Sýnir færslur með efnisorðinu minning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu minning. Sýna allar færslur

08 apríl, 2018

Gústaf Ólafsson

Við Hvítá, hjá Auðsholtshamri 1980
Unglingar hafa einhvernveginn fengið á sig það orð á öllum tímum, líklegast, að geta verið snúnir viðureignar, enda undir það seldir að vera að ganga í gegnum þá miklu umbreytingu sem á sér stað þegar barninu er skipt út fyrir fullorðna manneskju.
Haustið 1979 fór ég að kenna ensku og dönsku í Reykholtsskóla og auðvitað mikið til reynslulaus, en hafði þó kennt unglingum einn vetur (1974-5) í Lýðháskólanum í Skálholti, .

Sannarlega voru unglingarnir sem ég stóð frammi fyrir í Reykholti ekkert ólíkir unglingum svona almennt. Þeir voru með ýmsum hætti eins og við var að búast og mis auðvelt við þá að eiga, fyrir utan það, auðvitað, að ég kann að hafa verið mis fær um að takast á við verkefnið.

Ég var viðstaddur minningarstund um einn þeirra í Skálholti í gær, Gústaf Ólafsson frá Arnarholti, en hann lést í Sundsvall í Svíþóð þann 29. janúar síðastliðinn eftir baráttu við ágengan og banvænan sjúkdóm, rétt rúmlega fimmtugar.
1980 - Við minnismerkið um Sigríði í Brattholti
ásamt Brynjari á Heiði.

Þessi piltur var einn þeirra sem ég fékk að kenna fyrstu árin mín í Reykholti. Hann var einn þeirra ótal ungmenna sem ég hef fengist við í gegnum árin, en hafa síðan horfið sjónum mínum þó minningin um þau skjótist stundum í hugann. Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um allt þetta unga fólk: hvort það fór inn á þær brautir sem ég hafði ímyndað mér eftir kynnin við þau.
Í gær fékk ég að vita ýmislegt sem ég ekki vissi um lífshlaup Gústafs, sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hér, enda brallaði hann víst margt eftir að hann slapp frá mér um og upp úr 1980.

Hann er eftirminnilegur eins og reyndar flestir nemendur mínir fyrstu árin.
Ég get sagt það sama um Gústaf og bræður hans tvo, Jónas Inga og Ingvar, að þeir báru með sér að vera afar heilsteyptir ungir menn. Fremur rólyndir, að mig minnir, léttir í lund, lifandi, góðlegir, kurteisir. Þeir báru heimili sínu gott vitni.


Það er auðvitað gömul tugga, þetta með að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Gömul tugga, vegna þess óréttlætis sem okkur finnst í því fólgið, en jafnframt staðfesting á því, að ekkert okkar getur búið við þá fullvissu að fá að lifa eins lengi og við viljum helst.

Fjölmargir skólafélagar Gústafs voru viðstaddir ágæta minningarathöfn í Skálholti í gær. Mér fannst afar sérstakt að sjá þarna nokkra fyrr um nemendur mína, sem ég hef geymt í hugarfylgsnum óbreytt, sem börn,  næstum 40 ár.  Það má segja að þetta hafi verið ákveðin áminning um það sem maður veit svo sem, að hvað sem öðru líður, leiðir tíminn allar lífverur, jafnt og þétt, hiklaust og fumlaust, allt frá upphafi lífs til loka þess. Við verðum víst að sætta okkur við það.

1980: Ingólfur á Iðu segir frá Iðuferju. 
Myndirnar sem ég læt fylgja hér, eru frá vormánuðum 1980, þegar nemendur Reykholtsskóla fóru í vettvangsferðir til að kynna sér ýmislegt um árnar sem setja mark sitt á líf okkar í Biskupstungum. Eldri hópurinn  tók Hvítá fyrir. Leiðin lá, meðal annars, að Gullfossi og að ferjustöðunum tveim: Iðuferju, þar sem Ingólfur Jóhannsson á Iðu, spjallaði við krakkana, og Auðsholtsferju, þar sem Einar Tómasson kom yfir um á ferjubát til að hitta okkur.

06 mars, 2018

Töffari

Erna var farin að velta fyrir sér hvort ekki væri bara réttast að flytja til Tenerife. Lét þeim pælingum fylgja, að hún nennti ekki "þessu rugli" lengur. Hún var ekkert að skafa utan af hlutunum frekar en fyrri daginn þessi baráttukona fyrir betra veðri, réttlátara samfélagi og fjölskyldunni.
Veðrið var síðasta umfjöllunarefni hennar á Facebook síðuna sína, daginn sem hún lést öllum að óvörum, þann 25. febrúar, nýskriðin inn á 73. aldursárið.

Guðríður Erna Halldórsdóttir hét hún og leiðir okkar lágu saman í allmörg ár, þegar hún var gjaldkeri Mötuneytis Menntaskólans að Laugarvatni. Á samskipti okkar bara auðvitað aldrei skugga, enda held ég að við höfum haft svipaða sýn á flest sem skiptir máli og það sem er fyndið, allavega  hlógum við yfirleitt á sömu stöðum, hún þessum grallaralega hlátri þess sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Tepruskapur er það síðasta sem ég gæti tengt við þessa ágætu samstarfskonu. Það var nú eitthvað annað.

Svo hætti hún á Laugarvatni þegar hún hafði aldur til. Hvarf niður á Selfoss og þaðan fékk ég að fylgjast með henni og fjölskyldu hennar. Þó svo flest það sem hún sendi frá sér á samfélagsmiðlum bæri með sér svipaðan keim og fram kemur hér efst, var annað uppi á teningnum þegar hún birti myndir af barnabörnunum, eða deildi fréttum af knattspyrnumanninum sínum í Ísrael eða tónskáldinu sínu, sem hún missti af að fylgja síðasta spölinn í undankeppni Evrópusöngvakeppninnar. Hún var afar stolt af afkomendum sínum og mig grunar að þeir hafi átt hauk í horni í ættmóðurinni.

Á Laugarvatni var hún hinsvegar Erna gjaldkeri, sem stóð við og við upp, kom inn á kaffistofu til að "kjafta", eins og hún myndi kalla það.

