Sýni færslur raðaðar eftir dagsetningu með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Raða eftir vægi Sýna allar færslur
Sýni færslur raðaðar eftir dagsetningu með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Raða eftir vægi Sýna allar færslur

20 september, 2022

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt,
en óþekkt að öðru leyti.
Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarkaðinn vegna aldurs, bíði það að vera heima hjá sér eins lengi og heilsan leyfir, en flytjast síðan á hjúkrunarheimili, lifi það svo lengi. 
Auðvitað er eldra fólkið ekki einsleitt frekar en annað fólk og býr við afskaplega ólíkar aðstæður. 
Það er einn hópur, sem mér finnst ekki fjallað mikið um, nánast eins og hann sé ekki til, en það er fólkið sem býr eitt í húsinu sínu (jafnvel vel stóru), eða íbúðinni, eftir makamissi, eða af öðrum ástæðum.  Þetta er oft(ast) fullfrískt fólk, sem getur sjálft séð fyrir eigin þörfum hvort sem þær snúa að skrokknum eða því sem fram fer í höfðinu.  Þetta fólk býr í sveit, bæ eða borg. Sumt þessa fólks nýtur bara einverunnar og er sjálfu sér nægt, á fullu að sinna áhugamálum sinum. Í þessum hópi er líka fólk, sem hefur fátt við að vera, nema kannski reyna að elda ofan í sig, þrífa húsið og horfa á sjónvarpið. 

HEILBRIGÐ SÁL Í HRAUSTUM LÍKAMA/MENS SANA IN CORPORE SANO  
Mér er til efs, að sú stefna stjórnvalda, að fólk sé heima hjá sér og fái þar, það sem kallar er "heimaþjónusta", sé endilega svo stórkostleg.
Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir þá sem dvelja heima
Öldruðum skal gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með því að bjóða þeim ýmis konar stuðning og þjónustu. Annars vegar er um að ræða félagslega heimaþjónustu og hins vegar heimahjúkrun.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmiðið með félagslegri heimaþjónustu er að aðstoða þá sem geta ekki hjálparlaust annast dagleg heimilisstörf. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum.
Óski einstaklingur eftir heimaþjónustu á hann að snúa sér til velferðar-/félagsþjónustu síns sveitarfélags. Umsóknareyðublöð eru á vefjum margra sveitarfélaga.

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvers konar heimaþjónusta er veitt en hún getur verið:
  • almenn heimilishjálp,
  • félagsráðgjöf,
  • heimsending matar,
  • heimsókn og samvera svo sem gönguferðir, lestur dagblaða og fleira,
  • yfirseta í veikindum,
  • garðvinna og snjómokstur,
  • persónuleg umhirða sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar og
  • akstur.
Gjald fyrir heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga fá heimaþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Allt er þetta gott og blessað, en, er mögulega munur á því sem fram kemur í lögum, reglugerðum eða leiðbeiningum og því hvernig orðunum er fylgt eftir?  Þarna stendur að þjónustan sé misjöfn eftir sveitarfélögum, sem þýðir að þau geta stjórnað því sjálf hvað þjónusta er veitt og hvenær. Þar er líklegast unnið eftir einhverjum verklagsreglum. Hvert sveitarfélag áætlar tiltekna upphæð til málaflokksins og því þarf að koma til mat á því hvort, eða við hvaða aðstæður, einstaklingur á rétt á þjónustu. SÞað er væntanlega sveitarfélagið sem ákveður hver mörkin eru og þau geta verið misjöfn. 

Svo ég víki nú aftur að þeim hópi fólks sem býr eitt, en getur alveg séð um sig og fyrir sér sjálft. Þetta er kannski fólk sem er rétt skriðið á áttræðisaldurinn. 

Hvaða þjónustu veita sveitarfélögin þessu fólki? Mig grunar að hún sé nú ekki stórfengleg og allavega ekki af því tagi sem uppfyllir andlegar þarfir að neinu umtalsverðu leyti.  Þetta fólk getur þrifið íbúðina, sjálft sig, þvegið af sér og skellt í þurrkarann, farið í búð, eldað ofan í sig og kveikt á sjónvarpinu án þess að ruglast á tökkum.  Að þessu leyti þarf svona fólk ekki aðstoð frá samfélaginu og kannski bara enga aðstoð, sem ég að held nú allajafna  raunin.

Það blasir við, að mikilvægur þáttur virðist verða útundan.

Mannskepnan er félagsvera og nærist á samskiptum við annað fólk.  Mér virðist blasa við, að með ofuáherslu á að fólk dvelji heima hjá sér eins lengi og kostur er, sé verið að auka hættuna á félagslegri einangrun. 
Sannarlega er það bara einfaldast að vera bara heima, í sínu. Svo líða dagarnir, vikurnar og mánuðirnir og áður en við er litið er skorturinn á félagslegum samskiptum farinn að hafa áhrif á líkamlega líðan og einstaklingur á á hættu að þurfa að fara á hjúkrunarheimili fyrr en ella hefði verið, með meiri kostnaði fyrir samfélagið.
Ég gleymi því seint, þegar ég fékk skammir frá félagsþjónustu fyrir að sækja um á dvalarheimili fyrir níræðan föður minn, þar sem hann taldist ekki vera nógu veikburða og hjálparlaus. Þarna voru forsendurnar fyrir dvalarplássi bara settar nógu hátt til að hægt væri að útiloka annað fólk en það, sem var orðið algerlega bjargarlaust.  Gamli maðurinn gat bjargast sjálfur heima, gat fengið sendan heim mat, gat fengið þrif á stærðar einbýlishúsinu, gat fengið aðstoð við böðun, en lítið af þeirri andlegu örvun, sem væri líkleg til að stuðla að því að hann ætti kost á að njóta lífsins sem lengst. 

Jæja, þá er ég kominn að tilganginum með þessum vaðli:

Það vantar inn í alla þessa umræðu, finnst mér, áherslu á að eldra fólk eigi kost á að njóta þess að eiga í félagslegum samskiptum eins lengi og kostur er. Ég er alveg sannfærður um, að með möguleikanum á því, myndi þörfin fyrir stöðugt fleiri og flottari hjúkrunarheimili minnka, en vissulega verða þau að vera fyrir hendi. 

Ég veit, að víða er að finna nokkur pláss, þar sem fólk hefur tækifæri til þess arna, en þeim þarf að fjölga og með því ynnist ýmislegt.
Það þarf að byggja, eða stofna nokkurskonar sambýli með litlum íbúðum, þar sem væri eldhúskrókur og snyrting fyrir einstaklinga og einnig litlar íbúðir fyrir hjón eða pör. Þessar íbúðir væru seldar eða leigðar. Fyrir utan íbúðirnar, í sama klasa, væri síðan að finna matsal/mötuneyti og ýmisskonar félagsaðstöðu: setustofur, kaffistofu, íþróttasal og annað það sem ætla má að hvetji til félagslegra samskipta og líkamlegrar hreysti. Heilbrigð sál í hraustum líkama og allt það.
Fólkið sem þarna ætti eða leigði íbúð væri fært um að sjá um sig sjálft. Það gæti valið að eyða tímanum í eigin íbúð, en síðan tekið þátt í því sem í boði væri fyrir utan. Þarna myndi fólk lifa sínu sjálfstæða lífi, væri kannski með bíl og færi allra sinna ferða, í bíó eða tónleika, eða hvaðeina. 

Svona sambýli myndi hugsanlega ekki henta stórum hluta fólks, en mig grunar að margir sem nú búa einir, myndu taka svona valkosti opnum örmum (ætli það hafi verið kannað, hve stórum hópi þessa myndi henta?). Með því myndu losna íbúðarhús, sem nýttust betur barnafjölskyldum en einstaklingum.

