05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

02 september, 2020

Ungmennafélagsandinn í myndum

Héraðsskjalasafn Árnessýslu. Ljósmyndari
Tómas Jónssson
Sumarið 1968 mun ég hafa verið á 15. ári og búinn að öðlast þá eldskírn að eyða einum vetri í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Þetta var landsmótsár og einhvernveginn æxlaðist það svo, að við félagarnir, ég og Pétur Hjaltason fengum að slást í för með fræknu íþróttafólki og forkólfum frá HSK, Héraðssambandinu Skarphéðni á Landsmót Ungmennafélags Íslands, sem var haldið á Eiðum. 
Það er með þessa ferð eins og svo margt annað úr fortíð minni, sem er fallið í gleymskunnar dá, allavega geymt í einhverju hólfi í heilabúinu, sem mögulega opnast eftir mörg, mörg ár. Ég reikna með  að Pétur muni þetta allt í smátriðum. En ég á nokkrar myndir.
Ég þykist viss um, að á þessum tíma hafi ég verið búinn að eignast Kodak Instamatic myndavél, og hef metið það svo, að þetta ferðalag yrði svo merkilegt, að ég yrði að splæsa í slæds-filmu. Myndirnar sem ég síðan fann áratugum seinna voru þeirrar gerðar og nokkrar þeirra þess eðlis að þeim var við bjargandi og ég fór í þann leiðangur að reyna mitt besta til að þær gætu orðið minnig um þessa merku ferð.

Ég veit að ljósmyndasafn Héraðsskjalasafns Ásnessýslu, geymir mikið af myndum úr ferðinni, flestar sýnist mér Tómas Jónsson hafi tekið.
En ég á mínar myndir, og kem þeim kannski á Héraðsskjalasafnið sem greiðslu fyrir notkun einu myndarinnar af mér úr þessari ferð, en hana tók Tómas Jónsson (sjá efst).

Eðlilega var myndum ekki spreðað á hvað sem var í þessari ferð, enda slæds-filmur og framköllun á þeim dýr. Það er því skemmtilegra að velta fyrir sér hvað unglingnum, mér, þótta hvað merkilegast myndefni.
Ég læt myndirnar tala hér fyrir neðan, en það er þetta með ungmennafélagsandann, sem hefur heldur látið á sjá, í tímanna rás. Mig grunar, að í þessari ferð, hafi hann birst mér í sinni tærustu mynd. HSK-rúturnar liðuðust eftir malarvegunum norðurleiðina, með her Héraðssambandsins Skarphéðins innanborðs. Hann var á leið í stríð, þar sem allt skyldi lagt í sölurnar fyrir sambandið. Þarna var fólk sem stefndi allt að sama marki: að lyfta sigurlaunum í mótslok og svo fór að HSK stóð uppi sem stigahæsta liðið. Einhvern veginn minnir mig, að á þessum mótum hafi hættulegasti andstæðingurinn verið UMSK.

Ekki meira um það, enda færi ég þá bara að bulla, eða vitna í fréttir dag blaða á timarit.is. Hér eru myndirnar sem mér tókst að bjarga:

Þuríður Jónsdóttir og Jón "sterki" Guðlaugsson merkja HSK-tjaldið

Það var blíðviðri. Nokkrir liðsmanna HSK: f.v Jón M. Ívarsson, Hulda Finnlaugsdóttir, Þór Jens Gunnarsson, Lilja Lindberg, Kristín Stefánsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Unnur Stefánsdóttir 
(Jón M. Ívarsson aðstoðaði við að nafngreina fólkið á myndinni)

Jón "hlaupari" Sigurðsson frá Úthlíð. Einn merkasti fulltrúi Tungnamanna.

Mótssetning. Fremst er Tómas Jónsson, sem hljóp þvers og kruss með myndavélina.

Gengið til mótssetningar. Glæsilegur var hópurinn, í einkennisbúningum sínum.

Stefán Jónsson, fréttamaður (pabbi hans Kára) að taka viðtal við Hafstein Þorvaldsson

Tjaldbúðir HSK

Það var safnast saman á kvöldin og farið yfir afrek dagsins, sungið og leikið.

Markús Ívarsson á herðurm Guðmundar Steindórssonar, skellir merkingu á HSK-tjaldið.





30 ágúst, 2020

Umferðarskipulag og lögbrot því tengd.

Svæðið sem um er fjallað.
Já, ég viðurkenni það alveg: ég á það til að nota þennan vettvang til að tjá mig um það sem gæti verið betra og það ætla ég að gera núna líka. Ég er nú tiltölulega nýfluttur hingað á Selfoss, í Sveitarfélagið Árborg. Ég er nú bara harla ánægður með lífið og tilveruna og fagna því að kynnast nýju umhverfi, nýju fólki og nýjum áskorunum. Við erum flutt hér í afar skemmtilega íbúð og erum nánast hætt að þurfa að nota bíl, svo Qashqai stendur að mestu ónotaður úti á hlaði.  Fólkið sem býr hérna í kringum okkur hefur, til þessa, reynst vera vel innréttað og hefur vísast marga fjöruna sopið og fátt sem það hefur ekki reynt á langri ævi.

Ég væri nú að kríta liðugt, ef ég neitaði því að ég saknaði kyrrðarinnar, umhverfisins, fólksins og fuglanna. Sannarlega er það sem betur fer, of svo, að breytingar kalla fram söknuð. Ef maður saknaði einskis frá liðnum tíma, hefði sá tími nú verið lítils virði.

Ég hef einsett mér að hverfa í rólegheitum í fjöldann og sinna mínu; leyfa öðrum að lifa sínu lífi í friði og bæjarstjórninni að þurfa ekki að þola gagnrýni af minni hálfu.  Ég ætla bara að reyna að vera góði, ljúfi karlinn, af fremsta megni. Ég á þó ekki von á öðru en að ég sjái ástæðu til að minnast á hitt og þetta, bæði það sem mér finnst jákvætt og það sem mér finnst að betur megi fara, svona eins og gengur.

Málefnið sem ég tek fyrir núna, er mögulega eitthvað sem ekkert verður gert við úr því sem komið er, allavega eru ekki nein teikn á lofti um að það fái úrlausn sem allir geta sætt sig við.  
Hér er um að ræða:

Aðgengi fyrir akandi umferð að Pálmatrésblokkunum hér á Selfossi.

Ég tók mig til og teiknaði þetta svæði upp og myndina þá má sjá hér efst. Þarna hef ég reynt að setja inn umferðarmerkingar eins og þær eru nú og glöggt auga sér fljótt, að þar er að ýmsu að hyggja.  Hinumegin við Austurveginn (sunnan megin) er slatti af þjónustufyrirtækum sem kalla á að aðgengi sé tryggt. Þess bera götumerkingar glögg merki. Þetta þýðir, að samsvarandi aðgengi að húsunum hinumegin (norðan megin) við Austurveginn, getur ekki orðið með sama hætti.
Til þess að koma akandi inn á áhrifasvæði húsanna þriggja sem þarna eru, þarf að koma akandi austan að, eða til dæmis frá Laugarási um Skeiðaveg. Sé maður að koma hinumegin frá, til dæmis frá Stokkseyri, er um tvennt að ræða, ef maður ætlar að fylgja umferðarlögum: 1. Aka alla leið að hringtorginu sem austast er og síðan til baka til vesturs. 2. Aka inn á athafnasvæði fyrirtækjanna sunnan götunnar og svo þaðan út á Austurveginn hjá N1num til vinstri. Sætti maður sig við að brjóta lög og taka áhættuna af því að sleppa frá tiltækinu, beygir maður inn, yfir óbrotna línu og brotalínu. Ég viðurkenni, að þessa áhættu tek ég ítrekað.

