17 júní, 2020

Kjölturakki eða mannvinur.


Við ætlum að kjósa okkur forseta eftir nokkra daga. Það er svo sem alltaf gaman að skjótast í kjörklefann og leggja sitt gramm á vogarskálina þar sem ákvarðað er ýmislegt sem lýtur að því samfélagi sem við búum í og byggjum. 

Það hefur einstaka sinnum hvarflað að mér að sleppa því að kjósa, en eingöngu í þeim tilvikum þar sem mér var ljóst í aðdraganda kosninganna, að það skipti hreint engu máli hvar ég myndi setja krossinn, því munurinn á þeim sem buðu sig fram væri eiginlega ekki merkjanlegur. 

Í tvennskonar kosningum kjósum við, eða ættum að kjósa út frá lífsskoðunum okkar, eða gagnrýnum stjórnmálaskoðunum. Í fullkomnum heimi væri það svo. Þetta  eru, sem sagt kosningar til Alþingis og sveitarstjórnarkosningar. Ástæðan er einföld: við erum að kjósa framboð sem kynna fyrir okkur hvað þau vilja gera til að efla og bæta samfélagið okkar. Við kjósum fólk og flokka til að ráða stórum hluta þeirra mála sem tekist er á við í næstu fjögur ár á eftir.

Þriðju kosningarnar eru með allt öðrum hætti, því þá kjósum við okkur forseta til fjögurra ára í senn. 
Það eru ekki stefnumálin sem ráða mestu, þegar við ákveðum hver fær atkvæði okkar, heldur einstaklingurinn, saga hans, persónueinkenni, viðhorf til embættisins, sú sýn sem hann hefur á land og þjóð. Við höfum hingað til, að mestu sneitt hjá frambjóðendum sem hafa einhverjar umtalsverðara rætur í stjórnmálastarfi og þeir forsetar sem hafa, að mínu mati reynst okkur best, eru þeir sem hafa skapað sér nafn utan stjórnmálanna. 

Svo lengi sem ég man eftir (slatti af árum) hefur verið reynt að gera sem mest úr því sem þetta embætti er bara hreint ekki: öryggisventill í þeim tilvikum sem Alþingi gengur í berhögg við vilja þjóðarinnar. Hann eigi að vera til staðar þegar gjá myndast milli þings og þjóðar, eins og það hefur verið kallað. Vissulega er það eitt að mögulegum tilvikum sem forsetinn getur þurft að bregðast við, en almennt séð, þá verðum við, Íslendingar góðir, að taka afleiðingunum að því sem við kjósum í Alþingiskosningum. Byrjum þar og sjáum síðan til hvort nokkurntíma verður þörf fyrir einhvern öryggisventil á Bessastöðum.

Þetta ventilsmál fær alltof mikið pláss í aðdraganda forsetakosninga, kannski vegna þess að þær snúast að lang mestu leyti um persónur, en ekki málefni og það getur verið erfitt að fjalla um frambjóðendur að einhverju marki þegar það eru persónur þeirra, sem mestu ráða við valið. 

Eitt eru forsetakosningar, þegar forseti hefur tilkynnt að hann hyggist láta af embætti. Þá er auðvitað sjálfsagt að fólk sem telur sig eiga erindi, bjóði fram krafta sína í þágu þjóðrinnar.

Annað eru forsetakosningar, þegar sitjandi forseti hefur gefið út að hann hyggist gefa kost á sér áfram, eins og staðan er nú. Hafi forseti gegnt embætti sínu í samræmi við það sem ætlast er til af honum, samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og jafnvel staðið sig betur en margir áttu von á og hafi framganga hans verið með þeim hætti að þjóðin að langstærstum hluta telur að sameini hana frekar en sundri, þá finnst mér að þeir sem hafa löngun til að komast í embættið, ættu að hugsa sig fimm sinnum um. 

Við göngum til forsetakosninga vitandi það, að við erum að kjósa til embættis sem er í raun valdalaust. Því fylgirvissulega formlegt vald, en það ættum við að vita, að valdið til að setja lög í landinu er hjá Alþingi, valdið til að framkvæma samkvæmt lögunum er hjá framkvæmdavaldinu og valdið til að dæma í málum, samkvæmt þeim lögum sem gilda, er hjá dómsvaldinu.  Forsetaembættinu hefur ekki verið ætlaður staður í þessu kerfi.

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.  (Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní)
Ef við skyldum nú vilja breyta eðli þessa embættist þá ættum við að gera það í gegnum stjórnarskrána, en mér er til efs að það sé vilji þessarar þjóðar. 

Forseti Íslands er embætti sem á að stuðla að því að sameina frekar en sundra. Í það finnst mér að eigi að veljast sá sem er maður fólksins, án þess að segjast vera það (Til að ekki misskiljist, þá nota ég þarna orðið "maður" fyrir öll hugsanleg kyn). Hver sá sem stígur fram og lýsir sig vera mann fólksins er það ekki. Vissulega væri hann maður einhvers fólks, en sennilega bara einhvers kima samfélagsins. 

Ætli þetta sé ekki komið nóg í bili. Laugardaginn 27. júni kjósum við forseta. Megi okkur auðnast að kjósa mann fólksins til þess embættis.

--------------------
Þjóðhátíðardagur okkar er í dag, dagurinn þegar við sameinumst um að fagna því að vera ein þjóð í einu landi, stolt af þjóðerni okkar, rembingslaust þó. 

Gleðilega þjóðhátíð.




11 júní, 2020

Kannski öfgakennd fortíðarþrá.

Nei, þetta er ekki eins slæmt og það hljómar, en einhverntíma, meðan Kvistholt var í svokölluðu söluferli, tók ég mig til, með keðjusögina góðu að vopni, og sagaði niður stubb af furutré, sem hafði staðið í svokölluðum Sigrúnarlundi frá því ég var bara barn í Laugarási, en sem var farið að skyggja á pallinn og draga þannig úr möguleikum á sóldýrkunartjáningu okkar Kvisthyltinga.  
Þegar þetta tré hafði verið fellt fyrir einum sjö árum var skilinn eftir um það bils meters stubbur af þessu tré og ég hafði alltaf ætlað mér að saga þennan stubb niður, en það hafði frestast, eins og gengur.

Ég, sem sagt sagaði niður þennan stubb, en í framhaldi af því datt mér í hug, að það gæti verið gaman að taka með, þegar kæmi að flutningum, einhverskonar minjar um trjágróðurinn í Kvistholti. Því varð það úr að ég sagaði stubbinn í sneiðar, sem síðan voru með því fyrsta sem við fluttum á Selfoss.

