04 október, 2022

Helga Ágústsdóttir, hirðkveðill - minning

Það vantaði prófíl mynd á facebook
og ég reddaði því
Þegar samferðafólkið um þessa lífsgöngu fer að tína tölunni smátt og smátt og oft óvænt, finnur maður fyrir veruleika endanleikans. Við verðum að sætta okkur við að hann sé fyrir hendi og kannski er það líka eins gott. Ekki veit ég um margt fólk sem væri tilbúið að lifa að eilífu, svo sem. 

Sumt samferðafólksins er manni samferða ungann úr ævinni, en annað kemur við, kannski í nokkur ár, og hverfur síðan einhvernveginn, jafnvel óvart. Maður veit samt að þetta fólk er þarna einhversstaðar, þó stundum komi það fyrir að maður veit ekki hvort það er lífs eða liðið. 

Helga kom eins og vindsveipur, eða jafnvel ferskur blær, inn í Skálholtskórinn og settist að í altinum. Við vissum lítið um þessa konu annað en að hún hafði ráðið sig til kennslustarfa í Reykholti. Með tíð og tíma varð með okkur ágætur vinskapur og ekki skemmdi það fyrir, að skopskyn hennar og sýn á uppeldis- og kennslumál var ekki ólík mínum.  


Ekki get ég sagt, að Helga hafi algerlega smollið inn í samfélag okkar sveitafólksins. Það var yfir henni einhver heimsmennska, jafnvel ákveðin, óútskýranleg tign, stundum með keim af ofurlitlu "dassi" af yfirlæti, en bara á yfirborðinu. Hún var sannur húmanisti og þar held ég að kjarninn hafi verið.
Ætli sé ekki best að ég sleppi því að greina hana eitthvað frekar, hún var flóknari en svo.

Helga barðist lengi við ótrúlega erfiðan sjálfsofnæmissjúkdóm, lúpus, sem ég geri ráð fyrir að hafi, á endanum, borið hana ofurliði. Hún naut sín best þegar skuggsýnt var, eða innandyra. Í kórferðum, í  sólarlandasólskini þurfti hún að hylja líkamann frá hvirfli til ilja vegna þessa sjúkdóms, sólarljósið var einn hennar versti óvinur. Hún tók þessari þungu byrði af aðdáunarverðu æðruleysi. 

Í kórferðum á erlendri grund, eins og þeim sem Skálholtskórinn fór nokkrum sinnum, þegar Hilmar Örn var sjórnandi kórsins og Hófí, þáverandi kona hans, fararstjóri, naut Helga sín vel, nema kannski þegar sólin skein í heiði. sem var nú reyndar oftar en ekki. 

Ég hef átt það til að skrifa blogg hér um árabil um aðskiljanlegustu efni. Þar birtist Helga oft með athugasemdir í bundnu máli og gaf sjálfri sér þar höfundarnafnið "Hirðkveðill". Mér fannst þetta alltaf einkar skemmtilegt, enda á ferðinni talandi kveðskaparsnillingur. Mér finnst betur hæfa að gefa bara hirðkveðlinum Helgu (sem ég kallaði yfirleitt fH) orðið, en að ég haldi áfram að lemja hér inn orð frá sjálfum mér. Ég veit ekkert hvort hún myndi kunna mér þakkir fyrir það, en ætli hún fari nokkuð að mótmæla? (húmor í anda fH)
Einu sinni sem oftar, var ég að fjalla um uppeldismál í bloggskrifum og þá kom þetta:

Ég á rétt á öllu nýju
öllu dóti sem ég vil
gleði með og glotti hlýju
er giska næs að vera til.
Ég fæ bíl og bráðum jeppa
best að lát' ei pakkið sleppa
við að halda mér til vegs
- þau vinna bara - sex til sex.

Með Skálholtskórnum á Ítalíu -
Þarna í Rómaborg með margréti Oddsdóttur
að borðfélaga

Hirðkveðill skyggnist um í hugarheimi ofalins ungmennis

Ljúfur piltur, lítil táta
liggja nú og auðsæld gráta,
allt er horfið engin jól
ekkert fæst nú bankaskjól,
fyrir vindum vondum, köldum
- veltast þau í skuldaöldum.
***

Einhvern veginn urðum við
öll að læra á þennan sið:
"gefðu ekki um getu fram"
ger þeim borga - já og skamm
ef þau heimta meir' og meir'
minnstu þess að fleir' og fleir'
hörðum nýtist heimi í
heldren fjármagns bríarí!

Með Skálholtskórnum í heimsókn hjá páfa.

Heiðarleiki og hlýja tær
helst hér mætti vera nær
vinafesti og verndarhönd
velgjörningar, tryggðabönd
ástúðleikans orðin hlý
eignist hérna sess á ný
gleði frjó án græsku og fals
gróa fái á braut hvers manns!

Hirðkveðill predikar um mannleg gildi :-)


Hér hafði dauðdagi Osama bin Laden verið til umræðu í bloggi: 

Svo þarf ég að vita hvar þær reglur er að finna að íslamstrúarfólki skuli varpað í sæ? Það hlýtur nú að vera býsna erfitt, víða hvað þeir búa.

EN:
Aflífaður, elskan var'ann,
ósköp veit ég lítt um það
felldur, deyddur, féll í þarann
fleygt var loks í sjávarbað.

Deyddur kannski og du'ltið meira
drepinn, banað, sálgað, eytt?
Veginn líka - upp að eyra?
Enginn segja vill mér neitt.

Hirðkveðill finnur enga lausn á hvaða orð eiga við um dauða O.B.L.

Hér reyndi ég að sjá fyrir mér að Laugarásjörðin yrði mögulega seld Kínverjum: 


Hótel sé við himin bera
hugsa: "hvar skal það nú vera?"
Létt var rætt um Laugarás,
líst að þar sé haft á bás.
*****************************

Kvistholtshlaðið kínverskt nú,
hvar er sá er reisti bú
sér og börnum sínum þar?
Sjá!-hann fékk nýtt líf, - en hvar?

Gætir húss með geðþekkt fas,
gerir hreint og slær þar gras,
fetar um og fægir húna
finnst þó lífið tómlegt núna.

"Hvar er allt sem áður var?
Ei mér gagnast peningar,
fyrst mitt Kvistholt kært en lúið
komið er und mold - og búið" :(


Hirðkveðill hugleiðir mögulega líðan fólks eftir landsölu.

Heimsókn músar í Kvistholt var eitt  sinn umræðuefni:


Ekki gáð'ann elskan þessi
að þeim, litlu músunum.
Allt eins þó að ein sig hvessi
er allt vill dautt hjá húsunum.
Engan frið og enga sátt
er að fá úr þeirri átt.

Hirðkveðill Kvistholts kveður um Kvistholtsmorðin- væntanlegu.

Einn pistillinn fjallaði um haustið

Annað prósaljóð að hausti.

Og haustið flaug á móti mér
eins og velhaldinn fugl eftir sumar
sem er þegar horfið á braut.

Hann var svolítið kuldalegur
og ætlar að fara.

Veit ekki hver hún er, í kórbúðum
á Nesjavöllum
Haustið kemur, hreta fer
heyrið trén nú skjálfa
Úlpu vef ég upp að mér
er með húfubjálfa.


