04 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (1)

Baugsstaðir líklega á 3. áratug 20. aldar.
Líklegast er það Páll Guðmundsson, afi minn, sem 
stendur úti á hlaði með hendur á mjöðm.
(mynd frá Baugsstöðum)
Það sem hér fer á eftir byggir að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.

Verði áhugasömum að góðu.

Jörðin Baugsstaðir er elsta byggt ból í Stokkseyrarhreppi og jörðin er kennd við Baug Rauðsson, fóstbróður Ketils hængs. Ekki meira um Íslendingasögur.

Um 1270 átti Þeóbaldus Vilhjálmsson frá Odda jörðina og hafði þá kaup á henni við Árna biskup Þorláksson: lét biskup fá Baugsstaði, en tók í staðinn Dal undir Eyjafjöllum. Baugsstaðir voru síðan stólsjörð fram undir lok 18. aldar, eða í meira en 5 aldir.  Þegar stólsjarðirnar voru síðan boðnar upp 1788, keyptu  þáverandi Baugsstaðabændur, Magnús Jónsson (sjá síðari færslu) og Einar Jónsson, jörðina, 23 hundruð og 80 álnir, fyrir 154 ríkisdali 72 skildinga. 

Brynjólfur “sterki” Hannesson - á Baugsstöðum 1703-1722

Árið 1703 var Brynjólfur “sterki” Hannesson (1654-1722) kominn að Baugsstöðum, en hann var farinn á búa á Skipum 1681 og var þar til 1697. “Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi, gildur bóndi og efnaður vel. Hann var lögréttumaður í Árnesþingi á árunum 1688-1710 og naut trausts og virðingar. Hann var annálaður kraftmaður og hraustmenni og kallaður “hinn sterki”. Er til saga ein er sýnir það og er hún á þessa leið:

«Svo er sagt, að ferðamaður einn hafi flutt á gráum hesti tvö heilanker með brennivíni, og reið dálítil stelpa ofan á milli. Þessi maður neitaði Eiríki á Vogsósum um brennivín og sagðist ekkert hafa. Fór Eiríkur heim við það. Segir nú ekki af ferð mannsins fyrr en hann kemur austur á Sandamót. Þá fer Gráni að draga fram undan, ok kom hann að ferjustaðnum í Óseyri, áður en lestin kom svo nærri að hún sæist. Margir ferðamenn voru fyrir við ferjustaðinn og var einn þeirra Brynjólfur bóndi á Baugsstöðum, orðlagður kraftamaður.  Gráni lagði þegar út í , en Brynjólfur var nærstaddur og vildi taka hann, en varð of seinn til að ná í beizlið. Þreif hann þá annarri hendi stelpuna, en hinni undir klyfberabogann og tók svo fast í að gjarðirnar slitnuðu; fór Gráni austur yfir allslaus en Brynjólfur hélt eftir klyfberanum, ankerunum og stelpunni, en reiðingurinn datt í ána. Þegar Eiríki var sagt frá þessu svaraði hann:» Sterkur maður er Brynjólfur á Baugsstöðum, heillin góð!».» (Huld 1. b. bls. 132)

Brynjólfur var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Vígdís Árnadóttir (1659) frá Súluholti. Frá þeim er komin svokölluð Baugstaðaætt.

Brynjólfur og Vígdís bjuggu einbýli á Baugsstöðum, og með þeim hófst jörðin aftur til forns vegs og virðingar. Niðjar þeirra hafa búið á Baugsstöðum nær óslitið síðan.  Þau áttu nokkur börn, meðal annars Bjarna Brynjólfsson.

Bjarni Brynjólfsson (1695 - um 1758).  Á Baugsstöðum 1722-1758.

Bjarni var með efnuðustu bændum hreppsins. Hann var lengi hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi. Bjarni og kona hans Herdís Þorsteinsdóttir frá Hróarsholti,  eignuðust dótturina Vilborgu Bjarnadóttur (1730). Herdís bjó áfram góðu búi á Baugsstöðum eftir lát Bjarna og var talin ein fyrir jörðinni til ársins 1775.

Vilborg Bjarnadóttir (1730)

Vilborg giftist Einari Jónssyni (1719-1796) úr Skúmsstaðahverfi á Eyrarbakka. Hann var áður fyrir búi Herdísar, tengdamóður sinnar. Einar var einbirni og erfði allmikil efni og hann bjó góðu búi.  Hann var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi á árunum 1768-1775.

Frá árinu 1775 hafa Baugsstaðir verið tvíbýli.

---------- 1788 - Einar og Magnús kaupa Baugsstaði ----------

Einar keypti hálfa Baugsstaði 1788, þegar stóljarðirnar voru seldar, á móti Magnúsi Jónssyni (sjá framhaldsfærslu). Vilborg eignaðist með manni sínum Einari Jónssyni (1719-1796), soninn Jón Einarsson.

Hér fyrir neðan er rennt yfir eigendur þess hluta Baugsstaða sem Einar Jónsson keypt, en um hluta Magnúsar Jónssonar er fjallað í næsta þætti: HÉR

Jón Einarsson (1765-1824)

Jón var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi í 31 ár, en lét af því embætti 1823, vegna sjónleysis og talið að þá hafi hann verið orðinn alblindur. Hann var lengi formaður og var meðal annars á sjó þegar Guðmundur sonur hans drukknaði í Tunguósi árið 1810.  