Rauðu örvarnar sýna það sem ekki má og það sama má segja um rauða krossinn.

Til þess að aka löglega frá þessum húsum, þarf maður að vera að vesturleið, t.d. eiga erindi í Hveragerði, eða taka Grímsnesið upp í Laugarás. Ætli maður upp Skeiðin þarf að beygja til vesturs og aka síðan um hringtorgið við Ölfusárbrú, áður en stefnan er aftur tekin til austurs. 

Grænu örvarnar sýna það sem má þegar ekið er frá húsunum eða að þeim.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar gefið var leyfi fyrir byggingu þessara húsa, hafi verið unnið deiliskipulag eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef reyndar ekki séð það skipuleg. Það er ekki augljóst hvernig þessi umferðarmál verða leyst svo öllum líki, hérna í kringum okkur..




24 ágúst, 2020

Reykjadalur: Það sem ég átti kannski ekki að gera, en ...

Ekki næstum komin upp, en við blasir útsýnið til sjávar.

"Það er bara bratt rétt til að byrja með og síðan er þetta bara nánast jafnslétta"
. Þetta er um það bil orðrétt haft eftir börnum okkar fD sem gengu í Reykjadal þann 8. þessa mánaðar. Það var á grundvelli þessa, sem ég, með gildandi veðurspár bak við eyrað, stakk upp á því í fyrradag, við fD, að það væri ekki óvitlaust að ganga í þennan Reykjadal, sem er upp af Hveragerði. Uppástungan fékk betri undirtektir en ég hafði vonast til, enda eru fjallgöngur og hafa verið, í litlu uppáhaldi hjá mér gegnum tíðina. Ég hét því, meðal annars, eftir göngu á Vörðufell fyrir nokkrum árum, að gangan sú skyldi verða mín síðasta fjallganga.
"Úr því þetta er svo létt ganga sem sagt var, eigum við þá ekki að fara með einhverja dalla til að tína ber á eftir?" stakk fD upp á, en ég brást nú ekkert sérlega vel við þeirri tillögu; taldi svo sem ekkert gera til að taka með einhver ílát, svona ef gangan yrði nú ekki nægilega krefjandi.

Einhversstaðar þarna uppi, en á niðurleið.

Segir ekki meira af þessu máli fyrr en við vorum komin á bílastæðið sem markar upphaf göngu í Reykjadal. Ég horfði upp eftir fjallinu sem blasti við, og neita því ekki, að það fór lítillega um mig. Ekki var um að ræða að snúa bara við, því, eins og fD ítrekaði á flestum tuga áningastaða á leiðinni upp, þá myndi slík uppgjöf sitja í okkur það sem eftir væri ævinnar. Í hljóði voru viðbrögð mín við þeirri möntru þau, að það væri bara í góðu lagi að sjá eftir einhverju alla ævi, því þegar ævinni lyki yrði ekkert lengur til: engin eftirsjá, ekkert. Þar með væru allar ástæður til eftirsjár foknar út í veður og vind. Nei, ég hafði ekki orð á því, en lét teymast áfram á þessum eftirsjár grundvelli. 
Jú, það var sannarlega bratt fyrst, þá 10 metra jafnslétta, þá enn meiri bratti, svo næstum því jafnslétta nokkur skref áður en meiri bratti tók við. Eftir því sem fleiri brattar brekkur voru lagðar að baki, fjölgaði áningarstöðunum, oft undir því yfirskini að ég væri að dást að útsýninu, með lofthúsið í Hveragerði, sem glitraði á í ágústsólinni, hafið fyrir utan Ölfusárósa og bílakeðjuna sem brunaði upp og niður Kambana, fyrir augum.  
Andlega tók einna mest á þegar kom að beygjum á slóðanum og maður var búinn að sjá fyrir sér enda brattans og framundan jafnsléttuna, en í staðinn blöstu við fleiri brattar, sem prjónuðu sig einhvernveginn til himins. Ég var jafnvel farinn að ímynda mér að þangað lægi leið mín ef áfram héldi sem horfði. 

Náttúrustemning.

Á þessari leið inn í Reykjadal má segja að það sé "bratt alla leið nema rétt síðast". Því naut ég þess þegar síðasti brattinn var frá, að leggjast endilangur í mosató, horfa til himins, sem ég reyndist þá ekki vera á leið til, eftir allt saman og dást að sjálfum mér fyrir að hafa ekki gefist upp, heldur barist allt til enda. 

Baðalækurinn

Síðasti hluti þessarar göngu upp að baðalæknum, þar sem fólk lá eins og hráviði og naut hitans og veðurblíðunnar, var létt og löðurmannleg. Því neita ég ekki, að umhverfið þar og reyndar alla leiðina þarna uppeftir, er sérlega fagurt, í það minnsta það sem ég sá þegar ég gaf mér stund til að hugsa um annað en aumingja mig. 

Sönnun þess að þarna fórum við.

Ekki fórum við fD í lækinn, heldur nutum þess að leggjast fyrir um stund, láta líða úr okkur, fylgjast með mannlífinu og hugsa til göngunnar til baka, en óhjákvæmilega beið hún okkar.

Ég neita því ekki að mér fannst nú brekkurnar upp á við, vera heldur margar á niðurleiðinni, en á heildina litið, segir fátt af þeirri för. 
Mig langaði að stökkva og hrópa þegar ég var kominn niður á jafnsléttu, áfallalaust, en ákvað að láta það vera, enda stöðugur straumur fólks sem var að hefja gönguna þarna, og ég veit að fD hefði ekki tekið slíkum gleðilátum fagnandi.

Hungrið var farið að sverfa að þegar niður var komið og ég sá fyrir mér að setjast inn á veitingastað þar sem við gætum snætt aðalmáltíð dagsins og fagnað þeim hetjuskap sem við höfðum sýnt. Okkur var vísað til sætis á þekktum veitingastað í Hveragerði, afhentir matseðlar og síðan ekki söguna meir. Við biðum eftir að fá frekari þjónustu, en hún kom bara ekki innan þess tíma sem við treystum okkur til að bíða.  Við ísbúðina var biðröð langt út á götu og það sama var uppi á teningnum í bakaríinu þar sem við höfðum sæst á að fá okkur súpu og brauð. Í bónus var allt búið sem kalla mátti samlokur og það sama var uppi á teningnum á bensínstöðinni. Þá vorum við komin talsvert langt frá upprunalegum hugmyndum um gómsæta máltíð á veitingastað og fengum okkur innpakkaðar kökur á bensínstöðinni og orkan sem fékkst úr þeim skilaði okkur heilu höldnu heim í kotið. 

Það getur einhver skilið mig sem svo, að þessi fjallganga hafi bara verið hið versta mál, en það var hún sannarlega ekki og ég sé hreint ekki eftir að hafa lagt þessa tæplega 10 km gönguferð að baki á einstökum dýrðardegi.  Það sem ég er að koma á framfæri með þessum skrifum, er sú staðreynd að ég er ekki byggður fyrir fjallgöngur. Annað var það nú ekki.

Ég hef efast um hvort það sé gáfulegt að setja hér inn sjálfu af okkur fD á þessari gönguför. Ég hef ákveðið að gera það samt. Hún er þannig til komin, að við stilltum okkur upp þannig að í bakgrunni væru fallegir fossar þarna í Reykjadal. Niðurstaðan varð, eins og sjá má: engir fossar og fD með lokuð augu, enda ekki nema von í glampandi sólskininu, eða kannski vegna þess að undir niðri vildu hún bara ekkert vera á þessari mynd, svona "out og sight, out of mind" dæmi. Ég auðvitað, eins og ávallt, sjálfuöryggið uppmálað.