Gjört af ljúfu hjarta og hógværu
hirðkveðill Kvistholts ;)

--------------------------------------------

Ætli ég láti þetta ekki duga sem dæmi um viðbrögð fH (Helgu) við  skrifum mínum, en fyrir hennar framlag þar, sem vel getur verið að ég taki saman í ljóðabók þegar tímar líða, er ég afar þakklátur og finnst upphefð að. 

Við Kvisthyltingar erum þakklát fyrir að Helga  skuli hafa, með ýmsum hætti, snert líf okkar undanfarna tvo áratugi eða svo. 

Helga lést á fæðingardegi föður míns, þann 29. september, síðastliðinn.

Myndirnar sem ég læt fylgja, voru teknar við ýmis tækifæri þar sem Skálholtskórinn undi sér við leik og störf.

20 september, 2022

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt,
en óþekkt að öðru leyti.
Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarkaðinn vegna aldurs, bíði það að vera heima hjá sér eins lengi og heilsan leyfir, en flytjast síðan á hjúkrunarheimili, lifi það svo lengi. 
Auðvitað er eldra fólkið ekki einsleitt frekar en annað fólk og býr við afskaplega ólíkar aðstæður. 
Það er einn hópur, sem mér finnst ekki fjallað mikið um, nánast eins og hann sé ekki til, en það er fólkið sem býr eitt í húsinu sínu (jafnvel vel stóru), eða íbúðinni, eftir makamissi, eða af öðrum ástæðum.  Þetta er oft(ast) fullfrískt fólk, sem getur sjálft séð fyrir eigin þörfum hvort sem þær snúa að skrokknum eða því sem fram fer í höfðinu.  Þetta fólk býr í sveit, bæ eða borg. Sumt þessa fólks nýtur bara einverunnar og er sjálfu sér nægt, á fullu að sinna áhugamálum sinum. Í þessum hópi er líka fólk, sem hefur fátt við að vera, nema kannski reyna að elda ofan í sig, þrífa húsið og horfa á sjónvarpið. 

HEILBRIGÐ SÁL Í HRAUSTUM LÍKAMA/MENS SANA IN CORPORE SANO  
Mér er til efs, að sú stefna stjórnvalda, að fólk sé heima hjá sér og fái þar, það sem kallar er "heimaþjónusta", sé endilega svo stórkostleg.
Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir þá sem dvelja heima
Öldruðum skal gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með því að bjóða þeim ýmis konar stuðning og þjónustu. Annars vegar er um að ræða félagslega heimaþjónustu og hins vegar heimahjúkrun.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmiðið með félagslegri heimaþjónustu er að aðstoða þá sem geta ekki hjálparlaust annast dagleg heimilisstörf. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum.
Óski einstaklingur eftir heimaþjónustu á hann að snúa sér til velferðar-/félagsþjónustu síns sveitarfélags. Umsóknareyðublöð eru á vefjum margra sveitarfélaga.

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvers konar heimaþjónusta er veitt en hún getur verið:
  • almenn heimilishjálp,
  • félagsráðgjöf,
  • heimsending matar,
  • heimsókn og samvera svo sem gönguferðir, lestur dagblaða og fleira,
  • yfirseta í veikindum,
  • garðvinna og snjómokstur,
  • persónuleg umhirða sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar og
  • akstur.
Gjald fyrir heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga fá heimaþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Allt er þetta gott og blessað, en, er mögulega munur á því sem fram kemur í lögum, reglugerðum eða leiðbeiningum og því hvernig orðunum er fylgt eftir?  Þarna stendur að þjónustan sé misjöfn eftir sveitarfélögum, sem þýðir að þau geta stjórnað því sjálf hvað þjónusta er veitt og hvenær. Þar er líklegast unnið eftir einhverjum verklagsreglum. Hvert sveitarfélag áætlar tiltekna upphæð til málaflokksins og því þarf að koma til mat á því hvort, eða við hvaða aðstæður, einstaklingur á rétt á þjónustu. SÞað er væntanlega sveitarfélagið sem ákveður hver mörkin eru og þau geta verið misjöfn. 

Svo ég víki nú aftur að þeim hópi fólks sem býr eitt, en getur alveg séð um sig og fyrir sér sjálft. Þetta er kannski fólk sem er rétt skriðið á áttræðisaldurinn. 

Hvaða þjónustu veita sveitarfélögin þessu fólki? Mig grunar að hún sé nú ekki stórfengleg og allavega ekki af því tagi sem uppfyllir andlegar þarfir að neinu umtalsverðu leyti.  Þetta fólk getur þrifið íbúðina, sjálft sig, þvegið af sér og skellt í þurrkarann, farið í búð, eldað ofan í sig og kveikt á sjónvarpinu án þess að ruglast á tökkum.  Að þessu leyti þarf svona fólk ekki aðstoð frá samfélaginu og kannski bara enga aðstoð, sem ég að held nú allajafna  raunin.

Það blasir við, að mikilvægur þáttur virðist verða útundan.

Mannskepnan er félagsvera og nærist á samskiptum við annað fólk.  Mér virðist blasa við, að með ofuáherslu á að fólk dvelji heima hjá sér eins lengi og kostur er, sé verið að auka hættuna á félagslegri einangrun. 
Sannarlega er það bara einfaldast að vera bara heima, í sínu. Svo líða dagarnir, vikurnar og mánuðirnir og áður en við er litið er skorturinn á félagslegum samskiptum farinn að hafa áhrif á líkamlega líðan og einstaklingur á á hættu að þurfa að fara á hjúkrunarheimili fyrr en ella hefði verið, með meiri kostnaði fyrir samfélagið.
Ég gleymi því seint, þegar ég fékk skammir frá félagsþjónustu fyrir að sækja um á dvalarheimili fyrir níræðan föður minn, þar sem hann taldist ekki vera nógu veikburða og hjálparlaus. Þarna voru forsendurnar fyrir dvalarplássi bara settar nógu hátt til að hægt væri að útiloka annað fólk en það, sem var orðið algerlega bjargarlaust.  Gamli maðurinn gat bjargast sjálfur heima, gat fengið sendan heim mat, gat fengið þrif á stærðar einbýlishúsinu, gat fengið aðstoð við böðun, en lítið af þeirri andlegu örvun, sem væri líkleg til að stuðla að því að hann ætti kost á að njóta lífsins sem lengst. 

Jæja, þá er ég kominn að tilganginum með þessum vaðli:

Það vantar inn í alla þessa umræðu, finnst mér, áherslu á að eldra fólk eigi kost á að njóta þess að eiga í félagslegum samskiptum eins lengi og kostur er. Ég er alveg sannfærður um, að með möguleikanum á því, myndi þörfin fyrir stöðugt fleiri og flottari hjúkrunarheimili minnka, en vissulega verða þau að vera fyrir hendi. 

Ég veit, að víða er að finna nokkur pláss, þar sem fólk hefur tækifæri til þess arna, en þeim þarf að fjölga og með því ynnist ýmislegt.
Það þarf að byggja, eða stofna nokkurskonar sambýli með litlum íbúðum, þar sem væri eldhúskrókur og snyrting fyrir einstaklinga og einnig litlar íbúðir fyrir hjón eða pör. Þessar íbúðir væru seldar eða leigðar. Fyrir utan íbúðirnar, í sama klasa, væri síðan að finna matsal/mötuneyti og ýmisskonar félagsaðstöðu: setustofur, kaffistofu, íþróttasal og annað það sem ætla má að hvetji til félagslegra samskipta og líkamlegrar hreysti. Heilbrigð sál í hraustum líkama og allt það.
Fólkið sem þarna ætti eða leigði íbúð væri fært um að sjá um sig sjálft. Það gæti valið að eyða tímanum í eigin íbúð, en síðan tekið þátt í því sem í boði væri fyrir utan. Þarna myndi fólk lifa sínu sjálfstæða lífi, væri kannski með bíl og færi allra sinna ferða, í bíó eða tónleika, eða hvaðeina. 