Já, mér líkar vel við svona konur, konur sem mæðast ekki í hlutunum, segja hug sinn án þess að skreyta meiningu sína neitt sérstaklega, eru fyndnar án þess að það komi illa við nokkurn mann. Það duldist þó aldrei að undir alveg sæmilega hrjúfu yfirborðinu bjó einstakt hjartalag þess sem kallaði stöðugt eftir réttlæti og sanngirni.  Það var ekkert verið að berja sér á brjóst, bara gengið í verkin af festu.

Ég ætla ekki að halda því fram, að ég hafi endilega gjörþekkt hina raunverulegu Ernu, reyni bara að búa til mynd af henni eins og hún kom mér fyrir sjónir. Ef sú mynd er nokkuð rétt, þá hefur nú kvatt hin ágætasta kona og ég mun sakna þess að sjá ekki lengur færslurnar hennar á hreinni íslensku, lausri við skrúðmælgi.

Ég neita því ekki, að mér finnst það sóun á mannauð, að missa Ernu. Hún átti margt ósagt og mörg ár inni til að njóta í samvistum við fólkið sitt. Um það er bara ekki spurt frekar en fyrri daginn.
Ætli frúin sé bara  ekki komin til sinnar Tenerife, þar sem veðrið leikur við hana.

Samúðarkveðju læt ég fylgja til Viðars og allra afkomendanna.

Útför Ernu er gerð í dag frá Selfosskirkju.

06 janúar, 2018

Of snemmt

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir
myndin fengin að láni af Facebook síðu Veigu.
Það vita þeir sem starfa við ræktun af einhverju tagi, að jarðvegurinn þarf að henta ungviðinu. Hlutfall næringarefna þarf að vera rétt, vökvun þarf að vera næg og hiti og birta þurfa að vera í samræmi við þarfir þeirrar jurtar sem rækta skal. Þegar allt er rétt í umhverfi plöntunnar getum við yfirleitt treyst því, að hún muni vaxa, dafna og bera ávöxt.

Það er eins með okkur mannfólkið og reyndar allar lifandi verur: umhverfi og aðbúnaður allur skiptir sköpum um hvernig þær vaxa úr grasi og verða fullþroska einstaklingar. Með umhyggju, uppeldi og utanumhaldi hverskonar, getum við yfirleitt búist við því að allt verði eins og það á að vera; uppskeran verði í samræmi við allan aðbúnað í æsku.

Það held ég fari ekki á milli mála, að sá jarðvegur sem Veiga spratt úr, það umhverfi sem henni var búið, sú umhyggja sem hún naut, var eins og best verður á kosið. Foreldrar hennar, þau Dísa og Tommi, fjölskyldan öll og stórfjölskyldan, allt þetta skapaði henni þær aðstæður sem allir myndu óska sér.

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir, Veiga, lést á jóladag, 27 ára að aldri.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það áfall sem aðstandendur Veigu, og aðrir sem hana þekktu, upplifðu við brotthvarf hennar. Það getur hver og einn ímyndað sér, en það var eitthvað sem enginn hafði átt von á.

Ég kynntist stúlkunni fyrst þegar hún gerðist nemandi við Menntaskólann að Laugarvatni. Þar var hún nemandinn sem var komin í skólann til að leggja sig alla fram og jafnvel talsvert umfram það. Hún var nemandinn sem kom með það veganesti úr foreldrahúsum að nám væri mikilvægt, skólinn væri góð og nauðsynleg stofnun og að til þess að ná árangri þyrfti að leggja hart að sér. Nemandinn Veiga hafði sannarlega tileinkað sér þetta viðhorf til náms og skóla. Allt sem henni var ætlað að sinna í náminu, sinnti hún af alúð og alvöru, staðráðin í að standa sig. Hún var einn af þessum nemendum sem fékk mig til að viðhalda þeirri bjargföstu skoðun minni, að kennslustarfið sé mikilvægt, eitt mikilvægasta starf sem unnið er.

Mér er Veiga ekki síst minnisstæð fyrir það að hún var ekkert sérstaklega mikið fyrir einhverja vitleysu. Ég er þannig innréttaður að ég hef átt það til að beita kaldhæðni í nokkrum mæli, einnig innan veggja skólastofunnar. Hún kunni ekkert sérstaklega vel að meta að of langt væri gengið í þeim efnum og alloft kom það fyrir að hún fór fram á það að ég léti af þessu, sem mér tókst auðvitað ekki, en reyndi kannski að vanda mig aðeins meira. Þannig má segja að hún hafið haldið mér á mottunni að vissu leyti og orðið til þess að ég vandaði mig aðeins meira í þessum efnum.

Eftir að Veiga hafði lokið námi í ML tók frekara nám við, en þó hún hafi þarna horfið úr daglegu umhverfi mínu, frétti ég af henni við og við, bæði vegna þess að hún leysti móður sína stundum af, dag og dag og einnig í gegnum samfélagsmiðil, eins og algengt er nú til dags.

Á liðnu hausti var allt á fullu hjá Veigu og kærastanum hennar, við að standsetja nýja íbúð. Framundan spennandi tímar.

Þeim tímum var ekki ætlað að verða að veruleika. Eftir sitjum við með spurningar sem ef til vill eiga sér ekki svör.

Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður séu nýjum gróðri hagfelldar, þá getur ýmslegt óvænt komið upp, sem enginn getur séð fyrir og enginn gert neitt við.
Þannig er það með samning okkar við lífið.
Á móti fáum við að njóta þess að vera til, lifa, setja mark okkar á umhverfi okkar, þann tíma sem okkur er ætlaður. Þannig má segja að við lifum áfram þótt við deyjum: minningin um okkur, líf okkar og afrek, lifir áfram í huga þeirra sem halda áfram.

Svona pælingar eru nú ekki mikil huggun, heldur bara pælingar; tilraun til að setja ótímabært dauðsfall í eitthvert samhengi.

Von mín er auðvitað sú að fjölskyldu Veigu megi takast að komast í gegnum þetta stórviðri og finna leiðina áfram. Ég hef fulla trú á að svo geti orðið.