Jón var góðmenni og gæflyndur og virðist hafa verið mannúðarmaður. Hann var efnaður vel og góður bóndi. Dánarbú hans nam nærri 900 ríkisdölum og voru þar í jarðirnar hálfir Baugsstaðir, Eystra-Geldingaholt, Sumarliðabær í Holtum og partur úr Kirkjuferju í Ölfusi.

Jón var tvíkvæntur, en síðari  kona hans var Sesselja Ámundadóttir (1778-1866), dóttir Ámunda Jónssonar, smiðs í Syðra-Langholti. Þau eignuðust meðal annars dótturina Margréti Jónsdóttur. Eftir lát Jóns var Sesselja skráð eigandi á Baugsstöðum nokkra mánuði 1824. Hún giftist aftur, Þorkeli bónda Helgasyni sem taldist eigandi jarðarinnar frá 1824 til 1826. Hann mun ekki hafa unað á Baugsstöðum, þar sem hann hneigðist frekar að sauðfé en sjóróðrum. Því hafði hann ábúðarskipti  við Ólaf Nikulásson í Eystra-Geldingaholti, en Sesselja, kona Þorkels, átti báðar jarðirnar.

Þau Sesselja og Þorkell voru barnlaus, en Margrét, dóttir hennar og Jóns Einarssonar, erfði hálfa jörðina eftir móður sína. Frá því Jón lést og til 1849, þegar Guðmundur Jónsson (sjá neðar) kom til sögunnar, bjuggu afkomendur Brynjólfs ”sterka” ekki á Baugsstöðum, en helmingur jarðarinnar var áfram í eigu þeirra.  Frá 1826, á þeim hluta Baugsstaða sem tilheyrði þessum afkomendu, bjuggu Ólafur Nikulásson (1826-1846, Solveig Gottsvinsdóttir (1846-1853, Guðrún Guðmundsdóttir 1853-1875 og Þorsteinn Teitsson 1876-1882.

Margrét Jónsdóttir (1804-1897)

Margrét giftist Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) bónda á Minna-Núpi. Fyrir utan það, að þau voru foreldrar Brynjólfs, fræðimanns (1838-1917), eignuðust þau soninn Guðmund Jónsson ásamt allmörgum öðrum börnum.

Margrét tók hluta eignarhluta föður síns, Jóns Einarssonar, í arf eftir hann og sá hlutur gekk síðan til  Guðmundar Jónssonar, sonar hennar. 
Bróðir hennar Einar Jónsson í Hólum erfði hinn  hlutann, sem síðan gekk til sonar hans Bjarna (f. 19. maí 1837) og loks einnig til Guðmundar Jónssonar.


Guðmundur Jónsson
(1849-1918).

Guðmundur kvæntist Guðnýju Ásmundsdóttir frá Haga í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust tvo syni, Siggeir Guðmundsson (1879-1918) og Pál Guðmundsson (1887-1977).

Guðmundur var kominn á Baugsstaði, árið 1861, þá 13 ára, sem vikadrengur hjá Guðrúnu Guðmundsdóttir ekkju (45) og Jóni Einarssyni, fyrirvinnu (39). Hann var síðan skráður þar til 1866 sem léttadrengur og síðan sem hjú, hjá Magnúsi Hannessyni (1818-1893) og Guðlaugu Jónsdóttur (1826-1890), foreldrum Elínar Magnúsdóttur, sem síðar giftist Jóhanni Hannessyni.

Það var svo árið 1883 að Guðmundur er kominn á Baugsstaði ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur og 4ra ára syni, Siggeir. Árið 1887 eignuðust þau hinn son sinn, Pál, afa minn.

 Guðlaug Jónsdóttir lést árið 1890 og Magnús Hannesson árið 1893.

Svo fóru málin að flækjast.

Næst greini ég frá þeim eigendum jarðarinnar, sem keyptu hinn hlutann, þarna í lok 18. aldar.


FRAMHALD

27 júlí, 2022

Tengslin við Fjall á Skeiðum.

Það eru áratugir síðan ég kom síðast að Fjalli á Skeiðum, en þangað ókum við fD, alla leið í hlað fyrir skömmu. Einhver kann að spyrja hvað leiddi okkur þangað, umfram eitthvert annað. Því skal ég reyna að svara, þó fá ykkar nenni að lesa - það kemur í ljós.
Þetta hófst með því, að langa- langafi minn og amma, þau Ásmundur Benidiktsson (1827-1917) og Sigurlaug Jónsdóttir (1830-1915) fluttu frá Stóru-Völlum í Bárðardal, suður Sprengisand, í Haga í Gnúpverjahreppi árið 1870, ásamt börnum sínum, meðal annars dótturinni Guðnýju (1853-1920), sem varð síðar langamma mín í móðurætt.

FJALL

Í Haga voru þau síðan til 1892, en fluttu þá með Vigfúsi syni sínum (1859-1945), að Fjalli á Skeiðum, þar sem hann varð bóndi. Í Fjalli var þá tvíbýli. Þrjú önnur barna þeirra Ásmundar og Sigurlaugar fluttu með þeim: Benedikt, Halldór og Ingibjörg. Í Fjalli voru þau síðan til 1898.
 