Svona sambýli myndi hugsanlega ekki henta stórum hluta fólks, en mig grunar að margir sem nú búa einir, myndu taka svona valkosti opnum örmum (ætli það hafi verið kannað, hve stórum hópi þessa myndi henta?). Með því myndu losna íbúðarhús, sem nýttust betur barnafjölskyldum en einstaklingum.

Ég vonaði um tíma, að nýja, glæsilega, hringlaga byggingin, sem hefur hlotið nafnið Móberg, yrði af þeim toga sem ég er hér búinn að lýsa, en þar verður um að ræða hjúkrunarheimili.  

-----------------------------

"Jæja, er hann nú orðinn gamall, karlinn?", kann einhver að spyrja, hátt eða í hljóði (ég get séð nokkra fyrir mér), við þennan lestur.  Svar mitt við slíkri spurningu er einfalt. 

"Það styttist í að ég nái sjötugu, rétt er það, og framundan eru vonandi fleiri ár, sem ég myndi vilja njóta sem best.
Hinsvegar er ég sjálfur ekki kveikjan að þessum pælingum, heldur fólk sem ég hef aðeins kynnst frá því við fluttum hingað á Selfoss. Þar á meðal er fólk, eins og ég lýsti hér fyrir ofan, fólk sem langar að hafa eitthvað fyrir stafni, annað en sitja fyrir framan sjónvarpið, eða prjóna sokka á barnabarnabörnin.  Jafnvel hef ég heyrt um fólk, sem keypti sér bangsa til að hafa einhvern til að tala við á matmálstímum, til að búa til ástæðu til að matbúa, yfirleitt."

Það, sem sagt, vantar meiri áherslu á þrepið milli heimilisins og hjúkrunarheimilisins. Þannig er það.

18 september, 2022

Kvistr eða Kvistur

"Vantar ekki U í logoið ykkar?"
Svarið við þessari spurningu, sem við höfum fengið nokkrum sinnum er: "Nei, aldeilis ekki!
Það væri vissulega vandræðalegt, ef ég hefði klikkað svo rosalega á prófarkalestri merkisins, að gleyma einum bókstaf í eina orðinu sem er að finna í því.  Það er hinsvegar svo, að ég gleymdi engum staf. Orðið á bara að vera eins og það er og var alltaf ætlað að vera svona; KVISTR, en ekki KVISTUR.
"Hvaða stælar eru það eiginlega?" spyr þá einhver.

Auðvitað eru það stælar, en það sama má segja um ansi mörg svona merki. 

Nú ætla ég að útskýra þetta allt saman, eftir fremsta megni og síðan vísa ég bara á þetta, þegar einhver spyr hvort ekki vanti U í lógóið.

Upphafið


Saga þessa merkis, eins og það er í grunninn, er orðin ansi löng, eða til ársins 1982, þegar verið var að slá upp fyrir kjallaranum í verðandi íbúðarhúsi okkar í Kvistholti. Þá var þar veggur, sem mér fannst að þyrfti einhverja skreytingu á og negldi því lista innan á mótin, einhverskonar "lista" verk sem gaf til kynna að þar væri um einhverskonar plöntu að ræða.  Svo var steypu hellt í mótin og innan hæfilegst tíma voru þau fjarlægt og þá birtist  verkið, sem síðan hefur, í grunninn, fylgt okkur, í einhverju formi. 

 Þar kom, þegar brauðstritinu lauk og þegar málverk og leirfígúrur tóku að myndast í dyngju fD, tók ég mig til og teiknaði upp veggskreytinguna og sú útgáfa varð síðan táknmynd fyrir það sem við Kvisthyltingar tókum okkur fyrir hendur.

Svo fluttum við í annað sveitarfélag, nýtt umhverfi og breyttur raunveruleiki. Það þótti heppilegur tímapunktur til að uppfæra þetta merki og síðan hefur það smám saman verið að taka yfir eldra merkið. 
Meðal þess sem prýðir nýjustu útgáfuna er þetta orð: KVISTR. Meginástæðan fyrir því að þar sleppti ég U-inu er sú, að mér tel að allt sem við gerum eigi sér með einhverjum hætti, sögulega tilvísun. Án fortíðarinnar, værum við ekkert. 
Þar sem ég hóf, á svipuðum tíma, að taka þátt í hópi sem kemur saman og les íslenskar fornsögur, fann ég leið til að vísa í sögu okkar í merkinu: ég bara sleppti U-inu.  Ef einhver ykkar sem þetta lesa skilja ekki enn hvernig u-leysið getur vísað til sögu okkar, læt ég duga að setja hér fyrir neðan, upphafsorð Brennu-Njáls sögu:

Íslensk fornrit, XII bindi, Brennu-Njáls saga.
Einar Ól. Sveinsson gaf út
Hið íslenzka fornritafélag - Reykjavík - MCMLIV

13 september, 2022

Austfirskar rætur (5) LOK

1922
Árið 1922, líklegast um vorið, eða snemmsumars, fluttu afi og amma frá Rangárlóni í Freyshóla, eins og áður hefur komið fram. Þá fóru systir afa og hennar maður í Strönd. Ekki veit ég hverjar voru ástæður þessa.  Sóknarmannatal Vallanessóknar sem viðaði virð árslok, greinir frá því að þá hafi þessi verið í Freyshólum:
Magnús Jónsson, bóndi, 34 ára
Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir, hs. kona, 29 ára
Alfreð Magnússon, 8 ára
Haraldur Magnússin 7 ára
Skúli Magnússon, 4 ára
Björg Magnúsdóttir 3 ára
Óskírð stúlka. 1s árs
Ljósbjörg Magnúsdóttir, móðir bónda, 74 ára
Jón Björgvin Guðmundsson, vinnum. 18 ára.

Jón Björgvin var sonur þeirra Guðmundar og Sigurbjargar, sem búið höfðu á Freyshólum, systursonur Magnúsar, sem sagt.

1923
Þetta ár leið og árið 1923 gekk í garð. Þegar á leið það var Ingibjörg enn þunguð og þann 14. október kom Fannay Magnúsdóttir í heiminn.  Hún var síðan skírð þann 5. desember, ásamt systur sinni, sem hlaut nafnið Sigríður. Þrem dögum eftir skírnina lést Fanney og var jarðsett þann 31. dessember. Banameins hennar er ekki getið.

Á þessu ári fór Ljósbjörg í Gunnlaugsstaði og Jón Björgvin fór sem vinnumaður í Strönd.

1924
Svo hélt lífið áfram á Freyshólum. Árið 1924 fól ekki í sér neinar breytingar.

1925
Ljósbjörg (77), Guðmundur (65), Sigurbjörg (47) og Jón (21) voru öll komin í Ketilsstaði, en enn var fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi.  Þann 16. júlí komu tvíburar í heiminn og þær voru skírðar daginn eftir, enda munu þær hafa verið fyrirburar. Þær fengu nöfnin Guðfinna og Pálína. Guðfinna lést þann 21. júli (eftir því sem mér sýnist í prestþjónustubók), en Íslendingabók segir hana hafa látist þann 27. júlí.