02 desember, 2017

Gunnlaugur

Árið 1964 hvarf  Bragi Steingrímsson, héraðsdýralæknir, úr embætti vegna sjúkdóms.  Sá sem tók við af honum var Gunnlaugur Skúlason, frá Bræðratungu. Hann flutti ásamt eiginkonu sinni Renötu Vilhjálmsdóttur, (f. Pandrick) í dýralæknisbústaðinn í Launrétt 1 í Laugarási. Gunnlaugur var þá rétt um þrítugt, nýkominn frá námi í Þýskalandi og Renata 6 árum yngri.
Í Launrétt bjuggu þau í tæp 20 ár, og ólu upp börnin sín fimm, Barböru, Helgu, Elínu, Skúla Tómas og Hákon Pál. Í húsið sem þau byggðu í Brekkugerði í Laugarási fluttu þau 1983.  Læknisstofan var áfram í Launrétt í einhver ár áður en Gunnlaugur flutti hana í kjallarann í Brekkugerði.
Dýralækningar stundaði Gunnlaugur til ársins 2011 og 2015 fluttu hjónin á Selfoss.

Gunnlaugur lést 19. nóvember og er jarðsettur í dag í Bræðratungu.

Ég verð nú að viðurkenna, að helst minnist ég þess að Gunnlaugur hafi orðið á vegi mínum, eða ég á hans, þar sem hann var að fara í eða koma úr vitjun á Pajero jeppanum, eða þegar við mættum þeim hjónakornum á förnum vegi í heilsbótargöngum síðustu árin þeirra í Laugarási. Ég held að hann hafi ekki verið neitt sérstakt félagsmálatröll, en á móti var hann bara því meiri dýralæknir. Annasamt embættið kallaði á krafta hans og þá var vísast ekki alltaf spurningin um hvort innan væri eða utan dagvinnutíma.  Ætli mér sé ekki óhætt að halda því fram að skilin milli einkalífs og starfs Gunnlaugs hafi verði harla óljós, lengi vel.

Ég sá Gunnlaug alltaf sem fremur hæglátan mann, sem fannst ekkert nauðsynlegt að hafa hátt skoðanir sína á mönnum eða málefnum. Hann gekk af fagmennsku að þeim verkum sem hann þurfti að sinna, vel sjóaður í því sem starf hans snérist um. Enn er brennt í huga mér þegar ég, fyrir einhverjum áratugum, varð vitni að því, af einhverjum ástæðum, þegar Gunnlaugur gelti fola uppi á hæð (Laugarásmál). Þar voru viðhöfð fumlaus vinnubrögð, en á sama tíma, að því er mér virtist, ákveðið kæruleysi og tilfinningaleysi, þá væntanlega þess sem vissi nákvæmlega hvað hann var að gera, enda geldingar líklega eitt algengasta verk dýralæknisins.  Ég var auðvitað sjálfur að sjá svona aðfarir í fyrsta sinn, og engan veginn fær um að líta aðgerðina hlutlausum augum.

mynd frá Kaju
Þó ekki hafi Gunnlaugur verið að kafi í félagsmálum, hér innan sveitar, í það minnsta, að ég held, átti hann það til að sýna á sér  hliðar sem hann bar ekki endilega daglega á borð. Hann var auðvitað mikill húmoristi og tók sjálfan sig ekki of alvarlega og var til í sprell, ekki þar sem fólks hamaðist eða hafði hátt, heldur þar sem lúmskur húmorinn og glettnin fékk að njóta sín. Við fengum, til dæmis, að njóta þessa þáttar í fari Gunnlaugs í skemmtiatriðum á þorrablóti Skálholtssóknar.



Brotthvarf Gunnlaugs af því leiksviði sem lífið er, er enn ein áminningin um að árin líða, Hópurinn á myndinni hér fyrir ofan grisjast smám saman, en þannig er það bara. Við eigum öll okkar tíma á sviðinu, hlutverkin okkar eru af ólíkum toga og við fáum mislangan tíma.

Laugarásbúi hefur kvatt, en sýningin heldur áfram með Renötu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Þeim óska ég alls hins besta.


Á myndinni Aftari röð f.v. Sigríður Guttormsdóttir, Karital Óskarsdóttir, Georg Franzson, Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason, Elinborg Sigurðardóttir, Jens P. Jóhannsson. Fremri röð: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Jónsdóttir, Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir, Guðmundur Ingólfsson. Ballerínurnar eru Jakob Hjaltason og Gústaf Sæland.






30 desember, 2016

Að lifa vel og deyja vel

Þann 15. desember lést Guðmundur Indriðason á Lindarbrekku á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, á 102. aldursári.  Engum kom á óvart að hann skyldi ekki láta Jónu, bíða lengi eftir sér, en hún lést þann 13. ágúst  síðastliðinn.
Útför hans er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Guðmundur fæddist  í Hrunamannahreppi 15. maí, 1915, áttundi í röð tíu systkina sem komust á legg.
Guðmundur fjallar allítarlega um lífshlaup sitt í viðtali við hann og Jónu í Litla-Bergþór, 2. tbl. 2010, þá 95 ára, svo ég fer ekkert að orðlengja um það hér.

Á Laugarvatni hófst saga Guðmundar og Jónu, sem nú hefur verið settur endapunkturinn við, eftir hartnær 7 áratuga, farsæla sambúð.
Að mörgu leyti get ég sagt það sama um Guðmund og ég sagði um Jónu hér. Líf þeirra og fjölskyldu minnar í Hveratúni og síðar í Kvistholti hefur legið saman og þar hefur aldrei borið skugga á. Hvernig mætti líka annað vera? Fyrir nágranna af þessu tagi ber að þakka.

Þó svo okkur sé það ljóst að dauðinn er hluti af lífinu og við sættum okkur æ betur við tilhugsunina um hann eftir því sem við verðum eldri, þá kallar hann fram í huga okkar söknuð og ótal minningar um lífið sem hann tekur við af. Í dauðanum felst endanleiki; eitthvað sem ekki verður breytt eða tekið til baka.
Við lífslok erum við frekar mæld á grundvelli þess sem í okkur bjó, mannkostum okkar, fremur en veraldlegum auð. Það er nefnilega eitt mikilverðasta hlutverk okkar á lífsgöngunni að marka spor sem leiða gott af sér fremur en illt.
Sporin sem Guðmundur og Jóna skilja eftir sig bera vitni um að þar fór gott fólk og það er mikilverðast.

Guðmundur naut þess að eldast afskaplega vel og fram á tíræðisaldur tók hann sér fyrir hendur ýmislegt sem fólk hættir venjulega að gera upp úr sextugu. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Jóna lýsti áhyggjum sínum af því fyrir nokkrum árum (svona 10, kannski) að hann hafi prílað upp á þak á íbúðarhúsinu til að sinna einhverju viðhaldi.