Það varð ekkert úr berjatínslu. Annað reyndist mikilvægara.

20 ágúst, 2020

Ég og Galdra-Imba

Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson (1864-1900) ásamt börnum sínum: Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson
(1864-1900) ásamt börnum sínum:
Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Þau eignuðust tvö önnur börn: Guðrúnu Björgu
(1892-1895 og Sigurbjörgu (1898-1898).
Myndin er líklegast tekin 1896.
Sjálfsagt á ég það sammerkt með mörgum núlifandi Íslendingum, að vera kominn af fólki sem á að hafa fiktað við, eða ástundað galdra. Ég er nú kominn aðeins nær sannleikanum um hvernig því er háttað í mínu tilfelli.
Faðir minn hét Skúli Magnússon, eins og ýmsum er kunnugt.  Foreldrar hans, afi minn og amma, voru þau Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir. Þau voru bæði Austfirðingar í húð og hár, langt aftur í ættir. Fólk virðist ekkert hafa verið sérstaklega mikið í því, áður fyrr, að sækja sér maka út fyrir sína sýslu eða landsfjórðung.
Hvað um það, Ingibjörg amma mín tengir mig við galdra.
Nú ætla ég að freista þess að lýsa þessum tengslum, en fyrst að greina aðeins frá langömmu minni og afa, þeim Sæbjörgu og Birni, sem bjuggu á Álfhól á Seyðisfirði þegar þau eignuðust börn sín. Fyrst Guðrúnu Björgu sem dó rétt fyrir þriggja ára afmælisdaginn sinn, Sigríði Ingibjörgu, ömmu mína, sem ein barnanna lifði til fullorðinsára, Harald sem dó tólf ára og Sigurbjörgu, sem lifði í nokkra daga. 
Björn lést árið 1900 frá konu sinni og tveim börnum og upp úr því var Ingibjörg send í fóstur til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur í Litluvík, sem er sunnan Borgarfjarðar (eystri). 
Ég læt þetta duga í bili, enda yfirlýstur tilgangur minn með þessum skrifum að fjalla um ættartengsl mín og hennar Galdra-Imbu.

1. Amma mín var, sem sagt Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
2. Faðir hennar var Björn Sigurðsson, sem bjó á Álfhól í Seyðisfirði, átti Sæbjörgu Jónasdóttur.
3. Móðir Björns var Ingibjörg  Geirmundsdóttir  átti  Sigurð bónda Þórarinsson.

4. Móðir Ingibjargar var Sigríður Jónsdóttir sem var kona Geirmundar Eiríkssonar og þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í Borgarfjarðarhreppi.
5. Faðir Sigríðar var Jón Ögmundsson, kvæntur Þórdísi Árnadóttur og þau bjuggu á Hólalandi í Borgarfirði.
6. Faðir Jóns var Ögmundur Oddsson, sem var kvæntur Guðfinnu Einarsdóttur. Þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í N-Múlasýslu. 
7. Faðir Ögmundar var Oddur Guðmundsson sem var kvæntur Þuríði Jónsdóttur.
Ættin sem er  frá honum komin hefur verið kölluð Galdra-Imbu ætt.
8. Móðir Odds var Þuríður Árnadóttir sem var kona Jóns Ketilssonar. Þau bjuggu í Nesi í Loðmundarfjarðarhreppi (1703). 
„Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar“, segir Espólín. „Þótti væn kona og kvenskörungur“, segir Einar prófastur. (Íslendingabók)
9. Móðir Þuríðar var sjálf Galdra-Imba, Ingibjörg Jónsdóttir, sem var fædd um 1630.
Var kennd við fjölkynngi og kölluð „Galdra-Imba“. Lærði að sögn galdra hjá Leódagaríusi eða Leka. (Íslendingabók)
Magnús Jónsson (1887-1965) og S. Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968) - afi minn og amma. 

Í 5. bindi bókaflokksins Ættir Austfirðinga er fjallað um formóður mína hana Galdra-Imbu og afkomendur hennar. Þar sem ég veit um fólk sem helst vill sem minnst lesa fræðilega ættfræðitexta, hef ég reynt að einfalda þessa frásögn eftir mætti, en hvort það er nóg, verður að koma í ljós.

Galdra-Imba

Ingibjörg Jónsdóttir, er kölluð hefur verið Galdra-Imba‚ var dóttir Jóns prests Gunnarssonar á Tjörn í Svarfaðardal‚ er þar var orðinn prestur 1619 og hefur víst verið þar prestur fram undir 1653. Hefur Ingibjörg verið fædd þar á því tímabili snemma‚ eða jafnvel fyrir 1619. Líklegast er þó‚ að hún sé fædd milli 1619 og 1630, því að Árni‚ maður hennar er orðinn prestur 1650, og Þuríður dóttir þeirra er fædd um 1660.

Ein sögn er sú um Ingibjörgu, að þá er hún var á barnsaldri hjá föður sínum‚ hafi hann eitt sinn sett hana á kné sér og kveðið þetta við hana:

Augun eru eins og stampar, 
í þeim sorgarvatnið skvampar,
ofan með nefinu kiprast kampar
kjafturinn eins og á dreka. 
Mér kemur til hugar‚ kindin mín‚
að koma þér fyrir hjá Leka.

Mynd af vef Landsbókasafns.
Leki þessi var nafnkunnur galdramaður. Var Ingibjörgu síðan komið fyrir hjá honum til náms‚ þegar hún hafði aldur til‚ og varð þar vel fær í fjölkyngi.

Þá er faðir hennar var prestur á Tjörn‚ var sá prestur á Völlum‚ gegnt Tjörn‚ er Jón hét Egilsson (1622—1658, vígður 1615, dáinn 1660), 

Sonur Jóns prests á Völlum og Þuríðar Ólafsdóttur hét Árni. Hann varð prestur til Rípur og Viðvíkur 1650, fékk Fagranes 1669 og Hof á Skagaströnd 1673. Kona séra Árna var Ingibjörg Jónsdóttir á Tjörn, Galdra-Imba.
Þá er þau voru á Hofi á Skagaströnd var séra Árni borinn galdri um 1680 og dæmdur tylftareiður. Var kona hans þó sökuð miklu meira um galdur af almenningi en hann. Þá strauk séra Árni til Englands. Ingibjörg kona hans elti hann og rakti slóð hans til sjávar í Loðmundarfirði. Kvaðst hún eigi hafa vitað af er hann strauk. Hún staðnæmdist síðan eystra og eru ýmsar sagnir um fjölkyngi hennar. Hún var síðast hjá Þuríði dóttur sinni á Nesi í Loðmundarfirði fyrir 1703. 


Börn séra Árna og Ingibjargar voru Gunnar, Gísli‚ Margrét‚ Þuríður. 
Þuríður, dóttir Árna prests og Galdra-Imbu átti Guðmund son Odds bónda í Húsavík Jónssonar úr Reyðarfirði, bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þeirra börn voru Jón, Oddur og fleiri.

