25 janúar, 2021

Á dauða mínum ...

Það er þannig, að ég á mág, sem á það til að fara eigin leiðir. Hann er að byrja að feta sig inn á áttræðisaldurinn og maður skyldi ætla, að á þeim aldri væri fólk nú alla jafna bara tiltölulega sátt við heilsueflandi leikfimi af einhverju tagi - styrkja líkamann með því að hreyfa hann eins og er við hæfi og jafnvel ganga svo langt að svitna lítilsháttar. 
Ekki veit ég hvort það er vegna þess að einhverntíma stundaði mágur mín íþróttir af nokkrum krafti, eða þá að hann er svo mikill hestamaður í sér (og slíkir láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna) en um leið og Þórólfur leyfði, skráði hann sig á námskeið í Crossfit, svokölluðu. Þá íþróttagrein hef ég nú bara tengt við fólk eins Annie Mist, sem maður hefur heyrt af undanfarin ár, í heimsmeistarakeppnum. Myndir af slíkum keppnum hafa algerlega sannfært mig um, að aldrei, aldrei muni ég koma þar nærri. Ég hef verið fullkomlega sannfærður um að það sem þar er um að ræða, sé hvorki hollt líkama né sál, það þurfi að vera hálfgeggjaður til að leggja það fyrir sig.

Jæja, mágurinn skráði sig í námskeið í Crossfit, og ekki nóg  með það: eftir þrjá tíma var hann orðinn uppveðraður og mjög áhugasamur um að draga mig með sér, sem ég taldi til að byrja með af og frá, þó sannarlega teldi ég að regluleg hreyfing undir stjórn einhverrar fagmanneskju, myndi gera mér gott. Slík hreyfing hefur legið niðri, sem þáttur í sóttvörnum, og fyrir utan heilsubótargöngur, hefur sófinn verið athvarf mitt meira en góðu hófi gegnir.

Ég er nú þannig innréttaður, að ég velti fyrir mér kostum og göllum. Það gerði ég einnig gagnvart þessari Crossfithugmynd. Hugsunin hvarf ekki úr huga mér í gær, daginn fyrir fyrsta mögulega tímann. Ég var meira að segja farinn að finna til líkamlegra verkja við tilhugsunina; verkja sem ég hefði getað túlkað sem skilaboð heilans til vöðvanna, um að betur yrði heima setið en af stað farið. Niðurstaðan um að láta slag standa, helgaðist kannski af því að talasvert eldri einstaklingur hafði komist frá þrem tímum af þessu púli og á honum var enginn bilbugur.

Ég ákvað, sem sagt, að skella mér í Crossfit, níu heila klukkutíma, næstu þrjár vikur.

Við mættum því galvaskir í morgun, fyrir allar aldir, mágur minn og ég. Grímur fyrir andlitinu meðan gengið var inn í, sennilega 250 fermetra salinn. Veggir og gólf máluð svört og endalaust úrval af líkamsræktartækjum hvert sem litið var. Samtals vorum við þarna þrír stútungskarlar mættir til að "taka áðí".
Þjálfarinn var ung kona, Crossfitmeistari.

Ekki ætla ég að fjölyrða um æfingarnar sem þarna fóru fram, að öðru leyti en því að greina  frá því að þær voru erfiðar. Alloft fann ég fyrir því að vöðvarnir brugðust ekki við skipunum heilans, sem minnti mig á fyrri reynslu af aðstæðum þar sem vöðvaafls var þörf, en sem reyndist þá ekki vera fyrir hendi.

Heim komst ég, nokkuð lerkaður, en ánægður með sjálfan mig, að mestu leyti. 
Ætli ég reyni ekki að halda þetta út, annað væri lélegt, ekki síst með talsvert eldri máginn til samanburðar.