Ég kíkti einusinni í heimsókn til þeirra í þjónustuíbúðina sem þau dvöldu í á Flúðum, áður en þau fluttu á Lund á Hellu. Vissulega var sá gamli farinn að bera þess merki að elli kerling sótti á. Til að byrja með kannaðist hann ekki alveg við mig, en með réttum tengingum small allt saman og það runnu upp úr honum sögurnar frá fyrstu árunum í Laugarási og ég fékk að kíkja í myndaalbúm meðan gnótt bakgrunnsupplýsinga fylgdi.  Þetta var ánægjuleg heimsókn og síðan hef ég oft leitt hugann að því hve gaman hefði nú verið að geta gefið sér meiri tíma til að ausa úr þeim viskubrunni sem Guðmundur var, en af því varð ekki og þannig er það bara. Það væri nú samt gaman að komast aftur í myndaalbúmin og ná þaðan myndum í safnið.

"Ég er nú enginn fýlupúki" sagði Guðmundur þegar mér varð á að nefna það hve létt var yfir honum á aldarafmælinu.
Mér var sagt að eftir afmælið hafi hann verið kallaður "Hundraðkallinn", á Lundi. Nafngift  sem hæfir vel lundarfari mannsins. Það er sama hvernig ég reyni, þær myndir af Guðmundi sem koma í hugann eru ávallt af broshýru andliti með gamanmál af einhverju tagi á takteinum. Aldrei sút.

Árið 2016 er árið þegar Lindarbrekkuhjónin kvöddu og þau skilja eftir ágætan minningasjóð.

Börn Guðmundar og Jónu, f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Lítið eitt um Lindarbrekku

Lindarbrekka í desember 2016

Útidyrnar á gamla húsinu.

Saga lóðarinnar sem síðar varð Lindarbrekka, hófst 1942 með því Jóhann Sæmundsson yfirlæknir og félagsmálaráðherra um nokkurra mánaða skeið, fékk hálfan hektara lands og byggði sér 29m² sumarhús á brekkubrúninni. Ein megin ástæða þessa mun hafa verið sú að hann vildi hafa möguleika á að hafa öruggt skjól í mögulegum loftárásum á landið.
Eiginkona hans var Sigríður Sæmundsson, fædd Thorsteinson.

Sigurður Jónasson  keypti húsið 1948. Sigurður var alllengi forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, og var svokallaður athafnamaður.

Föst búseta á Lindarbrekku hófst 1951 þegar Guðmundur og Jóna keyptu þetta 29 fermetra sumarhús og fluttu inn.

Árið 1958 var nafn býlisins staðfest og um leið var landið sem það stendur á stækkað um helming. Guðmundur og Jóna stækkuðu íbúðarhúsið 1961. Árið 1976 byggðu þau gróðurhús og notuðu til þess efni úr gróðurhúsi sem hafði staðið á Sigurðarstöðum. Árið eftir byggðu þau pökkunarhús eða vélageymslu og loks íbúðarhús 1980.
Gamla húsið stendur enn í rólegheitum á brekkubrúninni, að niðurlotum komið eftir góða þjónustu og í því hefur enginn búið frá 1988.

Laugarás

Að Guðmundi gengnum eru tímamót í ekki svo langri sögu Laugaráss sem þorps, en með honum hverfur á braut síðasti frumbýlingurinn í þorpinu. Þá á ég við þá íbúa sem hér hófu búsetu á fimmta áratug síðustu aldar. Þau sem hér eru nefnd fylla þennan hóp:
Laugarás 2 (Gamla læknishúsið): Ólafur Einarsson og Sigurlaug Einarsdóttir, Knútur Kristinsson og Hulda Þórhallsdóttir. Ólafur og Knútur störfuðu hér sem læknar.
Hveratún: Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir.
Sólveigarstaðir: Jón Vídalín Guðmundsson og Jóna Sólveig Magnúsdóttir.
Laugarás 1 (Helgahús): Helgi Indriðason, bróðir Guðmundar og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir, systir Jóns Vídalín. Rétt er að geta þess að Helgi og Guðný (Gauja) hófu búskap sinn í Laugarási 1946, en þá bjuggu þau í kjallaranum í læknishúsinu, en fluttu síðan í eigið hús 1949.
Ef taldir eru með þeir sem fluttu í Laugarás milli 1950 og 1960, eru þær nú einar eftir, að ég tel, þær Fríður Pétursdóttir í Laugargerði, sem er nýflutt á Selfoss og Sigríður Pétursdóttir í Sigmarshúsi.


100 ára, á léttu nótunum 

19 ágúst, 2016

Jóna á Lind

Jónína Sigríður Jónsdóttir, eða Jóna á Lindarbrekku, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, laugardaginn 13. ágúst. Útför hennar er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 - handrit
Atriði í 4 þáttum, skotið inn á milli annarra atriða.
Persónur: Manneskjan, sem er kona komin á steyp(ir)inn og rödd símans.
1. Manneskja kemur að síma og er að flýta sér. Tekur tólið af.
Síminn: (öskrar) Nei, þú færð ekkert samband hér!
Manneskjunni krossbregður og hún skellir tólinu aftur á.
2. Manneskjan kemur að símanum, varlega. Lyftir tólinu mjög varlega, við öllu búin. ekkert gerist.
Bíður eftir sóni og velur síðan fyrstu töluna.
Um leið fer tólið að lemja manneskjuna í andlitið.
Síminn: (hrópar) Var ég ekki búinn að segja þér að láta mig í friði, fæðingarhálfvitinn þinn!
Manneskjan missir tólið og grípur fyrir andlitið í skelfingu. Hleypur út.
3. Manneskjan kemur aftur, alveg miður sín og fer að reyna að tala um fyrir símanum.
Manneskjan: En barnið er alveg að koma. Ég verð að ná í sjúkrabíl!
Gengur síðan varlega að símanum, tekur tólið af, bíður eftir sóni, á alltaf von á hinu versta, velur fyrstu tölu, bíður, aðra tölu, bíður, þriðju tölu, bíður, fjórðu tölu, bíður. Smám saman fer manneskjan að slappa af. Velur fimmtu tölu og fær þá í sig gífurlegan rafstraum gegnum tólið. Kippist til, ógurlega og öskrar upp yfir sig. Tólið fellur. Manneskjan flýr og ógeðslegur hlátur heyrist frá símanum.
4. Manneskjan birtist, gengur að símanum. Geðveikislegt útlit og hlátur, setur símann á gólfið og hoppar síðan öskrandi á honum. Ef síminn brotnar ekki nægilega við þetta, hleypur manneskjan baksviðs og kemur aftur með slaghamar og mélar símann, ásamt því sem hún hrópar ókvæðisorð að honum.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 Aftari röð frá vinstri:
Sigríður Guttormsdóttir, Karítas Óskarsdóttir, Georg Franzson,
Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason,
Elinborg Sigurðardóttir, Jens Pétur Jóhannsson. Fremri  röð
frá vinstri: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Sigríður Jónsdóttir,
Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir,
Guðmundur Ingólfsson. Dansmeyjar hægra megin:
Gústaf Sæland og Jakob Narfi Hjaltason.