Ég vonaði um tíma, að nýja, glæsilega, hringlaga byggingin, sem hefur hlotið nafnið Móberg, yrði af þeim toga sem ég er hér búinn að lýsa, en þar verður um að ræða hjúkrunarheimili.  

-----------------------------

"Jæja, er hann nú orðinn gamall, karlinn?", kann einhver að spyrja, hátt eða í hljóði (ég get séð nokkra fyrir mér), við þennan lestur.  Svar mitt við slíkri spurningu er einfalt. 

"Það styttist í að ég nái sjötugu, rétt er það, og framundan eru vonandi fleiri ár, sem ég myndi vilja njóta sem best.
Hinsvegar er ég sjálfur ekki kveikjan að þessum pælingum, heldur fólk sem ég hef aðeins kynnst frá því við fluttum hingað á Selfoss. Þar á meðal er fólk, eins og ég lýsti hér fyrir ofan, fólk sem langar að hafa eitthvað fyrir stafni, annað en sitja fyrir framan sjónvarpið, eða prjóna sokka á barnabarnabörnin.  Jafnvel hef ég heyrt um fólk, sem keypti sér bangsa til að hafa einhvern til að tala við á matmálstímum, til að búa til ástæðu til að matbúa, yfirleitt."

Það, sem sagt, vantar meiri áherslu á þrepið milli heimilisins og hjúkrunarheimilisins. Þannig er það.

19 ágúst, 2022

Baugsstaðir - epilogus

Sigurður Pálsson í stofunni í vesturbænum, 2013
 Það er fjarri mér að efast um það, að fólkið sem tilheyrir þeirra ætt sem ég er nú búinn að reyna að skilja betur, sé öndvegisfólk upp til hópa. Jafnframt viðurkenni ég, að upplýsingarnar sem ég byggi þessa niðurstöðu á, eru að langmestu leyti fengnar úr kirkjubókum: prestþjónustubókum og sóknarmannatölum og það má alveg ímynda sér að sumt hafi prestar bara ekki fengið að vita um, enda hefðu vafasamar upplýsingar í þeirra höndum getað verið afdrifaríkar. 

Ætli fólkið sem hefur haldið ættinni lifandi gegnum aldirnar, sé bara ekki eins og annað fólk; breyskt, á ýmsan máta.  

Ævagömul klukka í 
vesturbænum. 

Í uppvextinum heyrði ég ýmislegt, og á fullorðinsárum hef ég heyrt ýmislegt til viðbótar, jafnvel sitthvað sem ég vil helst ekki trúa, um forfeðurna.  Ég hef heyrt ýjað að ýmsu misjöfnu sem aldrei yrði um getið í minningargreinum um fólk.  Meðal annarra bresta sem svifið hafa í grennd  við eyrun á mér eru drykkjuskapur, framhjáhald, rangt feðruð börn og jafnvel það sem enn verra er. Ýmislegt af þessu tagi hefur helst komið til tals í hvíslingum fólks og þannig borist milli kynslóða.  
Uss, uss, ljótt er ef satt er! 
Ég held, að við sem nú lifum, værum harla litlu bættari með að grafast fyrir um bresti af þessu tagi, sem eflaust má finna heimildir um í höfðum einhverra okkar. Það sem við getum kannski helst gert, er að læra af og heita því að reyna að vera eitthvað betri.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að láta kyrrt liggja. Látum sofandi hunda í friði. 

----------------

Ég fékk að kynnast afa og ömmu á Baugsstöðum talsvert, en þó minna en þau ykkar sem beinlínis ólust upp á Baugsstöðum. Mamma var afar dugleg við að viðhalda sambandi við foreldra sína og við systkinin fylgdum auðvitað þar með. Minningar sem ég ber síðan um gömlu hjónin, eru flekklausar. "Guð blessi allt góða fólkið mitt", var viðkvæðið hjá ömmu þegar Hveratúnsfjölskyldan steig út úr Land Róvernum hlaðinu fyrir framan vesturbæinn. Hún fórnaði höndum í einlægri gleði yfir gestunum og faðmaði að sér ungviðið, dótturina og tengdasoninn. Afi var fremur hæglátur og tjáði ekki með sama hætti tilfinningar sínar til okkar, en aldrei fann ég til annars en væntumþykju hans gagnvart mér, þó ekki minnist ég þess að hann hafi haft hátt um hana.. Mér finnst ágætt að hafa þessar minningar um afa og ömmu. Fyrst þau voru svona gott fólk, hef ég enga ástæðu til að hugsa til foreldra þeirra eða systkinabarna, nú, eða annarra forfeðra með öðrum hætti.

Elín Magnúsdóttir og dóttir hennar Elín
Jóhannsdóttir og börn þeirrar síðarnefndu:
f.v Guðný, Elín Ásta og Siggeir. (ca. 1926)
Annað fólk sem tilheyrði þessari fjölskyldu hefur mér alltaf fundist vera ósköp hlýtt í viðkynningu, en vissulega eru ansi margir áratugir síðan ég hitti þau elstu í fermingarveislum á Baugsstöðum, eða í Hveratúni. Þarna voru þau Gummi og Halldóra, Silla og Ingólfur, Ási og Bogga. Ég man minna eftir öðrum börnum Siggeirs og Kristínar, sonunum Jóhanni og Sigurði.  Finnst ég þó muna eftir því að í eina fermingarveisluna kom annar þessara bræðra og konan hans beið úti í bíl á meðan hann kíkti á  fermingarbarnið og veislugesti. 

Ég þarf auðvitað varla að taka það fram, að fjölskyldur bræðra mömmu hafa verið og eru með ágætum, en ónefndir mættu þó ganga í gegnum endurskoðun á pólitískum viðhorfum, en það telst varla með. 

Tvö ártöl

Eins og sjá má af samantektinni úr kirkjubókunum, standa tvö ár upp úr, sem umbyltu lífi fólksins á Baugsstöðum, þannig að sú ævi sem það hefði getað átt, var síðan allt önnur. 

Þegar Jóhann Hannesson lést sumarið 1891, má segja að fjölskylda hans og Elínar Magnúsdóttir hafi splundrast. Ef allt hefði nú gengið vel, hefðu þau mögulega tekið við búi í austurbænum af foreldrum Elínar og þannig hefði Baugsstaðaættin átt alla jörðina áfram.

Ekki varð áfallið minna árið 1918. Þá lést Guðmundur Jónsson í febrúar og Siggeir sonur hans tók við búinu. Það blasti við, að hann og Kristín myndu ala þarna upp börnin sín fimm. Þarna var óljóst hvað Páll hefði tekið sér fyrir hendur að óbreyttu. Það má meira að segja velta því fyrir sér, hvernig farið hefði með hjúskap hans og Elínar, sem var þarna búin að dvelja á vetrum í Reykjavík í ein átta ár. Hugsanlega hefði hann flutt á mölina með henni.  Fannst þeim mögulega eitthvað undarlegt við það, eftir að hafa alist upp nánast sem systkini frá barnæsku, að giftast og fara að eignast börn?   

Reiðarslagið sem Baugsstaðafjölsyldan varð fyrir í byrjun desember þetta ár, þegar Siggeir lést eftir slys, setti flest úr skorðum í lífi fólksins í vesturbænum.  Það má segja að framtíð þess hafi sundrast í einu vetfangi.
Árið eftir gengu Páll og Elín í hjónaband og hann tók við búinu. Kristín fór skömmu síðar til Reykjavíkur með þrjú barna sinna, til að finna aftur fótfestu í lífinu, en tveir sona hennar urðu eftir á Baugsstöðum til fullorðinsára, hjá afa og ömmu, og dóttir hennar kom svo síðar aftur á æskustöðvarnar þegar Kristín hafði gifst á ný og flutt að Læk í Ölfusi.