Ekki hafði ég svo sem ákveðið neitt um hvað gert yrði við þessar furusneiðar - var búinn að ímynda mér einhverskonar minnismerki um fyrri tíð, verk sem myndi ætíð minna okkur á áratugina í Kvistholti. 

Síðan lágu þessar sneiðar hér fyrir utan á nýja pallinum og biðu örlaga sinna. 

Það þurfti að setja upp lampa í hjónaherberginu, því lampalaus getur maður ekki verið. Auðvitað var þarna um að ræða sömu lampa og voru í Kvistholti, hvernig gat annað verið?

Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum, að fD varpaði fram ígrundaðri hugmynd sinni um að nýta furusneiðarnar í tengslum við uppsetningu lampanna í hjónaherberginu. Ég veit ekki hvað mér fannst um þá hugmynd til að byrja með, en smám saman fór ég að sjá fyrir mér leið til að láta hugmyndina raungerast. 
Svo fór undirbúningurinn af stað, og í framhaldi af honum framkvæmdin. Þarna kom WORX-inn í góðar þarfir. Fyrst juðað með mjög grófum og síðan fínum, svo rykhreinsað, þá lakkað, síðan pússað og loks lakkað tvisvar.  Festingaferlið hafði ég á þeim punkti hugsað allt til enda, eins og maður á að gera, enda gekk allt eftir, eins og upp var lagt með. 

Það er ekki amalegt að hugsa sér, að það síðasta sem maður sér fyrir svefninn en sneið af Kvistholti og það er einnig það fyrsta sem maður sér að morgni. 


Nei, þið sem teljið að nú sé heldur langt gengið í þránni eftir því sem var - hér er allt í góðu og við fD erum óðum að ná betri tökum á þeirri nýju tilveru sem við höfum komið okkur í.   Það er hinsvegar gaman að eigna minningar og eitthvað sem kveikir á þeim við og við. 
Það er nefnilega þannig, að ef ekki væri fyrir það sem var, þá væri ekkert núna, og heldur engin framtíð. Okkur er hollt að hafa það bak við eyrað.

06 júní, 2020

Nokkurskonar gestur í eigin landi

Ég þurfti að sinna erindi í Laugarási í dag. Þetta var aldeilis ágætur dagur til þess arna og þorpið í skóginum skartaði sínu fegursta, að stórum hluta (meira um það síðar), enda sá tími ársins þegar gróðurinn er nánast að missa sig í vaxtarþrá. Það var gleðilegt að sjá yfirfull bílastæði við og í nágrenni við Slakka, íslenskir túristar kynntu sér söguna við söguskiltin góðu, fuglar af ýmsu tagi sýndu sínar fegurstu hliðar. 
Sem sagt, gott.
Það verð ég nú að segja, að tilfinningin sem vaknaði við að koma í Laugarás, var harla sérstök og ég er ekki enn búinn að ákveða hvernig best er að láta hana vera, en þykist viss um að ég finn þann farveg sem best hentar. Ég sá útundan mér hvar nýir ábúendur í Kvistholti voru í óða önn að koma sér fyrir..
Ég er viss um að við munum kíkja á þau áður en alltof langt um líður, en sá tími er hreint ekki kominn enn. Við vonum að þeim auðnist að hefja þann góða stað til vegs og virðingar, eins og hann á skilið.
Við höfum nú gert talsvert af því fD og ég að iðka heilsubótargöngur í og í nágrenni Laugaráss. Við gátum ekki annað en rifjað upp fyrri takta þarna, úr því við vorum nú komin á svæðið á annað borð. 
Það er gaman að ganga framhjá stöðum sem er vel við haldið og þar sem snyrtimennska og metnaður fyrir eigin hönd og þorpsins eru höfð í hávegum.  
Af einhverjum ástæðum hefur þeim stöðum farið fjölgandi í Laugarási, sem hefur farið verulega aftur undanfarin ár. Fyrir þessu eru sennilega og stundum örugglega, gildar ástæður, en þó ég búi nú í öðrum hreppi leyfi ég mér að hvetja Laugarásbúa til að gera sitt til að það fólk sem á leið í eða um þorpið fái það á tilfinninguna að þar sé gott samfélag fólks, sem leggur metnað í umhverfi sitt. Það skiptir máli, miklu máli.

Ég veit vel, að ég á ekki að vera að skipta mér af því sem mér kemur ekki lengur við, en almennt séð held ég, að á stað þar sem kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í talsverðum mæli, svona eins og náttúran segir til um, sé það ásýndin sem skiptir harla miklu máli, skiptir jafnvel sköpum hvernig til tekst, svo ekki sé nú meira sagt.

Ég vona að mér fyrirgefist afskiptasemin.



03 júní, 2020

Aldarminning 3 (3)


Í dag er öld liðin frá því tengdamóðir mín fæddist norður í Fljótum. Það er ástæða til að óska afkomendum hennar til hamingju með líf hennar og þennan dag.

Ég kom til sögunnar, sagði ég. Það gerðist um miðjan áttunda áratuginn, þegar Bubba var hálf sextug, á besta aldri, sem sagt. Það fer næstum um mig að hugsa til þess að hún var þá rúmum áratug yngri en ég nú. Á þeim tíma var lífið komið í all fastar skorður á Álfhólsvegi 17A. Dæturnar komnar, eða næstum komnar á skrið með eigið líf, Valdi keyrði sendibílinn sinn og Bubba sótti vinnu í Kóp, sem ég tel að hafi heitið Verslunin Vogar og var á Víghólastíg 15.  Ég minnist hennar fyrst  við að elda mat, vaska upp, reykja Camel og leggja kapal - og vera fyndin. Mér fannst hún vera orðin rígfullorðin, sem er eðlilegt í ljósi þess, að þeim yngri finnst þeir eldri alltaf vera miklu eldri en raunin er.
Samskipti okkar við Valda og Bubbu voru mest í formi heimsókna, enda bjuggum við einhversstaðar "langt uppi í sveit" að mestu, utan þau fjögur ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið milli áranna 1975 og 1979.

Bubba við eldhúsborðið á efri hæðinni að leggja kapal meðan reykurinn liðaðist upp af öskubakkanum, er mynd sem mér dettur alltaf fyrst í hug varðandi tengdamóður mína. Mig minnir að hún hafi einhverntíma hætt að reykja, en þar sem henni var fyrirmunað að segja ósatt, þar sem svipbrigðin komu upp um hana, tókst henni ekki að fela það þegar hún sprakk á limminu og fór að reyna að reykja í laumi.