1926
Á þessu ári hvarf Skúli, á áttunda ári, frá Freyshólum og eftir voru Magnús og Ingibjörg með fimm börn, 0-12 ára gömul. 

Skúli fór sem fósturbarn í Mjóanes til hjónanna Benediks og Sigrúnar Blöndal. Þau höfðu þá flutt í Mjóanes tveim árum fyrr frá Eiðum. Með þeim var Tryggvi Gunnar Blöndal, bróðir Benedikts, þá 10 ára. Sama ár og þau fluttu eignuðust þau soninn Sigurð. 

Um dvöl Skúla hjá þeim Sigrúnu og Benedikt, fyrst í Mjóanesi og síðan á Hallormsstað, hef ég þegar fjallað: Að efna í aldarminningu (4) og læt ég það duga.

Víkingsstaðir koma við sögu síðar, en þar bjuggu á þessu ári Guðmundur Þorbjarnarson, bóndi (48) og kona hans Aðalbjörg Stefánsdóttir (40) me sex börnum sínum, móður bónda Ingibjörgu Guðmundsdóttur (67) og Einari Jónssyni Long (57) - en hann var síðar á Hallormsstað.

Ljósbjörg (78), Guðmundur (68) og Sigurbjörg 48) og Jón Björgvin (22) voru áfram á Ketilsstöðum. Þar var Jón búinn að ná sér í konu, Hildi Stefánsdóttur (29).

1927
Á þessu ári fluttu Magnús og Ingibjörg í Víkingsstaði með börn sín fimm, sem eftir voru heima. Hjónin sem þar höfðu verið, fluttu til Seyðisfjarðar. 

Nú var Jón Björgvin Guðmundsson (23) orðinn bóndi á Freyshólum og þar var kona hans og barn á fyrsta ári, Stefán að nafni. Foreldrar Jóns voru þarna komnir líka og Ljósbjörg (79). magnað hvað Ljósbjörg var mikið á ferðinni. 

1928
Jæja, nú var að færast einhver ró yfir mannskapinn, því enginn hreyfði sig frá sínum bæ.

1929
Haraldur (14) var ekki nefndur meðal heimilisfólks á Víkingsstöðum. Þetta ár var hann vikapiltur á Litla-Sandfelli hjá þeim Runólfi Jónssyni (27) og Vilborgu J. Jónsdóttur (23). 

1930
Haraldur  var þetta ár einnig á Litla-Sandfelli, en árið eftir var hann kominn í Seyðisfjörð til ömmu sinnar og afabróður. 

Ljósbjörg var áfram á Freyshólum, orðin 82 ára.

1931
Enginn Haraldur enn á Víkingsstöðum, en ég fann hann á Lækjarbakka á Seyðisfirði, skráðan sem fósturson Sæbjargar ömmu sinnar og Sigbjörns, föðurbróður. Þarna var hann 16 ára. 

Sæbjörg og Sigbjörn fluttu á Seyðisfjörð eftir ár sín í Jökuldalsheiði og þar lést Sæbjörg í apríl 1946, 65 ára að aldri. Sigbjörn lést rúmu ári síðar.  

1932
Hér var Haraldur (17) kominn aftur frá Seyðisfirði og börnin á bænum þá aftur orðin fimm að tölu. Ljósbjörg varð 84 ára á árinu og enn á Freyshólum..

1933
Allt við sama á Víkingsstöðum.

1934
Haraldur var aftur farinn að heiman og ekki fann ég hvert.

1935
Jæja, Haraldur (20) var kominn aftur og hafði verið í Gíslastaðagerði. 

1936
Öll fjölskyldan á Víkingsstöðum.

1937
Sigfríður var komin í Ketilsstaði og Haraldur í Hallormsstað, vinnumaður hjá Guttormi Pálssyni, skógarverði. Alfreð var kominn með titilinn "húsmaður" á Víkingsstöðum.

1938
Alfreð (24) var orðinn bóndi á Víkingsstöðum. haraldur og Sigfríður voru snúin til baka.

1939 - 1940 (seinni heimsstyrjöld)
Enn vóbreytt á Víkingsstöðum, 7 manns í heimili og Alfreð bóndinn.

1941
Ljósbjörg lést í hárri elli á Freyshólum, þann 5. janúar, 92 ára að aldri. Á Víkingsstöðum var áfram sama fólk með heimilisfesti.

1942
Hér var komin til sögunnar ný húsfreyja á Víkingsstöðum, Guðrún B. Þorsteinsdóttir (22), sem fæddist í Kambaseli á Djúpavogi, en kom í Víkingsstaði frá Gíslasöðum. Annað var óbreytt á bænum.

1943
Engin breyting.

1944
Hér fæddist þeim Alfreð og Guðrúnu dóttirin Þórný Sigurbjörg og Björg hafði hleypt heimdraganum. Hvert hún fór er mér ekki fulljóst.

1945
Sonurinn Benedikt bættist við hjá Guðrúnu og Alfreð og Pálína eignaðist soninn Sæbjörn Eggertsson.

1946
Óbreytt á bænum.

1947
Guðrún og Alfreð eignuðust þriðja barnið, dótturina Ljósbjörgu. Sigfríður (26) hélt út í heiminn og á þessu ári var hún skráð í "Kaupfélaginu".

1948 - 1951
Allt við það sama á Víkingsstöðum og Sigfríður áfram í Kaupfélaginu, 1948, en árið eftir var hún skráð í "Spítalanum" og árið þar á eftir á "Spítalanum III"

Magnús Jónsson, eftir að hann
kom í Hveratún.

1952

Á þessu ári var Magnús (65) ekki lengur skráður á Víkingsstöðum.  Það er mér ljóst, að þó svo afi hafi verið skráður á Víkingsstöðum til 1951 þá kom hann í Hveratún árið 1950, til Skúla sonar sína og Guðnýjar Pálsdóttur. Þar var hann síðan til dauðadags, 16. janúar, 1965. Ég veit að hann hafði starfað við múrverk og hann hélt því eitthvað áfram, en skrokkurinn var orðinn lélegur.

Ingibjörg var á Víkingsstöðum til dauðadags 17. nóvember, 1968.

---------------------

Það er mér ljóst, að kirkjubækurnar segja ekki nema hluta sögunnar um þá forfeður mín sem hér hafa komið við sögu  og þekking mín umfram það sem þessar bækur segja, er harla brotakennd.

Það liggur við að ég skori á ykkur (en geri það samt ekki) afkomendur Alfreðs, Bjargar og Pálínu að fylla í eyður og greina frá sögu þeirra eftir uppvaxtarárin á Víkingsstöðum. Þið sem ólust upp með ömmu, megið einnig gefa af henni fyllri mynd.  Þá er saga Sigfríðar og Haralds ósögð, held ég. 
Ég yrði harla glaður ef svona frásagnir birtust á síðu niðja Ingibjargar og Magnúsar á Facebook - nú eða annarsstaðar. 😇Sigfríður, brosmildur, grallaraspói.Austfirskar rætur (4)


Það er rétt að geta þess, að síðan ég skrifaði síðustu færslu, hef ég uppgötvað, að þann 12. mars, 1913, daginn eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust Ingibjörg og Magnús andvana son. Ég hef breytt fyrri færslunni til samræmis

Byggðin í Jökuldalsheiði heyrir nú til liðna tímanum. Einu merkin um þá byggð eru bæjarrústir, sem blasa við augum vegfarenda. Allar eiga þær sína sögu, „sigurljóð“ eða „raunabögu“, eins og skáldið segir. Sú saga verður ekki sögð, en hún gæti, ef vel væri á haldið, orðið efni í margar bækur. .. (Björn Jóhannsson: Frá Valdastöðum til Veturhúsa)

Þessi næturstaður var langt frá mannabyggðum; að undanskildum nokkrum öðrum kotum, sem stóðu á víð og dreif um heiðina, var dagleið til byggða og þrjár dagleiðir í kaupstað, jafnvel að sumarlagi.

Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum." Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: þeir fengu soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur. (HKL)

Það hafa sjálfsagt verið sagðar margar sögur af lífi fólks í Jökuldalsheiði og það er sannarlega ekki ætlun mín að fara að bæta þar við neinu umtalsverðu, en ekki neita ég því, að oft hefur mér orðið hugsað til þess hvernig líf afa og ömmu var, á þeim tíma sem þau urðu að ákveða hvert leggja skyldi leið í lífinu og síðan, hvernig líf þeirra í heiðinni var.

Upphafið var að það var ekkert jarðnæði að fá niðri í byggð og fólk fór að leita upp til heiða. Á tímabili var það þannig á Íslandi, að fólk þurfti að hafa land til að geta gift sig. 
Fyrsta heiðarbýlið var byggt 1841 og það síðasta 1862 og byggðust mörg á gömlum seljum. Þegar mest var er talið að um 120 manns hafi búið í Jökuldalsheiði. 
Það voru 16 býli sem byggðust en ekki nema 12-14 byggð á hverjum tíma.   
Því fylgdu ákveðin lífsgæði að búa í heiðinni. Það var silungur í vötnum og fuglinn og jafnvel hreindýr og þetta var yfirleitt grasgefið og það voru tínd fjallagrös. Þetta var svona sjálfsþurftabúskaður. 
Það vor um 75 km leið að fara í Vopnafjörð, þar sem var kaupstaðurinn lengi vel, svo það var ansi langt að fara með klyfjahesta. Þetta snérist um að eiga sitt og vera ekki upp á aðra kominn - svolítil sjálfstæðisbarátta.
En það var svona rómantík hérna og ekkert skrítið, það getur verið alveg yndislegt að vera hérna. - En svo kom veturinn og þá varð harðbýlt og erfitt. (Úr viðtali við Hjördísi Hilmarsdóttur í Landanum í RUV, 4. okt. 2021)


Rangárlón eða Rangalón

Rangárlón eða Rangalón er eyðibýli við norðanvert Sænautavatn. Bærinn var byggður 1844 úr Möðrudalslandi, en fór í eyði 1924 og enn þá sjást bæjarrústirnar greinilega.(Nat.is)

Smá pæling um nafnið á þessu býli:
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu.  Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

Lagt í hann 


Ekki veit ég neitt um hvernig ferð fjölskyldunnar frá Freyshólum upp í Jökuldalsheiði var háttað og þá er ekki um annað að ræða en beita ímyndunaraflinu.
Rökréttast finnst mér að lagt hafi veri í hann um vorið 1918, þegar lömb voru orðin nægilega stálpuð til að ráða við ferðalagið. Þá voru klyfjahestar og/eða hestvagn, notaðir undir það sem nauðsynlegt var að hafa með sér.  Það var nú ekki eins og fólk á þeim tíma sem þarna er um að ræða, hafi á sófasett, sjónvarp, eða frystikistu, svo þetta hefur ekki verið neitt í stíl við það sem nú er.

Þetta var fólkið sem lagði upp í ferðina frá Freyshólum:
S. Ingibjörg Björnsdóttir, húsfreyja, 24 ára
Magnús Jónsson, bóndi, 30 ára
Alfreð Magnússon sonur þeirra, að verð  4 ára.
Haraldur Magnússon, sonur þeirra, 2 ára
Sæbjörg Jónasdóttir, móðir Ingibjargar, 47 ára, sem kom frá Seyðisfirði
Sigbjörn Sigurðsson, 60 ára, sem kom frá Seyðisfirði.
Svo var "bumbubúi" (nútíma orðfæri) með í för og sennilegast einhverjir aðstoðarmenn.

Í september 1918 tók ég saman ýmislegt um ævi föður míns í nokkrum þáttum og til þess að fara nú ekki að endurtaka það sem þar kom fram bendi ég á það hér: Að efna í aldarminningu (2) Kannski er rétt að taka það fram, að þá vissi ég ekki að þau Sæbjörg og Sigbjörn hefðu farið með og dvalið hjá þeim fyrsta veturinn í Rangárlóni.

Ferðin

Milli Freyshóla og Rangárlóns eru um 100 km. Hestamaður sagði mér að dagleið  ríðandi væri nálægt 40 km. Ef kýr hefur verið með í för og eitthvert fé með lömbum, má því alveg reikna með að ferðin hafi tekið, tja, þrjá daga.  Hópurinn hefur því þurft að gista á leiðinni og þá sennilega á bæjum í Jökuldal - en ekki veit ég neitt um það, frekar en annað varðandi þetta ferðalag.

Mynd Björn Björnsson, af Sarpur.is
Í áfangastað

Svo komu þau loks í Rangárlón og hver veit hvernig staðan var þar, en ekki held ég nú að þar hafi þeirri beðið glæstar byggingar.  Í sóknarmannatali í Eiríksstaðasókn í árlok, eða síðla árs 1916, voru skráð hjón, tæplega fimmtug með 3 börn sín , 2-23ára og tökubarn.  Næst þegar prestur skráði sálirnar í sókninni, í lok 1917, var Ranagárlón ekki talið þar með, sem bendir einfaldlega til þess að þar hafi enginn búið í jafnvel heilt ár, þegar fjölskyldan frá Freyshólum koma á staðinn. Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér, hvernig húsakosturinn hafi verið við þessar aðstæður.

Á Rangárlóni

Haustið 1918 bjuggu í Sænautaseli, sem var við suðurenda Sænautavatns,ung hjón, Guðmundur Guðmundsson (36) og Jónína Guðnadóttir (31), ásamt 6 ára syni sínum Pétri og Petru Jónsdóttur, móður bóndans (63). Þetta fólk var, sem sagt, nágrannar hinna nýju Rangárlónsbúa, sem við manntalið hafði fjölgað um einn, en fjórði sonur  Magnúsar og Ingibjargar fæddist þann 29. september og fékk hann nafnið Skúli.
Ég ætla nú ekki að reyna að sjá fyrir mér hvernig lífið hefur gengið fyrir sig fyrsta veturinn, en vísast kom sér vel að hafa þau með sér, þau Sæbjörgu, sem titluð var ráðskona Sigbjörns og Sigbjörn sem var skráður húsmaður.  
Veturinn leið og dýrð sumarsins 2019 tók við, það haustaði og þau Sæbjörg og Sigbjörn dvöldu á Rangárlóni annan vetur. Þann 29. nóvember fæddist fimmta barn hjónanna, Björg, en hún náði ekki inn í sóknarmannatalið 1919. Björg var skírð þann 1. ágúst, 1920.  