Siggeir er sagður hafa afstýrt því, að fjölskyldan flytti frá Baugsstöðum, ef marka má það sem "Kunnugur" skrifaði í minningarorðum um feðgana: 

Meðan Siggeir var enn innan við tvítugt, var afli mjög tekinn að þverra fyrir Loftsstaðasandi, en hann hafði verið aðal lífsviðurværi bænda þar um slóðir, landbúnaðurinn hinsvegar lítill og bágborinn. Voru horfurnar því óglæsilegar, og vildi Guðmundur þá, sem sá hvað að fór, að þeir flyttu til Reykjavíkur. Lagðist Siggeir á móti því, kvað Ieitt að yfirgefa gamalt ættaróðal, og þótt það væri rýrt og erfitt, þá mundi þó mega bæta það, ekki hlýddi að allir flýðu erfiðleikana, einhver yrði að vera þar sem erfitt væri, væri það enginn vandi að gera gott úr góðu.

Þessi sami "Kunnugur" segir einnig, að Guðmundur Jónsson (langafi) hafi sest að á Baugsstöðum fyrir orð móður sinnar. Að sögn hans voru Baugsstaðir "rýr ágangsjörð", sem Guðmundi féll ekki. Þá var bú Guðmundar lítið og honum mun frekar hafa hugnast smíðar en búskapur.   

Sennilega afmæli á 7. áratugnum. Fremst sitja f.v. Magnús Skúlason, Guðný Pálsdóttir,
Páll Guðmundsson, Elín Jóhannsdóttir og Sigríður Ísafold.
Fyrir aftan þau standa Benedikt Skúlason og Guðný Siggeirsdóttir.
Standandi þar fyrir aftan Elín Ásta Skúladóttir, Sigrún Ingibjörg Skúladóttir, Páll Magnús Skúlason, Þórarinn Siggeirsson, Una Kristín Georgsdóttir Dyrving, Elín Siggeirsdóttir Svanborg Siggeirsdóttir og Sigurlaug  Siggeirsdóttir.
Aftast standa Skúli Magnússon, Páll Siggeirsson, Siggeir Pálsson, og Sigurður Pálsson.

Það er sannarlega ýmislegt sem hefur áhrif á líf okkar mannfólksins. Það eina sem við getum verið nokkuð viss um á lífsgöngunni er, að framundan er alltaf óvissa. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það. 

Hver verður nú framtíðin á Baugsstöðum, þegar yngsti sonur þeirra Páls og Elínar er farinn úr vesturbænum, orðinn 94 ára, til dvalar á hjúkrunarheimili?  Þeirri spurningu get ég ekki svarað, enda Baugsstaðir svo sem ekki annað fyrir mér en ættarsaga og minningar frá æskuárum.

 


Afkomendur Elínar og Páls á Baugsstöðum hittust á ættarmóti árið 2009


01 september, 2021

Eldri borgarar: Það vantar einn hlekkinn

Hjúkrunarheimili á Selfossi Mynd frá RUV
Ég bý við Austurveg á Selfossi, þar sem  mikil byggð íbúða fyrir eldri borgara er og hefur verið að rísa. Hér er um að ræða tiltölulega hentuga stærð íbúða, fyrir fólk sem er að stíga út úr önnum starfsævinnar og út úr stórum einbýlishúsum, sem eru orðin alltof stór fyrir þarfir þess.  Hér við Austurveginn er risið heilt hverfi fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk, sem keypt hefur þessar ágætu íbúðir fyrir heilmarga tugi milljóna. Þetta er valkostur fyrir það fólk sem þetta getur - sem hefur getað selt einbýlishús og haft efni á að kaupa íbúðir í af þessu tagi, á þessum stað.

Hér skammt frá er verið að byggja glæsilegt hringlaga hjúkrunarheimili, sem ætlað er að taka við fólki sem komið er í þá stöðu að geta ekki séð um sig sjálft lengur. Það þarf hjúkrun. Þetta má segja að þetta hjúkrunarheimili sé, eins og önnur slík, endastöð fólks hér á jörð. Hjúkrunarheimili eru dýr valkostur, eins og okkur ætti að vera orðið ljóst, og þar að auki eru heilmiklir biðlistar eftir að plássi fyrir fólk, sem þarf þá að teppa rándýr pláss á þjóðarsjúkrahúsinu, sem síðan orsakar ofurlanga biðlista þar. 

Það eru, held ég, allir sammála um, að það sé mikilvægt að draga úr þörfinni fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og það er almennt mikilvægt að skapa aðstæður til að takast á við stórvaxandi fjölda eldri borgara nú og á næstu árum.
Þessi mynd sýnir fjölda fæddra síðastliðin 120 ár. Í ljósa reitnum er fólk sem er núna
á aldrinum 50 til 70 ára - fólkið sem mun fylla hóp eldri borgara næstu árin.  Heimild Hagstofan.

Stjórnmálin og eldri borgarar

Í aðdraganda kosninga eru enn á ný ofarlega í talanda stjórnmálamanna ástin á velferð eldri borgara. Munurinn er kannski sá nú, að við baráttufúsari eldri borgara er að eiga. Hippakynslóðin og bítlakynslóðin sætta sig ekki við að gleymast milli kosninga. Þær kynslóðir sem eru nú að komast á eftirlaun gera allt aðrar kröfur til lífsgæða en þær sem á undan hafa komið. 
Eins og einhver sagði í útvarpsviðtali, þá lítur þetta fólk ekki á harmonikkuleik með polkum og rælum, sem afþreyingu. Það má vel segja að hér sé um alveg nýjan þjóðfélagshóp að ræða. Þetta er hópur sem lifir lengur og er hress lengur, sem bætist auðvitað ofan á, að um er að ræða fjölmennasta hóp eldri borgara sem nokkurn tíma hefur þurft að sinna.

Stjórnmálamennirnir tala nú hver í kapp við annan um að það þurfi að auka við og efla þjónustu við eldri borgara, án þess, að því er virðist, að vita mikið um við hvað er að eiga.
Það á að stórefla heimaþjónustu (sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu). Þetta er áherslumál númer eitt.  Mér finnst þeir ekki hafa hugsað það mál til enda. Á sú heimaþjónusta að felast í þrifum á heimilum fólksins, líkamlegum þörfum, félagslegum og andlegum þörfum?  

Í þessum glæsilegu íbúðum sem eldri borgarar leggja í kaup á, hérna við Austurveginn, er fólk frá um það bil sjötugu til um það bil níræðs. Það er nokkuð algengt að annar makinn sé látinn og ekkillinn eða ekkjan sitja ein eftir í íbúðinni góðu. Þetta er að mestu leyti fólk sem getur vel séð um sig sjálft og stundað félagslíf af krafti, ef því er að skipta. Það er komið í litla og viðráðanlega íbúð, en rándýra. Það hentar vissulega sumum, sérstaklega þeim sem áttu  einbýlishús til að selja. Það eru ekki allir  í aðstöðu til kaupa á svona íbúðum. 


Milli heimilis og hjúkrunarheimilis.

Mér finnst sárlega vanta í umræðu um málefni eldri borgara hugmyndir um hvernig við ætlum að leysa úr málum þess stóra hóps fólks, sem  býr tiltölulega einangrað í of stóru húsnæði, en getur alveg séð um sig sjálft, jafnvel til æviloka. Sannarlega er það einn valkosturinn að kaupa íbúð eins og hér á Austurveginum. 
Mér finnst vanta hlekk á milli heimilis fólks sem kemst á eftirlaun, og hjúkrunarheimilis. Sá hlekkur á að vera til þess ætlaður, að fólk þurfi síður eða seinna, eða aldrei á hjúkrunarheimili að koma.  Þetta væru klasar með litlum, ódýrum/ódýrari íbúðum, sem fólk gæti keypt eða leigt. Jafnframt væri góð aðstaða fyrir íbúa þessara klasa til að sinna áhugamálum, njóta samvista við annað fólk, stunda heilsurækt og svo framvegis.  Litlu íbúðirnar væru athvarf, sem hver og einn dveldi í eftir því sem hann kærir sig um.