Eftir að starfsævinni utan heimilis lauk fór konan að taka þátt í starfi eldri borgara í Kópavogi, stundaði sund og spil svo lengi sem heilsan leyfði. 
Kapla lagði hún og ég held bara að þegar upp var staðið hafi kapall lífs hennar gengið upp. Að því búnu kvaddi hún í rólegheitum, 85 ára að aldri, þann 15. október, 2005.


Ég æt fylgja hér með minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma. 

Þegar maður er orðinn 85 ára er svo sem við öllu að búast. Undir það síðasta var eins og Bubba teldi sig vera búna að neyta fylli sinnar af þeim skammti sem hún hlaut af gnægtaborði jarðlífsins. Hún var líklegast tilbúin þegar kom að kveðjustund. Þeir sem eftir lifa þurfa að sætta sig orðinn hlut þótt það geti verið sárt um stund. Þeirra upplifun af ömmu í Kópavogi breytist í góðar minningar og þakklæti fyrir samfylgdina.

Það er ekki annað hægt að segja en að tengdamamma hafi farið hljótt um jarðlífið; giftist Valda sínum og saman komu þau 4 dætrum á legg við Álfhólsveginn í Kópavogi. Hún vann lengst af starfsævinnar við verslun og þegar starfi hennar á vinnumarkaðnum lauk tók hún eins mikinn þátt í tómstundastarfi með eldri borgurum í Kópavogi og henni reyndist unnt. Hún fór reglulega á spilakvöld og var þátttakandi í sundhópi eins lengi og heilsan leyfði. Hún var mikil félagsvera og ég held að henni hafi þótt það miður síðustu mánuðina að geta ekki sinnt félagslífinu eins mikið og hún hefði kosið. Heima við stytti hún sér stundir með því að leggja kapal eða spila við þá sem komu í heimsókn og deildu með henni spilaáhuganum. Snjáður spilastokkurinn var alltaf á vísum stað.

Þegar reynt að gera manneskju einhver skil eftir 30 ára kynni, getur verið vandi að finna rétta flötinn, en það fyrsta sem mér kemur til hugar um persónueinkenni tengdamömmu er, að mér finnst hún hafa verið hálfgerður grallari. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna þessi mynd birtist mér; líklegast þó í tengslum við umræður okkar um menn og málefni gegnum árin. Hún var alltaf tilbúin til að fjalla um stjórnmálaástandið á hverjum tíma; oft lét hún gamminn geisa í þeim efnum og í þeirri umræðu hallaði á hægri öflin og peningahyggjuna í samfélaginu.

Almennt held ég að megi segja að Bubba hafi átt góða ævi, þrátt fyrir að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðum áföllum. Þau hjónin misstu tvö börn við fæðingu og það hefur tekið á þegar bóndinn veiktist alvarlega á blómaskeiði lífsins og hún þurfti að sjá um öll mál á stóru heimili.

Ég heyrði Bubbu aldrei hafa mörg orð um byrðar sem voru lagðir á herðar henni, enda má segja að þegar hún stendur upp frá borðinu og vaskar upp eftir borðhaldið, geti hún bara verið stolt af afkomendunum 39, tengdabörnunum og honum Valda sínum, sem hún gekk með í gegnum súrt og sætt í ríflega sextíu ár.

Blessuð sé minning Guðbjargar Jónsdóttur.

02 júní, 2020

Aldarminning 3 (2)

Framhald af Aldarminning 3 (1)
Æska og unglingsár
Ég tók mig nú til og leitaði í kirkjubækur til að átta mig á hvernig leið tengdamóður minnar lá þar til hún hleypti heimdraganum og hélt suður á bóginn.  Hún var fædd í Fljótunum þann 3. júní, 1920, en fjölskyldan er skráð til heimilis á Eyrargötu 14 á Siglufirði í desember það ár. Í næstu skráningu sem ég fann fjölskylduna þá bjó hún í Einarshúsi á Sauðárkróki frá 1925 til 1927 og síðan í nýju húsi sem bar nafnið Hestur í þeim bæ til í það minnsta 1938. Bubba fór hinsvegar suður 1937 og var þá skráð til heimilis á Leifsgötu 13.
 

Ekki ætla ég að þykjast vita hvaða ástæður lágu að baki því að hún flutti suður, sautján ára gömul, en reikna með að það hafi tengst vinnu af einhverju tagi.

Borgarstúlkan  

Hún var í Reykjavík þegar stríðið skall á í Evrópu, svo mikið veit ég. Hagaði lífi sínu þar, væntanlega ekki ósvipað því sem ungt fólk gerði. Af þessu fer ekki sögum, í það minnsta eru þær fjarri því að vera til í mínu höfði. Ég legg ekki í að leita í kirkjubókum Reykavíkurprófastsdæmis frá þessum tíma 
Það fer hinsvegar ekkert á milli mála þegar börn fæðast, því það er skráð í bak og fyrir  og þannig var það að Bubba eignaðist dóttur í júlí, 1942, sem hlaut nafnið Pálína. Ekki geri ég ráð fyrir að það hafi reynst henni auðvelt, frekar en öðrum konum á þeim tíma, að ala barn utan hjónabands, en hvað veit ég svo sem um það? 

Hjónaband og börn
Með tveggja ára dóttur sína gekk hún að eiga framtíðar eiginmanninn Þorvald Runólfsson, í júni, nokkrum dögum áður en lýðveldi var stofnað á Íslandi. Hann gekk dóttur Bubbu í föður stað og þau héldu saman inn í framtíðina, sem ekki reyndist nú verð alveg áfallalaus.
Eins og gengur og gerist í lífinu, fylgdi það hjónabandi þeirra Bubbu og Valda, að skella sér í barneignir. Fyrsta barn þeirra, sem var stúlka, fæddist 28. júlí, 1946. Hún lést sama dag.
Annað barn þeirra, drengur, fæddist 28. mars, 1948. Hann lést fjórum dögum síðar, þann 8. mars.
Þessi fáu orð sem ég nota hér til að skrá þetta, tjá auðvitað ekki þá miklu sorg sem missir barnanna hlýtur að hafa verið.
Þriðja barnið eignuðust hjónin síðan í nóvember, 1952, dótturina Sóley Stefaníu, það fjórða í september, 1954, dótturina Auði og loks örverpið, sem leit dagsljósið í ágúst, 1956, dóttur sem hlaut nafnið Dröfn.
Þegar þarna var komið, voru þau flutt í húsið sem þau byggðu við Álfhólsveg 17 í Kópavogi, en það gerðu þau árið 1947. 

