Sýnir færslur með efnisorðinu aldarminning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu aldarminning. Sýna allar færslur

23 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (2)

Guðný og Elín Ásta
Pálsdætur.
Þetta er framhald af þessu: Að efna í aldarminningu 2 (1).

Baugsstaðir árið 1920, já. Ég tók mig reyndar til og fletti í gegnum sóknarmannatal í Gaulverjabæjarsókn frá árinu 1917 til 1947, svona til að reyna að átta mig á því fólki sem var með skráða heimilisfesti í vesturbænum á því 30 ára tímabili sem hér um ræðir.

Í árslok 1920, þegar Guðný kíkti fyrst á heiminn, voru 10 aðrir einstaklingar með heimilisfesti á bænum. 
Þetta voru auðvitað hinir nýbökuðu foreldrar Elín og Páll (32 og 33 ára), amma barnsins, Elín Magnúsdóttir (64), Krístín, systir Elínar (37) og fimm börn hennar og Siggeirs, bróður Páls: Guðmundur Siggeir (14), Jóhann (11), Ásmundur (8), Sigurlaug (6) og Sigurður (2). Loks var þarna Kristín María Sæmundsdóttir (14), Stína María, sem var dóttir Guðlaugar, systur Elínar, eins og áður hefur verið nefnt.
11 manna heimili, sem sagt.

Aðeins um Kristínu Jóhannsdóttur og börn hennar.

Kristín var með börn sín á Baugsstöðum til ársins 1922, en þá flutti hún, eftir því sem sóknarmannatalið segir, til Reykjavíkur. Hún var síðan orðin húsfreyja á Læk í Ölfusi 1927(44). Maður hennar var þá Ísleifur Einarsson (52). Þar voru þá með henni börnin Jóhann, Sigurlaug og Sigurður Siggeirsbörn
Ásmundur og Sigurlaug Siggeirsbörn og 
Guðný og Elín Ásta Pálsdætur.

Tveir synir Kristínar og Siggeirs, þeir Guðmundur Siggeir og Ásmundur urðu eftir þegar Kristín fór frá Baugsstöðum. Guðmundur var þar skráður til 1932, þá 26 ára og Ásmundur  til 1943.  
Sigurlaug flutti með móður sinni til Reykjavíkur 1923, en kom aftur á Baugsstaði árið eftir og var þar þar til móðir hennar flutti að Læk. Þar var hún síðan þar til hún kom aftur á Baugsstaði 1935 með nýfædda dóttur sína Sigríði, sem var alltaf kölluð Sigga Ísafold í mín eyru. Sigurlaug (Silla) var síðan á Baugsstöðum með dóttur sína til 1946.
Ég ákvað að setja þennan stutta kafla um Kristínu og börn hennar og Siggeirs Guðmundssonar hér, til að halda til haga hve náin tengsl voru milli þessara fjölskyldna.

Annað fólk á Baugsstöðum 1920-1947
Guðný Ásmundsdóttir, móðir Páls, lést í maí 1920, á 67. aldursári, en ný Guðný tók síðan við keflinu í október það ár, Guðný Pálsdóttir.

Elín Magnúsdóttir með
Siggeir Pálsson (líklegast)

Elín Magnúsdóttir
, móðir Elínar, fékk að njóta heldur fleiri lífdaga en Guðný. Hún lést í apríl 1944, þá rétt að verða níræð. 
Kristín María Sæmundsdóttir  (Stína María) hvarf til Reykjavíkur, 1925, þá á 19. aldursári.
Vigfús Ásmundsson kom á Baugsstaði 1922 (62) og var þar til 1932 en fór þá að Seli í Grímsnesi, þá 72 ára.  Vigfús var bróðir Guðnýjar Ásmundsdóttur og því móðurbróðir Páls. 
Vigfús var bóndi í Haga 1889-1892 og í Fjalli á Skeiðum 1892-1896. Fæddur 23. desember 1859, d. 8. nóvember 1945. Um hann segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: „Tók við búi af föður sínum, hóglætismaður og drengur góður. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Minna-Núpi, systir Guðmundar á Baugsstöðum; voru barnlaus. Bjuggu allvel, en fóru eftir fá ár að Fjalli á Skeiðum. Þar hættu þau búskap er heilsan bilaði." Jón Guðmundsson í Fjalli bætir við: „Skildu barnlaus um aldamótin. Son átti Vigfús, sem var Kjartan bóndi í Seli í Grímsnesi."  (Fréttabréf ættfræðifélagsins, 1. tbl. 1. jan. 2005).

Vigfús Ásmundsson (Fúsi)

Kjartan, bóndi í Seli í Grímsnesi var faðir Árna, "Árna á Seli", sem tók síðan við jörðinni. Það voru allmikil samskipti milli Hveratúns og fólksins Seli, Árna og Ellinor konu hans. Ég vissi, minnir mig, að það væru skyldleikatengsl, en það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég uppgötvaði hvernig þeim var háttað.

Sveinbarn var skráð til heimilis að Baugsstöðum 1924. Í athugasemd segir að það sé frá Hellum og sé frændi. Þetta vekur forvitni, en ekki hef ég fundið frekari upplýsingar um þennan pilt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, skráð vinnukona, var með heimilisfesti á Baugsstöðum frá 1931-1935 eða 6. Hún var 54 ára þegar hún kom og hvarf síðan á braut 59 ára. Í sóknarmannatali er skráð í athugasemd, að hún hafi komið frá Ási í Hrunamannahreppi, en síðan strikað yfir það. Í sóknarmannatali Hrunasóknar er hún skráð sem vinnukona í Ási og þar kemur fram að hún hafi fæðst í Klapparkoti í Miðneshreppi.  Þetta er rannsóknarefni.

---------------------

Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að tína til það fólk (fyrir utan Elínu, Pál og börn þeirra) sem litaði heimilishaldið á Baugsstöðum í þá tvo áratugi eða svo sem Guðný, móðir mín, var að slíta barnsskónum. Mér fannst nauðsynlegt að reyna að ná utan um þetta og þykist all miklu fróðari eftir.

Næst á dagskrá er síðan að fabúlera um æsku og uppvöxt Guðnýjar og systkina hennar. Sömuleiðis hef ég í hyggju að  birta myndir af persónum og leikendum, eftir föngum. Þarf bara að hitta einn mann.


FRAMHALD



20 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (1)

Fimmtudaginn 7. október, árið 1920 fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, stúlka sem hlaut nafnið Guðný og hún var dóttir hjónanna Elínar Jóhannsdóttur og Páls Guðmundssonar. Þetta þýðir að við blasa þau tímamót að 100 ár verða liðin frá fæðingu móður minnar, en hún lést þann 19. desember, 1992, fyrir tæpum 28 árum.
Af þessu tilefni hyggst ég tína saman eftir getu, helstu þætti í ævigöngu Guðnýjar, frá fyrstu skrefunum á Baugsstöðum til dauðadags. Hvernig til tekst verður bara að koma í ljós.

Ég hef nú alltaf átt fremur efitt með að átta mig á samsetningu íbúa á Baugsstöðum á þeim tíma sem mamma fæddist, en veit samt eitthvað og reyni að bæta aðeins við þekkinguna af þessu tilefni.

Í ársbyrjun 1918 voru þessi skráð í sóknarmannatal Gaulverjabæjarsóknar, með búsetu á vesturbænum á Baugsstöðum:
Guðmundur Jónsson, bóndi (68)
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans (64)
   Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra (38)
   Kristín Jóhannsdóttir, kona hans (34)
      Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra (11) 
      Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra (8)
      Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra (5)
      Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra (3)
   Páll Guðmundsson, vinnumaður (30)
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona (29)
Elín Magnúsdóttir, vinnukona (62)
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit (11)

Sóknarmannatal 1917

Það sem lesa má út úr þessum lista er, meðal annars, að á Baugsstöðum bjuggu þau Guðmundur og Guðný ásamt tveim sonum sínum, þeim Siggeiri og Páli

Siggeir var kvæntur Krístínu og þarna höfðu þau eignast fjögur börn og það fimmta, Sigurður, var á leiðinni og fæddist þann 10. mars þetta ár. 

Páll er skráður vinnumaður í sóknarmannatalinu, enda hefði mátt reikna með að eldri sonurinn tæki við búinu á Baugsstöðum í fyllingu tímans. Þarna var einnig á bænum Elín Jóhannsdóttir, systir Kristínar konu Siggeirs.  
Ennfremur var þarna móðir Elínar og Kristínar, Elín Magnúsdóttir, en eiginmaður hennar og faðir systranna, Jóhann Hannesson, varð úti 1891, en þá höfðu hann og Elín komið sér fyrir á Baugsstöðum.

Loks er nefnd í sóknarmannatalinu Kristín María Sæmundsdóttir og hún sögð vera "á sveit". Þessa konu þekkti ég og mitt fólk sem Stínu Maríu. Stína María var dóttir Guðlaugar, sem var systir Kristínar og Elínar, en auk systranna þriggja sem hér hafa verið nefndar eignuðust Jóhann og Elín fjögur börn saman og Elín eina dóttur, nokkrum árum eftir lát Jóhanns.  

