast á þá skoðun, að við (það er að segja þeir sem trúa) veljum það úr helgiritunum sem er okkur þóknanlegt og sem við teljum ekki vitleysu. Tínum til allt það sem styður skoðanir okkar, reynum að líta framhjá hinu og ef við getum það ekki, segjum við ef til vill að það séu breyttir tímar. Við viljum þá ákveða hverju breyttir tímar eiga að fá að breyta. 
Þetta er oft frekar vandræðalegt.

Lengi var hangið á þessu:

Þriðja Mósebók 18. kafli
Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Nú erum við Íslendingar búnir að komast að því, að það sé kannski fulllangt gengið að tala um þetta sem viðurstyggð. Hversvegna skyldi það nú vera?  Ég tel það til komið vegna baráttu fyrir mannréttindum. Texti hinna fornu trúarrita varð að víkja fyrir þeirri ætlan að hver maður skuli njóta sama réttar þau fáu ár í eilífðinni sem hann fær að ganga á þessari jörð.

Eru það fyrst og fremt hagsmunir trúarleiðtoga, eða starfsmanna trúfélaga sem eiga að ráða för, þegar ákveðið er hverju í trúarritum skal framfylgt og hverju má líta framhjá?.

Umskurður ungbarna er aldeilis fyrirlitlegur verknaður. Ekki nenni ég að elta þær röksemdir sem halda  kostum hennar á lofti, þegar trúarrökum sleppir. Í mínum huga eru engin rök fyrir þessari gjörð og ég er hissa á íslenskum kennimönnum sem koma henni til varnar.

Ekki veit ég hvort það er samhengi milli umskurðar og herskárra þjóða, en ég neita því ekki að sú hugsun hefur læðst að mér. Skyldi umskurðurinn mögulega hafa eitthvað með það að gera? Hefur það verið rannsakað?

Kristnir menn ákveða, að reifabörnum sínum forspurðum að bera þau til skírnar. Látum það vera, enda gefst þeim einstaklingum sem skírast færi á því að ákveða síðar hvort þeir staðfesta  skírnina í fermingunni. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni ef það svo kýs. Þar með er skírnin afturkræf aðgerð, gagnstætt umskurðinum. 

Ef Drottinn hefði gert það að skilyrði í sáttmálanum sem hér um ræðir, að skera skyldi eyrnasnepil af drengjum innan 8 daga frá fæðingu, væri það gert enn í dag?  
Hver veit?
Ekki ég, enda á ég oft í braski með að skilja samferðafólk mitt á þessari jörð. 

............................................

Fyrsta Mósebók 17. kafli
Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."
Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði: "Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."
Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera.
Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar.
Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg.
Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli.
En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."
Guð sagði við Abraham: "Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.
Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga."
Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: "Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?"
Og Abraham sagði við Guð: "Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!"
Og Guð mælti: "Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann. Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.
En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári."
Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.
Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum.
Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans,
og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...