ÁRHRAUN
Árið 1898 fluttu þau til sonar síns Ásgeirs (1863-1947), sem þá bjó konulaus í Árhrauni. Með þeim fluttu þangað, þau Benedikt og Ingibjörg ásamt sonarsyninum Theodór Jónssyni (1884-1963). Í Árhrauni voru þau síðan til 1909.

KÁLFHOLTSHJÁLEIGA
Gömlu hjónin fluttu ásamt syni sínum, Ásgeiri, að Kálfholtshjáleigu í Ásahreppi og þar voru þau til dauðadags. Þau voru jarðsett í Stóra-Núpskirkjugarði. Benedikt, sem var geðfatlaður (Valdimar Briem sagði hann "vitfirrtan") flutti með systur sinni, Ingibjörgu, að Vesturkoti í Ólafsvallahverfinu á Skeiðum.

Fjallað eru nokkuð ítarlega um þennan legg ættar minnar HÉR.




Legsteinn Ásmundar og Sigurlaugar á Stóra-Núpi.





06 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (8 - lok))

Torre Civica í Bergamo
...Framhald af þessu.

Fimm rétta máltíðin í San Martino della Battaglia og beinakapellan Ossario di san Martino virtust ekki hafa haft nein sýnileg skaðleg áhrif á Flóamenn. Morgunverðinum voru gerð góð skil og síðan fór hver að sinna sínu: pakka niður í töskurnar, fanga síðastu augnablikin á sundlaugarbakkanum, gera upp við hótelið, eða bara íhuga allt það sem á dagana hafði drifið. Þarna var, sem sagt, kominn síðasti dagur þessarar langþráðu ferðar Kirkjukórs Selfosskirkju til Ítalíu. Nú lá fyrir að kveðja Gardavatnið og halda áleiðis til Malpensa flugvallar við Mílanó. Þetta var svo bara gert og gekk áfallalaust fyrir sig.
Hvort það var tilviljun, veit ég ekki, en ferðaáætlunin gerði ráð fyrir, að á leiðinni á völlinn, yrði komið við í Bergamo.
Ástandið er sérstaklega slæmt í bænum Bergamo. Þar hefur herinn þurft að grípa inn í flytja lík frá bænum til brennslu. Um sextíu lík voru flutt í gærkvöldi. Líkbrennslan í Bergamo getur sinnt um 25 líkum á dag, sé hún starfrækt allan sólarhringinn. (Vísir.is 19. mars, 2020)

Já, einmitt. Þarna þurfti að halda okkur við efnið - minna okkur á að Covid er hreint ekki horfið úr  veröldinni. Bergamo fékk aldeilis að kenna á því, en bar þess engin sjáanleg merki þar sem hópurinn brunaði í hlað, eftir gatnakerfi sem sagt var frekar erfitt viðureignar. Leiðin lá  að toglest, einhverskonar, sem flutti grímubúinn hópinn alla leið upp í gömlu borgina, þar sem ýmislegt var að sjá og reyna, feikna mikla dómkirkju, teiknimyndabók eftir Íslending og trufflusveppi í búðarglugga, bar sem tók við 500 kalli íslenskum, sem óbeina þóknun fyrir að fá að pissa í sérkennilegt salerni, matsölustað sem lokaði um miðjan dag og fleira og fleira. 


Meðan á heimsókninni þarna í Bergamo stóð, kom tilkynning um seinkun á fluginu til Íslands um klukkutíma. Síðar kom svo tilkynning um klukkutíma seinkun í viðbót, en svo kom í ljós, að meðvindur frá Íslandi varð til þess að seinkunin varð ekki nema klukkutími og tuttugu mínútur. 
Fararstjórinn sleppti af hópnum hendinni við flugstöðna, eftir að hafa bent á lyftu sem þyrfti að taka til að komast í innritunarsal. Flestum gekk nokkuð vel að finna lyftuna og síðan rétta hnappinn til að ýta á, en í einhverjum tilvikum þurfti að gera fleiri tilraunir til að komast upp í risastóran sal, þar sem við tók heillöng bið eftir að innritun hæfist, bið sem kostaði einhvern dýrasta bjór á jarðríki, en að því kom að innritunin hófst og þá einnig biðin í röðinni. 

Þar sem við fD komum loks að innritunarborðinu, bar ég fram hina augljósu beiðni: "Getum við ekki setið saman?" og svar hinnar ítölsku innritunarkonu var þvert nei og þá varð ég ósköp sorgmæddur á svipinn og tók ekki eftir hvort fD setti um samskonar svip, eða einhvern allt annan. Í framhaldinu setti ég upp "gerðu það" svipinn og í framhaldi af því, svona til að veita náðarhöggið, dró fram fegursta bros sem ég átti til, en þar er úr ýmsu að velja.
Þetta varð til þess að stöðva alla innritun í talsvert langan tíma, þar sem allar innritunarkonurnar, sem voru þrjár, tóku til við að ræða þessa uppákomu fram og til baka og meira að segja ég var farinn að hafa samviskubit yfir að hafa valdið því, að ferðalangarnir sem biðu eftir að komast að, urðu að bíða þarna von úr viti. Ætli afgreiðsla mál okkar hafi ekki tekið 5-10 mínútur. Þar kom þó, að ákvörðun hafði verið tekin, og orðalaust prentaði innritunarkonan mín út brottfararspjöldin og hinar tvær tóku til við að afgreiða bíðandi fólkið í röðinni á ný.  Brottfararspjöldin okkar fD sýndu, svo ekki varð um villst, að okkur voru ætluð sæti hlið við hlið og þar að auki talsvert framarlega í vélinni. Þar sem við tókum við spjöldunum og ég rak augun í sætanúmerin, setti ég upp geislandi gleðibros, en tók ekki eftir hvort fD gerði hið sama.  Þá var þetta frá.