Hér velti ég fyrir mér hve mörg ykkar eruð búin að gefast upp, en nú finnst mér ég var búinn að kynna nóg af persónum sem tengjast vesturbænum á Baugsstöðum, þarna í upphafi ársins 1918. Þetta ár var mikið örlagaár.

Árið 1918

Kristín og Siggeir 
á Baugsstöðum
Guðmundur Jónsson, bóndi, lést
 í byrjun febrúar, eftir heilablóðfall haustið 1917.  Þar með kom það í hluta bræðranna Siggeirs og Páls að taka við búinu.
Siggeir drukknaði síðan þann 1. desember. 
Slys. 
Það sorglega slys vildi til á Baugstöðum nálægt Stokkseyri, að ungur myndarmaður, Siggeir Guðmundsson á Baugsstöðum, var að reka kindur upp frá sjó og var lasinn, kom ekki heim um kvöldið og er leitað var fanst hann um miðjan dag daginn eftir í sjónum og vissu menn eigi hvort hann hefði dottið og rotast, eða druknað
 (Tíminn .21.12.1918)
Í Íslendingabók er þetta sagt um dauða Siggeirs: Drukknaði, sennilega féll hann niður af völdum Spænsku veikinnar.


Þarna féllu bóndinn á bænum og eldri sonurinn báðir frá á sama ári.  Kristín, skráð í sóknarmannabók sem "búandi ekkja" með 5 börn á aldrinum 0-12 ára. Páll og Elín enn skráð sem vinnuhjú, Guðný, móðir Elínar, sem ekkja og Stína María sem "á sveit".

Árið 1919

Páll og Elín á Baugsstöðum

Sóknarmannatal greinir frá því að Páll Guðmundsson (32) sé tekinn við búinu. Elín (31) er skráð sem vinnukona. Á Baugsstöðum eru nú 3 ekkjur og 6 börn. 
Einhverntíma var mér sagt að Páll og Elín hafi alist upp eins og systkini, enda jafnaldrar, feður þeirra bræður og mæður þeirra systur. Þetta gat varla endað nema á einn veg.  
Á jóladag þetta ár gengu Páll og Elín í hjónaband. 

Árið 1920                                                            

Sóknarmannatal 1920

Þetta ár verður að teljast upphafið á þessara samantekt minni í tilefni af aldarafmæli móður minnar, en eins og áður segir, kom hún í heiminn þann 7. október og var fyrsta barn hjónanna Páls Guðmundssonar og Elínar Jóhannsdóttur.

--------------------------------
Svo kemur bara meira næst.

Til athugunar:

Þann 29. september, 2018 hefði faðir minn, Skúli Magnússon, átt aldarafmæli ef henn hefði lifað. Af því tilefni tók ég saman helstu þætti í ævi hans og birti hér í 7. pistlum. 


03 júní, 2020

Aldarminning 3 (3)


Í dag er öld liðin frá því tengdamóðir mín fæddist norður í Fljótum. Það er ástæða til að óska afkomendum hennar til hamingju með líf hennar og þennan dag.

Ég kom til sögunnar, sagði ég. Það gerðist um miðjan áttunda áratuginn, þegar Bubba var hálf sextug, á besta aldri, sem sagt. Það fer næstum um mig að hugsa til þess að hún var þá rúmum áratug yngri en ég nú. Á þeim tíma var lífið komið í all fastar skorður á Álfhólsvegi 17A. Dæturnar komnar, eða næstum komnar á skrið með eigið líf, Valdi keyrði sendibílinn sinn og Bubba sótti vinnu í Kóp, sem ég tel að hafi heitið Verslunin Vogar og var á Víghólastíg 15.  Ég minnist hennar fyrst  við að elda mat, vaska upp, reykja Camel og leggja kapal - og vera fyndin. Mér fannst hún vera orðin rígfullorðin, sem er eðlilegt í ljósi þess, að þeim yngri finnst þeir eldri alltaf vera miklu eldri en raunin er.
Samskipti okkar við Valda og Bubbu voru mest í formi heimsókna, enda bjuggum við einhversstaðar "langt uppi í sveit" að mestu, utan þau fjögur ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið milli áranna 1975 og 1979.

Bubba við eldhúsborðið á efri hæðinni að leggja kapal meðan reykurinn liðaðist upp af öskubakkanum, er mynd sem mér dettur alltaf fyrst í hug varðandi tengdamóður mína. Mig minnir að hún hafi einhverntíma hætt að reykja, en þar sem henni var fyrirmunað að segja ósatt, þar sem svipbrigðin komu upp um hana, tókst henni ekki að fela það þegar hún sprakk á limminu og fór að reyna að reykja í laumi.


Eftir að starfsævinni utan heimilis lauk fór konan að taka þátt í starfi eldri borgara í Kópavogi, stundaði sund og spil svo lengi sem heilsan leyfði. 
Kapla lagði hún og ég held bara að þegar upp var staðið hafi kapall lífs hennar gengið upp. Að því búnu kvaddi hún í rólegheitum, 85 ára að aldri, þann 15. október, 2005.


Ég æt fylgja hér með minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma. 

Þegar maður er orðinn 85 ára er svo sem við öllu að búast. Undir það síðasta var eins og Bubba teldi sig vera búna að neyta fylli sinnar af þeim skammti sem hún hlaut af gnægtaborði jarðlífsins. Hún var líklegast tilbúin þegar kom að kveðjustund. Þeir sem eftir lifa þurfa að sætta sig orðinn hlut þótt það geti verið sárt um stund. Þeirra upplifun af ömmu í Kópavogi breytist í góðar minningar og þakklæti fyrir samfylgdina.

Það er ekki annað hægt að segja en að tengdamamma hafi farið hljótt um jarðlífið; giftist Valda sínum og saman komu þau 4 dætrum á legg við Álfhólsveginn í Kópavogi. Hún vann lengst af starfsævinnar við verslun og þegar starfi hennar á vinnumarkaðnum lauk tók hún eins mikinn þátt í tómstundastarfi með eldri borgurum í Kópavogi og henni reyndist unnt. Hún fór reglulega á spilakvöld og var þátttakandi í sundhópi eins lengi og heilsan leyfði. Hún var mikil félagsvera og ég held að henni hafi þótt það miður síðustu mánuðina að geta ekki sinnt félagslífinu eins mikið og hún hefði kosið. Heima við stytti hún sér stundir með því að leggja kapal eða spila við þá sem komu í heimsókn og deildu með henni spilaáhuganum. Snjáður spilastokkurinn var alltaf á vísum stað.

Þegar reynt að gera manneskju einhver skil eftir 30 ára kynni, getur verið vandi að finna rétta flötinn, en það fyrsta sem mér kemur til hugar um persónueinkenni tengdamömmu er, að mér finnst hún hafa verið hálfgerður grallari. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna þessi mynd birtist mér; líklegast þó í tengslum við umræður okkar um menn og málefni gegnum árin. Hún var alltaf tilbúin til að fjalla um stjórnmálaástandið á hverjum tíma; oft lét hún gamminn geisa í þeim efnum og í þeirri umræðu hallaði á hægri öflin og peningahyggjuna í samfélaginu.

Almennt held ég að megi segja að Bubba hafi átt góða ævi, þrátt fyrir að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðum áföllum. Þau hjónin misstu tvö börn við fæðingu og það hefur tekið á þegar bóndinn veiktist alvarlega á blómaskeiði lífsins og hún þurfti að sjá um öll mál á stóru heimili.

Ég heyrði Bubbu aldrei hafa mörg orð um byrðar sem voru lagðir á herðar henni, enda má segja að þegar hún stendur upp frá borðinu og vaskar upp eftir borðhaldið, geti hún bara verið stolt af afkomendunum 39, tengdabörnunum og honum Valda sínum, sem hún gekk með í gegnum súrt og sætt í ríflega sextíu ár.

Blessuð sé minning Guðbjargar Jónsdóttur.

02 júní, 2020

Aldarminning 3 (2)

Framhald af Aldarminning 3 (1)
Æska og unglingsár
Ég tók mig nú til og leitaði í kirkjubækur til að átta mig á hvernig leið tengdamóður minnar lá þar til hún hleypti heimdraganum og hélt suður á bóginn.  Hún var fædd í Fljótunum þann 3. júní, 1920, en fjölskyldan er skráð til heimilis á Eyrargötu 14 á Siglufirði í desember það ár. Í næstu skráningu sem ég fann fjölskylduna þá bjó hún í Einarshúsi á Sauðárkróki frá 1925 til 1927 og síðan í nýju húsi sem bar nafnið Hestur í þeim bæ til í það minnsta 1938. Bubba fór hinsvegar suður 1937 og var þá skráð til heimilis á Leifsgötu 13.
 

Ekki ætla ég að þykjast vita hvaða ástæður lágu að baki því að hún flutti suður, sautján ára gömul, en reikna með að það hafi tengst vinnu af einhverju tagi.