Svo leið veturinn og aftur kom fagurt sumar árið 1920 í heiðinni. Kirkjubækur segja, að Haraldur hafi farið í Freyshóla, sem tökubarn, á þessu ári, en hann var samt einnig skráður á Rangárlóni.  Ég get mér þess til að eitthvað það hafi hrjáð piltinn sem varð til þess að talið  væri að honum væri betur borgið niðri í byggð, en ég veit auðvitað ekkert um það.
- smella til að stækka -

Sæbjörg og Sigbjörn
fluttu sig um set í heiðinni, að Grunnavatni, sem var í um 10 km  frá Rangárlóni.  Þar lést húsfreyjan á í byrjun september og þá voru þar eftir ekkillinn Guðni Arnbjörnsson (77) ásamt syni sínum Björgvin (28).  Sæbjörg og Sigbjörn voru á Grunnavatni til ársins 1924, en Guðni lést í nóvember það ár.  
Frá Grunnavatni héldu þau síðan í Hákonarstaði, ásamt Björgvin og þar dvöldu þau til 1929, en héldu þá á Seyðisfjörð aftur og bjuggu þar á Lækjarbakka. Þá var Sigbjörn 71s árs en Sæbjörg 59 ára. Þarna bjuggu þau  þar til Sæbjörg lést þann 16. apríl, 1946. 74 ára að aldri. Sigbjörn lést árið eftir á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, í 90. aldursári.  Sæbjörg var skráð ekkja, þegar hún lést, svo aldrei gengu þau skötuhjúin í hjónaband, þrátt fyrir áratuga sambúð.   

En aftur að Magnúsi og Ingibjörgu á Rangárlóni, árið 1920. 
Svo kom haustið og veturinn og Magnús, Ingibjörg og voru einu íbúarnir á býlinu ásamt börnum sínum. 
Árið 1921 voraði sem fyrr og síðan leið sumarið, og enn einn veturinn framundan.  Þann 17. september fæddist enn eitt barnið, Sigfríður. Hún náði ekki inn í sóknarmannatalið fyrir þetta ár, en þarna var Una Vigfúsdóttir, nokkur, skráð vinnukona á Rangárlóni. Ekki hef ég fundið neitt handfast um hana, en tel líklegt að hún hafi fæðst 1886. 

Rangárlón kvatt

Ætli maður verði ekki að gera ráð fyrir að fjölskyldan á Rangárlóni hafi kvatt heiðarbýlið vorið eða í sumarbyrjun árið 1922. Þetta voru Magnús (33), Ingibjörg (28), Alfreð (7). Haraldur (5), Skúli (3), Björg (1) og Sigfríður á 1. ári. 
Það geta svo sem verið ýmsar ástæður fyrir því að Rangárlónshjónin ákváðu að yfirgefa heiðina. Kannski er bara ágætt að segja sem svo, að saman hafi farið, að barnahópurinn var orðinn ansi stór við erfiðar aðstæður á veturna og að Guðmundur, kominn á sjötugsalldur, og  Sigurbjörg á Freyshólum hafi þarna ákveðið að bregða búi og flytja að Strönd.
Fjölskyldan tók sig upp, í öllu falli og flutti í Freyshóla. 

---------------------------------

Hér held ég að séu ágæt kaflaskil og held svo bara áfram næst.

11 september, 2022

Austfirskar rætur (3)

Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
Ætli ég byrji ekki á smá pælingum um hvernig það gerðist, mögulega, að Ingibjörg og Magnús náðu saman, með þeim afleiðingum sem afkomendur þeirra hafa síðan upplifað á sjálfum sér.

Kóreksstaðir og Kóreksstaðagerði 1905
Ég hef ekki fundið öruggan snertiflöt á mögulegum kynnum afa og ömmu í tengslum við þennan bæ. 
Dóttir þeirra Páls Geirmundssonar ömmubróður Ingibjargar, bjó í Kóreksstaðagerði til 1906, svo varla hefur stúlkan verið þar eitthvað eftir þann tíma. Ingibjörg, þá 11 ára, var í Kóreksstaðagerði 1904 með fósturforeldrunum. Þetta var sama ár og Magnús, þá 15 ára, fór frá Freyshólum í Ketilsstaði, þar sem hann var vinnumaður. 
Það er spurning hvort árið 1905 hafi verið nokkurskonar úrslitaár, en þá var Magnús (17) kominn í Kóreksstaði og dóttir Páls Geirmundssonar bjó enn í Kóreksstaðagerði. Það má alveg reikna með að Ingibjörg (12) hafi þá dvalið í Kóreksstaðagerði yfir sumarið. Hver veit?


Vallaneshjáleiga 1912
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði í Vallaneshjáleigu, sennilega um vorið og Magnús kom frá Hólum, sennilega á svipuðum tíma. Það er auðvitað mögulegt að þetta hafi verið skipulagt hjá þeim, eftir bréfasamskipti síðan á Kóreksstaðaárunum. Það er líka möguleiki, að þetta hafi bara verið alger tilviljun.

Ættartengslin
Ljósbjörg hefur, án efa, verið í samskiptum við hálfbróður sinn, Jónas Valgerðarson Hansson, afa Ingibjargar og ekki ólíklegt að fjölskyldan hafi verið við útför hans á Seyðisfirði, en hann lést 1906, eins og áður hefur komið fram. Mér finnst lítill vafi leika á því, að Magnús og Ingibjörg hafi þekkst nokkuð vel, þó ekki væri nema vegna ættartengslanna. 
Ljósbjörg (65) var í Vallaneshjáleigu með syni sínum, Magnúsi (25) og barnabarni hálfbróður síns, Ingibjörgu (19), árið 1912. Ætli hún hafi átt einhvern þátt í að koma þeim í hnapphelduna? 

Sambúðin hefst

Auðvitað kemur mér ekkert við hvernig það kom til að afi minn og amma stofnuðu til hjúskapar 11. mars árið 1913. Mér finnst áhugavert að reyna að gera mér grein fyrir því hvernig mál þróuðust þannig að ég varð til. Það er, sem sagt, hrein og tær sjálfhverfa, sem ræður för. 
Það er líklegt að ástæðan hafi verið sú, að Ingibjörg varð þunguð og nauðsynlegt að barnið teldist skilgetið þegar það kæmi í heiminn. Daginn eftir brúðkaupsdaginn varð Ingibjörg léttari og eignaðist son, sem fæddist andvana, svo ekki hefur farið mikið fyrir hveitibrauðsdögum ungu hjónanna. 

Frá Vallaneshjáleigu í Freyshóla
Ég geri ráð fyrir að ungu hjónin hafi flutt frá Vallaneshjáleigu í Gunnlaugsstaði vorið 1914, þegar annað barnið var væntanlegt, en það fæddist þann 7. júni og fékk nafnið Alfreð. Ekki var viðdvöl þeirra á nýja staðnum löng, en fluttu þau í Freyshóla ári síðar.  Framundan var að reyna að átta sig á hvernig best væri að haga framtíðinni. Ekki töldu þau það neina framtíðarlausn, að vera í vinnumennsku á hinum og þessum bæjum í héraðinu. Það voru engar jarðir lausar til ábúðar og þau hafa örugglega velt ýmsum möguleikum fyrir sér.  Það varð um það niðurstaða, að þau flyttu á æskuheimili Magnúsar, þar sem fyrir var systir hans, Sigurbjörg og fjölskylda hennar. 