Af einhverjum ástæðum, dettur mér alltaf þetta atriði úr þorrablótsdagskránni 1991 í hug þegar mér verður hugsað til Jónu á Lindarbrekku. Þarna var hún, hálfsjötug, að leika kasólétta konu sem ætlar að hringja á sjúkrabíl, en síminn er hreint ekki á því að veita henni færi á því. Jóna vílaði hreint ekki fyrir sér að taka að sér þetta hlutverk og skilaði því með slíkum ágætum að ég man það enn.
Atriði eins og þetta tengjast auðvitað einhverju sem gerst hafði innan sveitar árið á undan og ég man hreint ekki hvað það var með símamálin sem kallaði fram þennan þátt í skemmtidagskránni, en gaman fannst mér að finna þetta handrit í fórum mínum. Ég tel að það sé bara vel við hæfi að láta það fylgja hér, um leið og ég reyni að hripa niður einhverjar línur í minningu Jónu.

Jónu á Lindarbrekku, eða Jónínu Sigríði Jónsdóttur, hef ég þekkt alla ævi. Samskiptin milli okkar og fjölskyldna okkar í Laugarási voru einna nánust á fyrstu áratugum ævi minnar. Jóna og Guðmundur komu í Laugarás 1951, einum tveim árum áður en ég leit dagsljós fyrsta sinni. Þau fluttu í örlítið sumarhús á Lindarbrekku (29 m²), sem þau byggðu síðan við um 10 árum seinna, enda varla um annað að ræða þar sem börnunum fjölgaði stöðugt. Þau urðu fjögur, öll fædd á einum áratug, frá 1951-1961: Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa og Grímur.
Þegar Jóna og Guðmundur fluttu í Laugarás voru þar fyrir Knútur Kristinsson læknir og kona hans Hulda Þórhallsdóttir, Helgi, bróðir Guðmundar  og kona hans Guðný (Gauja) Guðmundsdóttir, en þau tóku við búskap á Laugarásjörðinni 1946, foreldrar mínir, Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir í Hveratúni, sem komu í Laugarás 1946, og Jón Vídalín Guðmundsson, bróðir Gauju og Jóna Sólveig Magnúsdóttir á Sólveigarstöðum, en þau komu rétt fyrir, eða um 1950.
Guðný í Hveratúni, Jóna á Lindarabrekku, Gauja í Helgahúsi,
Maja í Skálholti, Magga á Iðu.
Á þessum tíma og reyndar fram á sjöunda áratuginn má segja að þessir íbúar Laugaráss hafi verið ein fjölskylda; frumbýlingar sem stóðu saman, hjálpuðust að, var boðið í barnaafmælin, skiptust á jólagjöfum og þar fram eftir götunum. Á sjötta áratugnum reis hús fyrir dýralækni í Launrétt og þangað fluttu Bragi og Sigurbjörg og 1958 komu svo Hjalti og Fríður í Laugargerði.
Þarna var fámennur og þéttur hópur og það má bæta við fjölskyldunum á Iðu, í Skálholti og á Spóastöðum.
Fyrir mér var Jóna alltaf þessi hressa kona, afskaplega félagslynd og barngóð og ágætur húmoristi.
"Sæll komdu", sagði hún alltaf þegar hún heilsaði, en aldrei "Komdu sæll". Ég reikna með að þarna hafi verið um einhverja austfirsku að ræða, en Jóna var frá Neskaupstað. Hún kom á Laugarvatn um miðjan fimmta áratuginn, þar sem hún vann í skólamötuneytinu veturinn 1948-49 og kynntist eiginmanninum sem síðar varð. Hún var síðan í sumarvinnu hjá Helga í Laugarási áður en hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og trúlofaðist Guðmundi sínum.


Gæti verið saumaklúbbur í Hveratúni: f.v. Jóna á Lindarbrekku,
Fríður í Laugargerði, Ingigerður á Ljósalandi, Maja í Skálholti,
Gauja í Helgahúsi, Gerða í Laugarási (læknisfrú),
Guðný í Hveratúni, frú Anna í Skálholti, ??,
Renata í Launrétt, ??, Áslaug á Spóastöðum?
Þeir hverfa af sviðinu, hver á fætur öðrum, þessir fyrstu íbúar í Laugarási, en það er víst lífsins saga, eins og augljóst má vera. Þeim er reiknaður mislangur tími; sumir hafa horfið á braut alltof snemma, en aðrir lifa vel sprækir fram í háa elli.  Jóna átti eitt ár í nírætt þegar kallið kom, og flestum þykir það væntanlega ágætur aldur.

Árið 2012 varð það úr að hjónakornin á Lindarbrekku fluttu í þjónustuíbúð á Flúðum. Þaðan lá leið þeirra um þrem árum síðar á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og ég er viss um að þar áttu þau góða vist saman, hjá því úrvals fólki sem þar starfar.  Ég má til með að halda því fram hér, að þau hefðu gjarnan viljað ljúka ævigöngunni á sambærilegu heimili hér í Laugarási, en um það var ekkert val.
Guðmundur lifir Jónu sína, á 102. æviári.

Það get ég sagt með sanni, að með Jónu hverfur á braut hreint ágæt kona og úrvals nágranni. Henni þakka ég samfylgdina.

Í Litla Bergþór í desember 2010 birtist ágætt viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við Guðmund og Jónu.