Borgarstúlkan  

Hún var í Reykjavík þegar stríðið skall á í Evrópu, svo mikið veit ég. Hagaði lífi sínu þar, væntanlega ekki ósvipað því sem ungt fólk gerði. Af þessu fer ekki sögum, í það minnsta eru þær fjarri því að vera til í mínu höfði. Ég legg ekki í að leita í kirkjubókum Reykavíkurprófastsdæmis frá þessum tíma 
Það fer hinsvegar ekkert á milli mála þegar börn fæðast, því það er skráð í bak og fyrir  og þannig var það að Bubba eignaðist dóttur í júlí, 1942, sem hlaut nafnið Pálína. Ekki geri ég ráð fyrir að það hafi reynst henni auðvelt, frekar en öðrum konum á þeim tíma, að ala barn utan hjónabands, en hvað veit ég svo sem um það? 

Hjónaband og börn
Með tveggja ára dóttur sína gekk hún að eiga framtíðar eiginmanninn Þorvald Runólfsson, í júni, nokkrum dögum áður en lýðveldi var stofnað á Íslandi. Hann gekk dóttur Bubbu í föður stað og þau héldu saman inn í framtíðina, sem ekki reyndist nú verð alveg áfallalaus.
Eins og gengur og gerist í lífinu, fylgdi það hjónabandi þeirra Bubbu og Valda, að skella sér í barneignir. Fyrsta barn þeirra, sem var stúlka, fæddist 28. júlí, 1946. Hún lést sama dag.
Annað barn þeirra, drengur, fæddist 28. mars, 1948. Hann lést fjórum dögum síðar, þann 8. mars.
Þessi fáu orð sem ég nota hér til að skrá þetta, tjá auðvitað ekki þá miklu sorg sem missir barnanna hlýtur að hafa verið.
Þriðja barnið eignuðust hjónin síðan í nóvember, 1952, dótturina Sóley Stefaníu, það fjórða í september, 1954, dótturina Auði og loks örverpið, sem leit dagsljósið í ágúst, 1956, dóttur sem hlaut nafnið Dröfn.
Þegar þarna var komið, voru þau flutt í húsið sem þau byggðu við Álfhólsveg 17 í Kópavogi, en það gerðu þau árið 1947. 

Erfiður tími enn
Undir lok sjöunda áratugsins (er mér sagt, en tíminn er ekki alveg á hreinu) fór Valdi að kenna sér alvarlegs meins, sem leiddi til þess að að þurfti að dvelja alllengi í Danmörku til lækninga. Þar með kom það í hlut Bubbu að ala önn fyrir dætrum sínum, þrem ungum og einni sem nálgaðist tvítugt. Ekki var um annað að ræða fyrir hana en að finna sér starf utan heimilis, auk þess að sjá um allt sem að laut að heimilisrekstrinum.  Ég fjölyrði ekkert um þetta, enda veit ég fátt og helsta heimild mín harla fáfróð líka, þó svo hún hafi nú tilheyrt dætrahópnum.
Valdi komst yfir veikindin, kom heim og tók til við að aka sendibíla, sem hann gerði æ síðan. Bubba sótti áfram vinnu sína í verslun sem kallaðist eða hét Kópur og stóð þar sem Víghólastígur og Brattabrekka mætast.

Þá rann upp minn tími

..... og....., jæja, ætli ég geymi það ekki um stund.

31 maí, 2020

Aldarminning 3 (1)

Það er eitthvað að byrja að líða á ævina þegar maður sest við að skrifa einhverskonar aldarminningu um foreldra sína og tengdaforeldra. Svona gengur þetta nú samt fyrir sig, þetta líf. Það er óumbreytanlega samtvinnað tímanum og þar með getur leiðin í gegnum það aðeins verið ein, frá upphafi til enda. Þetta vitum við allt fyrirfram.

Ég hef nú þegar sett niður í þessum fjölmiðli mínum punkta um ævir föður míns, Skúla Magnússonar og tengdaföður, Þorvaldar Runólfssonar. Nú er komið að því að fjalla lítillega um tengdamóður mína, sem hefði orðið 100 ára þann 3. júní, næstkomandi, en hún fæddist á þeim degi, árið 1920.


Guðbjörg Petrea Jónsdóttir, eða Bubba, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist á Barði í Fljótum þann 3. júní árið 1920, sjöunda í röð 9 systkina. Hún var skírð á Barði þann 17. júní og hlaut nafnið Petrína Guðbjörg, samkvæmt kirkjubókum. Því hefur verið gaukað að mér að hún hafi einhverntíma látið hafa eftir sér, að hún hafi verið skírð Guðbjörg að fyrra nafni, en presturinn hafi skráð það vitlaust. Ekki nóg með þetta, heldur virðist nafnið Petrína í kirkjubókinni hafa breyst með árunum Í Petrea. Presturinn sem skírði og skráði nafnið í kirkjubókina virðist hafa verið sr. Stanley Guðmundsson eða Stanley Melax, en hann tók við Barðssókn þetta ár.


Í athugasemd í kirkjubókinni, þar sem greint er frá skírn Bubbu, segir: náðist ekki í annan karlvott, barnið var lasið og skírn mátti ekki dragast. Þar með voru þrír skírnarvottar: tvær konur og einn karl.

Foreldrar og systkini

Móðir Bubbu var Anna Egilsdóttir (1882-1959) 
Húsfreyja í Mósgerði í Flókadal, Skag. og síðar á Sauðárkróki. Húsfreyja á Sauðárkróki 1930 (Íslendingabók)
Faðir hennar var Jón Jónsson (1887-1961) 
Var á Arnarstöðum, Fellssókn, Skag. 1890. Bóndi í Mósgerði í Flókadal, Skag. Síðar verkamaður og beykir á Sauðárkróki. Verkamaður á Sauðárkróki 1930. (Íslendingabók).
Í kirkjubókinni sem birt er skjámynd úr hér að ofan, eru þau sögð vera "húshjón á Barði" árið sem Bubba fæddist. Þá höfðu þau þegar eignast sex börn og ætla ég að reyna að finna þeim stað hér fyrir neðan, eftir föngum, en upplýsingar um þau sem fædd voru fyrir 1920 er að finna í manntali frá því ári:

Áslaug (1913-2004) 
er skráð til heimilis að Bæ 2 í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Hjú í Bæ, Hofssókn, Skag. 1930. Fósturfor: Stefán Jóhannesson og Hólmfríður Margrét Þorsteinsdóttir. Ólst upp frá fjögurra ára aldri hjá Stefáni Jóhannessyni f. 1874 hálfbróður móður sinnar. (Íslendingabók)
Hólmfríður (1914-1993) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Vinnukona á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. á Sauðárkróki. (Íslendingabók)

Jóhannes Pétur (1915-1967) 
er skráður til heimilis að Syðra Ósi í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu.
Ólst að miklu leyti upp hjá móðurbróður sínum Jóhannesi Egilssyni f. 1885. Verkamaður og sjómaður í Reykjavík. Ókvæntur og barnlaus. (Íslendingabók)
Guðvarður Sigurberg (1916-1996) 
er skráður til heimilis að Steinavöllum í Haganeshreppi í Skagafjarðarsýslu. þar ber hann nafn þáverandi bónda á bænum, sem hét Guðvarður Sigurberg Pétursson. 
Málarameistari á Siglufirði og Akureyri. Var á Illugastöðum, Knappstaðasókn, Skag. 1930. Fósturfor: Guðvarður Pétursson og María Ásgrímsdóttir. Verkamaður á Siglufirði 1946. Síðast bús. á Akureyri. (Íslendingabók)
Ingibjörg Egilsína (1917-1989) 
er skráð til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja og verkakona í Hafnarfirði. (Íslendingabók)

Sigvaldi (1919-1993) 
er skráður til heimilis með foreldrum sínum að Eyrargötu 17 á Siglufirði, Siglufjarðarkaupstað.
Var á Sauðárkróki 1930. Vinnumaður víða. Sjómaður á Dalvík og síðar í Reykjavík. Síðast bús. í Reykjavík. (Íslendingabók)
Marsibil (1923-1991) 
fæddist á Sauðárkróki. Hún var húsmóðir í Hafnarfirði og á Lambeyri í Tálknafirði. (Íslendingabók)
Þóra (1926-1997) 
var á Sauðárkróki 1930. Húsfreyja á Hallgilsstöðum í Hörgárdal í Arnarneshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Hún var síðast búsett á Akureyri. (Íslendiingabók)

Sex af þessum níu systkinum ólust upp með foreldrum sínum, síðast á Sauðárkróki. Fátt veit ég um þessi fjölskyldumál og því bera fæst orð minnsta ábyrgð. Ég verð samt að draga þá ályktun að ekki hafi verið mulið undir þessi börn.