Tvíbýli á Freyshólum. 
Meðalstærð jarða á Íslandi mun vera um 1000 hektarar. Ég sá jörðina Freyshóla auglýsta til sölu fyrir nokkrum árum og þá var hún sögð 272 hektarar. Ætli megi ekki ætla, að hún hafi alltaf verið af þeirri stærð, fjórðungur af meðalstærð jarða?  Í öllu falli held ég að fullyrða megi að Freyshólar hafi varla borið tvær fjölskyldur. 
Hvað sem þessu leið, fluttu Magnús og Ingibjörg í Freyshóla, líklegast vorið (eða á útmánuðum) 1915 og þá var þriðja barn þeirra á leiðinni, Haraldur, sem fæddist þann 4. september. 
Þarna var stofnað annað býli á Freyshólum og þar bjuggu afi og amma með synina tvo til vors (líklegast) 1918. Þau hafa örugglega verið á fullu við að fylgjast með jörðum sem kynnu að losna, því varla hafa þau séð fyrir sér að hokra á landlítilli jörðinni til frambúðar. Það losnuðu greinilega engar jarðir og þá þurfti að hugsa út fyrir rammann. 

Um Guðrúnu Jónsdóttur og fjölskylduna á Kóreksstöðum. (smá hliðarspor)

Árið 1916 lést Sveinn Björnsson, bóndi á Kóreksstöðum, mágur Magnúsar, faðir Guðrúnar Sveins, úr lungnabólgu, 53 ára að aldri. Guðrún, systir Magnúsar var áfram á Kóreksstöðum með börn sín 4, sem líklega hefur ekki gengið til lengdar.  
Þannig var, að í upphafi ársins 1916 voru þessi á bænum:
Sveinn Bjarnason, bóndi (53) - hann lést úr lungnabólgu 20. apríl þetta ár.
Guðrún Jónsdóttir, kona hans (32)
Guðrún Björg Sveinsdóttir (10)
Björn Sveinsson (8)
Þórína Sveinsdóttir (6)
Ester Sveinsdóttir (1)
Einar Sveinsson (á 1)
Guðrún Sveinsdóttir, móðir bónda (87) - hún lést 2. febrúar þetta ár.
Geirmundur Magnússon, vinnumaður (33) hætti líklega um vorið.
Una Kristín Árnadóttir, vinnukona (20)
Síðari hluta ársins var kominn annar vinnumaður á bæinn: Pjetur Pjetursson (38). í sóknarmannatali ársins 1917 er kynnt til sögunnar óskírð stúlka á 1. ári, dóttir Guðrúnar og Pjeturs. 
Í framhaldinu hvarf þessi fjölskylda frá Kóreksstöðum. Guðrún og Pjetur áttu síðan eftir að giftast og þau eignuðust 5 börn saman, en Guðrún átti 6 börn með Sveini Björnssyni.
Ég gæti auðveldlega haldið áfram með þessa systur Magnúsar afa, móður Guðrúnar Sveins, en læt það eiga sig, að öðru leyti en því að í lok árs 1918 var hún komin í Freyshóla með tvö barna sinna og eignaðist þar son í lok árs. 

...... áfram inn á hina réttu braut.

Sannarlega veit ég ekki hvað olli því að tvíbýlið á Freyshólum gekk ekki til langframa, en grunar,að jörðin hafi einfaldlega ekki borið tvær fjölskyldur. Á fyrri hluta ársins 1918 var orðið ljóst að enn væri fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi. Eftir frostaveturinn mikla, sem gekk yfir fyrri hluta árs 1918, kann ástandið á Freyshólum að hafa verið orðið óburðugt og ekki um annað að ræða en taka af skarið. Niðurstaða varð um að fjölskyldan myndi flytjast að Rangárlóni í Jökuldalsheiði. 

-------------------------------------
Ég ætlaði nú ekki að dvelja svona lengi við þessi sex á frá 1912-1918, en, það er ekki alltaf svo að maður ráði sínum næturstað. Svo virðist þetta bara hafa verið áhugaverður tími.
Áfram gakk.

09 september, 2022

Austfirskar rætur (2)

Mæðginin Magnús Jónsson og
Ljósbjörg Magnúsdóttir við lok 19. aldar.
Ég reyni að rekja stuttlega sögu langafa míns, Jóns Guðmundssonar á Freyshólum og langömmu, Ljósbjargar Magnúsdóttur, fram til þess tíma þegar þau tóku við búi á Freyshólum, árið 1876. Þessi leit mín hefur ekki verið einföld, svo ekki sé meira sagt og niðurstaða mín var sú að láta kyrrt liggja að mestu.  En úr því ég er búinn að sitja við þessa leit, dögum saman, finnst mér óhjákvæmilegt að skrá hér þó það sem ég veit með nokkurri vissu. 

Aðeins um bakgrunn afa míns, 
Magnúsar Jónssonar 
(
05.11.1887-16.01.1965)

Hinn langafinn í föðurætt: Jón Guðmundsson.
Jón Guðmundsson, fæddist 6. mars 1829 og var sonur Guðmundar Jónssonar bónda í Borgargerði  og Katrínar Gunnlaugsdóttur. 
Árið 1834 var fjölskyldan flutt að Lambeyri í Reyðarfirði og var þar enn 1839.
1842 til 1844 var Jón léttadrengur í Vattarnesi en fór þá í Breiðuvík, þaðan hvarf hann árið eftir í Höfða og þaðan í Ketilsstaði 1848.
Árið 1851 var hann mættur sem 22 ára vinnumaður í Freyshóla og var þar til 1862, en þá flutti fjölskyldan að Hofteigi í Jökuldal og Jón flutti með þeim þangað. Þá var hann orðinn 34 ára.
Árið 1964 gerðist hann vinnumaður í Þingmúla og var þar til 1869, en er þá sagður hafa farið í Ormsstaði. Hvaða Ormsstaðir þetta voru veit ég bara ekki. Ormsstaðir í Breiðdal eða ....? 
Eftir það er ég hreint ekki vissu um verustaði hans, fyrr en hann tók við sem bóndi í Freyshólum.

Hin langamman í föðurætt: Ljósbjörg Magnúsdóttir.
Það kom fram í 1. hluta, að langalangafi minn Jónas Valgerðarson Hansson, var hálfbróðir langömmu minnar, Ljósbjargar Magnúsdóttur. Þar segir: "Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín."
Ljósbjörg er sögð fædd á Reykjum í Mjóafirði þann 8. janúar, 1848.

Ég verð að viðurkenna að mér gekk bölvanlega að finna upplýsingar um Ljósbjörgu fyrr en hún var nýkomin í Skjöldólfsstaði í Jökuldal árið 1868, en þá er engu líkara en hún hafi einnig farið í Þingmúla, en þar fann ég hana þetta sama ár. 

Jón og Ljósbjörg
Á þessu ári (1868) var Jón Guðmundsson einnig í Þingmúla, svo ég slæ því bara föstu, að þar hafi kynni þeirra hafist. Árið eftir var Jón áfram í Þingmúla, en Ljósbjörg farin þaðan, líklega í Skjöldólfsstaði, en þaðan er hún sögð hafa farið 1870, sama ár og Jón fór frá Þingmúla í Ormsstaði, sem ég veit ekki hvar eru og þá er Ljósbjörg einnig sögð hafa farið þangað. 
Hjúin eignuðust fyrsta barn sitt, Hólmfríði, í  Hofteigi 1874. Þar voru þau frá 1871 til 1876 og gengu í hjónaband meðan þau voru þar.
 