Heimaþjónustan

Jú, jú það er örugglega gott og gilt að efla heimaþjónustu, en hún mun seint ná að fullnægja öllum þörfum fólks. Hvað með ekkjuna, eða ekkilinn, sem hittir fáa eða engan utan manneskjunnar sem kemur (kannski daglega - hver veit) vegna þess að hún fær greitt fyrir það? Ætli þessi heimaþjónusta eigi að fela í sér að sinna félagslegum þörfum - spjalla, til dæmis?  Hvað með hjónin sem eru búin að vera saman í 70 ár og eru búin að tæma öll sín umræðuefni?  Svona fólk myndi eflast við að komast í sambýli eins og ég nefni hér að ofan, lífsgleðin myndi aukast og lífslíkur þar með. 

Það vantar millistig fyrir fólk sem þarf að forða frá einangrun inni á heimilum sínum. Maðurinn er félagsvera og samfélag við annað fólk frestar eða hindrar þörfina fyrir pláss á hjúkrunarheimili.

Elliheimili framtíðar

Nútímalegt elliheimili er það sem ég vil kalla eftir. Væri alveg til í að hjálpa til við að skipuleggja það, með mina kynslóð og þær næstu í huga. Heimili af þessu tagi ætti ekki að verða dýrt í rekstri, þar sem íbúarnir ættu íbúðirnar, eða væru með þær á leigu, og sæi mikið til um sig sjálft. 
Hringleikahúsið okkar hérna á Selfossi gæti örugglega nýst vel til þess arna - en það á að verða hjúkrunarheimili, segir sagan.



13 júlí, 2018

Hvað er verið að tala um?

Ég ætlaði nú að hætta að vera að skipta mér af óljósum hugmyndum sem sveima um samfélagsmiðla í framhaldi af viðtali Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar við oddvita Hrunamannahrepps, Halldóru Hjörleifsdóttur, á Bylgjunni fyrir nokkrum dögum, undir fyrirsögninni: Kanna möguleika á að koma upp hjúkrunarheimili.  Það reyndist  hinsvegar erfiðara en ég hafði haldið, því eftir lítilsháttar skrun yfir facebook í kjölfar þessarar frétta komst ég að því að þeir sem tjáðu sig virtust nokkuð almennt á því að heppilegsti staðurinn fyrir "hjúkrunarheimilið" væri húsnæðið sem Húsmæðraskólann á Laugarvatni skildi eftir sig og sem varð síðan að Íþróttafræðasetri KHÍ og síðar HÍ og sem tilheyrir nú HÍ, eftir því sem ég best veit. Ég get alveg verið sammála því að þarna er um að ræða afar hentugt hús fyrir dvalarheimili eldri borgara. Fjarri mér að hafa eitthvað á móti því.
Í fréttinni spyr MHH oddvitann ítrekað um hjúkrunarheimili og oddvitinn segir mikinn skort á hjúkrunarrými í uppsveitum.

Í umræðum í framhaldinu var mér tjáð þetta, af manni sem er vel inni í sveitarstjórnarmálum í uppsveitunum: Í mínum huga er ekki vafi á því að verið er fyrst og fremst með í huga dvalarheimili.

Þarna var sem sagt eitthvað annað uppi á teningnum en hjá oddvita Hrunamannahrepps í viðtalinu. 

Mér er því spurn: 
Um hvað er verið að tala? 
Til hvers að hleypa einhverri umræðu af stað þegar forsendurnar eru kannski vitlausar og fólk fer að tala í kross?
Á hvaða stigi er þetta mál meðal sveitarstjórnarfólks? 
Er kannski búið að ákveða eitthvað? 
Er búið að greina hvar þörfin liggur?
Er sveitarstjórnarfólk búið að koma sér niður á sameiginlegan stað?
Það eru reyndar margar aðrar spurningar, en það hefur engan tilgang að henda þeim út í tómið si svona.

Það sem ég gerði, til að fá betri mynd af því hvað um er að ræða, var að fara á vef Velferðarráðuneytisins og þar er að finna skilgreiningar á dvalarheimili, annarsvegar og hjúkrunarheimili, hinsvegar. Á þessu tvennu er talsverður munur. 

Dvalarheimili
Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.
Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.
Þá höfum við það. Það er kannski búið að ákveða hvað er verið að tala um, en þá þarf það að liggja fyrir, opinberlega, trúi ég.

Ég skoðaði lítillega þá þjónustu sem er í boði á Lundi á Hellu og á Krkjuhvoli á Hvolsvelli.
Þjónusta á Lundi

Þjónusta á Kirkjuhvoli

Það er rétt að geta þess, að Lundur og Kirkjuhvoll eru hjúkrunar- og dvalarheimili og hýsa því nokkuð breiðan hóp fólks.

Mikilvægast í þessu öllu er að það verði fundið úrræði fyrir aldraða í uppsveitunum í samræmi við þörf.  Hvaða þjónustuþörf hefur helst leitt eldri borgara í uppsveitum í dvöl í öðrum byggðarlögum?
Er það stefna sveitarfélaganna í uppsveitum að gera eldra fólki kleift að dvelja á heimilum sínum eins lengi og nokkur kostur er?  Þessi hugmyndafræði virðist mér eiga talsvert upp á pallborðið þessi misserin.

Svo ætla ég að reyna að hætta þessu og treysti því að það verði fagleg niðurstaða, en önnur, óviðkomandi sjónarmið verði ekki látin ráða för.

12 júlí, 2018

Hvað er eiginlega málið með totann minn?

Eins og ég átti svo sem von á, þá reyndust viðtökur við síðustu færslu minni hér, blendnar, en það sem kom mér dálítið á óvart var hve margir virðast hafa lesið. Það segir mér, að málefnið hreyfir við okkur uppsveitafólki.

Þegar upp er staðið þá er það að mínu mati, dæmigert fyrir vandræði okkar þegar kemur að verkefnum, sem eru of dýr fyrir einn hrepp og jafnvel fyrir þá alla saman. Öll förum við að ota okkar tota og ekki verður neitt úr neinu.

Minn toti hefur verið Laugarás. Það kann að virðast augljóst þeim sem lesið hafa, að ég á heima í Laugarási. Þar með er málflutningur minn dæmdur úr leik að stórum hluta. Eingöngu vegna totans míns.  Mér finnst slík viðbrögð hinsvegar benda til talsverðrar grunnhyggni og lítilsvirðingar á því sem ég hef haft fram að færa.

Allt í lagi með þetta allt saman: Ég á heima í Laugarási og þar með eru skoðanir mínar á staðsetningu dvalar- og hjúkrunarheimilis tortryggilegar og að engu hafandi. Ef ég byggi á Laugarvatni og héldi þeim ágæta stað á lofti, gilti það sama og það sama ef um væri að ræða Reykholt, Flúðir, Borg, Árnes eða Brautarholt.
Hvað myndi gerast ef við færum nú að ota öðrum totum? Ég myndi til dæmis sjá marga kosti við það að stofna dvalar- og hjúkrunarheimili á Laugarvatni, nú eða á Brautarholti. Þannig yrðu skoðanir mínar væntanlega marktækari, þar sem ekki væri hægt að halda því fram, að ég hefði sérstakra hagsmuna að gæta.

Það sem verður að gerast, hér í uppsveitum er, að okkur takist að sjá tota annarra í annarskonar ljósi.