Krákustaðaætt
Í manntali 1850 Bjuggu á Krákustöðum í Hrolleifsdal í Skagafjarðarsýslu, hjónin Þorsteinn Þórðarson og Guðrún Guðvarðardóttir. Á bænum var þá tvítugur sonur þeirra, Guðvarður (1831-1905) og einnig léttadrengur, tvö tökubörn og vinnukona.
Guðvarður tók svo við búinu á Krákustöðum og kvæntist Sigurbjörgu Margrétardóttur (1824-1900).
Eitt átta barna þeirra var Hólmfríður (1859-1942). Hún eignaðist barn 1887, með manni að nafni Jón Jónsson (1860-1941). Ári síðar giftist hún eiginmanninum Pétri Péturssyni og eignaðist með honum fjögur börn, en sonurinn sem hún hafði eignast með Jóni Jónssyni hlaut nafnið Jón og var þá auðvitað Jónsson. Það var einmitt þessi Jón Jónsson sem eignaðist Bubbu og systkin hennar með konu sinni Önnu Egilsdóttur.
Flókið? Nei, það held ég ekki.
Frá þeim Þorsteini og Guðrúnu á Krákustöðum er sprottin Krákustaðaætt.

Hér eru nokkrar myndir frá því þegar afkomendur vitjuðu Krákustaða 2008.
Fyrst kort af þessum afskekkta dal, Hrollleifsdal.

 
Svo myndir, sem segja það sem hægt er að segja, aðallega af afkomendunum að drekka í sig anda liðins tíma og reyna að sjá fyrir sér hvernig lífið hefur verið á þessum afskekkta stað á 19. öldinni. Þar er ekki margt sem minnir á það líf sem þarna fékk að verða til og dafna, áður en það dreifðist um land allt og víðar.





framhald ......

04 janúar, 2020

Aldarminning tvö (2)

Til  forna mun hafa varið sagt, að fjórðungi brygði til móður, fjórðungi til föður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns. Ekki ætla ég að kveða upp úr um það hvort á þessu er eitthvað  byggjandi, hinsvegar get ég fullyrt, eftir kynni mín af fjölmörgu ungu fólki gegnum tíðina, að áhrif þess umhverfis sem það sprettur frá, eru ótvíræð. Ég tel að í uppeldinu og umhverfinu klæðist börnin hjúp sem myndar þá mynd sem þau gefa af sér út í umhverfið. Það þarf síðan oft að fletta af ysta hjúpnum til að finna þá raunverulegu persónu sem undir býr.

Ég er hér að gera tilraun til að koma í orð einhverjum fljótandi minningum um tengdaföður minn sem fæddist austur í Skaftafellssýslu fyrir nákvæmlega einni öld.  Mig grunar að hann myndi ekki taka skrifum af því tagi sem hér er um að ræða, fagnandi, hefði hann eitthvað um þau að segja, en eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er hann harla varnarlaus, eins og staðan er.

Líf Þorvaldar Runólfssonar, sendibílstjóra, fór aldrei hátt út á við og ætli hann hafi ekki viljað hafa það þannig? Maður veit ekki, svo sem. Maður veit aldrei fyllilega hvað bærist með fólki; hvaða vonir eða hvaða þrár.
Var líf Valda það líf sem hann hefði helst kosið sér? Sannarlega hef ég ekki hugmynd um það og karlinn hefði síðastur manna farið að tjá sig um eitthvað slíkt - hefði í það minnsta hnusað aðeins ef spurður. Hann tilheyrði þeim stóra hópi sinnar kynslóðar sem ekki var mulið undir í æsku. Þegar æskunni lauk tók síðan við að vinna  og  bjarga sér. Mér er ekki kunnugt um hvernig skólagöngu hans var háttað, en tel þó, að hún var ekki löng. Brauðstritið, sem svo hefur verið kallað, tók við af æskunni á tímum þar sem skyldurnar voru mikilvægari en réttindin.

Hvernig brauðstritið hófst fer af fáum sögum. Mér skilst að hann hafi lagt leið sína snemma á suðvesturhornið til eldri bræðra sinna sem þangað voru þá farnir og farið að vinna með þeim. Mér finnst ég hafi heyrt að til að byrja með hafi það verið fiskvinnsla suður með sjó.
Þar kom að hann kynntist jafnöldru sinni, Guðbjörgu Petreu Jónsdóttur, skagfirskri mær, rétt rúmlega tvítugur og þau festu ráð sitt í júní 1944. Hann gekk dóttur hennar, henni Pálínu Skagfjörð (Pöllu), í föður stað og þau gerðu sér hreiður í hálfgerðum óbyggðum, á Álfhólsvegi 17 í Kópavogi. Þar reistu þeir bræður, hann og Þorsteinn, parhús á tveim hæðum, sem fjölskyldurnar fluttu í 1947 (mögulega fyrr, en fasteignaskrá nefnir þetta ártal). Þetta hús varð síðan aðsetur beggja með fjölskyldum sínum út ævina.

Sendibíllinn og fjölskyldubíllinn.
Y271 var ávallt skráningarnúmerið.
Þegar ég fór að koma þarna við sögu um miðjan áttunda áratuginn, var Valdi búinn að stunda sendibílaakstur lengi. Bíllinn sem hann átti var af einhverri ókennilegri tegund, sem hafði verið yfirbyggð. Þar áður veit ég til að hann ók Volkswagen rúgbrauði, sem var einnig fjölskyldubíllinn á bænum.

Fram að mínum tíma í tengslum við fjölskylduna, sá ævi þeirra Valda og Bubbu bæði ljós og skugga. Alvarleg veikindi Valda, líklega um 1960, sem urðu til þess að hann var fluttur á sjúkrahús í Danmörku þar sem hann þurfti að dveljast talsvert lengi, lögðust þungt á fjölskylduna, en þá voru dæturnar þrjár, sem komu í heiminn 1952, 1954 og 1956, komnar til sögunnar, auk Pöllu.  Eftir að Valdi kom síðan heim aftur tóku við bjartari tímar, held ég, því þegar ég kom til sögunnar virtist ekki skorta neitt. Það var nú samt ekki svo, að aukinni velmegum fylgdi vaxandi flottræfilsháttur. Fjarri fór því. Bæði unnu hjónin á Álfhólsveginum utan heimilis, hann keyrði sinn sendibíl og hún afgreiddi í verslun.
Áttræður
Um miðjan áttunda áratuginn urðu nokkur tímamót þegar Valdi keypti nýjan Ford Econoline, rauðan, sjálfskiptan, sem var skýrt merki um batnandi hag. Það var þó örugglega ekki til að gera sig eitthvað meira gildandi í samfélaginu, sem þessi endurnýjun atvinnutækisins átti sér stað. Ég held að það hafi verið miklu frekar að tímarnir í bílskúrnum við viðgerðir á þeim gamla hafi verið orðnir heldur margir. Hann tók sig nú bara vel út á nýja Fordinum, sá gamli.

Valdi var mikill sóldýrkandi og lá út á grasflöt hvenær sem færi gafst og árlega leyfðu þau sér þann munað að skjótast til Kanarí í nokkrar vikur og alltaf á sama hótelinu, sem ég man ekki nafnið á (Broncemar?), en sem er vel þekkt meðal systranna.

Áttatíu og sex
Einhvern veginn varð það úr, þegar þau skruppu í eina þessara ferða, að Valdi treysti mér fyrir Fordinum til sendibílaaksturs. Ég átta mig ekki enn á því hvernig honum datt þetta í hug, en mögulega að hluta til, til að viðhalda tengslum við fastakúnnana. Einn þeirra var Ríkið, eða ÁTVR og annar Háskólabíó.
Ekki ætla ég að fjölyrða um þessar vikur sem ég ók sendibíl á Sendibílastöðinni Þresti. Þetta var afar sérkennileg lífsreynsla. Keyrandi með áfengi í veitingahús og kvikmyndaspólur þvers og kruss og þess á milli að bíða eftir túr. Ég er í rauninni alveg hissa á að ég skyldi hafa komist tjónlaust í gegnum þennan tíma, en ekki heyrði ég þann gamla kvarta yfir að ég hefði laskað einhver viðskiptasambönd.

Meðal þess sem hann sagði frá, þegar gegndarlaus spillingin í landinu kom til umræðu, var það þegar forseti Íslands fór af landi brott í opinberum erindagjörðum og við tóku handhafar forsetavalds: forsætisráðherra, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar. Þá brást það ekki að handhafarnir fylltu á bílskúrana hjá sér og kjallarann, enda gátu þeir keypt áfengi á kostnaðarverði þann tíma sem þeir sinntu embættisskyldum forsetans. Flugvél forsetans var varla komin í loftið þegar pantanir um sendibílsfarma tóku að berast. Sérstaklega nefndi hann einn handhafann í þessu sambandi og sá lenti síðar í vondum málum vegna "söfnunaráráttu" sinnar á áfengi. Þetta blöskraði þeim gamla mjög.

Árið 2000 þegar Bubba varð áttræð.
Dæturnar f.v. Palla, Auður, Dröfn og Sóley
Það var svo sem ýmislegt sem honum blöskraði, ekki síst spilling sem tengdist embættismönnum ríkis og sveitarfélaga (sem sagt Kópavogs).