Engin athugasemd var gerð við okkur í vopnaleitinni, utan að ég lenti í úrtaki vegna mögulegs fíkniefnasmygls og viti menn, grunur minn var staðfestur, ég hefði, samkvæmt mælingum sem gerðar voru, ekkert verið að fást við slíkt, en það vissi ég svo sem fyrir. Alltaf gott að fá staðfestinguna, samt.

Þar sem hópuinn týndist inn á fríhafnar- veitinga- og brottfarasvæðið, kom fljótt í ljós að veitingastaðir og verslanir voru að skella í lás, hvert af öðru. Þar með var ekkert annað að gera, en bíða. Þá þarf stundum að leita eftir aðstöðu til að púðra nefið og fD rakst á skilti sem benti í ákveðna átt þar sem slíka aðstöðu væri að finna. Svo hvarf hún inn eftir löngum og breiðum gangi og fylgdist grannt með öllum skiltum sem gáfu til kynna hvar aðstaðan væri. Þar kom, að ég var farinn að leggja drög að því að senda út leitarflokk, en til þess kom þó ekki, enda birtist frúin í nokkru ójafnvægi og hafði þá tekið einhverjar beygjur sem höfðu ekki leitt hana aftur til mín. Ég skildi hana vel.

Það er svo sem ekki frá mörgu að segja í viðbót. Úr ríflega 30°C hita (reyndar með smá aðlögun á leiðinni) stigum við út í norðan strekking og 6°C fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjarlægð hópferðabifreiðarinnar sem beið okkar var slík, að sólarlandakvartbuxurnar sem ég hafði valið sem heimferðarfatnað gerðu minna en ekkert gagn til skjóls frá þeim íslenska veruleika sem þarna beið okkar.   Ferðin austur gekk bara vel og hlýtt rúmið hrópaði. Það fékk ósk sína uppfyllta þegar klukkan var að verð 04.30 að morgni.

----------------------

Þessi Ítalíuferð var afskaplega vel heppnuð og við fD afar þakklát fyrir hafa, þrátt fyrir að hafa bara lagt fram krafta okkar í einn vetur, fengið að taka þátt. Undirbúningur að ferðinni hafði staðið árum saman, en af ástæðum sem allir þekkja frestaðist hún nokkrum sinnum.

Nú er framundan að njóta íslenska sumarsins, laus við allar áhyggjur að öngþveiti á erlendum flugvöllum.



02 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (7)

... framhald af þessu.

Litla hugmynd hafði ég um það sem framundan var, þar sem ég sleikti sólskinið á sundlaugarbakkanum á Hótel Oliveto að morgni og fram eftir degi  7. dags Ítalíuferðarinnar (24. júní) sem hér hefur verið til umræðu. Jú, ferðaáætlunin greindi frá því að síðdegis lægi leið okkar til San Martino della Battaglia þar sem ein stærsta orrusta fyrir tíma heimsstyjaldanna átti sér stað og sem varð til þess að Ítalía varð að einu ríki. Jú það var talað um litla beinakapellu, og Rauðakrosssafn. Þá var tilgreint að veitingastaðurinn sem við ætluðum að fara á væri þarna á svæðinu.  Svo hélt ég bara áfram í sólbaðinu og öðru því fylgir því að skjótast í skemmtiferð til Ítalíu. 


Klukkan 17.30 á þessum degi var lagt í hann til San Martino della Battaglia til að snæða mikinn hátíðarkvöldverð, enda síðasta kvöld ferðarinnar og mikið stóð til.  Þegar við komum á staðinn lá leiðin fyrst í litla kapellu, svokallaða beinakapellu, sem kallast Ossario di san Martino. Það sem við blasti þar innan dyra var ekki alveg það sem ég hafði búist við. Veggurinn þar sem altari er venjulega að finna, var mótaður úr ótal hauskúpum fallinna hermanna í orrustunni miklu og ef litið var niður sáust á neðri hæð staflar af beinum þessara hermanna.  

Að sögn fararstjórans kviknaði hugmyndina að þessari minningarkapellu eftir að stöðugt voru að finnast fleiri líkamsleifar fallinna hermanna á svæðinu árin eftir orrustuna.