Erfiður tími enn
Undir lok sjöunda áratugsins (er mér sagt, en tíminn er ekki alveg á hreinu) fór Valdi að kenna sér alvarlegs meins, sem leiddi til þess að að þurfti að dvelja alllengi í Danmörku til lækninga. Þar með kom það í hlut Bubbu að ala önn fyrir dætrum sínum, þrem ungum og einni sem nálgaðist tvítugt. Ekki var um annað að ræða fyrir hana en að finna sér starf utan heimilis, auk þess að sjá um allt sem að laut að heimilisrekstrinum.  Ég fjölyrði ekkert um þetta, enda veit ég fátt og helsta heimild mín harla fáfróð líka, þó svo hún hafi nú tilheyrt dætrahópnum.
Valdi komst yfir veikindin, kom heim og tók til við að aka sendibíla, sem hann gerði æ síðan. Bubba sótti áfram vinnu sína í verslun sem kallaðist eða hét Kópur og stóð þar sem Víghólastígur og Brattabrekka mætast.

Þá rann upp minn tími

..... og....., jæja, ætli ég geymi það ekki um stund.

31 maí, 2020

Aldarminning 3 (1)

Það er eitthvað að byrja að líða á ævina þegar maður sest við að skrifa einhverskonar aldarminningu um foreldra sína og tengdaforeldra. Svona gengur þetta nú samt fyrir sig, þetta líf. Það er óumbreytanlega samtvinnað tímanum og þar með getur leiðin í gegnum það aðeins verið ein, frá upphafi til enda. Þetta vitum við allt fyrirfram.

Ég hef nú þegar sett niður í þessum fjölmiðli mínum punkta um ævir föður míns, Skúla Magnússonar og tengdaföður, Þorvaldar Runólfssonar. Nú er komið að því að fjalla lítillega um tengdamóður mína, sem hefði orðið 100 ára þann 3. júní, næstkomandi, en hún fæddist á þeim degi, árið 1920.


Guðbjörg Petrea Jónsdóttir, eða Bubba, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist á Barði í Fljótum þann 3. júní árið 1920, sjöunda í röð 9 systkina. Hún var skírð á Barði þann 17. júní og hlaut nafnið Petrína Guðbjörg, samkvæmt kirkjubókum. Því hefur verið gaukað að mér að hún hafi einhverntíma látið hafa eftir sér, að hún hafi verið skírð Guðbjörg að fyrra nafni, en presturinn hafi skráð það vitlaust. Ekki nóg með þetta, heldur virðist nafnið Petrína í kirkjubókinni hafa breyst með árunum Í Petrea. Presturinn sem skírði og skráði nafnið í kirkjubókina virðist hafa verið sr. Stanley Guðmundsson eða Stanley Melax, en hann tók við Barðssókn þetta ár.


Í athugasemd í kirkjubókinni, þar sem greint er frá skírn Bubbu, segir: náðist ekki í annan karlvott, barnið var lasið og skírn mátti ekki dragast. Þar með voru þrír skírnarvottar: tvær konur og einn karl.

Foreldrar og systkini

Móðir Bubbu var Anna Egilsdóttir (1882-1959) 
Húsfreyja í Mósgerði í Flókadal, Skag. og síðar á Sauðárkróki. Húsfreyja á Sauðárkróki 1930 (Íslendingabók)
Faðir hennar var Jón Jónsson (1887-1961) 
Var á Arnarstöðum, Fellssókn, Skag. 1890. Bóndi í Mósgerði í Flókadal, Skag. Síðar verkamaður og beykir á Sauðárkróki. Verkamaður á Sauðárkróki 1930. (Íslendingabók).
Í kirkjubókinni sem birt er skjámynd úr hér að ofan, eru þau sögð vera "húshjón á Barði" árið sem Bubba fæddist. Þá höfðu þau þegar eignast sex börn og ætla ég að reyna að finna þeim stað hér fyrir neðan, eftir föngum, en upplýsingar um þau sem fædd voru fyrir 1920 er að finna í manntali frá því ári:

Áslaug (1913-2004) 
er skráð til heimilis að Bæ 2 í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Hjú í Bæ, Hofssókn, Skag. 1930. Fósturfor: Stefán Jóhannesson og Hólmfríður Margrét Þorsteinsdóttir. Ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá Stefáni Jóhannessyni f. 1874 hálfbróður móður sinnar. (Íslendingabók)
Hólmfríður (1914-1993) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Vinnukona á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. á Sauðárkróki. (Íslendingabók)

Jóhannes Pétur (1915-1967) 
er skráður til heimilis að Syðra Ósi í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Ólst að miklu leyti upp hjá móðurbróður sínum Jóhannesi Egilssyni f. 1885. Verkamaður og sjómaður í Reykjavík. Ókvæntur og barnlaus. (Íslendingabók)
Guðvarður Sigurberg (1916-1996) 
er skráður til heimilis að Steinavöllum í Haganeshreppi í Skagafjarðarsýslu. þar ber hann nafn þáverandi bónda á bænum, sem hét Guðvarður Sigurberg Pétursson. 
Málarameistari á Siglufirði og Akureyri. Var á Illugastöðum, Knappstaðasókn, Skag. 1930. Fósturfor: Guðvarður Pétursson og María Ásgrímsdóttir. Verkamaður á Siglufirði 1946. Síðast bús. á Akureyri. (Íslendingabók)
Ingibjörg Egilsína (1917-1989) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja og verkakona í Hafnarfirði. (Íslendingabók)

Sigvaldi (1919-1993) 
er skráður til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Vinnumaður víða. Sjómaður á Dalvík og síðar í Reykjavík. Síðast bús. í Reykjavík. (Íslendingabók)
Marsibil (1923-1991) 
fæddist á Sauðárkróki. Hún var húsmóðir í Hafnarfirði og á Lambeyri í Tálknafirði. (Íslendingabók)
Þóra (1926-1997) 
var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja á Hallgilsstöðum í Hörgárdal í Arnarneshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Hún var síðast búsett á Akureyri. (Íslendiingabók)

Sex af þessum níu systkinum ólust upp með foreldrum sínum, síðast á Sauðárkróki. Fátt veit ég um þessi fjölskyldumál og því bera fæst orð minnsta ábyrgð. Ég verð samt að draga þá ályktun að ekki hafi verið mulið undir þessi börn.