Ég held ég að segja megi, að saman hafi farið orð og athafnir hjá Þorvaldi Runólfssyni. Allt prjál eða flottræfilsháttur, var eitur í hans beinum. Hann klæddi sig eins og honum þótti þægilegast og lét sig ekki hafa það að fara í jakkann sinn nema við hátíðlegustu tækifæri, utan heimilis. Mannfagnaðir voru honum fremur lítt að skapi og var varla kominn á staðinn þegar hann fór að hafa orð á því að þetta væri nú orðið gott og bjóst til heimferðar. Í hans huga var allur "óþarfi" óþarfur. Hann myndi örugglega teljast öfgaminimalisti nú til dags. Nytsemishyggja virtist honum í blóð borin.

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort það eru uppeldisaðstæðurnar eða hreinlega erfðir, sem birta mér enn þann dag í dag ýmislegt úr fari tengdaföður míns, í dætrum hans. Ég sé honum allavega nokkuð reglulega bregða fyrir.

Mér reyndist sá gamli alltaf vel hvað sem öðru líður, þó sannarlega hafi henn ekki verið allra. Í honum bjó talsverður sérvitringur og hann fór sínu fram eftir því sem fært var.

Valdi lést þann 15. mars, 2007 og útför hans var gerð í kyrrþey frá Kópavogskirkju.

Ég læt hér fylgja í lokin minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma.

Hann lifði Bubbu sína í eitt og hálft ár, hann tengdafaðir minn. Síðustu mánuðirnir hjá honum voru í erfiðari kantinum. Veikindi hans á haustmánuðum gengu nærri honum og á þeim tíma var nokkrum sinnum svo komið að læknar töldu að vegferð hans yrði ekki lengri. Daginn eftir eitt slíkt tilvik sat sá gamli hinn rólegasti í rúminu sínu og gæddi sér á slátri. Það má segja að þetta lýsi lífshlaupi hans nokkuð. Hann hafði á yngri árum tekist á við lífshættuleg veikindi oftar en einu sinni, en hafði þá ávallt sigur, þótt afleiðingarnar settu mark sitt á lífsgæði hans að ýmsu leyti til æviloka.
Þessi öldungur sem nú er genginn var nú dálítið sérstakur; fór sínar eigin leiðir og hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum. Hann var ekkert sérstaklega mannblendinn og var gjarnan fyrstur til að kveðja þegar mannfagnaðir af einhverju tagi voru annars vegar. Honum var hins vegar mikið í mun að hafa samband við og heyra fréttir af dætrum sínum og fjölskyldum þeirra. Það var okkur fjölskyldunni mikið gleðiefni að hann skyldi treysta sér til að koma austur í sveitir á afmælistónleika Egils Árna í febrúar síðastliðnum. Þar lék hann við hvern sinn fingur í helgarleyfi af spítalanum.
Valdi var stefnufastur maður og honum var mjög annt um sjálfstæði sitt gagnvart öllu og öllum. Sjálfsagt á það að einhverju leyti skýringar í því að hann missti föður sinn 15 ára og þurfti að standa á eigin fótum að miklu leyti upp frá því.
Það kom þó að því að hann gerði sér grein fyrir að hann þurfti að reiða sig á aðstoð annarra. Þá var hann óþreytandi að láta vita af því að hann væri hættur að hafa skoðanir á hlutum og segði bara já við öllu. Þetta held ég að hafi aðallega verið á yfirborðinu; hann hélt áfram að hafa sínar skoðanir þó svo hann þyrfti að lúta því sem aðrir sögðu í meira mæli. Að mörgu leyti held ég líka að honum hafi þótt það gott að geta treyst á aðra til að sjá um daglegt amstur.
Það er meðal fyrstu minninga minna af Valda þegar hann lýsti því yfir við mig hvað hann hlakkaði til að hætta að vinna og geta farið að gera ekki neitt. Formlega stóð hann sig vel í því þegar þar að kom. Formlega já, en hann fann sér þó alltaf eitthvað til dundurs svo lengi sem honum entist til þess þróttur. Hann þurfti að dytta að ýmsu heima fyrir og hann naut þess í botn að geta flatmagað í sólskýlinu sínu fyrir utan hús þegar vel viðraði. Sólin var þeim hjónum báðum kær og á efri árum, svo lengi sem þeim entist heilsa til, skelltu þau sér í sólarlandaferðir í skammdeginu.
Nú eru þau bæði horfin af sjónarsviðinu, Valdi og Bubba. Arfur þeirra til framtíðarinnar eru afkomendurnir og skarinn sá sér til þess að um ókomin ár muni sporin sem þau mörkuðu á strönd eilífðarinnar varðveitast.
----------

Ég ákvað að skrifa það sem ég hef skrifað hér, algerlega án utanaðkomandi áhrifa. Reikna með að mögulegt sé að hér sé fjallað um Þorvald Runólfsson með öðrum  hætti en það fólk sem betur þekkti hann, telur rétt vera og satt. Ég er sannfærður um að ég mun fá orð í eyra ef ég hef, í einhverju, farið hér með staðlausa stafi. Reynist svo vera, mun ég lagfæra jafnharðan eða jafnvel bæta við einhverju sem mér hefur láðst að nefna. Ég geng meira að segja svo langt að hvetja afkomendur Valda til að bæta við einhverjum atvikum eða sögum sem væri gaman að láta fljóta hér með.






28 desember, 2019

Aldarminning tvö (1)

Bræðurnir frá Heiðarseli, ásamt móður sinni,
líklegast um miðjan þriðja áratug síðustu aldar.
Ég hef áður haft orð á því hve stutt er í raun síðan aðstæður venjulegs fólks voru svo gjörólíkar því sem nútímamaðurinn þekkir, að það er nánast erfitt að gera sér það í hugarlund. Fólkið sem ól mig og jafnaldra mína af sér fæddist á 10-15 ára tímabili í kringum 1920 og ólst upp milli tveggja heimstyjalda. Það var ekki nóg með að við venjulegar aðstæður væri barningnur við að hafa nóg í sig og á, heldur bættist heimskreppan við, til að flækja lífið enn. Baráttan fyrir lífinu var hörð á allt öðrum mælikvarða en nokkurt okkar sem nú lifir, getur hugsað sér.

Í byrjun árs 1920, nánar tiltekið þann 4. janúar fæddist hjónunum Sigurbjörgu Þórarinsdóttur og Runólfi Guðmundssyni að Heiðarseli á Síðu, fimmti sonurinn, sem reyndist verða síðasta barn þeirra. Synirnir fjórir sem fyrir voru Gísli (8 ára), Þorsteinn (6 ára), Ólafur (5 ára) og Guðmundur Þórarinn (1s árs). Yngsti sonurinn hlaut nafnið Þorvaldur.

Heiðarsel er í um 6 km aksturfjarlægð frá þjóðvegi 1, en ekinn er Lakavegur, framhjá Hunkubökkum. Þetta þykir nú ekki mikil vegalengd nú til dags, en var allnokkur spölur á þeim tíma sem hér um ræðir. Sjá mynd (smella til að stækka).


Frá Heiðarseli á Síðu 2011. Þrjár systur fóru þangað í nokkurskonar pílagrímaferða með viðhengjum sínum. Þarna var einhver húsakostur, en greina mátti rústir af eldri byggð. Systurnar eru f.v. Pálína (1942 - 2013), Sóley (1952) og Dröfn (1956). Vegna búsetu í gömlu höfuðborginni var fjórða systirin Auður (1954) ekki með í för þessari.

Sigurbjörg fæddist í Þykkvabæjarklaustursókn 1884 og lést 1980,  95 ára. Runólfur fæddist á Hnappavöllum í A-Skaftafellssýslu 1870 og lést 1933, 62 ára.
Gísli, elsti sonurinn fórst í Víkurfjöru í apríl 1932, tvítugur að aldri, Ólafur, þriðji sonur hjónanna lést 1939, 28 ára og næstyngsti sonurinn lést í bílslysi 1943, 25 ára að aldri.
Þó ég viti fátt með einhverri vissu um það hvenær Sigurbjörg hvarf frá Heiðarseli, geri ég ráð fyrir að það hafi verið í kjölfar þess að Runólfur lést. Ég veit að hún bjó í Hveragerði einhvern tíma og eyddi síðustu árunum á elliheimilinu Grund.

Sigurbjörg lifði til hárrar elli og tveir synir hennar náðu einnig góðum aldri. Þorsteinn lést 1991, 77 ára að aldri og Þorvaldur lést 2007 og varð 87 ára.

Þorvaldur Runólfsson
Eins og alltaf er gert í sakamálaþáttum, þá þarf að kynna til sögunnar þær persónur sem um er að ræða og setja þær í samhengi við aðrar persónur og aðstæður. Þetta þreytist ég ekki á að leggja áherslu á þegar ég sé að í nágrenni mínu er farið að gæta óþolinmæði um framvindu mynda af þessu tagi.
Þennan texta set ég hér inn til að minnast tengdaföður míns, en eins og áður hefur komið fram þá verður öld liðin frá fæðingu hans þann 4. janúar, næstkomandi.
Í síðari hluta þessara skrifa ætla ég að freista þess að fjalla um manninn meira út frá því hvernig hann kom mér fyrir sjónir og reyndist okkur í þau 30 ár sem leiðir okkar lágu saman. Ég veit að með því mun ég líklega þurfa að feta vandfarinn stíg til að halda líkunum á því að systurnar þrjár sjái ástæðu til að segja mér til syndanna eða setja mér stólinn fyrir dyrnar.