 


Orrustan við Solferino (24.  júní, 1859)
Úrslita átökin í stríðinum um sameiningu Ítalíu í eitt ríki. Þjáningar særðra hermanna, sem fengu enga aðhlynningu urðu kveikjan að stofnun Rauða krossins.
Frakkar of Sardiníumenn undir stjórn Napóelons II börðust við Austurríkismenn. Fyrstu skotunnum var hleypt af um klukkan þrjú um nóttina og klukkan sex var orrustan háð af fullum krafti. Sumarsólin skein á um það bil 300.00 hermenn sem slátruðu hver öðrum. Síðdegis tóku Austurríkismenn að hopa af vígvellinum og um kvöldið var vígvöllurinn þakinn líkum meira en 6000 hermanna og 40000 særðir lágu eins og hráviði um völlinn.
Kórinn í Ossario kapellunni (mynd Garðar Már Garðarsson)

Sjúkralið Frakka og Sardiníumanna réði engan veginn við verkefnið sem við blasti; franski herinn hafði færri lækna á sínum snærum en dýralækna, engin flutningatæki voru fyrir hendi og hjúkrunarvörur höfðu ekki verið í farteskinu. Þeir hinna særðu, sem það gátu, komu sér til þorpsins Castiglione, sem var í nágrenninu til að leita matar og vatns, en þangað komust um 9000 manns sem ollu yfirþyrmandi álagi á þorpið og þorpsbúa. Í kirkjunni, Chiesa Maggiore, sinntu Henri Dunant og þorpskonurnar hinum særðu og deyjandi í þrjá daga og þrjár nætur. (vefsíða ICRC - Alþjóða Rauða krossins)

Þarna í San Martino er að finna turn sem reistur var til minningar um Viktor Emmanúel II konung og þá sem börðust á árunum 1848-1870 fyrir sjálfstæði Ítalíu sem ríkis. Hann stendur á hæstu hæðinni í San Martino. Hæðin náðist og tapaðist í ítrekuðum árásum í grimmilegum bardaganum og það var loks her Sadiníumanna sem náði henni og hélt.

Allt um það. Eftir að hafa orðið fyrir talsverðum áhrifum af  þessari ógnvænlegu sögu lá leiðin í veitingastað þar sem fimm rétta máltíð var borin fram, sungið og ávörp flutt, áður en heimleiðis var haldið til að gista síðustu nóttina á Ítalíu. 

Ekki neita ég því að ég leiði hugann að því, eftir að hafa komið á þennan stað, að landamæri þjóða hafa orðið til með því að úthella blóði æskumanna, enn þann  dag í dag.

Svo var bara að svífa inn í svefninn og halda áfram með lífið.



 



 




01 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (6)


... framhald af (1), (2), (3), (4) og (5)

"O Romeo, Romeo,
wherefore art thou Romeo?
Deny thy father and refuse thy name,
Or if thou wilt not, be but sworn my love,
And I’ll no longer be a Capulet."

 Fram undir kl. 16 á þessum ágæta degi, 22. júní, 6. degi ferðar kirkjukórs úr Flóanum til Ítalíu, var mikilvægt að nýta tímann vel, enda ferðafólkinu frjálst að taka sér það fyrir hendur sem best hentaði. Sumum þótti henta að leigja sér reiðhjól á hótelinu og bruna á rafknúnum (eða fótstignum) fararskjótum um nágrennið, eða bara "fara eitthvað og gera eitthvað", eins og stundum er sagt á þessu heimili. Við fD og allmargir aðrir, töldum hinsvegar tíma okkar betur varið á sundlaugarbakkanum eða ofan í lauginni, enda mikilvægt að safna D-vítamíni fyrir veturinn og að ná sér í aðeins fegurðaraukandi brúnku fyrir óperusýninguna miklu sem framundan var.  Ský voru þarna farin að skyggja á sólina við og við, svo þetta var allt eins og best varð á kosið. Hlé gerðum við á sólböðum um miðjan dag til að leggja steini lagðar gangstéttir til miðbæjarins undir fót. Þar nutum við matar, Aperol spritz og Negroni í miklu hófi áður en leið okkar lá aftur á hótelið, til andlegs undirbúnings fyrir ferðina til Verona.

Rauðu hringirnir vísa á heimili Rómeós og Júlíu

Verona er borg elskenda, þar sem þar eiga að hafa gerst þeir atburðir sem urðu Shakespeare að yrkisefni í leikritinu "Rómeó og Júlía" eins og allir ættu nú að vita. Ég neita því ekki, að það hefði verið gaman að eyða öllum deginum í þessari borg til að kynnast sögusviðinu. Á kortinu hér til hægri má sjá (rauðir hringir) heimili þeirra Júlíu og Rómeós.  Eftir á að hyggja hefði heill dagur í borginni auk óperusýningarinnar sennilega orðið heldur stór biti að kyngja og það verður því að bíða betri tíma. 