Krákustaðaætt
Í manntali 1850 Bjuggu á Krákustöðum í Hrolleifsdal í Skagafjarðarsýslu, hjónin Þorsteinn Þórðarson og Guðrún Guðvarðardóttir. Á bænum var þá tvítugur sonur þeirra, Guðvarður (1831-1905) og einnig léttadrengur, tvö tökubörn og vinnukona.
Guðvarður tók svo við búinu á Krákustöðum og kvæntist Sigurbjörgu Margrétardóttur (1824-1900).
Eitt átta barna þeirra var Hólmfríður (1859-1942). Hún eignaðist barn 1887, með manni að nafni Jón Jónsson (1860-1941). Ári síðar giftist hún eiginmanninum Pétri Péturssyni og eignaðist með honum fjögur börn, en sonurinn sem hún hafði eignast með Jóni Jónssyni hlaut nafnið Jón og var þá auðvitað Jónsson. Það var einmitt þessi Jón Jónsson sem eignaðist Bubbu og systkin hennar með konu sinni Önnu Egilsdóttur.
Flókið? Nei, það held ég ekki.
Frá þeim Þorsteini og Guðrúnu á Krákustöðum er sprottin Krákustaðaætt.

Hér eru nokkrar myndir frá því þegar afkomendur vitjuðu Krákustaða 2008.
Fyrst kort af þessum afskekkta dal, Hrollleifsdal.

 
Svo myndir, sem segja það sem hægt er að segja, aðallega af afkomendunum að drekka í sig anda liðins tíma og reyna að sjá fyrir sér hvernig lífið hefur verið á þessum afskekkta stað á 19. öldinni. Þar er ekki margt sem minnir á það líf sem þarna fékk að verða til og dafna, áður en það dreifðist um land allt og víðar.





framhald ......

30 maí, 2020

Þetta smáa

Við fD erum flutt úr Kvistholti, sem er í sjálfu sér frétt, allavega hvað okkur varðar, skiptir aðra líklega minna máli.
Það er nefnilega þannig, að fólk flytur og sjaldnast telst það einhver stórfrétt.
Þrátt fyrir lítið fréttagildi þessara umskipta, eða umturnunar á lífi okkar, má halda því fram að hvert einasta litla skref, eða atriði sem tengist þessum flutningum, sé þess virði að halda því til haga.

Þegar maður hverfur úr talsvert stóru einbýlishúsi eftir tæplega fjögurra áratuga dvöl og tekur sér bólsetu í tiltölulega lítilli blokkaríbúð í öðru sveitarfélagi, er að ýmsu að hyggja.
Verkefnið sem við blasir, er að finna öllu því stað , sem ekki hlaut þau örlög að hverfa ofan í gám í Vegholtinu. Þetta verkefni er stærra en margur kann að hyggja, ekki síst þegar um er að ræða að koma fyrir því sem búrið og eldhússkáparnir í Kvistholti geymdu. Vissulega eru skáparnir margir og rúmgóðir á Austurveginum á Selfossi, en það, í sjálfur sér leysir ekki þann vanda sem við blasir: að koma þar öllu fyrir, þannig að vel sé aðgengilegt og henti íbúunum, helst ekki síður en áður var.

Ég veit það, af áratuga reynslu, að ég telst ekki hæfur til ákvarðana af því tagi sem þarna er um að ræða. Hefði ég farið að raða í skápana, hefði það leitt til allskyns spurninga og upphrópana, eins og: Afhverju er þetta hér? Hvernig datt þér í hug að setja þetta hér? Það er alveg glatað að hafa þetta hér!
Ég veit nú ekki hvað þú varst að pæla, eiginlega!
Af þessum sökum, hallaði ég mér í sófann, meðan fD tíndi upp úr flutningagrindunum og inn í skápana eftir einhverju kerfi, sem hún hafði búið til í höfði sér og sem ég vissi ekkert um hvert var, fyrr en eftir á. Þessi aðgerð tók dágóðan tíma og mér fór jafnvel að renna í brjóst í sófanum meðan hún stóð yfir.
Svo lauk verkinu.
Svo kom að því að mig langaði í kaffi og eins og hver maður getur ímyndað sér fann ég það hvergi. Ég opnaði skáp eftir skáp, eftir skáp, bæði útdregna og með hurðum, en ekkert fann ég kaffið. Leitinni lauk þannig að ég stóð þarna fyrir framan óræða eldhúsinnréttinguna og braut heilann með það að markmiði að freista þess að komast inn í hugarfylgsni fD: Hvar er líklegast að hún hefði sett kaffið?
"Hvað vantar þig?" hljómaði spurningin upp úr kaplinum.
"Mig vantar kaffið. Hvar tókst þér eiginlega að koma því fyrir?"
"Nú, auðvitað er það þarna í efri skápnum vinstra megin við eldavélina!"
Hvar annarsstaðar svo sem?
Ég fékk svo útskýringu að kerfinu sem fD hafði beitt við að raða í skápana (allavega sem eru í þeirri hæð sem hún getur teygt sig í).
Kerfið hljóðar, í sem stystu máli upp á, að allt var sett á hlutfallslega sama stað og það hafði verið í Kvistholti. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á ýmsum göllum á þessu kerfi. Bæði er það svo, að í Kvistholti er vaskurinn vinstra megin við eldavélina, öfugt við Austurveg og að allt það sem var í búrinu í Kvistholti þurfti nýjan og fordæmalausan stað á nýjum stað.

Þetta kerfi á sjálfsagt eftir að venjast, en enn þarf ég að beita talsverðri hugarleikfimi til að komst hjá því að opna alla skápa í eldhúsinnréttingunni ef mig vantar eitthvað af einhverju.

Svo er það þetta með vangavelturnar um það hvort rafmagnið á Selfossi fari hægar en rafmagnið í Kvistholti, en þær vöknuðu þar sem beðið var eftir að suðan kæmi upp í hraðsuðukönnunni.

--------

Í gær gengum við frá kaupsamningi vegna sölu á Kvistholti og afhentum nýjum eigendum formlega.  Kaupendurnir eru þau Anna Margrét Elíasdóttir og Árni Ingason, en þau flytjast úr Kópavogi á þann fagra og ljúfa stað, sem þorpið í skóginum er.

23 maí, 2020

Tími breytinga


Fardagar voru þeir dagar ársins sem fólk skyldi flytjast búferlum af einni jörð á aðra og átti það fyrst og fremst við um leiguliða. Þeir voru frá fimmtudegi í sjöundu viku sumars íslenska misseristalsins á tímabilinu 31. maí til 6. júní í Nýja Stíl og lauk með sunnudegi. Voru þeir því um miðjan skerplu samkvæmt misseristalinu og lok vors og upphaf sumars samkvæmt Snorra-Eddu.
Ekki er vitað hvenær þessi siður var fyrst tekin upp það er að allir skyldu flytjast búferlum af einni jörð á aðra á sama tíma árs sem þó augljóslega er mikið hagræði af. En svo gömul er þessi hefð að fardagar eru nefndir í íslenskum fornritum og kemur þar fram að þeir tíðkuðust einnig í Noregi og líklega víðar og voru því ekki bara bundnir við Ísland. /íslenskt alamank
Kvistholt 1984
Lóðina fengum við þegar foreldrar mínir afsöluðu sér svæðinu sem þau höfðu þurft að taka á leigu þegar þau gerðu Hveratún að lögbýli, eftir að þau komu sér þar fyrir 1946. Þarna byggðum við okkur síðan hús  sem við fluttum í haustið 1984 og  1988 byggðum við þarna gróðurhús.
Þetta var nú þá.