Það bar til einn páskadag, að Oddur Guðmundsson var að leika sér og lét fremur ósiðsamlega. Sló þá faðir hans hann og kvað ljótt‚ hvernig hann hagaði sér. Galdra-Imba var þar þá hjá þeim Guðmundi. Féll henni þetta illa‚ því að Oddur var hennar eftirlæti. Kvað hún þá óvíst‚ að Guðmundur yrði oft til að berja hann.
Fé var niðri í Hellisfjörum og var lausasnjór mikill í bakkanum. Guðmundur gekk ofan í fjöruna til kinda sinna. Þuríður vissi af ferðum hans‚ settist á hlaðvarpann og starði ofan á bakkann.
Þá bar að ferðamann nokkurn, er var kunnugur Þuríði‚ og bað hana gefa sér að drekka. Hún kvaðst skyldu gera það eftir litla stund. Hann spurði hvað hún væri að stara‚ og bað hana gefa sér strax að drekka. Hún kvaðst ekki gera það strax. „Það er þó ef þú tímir ekki að gefa mér að drekka“, sagði hann. Hún styggðist við‚ sagði‚ að hann skyldi að vísu fá að drekka‚ en hún mundi ekki hljóta gott af því. Hljóp hún inn og kom að vörmu spori aftur með drykkinn. Þá sá komumaður‚ að Guðmundur kom upp á bakkabrúnina, en þá hljóp bakkinn allur með Guðmund út að sjó. Þuríður kvað hann nú sjá hvað hlotizt hefði af áfergju hans. Hún þótti væn kona og kvenskörungur. Hún bjó ekkja á Nesi í Loðmundarfirði 1703, 43 ára‚ og voru þá hjá henni synir hennar Jón (19) og Oddur (15).

Oddur Guðmundsson, f. um 1688, sonur Galdra-Imbu, bjó á Nesi við Loðmundarfjörð góðu búi‚ átti Þuríði (f. um 1696) Jónsdóttur frá Brimnesi Ketilssonar. Þ. b.: Jónar 2, Guðmundur, Ögmundur, Tómas  Snjólfur,  Málfríður, Guðrún.
Það er sérstaklega ættin frá Oddi‚ sem kölluð hefur verið GALDRA-IMBU ÆTT.
Ögmundur Oddsson frá Nesi  bjó í Breiðuvík í Borgarfirði, átti  tvær konur. Síðari kona hans var Guðfinna Einarsdóttir frá Úlfsstöðum (f. um 1744). Börn þeirra voru Jón‚ Guðmundur bl., Sigríður, Sigríður önnur bl., Arndís bl., Steinunn, dó 18 ára 1791. Ögmundur dó 1790, 67 ára.  Hann mun hafa átt 17 börn.

Jón Ögmundsson var langa langafi ömmu minnar, Ingibjargar. Ekki hefi ég haft af því fregnir, eða séð þess merki neinsstaðar, að þessir forfeður mínir eða formæður hafi lagt stund á galdra eftir að þær mæðgur Ingibjörg og Þuríður áttu leið um jarðlífið. 


Þetta er að finna um Galdra-Imbu 
í tímariti Sögufélags,  Sögu, 1. tbl. 1954 bls 46-58



17 ágúst, 2020

Af gúrkum og öðru grænmeti

Tvennskonar ástand gúrkna
Mér varð það á í gær, eftir verslunarferð, að birta mynd á Facebook, með vel völdum orðum um gúrkur í verslun, sem voru orðnar á haugamat áður en þær voru bornar fyrir viðskiptavini. Þessi færsla hafði í för mér sér talsverð viðbrögð. 

Ég hef áður vegið í sama knérunn, til dæmis bæði hér og hér árið 2012. Mér er löngu orðið ljóst að svona  tuð breytir engu, sem kom berlega í ljós í gær, þegar ég stóð frammi fyrir nýframsettum gúrkum í stórverslun hér á Selfossi. Það hafði auðvitað ekkert breyst. Ég er samt ekki tilbúinn að leggja árar í bát og því sendi ég póst á viðkomandi verslun með aðfinnslum mínum, bæði varðandi þessar gúrkur og annað grænmeti sem þar er alla jafna á boðstólnum. Ég bíð svara, en á ekkert sérstaklega von á að þau sannfæri mig um að breyting verði á (svarið er komið - sjá neðst).

Hvernig er góð, fersk og brakandi gúrka?  Hún lítur nokkurn veginn svona út:

Í það minnsta finnst mér að hún eigi að líta svona út.
Hún á að vera grönn, þvermálið jafnt og yfirborðið hrufótt. Stinn skal hún vera og það finn ég oftast með því að þreifa á hálsinum á henni. Liturinn á henni á ekki að vera dökkrænn og auðvitað ekki ljósgrænn (næstum gulur), heldur þarf hann að vera fagurgrænn, í þá veru sem myndin hér fyrir ofan sýnir. Gúrka á alls ekki að vera slétt og djúp dökkgræn, því að er ávísun á að hún sé römm á bragðið.

Er munur á steinullargúrku og moldargúrku?
Stærstu hluti gúrkna er ræktaður í steinull hér á landi (held ég). Það er vegna þess að þá er auðveldara að stjórna ýmsum þáttum í áburðargjöfinni og ná þar með fram fleiri kílóum á fermetra. Það er þekkt viðhorf að steinullargúrkurnar séu oft bragðlausari og kjöti með gulri slikju, en mér hefur aldrei fyllilega tekist að sannreyna það. Mér finnst ég samt vera öruggari með moldargúrkurnar, ekki síst ef þær eru ræktaðar með lífrænum aðferðum.

Áhrif á markað fyrir gúrkur.
Segjum sem svo, að ég sé neytandi og að ég ákveði að kaupa mér gúrku. Gúrkan sem ég keypti reynist vera "fersk og brakandi" og bragðgóð þar að auki. Er ég þá ekki líklegur til að auka neyslu mína á gúrkum?  Lendi ég í því að kaupa gamla og bragðvonda gúrku er með sama hætti hægt að reikna með því að það muni líða lengri tími áður en ég legg í að kaupa gúrku næst.  Það þarf ekki speking til að átta sig á því. Þar með minnkar markaðurinn fyrir gúrkurnar og stærri hluti framleiðslunnar endar, ef ekki í almennu sorpi (vegna plastumbúðanna), þá kannski sem lífrænn úrgangur.

Hagsmunir garðyrkjubænda af því að sú vara sem stendur neytendum til boða, sé til þess fallin að auka neysluna á grænmeti, eru óhemju miklir. Það er þeirra hagsmunamál, að selja sem mest af grænmeti. Hagsmunir verslunarinnar eru að selja sem mest.  Til þess að auka grænmetisneyslu þarf grænmetið sem blasir við viðskiptavinum verslana að vera það gott að þá langi að kaupa meira í næstu verslunarferð.  Mér finnst þetta svo augljóst, að ég roðna við að slá það hér inn. Ég hef komið heim, oft, án þess að hafa keypt grænmeti, vegna þess að það sem í boði var, var óboðlegt til neyslu. Það er alvarlegt. Hve margir aðrir neytendur hafa þurft að vera í sömu sporum? Hvaða áhrif hefur þetta haft á framleiðslu og neyslu grænmetis í landinu? 

Gúrkurnar sem urðu kveikjan að þessum blæstri.
Pakkningar
Það er orðið langt síðan menn tóku upp á því að pakka gúrkum í loftþéttar umbúðir, einhverskonar, sem ég tel vera miður, ekki síst vegna þess að þannig á neytandinn erfiðara með að átta sig á gæðum gúrknanna. Þannig hef ég, sjálfskipaður sérfræðingurinn í gæðum gúrkna, lent í því, að kaupa gúrku sem uppfylltu gæðakröfur mínar (sjá hér að ofan) í versluninni - stinnar og fínar og fallegar á litinn. Tveim dögum síðar, þegar kom að neyslu reyndust þær vera eins og sjá má á efstu myndinni, hægra megin. Með þessum umbúðum er þessari lífrænu vöru pakkað inn eins og múmíu til að hún líti vel út, sem lengst.  Má ég þá frekar biðja um götuðu pokana, sem gefa miklu betra færi á að meta raunveruleg gæði.