A  I  D  A   í  Arena di Verona

Hringleikahúsið mikla sem leið okkar lá í, var byggt árið 30 e.Kr og man því tímana tvenna. Það skemmdist talsvert í jarðskjálfta árið 1117, en þá hrundi ysti hringur byggingarinnar.  En, hvað um það, fólksflutningabifreiðin sótti hópinn á hótelið kl. 16 og þá kom í ljós, að einhverjir úr hópnum ætluðu bara hreint ekki að leggja í þessa ferð, sem kom mér nokkuð á óvart, þar sem ég hafði litið að þetta sem hápunkt þessarar utanlandsreisu. Auðvitað má fólk hafa mismunandi skoðanir á þessu sem öðru og að ýmsu leyti gat ég skilið - óperur eru ekki allra og ég get ekki hreykt mér af því að vera mikill óperuunnandi, þó svo ýmsir hlutar margra þeirra séu meðal fegurstu perla tónbókmenntanna.  Ég var ekki mikið búinn að kynna mér söguþráð þessarar óperu fyrirfram, en vissi að þar mátti finna ýmsa perluna, eins og t.d. þetta: SIGURMARSINN

Á Castelvecchio brúnni
Ekki segir af þessari ferð fyrr en til Verona var komið. Fólksflutningabifreiðin flutti okkur yfir ána  Adige, og setti okkur út þar sem gula brotalínan sýnir á myndinni hér fyrir neðan. Þaðan gengum við aftur yfir ána um Castelvecchio brúnaog síðan lá leiðin eftir Rómarvegi (Via Roma) allt þar til komið var á torgið og að styttu Viktor Emanúels II, en þar skyldi fólkið hittast á fyrirfram ákveðnum tímum, svo allt færi nú ekki í vitleysu í mannmergðinni sem væntanleg var á þetta torg þegar nær drægi sýningunni, en Arenan mun taka um 22.000 manns í sæti.


Eftir að hópurinn hafði fengið að teygja úr sér og jafnvel fengið sér eitthvað í gogginn, svo ekki sé nú minnst á Aperol spritz, kom hann saman við styttu Viktors Emanúels, þar sem talning fór fram, en síðan leiddi fararstjórinn kórfólk og maka eins og leikskólabörn að hliði nr. 61. Það varð að klára allt vatn sem var með í för og fara í gegnum vopnaleit, en þar sem við höfðum ekki tekið með okkur neina hríðskotariffla eða handsprengjur, sluppum við öll nokkuð auðveldlega í gegn. Eftir það hófst ganga niður tröppur og síðan upp mjög brattar tröppur, áður en sjálf dýrðin blasti við og það var nú bara talsvert magnað, skal ég segja ykkur. Við fD fengum sæti á fremsta bekk (sjá rauða punktinn á myndinni fyrir ofan) og vorum heppnari en margur annar að því leyti. Þau sem sátu fyrir ofan okkur greindu frá því að stutt væri í sætisbökin fyrir framan þau og fyrir einstaka í hópnum, sem voru óþarflega langleggjaðir fyrir slíkar aðstæður, reyndust sætin nánast óbærileg. Þau voru úr járni og ófóðruð með öllu, þannig að það var nauðsynlegt að hafa með sér rasspúða, sem seldir voru fyrir utan Arenuna og auðvitað höfðum við fD haft vit á því. 


Rétt í þann mund er óperan var að byrja, gengu í salinn glæsikvendi með fylgdarliði og þar sem þær nálguðust sviðið hófust myndatökur með þær í forgrunni, sem stóðu yfir allt þar til fyrstu tónar forleiksins liðu um hringleikahúsið.
Ég ætla nú ekki að fara að fjalla um um þessa óperusýningu, listfræðilega, enda hef ég lítið vit á þessu listformi. Ég get þó sagt, að uppsetningin var stórfengleg og textinn sem sunginn var, birtist á stórum skjá (sjá efstu myndina), sem hjálpaði mikið til við að skilja það sem fram fór. 


Vegna þess að ég þekki aðeins til tenóra, verð ég að segja það að ég var ekkert sérlega hrifinn af þeim sem þarna söng hlutverk Radamésar, en þar mun hafa verið um að ræða tenór að nafni Yusif Eyvazov frá Azerbaijan, sem mun vera svo heppinn að vera maki hinnar stórfrægu sópransöngkonu Önnu Netrepko, sem til skamms tíma var ein aðal söngkonan í Metropolitan óperunni í New York, en mun hafa horfið þaðan eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Þarna vorum við, sem sagt komin í óbeina tengingu við heimsmálin og þær hörmungar sem saklaust fólk þarf að líða vegna vitbrenglaðs einræðisherra. Mér fannst rödd Yusufs ekkert sérstök sem sagt, hvað sem líður Pútín og brölti hans.

Þetta kvöld var mikil upplifun og er ánægður með að það skyldi hafa verið hluti af dagskrá þessaarar Ítalíuferðar, þó svo ekki geti ég sagt að ég hafi verið yfir mig hrifinn af öllu, og hafði vissan skilning á sessunaut mínum (altso hinum, en ekki fD) sem lýsti því yfir í hléi, að hún/hann væri bara farin(n), en fór þó ekki. 

Klukkan var að verða tvö um nóttina þegar við komum heim á hótelið, örþreytt auðvitað, en þetta var aldeilis ekki búið. 







30 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (5)

Athugasemd neðst, ef athugasemdar er þörf.
...framhald af  (1), (2), (3) og (4)
Ja, hvað skal segja?  