22 janúar, 2021

Mjakast, enda kominn bóndadagur

Ég tengi þann tíma ársins, sem nú er að verða hálfnaður, við hrein leiðindi. Þetta er hreint úr sagt leiðinlegsti tími hvers árs - hefur alltaf verið það og verður líklega áfram, að óbreyttu. Þar hafið þið það. Það er myrkur og sólin mjakast alltof hægt ofar á festinguna, daginn lengir alltof hægt, ófærð, hálka, stormar, iðulaus stórhríð, skítkalt - fátt, sem sagt, sem er til þess fallið að létta á drunganum. Ekki bætir það nú úr skák, um þessar mundir, að kófið kýlir okkur niður og flest bendir til að enn þurfum við að bíða mánuðum saman eftir sprautum með bóluefni. Ó, vei, ó, vei!
 Janúar og febrúar, eru aldeilis ekki uppáhalds mánuðir mínur, ó, nei.


Ég held að ég beri nú samt í mér genin sem við flest, sem þetta land byggjum, skörtum, og sem hafa gert okkur kleift að lifa af þessa myrkustu mánuði ársins, í aldir. Þessi fínu gen valda því að  við finnum alltaf eitthvað til að gleðja okkur og hjálpa til  við að lýsa upp þennan myrka tíma.  Ég ætla hér að nefna nokkur atriði, sem hafa orðið þess valdandi að hinir myrku mánuðir eru bara glettilega vel til þess fallnir að létta lund, þrátt fyrir að maður geti átt erfitt með að koma auga á það.


1. Handboltamánuðurinn. 
Sem betur fer hefur okkur tekist flest ár, að eiga handknattleikslið sem fulltrúa okkar í Evrópu- eða heimsmeistarakeppnum, nanast á hverju ári. Þessi janúar er engin undantekning, þó vissulega gæti gengið betur - reyndar ekki útséð um að svo verði. Sérstaklega er ánægjulegt, að þarna eru margir ungir gaurar, sem eiga eftir að gleðja okkur í mörg ár.

2. Trumpleysi. 
Mér finnst eins og við séum að stíga út úr einhverjum dimmasta tíma í sögu mannkyns. Það er eins og sprengja hafi verið gerð óvirk á síðustu stundu, þegar skrípimennið vestan hafs varð að láta í minni pokann, fyrir heldur skárri náunga, sem maður þekkir svo sem hreint ekkert til og veit ekki hvort lifir árið eða hvort breytir nokkru, eða gerir eitthvað jákvætt. Samt er tilkoma hans eins og ferskur og hlýr vorblær sem er byrjaður að bræða jökulkaldan lygahramm ofan af okkur, með loforði um að brátt sjáum við til sólar. Eftir situr samt efi um að brotthvarf trúðsins breyti nokkru, þegar upp verður staðið.


3. Nýtt nágrenni.
 
Það er ekki sjálfgefið, að þegar maður tekur svo afdrifaríkt skref, sem við fD höfum gert, að flytja úr sveitinni í fjölbýlishús á Selfossi, að það fari sérlega vel. Það hefur farið vel til þessa og það er ekki síst tvennu að þakka: 1) íbúðin fer afar vel með okkur - hentar þörfum okkar hreint ágætlega og 2) nágrannar okkar eru nánast undantekningarlaust, hið ágætasta fólk - flest meira að segja hreint indælt. 
Við eigum enn eftir að upplifa drauminn um að sitja undir hitalampa í útistofunni, þegar úti geysar iðulaus stórhrið með tilheyrandi samgöngutruflunum, en það er enn von.


4. Tiltölulegt þakklæti. 
Það má margt segja um þessa þjóð, en það má hún eiga, að í þessum kófstæðum (kófaðstæðum) er hún sennilega að verða búin að læra það, að það er best, þegar upp er staðið, að hlýða sóttvarnayfirvöldum, því fram til þessa hafa þau metið stöðu og horfur rétt. Ég held að sé óhætt að þakka okkur sem þjóð, fyrir að okkur virðist hafa tekist, eftir nokkrar atlögur, að skilja hvað þarf til, til þessi að kveða niður þennan vágest sem hefur herjað á okkur í nánast heilt ár. Ég, í það minnsta, rölti inn í vorið í þeirri trú, að samhliða því muni kófið smám saman hverfa og sólin ná í gegn á ný.