Síðasti neysludagur og geymsla.
Grænmeti er þess eðlis, að eftir að það hefur verið uppskorið (fjarlægt af plöntunum) er tíminn þar til þess er neytt, takmarkaður. Þetta eru augljós sannindi. Hvernig til tekst með geymsluna fram að síðasta mögulega neysludegi fer eftir ýmsu, en þar skiptir hitastig við geymsluna einna mestu máli.
Það eru miklir hagsmunir garðyrkjubænda, að tryggja það, að grænmetið sem þeir senda frá sér, fái viðunandi meðhöndlun og að það komist í hendur neytenda áður en það er byrjað að rotna og skemmast.  Þetta er sannarlega ekki auðvelt verkefni að fást við, ekki síst þegar allskonar heildsölur taka að sér að sjá um söluna. Hvernig á að fara að því að brýna fyrir heildsölum og smásölum að grænmetið sé viðkvæm vara sem þarf rétta meðhöndlun? Hver ber áhættuna af því að varan seljist? Þegar ég var í þessum bransa bar ég, sem framleiðandi, skaðann. Ég fékk ekki greitt fyrir grænmetið sem ekki seldist og því var fleygt á haugana. Er það svona enn? Er áhætta heildsala og smásala af verslun með íslenskt grænmeti kannski engin, öfugt við það grænmeeti sem þessir aðilar flyja inn?

Er mögulegt að merkja grænmeti með einhverjum hætti, þannig að ég geti séð, þegar ég ætla að kaupa mér gúrku, hvenær hún var skorin af plöntunni og hvenær "best fyrir" dagur hennar er?  Ég skil að það er varla einfalt verkefni að koma þessu á, en myndi það ekki gerbreyta gæðum þess grænmetis sem er að finna í grænmetisborðunum?

Meira af póstinum til verslunarinnar
Jæja, ég sendi póst á verslunina sem ég heimsótti í gær. Ég læt nafn hennar liggja milli hluta, en væntanlega ymislegt hægt að segja samsvarandi um margar aðrar verslanir.  Póstur minn var svohljóðandi, eftir inngang:
Okkur vantaði gúrku og það var greinilega nýbúið að fylla á grænmetishillurnar, meðal annars voru þarna tveir kúfaðir kassar af gúrkum - gúrkum sem ég myndi varla gefa hænunum mínum ef ég ætti þær. Ég læt fylgja mynd. Þessar gúrkur voru augljóslega búnar að reyna margt, og búnar að bíða lengi eftir að komast fram þar sem viðskiptavinir gætu keypt þær og gætt sér á þeim.  Það get ég fullyrt að það fólk sem keypti þessar gúrkur hjá ykkur í gær, munu hugsa sig um tvisvar áður en þeir reyna að kaupa gúrkur hjá ykkur aftur. Þeir munu sennilega leita annað.
Það sem ég velti fyrir mér er, hvernig í ósköpunum ykkur dettur í hug að bera svona vöru á borð. Hvaða þekkingu hefur starfsfólk ykkar á grænmeti, úr því það sér ekki muninn á gæðavöru og ónýtri? Er ykkur bara alveg sama um gæði og ferskleika grænmetis? 
Já, ég veit, að það verður  að fleygja því grænmeti á haugana sem er orðið of gamalt og ég veit að það er sóun. Hinsvegar leyfi ég mér að benda á, að  fólk sem er vant því að kaupa gæðagrænmeti, er líklegra til að kaupa það aftur. Fólk sem situr uppi með lélega og óneysluhæfa vöru er síður líklegt til að kaupa það aftur.  Þið getið sagt sem svo, að ykkur sé nokk sama, en ég vona að svo sé ekki.

Það er fleira.
Það eru birtar fréttir af því að íslenskt, útiræktað grænmeti sé farið að streyma í verslanir. Meðal annars blómkál, sem okkur langaði að kaupa. Það var til íslenskt blómkál hjá ykkur í gær, sannarlega. Hausarnir voru 5-7 cm í þvermál og brúnskellóttir eftir að hafa lent í rigningu áður en þeir voru skornir. Við keyptum ekki blómkál þó nóg væri til af því innflutta.

Tvisvar hef ég freistast til að kaupa hjá ykkur tómata í bökkum. Ég mun hugsa mig um áður en ég geri það aftur. Í báðum tilvikum kom í ljós, að þeim hafði verið staflað í flutningum þannig að þeir voru sprungnir á hliðinni sem snéri niður og voru byrjaðir að mygla (kom auðvitað ekki í ljós fyrr en koma að því að neyta þeirra. Þeir litu fallega út ofan frá séð.

Ég neita því ekki, að ég fæ á tilfinninguna, að ykkur sé bara algerlega sama um gæði grænmetis í hillum ykkar. Sé svo, finnst mér það dapurlegt. Ég vona sannarlega að þið takið ykkur á varðandi gæði þess grænmetis sem þið komið fyrir í hillum ykkar, ekki síst þegar framleiðsla á íslensku grænmeti er í hámarki. Ég viðurkenni það jafnframt, að það kemur fyrir að ég fæ ágætis grænmeti hjá ykkur hér á Selfossi og nefni þar sérstaklega gúrkurnar frá Akri. 

Von mín er sú, að haugamatur hverfi úr grænmetishillunum hjá ykkur og að þið farið að leggja meiri áherslu á og metnað í að bjóða viðskiptavinum ykkar gott, íslenskt grænmeti.

Baráttukveðjur


Ég er nú búinn að fá svar við erindi mínu frá vöruflokkastjóra ávaxta og grænmetis, svohljóðandi:



Sæll Páll,
Takk fyrir þessar greinagóðu upplýsingar.
Við munum nýta okkur þær í viðleitni okkar til að bæta gæði á íslensku grænmeti og þekkingu starfsfólks okkar.
Í samstarfi við innlenda birgja og bændur, stefnum við sífellt á að gera betur í þessum efnum.

Með kveðju,


Megi Guð láta gott á vita, eins og gömlu konurnar sögðu í gamla daga. 





 





 

29 júlí, 2020

Í náttúrulegu umhverfi

Ég treysti mér tl að fullyrða, að náttúrulegt umhverfi mitt er harla fábrotið, ef það er þá yfirleitt fyrir hendi. Þannig er það með okkur flest, sem nú byggjum þessa jörð. 
Ekki ætla ég hér að reyna að skilgreina hvað náttúrulegt umhverfi er, utan það að halda því fram, að nátturulegt sé það umhverfi, sem maðurinn hefur ekki tekið sig til og breytt í sína þágu. Þar með er bara til náttúrulegt umhverfi þar sem mannshöndin hefur í engu komið að.  Þróunin hefur verið sú gegnum allan þann tíma sem maðurinn  hefur gengið á þessari jörð okkar, að hann hefur í æ ríkari mæli verið að beisla náttúruna í sína þágu með einhverjum hætti. Lengi framan af var þessi þróun tiltölulega hæg, en á tuttugustu öldinni fór manninum að takast að beisla náttúruna æ meir og æ hraðar. Eftir því sem hann náði betri tökum á henni, fjölgaði hann sér æ hraðar og nú er svo komið, að upp rísa hópar sem krefjast þess að nýtingu mannsins á náttúrunni verði settar skorður. Ekki veit ég það, en mig grunar að það sé við það að verða of seint að gera nokkuð í málinu, þar sem ríkir hagsmunir kalla á að enn skuli hún nýtt til enn meiri hagnaðar og velsældar mannsins. 