Ég veit að það skiptir engu máli þó ég upplýsi um það, að totinn minn í þessum málflutningi er ekki til kominn vegna persónulegra hagsmuna minna af málinu. Mér finnst, eins og staðan er nú og útlit allt, harla ólíklegt að ég muni eyða síðustu æviárum á dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu.  Sannarlega þykir mér vænt um Laugarás og svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, uppsveitirnar allar. Þetta er vísast eitt besta svæði á landinu til að búa á (nema kannski á þessu sumri), en um leið átta ég mig á því, að síðustu æviárin fela í sér áskoranir sem eru mikilvægari en staðsetning einhvers húss. Þar hlýtur maður að telja mikilvægara að aðgengi þeirra sem að standa sé eins gott og hægt er.  Aldraður einstaklingur á oftast afkomendur sem vilja geta kíkt í heimsókn án þess að þurfa að leggja að baki tuga eða jafnvel hundraða kílómetra akstur.  Margir þeirra sem nú eru aldraðir í uppsveitum eiga hér stóran hluta afkomenda sinna, aðrir engan, svona eins og gengur. 
Ég vil sjá það fyrir mér að aldraðir sem þurfa að þeirri þjónustu sem dvalar- og hjúkrunarheimili veita, geti fengið þá þjónustu sem næst afkomendum sínum. Annað fyrirkomulag er út úr kortinu og ótækt.

Laugarás, eða ekki Laugarás. Stóra spurningin snýst ekki um það, heldur miklu fremur um það að ná samstöðu um að byggja dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það skiptir mestu.
Mér þykir miður ef einhverjir halda, eftir skrif mín um þessi mál að ég sé ekki þroskaðri en svo að geta ekki séð neitt nema naflann á mér (sem reyndar hefur gerst erfiðara með árunum).

Faðir minn, feður margra okkar og mæður, afar og ömmur, sem þurftu og þurfa á þeirri þjónustu sem hér er um að ræða, að halda áttu og eiga engan annan kost en fara á biðlista og lenda síðan einhversstaðar, jafnvel í hundraða kílómetra fjarlægð frá afkomendum símum.
Þetta er ekki boðlegt og ekki það sem mannvinsamlegt samfélag getur boðið þegnum sínum.
Framundan er öldrun barnasprengjukynslóðarinnar, þeirra okkar sem fæddumst í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.  Það er stöðugt háværari krafa um að þetta fólk fái viðeigandi þjónustu síðustu ár ævinnar.

Ég legg til, að ráðinn verði óháður aðili til að meta aðstæður hjá okkur á þessu svæði og leggja til hentugustu og hagkvæmustu staðsetningu fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili.  Í framhaldinu sameinist sveitarsjórnirnar um þann kost sem þar birtist og leggist í víking til að fá nauðsynlegt fjármagn. Mig grunar að slíkt geti orðið auðveldara á næstunni, þar sem barnasprengukynslóðin mun ekki sætta sig við að deyja á biðlistum.

Svona í lokin við ég nefna tvennt:
1. Hér er auðvitað ekki bara verið að fjalla um hjúkrunarheimili, heldur öll þau þörfu mál sem stranda á hreppapólitík, engum til góðs, en skaðar marga og tefur margt.

2. Verði ekki úr því að hjúkrunarheimili verið byggt í Laugarási, sem ég mun mögulega aldrei upplifa, þá ítreka ég þá skoðun mína, að kominn sé tími til að uppsveitahrepparnir losi um kyrkingartak sitt á þorpinu í skóginum; flytji málefni þess út úr lokuðum fundarherbergjum oddvitanna
Í sem stystu mál þá tel ég að ekki sé lengur neinn grundvöllur fyrir sameign hreppanna á Laugarásjörðinni.

------------

Myndirnar sem fylgja voru teknar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar er afskaplega vel búið að öldruðum og starfsfólkið einstakt. Þarna dvaldi faðir minn síðustu æviárin og myndirnar sýna hann ásamt fjórum langafabarnanna.


09 júlí, 2018

Nú stendur til að kanna þann möguleika, .....

Hvítárbrú hjá Iðu
.... að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum Árnessýslu.
Frétt á Bylgjunni

Að hluta til fagna ég því auðvitað, að enn fer af stað umræða um að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum; hjúkrunarheimili sem ætti að vera komið hér fyrir löngu.

Að öðrum hluta til lít ég þessa frétt sem enn eina umræðuna sem fær að renna út í sandinn. 

Mér finnst það gott framtak hjá Hrunamönnum að setja þessa umræðu af stað, þessu sinni. Þeir hyggjast ræða við hin sveitarfélögin um málið og vona að það náist samstaða um þetta verkefni. Það má vera orðin mikil breyting á ef slík samstaða á að nást, einfaldlega vegna þessa að allir hrepparnir eiga besta staðinn fyrir hjúkrunarheimili. Þannig er það bara.

Ég bendi, eins og oft áður, á þann samnefnara sem uppsveitahrepparnir eiga, en það er jörðin Laugarás.  Fyrir utan það, auðvitað að Laugarás er sá staður í uppsveitum sem er næst miðjunni, þá er þar heilsugæslustöð sem mikilvægt er að styrkja af öllum mætti.

Það hefur verið þannig og er enn, að þegar umræða í uppsveitunum beinist að Laugarási, eru sveitarstjórnir og reyndar íbúar hreppanna, utan Laugaráss, fljótir að fara í vörn, einfaldlega vegna óttans við að fari eitthvað í Laugarás af þeim verkefnum sem sinna þarf í uppsveitunum, sé það jafnframt tap allra hreppanna.  Vegna þess að allir vilja opinbera þjónustu til sín, fær enginn neitt. 
Svo einfalt er það nú. 

Jæja, ég er búinn að skrifa mig bláan í framan á þessum miðli mínum um þá skoðun mína, að eðlilegasti samnefnarinn í þessu sé Laugarás. Ég var búinn að ákveða að hætta að skipta mér af þessu máli og sú ákvörðun stendur enn. 

Þumbist hrepparnir enn við varðandi hjúkrunarheimili í Laugarási, tel ég eðlilegast að þeir selji jörðina.  Eignarhald þeirra á henni skaðar framþróun byggðar í Laugarási verulega. Ágætur Skeiðamaður sagði við mig að Laugarás hefði borið mikinn skaða af þessu eignarhaldi. Nú þegar Laugaráslæknishérað er ekki lengur til, er ekki lengur ástæða til þessa sameiginlega eignarhalds hreppanna á jörðinni.
Svona gengur þetta ekki áfram, að því er ég tel.
Og hananú.

Þetta er hlekkur þar sem finna má þau tilvik sem ég hef notað orðið hjúkrunarheimili undanfarin allmörg ár.




03 febrúar, 2018

Fer hún upp?

Ekki veit ég hverskonar hugsunarháttur það er, kannski eitthvað eðlislægt og sem er hluti af því að vera manneskja, en ég er ekki alveg viss nema það hvarfli að mér að það gæti verið spennandi ef Hvítá leysti af sér klakaböndin með dálitlum látum.
Þetta er ekki beinlínis falleg hugsun, en ég skýli mér á bak við það, að við mannfólkið viljum alltaf hafa einhverja "sensasjón", einhver átök, eitthvað stórt sem setur líf fólks úr skorðum. Þannig nærast fjölmiðlar á hörmungafréttum því enga næringu fá þeir úr því sem slétt telst og fellt.
Flóð í Hvítá gæti sett og hefur sannarlega sett líf fólks úr skorðum

Vísir, 3. mars, 1930
Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratungu heim að bæ og yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtsásum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í ívo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálbolti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á bestunum i hesthúsinu í Reykjanesi. Við nánari fregnum úr Tungunum er vart að búast fyrr en í fyrsta lagi í kveld, er menn geta farið á milli, sem horfur eru á

Já, við mannfólkið viljum einhverskonar uppnám, eitthvað sem kemur eilitlu róti á tilfinningar okkar, eitthvað sem snertir okkur, við viljum "sensasjón". Hvað ætli við höfum einhvern áhuga á einhverju venjulegu? Ófarir annarra eru okkur að skapi, ekki í orði, auðvitað,  Það er meira að segja svo, að allt þjóðlífið er orðið gegnsýrt af þessari þrá okkar eftir "sensasjón", allt frá athugasemdakerfum (kommentakerfum) fjölmiðla eða samfélagsmiðla til æðstu stofnana ríkisins.