Guðmundur fagnar aldarafmæli sínu í apríl 2015.







21 nóvember, 2015

Hlátur hljóðnar

Magga ásamt sr. Agli Hallgrímssyni
í garðveislu sem kórnum var boðið
til í Mülheim í Þýskalandi árið 1998
"Hvaða kona er þetta eiginlega?"
Aðstæðurnar voru þær, að leikhópur Menntaskólans að Laugarvatni var að sýna leikritið Land míns föður í Félagsheimili Seltjarnarness og leikararnir áttu erfitt með það halda andlitinu í hlutverkum sínum vegna þess að einhver kona úti í sal hló svo innilegum og smitandi hlátri að öllu því sem talist gat fyndið eða skemmtilegt í verkinu.
Konan var hún Margrét Oddsdóttir, eða Magga Odds.

Magga Odds lést þann 13. nóvember síðastliðinn, á 62. aldursári, nokkrum mánuðum yngri en ég.  Útför hennar fer fram frá Skálholtskirkju í dag.

Þýskaland 1998: Áning með tilheyrandi.
Þarna má líta Geirþrúði Sighvatsdóttur,
Pál M Skúlason og Gísla Einarsson
Enn einu sinni er maður minntur á að maður getur ekki gengið að neinu vísu þegar um er að ræða ævilengdina.  Með Möggu er látinn fjórði einstaklingurinn á nokkrum mánuðum, úr hópi fólks sem ég þekki til og sem voru á svipuðum aldri og ég. Í öllum tilvikum var krabbameinið afgerandi þáttur í því að lífsganga þeirra fékk ekki að verða lengri.  Svona er það nú bara.Við hin höldum áfram þann tíma sem okkur er mældur.
Magga kom í Tungurnar um svipað leyti og ég sneri aftur til að kenna í Reykholtsskóla. Hún og þáverandi maður hennar, Páll Óskarsson frá Brekku, byggðu yfir sig Brekkuskógi. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, Odd Óskar, Heklu Hrönn og Kristin Pál, en þar kom að leiðir hjónanna skildi. Magga var þó áfram í Tungunum þar til hún tók sig upp og flutti á Suðurnesin í einhver ár. Síðan kom hún aftur og bjó í Reykholti til dauðadags.
Kórferð til Ítalíu 2007: Vatíkanið
Magga Odds var stór. Sannarlega var hún stórvaxin, en ég held að enn meira máli hafi skipt að hún hafði stórt hjarta. Konan var mikill ljúflingur, hress og brosmild og hláturmild og bar það ekki utan á sér ef líf hennar var ekki alltaf dans á rósum.
Snertifletir mínir við þessa ágætis konu voru aðallega af tvennum toga. Annarsvegar fæddust elstu börnin okkar árin 1977 og 1979. Þar með hittumst við nokkuð á vettvangi grunnskólans.  Hinsvegar vorum við saman í Skálholtskórnum um alllangt skeið, en í gegnum kórstarfið var ýmislegt brallað fyrir utan sönginn og með okkur tókst ágætur kunningsskapur. Skálholtskórinn fór reglulega í söng- og skemmtiferðir til útlanda á þeim tíma sem við vorum þar. Meðal annars fórum við eftirminnilega ferð kórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands í október 1998 og í mikla Ítalíuferð árið 2007, en þá held ég að Magga hafi komið með sem svokallaður áhangandi.

Kórferð til Ítalíu 2007: Caprí. Magga
ásamt, Dröfn , Hilmari, Hófí,og Þrúðu
Það er nokkuð síðan ég frétti af því að Magga hefði greinst með meinið sem hefur nú lagt hana að velli. Ætli ég hafi ekki hitt hana síðast fyrir um hálfu ári síðan, talsvert breytta, en augljóslega með sama hjartalagið.

Hér er horfin á braut ein af þeim manneskjum sem maður hefur aldrei haft nema gott eitt af að segja. Ef Magga átti einhverjar aðrar hliðar þá voru þær mér huldar.


02 október, 2015

Með mólikúl að vopni

Gönguferð með Jóni
67 ár lífs í þessum nútímaheimi okkar finnst mér ekki vera fullnægjandi ævilengd.
En það er víst ekki spurt að því hvað mér finnst í þeim efnum.
Öll getum við átt von á að sjúkdómar leggi okkur að velli án þess við höfum nokkuð það aðhafst sem gæti stytt ævina umfram það sem venjulegt er hjá fólki í vestrænum samfélögum.
Ætli við séum ekki mörg sem hugsum gott til þess að hætta brauðstritinu og eiga síðan mörg góð ár til að njóta lífsins fram í ellina.
Við sjáum fyrir okkur heimsreisur, eða eitthvert dund í því sem áhuginn beinist að.
Við sjáum fyrir okkur samvistir við börnin okkar og barnbörn, að fylgjast með fólkinu okkar, að samfagna þeim árangri sem það nær í lífinu og hvetja það til dáða, taka þátt í gleði þess og sorgum, lifa.
Við viljum deyja södd lífdaga, sátt við að þann tíma sem við fengum.
En það er ekki spurt að því.

Mig grunar að Hilmar hafi ekki verið sáttur við að hverfa af vettvangi svo snemma.
En það var ekki spurt að því.

Í Sulzbach-Rosenberg
Hilmar Jón Bragason var samstarfsmaður minn í Menntaskólanum að Laugarvatni frá því ég hóf þar störf  árið 1986 og  til ársins 2010. Það eru hvorki meira né minna en nánast aldarfjórðungur, segi og skrifa.
Hilmar var einn þeirra sem kaus að fara á eftirlaun í samræmi við 95-ára-regluna svokölluðu. Hann keypti sér hús í Svarfaðardal og sá sennilegast fyrir sér það sem ég lýsi hér að ofan, en það átti ekki að fara svo. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdóminum sem fellir svo marga langt um aldur fram. Hann lést 24. september og útför hans er gerð í dag.