---------------------------

Þessi inngangur átti ekkert að verða svona, en það er oft þannig, að þegar ég ætla að taka eitthvert efni fyrir, þá finnst mér að ég þurfi að setja það í einhverskonar samhengi. Ég ætlaði nefnilega að fjalla um náttúrulegt umhverfi dýra annarsvegar og það tilbúna umhverfi sem nútímamaðurinn er í hinsvegar og samspilið þarna á milli - hvernig svo sem það tekst nú, enda yfirgripsmikið málefni og ekki auðmeðfarið.

Tekið af: 
Á sama tíma og maðurinn færist fjær öllu því sem náttúrulegt getur talist, þykist hann geta, í æ meiri mæli, lesið yfir samferðamönnum sínum um náttúruna og náttúrulegt umhverfi. Þarna koma svokallaðir "áhrifavaldar" sterkir inn, oftar en ekki fallegt fólk og vel til haft, sem situr fyrir framan myndavél og tekur sjálfur, sem þeir sem verða fyrir áhrifum af fegurðinni falla í slíka stafi yfir að þeir ýta á "læk" hnappinn. Þegar áhrifavaldurinn fer síðan að nýta áhrif sín frekar með því, til dæmis, að láta í ljósi skoðanir á hinum og þessum málefnum, hvort sem þeir nú hafa vit á eða ekki, þá stökkva áhrifaþolarnir oftar en ekki til og skella í "læk" oft jafnvel án þess að skoða málin nánar, sennilega bara vegna þess hve áhrifavaldurinn er "æðislegur".

Maðurinn gerir sér æ minni grein fyrir því hvað er náttúrulegt. Það er náttúrulegt þegar nýtt líf kviknar. Það er náttúrulegt að lífi ljúki. Hvorttveggja er eðlilegasti og náttúrulegasti hlutur í heimi. Það sem gerist milli lífs og dauða, að því er manninn varðar, snýst í æ meiri mæli um ónáttúrulega hluti. Áfram eru börn vissulega getin og þau fæðast foreldrum sínum. Áfram deyr maðurinn þegar sá tími kemur. Að hvaða leyti öðru getum við sagt að maðurinn búi í eða lifi í náttúrulegu umhverfi?

Það er orðið frekar langt síðan maðurinn tók sig til og fór að nota dýr, bæði sér til viðurværis, skemmtunar eða til að auðvelda sér lífið. Gömul saga og ný.  Þessi lífsstíll hans hefur fyrir löngu verið samþykktur sem hinn eðlilegasti þáttur í mannlífinu, enda væri mannskepnan hreint ekki söm án hans. Getum við þá haldið því fram, að húsdýr mannsins hafi búið við eða búi við náttúrulegar aðstæður? Hver væri staða þessara dýra ef maðurinn hefði ekki not fyrir þau? Væru þau yfirleitt til?  

Áhrifavaldar nútímans segja okkur að það sé ljótt að halda dýr. Þau eigi að fá að njóta sín í náttúrulegu umhverfi sínu, sem vekur upp ótal spurningar.
Hvert er náttúrulegt umhverfi þessara dýra á Íslandi: sauðkindarinnar, nautgripsins, heimiliskattarins, poodle hundsins, svínsins, svo dæmi séu tekin? Hver yrðu örlög þessara dýrategunda hér, ef þeim væri gert að lifa í náttúrulegu umhverfi sínu? 
Það er sannarlega sorglegt í ákveðnu samhengi að vita til þess, að litlu lömbin, sem fæðast á vorin, eigi bara nokkurra mánaða líf í vændum. Að þá verði þau hrifsuð frá mæðrum sínum, drepin og étin. En þá þarf að velta fyrir sér hvað yrði ef þetta væri ekki svona.
Hver yrðu örlög okkar, nútímafólksins á Íslandi, ef okkur yrði gert að lifa í náttúrulegu umhverfi okkar?  Ég er nú þeirrar skoðunar, að við yrðum ekki langlíf. Við erum komin svo langt frá því sem getur talist náttúrulegt, að það er næstum ógnvekjandi.  Svo langt erum við komin frá náttúrunni, að við treystum okkur til að dæma um hvað telst vera náttúrulegt - án þess að bera nokkurt skynbragð á hvað það er - og líka að trúa "spekingunum". Í landi blindingjanna er sá eineygði konungur. 

Fæðingar og dauði eru náttúrulegustu fyrirbæri lífs á jörðinni. Að því er manninn varðar gerist hvorttveggja orðið inni á þar til gerðum stofnunum (já, ég veit að það eru til allskyns afbrigði af fæðingum og dauða), en gengur það?  
Hve margir þeirra sem eru yngri en fertugir skyldu hafa verið viðstaddir fæðingu eða dauða lifandi veru af einhverju tagi?  Verður það ekki að teljast frekar ónáttúrulegt?
--------------------------------
Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég ætti bara ekki að gerast áhrifavaldur. Það strandar oftast á nokkrum þáttum, til dæmis þessum:
1. Mér er meinilla við að taka sjálfur.
2. Ég er ekki sléttur og felldur.
3. Mér líkar illa við hugmyndina um þetta fyrirbæri.
4. Ég bara hef ekki hugmynd um hvað maður þarf að gera til að verða áhrifavaldur. 

Ég veit hinsvegar að ef mér tækist að verða áhrifavaldur, myndi margt breytast í samfélaginu. Það held ég, svei mér þá.

19 júlí, 2020

Konurnar í Rjómabúinu

Guðrún Andrésdóttir, vinstra megin og Margrét 
Júníusdóttir fyrir framan Rjómabúið, sem þá
var orðið að verzlun, eingöngu.
Myndina fékk ég á Baugsstöðum.
Á ýmsa mælikvarða verð ég líklega að teljast kominn heldur vel á veg á æviskeiðinu, þó mér finnist það nú ekki sjálfum. Ég stend mig stundum að því að staldra við og spyrja sjálfan mig hvort eitthvað það sem ég hyggst gera, hæfi aldri mínum. Þá á ég það til að líta til samferðamanna minna, sem voru eða eru talsvert eldri en ég. Oft eru þetta samstarfsmenn sem ég bar eða ber virðingu fyrir. Ég reyni þá að sjá þá fyrir mér í mínum aðstæðum og ekki neita ég því, að stundum er þessi samanburður bara nokkuð hamlandi.
Ég er auðvitað búinn að átta mig á því, að allt umhverfi þeirra sem voru á mínum núverandi aldri fyrir 20-30 árum, var gjörólíkt því sem nú er og hyggst því bara fara mínu fram í trúnni á það að maður er ekki deginum eldri en maður telur sig vera og hana nú.

Ég var í heimsókn hjá Sigga frænda mínum á Baugsstöðum í gær og þar kom Rjómabúið á Baugsstöðum til tals frá ýmsum hliðum, meðal annars þær Margrét og Guðrún (Margrét Júníusdóttir (1882-1969) og Guðrún Andrésdóttir í Hellukoti (1909-1992)). Þær stöllur ráku einmitt verslunina í Rjómabúinu þegar ég var sendur í sumarvist hjá afa og ömmu um og upp úr 1960. 

Þegar hugurinn reikaði til þessa tíma, svona óralangt inni í fortíðinni, skaust enn að mér hugmyndin um að ég væri nú bara orðinn skrambi gamall, en ég bægði henni bara umsvifalaust frá mér.  Frá þessum tíma til dagsins í dag hefur veröldin bara þotið áfram á margföldum þeim hraða sem hún gerði  í aldir þar á undan.