Það er nefnilega orðið þannig, að það ná engin mál í umræðuna hjá okkur, nema þau feli í sér "sensasjón".  Ef persónulegur harmleikur liggur að baki, þá er áhugi okkar vakinn. Ef lögbrot eða siðferðisbrestur liggur að baki rísum við upp í heilagri vandlætingu.  Við erum nefnilega svo óskaplega "góð". Samt erum við það ekki í reynd. Við erum dálitlir hrægammar, ekki í orði, heldur innra með okkur, eða í raun.
Ég er svona líka, tel ég, þó ég voni að svo sé ekki. Ég vel og hafna, skanna yfir fyrirsagnir og ef þær vekja ekki áhuga minn, læt ég vera að lesa lengra.  Svona er þetta bara.    

Ég er í aðstöðu til að rannsaka þetta eilítið þar sem ég hef dundað mér við að skrifa þessa pistla við og við. Ég get síðan séð hve margir skoða eða lesa. Ég hef tekið eftir því, að ef ég fjalla um eitthvert ólán sem hefur hent mig, fjölgar lesendum, ef ég fjalla um skoðanir, án þess að þær feli í sér einhverjar öfgar, hlýtur umfjöllunin heldur dræmar viðtökur.  Ef ég skreyti umfjöllunina með fyrirsögn sem gæti jafnvel talist hneykslanleg, þá fjölgar lesendunum.
Hér má sjá nokkur dæmi af handahófi um fjölda þeirra sem hafa í það minnsta opnað á bloggpistla.  Þessir tveir sem fóru upp fyrir 2000 lesendur eiga sínar skýringar í allmikilli "sensasjón".

Svona gerir maður í janúar         84  Hér greini ég frá linsukaupum.
Austur verður vestur og öfugt     83 Hér pæli ég hvernig Hvítárbrúin snýr.
Ekki mjög trúlegt                        57 Hér segir frá myndatökuferð í Skálholtsása og fleira.
Árás á náttúruöflin                      75 þetta er um tilraun til að skjóta niður fellibyl.
Jón frændi                                   71 segi frá nokkuð fjarskyldum frænda frá Alberta sem við tókum á móti.
„Fokkings fávitar“                      501  um viðskipti við rútubílstjóra á brúnni
Aumingja konurnar                    5758
Til Hildar                                    2684
Svo segi ég ekki meira um það  963 um hjúkrunarheimili í Laugarási.

-------

Eins og svo oft áður, tókst mér að víkja umtalsvert frá því efni sem til stóð að fjalla um: mögulegt flóð í Hvítá.  
Ég er í sjálfu sér engu nær. Áfram lifir í mér strengurinn sem kallar á að áin "fari upp" með látum. Hann togast á við hina strengina, sem eru talsvert mildari í afstöðu sinni og leiða mig frekar inn á þau svið þar sem allt er slétt og fellt.  
Ég afgreiði þetta bara þannig, að það skiptir engu máli hverjar óskir mínar eru í þessum efnum. Þær breyta engu um það sem verður.

Smá sensasjón í lokin: 



Haförn þessi flaug rétt ofan Hvítárbrúar í gær í fylgd annars. Bráðabirgðagreining Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun er svona: 

13 janúar, 2018

Sameinaðir stöndum vér, en ......

Það er ýmsar ástæður fyrir því að ég ákvað að fjalla lítillega um sameiningarmál í uppsveitim Árnessýslu.  Þær eru auðvitað bæði persónulegar og sögulegar.
Á þessu ári eru 20 ár síðan gerð var alvarleg tilraun til að sameina uppsveitirnar í eitt sveitarfélag.
Það kann að vera að margir viti fátt um stærstu tilraun sem gerð hefur verið á þessu svæði og ég ætla að reyna að varpa örlitlu ljósi á hana, frá mínum bæjardyrum.  Þá ætla ég að ljóstra upp hver skoðun mín er á þeim sameiningum sem orðið hafa síðan og loks upplýsa um skoðun mína á því sem ætti að gerast næst.
Ég sat í minnihluta í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps frá 1995-8.

1998 Sameiningin sem átti að verða.
Árið 1998 fór fram kosning um sameiningu allra sveitarfélaganna 8 í uppsveitum Árnessýslu í tveim umferðum.
Önnum kafinn, 23. maí, 1998
23. maí  var kosið um sameiningu allra hreppanna, en íbúar Grafningshrepps og Gnúpverjahrepps felldu fyrir sitt leyti. Þessir hreppar áttu það sameiginlegt að njóta umtalsverðra tekna af virkjunum og því að vissu leyti skiljanlegt að þeir skyldu fella tillöguna.
Fimm hreppanna, ákváðu að endurtaka kosninguna þann 27. júní. Grímsneshreppur tók ekki þátt í þeirri kosningu, enda búinn að ákveða að sameinast Grafningi.
Niðurstaðan í þetta sinn varð sú, að íbúar Skeiðahrepps felldu tillögu um að sameinast Þingvallasveit, Laugardal, Biskupstungum og Hrunamannahreppi.

Með þessari niðurstöðu var úti um þessa tilraun, og fátt í stöðunni annað en hvíla málið. Þessi niðurstaða var mér mikil vonbrigði, ekki síst vegna þess að ég hafði átt sæti í framkvæmdanefndinni sem undirbjó kosninguna. Mér fannst og finnst enn, vera fremur fátækleg og boruleg rök sem færð voru fram gegn þessari sameiningu.

Sameiningarnar í framhaldinu
Þann fyrsta júní 1998 sameinuðust Grímsneshreppur og Grafningshreppur og mynduðu sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.
Árið 2002 var samþykkt sameining Þingvallasveitar, Laugardals og Biskupstungna* þannig, að úr varð Bláskógabyggð og einnig var á þessu ári samþykkt sameining Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps, þannig að úr varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Ég var andvígur þessari takmörkuðu sameiningu sem varð með tilurð Bláskógabyggðar og er raunar enn þó það skipti svo sem ekki máli úr þessu.  Ekkert gerði ég til að beita mér gegn henni hinsvegar, enda hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum. Fyrir afstöðu minni voru tvær megin ástæður: sameiningin væri of lítið skref til að úr yrði sæmilega stöndugt eða öflugt sveitarfélag, sem mér finnst hafa orðið raunin.
Hin ástæðan reyndist einnig eiga við rök að styðjast, því miður. Ég sá fyrir mér að með sameiningunni myndi öll orka sveitarstjórnar fara í að reyna að skapa traust milli Laugdælinga og Biskupstungnamanna. Annað yrði látið sitja á hakanum. Þarna er um að ræða að halda þyrfti ákveðnu jafnvægi milli Laugarvatns og Reykholts.  Þá fengu Þingvellir sinn fulltrúa í sveitarstjórn, með röðun á lista. Eftir situr Laugarás, sem hefur fengið það hlutverk að verða hálf utanveltu í þessu máli öllu.

Hvað um það, það hefur lítið upp sig að gráta það sem liðið er en það er allt í lagi að halda því til haga.

Hvernig verður framtíðin?
Á undanförnum mánuðum hafa aftur farið af stað þreyfingar um sameiningu í Árnessýslu. Þá ber svo við, að Bláskógabyggð skilar auðu, sem ég hef svo sem ekki séð nein rök fyrir, enda ekki verið að eltast við þau.