Formlega var Hilmar raungreinamaður og kenndi að mestu raungreinar og stærðfræði. Hann var hinsvegar flóknari persóna en svo að hann félli alveg undir þá klassísku skilgreiningu á raungreinamönnum að þeir séu frekar ferkantaðir í hugsun. Ég vil halda því fram að hann hafi ekki síður átt heima í húmanískum fræðigreinum þar sem það skiptir ekki höfuð máli hvort tveir plús tveir eru fjórir. Þannig fékk hann áhuga á esperanto og varð virkur félagi í samtökum esperantista, þýddi yfir á esperanto og sótti þing esperantista víða um Evrópu. Þetta tungumál var eitt af áhugamálum hans og hann kenndi það í nokkur ár í ML.  Þá var skák einnig áberandi áhugamál hans.

Í samstarfi innan skólans var ávallt hægt að treysta því að Hilmar færi ekki með neitt fleipur, var undirbúinn og búinn að hugsa um þau verkefni sem fyrir lágu. Hann lenti oft í hlutverki málefnalegrar stjórnarandstöðu, veitti aðhald og benti á það sem var illa undirbúið eða mætti við meiri umfjöllun.
Það varð öllum fljótt ljóst að Hilmari var hægt að treysta. Þannig gegndi hann stöðu trúnaðarmanns starfsfólks árum saman. Hann sat einnig í samstarfsnefnd um gerð stofnanasamnings frá því sú nefnd varð til, þar til hann lét af störfum  Þar fylgdist hann vel með og gekk í málin ef eitthvað var með öðrum hætti en vera skyldi.


Þessi ágæti samstarfsmaður var skapmaður talsverður, var fljótur að skipta skapi og hikaði ekki við að tjá skoðanir sína á því sem honum mislíkaði. Hann var fljótur upp og jafnfljótur niður, því var hægt að treysta.
Ég gæti kinnroðalaust talið upp, í tengslum við Hilmar, afskaplega mörg  þeirra jákvæðu lýsingarorða sem eru notuð notuð um fólk eða eiginleika þess, ekki síst að því gengnu. Ég kýs að gera það ekki, enda var Hilmar ekki sá sem sóttist eftir hrósyrðum um sjálfan sig.

Nánast varð samstarf okkar Hilmars sennilega í tengslum við samskipti við menntaskólann í Sulzbach-Rosenberg í Bæjarlandi. Hann var auðvitað þýskumaður par excellence, enda hafði hann stundað háskólanám hjá Þjóðverjum.  Við fórum saman þarna suður eftir vorið 1996 til að undirbúa heimsókn nemendahóps frá okkur þangað og síðan til að taka á móti hópi frá S-R. Samskiptin við þennan þýska skóla stóðu síðan með hléum til 2009.

Þá er það  kennarann Hilmar. Það kom oft fyrir að nemendur í neðstu bekkjum kvörtuðu undan þessum kennara. Það lærðist okkur fljótt að taka þær kvartanir ekki of alvarlega því það var Hilmari ljóst, að til þess að ná árangri í námi verður að vera fyrir hendi agi, bæði agi á sjálfum sér og agi í vinnubrögðum. Hann leit á það sem sitt verkefni, með réttu, að efla með nemendum vísindalega hugsun og öguð vinnubrögð. Hann gerði kröfur til nemenda, með réttu, og þeir hafa síðan verið duglegir að þakka það í þeim könnunum sem gerðar hafa verið meðal fyrrverandi nemenda skólans.
Í efri bekkjum, þegar Hilmar hafði náð fram markmiðum sínum gagnvert vinnu nemenda, naut hann síðan óskoraðs trausts og virðingar.

Eitt mikilvægasta áhugamál Hilmars var útivist, fjallgöngur, skíðagöngur og annað af þeim toga, sem ég kann ekki að segja mikið frá, enda deildi ég ekki því áhugamáli með honum. Jafnskjótt og snjó festi, var hann búinn að taka fram gönguskíðin og haldinn af stað upp í heiði á samt Jóni, félaga sínum.
Ég viðurkenni að ég óttaðist Jón talsvert, lengi framan af, en þegar ég hafði einu sinni náð að klóra honum bakvið eyrað varð hann sáttur við tilveru mína og ljúfastur hunda.
Það óttuðust margir Jón.
-------
Vorið 2012 hélt hópur starfsmanna ML norður land og heimsótti þá Hilmar í Svarfaðardalnum, en þar bjó hann í Tjarnargarðshorni. Hann tók á móti hópnum af mikilum höfðingsskap og hópurinn gæddi sér á dýrindis kjötsúpu. Það var sérlega ánægjulegt að hitta þennan gamla félaga aftur, en þetta var í síðasta skiptið sem ég hitti Hilmar, en við höfum reglulega heyrt af honum og frá honum síðan.

Heimsókn Tjarnargarðshorni 2012: Gríma, Hilmar, Halldór Páll og Guðrún


Tjarnargarðshorn er efsta húsið til vinstri.
Mynd: Árni Hjartarson. 








25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

04 september, 2015

Á besta aldri

Jóhanna Ólöf  Gestsdóttir, 40 ára stúdent.
Vorið 2004 komu saman á Laugarvatni fyrstu stúdentarnir sem fögnuðu 50 á stúdentsafmæli. Þeir komu síðan aftur á Laugarvatn á síðasta ári, allir nema einn, í tilefni af 60 ára afmælinu, þá orðnir um áttrætt. Sá eini sem ekki kom lést nokkrum dögum fyrir hátíðina og hafði verið búinn að gera ráðstafanir til að vera viðstaddur. Það er auðvitað gaman þegar svona hópur, sem gekk saman gegnum súrt og sætt í fjögur ár á mótunarárum, nær allur svo háum aldri.

Ég fagnaði 40 ára stúdentsafmæli vorið 2014 ásamt hópi bekkjarfélaganna. 25 vorum við sem lukum stúdentprófi frá ML vorið 1974, 9 okkar kláruðu sig af máladeild og 16 af eðlis- og náttúrufræðdeild.
Við, þessi 9 sem lukum máladeildinni, erum nú orðin 8.   Þann 29. ágúst síðastliðinn lést Jóhanna Ólöf Gestsdóttir, eða Jóka, eins og hún var kölluð í okkar hópi. Jóhanna er jarðsungin í dag.