Ég man vel eftir þessum gömlu konum í Rjómabúinu og hvernig þar var umhorfs. Vissulega engin framleiðsla á mjólkurafurðum lengur, en þar var hægt að kaupa sælgæti. Hvernig sælgæti það var man ég nú ekki, en líklega, í það minnsta, kandísmolar og einhverjir gosdrykkir.  Svo man ég eftir brilljantíninu, en það bendir til að þarna hafi ég verið kominn á þann aldur að velta fyrir mér tískustraumum í hárgreiðslu. Brilljantínið var fljótandi olía, gulleit í glærri flösku. Það var svo sett í hárið, svo dugði. Fljótlega fór að renna undan hárinu og niður á ennið. EN þetta var töff og nauðsynlegt. Brilljantínhárgreiðsla var enn við líði þegar ég fermdist og er vel skjalfest.

Magga og Gunna munu hafa dvalist í Rjómabúinu virka daga, en fóru hjólandi til síns heima á Stokkseyri um helgar, að sögn Sigga. Þegar þær voru búnar að læsa versluninni, settu þær stein fyrir dyrnar og krossuðu síðan yfir. Þar með voru þær klárar í helgarleyfið.

Rjómabúið var rekið sem slíkt frá 1905-1952, en eftir það sem verslun þar til Margrét lést árið 1969.

Rjómabúið á Baugsstöðum. Mynd af vef BBL



"Það fer allt á Selfoss"

Baugsstaðir
Baugsstaðir
Ég skildi aldraðan frænda minn, sem ég hitti í gær, þar sem hann sat í herbergi sínu á Fossheimum og horfði út um gluggann á bílastæði þar sem hann hafði talið 60 bíla daginn áður. 
Á Fossheimum er hann í svokallaðri hvíldarinnlögn í einhvern tíma, en býr annars einn á bænum sínum niðri við ströndina. 
"Það fer allt á Selfoss" ítrekaði hann. Hann telur bæina eða þorpin, þar sem áður var talsverð sjósókn og fiskvinnsla, mega muna betri tíð. Þar sé ekkert eftir. Með tilurð Árborgar hafi örlög Stokkseyrar, Eyrarbakka  og byggðarinnar í kring, verið ráðin.

Hann vill ekki flytja á Selfoss, en hann lét svo sem ekki illa af sér, hann frændi. Á Fossheimum fær hann að njóta þjónustu sem hann fær ekki annars og öryggis, sem sannarlega er manni mikilvægt sem skriðinn er vel inn á tíunda áratug ævinnar. Ég hygg að honum finnist lítt eftirsóknarvert að búa við umhverfi þar sem plastblóm fylla gluggakistur og bílar bílastæði. Það væri betra að fá að njóta þess að hafa mjaðjurtina fyrir utan gluggann sinn. 

Frændi nýtur þess að vera fullkomlega skýr í kollinum. Það held ég að sé eftirsóknarvert á hans aldri. Ég hygg að það sé helst skrokkurinn sem gæti verið betri, en það er nú ekki við öðru að búast að hann fari að gefa eftir þegar ævilengdin er orðin sú sem raunin er.

Knarrarósviti (efsti hluti)
Hann sagði okkur frá ýmsu þá stund sem við áttum með honum í gær, meðal annars frá því þegar amma starfaði í Rjómabúinu eitt eða fleiri sumur. Kaupið hennar þá var 1 króna á dag. Á svipuðum tíma var sett upp gjaldskrá fyrir að fá að skoða Knarrarósvita, en þar var fólki gert að greiða vitaverðinum 25 aura fyrir að fá að fara upp í vitann. Þessi gjaldskrá var ekki uppfærð í samræmi við þróun verðlags og mörgum árum seinna, þegar frændi var þar vitavörður komu ýmsir að skoða  vitann, eins og gengur, meðal annars menn á fínum bílum, vel stæðir menn, sem réttu honum krónupening og vildu fá til baka. Voru víst bara góðir með sig. Þá kveðst fændi hafa sagt þeim frá daglaunum móður sinnar (ömmu) í Rjómabúinu og að þessir 25 aurar hefðu þá verið fjórðungur daglauna hennar. Spurði hvort það væri þá ekki eðlilegt að þeir reiddu fram fjórðung daglauna sinna fyrir að fá að skoða vitann. Það mun hafa orðið fátt um svör og þessu tali var eytt.

Hólavatn, Rjómabúið, Baugsstaðir
Í stjórn Rjómabúsins sátu eintómir karlar og í rjómabúinu störfuðu eingöngu konur; konur, vegna þess að öll áhöld voru úr tré og það var auðvitað mikilvægt að hreinlætis væri gætt í hvívetna og það mun hafa útilokað karlana. Þeir voru nógu góðir til að stjórna öllu saman.

Ég fann það, að frændi hafði áhyggjur af Rjómabúinu, en það stendur honum talsvert nærri. Ekki veit ég hvort þær áhyggjur eru réttmætar, en þær snúa helst að því hvernig vatnsrennslinu að búinu er stjórnað og tengist einhverjum mannvirkjum við Hólavatn (sjá mynd), en þaðan var, á sínum tíma, grafin rás, um 1,5 km,  að búinu og vatnið sem fékkst með því móti knúði þau tæki sem notuð voru við smjörframleiðsluna.  
Það er mér auðvelt að viðurkenna að vit mitt, þegar kemur að þessum málum, er vart mælanlegt.  
Smjörið úr rjómabúinu var selt til Englands, enda og dýrt fyrir venjulega Íslendinga. Þeir létu sér nægja bræðing, sem var búinn til með því að blanda saman tólg og lýsi, sem síðan var borðað með þorskkjömmunum.

Frændi kom víða við í þessari stuttu heimsókn og mér reyndar löngu ljóst að hann er ótrúlegur viskubrunnur um fyrri tíma.  Sannarlega hefur verið gerð heimildamynd þar sem hann er í aðalhlutverki, en það þarf að koma meira til, ekki síst að því er varðar  sögu Baugsstaða á 20. öld. 

"Það fer allt á Selfoss", þar sem bílarnir spúa koltvísýringi út í andrúmsloftið.    

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum, 7 ára, 1935.
Mynd: Margrét Júníusdóttir
Frændi er móðurbróðir minn og heitir Sigurður Pálsson. Hann hefur búið á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi alla tíð, en hann fæddist árið 1928. Fyrstu myndina sem tekin var af honum, tók 
Margrét Júníusdóttir, þegar hann var 7 ára.

17 júní, 2020

Kjölturakki eða mannvinur.


Við ætlum að kjósa okkur forseta eftir nokkra daga. Það er svo sem alltaf gaman að skjótast í kjörklefann og leggja sitt gramm á vogarskálina þar sem ákvarðað er ýmislegt sem lýtur að því samfélagi sem við búum í og byggjum. 

Það hefur einstaka sinnum hvarflað að mér að sleppa því að kjósa, en eingöngu í þeim tilvikum þar sem mér var ljóst í aðdraganda kosninganna, að það skipti hreint engu máli hvar ég myndi setja krossinn, því munurinn á þeim sem buðu sig fram væri eiginlega ekki merkjanlegur. 

Í tvennskonar kosningum kjósum við, eða ættum að kjósa út frá lífsskoðunum okkar, eða gagnrýnum stjórnmálaskoðunum. Í fullkomnum heimi væri það svo. Þetta  eru, sem sagt kosningar til Alþingis og sveitarstjórnarkosningar. Ástæðan er einföld: við erum að kjósa framboð sem kynna fyrir okkur hvað þau vilja gera til að efla og bæta samfélagið okkar. Við kjósum fólk og flokka til að ráða stórum hluta þeirra mála sem tekist er á við í næstu fjögur ár á eftir.