Mér finnst mikilvægt að gerð verði atlaga að því aftur að sameina.  Þar kemur tvennt til greina:
- sameining uppsveitanna, eins og reynt var 1998
- sameining Árnessýslu, sem verður stöðugt áhugaverðari kostur í mínum huga. Það er kominn tími til þess, að við sættum okkur við að Selfoss verði miðstöð stjórnsýslunnar. Það er alveg komið nóg af þessu smákóngasamfélagi í uppsveitunum. Hvert framfaramálið á fætur öðru er drepið vegna þess að allir vilja fá allt til sín.

Auk þess legg ég til að byggt verði dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási. 

-------------------------


* Í nóvember kusu íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi, Þingvallahreppi, Laugardalshreppi og Biskupstungnahreppi um sameiningu þessara fjögurra hreppa. Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi fellu tillöguna.  Í kjölfarið varð það niðurstaða í sveitarstjórnum þeirra þriggja sem höfðu samþykkt, að hefja viðræður um sameiningu, sem lyktaði með því að kosið var til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi í maí 2002. 

Ég læt fylgja tvær bókanir úr fundargerðum hreppsnefndar Biskupstungnahrepps frá byrjun árs 2002:



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 30. janúar, 2002
Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Hreppsnefnd samþykkir sameiningu Biskupstungnahrepps við þau tvö sveitarfélög sem einnig samþykktu sameiningu viðkomandi sveitarfélaga í almennri kosningu, 17. nóvember 2001 í samræmi við 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Hreppsnefnd telur að með sameiningu sveitarfélaganna verði til ný sóknarfæri með sterkari stjómsýslu í stærri heild. Möguleikar aukast á betri nýtingu fjármuna og uppbyggingar í nýju sveitarfélagi. Það samstarf sem verið hefur á milli viðkomandi sveitarfélaga er staðfest með sameiningunni. Í ljósi vaxandi rekstrarkostnaðar sveitarfélaga verða þau að leita leiða til hagræðingar m.a. með aukinni samvinnu. Framundan eru krefjandi verkefni fyrir nýja sameiginlega sveitarstjórn að ná fram hagsæld og árangri þannig að hið nýja sveitarfélag geti áfram boðið upp á þjónustu sem íbúar geta verið stoltir af hér eftir sem hingað til. Sameiningin fékk afgerandi kosningu í sveitarfélögunum eða yfir 70%. Hreppsnefnd samþykkir sameininguna einhuga. Samþykkt að Margeir Ingólfsson og Sveinn A. Sæland fari með umboð hreppsnefndar í þeim sameiginlegu verkefnum og ákvörðunum sem vinna þarf að fram að kosningum.



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 13. febrúar, 2002

Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga. Lögð fram eftirfarandi fundargerð framkvæmdahóps sveitarfélaga, frá 4. febrúar 2002, sem ákveðið hafa sameiningu að vori komanda þ.e. Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps. Samkvæmt því samþykkir framkvæmdahópurinn eftirfarandi og mun leggja niðurstöður fyrir viðkomandi hreppsnefndir til endanlegrar staðfestingar: Að undangenginni almennri kosningu, 17. nóvember 2001 og með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er hér með staðfest að sameining Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag hefur verið ákveðin. Sameining framangreindra sveitarfélaga í eitt sveitarfélag skal taka gildi 9. júní 2002. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land, sem nú tilheyrir áðurgreindum þremur sveitarfélögum. Ibúar hinna þriggja sveitarfélaga skulu vera íbúar hins sameinaða sveitarfélags. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur, sem tilheyra þessum þremur sveitarfélögum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn allra sveitarfélaganna skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu. Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi: Kosning sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags skal fara fram þann 25. maí 2002, sbr. 96. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Kjósa skal sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sveitarstjórnirnar þrjár kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjómir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjóma nr. 5/1998 skulu vera undirkjörstjómir við kosningarnar. Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið um nafn hins nýja sveitarfélags samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar sem áður skal auglýsa eftir hugmyndum á nafni hins nýja sveitarfélags.

07 apríl, 2017

Svo segi ég ekki meira um það.


Undirfyrirsögn þessa pistils er:

Við erum sjálfum okkur verst.

Ég er búinn að fjalla um dvalar- og/eða hjúkrunarheimilismál talsvert oft í pistlum mínum og vísa að miklu leyti til þeirra:
Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Tilefni þess að ég legg enn einu sinni ínn á þessa braut, er frétt sem birtist í Fréttatímanum í gær, 6. apríl.

------------------

Í Læknablaðinu árið 1922 er greint frá því að Landsstjórnin hafi veitt Árnessýslu kr. 11.000 í framlag til að kaupa Laugarás fyrir læknissetur. Í Morgunblaðinu þetta sama ár er greint frá því, að Sýslunefnd Árnessýslu hafi keypt gistihúsið við Geysi, sem reist hafði verið í tengslum við konungskomuna 1907. Jafnframt kom fram að húsið væri ætlað „til íbúðar á læknissetri þar uppi í sýslunni“.

Það var þá ekki svo, eftir allt saman, að það hafi verið hrepparir sex sem keyptu Laugarásjörðina 1922, heldur var það Sýslunefnd Árnessýslu. Í mínum huga skýrir það margt, ekki síst það, að miðað við hreppapotið sem við höfum búið við og búum enn við, fannst mér allaf fremur undarlegt að þessir sex hreppar hefðu getað komið sér saman um að kaupa Laugaráslandið sem miðstöð fyrir læknisþjónustu á svæðinu. Nú hef ég fengið skýringuna. Sýslunefnd Árnessýslu sá þessi mál með skýrari og hlutlægari augum, en hrepparnir gera í samskiptum sín á milli. Þetta leiddi huga minn að því, að um þessar mundir á sér stað skoðanakönnun um mögulega sameiningu Árnessýslu í eitt sveitarfélag. Svei mér ef það er ekki bara góð hugmynd.

Ég hef átt leið inn á vefinn tímarit.is þar sem er að finna botnlausan fróðleik um fyrri tíma.

Þegar uppi voru fyrirætlanir um að byggja brú á Hvítá, hjá Iðu, fór auðvitað ekki hjá því að uppsveitamenn tækjust á, alveg eins og enn í dag.
Í grein sem Brynjúlfur Melsteð, bóndi í Gnúpverjahreppi skrifaði í Tímann 14. febrúar, 1952, segir hann meðal annars:

"Það var viturleg ráðstöfun, er sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur. Að vísu var Hvítá þröskuldur á leið læknis austur um hérað, en allir sáu þá að auðvelt var að brúa hana á Iðuhamri. Og þegar brú sú hefir byggð verið, er læknissetrið á Laugarási eins vel sett og hugsast getur í hjarta héraðsins og sýslunnar. Á þessu miðsvæði Árnessýslu um Skálholtsland, Laugarás og Iðu, er hið ákjósanlegasta sveitaþorpsstæði, svo að þar skortir aðeins brúna."
Sem betur fer varð það ofan á að Iðubrúin var byggð. Í desember 1957 var hún opnuð fyrir umferð, áratug síðar en ætlað var í fyrstu. Sennilega átti sundurlyndisfjandinn þar einhverja aðkomu.

Sannarlega hef ég ekki legið á skoðunum mínum varðandi byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis í Laugarási og tel mig hafa fært fyrir því talsvert gild rök. Ég veit hinsvegar, að það sem ég segi um þetta mál, er í ýmsum kimum tekið með þeim fyrirvara, að ég bý í Laugarási og væntanlega hafi ég því einhverja óeðlilega hagsmuni af málinu. Ég skil það svo sem, en vil halda því til haga, að þó svo ég búi í Laugarási nú, liggur engan veginn fyrir að svo verði til æviloka. Reyndar eru líkurnar á að svo verði ekki, meiri en minni. Laugarás verður áfram til og fær vonandi að njóta sannmælis þegar fram líða stundir og íbúarnir átta sig á því, að ef þeim finnst vanta eitthvað, þá eru mestar líkur á að þeir fái það með því að standa saman. Til þess að upplifa mátt samstöðunnar, þurfa þeir einnig að uppgötva, að það svæði sem uppsveitirnar ná yfir er stórt og að baráttan á að standa um og samstaðan á að vera um eitthvað sem kemur flestum minnst illa. Þar er samnefnarinn.