Svo liðu árin og börnin uxu úr grasi, hægt og hljótt og flugu síðan úr hreiðrinu eitt af öðru og að því kom að við hættum að hafa þörf fyrir gróðurhúsið og stóran hluta íbúðarhússins.
Þarna vorum við þá orðin ein eftir í talsvert stóru einbýlishúsi, eigendur gróðurhúss, sem við vorum hætt að nota. Það var í rauninni ekkert sem átti að koma í veg fyrir að við kæmum okkur í hæfilegra húsnæði, þar sem við þyrftum ekki að ganga framhjá tómum herbergjum til að komast á milli þeirra hluta hússins sem við þó notuðum. Ég held að þetta sé saga margra, einfaldlega vegna þess að svona gengur þetta líf nú fyrir sig.
fD byggir gróðurhús
Við vildum í rauninni ekki fara úr Laugrási - ég vegna þess að þar fæddist ég og ólst upp og  fD, sem hafði sætt sig við að setjast þar að með mér, hafði fest þar talsvert djúpar rætur.
Það hefur ekki farið á milli mála, að Laugarás skipti og skiptir okkur miklu máli og því sambandi er ekki lokið.

Það tók okkur nokkur ár að komast að þeirri niðurstöðu, að stefna að því að færa okkur um set og ýmislegt kom til greina, svo sem. Stærsta ákvörðunin var að fara, hin var einhvernveginn auðveldari, þar sem fD hafði ákveðnar skoðanir á því hvar hún vildi ekki koma sér fyrir. Ég greini ekki frá nöfnum þeirra bæja vítt og breitt um landið, sem ég hef stungið upp á, en sem hefur jafnharðan hefur verið hafnað. Það geri ég þeirra vegna, enda ágætis bæir, flestir hverjir.

Það varð á endanum niðurstaða um það, þegar skynsemin og raunsæið hafði náð yfirhöndinni, að leggja í það ferli sem sala á svona hjartastað felur í sér. Það ferli hefur tekið meira á en ég, í það minnsta, hef tjáð mig mikið um. Þetta reyndist verða tími biðar og óvissu og lengri en við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Skildum bara ekkert í fólki að stökkva ekki á þá dásemd sem þarna er um að ræða.  Auðvitað hafði maður líka skilning á því að svona kaup færi enginn út í nema að vel athuguðu máli og allt það.

Nýtt heimili.
Nú erum við flutt með hafurtask okkar á staðinn sem ég hef oft kallað höfuðstað Suðurlands. Þessir fyrstu dagar hérna eru talsvert óraunverulegir. Það er eins og við séum bara á ferðalagi, en munum síðan í lok þess, snúa aftur heim. Það er hinsvegar sannarlega ekki svo. Hér erum við í óða önn að koma okkur fyrir og ég stelst í smá pistlaskrif til að hvíla hugann frá einhverjum verklegum framkvæmdum.
Svo þarf að fara í búð, sem er með fyrirkomulagi sem er nokkuð ný reynsla. Þó hér séu uppi hugmyndir um að haga búðarferðum bara eins og þegar við vorum í Kvistholti, þegar farið var í kaupstað einu sinni í viku að jafnaði, er óljóst enn hvernig fer með það. Ég bíð spenntur framtíðarinnar að þessu leyti.

Höfundur á ballárum. Mynd: Eiríkur jónsson
Hvernig er það svo að vera orðinn Selfyssingur? Það er góð spurning, sem ég treysti mér ekki til að svara sjálfum mér, enn sem komið er.  Á Mánaböllunum í gamla daga voru það alltaf Selfyssingar sem stóðu fyrir slagsmálunum (þannig var allavega rætt um það). Ég hef ekki rekist á slagsmálafólk hér, ennþá, og reikna ekkert sérstaklega með að svo verði. Margt ágætis fólk býr á Selfossi (ég segi það ekki vegna þess að ég óttast að verða barinn) - í það minnsta það fólk sem ég þekki til hér.
Vissulega verður maður minni hérna - með þvi að flytja úr 120 manna þorpi í tíuþúsund manna bæ. Líklega má telja það bara harla jákvætt, að mörgu leyti.



Svo er það þetta með fuglana á pallinum.
Þeirra mun ég sakna talsvert, söngvanna inn á milli trjánna, slagsmála þeirra á fóðurpallinum, tístsins í ungunum á vorin, varnaðarhrópa þrastanna þegar köttur nálgast, ánægjusöngvanna þegar þeir sitja mettir uppi í tré eftir góða máltíð, dynsins sem hundruð snjótittlinga valda þegar þeir taka á loft, allir sem einn ......
Ég þarf bara að finna mér nýja fugla og er þegar kominn með lílega kandídata. Framhjá hafa, síðustu daga, streymt glæsikerrur með splunkuný hjólhýsi og svei mér ef það er ekki bara nokkuð gaman að fylgjast með þegar nýju hjólhýsaeigendurnir reyna að komast áfram í umferðinni fyrir utan gluggann minn.
Hvert skyldu þeir vera að fara?
Ætli þeir komi við í Bónus?
Hvað ætli svona hjólhýsi kosti?
Hve miklu máli skyldi það skipta stolta eigendurna, að vera með svona falleg hjólhýsi í eftirdragi?  Svona er hægt að velta ýmsu fyrir sér, en ég mun líklega ekki taka upp á því að sitja með EOS-inn á nýja pallinum mínum og taka myndir af spegilgljáandi hjólhýsum farfuglanna úr borginni.

Það sem skiptir nú mestu nú, er ekki endilega umhverfið, sem við eigum eftir að aðlagast betur, heldur aðstaðan - þessi fína nýja íbúð, sem er bara með herbergjum sem við notum á hverjum degi, með palli sem er jafnstór pallinum í Kvistholti, bara tveim hæðum ofar.

Mig grunar að þetta verði bara harla gott og á örugglega eftir að fara betur yfir ýmsa þætti þessa nýja lífs síðar.