Það er nú svo með stúdentahópana sem hverfa frá Laugarvatni á hverju vori, að þeir halda mismiklu sambandi eftir að menntaskólaárunum lýkur. Það fer hver sína leið, finnur sér farveg til að ferðast um gegnum lífið. Hópurinn okkar Jóhönnu hefur nú ekkert verið sérstaklega samheldinn, hverju svo sem þar er um að kenna, en við höfum flest vitað hvert af öðru, sumir hafa haldið hópinn vel og ræktað vináttu frá þessum árum. Flest höfum nokkrum sinnum komið saman á Laugarvatni til að júbilera. Jóhanna sinnti þeim þætti vel, þó svo hún hafi ekki átt samleið með hópnum öll 4 árin á Laugarvatni. Hún kom inn í bekkjarhópinn í 2. bekk og var síðan utan skóla, í það minnsta frá áramótum í 4. bekk.

1974
Sama árið og hún útskrifaðist eignaðist hún frumburðinn og giftist Baldri Garðarssyni. Þau slitu samvistum. Seinni maður Jóhönnu var Kristján Sigurðsson og þau eignuðust 4 börn saman.

Jóhanna, já.
Ég held að ég megi segja á ég hafi ekki þekkt hana mjög náið, sem persónu, en það man ég að hún hafði ákveðnar skoðanir og var ófeimin við að tjá þær. Að því leyti breyttist konan ekkert þó árunum fjölgaði.
Eins og oft vill verða í bekkjakerfisskóla þá mótast samskiptin í hverjum bekk mest í 1. bekk og þroskast síðan eftir því sem ofar dregur. Af þessum sökum má segja að Jóhanna hafi ekki algerlega náð að samsama sig þessum hóp og að sumu leyti voru samskipti hennar ekki minni við árganginn á undan okkur, en innan hans steig hún fyrst niður fæti í skólanum. Áður en hún kom á Laugarvatn hafði hún lokið eins árs námi við framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akranesi.

Ævistarfið snérist um ungt fólk. Fimm eignaðist hún börnin og kom til manns og ótölulegur fjöldi ungmenna naut leiðsagnar hennar sem kennara og það sem ég ræddi við hana um uppeldismál bendir til að þau hafi verið hennar hjartans mál og starfsvettvangur hennar hentaði því vel. Á s.l. vori lauk hún viðbótardiplómanámi í náms- og kennslufræði frá HÍ, svo hún var greinilega ekki á þeim buxunum að fara að hægja verulega á.

Brotthvarf Jóhönnu úr jarðlífinu fær mann til að staldra aðeins við, velta fyrir sér því sem allir vita auðvitað, en ýta jafnharðan frá sér. Okkur er mældur mislangur tími og mælinguna þá þekkir enginn.

Eftir tæp 8 ár, vorið 2024 kemur þessi hópur saman aftur til að júbílera á Laugarvatni. Þá verður í það minnsta engin Jóka til að gleðjast með, en vonum að við hin fáum hist þar til að rifja upp sameiginlega sögu og deila því sem á dagana hefur drifið.

40 ára júbílantar sem hittust á Laugarvatni vorið 2014.
Frá vinstri: Smári Björgvinsson, Páll M Skúlason, Ólafur Þór Jóhannsson,
Lára Halldórsdóttir, Haraldur Hálfdánarson, Jarþrúður Þórhallsdóttir,
Eiríkur Jónsson, Jason Ívarsson.
Þarna hafði Jóhanna  brugðið sér frá og við gátum ekki hafnað góðu boði
hennar Bubbu (Rannveigar Pálsdóttur),um að smella af okkur mynd.


09 maí, 2015

Hún bjó hinumegin við ána

Guðný Pálsdóttir, Hveratúni, Jónína Jónsdóttir Lindarbrekku,
Guðný Guðmundsdóttir Laugarási (Helgahúsi),
María Eiríksdóttir Skálholti, Margrét Guðmundsdóttir Iðu.
Ævin lengist eins og við er að búast. Það er bara eðlilegt í því samhengi að fólk af minni kynslóð sé að verða búið að kveðja flesta sem á undan hafa farið. Það er víst gangurinn.
Fyrir nokkru bættist í hóp þessa fólks hún Magga á Iðu á 95 aldursári. Hún er jarðsungin í dag.
Magga á Iðu (Margrét Guðmundsdóttir) fyllti þann hóp fólks hér í neðsta hluta Biskupstungna sem hefur verið fastur punktur í tilveru okkar sem hér fæddumst ólumst upp síðustu síðustu 70 árin eða svo.
Magga og Ingólfur hófu búskap sinn á Iðu um svipað leyti og foreldrar mínir hófu ævistarf sitt í Laugarási og voru á svipuðum aldri, mamma og Magga á Iðu (mér finnst hún aldrei hafa verið kölluð Magga, bara Magga á Iðu) voru jafnaldrar og pabbi einu ári eldri en Ingólfur. Aldrei varð ég var við að skugga bæri á í samskiptum þeirra og ég minnist þess ekki nokkurntíma að eitthvað kæmi þar upp á. Það sama má reyndar segja um flest það fólk sem átti samleið hér í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum niður að Helgastöðum og Eiríksbakka.
Magga og Ingólfur voru búin að búa á Iðu í ein 12 ár þegar brúin á Hvítá varð til þess að breyta ýmsu og auðvelda  samskipti. En þar sem Ingólfur telst vera síðasti ferjumaðurinn á Iðuhamri, hafa þau Magga nú ekki verið í vandræðum með að skjótast í heimsóknir eða á samkomur þegar svo bar undir þó engin væri brúin.

Ég ætla nú ekki að þykjast hafa þekkt Möggu á Iðu neitt sérlega vel. Líklega voru kynnin bara svipuð því sem gerist milli barna og vinafólks foreldra þeirra. Þegar mér verður hugsað til hennar, Ingibjargar á Spóastöðum, Mæju í Skálholti, frú Önnu í Skálholti, Gauju (Laugarási/Helgahúsi), Jónu á Lindarbrekku, Fríðar (í Laugargerði) og Gerðu (kona Gríms læknis), detta mér í hug saumaklúbbar, kvenfélagið, spilakvöld og einhverskonar leikstarfsemi.  Þetta voru konurnar sem, auk mömmu, auðvitað, tilheyrðu umhverfi mínu meðan ég sleit barnsskónum, og ég get ómögulega fundið neitt annað en ágætar minningar af návist þeirra.
Af þeim konum sem hér voru taldar eru þær nú þrjár sem dansa um jarðlífið og megi þær gera það sem lengst. Hinar dansa nú annarsstaðar, í það minnsta í hugum okkar sem kynntumst þeim.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...