29 september, 2018

Að efna í aldarminningu (7) - lok

Á þessum degi, 29. september, 2018, eru 100 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar í Hveratúni. 

Þegar þessari frásögn lauk síðast, var Hveratúnsfjölskyldan búin að sprengja utan af sér "gamla bæinn" og hafin bygging á nýju húsi sem var 140 m², eða 80 m² stærra.
Svo hélt lífið áfram og úr þessu fór því fólki fækkandi sem þurfti húsakjól í Hveratúni. Ætli elsta barnið hafi ekki farið í Skógaskóla um 1962, það næsta á Laugarvatn 1964, afinn á bænum, Magnús lést í byrjun árs 1965.
Þetta er gömul saga og ný: þegar fólk hefur loksins náð efnalegri getu til að komast í hæfilega stórt húsnæði fyrir fjölskylduna, fer að fækka. Eldra fólk í of stóru húsi, er niðurstaðan.
Um 1970 voru Skúli og Guðný í Hveratúni með tvo syni heima á vetrum, sem enn voru í grunnskóla, en skammt í að þeir hyrfu einnig til vetrardvalar fjarri heimilinu.

Árin liðu og Hveratún styrktist í efnalegu tilliti og snemma á níunda áratugnum kom yngsti sonurinn til liðs við foreldrana og tók svo við þegar sá tími kom.

Nýi bærinn í Hveratúni sumarið 1961 (Mynd frá Ástu)
Þetta á að heita aldarminning um föður minn, Skúla Magnússon í Hveratúni, en ekki saga fjölskyldunnar í Hveratúni. Þetta tvennt er þó eðli máls samkvæmt, afskaplega samtvinnað og það getur verið snúið að fylgja aðeins einum þræði þar sem margir eru ofnir saman í einn streng. Ég tek því á það ráð, að reyna að losa um þráðinn sem er Skúli til að skoða hann sjálfan, persónuna sem hann var, jarðveginn sem hann nærðist á og það sem hann bardúsaði fyrir utan að vera samofinn hinum einstaklingunum í fjölskyldunni.

Hver var hann svo, þessi Skúli Magnússon, sem fæddist í Jökuldalsheiðinni - líklega afsprengi frostavetursins mikla - hálfum mánuði áður en Kötlugosið hófst, tæpum mánuði áður en spánska veikin tók að herja á Íslendinga og einum og hálfum mánuði áður en fyrri heimstyrjöld lauk?
Var þessi piltur ef til vill fyrirboði þessara stóru atburða?
Þegar stór er spurt.

Sauðfé var hluti af bústofninum, F.v Ásta, Páll, Sigrún. 
Jú, hann er sonur fólks sem ekki var mulið undir, engin silfurskeið á þeim bæ. Þar er grunnurinn. Ræturnar liggja í þeim jarðvegi sem nærði smábændur á Fljótsdalshéraði. Nægjusemi var nestið sem hann tók með sér í fóstur til kennaranna Sigrúnar og Benedikts á Hallormsstað.

Fjórðungi bregður til fósturs, segir í Njáls sögu, en það merkir, að sá sem elur upp barn mótar það eftir sínu skaplyndi að einum fjórða, þrír fjórðu eru erfðir og ýmsar aðstæður. Hér verður ekkert fullyrt um þetta, en ætla má að það umhverfi sem Skúli komst í á Hallormsstað, hafi breytt, ekki aðeins umhverfinu, heldur einnig viðhorfum hans og sýn á tilveruna. Þar komst hann inn í heim þar sem menntun og menning var höfð í hávegum og heim þar sem fólk átti ekki allt sitt undir veðri og vindum.  Hann var sendur í skóla. Þó ekki væri um langskólanám að ræða, var skólagangan meiri en margra annarra á þessum tíma.
Ætli megi ekki segja að það hafa síðan orðið nokkurskonar leiðarstef í lifi hans að bera virðingu fyrir og skilja erfiða lífsbaráttu og menntun sem grunninn að því að verða sjálfstæður einstaklingur.

Ef við gefum okkur nú að Skúli hafi mótast með þeim hætti sem hér hefur verið tæpt á, hvernig birtist það svo í líf hans síðar?

Ég byrja á að segja þetta:
Skúli var stefnufastur framsóknarmaður og grallari, sem fór sínar eigin leiðir.
Svo reyni ég að rökstyðja þessa fullyrðingu af veikum mætti.

1. Stefnufastur. 
Hann gekkst dálítið upp í því að halda sig við þá stefnu sem hann hafði markað sér og sínum, jafnvel þó svo gild rök gætu verið fyrir því að önnur stefna væri líkast til betri og árangursríkari. Hann þertók fyrir að þetta persónueinkenni hans mætti kalla "þrjósku". Stefnufesta var það og hún átti ekkert skylt við þrjósku. Þetta einkenni á Skúla birtist afar skýrt í framsóknarmennskunni.

2. Framsóknarmaður. 
"Hetja" Skúla á þessu sviði var Eysteinn Jónsson.
Tíminn kom í póstkassann alla tíð, hvort sem það var með mjólkurbílnum einu sinni í viku, í bunkum, eða daglega, svo lengi sem hann var gefinn út undir þessu nafni.
Við vörubíl(inn)
Það voru aldrei, keyptar vörur til heimilisins nema í KÁ eða hjá Sambandinu og það var aldrei keypt eldsneyti á bíla nema hjá Esso. Þetta tók eitthvað að riðlast, að vísu eftir að eignarhaldið á þessum fyrirtækjum fór út um víðan völl með tiheyrandi nafnabreytingum.
Þessi skoðanastefnufesta gekk svo langt, að síðustu árin, þegar arftakar Eysteins höfðu leitt flokkinn út fyrir allt velsæmi, hélt hann samt áfram að verja flokkinn sinn, þó svo vörnin væri engin. Það var þá sem hann fór að leyfa grallaralegu glottinu að fylgja varnarræðum sínum. Þá vissi maður að hann var genginn af trúnni og það kom reyndar í ljós í samtölum, að hann var framsóknarmaðurinn sem vildi að flokkurinn væri sá sem hann var í árdaga. Steingrímur var síðasti formaður hins sanna Framsóknarflokks.

3. Grallari
Ekki er ég viss um að þetta orð "grallari" nái alveg því sem átt er við. Skúli naut þess að vera ósammála viðmælendum sínum, bar fram mótbárur við skoðunum viðmælandans og setti fram sína eigin, jafnvel þó svo þær stönguðust á við eigin skoðanir á þeim málefnum sem um var að ræða. Þegar hann var í þessum ham gerði hann sitt ýtrasta til að halda andlitinu, en það tókst misvel. Grallaralegt glottið sem falið skyldi vera, hreyfði oftast örlítið við andlitinu.

4. Fór sínar eigin leiðir.
Höfundur aftan á Landróvernum,
sennilega frekar þeim brúna en þeim bláa.
Dag nokkurn, sennilega í kringum 1960 þurfti Skúli að skreppa til Reykjavíkur í einhverjum erindagerðum. Fór líklegast með mjólkurbílnum eða grænmetisbílnum. Á þessum tíma hafði ekki verið bíll í Hveratúni frá því vörubíllinn var og hét. Um þennan vörubíl veit ég reyndar ekkert, en hef frétt af honum og séð hann á mynd.
Hvað um það, Skúli sneri til baka úr höfuðborginni á Landrover bensín, ljósbrúnum eða drapplitum, nýjum úr kassanum. Ekkert vissum við, ungviðið á bænum um að til stæði að kaupa Landrover, en það sem meira var, bifreiðakaupin komu frú Guðnýju Pálsdóttur einnig í opna skjöldu.
Þetta einkenni á Skúla fylgdi honum fram á síðustu ár. Meðan hann enn ók bíl, átti hann það jafnvel til að aka út í buskann án þess að láta kóng eða prest vita, en þar kom að hann þurfti að sætta sig við að það sem áður var hægt gekk ekki lengur. Það var hinsvegar fjarri honum að viðurkenna fylgifiska ellinnar fyrir nokkrum manni. Um slíkt ræddi hann ekki.
---
Þar sem hann lifði og hrærðist einn í húsinu sínu í Hveratúni síðustu árin, þótti við hæfi að hann fengi öryggishnapp ef eitthvað kæmi upp á. Þetta fannst honum hin mesta  vitleysa og spurði hvernig hann ætti að fara að því að ýta á þennan hnapp ef hann dytti nú niður dauður.  Hann fékkst þó til að bera hnappinn, aðallega til að friða umhverfið.

Þegar á leið leitaði hugurinn æ oftar austur á land til þess tíma sem hann var á Hallormsstað og það stóðu upp úr honum vísurnar sem hann hafði lært sem barn og ungur maður. Þetta voru yfirleitt kersknisvísur svokallaðar, eða fyndnar, sem sagt.  Hann fór með þær aftur og aftur þar til maður lærði og alltaf hló hann jafn dátt þegar búið var að fara með vísu af þessu tagi. Ég tek hér  tvær vísur af þessu tagi sem dæmi:

Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:
 
Mikið er hvað margir lof´ann 
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.


Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims.
Nú er að segja frá því að í sveitinni var annar bóndi og líkaði honum einnig illa við prestinn. Hann heyrði vísuna og einsetti sér að læra hana utanbókar. Eftir tæp þrjú ár taldi hann sig vera kominn með þetta og fór svona með hana, heldur rogginn:
 
2013 á Lundi. Þarna gæti hann verið að fara með
vísuna um skollabuxurnar

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.


Flutningi á þessari vísu fylgdi síðan skellihlátur allra viðstaddra.


Það kom fyrir að hlé varð á samræðum um stund, en þá kom þessi vísa oftar en ekki:

Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða

Oft lét hann þetta nægja en framhaldið kom þó einnig stundum:

sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt -
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.

---
Þetta fer nú sennilega að verða gott um föður minn, sem ávallt reyndist mér og mínum vel. Aldrei fólst það þó í því að hann fjallaði um tilfinningar eða hefði frammi mörg orð. Hann var maður sem brást við með aðgerðum þegar á þurfti að halda, þurfti ekkert að ræða það neitt sérstaklega. 

Níræður með börnum og tengdabörnum.

Það má segja að lífið hafi farið vel með hann í flestu, en sannarlega þurfti hann að takst á við erfiðleika á lifsleiðinni, þó ég telji nú að hann hafi verið tiltölulega heppinn með börn (hvað sem aðrir kunna að segja um það). 
Sennilega hefur það tekið einna mest á hann að missa lífsförunautinn í desember 1992. Hann tjáði sig hinsvegar ekki um það, við mig í það minnsta. Geymdi söknuð og sorg með sjálfum sér og lifði fram í háa elli. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu þann 5. ágúst 2014, að verða 96 ára.



20 september, 2018

Að efna í aldarminningu (6)

Þar var komið sögu í síðasta hluta þessarar aldarminningar um föður minn, Skúla Magnússon, að þau Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum, verðandi eiginkona hans, höfðu fest kaup að garðyrkjubýli í Laugarási, sem kallaðist Lemmingsland. Þarna höfðu dönsk hjón Börge og Ketty Lemming byggt upp litla garðyrkjustöð, og bjuggu þar frá 1941-1945 (svona um það bil).  Það er sérlega gaman að segja frá því að mér hefur nú tekist að komast í samband við afkomendur þeirra Börge og Ketty, sem þekkja til sögu þeirra á Íslandi og bíð nú spenntur eftir svörum þeirra við spurningum mínum um þessi ágætu hjón. 

Þann 30. maí, 1946 gengu þau Skúli og Guðný í hjónaband eins og lög gera ráð fyrir, enda vart við hæfi að hefja búskap ógift.

Hveratún 1968, séð til norðurs. Lengst t.h. gróðurhúsin þrjú 
og gamla íbúðarhúsið, sem Skúli og Guðný keyptu. 
Fremst fyrir miðju er íbúðarhúsið sem tilheyrði Grósku.
Það sem þau keyptu þarna voru þrjú gróðurhús, ca. 100 m² hvert og 60m²  íbúðarhús með engu eldhúsi. Fólk myndi víst ekki lifa lengi á svona garðyrkjustöð nú.  Það má telja fullvíst, að fyrst eftir að þau komu í Laugarás, hafi þau fengið inni í íbúðarhúsinu í Grósku (Grózku)(síðar Sólveigarstaðir). Á þessum tíma var Skaftfellingur að nafni Guðmundur, sem hafði átt Grósku (sem þá hét óþekktu nafni) í tvö ár, búinn að selja Náttúrulækningafélagi Íslands býlið. Þá voru þarna 4 gróðurhús, alls 600m² og íbúðarhús.
Eina ástæða þess að fyrir liggja upplýsingar um að nýju Laugarásbúarnir hafi búið í Grósku er sú, að þar fæddist elsta barn þeirra, Elín Ásta í júní 1947. Það má með góðri samvisku gera ráð fyrir því, að ekki hafi frú Guðný gert sér að góðu að búa í eldhúslausu húsi og þannig hafi það komið til að þau bjuggu til að byrja með í Grósku.
Magnús Jónsson

Svo var eldhúsið klárt  og flutt inn. Framundan 45 ára búskapur Skúla og Guðnýjar með öllu sem slíku fylgir, þar með 5 börnum á 12 árum. Það hefur nú varla þótt neitt merkilegt á tímum barnasprengjunnar sem varð í hinum vestræna heimi á þessum árum.
Elín Ásta, sem áður hefur verið nefnd, fæddist 1947, tveim árum síðar, 1949,  bættist við önnur dóttir Sigrún Ingibjörg, þá liðu þrjú ár (enda þurfti að vanda sig) þar til fyrsti sonurinn kom í heiminn, í lok árs 1953, en það var Páll Magnús. Fjórða barnið og annar sonurinn, Benedikt mætti á svæðið rúmum tveim árum síðar, 1956. Þegar þarna var komið var nú vísast farið að minnka plássið í litla 60 m² húsinu, ekki síst vegna þess að frá 1950 hafði faðir Skúla, Magnús Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um, búið hjá þeim í Hveratúni. Þar fyrir utan voru oftar en ekki vinnukonur, aðallega á sumrin. Í raun skortir mig hugmyndaflug til að segja til um hvernig þeim var komið fyrir.

Gamli bærinn í Hveratúni. Teikning eftir minni.
Hér til hliðar er gróf teikning af húsinu sem Guðný og Skúli bjuggu í með börnum og afa frá 1947-1961.  Á teikningunni eru ýmsir fyrirvarar, m.a. um hlutföll, en herbergjaaskipanin er nokkuð skýr. Gera má ráð fyrir að systkini mín kunni að hafa sínar skoðanir á þessu og reynist þær réttari en þarna má sjá, verður auðvitað tekið tillit til þess.
Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Það var orðið þröngt á fjölskyldunni þegar þriðji sonurinn, fimmta barnið, Magnús, kom í heiminn í september, 1959. Það var því ekki annað í stöðunni en að fara að byggja. 

Fjölskyldan í Hveratúni 1960.
Myndina tók Matthías Frímannsson en hann starfaði þá sem "eftirlitskennari"  í barnaheimili RKÍ, Krossinum.


Árið 1961 tók við enn einn áfanginn á leið Skúla í gegnum lífið, en um hann verður fjallað í síðasta hluta, sem birtast mun áður en langt um líður, ef að líkum lætur.








10 september, 2018

Að efna í aldarminningu (5)

Þar sem síðasta hluta lauk var komið að heilmikilum þáttaskilum í lífi Skúla. Benedikt Blöndal, fóstri hans hafði undirbúið að senda hann í Garðyrkjuskólann í Hveragerði, en jafnframt lá fyrir að til þess að fá inngöngu þar þyrfti Skúli að starfa í eitt á ár garðyrkjustöð. Benedikt hafði hugmyndir um að byggja upp garðyrkju á Hallormsstað og þarna var á heimilinu ungur maður á krossgötum sem myndi geta aðstoðað við að koma þeim áætlunum í framkvæmd.

Eins og segir í lok síðasta hluta, varð Benedikt hinsvegar úti í janúar 1939. Þetta breytti þó ekki fyrirætlunum um að Skúli færi suður til starfa á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur á Syðri-Reykjum. Það má reikna með því að frú Sigrún Blöndal hafi ekki tekið annað í mál en að af þessu yrði þrátt fyrir áfallið og forsendubreytinguna sem varð við brotthvarf Benedikts.


Áður en lengra er haldið, er rétt að greina frá því, að ekki hefur mér tekist enn, á fá það staðfest hvar Skúli ól manninn veturinn 1938-9. Það liggur fyrir að hann lauk gagnfræðaprófi frá MA vorið 1938, en fór ekki suður fyrr en síðla árs 1939. Þetta skiptir svo sem ekki máli nema vegna þess að Guðný Pálsdóttir, sem áður er nefnd og á eftir að koma meira við sögu, var nemandi í Hallormsstaðaskóla frá hausti 1937 til vors 1939. Hafi kynni þeirra Skúla og hennar ekki verið meiri en augngotur á þeim tveim árum sem þarna er um að ræða, er fremur ólíklegt að Skúli hafi dvalið á Hallormsstað veturinn 1938-9. Hann er þó skráður þar til heimilis í sóknarmannatali þennan vetur.  Hitt er rétt að hafa í huga, að það er vel þekkt úr framhaldsskólum, að fólk sem er jafnvel í sama bekk í fjögur ár nær ekki saman fyrr en eftir að skólagöngunni lýkur. Ég hyggst freista þess að komast að þessu og fjalla um það, þegar líður að aldarminningu eftir tvö ár.