5. Morgungöngur
Það er þægileg tilfinning, að hefja hvern dag, árla, með því að ganga tæpa fimm kílómetra með selfysskum, vel miðaldra körlum. Þetta er dálítið sérstakt fyrirbæri, þessar göngur, sem lýkur yfirleitt með  einskonar Mullersæfingum undir stjórn þess elsta, sem er 87 ára. Ég get alltaf vonað að þannig verði ástandið á mér eftir tuttugu ár. 
Eftir morgungönguna þarf maður ekkert að spá í hvort eða hvenær maður ætti að koma sér út að viðra sig þann daginn.   Gallinn er aðallega sá, að á þessum tíma hef ég átt það til að sofa þessar morgungöngur af mér, ansi oft, en það stendur vonandi til bóta.


6. Flest er þá þrennt er.
Um áramótin fluttu systir og mágur frá Laugarási, sem þýðir að nú erum Hveratúnsfólk að verða komin í stöðu til að gera okkur gildandi hér í höfuðstaðnum. Það fer ekki á milli mála, að Laugarás verður alltaf okkar staður, en við getum fagnað því að hafa tekist að gera þær breytingar sem gera þurfti. 
Ég á nú eftir að sjá bræður okkar tvo, sem enn gista Laugarás, hverfa þaðan á næstunni, en auðvitað veit maður aldrei. Þetta eru hálfgerðir unglingar enn.

----------------------------------

Þannig er það. Niðurstaða mín er sú, að þessir leiðindamánuðir tveir, eru bara ágætir, svona þegar maður fer að rýna betur í þá. Þeir eru tími upphafs að svo mörgu leyti, og tími vonar um að framundan sé vor. 
Nú er Þorrinn genginn í garð og við selfysskt Hveratúnsfólk, mun taka á honum eins og við hæfi er og það verður eitthvað..

----------------------------------
Myndirnar tók ég í Kvistholti á fyrstu mánuðum síðasta árs.  Ekki get ég neitað því að ég sakna þessara fiðruðu vina minna, en myndirnar á ég og get rifjað upp nágrennið við þá.



01 janúar, 2021

Fordæmalaus áramót.

Þau tímamót urðu um þessi áramót, að ekki var keypt ein einasta sprengja af neinu tagi hér á bæ og auðvitað er óhjákvæmilegt að ég velti því fyrir mér hvað olli. 
Loksins þegar ég bý við hliðina á tveim til þrem flugeldasölustöðum, kviknaði engin þörf fyrir "fíriverk".  Ég veit núna hversvegna þetta var og ástæðurnar eru nokkrar:

1. Það er vesen að koma sér á stað sem er hentugur til að kveikja í bombunum.

2. Leikurinn er tapaður fyrirfram. Hér má ein Guðrún Ósvífursdóttir eða einn Gísli Súrsson sín ekki mikils. Það var eitthvað annað í Laugarási, þegar það var að einhverju að keppa í þessum efnum.
 
3. Staðurinn sem ég bý á, er ekki beinlínis skotvænlegur, þó hér fyrir framan hjá mér, sé heill þyrlupallur. Hér býr fólk sem nýtur þess að horfa á skothríðina, frekar en skjóta sjálft. Þroskamerki?

4. Hér veit maður að ein og ein bomba breytir engu til eða frá. 
Maður er á stöðugum hlaupum - ná í  sprengjukassa, bera eld að kveiknum, hlaupa frá til að sjá sprengjuna sína skjóta sprengikúlum upp í himinhvolfið, í nokkrar sekúndur, athuga hvort einhver tók eftir glæsilegri sýningunni, ná svo í næsta kassa og endurtaka leikinn. Á meðan missir maður auðvitað af öllu hinu, sem er miklu glæsilegra og ókeypis þar að auki.