Freyshólar
Svo varð það 1876 að Þau komu í  Freyshóla frá Hofteigi og tóku þar við búi af Bjarna Bjarnasyni (68) og Salnýju Jónsdóttur (42). Þau attu 4 börn 9-18 ára.  Þau fluttu að Stóra-Sandfelli.
Jón var 48 ára og Ljósbjörg þrítug og þar með 18 ár á milli þeirra. Með þeim var frumburðurinn Hólmfríður Jónsdóttir (1).  Annað fólk á bænum voru 14 ára léttastúlka. Stefán Gunnlaugsson (38) vinnumaður, kona hans Herdís Jónsdóttir (44) og tvö börn þeirra 8 og 2ja ára.  Árið eftir var komið annað fólk í vinnumennskuna. 
1878
Annað barn hjónanna fæddist, Sigurbjörg Jónsdóttir.
1879
Auk fjölskyldunnar voru á bænum 12 ára tökustúlka, 40 ára vinnukona og 3ja ára sonur hennar, 36 ára vinnumaður og 85 ára niðursetningur. 
1880
Hér bættist þriðja barnið við, Guðjón Jónsson.
1881
Allt við það sama nema nú var kominn til sögu húsmaður, Benedikt Gíslason (29) ásamt Ólöfu Ólafsdóttur (28) konu hans og tveggja ára dóttur.
1882
Sama og síðasta ár.
1883
Fjórða barnið, Guðrún Jónsdóttir, bættist í barnahópinn.  og það var enginn húsmaður lengur, heldur þrjár vinnukonur og einn vinnumaður.
1884 - 1886
Hér bar fátt til tíðinda.

Gróft yfirlit yfir helstu staði sem koma við sögu. Grunnur er herforingjaráðskort.


Magnús Jónsson kemur til sögunnar
1887
Þann 6. nóvember kom í heiminn fimmta, og síðasta, barn þeirra Jóns og Ljósbjargar og fékk hann nafnið Magnús. Hann er önnur meginástæða þessarar samantektar og honum verður fylgt héðan í frá. 

Þegar piltur kom í heiminn var þetta fólk á Freyshólum:
Jón Guðmundsson, bóndi (59) - faðirinn sennilega í eldri kantinum. 
Ljósbjörg Magnúsdóttir kona hans (33)
Hólmfríður Jónsdóttir (12), Ingibjörg Jónsdóttir (9), Guðjón Jónsson (8) og Guðrún Jónsdóttir (5) börnin á bænum.
Jóhann Sigurðsson (48) vinnumaður og Herdís Kolbeinsdóttir (25) vinnukona.
1888-1899
Þetta voru nú bara ár sem Magnús var að slíta barnsskónum smám saman, hjá fjölskyldu sinni á Freyshólum. Það voru helst elstu systkinin sem byrjuðu að hreyfa sig á þessum tíma. Þannig fór Hólmfríður sem vinnukona í Sauðhaga og kom aftur með mann með sér, Jón Ólafsson að nafni. Þau eignuðust svo soninn Ólaf Björgvin árið 1895 og bjuggu á Freyshólum, sem vinnuhjú.
Guðrún, þá 18 ára,var komin í Hjaltastaði 1901.
1900
Þann 16. júlí, lést Jón bóndi 72 ára að aldri. Þarna var Ljósbjörg 53 ára og var skráð sem búandi síðari hluta ársins.  
1901
Svona var fjölskyldan á Freyshólum skráð á þessu ári:
Jón Ólafsson, bóndi (35)
Hólmfríður Jónsdóttir, hans kona (25),
Ólafur Björgvin Jónsson (6) þeirra sonur.
Ljósbjörg Magnúsdóttir, vinnukona (54)
Magnús Jónsson, léttadrengur (13)
Þarna fóru í hönd nýir tímar, sem sagt. 
1902
Jón og Hólmfríður eignuðust annað barn, Jóhönnu Björg.  Ljósbjörg var skráð sem "móðir konu" og Magnús áfram "léttadrengur". Það var komin vinnukona og 4ra ára tökubarn.
1903
Hér voru vinnukonan og tökubarnið farin og léttadrengurinn Magnús, orðinn 15 ára. 
Guðrún (20) var orðin vinnukona á Kóreksstöðum. 
1904
Hér var Ljósbjörg farin að Hryggstekk í Skriðdal. Á Kóreksstöðum hafði Guðrún fengið titilinn "ráðskona" hjá Sveini Björnssyni, bónda (42). 
Magnús (16) var orðinn "vinnumaður" á Ketilsstöðum.
1905
Á Freyshólum var kjarnafjölskyldan, hjónin með tvö börn.
Á Kóreksstöðum var Guðrún (22) orðin húsfreyja, gift Sveini Björnssyni (43) og þau höfðu eignast dótturina Guðrúnu Björgu, sem síðan var kunn sem Guðrún Sveins og bjó í Mávahlíð í Reykjavík.
Það sem skiptir hinsvegar mestu fyrir þessa samantekt er, að í Kóreksstaði var kominn 17 ára pilturinn Magnús Jónsson og gegndi hann þar stöðu vinnumanns. 
1906
Magnús var áfram vinnumaður á Kóreksstöðum.
Á Freyshólum voru orðin mikil umskipti. Sigurbjörg (28) var komin aftur heim, með manni sínum Guðmundi Jónssyni (47) og þrem börnum Guðmundi (3), Jóni Björgvin (2) og Sigrúnu (á1)
1907
Ljósbjörg var komin aftur í Freyshóla og fleira fólk. 
Enn var Magnús á Kóreksstöðum hjá systur sinni og nú var þangað kominn sonur Jóns og Hólmfríðar á Freyshólum, Ólafur  Björgvin (12)
1908
Þeir Magnús (20) og Ólafur (13) voru enn á Kóreksstöðum og óbreytt á Freyshólum, utan að Guðjón (27) var kominn sem lausamaður á heimaslóðir.
1909
Óbreytt á Kóreksstöðum og Freyshólum
1910
Magnús (23) kom aftur á Freyshóla, en annað var óbreytt. 
1911
Magnús enn á Freyshólum, en einning í Hólum, en þar var hann hjá Sistur sinn, Sigurbjörgu og hennar fjölskyldu, ásamt Ljósbjörgu móður sinni..
1912
Það vakti athygli að Sigbjörn Sigurðsson, föðurbróðir S. Ingibjargar ömmu, var kominn sem vinnumaður til þeirra Guðrúnar og Sveins á Kóreksstöðum. 
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði og gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu, en þar var Magnús þá starfandi sem húsmaður.
1913 
Sigbjörn farinn frá Kóreksstöðum.
Magnús (27) gerðist húsmaður í Vallaneshjáleigu. Þann 2. febrúar var lýst með þeim Ingibjörgu og 2. mars gengu þau svo í hjónaband.  Þau fór svo saman að Strönd, en stöldruðu þar stutt við.
1914
Á þessu ári var Magnús (27) var orðinn húsmaður á Gunnlaugsstöðum. Þar var einnig kona hans, Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (21) með Alfreð, son þeirra, á 1. ári.

--------------------------

Hér með er ég kominn þar með þessa samantekt, að Magnús og Ingibjörg er búin að stofna fjölskyldu.  Það sem nú liggur fyrir, er að fylgja þeim eftir næstu ár, sem líklega voru ekki alltaf dans á rósum - en meira um það síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...