Það kviknaði vissulega neisti í hjarta mér þegar kvenfélagskonur sendu frá sér samþykkt, þar sem kallað var eftir að reist skyldi hjúkrunarheimili í Laugarási. Sá neisti slokknaði fljótlega, þegar hefðbundnar raddir tóku að heyrast í umhverfinu:

„Auðvitað á það að rísa á Flúðum, þar sem fólkið er“, sagði Hreppamaðurinn.

„Sannarlega á það að rísa í Reykholti, þar er sundlaug og félagsaðstaða“, sagði Tungnamaðurinn

„Það kemur auðvitað ekkert annað til greina en Laugarvatn. Þar eru tilbúin hús fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili“, sagði Laugdælingurinn.

Ég hef ekki heyrt neitt haft eftir Skeiðamanni, Gnúpverja, Grímsnesingi, Grafningsmanni eða Þingvellingi um þetta mál.

Ég hef ekki heyrt um að um málið hafi verið fjallað á vettvangi sveitarstjórna. Það er kannski of viðkvæmt. Kannski er það bara eins gott, því þar yrði sennilega ekki niðurstaða um að Laugarás (þar sem fólkið er ekki, þar sem er ekki sundlaug eða félagsaðstaða, þar sem ekki er tilbúið húsnæði) gæti verið staðurinn til að mynda samstöðu um.

Ég vil auðvitað taka það fram, að mér er á engan hátt í nöp við Flúðir, Reykholt eða Laugarvatn. Þetta er allt hin ágætustu þorp, hvert með sín séreinkenni, eins og eðlilegt er. Megi þau og uppsveitirnar allar blómstra, hvert á sinn hátt.

Mér finnst líklegt, því miður, að þegar við eldumst og getum ekki lengur lifað lífinu án aðstoðar, verðum við send í aðra hreppa, eða aðra landshluta, hér eftir sem hingað til.


Fyrirsögn pistilsins er:“Svo segi ég ekki meira um það“ og þannig verður það.

30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


23 apríl, 2015

Ólygnir sögðu mér

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem lesið hafa þessi skrif mín, að ég hef haft nokkurn áhuga á þróun mála sem tengjast fyrrum sláturhúsi SS hér í Laugarási. Eftir að slátrun lagðist af 1989 var húsið að mestu í reiðileysi þar til það var selt, ásamt landinu 1998, en þar skyldi hafinn veitinga- og hótelrekstur. Í sem stystu mál gekk það upp og ofan og á endanum gekk það ekki og Byggðastofnun eignaðist heila klabbið. Undanfarin sumur hefur einhver hreyfing verið þarna á köflum, fremur fálmkennd, án þess ég viti svosem mikið um það, frekar en það sem hér fer á eftir:

Allir þeir punktar sem hér eru nefndir eru óstaðfestir og því ber að taka þeim með fyrirvara:
Ég hef sem sagt heyrt eftirfarandi:

a. Byggðastofnun seldi húsið (og væntanlega landið) og sveitarstjórn Bláskógabyggðar fékk ekkert að vita um það.

b. Opinber starfsmaður á svæðinu varð var við að eldur logaði utandyra við sláturhúsið, fór á staðinn og benti fólki, sem þar dundaði sér við að bera það sem lauslegt var út fyrir húsið, á bálköst, á að slíkt væri bannað og til þess arna ætti að nota gáma. Hann fékk ekki jákvæð viðbrögð við tilmælum sínum um að viðkomandi létu af verknaði sínum.

c. Kaupendur væru tengdir ferðþjónustufyrirtæki, sem meðal annars væru umsvifamiklir í fólksflutningum.

d. Kaupendur tengdust BSÍ

e. Kaupendur hygðust rífa sláturhúsið og byggja þess í stað hótel.

f. Það hafi sést þrívíddarteikning (módel) af umræddu hóteli, sem flokkast geti undir glæsihótel.

g. Á þrívíddarteikningunni er hótelið bogalaga á þrem hæðum og sú hliðin sem snýr að Hvítá er úr gleri. Þakið er að hluta einnig úr gleri og á hugsunin að vera sú, að þar fyrir neðan geti gestir setið í hægindum og fylgst með norðurljósum.

h. Að kaupandinn og sá sem er í forsvari, sé fyrrverandi vert á ......(vil ekki ganga og langt).


Reynist allt þetta vera rétt og satt (ef frá eru dregnir liðir a. og b.) þá er það sannarlega fagnaðarefni.
Betri staður en Laugarás, í hjarta uppsveita Árnessýsu, með ótal möguleikum til stuttra ferða þar sem helstu djásn landsins er að finna, er vandfundinn.

Reynist þetta allt vera steypa, er það auðvitað leitt, en maður fékk þó að ylja sér við tilhugsunina litla stund :)

Ég kvika, þrátt fyrir þetta, ekki frá þeirri skoðun minni, að í Laugarási verði byggt hjúkrunarheimili í tengslum við Heilsugæslustöðina.

29 mars, 2015

Einskis manns eða allra.

Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð  þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti  þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.

Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.

Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.

Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.

Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.

Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.

Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.

Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.

Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.

10 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (3)

Laugarás - ljósmynd Mats Wibe Lund
Þetta er síðasti hluti umfjöllunar minnar um dvalarheimili/hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu. 
Tilefni þessara skrifa minna er sannarlega að stærstu leyti sú brýna þörf sem mér finnst vera orðin á að efla þjónustu við það fólk sem á síðasta tímabili ævi sinnar þarf aukna þjónustu, ekki síst þjónustu sem léttir þeim lífið svo sem kostur er.
Það er ennfremur afar mikilvægt til að geta notið elliáranna í öruggu og traustu umhverfi, að það sé auðvelt fyrir það fólk sem að öldungunum stendur, að kíkja í heimsókn.
Það má  kannski halda því fram, að það sé lítilsvirðing við fólk að það skuli þurfa að flyta í aðrar sýslur þegar þær aðstæður koma upp, sem koma í veg fyrir að það geti búið á heimlum sínum. Ég ætla samt ekki að taka svo djúpt í árinni.

Því er ekki að leyna, að það sem ýtir á mig að fjalla um þessi mál er einnig af persónulegum toga. Ef ég fæ að njóta einhverra elliára að ráði, þá blasir við, að í óbreyttu ástandi muni þeim árum fylgja talsvert öryggisleysi. Ef á annað borð verður um að ræða pláss á heimili af þessu tagi, þá get ég átt von á að verða sendur um langan veg, jafnvel austur á Kirkjubæjarklaustur (sannarlega hef ég ekkert á móti þeim fagra stað). Slík staða hugnast mér ekki og ég held að sú staða hugnist fáum.

Faðir minn dvelur í góðu yfirlæti á dvalar- hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Við getum þakkað fyrir að hann er þó ekki lengra í burtu. Það eru 50 kílómetrar frá Laugarási að Hellu, en frá Laugarvatni eru það 25 km til viðbótar.
Ég tala af þessum sökum af nokkurri reynslu um þessi mál.

Það gladdi mig að frétta af því að kvenfélögin í uppsveitunum hafa tekið þetta mál upp á sína arma. Það er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þau beita sér fyrir góðum málum. Frá þessu er greint hér. Þar segir meðal annars:
„Okkur finnst hart að þurfa að flytja aldrað og sjúkt fólk hreppaflutningum svo að það fái þá umönnun sem það þarfnast. Þetta er fólkinu sjálfu erfitt og gerir fjölskyldum þeirra erfiðara fyrir að heimsækja fólkið sitt og leggja sitt af mörkum til umönnunar þess.“ 
Ég get gert þessi orð að mínum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...