Þessi nýja reynsla (tiltölulega nýja) að eyða áramótum í svona þéttbýli, er alveg sæmileg. Þau reiðinnar býsn af púðri sem lýsti upp umhverfið meðan nýtt ár gekk í garð, féllu mér bara nokkuð vel, um stund. Svo fannst mér fljótlega, að nóg væri að gert, en það var bara enginn að velta fyrir sér mínum skoðunum að þessu leyti.
Ég verð hinsvegar að segja, að Selfyssingar eru ekki að vitleysast við að sprengja í tíma og ótíma. Við höfum nánast ekkert orðið vör við misnotkun að neinu ráði. Þetta byrjaði af krafti um 23.30 og svo var farið að draga úr því klukkutíma síðar. Einn og einn virðist þó hafa sofið af sér áramótin og vaknað svo klukkan tvö, með fullt hús af fíriverki, sem þurfti að kveikja í. Hann mátti það.

Hér sjáum við fyrir okkur stöðuna þessa um áramót framtíðar:
Setjast í útistofuna, með kveikt á hitaranum, í hlýjum fatnaðir, með heitan drykk í glasi og njóta sjónarspilsins sem nágrannarnir eru svo elskulegir að kalla fram fyrir okkur. Ekki slæm framtíðarsýn, svo sem.

Næst á dagskrá er að að ganga til móts við nýtt ár, sem miklar vonir eru bundnar við - mögulega of miklar.  Ég kýs að fara milliveg í væntingunum - vona hið besta, með það bak við eyrað, að eitthvað annað kann að verða uppi á teningnum.



30 desember, 2020

Í tilefni áramótasprengs.

Svona heldur nú lífið áfram, með þeirri kaflaskiptingu sem skapar umgjörð flestra mannvera í þann tíma sem þeim er úthlutað. Ég sagði við gamla vinkonu í símann í morgun, að nú væri ég kominn í sama kafla og hún, eini munurinn væri sá, að minn kafli er að byrja og hún er komin nokkrum blaðsíðum lengra. 
Merkilegt fyrirbæri þessi lífsbók okkar. Margir fá bara þunna bók með fáum köflum, en æ fleiri fá þykka og efnismikla bók. Það er víst ekkert réttlæti í því hvernig þessu er úthlutað.

Ég er bara harla þakklátur fyrir að hafa náð þessum kafla ævinnar og hlakka bara dálítið til að sjá hvað næstu blaðsíður færa mér.

Ekki meira um þessa bók.

Við fD höfum nú búið okkur heimili hér á Selfossi í 7 mánuði. Þegar við byrjuðum að búa voru heimkynnin ýmsar blokkaríbúðir, eða kjallarar hér og þar um höfuðborgarsvæðið á áttunda ártugnum. Svo fluttum við í sveitina. Þar bjuggum við í eintómum einbýlishúsum, allt þar til við komum okkur aftur fyrir í blokk. Komin aftur til upphafsins og freistum þess að sinna áhugamálunum af kostgæfni. Mitt verkefni snýr að því að safna saman heimildum um sögu Laugaráss. Það þokast áfram, en ég á enn eftir að ná almennilegum tökum á því að aga sjálfan mig. Eftir starfsævi þar sem bjalla tilkynnti mér með reglulegu millibili hvenær ég átti að fara á fætur eða standa mína pligt frammi fyrir fróðleiksþyrstu ungviði, er einhvern veginn svo afslappandi að ráða tíma sínum bara algerlega sjálfur. Það verður síðam til þess, að einhver púki á öxlinni hvíslar því stöðugt að mér, að ég hafi nægan tíma. Ekkert sérstaklega ráðagóður, þessi púki og ég mun nýta komandi ár til að pakka honum inn og koma fyrir í læstu geymsluhólfi í fataherberginu. 