Suður á bóginn
En, áfram með Skúla.
Þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir frá því síðari heimsstyrjöldin hófst með innrás Hitlers í Pólland, kom Skúli suður. Það var hinn 6. desember, 1939.  Hann var 21 árs gamall þegar hann kom að Torfastöðum í Biskupstungum til þeirra frú Sigurlaugar Erlendsdóttur og sr. Eiríks Þ. Stefánssonar.  Þetta liggur fyrir, þar sem hann ákvað að skrá dagbók um þá nýju lífsreynslu sem þarna beið hans.
Einhver kann að spyrja hversvegna Skúli fékk fyrst inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði áður en hann kom að Syðri-Reykjum. Líklegast hefur Stefán ekki haft þörf á vinnufólki fyrr en um mánaðamótin janúar febrúar og svo hitt að ekki er ólíklegt að frú Sigrún hafi viljað sjá til þess að hann færi í nokkurskonar aðlögun hér sunnanlands áður en hann hæfi störf. Torfastaðir voru auðvitað hentugur staður, því þar bjó vinkona frú Sigrúnar, frú Sigurlaug. Þær höfðu verið samtíða í  Kvennaskólanum kringum aldamótirn og haldið tengslum síðan.


Dvölin á Torfastöðum reyndist Skúla bara ljúf. Hann greinir frá því í dagbókinni að það hafi ekki verið fyrr en mánuði eftir að hann kom þangað að hann þurfti að vinna eitthvað að ráði. Þá var baðað fé frá Torfastöðum, Miklaholti og Torfastaðakoti.  Á  sama tíma og Skúli dvaldi á Torfastöðum var Jón Sveinsson frá Miklaholti þar vinnumaður og þeir bardúsuðu ýmislegt saman, m.a. fóru þeir á skauta í Hrosshagavík. "Tungnamenn virðast engan áhuga hafa á skautaíþróttinni og er leitt til þess að vita", skráði hann í dagbókina af þessu tilefni.
Skúli á Syðri Reykjum
Annars tók Skúli bar þátt í því sem fyrir bar á Torfastöðum þann tíma sem hann var þar og væri of langt mál að fara að tína það allt til. Hann gekk í stúkuna Bláfell og hann mun hafa átt að læra á orgel  hjá frú Sigurlaugu, en aldrei heyrðist hann fjalla um það nám sitt og aldrei sýndi hann  takta sem bentu til að hann hafi lært á hljóðfæri. Þarna hefur líkast til verið um að ræða tilraun fóstru hans til að smita hann af menningu.

Að Syðri-Reykjum
Þann 27. janúar er þessi færsla í dagbókinni:
"Ég kvaddi hér á Torfastöðum og lagði af stað til Syðri Reykja fyrir fullt og allt. Upp frá þessu mun ég eiga við (meina) Syðri-Reyki þegar ég  segi "heima" hér í þessari dagbók minni.
Við Olav prikluðum úr nokkrum kössum, sáðum í þrjá kassa tómötum og blönduðum mold og áburði".
Um hálfum mánuði síðar var Olav Sanden allur. Hann varð úti milli Syðri-Reykja og Efstadals í miklu óveðri. Skúli fjallaði ítarlega um þetta hörmulega mál í dagbókinni og samantekt á þeirri frásögn er að finna hér.  Má nærri geta að þetta hafði áhrif á hann ekki síður en annað heimilisfólk á Syðri-Reykjum. Þarna var rétt um ár síðan Skúli hafði misst fóstra sinn með sama hætti.

Skúli og Stefán Árnason (mynd frá S-Reykjum)
Eftir þessa harkalegu byrjun í starfsþjálfuninni á Syðri-Reykjum tók við hreint ágætur tími í lífi Skúla. Hann segir svo frá honum í viðtali sem Geirþrúður Sighvatsdóttir átti við hann í Litla Bergþór 2003:
Dvölin á Syðri-Reykjum var góður skóli. Þar var þá önnur stærsta garðyrkjustöð á landinu á eftir Garðyrkjuskólanum og var stunduð fjölbreytt ræktun. Þar vann fjöldi manns, meðal annarra mjög færir ræktunarmenn, danskir, hollenskir, norskir og sænskir, auk margra Tungnamanna, sem unnu ýmis störf og við uppbyggingu mannvirkja, því alltaf var verið að byggja og stækka. Unnu þarna milli 15 og 20 manns þegar mest var. Allt var mjög skipulagt og þegar ég byrjaði að vinna, man ég að við vorum sérstaklega áminntir um stundvísi. En svo gekk allt mjög ljúfmannlega fyrir sig enda Stefán og Áslaug alveg einstakir húsbændur. Stefán sá til þess að ég og annar strákur, sem höfðum mikinn áhuga á blómarækt, fengum sérstaka kennslu hjá hollenska garðyrkjufræðingnum. Og eftir árs dvöl þarna þóttist ég bara vera orðinn nokkuð menntaður maður og fór ekki á garðyrkjuskólann.
Skúli og Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)
Tíminn á S-Reykjum var einhver allra besti tími sem ég hef upplifað, bæði skemmtilegur og lærdómsríkur vegna þess fjölmennis, sem þar var og þarna kynntist ég fjölda Tungnamanna, sem varð til þess að ég fór að sækja mannfagnaði og fundi og falla inn í umhverfið. Ég átti gott með að kynnast þeim, því þá var ekki síminn, tölvur eða sjónvarp, og maður var manns gaman. Þá var líka allt handrukkað og forsvarsmenn yfirvalda, eins og Þorsteinn á Vatnsleysu, Einar í Holtakotum og Skúli í Tungu komu a. m. k. einu sinni á ári að rukka verkafólkið um tryggingar, skatta og þess háttar
Með samstarfsfólki á S-Reykjum. Skúli þriðji f.v.
(Mynd frá S-Reykjum)
Benedikt Blöndal hafði haft  fyrirætlanir um að Skúli skyldi vera á Syðri-Reykjum í eitt ár, en færi eftir það í Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Að því búnu skyldi hann koma aftur austur á Hérað til að byggja upp garðyrkjustöð á Hallormsstað. Líklegast hefur Skúli haft þetta í hyggju þegar hann kom suður, en að Benedikt gengnum virðist þrýstingurinn á að svona skyldi þetta verða hafa minnkað.  Þarna var frú Sigrún komin um sextugt og mögulegt að Skúli hafi ekki endilega séð fyrir sér framtíðina fyrir austan.  Frú Sigrún lést síðan í nóvember 1944.
Önnur ástæða fyrir því að ekkert varð úr, má síðan segja að hafi verið augngotur yfir borð á Hallormsstað nokkrum árum áður.  Það liggur fyrir að Skúli og Guðný voru farin að hittast á árunum 1941-2 og það þróaðist svona eins og gengur og kemur allvel fram í bréfum sem þau skildu eftir sig og sem ekki verður farið í að fjalla um hér.  Það var síðan fyrir tilstuðlan Skúla að Guðný fékk vinnu á Syðri-Reykjum haustið 1945. Í aðdraganda þess segir Skúli í bréfi frá september 1945:
Stefán talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín að Sigríður hefði alveg neitað sér, og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú  geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú mundir geta komið, en það vissi ég ekki. 
Með samstarfskonum (Mynd frá S-Reykjum)
Í framhaldinu var svo frá málum gengið, að Guðný kæmi að Syðri Reykjkum og skyldi vera þar Áslaugu til aðstoðar.
Þennan vetur fór að vatna undir Skúla og Guðnýju á Syðri Reykjum og þráin eftir því að verða örlagavaldar í eigin lífi fór vaxandi. Dæmi um þessar pælingar þeirra er eftirskrift í bréfi Guðnýjar frá janúarlokum 1946, en þá var hún stödd í Reykjavík:

ps. Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun:  Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni eða manni sem gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín, annað var það nú ekki.
Þann 2. apríl kemur fram í bréfi Skúla:
Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi. Ég hringdi til Steindórs (umboðsmannsins) þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann um að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og bað hann mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerði ég með þvi að senda Elís Péturss. á hann um síðustu helgi. Þá var nú kallinn [......] og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá.
.... 
Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri leitt að missa mig einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæti hann ekkert við því sagt fyrst svona stæði á. 
Um þetta segir Skúli í áðurnefndu viðtali í Litla Bergþór:
Árið 1945 frétti ég af lausri lóð hér í Laugarási sem var til sölu. Lemmingsland var það kallað, en danskur maður, sem Lemming hét hafði verið þar með garðyrkju. Þessa lóð keypti ég og það voru skrítin kaup. Ég þurfti ekki að borga krónu, heldur fékk bunka af víxlum, sem voru svo að falla allan ársins hring. Það var Steindór Gunnlaugsson, bróðir Skúla í Tungu, sem hafði milligöngu um kaupin og hann skrifaði uppá hjá mér. Svo var framlengt og borgað inná, þar til tókst að borga upp. Þetta var strembið, þótt 45.000,- þætti ekki stór upphæð í dag. En þetta var árið 1945 og þá var þetta þó nokkur upphæð

Þannig fór það, að Skúli og Guðný keyptu Lemmingsland, sem svo hlaut nafnið Hveratún, að tillögu sr. Eiríks á Torfastöðum.

Framhaldið bíður þangað til næst.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...