13 maí, 2020

Bjart framundan i Skálholti

Það er fagnaðarefni, að það blasa nú við tímamót í Skálholti, með miklu átaki til að efla staðinn á mörgum sviðum. Það er auðvitað ekki mitt að segja frá því, nákvæmlega, hvað stendur fyrir dyrum á þessum mesta kirkju-, menningar- og sögustað landsins, en hugmyndirnar sem hafa verið á borðinu, eru nú að raungerast þannig, að þegar 60 ára verða liðin frá vígslu dómkirkjunnar, sumarið 2023, verður Skálholt komið í þann búning að við getum, kinnroðalaust, fjallað um og litið til með stolti.
Það liggur sem sagt fyrir, að framkvæmdir í Skálholti hafa verið fjármagnaðar og engin ástæða til annars en trúa því, að þar verði tekið til hendinni  svo um munar, frá og með þessu sumri.

Ég hef, í mínum pistlum hér, tæpt á ýmsu því sem mér hefur þótt mega fara betur á staðnum og ég sé ekki betur en öll þau mál verði tekin fyrir og talsvert umfram það.

-------

Alloft hefur Skálholt komið við sögu í skrifum mínum hér, gegnum árin og má hverjum þeim sem lesið hefur, vera ljóst að viðhorf mín til staðarins eru af ýmsum toga af ýmsum ástæðum. Tenging mín við þennan mikla stað í sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir að ég hafi búið í tveggja kílómetra fjarlægð frá honum lungann úr ævinni, hefur verið frekar brösótt, oft á tíðum, mögulega aðallega vegna þess að hann er þjóðareign og lýtur eða hefur lotið valdi sem situr á Reykjavíkursvæðinu, eða "fyrir sunnan", eins og sagt er.  

Við, íbúar í neðsta hluta Biskupstungna, tilheyrum Skálholtssókn. Skálholtskirkja telst því vera sóknarkirkja okkar. Ég held ég megi segja að við höfum ekki náð að líta á eða hugsa um dómkirkjuna í Skálholti sem slíka, í raun.  Ætli megi ekki segja að kjallarinn í biskupshúsinu, þar sem messur fóru fram áður en dómkirkjan reis, hafi verið meiri sóknarkirkja í hugum íbúanna.

Ég held og vona, að nú sé að verða umtalsverð breyting á málefnum sem tengjast Skálholti og sannarlega vona ég að það leiði til þess, að staðurinn öðlist þann sess í hugum fólks í Skálholtholtssókn að það telji, umfram aðra íbúa landsins, hann vera sinn stað, . 

Ég get ekki látið hjá líða, að benda ykkur, sem kunnið að hafa áhuga á því sem fram fer í Skálholti og taka þátt í að fjalla um staðinn og stuðla að uppbyggingu hans, að ganga í Skálholtsfélagið hið nýja, sem er vettvangur fyrir fólk sem áhuga hefur á Skálholti og vill efla staðinn, ekki bara sem þjóðareign, heldur ekki síður sem mikilvægan þátt í lífi okkar sem búum í nágrenninu. Ég veit að það er mikill vilji til þess hjá þeim sem nú eru við stjórnvölinn á staðnum, að tengja hann í ríkari mæli byggðinni í næsta nágrenni.

Svæðið neðst í Biskupstungum finnst mér hafa alla burði til að eflast enn frekar með því að það verði skipulagt sem ein heild, enda er Langasund ekki lengur sú landfæðilega hindrun sem hún var, til dæmis þegar Ólafur Einarsson, héraðslæknir kom með fjölskyldu sína í Laugarás árið 1932:
Fjölskyldan kom með bíl að Skálholti, en þá var ekki kominn akfær vegur í Laugarás, aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss (Langasund) var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.
Dóttir Jörundar Brynjólfssonar fylgdi hópnum yfir mýrina í áttina að Auðsholtshamri og síðan um slóða eftir Laugarásholtinu, að læknisbústaðnum.
Úr viðtali sem ég átti við börn Ólafs Einarsson og Sigurlaugar Einarsdóttur, 
sem mun birtast á vefnum laugaras.is og í Litla Bergþór innan skamms. 


36. Langasund (48) er langt og sunnan til allbreitt mýrarsund. Í því miðju er leirkelda mikil, sem mér er ekki kunnugt um, að heiti sérstöku nafni fyrr en suður við Söðlahól (sjá nr. 38). Þar er hún orðin æði vatnsmikil og nefnist þá Pollrás (49) (nr. 39). Vatnið úr þessari löngu keldu, sem skilur lönd Skálholts að vestan og jarðanna Höfða og Laugaráss að austan, fellur frá brúnni sunnan við Söð[ul]hól eftir skurði, sem grafinn var snemma á þessari öld út í Undapoll; skilur þessi skurður [að] lönd Skálholts og Laugaráss. 
 Sigurður Skúlason
Nokkur örnefni í Skálholtslandi
Inn til fjalla. Rit Fél. Biskupstungnamanna í Reykjavík. II 1953



23 apríl, 2020

Sjálfum okkur næg

Aftast á myndninni eru Ellý, frænka úr Vestmannaeyjum
og móðir mín, Guðný Pálsdóttir. Þar fyrir
framan er Ella frænka (formaður félags eldri
borgara í Biskupstungum) og síðan ég sjálfur.
Fremst stendur Magnús bóndi í Hveratúni.
Ég fæddist inn í garðyrkjuna, en sannarlega ætla ég ekki að halda því fram að störfin sem mér var ætlað að sinna á garðyrkjustöð foreldra minna á æskuárum hafi verið sérlega skemmtileg; planta út, binda upp, brjóta þjófa, blaða, hreinsa götur, tína, vökvar (með slöngu), planta út. Nei, mér fannst þetta ekki neitt sérstaklega áhugaverð vinna, en hún var nú bara hluti af því að tilheyra svona fjölskyldu.
Það sem hefur eiginlega valdið mér einna mestum vangaveltum, þegar ég horfi til baka í samhengi við nútíma garðyrkju er, hvernig foreldrar mínir fóru að því að lifa af og ala upp 5 börn á ekki stærri garðyrkjustöð en Hveratún var.  Það var engin lýsing í gróðurhúsum og því lauk ræktun í október og það fór ekki að koma uppskera aftur fyrr en í apríl eða maí. Þetta þýddi að 5 mánuði ársins (svona um það bil) voru engar tekjur af þessum rekstri. Ég skil þetta ekki alveg enn.