Feneyjadagur
Ekki varð annað séð, að morgni 5. dags þessarar kórferðar (22. júní), en að fólk hefði haft sæmilegt taumhald á sér á Borgo la Caccia kvöldið áður. Enginn svaf yfir sig, sem var eins gott því þarna var dagurinn tekinn snemma og framundan heill dagur Feneyjaferðar. 
Feneyjar kallast Venezia á máli innfæddra. Fólksflutningabifreiðar þeirra Ítala eru af nýjustu og bestu gerð og bílstjórarnir alla ferðina stóðu sig óaðfinnanlega. Ferðin til Feneyja var hinsvegar dálítið löng, kannski vegna þess að þar höfðum við fD verið áður, í lúxusferð með Hófí hjá  Bændaferðum á fljótandi hóteli. Við  reiknuðum ekki með að sjá eitthvað nýtt þarna, sem varð svo sem raunin.

Hinsvegar reyndum við að hegða okkur eins og við værum orðin heimavön og lá nærri nokkrum sinnum að það yrði dýrkeypt, en ekki svo nærri að það sé umfjöllunarvert hér. 
Eftir að strætóbátur hafði skilað hópnum á bryggju skammt frá Markúsartorginu, gekk hópurinn, eftir miklar brýningar um tímasetningu á brottför síðdegis, sem leið lá að torginu þar sem hina frægu basíliku heilags Markúsar er að finna.  Við fD höfðum, held ég, ætlað okkur að fylgja bara hópnum til að njóta leiðsagnar fararstjórans inn á torginu, en það fór á annan veg, þar sem náttúrukraftar gripu í taumana, með þeim afleiðingum að ég og tveir aðrir eiginmenn, stóðum og biðum frúnna þriggja sem hurfu inn þrönga götu, eftir að hafa séð skilti á vegg, sem á voru letraðir stafirnir W og C.
Sá staður sem hér var um að ræða, reyndist vera talsvert lengra í burtu en vonast hafði verið eftir og því var hópurinn horfinn veg allrar veraldar, þegar aðgerðum lauk og frúrnar snéru til baka. Eftir þetta vorum við fD bara þarna á röltinu, aðallega eftir rangölum borgarinnar, stöðugt ögrandi ratvísinni eða til að kíkja í eitt og eitt glas af Aperol spritz eða Negroni (annar ofurvinsæll sumardrykkur þarna syðra).  
Þegar upp var staðið vorum við búin að þræða ótrúlegustu rangala, en hefði getað gengið betur að villast. Þarna í Feneyjum eru nefnilega tveir aðal staðir sem fólk verður að fara á: Markúsartorgið og Rialto brúin. Milli þeirra liggur sannarlega ekki bein leið, eins og glöggt má sjá af kortinu hér vinstra megin.

Það kom sér því sannarlega vel, þar sem við fikruðum okkur frá Markúsartorginu að Rialto brúnni og síðan til baka, að búa yfir þeirri grundvallar þekkingu, að Feneyingar hafa fyrir löngu sett upp merkingar á húsveggi, sem eiga að koma í veg fyrir að fólk verði til í rangölum borgarinnar. Þannig segja þessi skilti annaðhvort "PER RIALTO" (til Rialto) eða "PER S. MARCO" (til Torgs heilags Markúsar) með örvum í viðeigandi áttir og svei mér ef þetta bara virkar ekki fullkomlega. 

Klukkan 17.20 var brottfarartíminn settur og þá skyldu allir ferðalangarnir vera komnir að skýrt tilgreindri bryggju, tilbúnir að stíga um borð  í strætóbátinn. Aðdragandinn að því að þessi tími rynni upp var nokkuð spennuþrunginn. Þurfti mögulega að senda leitaflokka eftir einhverjum ferðafélögum? Hafði kannski einhver lagt sig og gleymt að láta símann hringja? Hafði Aperol spritzið reynst einhverjum óvenju gott?
Ótal spurningar, en fátt um svör. Það þarf ekki að fjölyrða um  það, að allur hópurinn var mættur á tilgreindum stað vel fyrir tilgreindan tíma, eins og Selfyssinga er siður. Það vantaði í rauninni bara einn, þar sem óðum nálgaðist brottfarartímann: sjálfan fararstjórann! Hvað væri þá til bragðs að taka? Strætóbátsbílstjórinn var farinn að spyrjast fyrir um ábyrgðarmann hópsins og það var farið að fara lítillega um, allavega einhverja samviskusama, en auðvitað birtist týnda dóttirin svo 15 sekúndum fyrir réttan tíma og allt féll í ljúfa löð og strætóinn flutti þennan túristahóp yfir að rútustæðinu. Þaðan lá leið aftur til Desenzano. 
Þó svo ég hafi ekki ætlað að minnast á veður, þá var það þennan daginn afar þægilegt, skýjað að mestu og hitinn einhvern slatta fyrir neðan 30°C. 
Þar sem svefninn tók við þreyttum ferðalöngum, má reikna með að þeir hafi farið í gegnum næsta kvöld í huganum, fullir af spennu, kvíða eða tilhlökkun, eða bara öllu í bland.



Myndin efst, var reyndar tekin árið 2018 og síðan "lagfærð" í Photoshop. Sem sagt "falsfrétt".