Þriðju kosningarnar eru með allt öðrum hætti, því þá kjósum við okkur forseta til fjögurra ára í senn. 
Það eru ekki stefnumálin sem ráða mestu, þegar við ákveðum hver fær atkvæði okkar, heldur einstaklingurinn, saga hans, persónueinkenni, viðhorf til embættisins, sú sýn sem hann hefur á land og þjóð. Við höfum hingað til, að mestu sneitt hjá frambjóðendum sem hafa einhverjar umtalsverðara rætur í stjórnmálastarfi og þeir forsetar sem hafa, að mínu mati reynst okkur best, eru þeir sem hafa skapað sér nafn utan stjórnmálanna. 

Svo lengi sem ég man eftir (slatti af árum) hefur verið reynt að gera sem mest úr því sem þetta embætti er bara hreint ekki: öryggisventill í þeim tilvikum sem Alþingi gengur í berhögg við vilja þjóðarinnar. Hann eigi að vera til staðar þegar gjá myndast milli þings og þjóðar, eins og það hefur verið kallað. Vissulega er það eitt að mögulegum tilvikum sem forsetinn getur þurft að bregðast við, en almennt séð, þá verðum við, Íslendingar góðir, að taka afleiðingunum að því sem við kjósum í Alþingiskosningum. Byrjum þar og sjáum síðan til hvort nokkurntíma verður þörf fyrir einhvern öryggisventil á Bessastöðum.

Þetta ventilsmál fær alltof mikið pláss í aðdraganda forsetakosninga, kannski vegna þess að þær snúast að lang mestu leyti um persónur, en ekki málefni og það getur verið erfitt að fjalla um frambjóðendur að einhverju marki þegar það eru persónur þeirra, sem mestu ráða við valið. 

Eitt eru forsetakosningar, þegar forseti hefur tilkynnt að hann hyggist láta af embætti. Þá er auðvitað sjálfsagt að fólk sem telur sig eiga erindi, bjóði fram krafta sína í þágu þjóðrinnar.

Annað eru forsetakosningar, þegar sitjandi forseti hefur gefið út að hann hyggist gefa kost á sér áfram, eins og staðan er nú. Hafi forseti gegnt embætti sínu í samræmi við það sem ætlast er til af honum, samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og jafnvel staðið sig betur en margir áttu von á og hafi framganga hans verið með þeim hætti að þjóðin að langstærstum hluta telur að sameini hana frekar en sundri, þá finnst mér að þeir sem hafa löngun til að komast í embættið, ættu að hugsa sig fimm sinnum um. 

Við göngum til forsetakosninga vitandi það, að við erum að kjósa til embættis sem er í raun valdalaust. Því fylgirvissulega formlegt vald, en það ættum við að vita, að valdið til að setja lög í landinu er hjá Alþingi, valdið til að framkvæma samkvæmt lögunum er hjá framkvæmdavaldinu og valdið til að dæma í málum, samkvæmt þeim lögum sem gilda, er hjá dómsvaldinu.  Forsetaembættinu hefur ekki verið ætlaður staður í þessu kerfi.

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.  (Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní)
Ef við skyldum nú vilja breyta eðli þessa embættist þá ættum við að gera það í gegnum stjórnarskrána, en mér er til efs að það sé vilji þessarar þjóðar. 

Forseti Íslands er embætti sem á að stuðla að því að sameina frekar en sundra. Í það finnst mér að eigi að veljast sá sem er maður fólksins, án þess að segjast vera það (Til að ekki misskiljist, þá nota ég þarna orðið "maður" fyrir öll hugsanleg kyn). Hver sá sem stígur fram og lýsir sig vera mann fólksins er það ekki. Vissulega væri hann maður einhvers fólks, en sennilega bara einhvers kima samfélagsins. 

Ætli þetta sé ekki komið nóg í bili. Laugardaginn 27. júni kjósum við forseta. Megi okkur auðnast að kjósa mann fólksins til þess embættis.

--------------------
Þjóðhátíðardagur okkar er í dag, dagurinn þegar við sameinumst um að fagna því að vera ein þjóð í einu landi, stolt af þjóðerni okkar, rembingslaust þó. 

Gleðilega þjóðhátíð.




11 júní, 2020

Kannski öfgakennd fortíðarþrá.

Nei, þetta er ekki eins slæmt og það hljómar, en einhverntíma, meðan Kvistholt var í svokölluðu söluferli, tók ég mig til, með keðjusögina góðu að vopni, og sagaði niður stubb af furutré, sem hafði staðið í svokölluðum Sigrúnarlundi frá því ég var bara barn í Laugarási, en sem var farið að skyggja á pallinn og draga þannig úr möguleikum á sóldýrkunartjáningu okkar Kvisthyltinga.  
Þegar þetta tré hafði verið fellt fyrir einum sjö árum var skilinn eftir um það bils meters stubbur af þessu tré og ég hafði alltaf ætlað mér að saga þennan stubb niður, en það hafði frestast, eins og gengur.

Ég, sem sagt sagaði niður þennan stubb, en í framhaldi af því datt mér í hug, að það gæti verið gaman að taka með, þegar kæmi að flutningum, einhverskonar minjar um trjágróðurinn í Kvistholti. Því varð það úr að ég sagaði stubbinn í sneiðar, sem síðan voru með því fyrsta sem við fluttum á Selfoss.

Ekki hafði ég svo sem ákveðið neitt um hvað gert yrði við þessar furusneiðar - var búinn að ímynda mér einhverskonar minnismerki um fyrri tíð, verk sem myndi ætíð minna okkur á áratugina í Kvistholti. 

Síðan lágu þessar sneiðar hér fyrir utan á nýja pallinum og biðu örlaga sinna. 

Það þurfti að setja upp lampa í hjónaherberginu, því lampalaus getur maður ekki verið. Auðvitað var þarna um að ræða sömu lampa og voru í Kvistholti, hvernig gat annað verið?

Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum, að fD varpaði fram ígrundaðri hugmynd sinni um að nýta furusneiðarnar í tengslum við uppsetningu lampanna í hjónaherberginu. Ég veit ekki hvað mér fannst um þá hugmynd til að byrja með, en smám saman fór ég að sjá fyrir mér leið til að láta hugmyndina raungerast. 
Svo fór undirbúningurinn af stað, og í framhaldi af honum framkvæmdin. Þarna kom WORX-inn í góðar þarfir. Fyrst juðað með mjög grófum og síðan fínum, svo rykhreinsað, þá lakkað, síðan pússað og loks lakkað tvisvar.  Festingaferlið hafði ég á þeim punkti hugsað allt til enda, eins og maður á að gera, enda gekk allt eftir, eins og upp var lagt með. 

Það er ekki amalegt að hugsa sér, að það síðasta sem maður sér fyrir svefninn en sneið af Kvistholti og það er einnig það fyrsta sem maður sér að morgni. 


Nei, þið sem teljið að nú sé heldur langt gengið í þránni eftir því sem var - hér er allt í góðu og við fD erum óðum að ná betri tökum á þeirri nýju tilveru sem við höfum komið okkur í.   Það er hinsvegar gaman að eigna minningar og eitthvað sem kveikir á þeim við og við. 
Það er nefnilega þannig, að ef ekki væri fyrir það sem var, þá væri ekkert núna, og heldur engin framtíð. Okkur er hollt að hafa það bak við eyrað.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...