Grunnur að gróðurhúsi í Kvistholti steyptur.
Ásamt mér sjálfum ber ég þarna kennsl á soninn
Þorvald Skúla og Skúla Sæland með hjólbörur.
Það leit  lengi vel ekki út fyrir að ég kæmi nálægt garðyrkju eftir að ég hleypti heimdraganum, en það æxlaðist samt þannig, að 1988 byggðum við, Kvisthyltingar 400 ferm gróðurhús, blokk, og hófum að rækta papriku, meðfram öðrum störfum. Þetta kom sér sannarlega vel, þar sem tekjur að aðalstarfi mín voru í mikilli lægð og svo virtist sem það starf þætti ekki ýkja mikilvægt í samfélaginu.
Þessi paprikuræktum bjargaði okkur sannarlega, en hafði það augljóslega í för með sér, að enginn varð frítíminn. Jólafríið fór í að hreinsa húsið, síðan fóru allar helgar í að sá, potta og planta út,  páskfríið fór í að sinna plöntum og sumarfríið frá kennslunni var undirlagt, eins og nærri má geta, því þá var uppskerutíminn.

Kvistholtshjón vinna vorverk í gróðurhúsinu.
Þetta "vinnurugl" var látið ganga fram undir aldamót, en þá var þráin eftir sumarfríi orðin of mikil, auk þess sem tekjuflæðið inn á heimilið orðið umtalsvert betra.
Þriðji þátturinn, og sá mikilvægasti, ef til vill, sem varð til þess að við hættum paprikuræktuninni var sá, að innflutningur á papriku var orðinn hömlulaus. Þetta hafði það í för með sér, að verslanirnar fóru að selja erlendu paprikuna fyrst og þá íslensku þegar upp á vantaði. Sölufélagið seldi svo elstu paprikuna á lagernum í búðirnar, þannig að þaðan kom alltaf gömul og jafnvel krumpuð, íslensk paprika, sem rétt  má ímynda sér að féll neytendum ekkert sértaklega vel í geð. Þar fyrir utan, auðvitað, var íslenska paprikan umtalsvert dýrari en sú innflutta og hver maður, sem vill á annað borð, getur ímyndað sér hversvegna það var nú.

Fjölskyldan tók öll þátt, hver með sínum hætti. Þarna eru
Brynjar Steinn og Guðný Rut að vinna við papriku vorið 1990
Því sem ekki tókst að koma út með þessum hætti var svo hent og það var kallað afföll.  Þetta var nefnilega þannig, að innflutninginn þurftu innflytjendur að greiða fyrir og tapið af því sem ekki seldist lenti á versluninni. Því var henni meira í mun að selja hann en íslensku vöruna, því það sem ekki seldist af innlenda grænmetinu fór í afföll (var hent), eins og það var kallað. Verslunin þurfi ekki að taka þátt í þeim afföllum, það þurftum við, ræktendurnir, að gera.

Eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er ég nú loksins kominn að því sem varð kveikjan að þessum pistli á sumardaginn fyrsta, árið 2020, í miðjum heimsfaraldri; faraldri sem ekki sér fyrir endann á, en hefur orðið til þess að ég og sennilega flestir íbúar jarðarinnar, veltum fyrir okkur hvaða áhrif verða af þessu stóráfalli sem nú ríður yfir okkur.

Það voru líka ræktaðar gulrætur um tíma. Þarna brjóta fD og
Brynjar Steinn af  sumarið 2002.
Mín niðurstaða, eða bráðabirgðaniðurstaða, í það minnsta er sú, að við þurfum að fara að hægja aðeins á okkur, ekki bara aðeins, heldur bara alveg heilmikið. Þar er sannarlega að mörgu að hyggja.

Lega þessa lands okkar er þannig, að sumt getum við, en annað getum við ekki.
Við getum framleitt nóg af papriku fyrir okkur og þess vegna eigum að ekki að flytja inn papriku.
Við getum framleitt ísmola og þessvegna eigum við ekki að flytja inn ísmola.
Við getum framleitt nóg af lambakjöti fyrir okkur og þessvegna eigum við ekki að flytja inn lambakjöt.
Við getum ekki framleitt bíla (enn) og þess vegna skulum við flytja inn bíla.
Við getum ekki framleitt tölvuskjái (enn) og þess vegna skulum við flytja inn tölvuskjái. 
Við getum ekki framleitt myndavélar (enn) og þessvegna skulum við flytja inn myndavélar.

Þorvaldur Skúli bindur upp papriku árið 2002.
Það eru ótal ástæður fyrir því, að við eigum nú að stefna að því að verða sjálfum okkur nóg um allt það sem við getum framleitt sjálf. Þar er ekki síst um að ræða matvæli af ýmsu tagi.

Ég þykist vita að til séu þeir sem hafa ýmislegt að athuga við hugmyndir um að stöðva innflutning á matvælum sem við höfum fulla getu til að framleiða sjálf. Það veit ég, að útfærsla á svona hugmyndum er ekkert endilega  einföld, enda ekkert æskilegt að hún sé það.  Mikilvægur þáttur í að hrinda þeim í framkvæmd er, að hætta að hlaupa eftir kröfum innflytjenda um afnám tolla á matvæli. Þeir hafa, að mínu mati, fengið að vaða upp alltof lengi og í alltof miklum mæli. Þegar þeir svo þykjast bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti, þá veit ég, að þeir eru að verða rökþrota.  Í þeirra huga snúast kröfurnar hreint ekki um neytendur, heldur hagsmuni þeirra sjálfra.

Við getum ræktað nóg af grænmeti fyrir þessa þjóð og við getum gert það á lægra verði. Til þess þurfum við að búa til aðstæður sem gera það kleift og þar skiptir, til dæmis, raforkuverð miklu máli; vistvæn raforka sem nóg er til af, sem hægt væri að selja á miklu lægra verði en gert er, jafnvel svipuðu og stóriðan greiðir fyrir þessa auðlind okkar.

Hvað með alþjóðasamninga og tollfrelsi eða hvað þetta kallast allt saman? Svar mitt við því er einfalt: flytjum inn það sem við getum ekki séð um að framleiða sjálf, bæði okkar vegna og  umhverfisins vegna. Þær aðstæður sem uppi eru núna: veirufaraldur sem skekur heimsbyggðina og bætist þannig við vaxandi loftslagsvá, ættu að kenna okkur, að hver þjóð verður að vera sjálfri sér næg um þá þætti sem stuðla að því að hún lifi af mögulegar hamfarir. Sú þjóð sem ekki áttar sig á þessu, er ekki í góðum málum.

Verum sjálfum okkur næg.

Gleðilegt sumar og þakkir til ykkar 
sem kíkt hafið að þennan litla miðil minn, á liðnum vetri.

Farinn að nálgast það að ljúka ævistarfinu.
Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni
tínir steinselju.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...