Kórferð - heit og áhrifamikil (4)


... framhald af (1), (2) og (3)
Það má segja að upptakturinn að kvöldi þessa 4. dags ferðarinnar, (21. júní) hafi bara verið, eða hefði getað verið  rólegur og þægilegur. Að loknum staðgóðum morgunverði, lögðumst við fD á sundlaugarbakkann, þar sem óhindrað sólarljósið fékk að leika um flesta líkamshluta, en vandlega sáum við til þess að snúa okkur með reglulegu millibili, milli þess sem sundlaugarbarinn var heimsóttur til að nálgast Aperol spritz, sem mun vera nokkurskonar tískudrykkur þarna syðra. 

Þar kom þó, að ekki þótti okkur ráðlegt að ögra húðinni með of miklu sólarljósi þennan daginn og úr varð, gagnstætt því sem ákveðið hafði verið um morguninn, að rölta í bæinn til að sækja þar vikulegan markað, sem reyndist ekki vera neinn smá markaður - náði yfir um kílómetra leið með ströndinni. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða, að langt er síðan ég hef séð jafn mikið af kvenfatnaði. Nánast hver einasti bás reyndist sneisafullur af flíkum handa konum. Í einum eða tveim mátti sjá eitthvað sem körlum var ætlað og þar fyrir utan rakst maður á bása með einhverju dóti. Við gengum þennan markað nánast á enda án mikillar uppskeru, enda ekki um að ræða verslunarferð til Ítalíu, heldur menningarlega kirkjukórsferð.
Eftir harla hlýja gönguna á markaðinn tókum við séns á smávegis sólböðum, en lágum þó frekar undir sólhlíf eða tókum sundsprett í lauginni - hið ljúfa líf, sem sagt, eða eins og Ítalir segja "la dolce vita". 

Þegar sá tími kom hófst undirbúningur fyrir kvöldið, en þar stóð í ferðaáætlun, að um væri að ræða "vínsmökkun og kvöldverð". Hljómaði ósköp venjulegt, svo sem. Við höfðum áður tekið þátt í þannig samkomum og þóttumst vita hvað þetta myndi fela í sér. Þetta reyndist þó ekkert sérlega venjulegt.

Vínsmökkun og kvöldverður
Fólksflutningabifreiðin flutti hópinn sem leið lá á vínbúgarðinn Borgo la Caccia, en myndir frá þeim stað má sjá hér. Það sem ég hélt að væri bara svona venjulegur vínræktandi reyndist vera ótalmargt annað. Þessi búgarður er ekki gamall í núverandi mynd, en eftir því sem mér skildist var að einhver vellauðugur maður sem keypti jörðina og hóf þar uppbyggingu af miklum krafti og vínframleiðslan hefur margfaldast síðan.
Fræðst um vínvið

Stór hluti starfseminnar snýst einnig um að hjálpa ungu fólki sem hefur villst af leið í lífinu, til að finna aftur fótfestu í lífinu. Því er boðin vinna þarna og ekki bara við vínframleiðslu, enda er ýmislegt annað ræktað og önnur starfsemi stunduð. Til dæmis er rekið trésmíðaverkstæði, mikil ferðaþjónusta (vínsmökkun, viðburðir og hátíðir af ýmsu tagi) og elliheimili fyrir veðhlaupahesta sem koma víða að úr Evrópu til að njóta elliáranna og gefa af sér efni til framleiðslu á nýjum veðhlaupahestum. 
Þó svo stór hluti húsnæðisins virðist vera frá 15 öld, þá er það ekki svo. Þarna hefur nýtt verið byggt úr gömlu, héðan og þaðan frá Ítalíu.  
Hluti forréttanna
Eftir leiðsögn um svæðið var hópurinn leiddur inn í stóran sal sem var nánast konunglegur, þar sem langborð svignaði, og vínglösin stóðu í röðum. Mér varð svo mikið um, að ég tók enga mynd á símann minn, en hér fylgir myndskeið sem ég fékk lánað, með réttu eða röngu, sem Lýður Pálsson tók við þetta tilefni. Þarna eru ferðalanganir sestir að borðum og njóta veislufanganna.  Ég var nú ekki betur að mér en svo, að ég taldi forréttina vera allt sem borið yrði þarna á borð, en það var hreint ekki svo. Eftir þá var borin fyrir okkur réttur sem faðir minn hefði kallað "kássu", en sem mér og fleirum fannst bragðast bara nokkuð vel (ég veit um fólk, hinsvegar, mér tengt, sem var ekki frá sér numið). Loks var svo borinn fram ágætur eftirréttur, gott ef það var ekki "tiramisu", en um það þori ég ekki að fullyrða, enda var þá búið að "smakka" vín úr glösunum fimm, sem sjá má á efstu myndinni.
Vín frá Borgo la Caccia, komið
á Selfoss.


Eftir matinn lá leið í vínkjallarann og lagið tekið, og síðan upp í móttökusal, þar sem lagið var tekið líka og þá við meðleik eða undirleik píanóleikarans sem var með í för.
Sá fékk í ferðinni ítrekaðar ákúrur fyrir að vera ekki með píanó með sér og í það minnsta tvisvar "rak" kórstjórnandinn hann af þeim sökum - eða þannig hljóðuðu orðin, allavega. 
Eftir víninnkaup lá svo leið aftur á Hótel Oliveto í Desenzanobæ og við tók nætursvefn, enda strangur dagur framundan - Feneyjaferðin mikla.





 


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...