Vonandi hef ég nægan tíma til að ljúka því sem ég hef sett markið á og gleðst jafnframt yfir því að hafa orðið mér úti  um áhugamál á eftirlaunaaldrinum, sem getur haldið mér tiltölulega ferskum (eða þannig) í einhvern slatta af árum til viðbótar. 


Árið 2020 hefur nú verið meira árið, en ég kvarta ekki. Ekkert okkar Kvisthyltinga hefur orðið fyrir barðinu á veiruskrattanum, utan þess auðvitað, að á okkur hafa verið settar ýmsar óþægilegar eða óskemmtilegar hömlur, svona rétt eins og aðrir hafa þurft að kljást við.  

Þetta ár megum við ekki afgreiða sem einhverja óþægilega minningu og halda síðan bara áfram eins og þetta gekk fyrir sig árið 2007 eða 2019. Við eigum að hafa lært ýmislegt nýtt, eins og til dæmis það, að lífið er ekki bara núna. Það er til eitthvað sem heitir saga. Hana nýtum við til að læra af. Svo er líka til framtíð, sem er algerlega í okkar höndum. Framtíð, sem vísindamenn segja okkur að sé ótrygg. Framtíð, sem er í okkar höndum, en ekki bara ykkar. 

Ekki neita ég því, að það er nokkur beygur í mér gagnvart komandi ári. Ég fæ það á tilfinninguna að stór hluti þessarar þjóðar og vel stætt fólk um allan heim, séu komin í spreng. Mér finnst að margir bíði þess að geta slett ærlega úr klaufunum á kostnað okkar allra, jafnskjótt og bólusetningin gegn veirunni er afstaðin.  
Auðvitað vona ég að við höfum dregið lærdóm af þessu ári. Vona að framundan séu rólegri tímar með minni neyslu og meiri skilningi á því, að við berum öll ábyrgð, ekki bara þið hin. 

Þá leyfi ég mér að þakka ykkur, sem hafið rennt í gegnum þessa pistla mína á árinu 2020, fyrir samfylgdina og óska ykkur þess að fá að takast á við árið 2021 af yfirvegun þess sem veit betur, eftir stórviðrið sem þá verður gengið yfir. 


22 desember, 2020

Fordæmalaus jólakveðja á öfgaári


Ég ætla ekkert að bæta verulega í öll þau orð sem sögð hafa verið, eða munu verða sögð um árið sem kveður bráðum. Þetta er merkilegt ár, ekki bara fyrir heimsbyggðina heldur og ekki síður fyrir Kvisthyltinga. 
Það verð ég að segja, að þetta er líklega skrítnasta ár sem ég hef fengið að upplifa. Við deilum öll allskyns reynslu af veiruskrattanum og líf okkar hefur litast af því. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að mér hefur liðið harla vel í þessu ástandi, enda ekki mikið félagsmálatröll og get alveg lifað góðu lífi án þess að þurfa alltaf "að fara eitthvert eða gera eitthvað". Þetta er sennilega vegna þess að ég er sjálfum mér nægur og líður best í samfélagi við sjálfan mig. Ég er að  vissu leyti bara einkar skemmtilegur í sjálfum mér og sjálfum mér. 
Nóg þá um þetta veiruár.

Kvistholt kvatt
Brottför okkar úr Kvistholti á árinu tók heilmikið á, enda hefur sá góði staður verið heimili okkar frá haustinu 1984. Við byggðum það frá grunni, þar lágu spor okkar og þar höfum við sinnt mörgu verkinu. Að mörgu leyti má segja, að þessum flutningi sé ekki lokið enn og það eru meira að segja uppi þær raddir, í umhverfi mínu, að við séum svona bara eins og í fríi í lúxus hótelíbúð. Það er nú þannig með frí, að þeim lýkur alltaf - einhverntíma. 
Niðurstaða mín í gegnum þetta flutningastand er sú, að skynsemin hafi fengið að ráða; að það séu ákveðin forréttindi fólgin í því að fá að flytja á eigin forsendum, meðan við búum enn yfir nægilegum krafti til að sjá um þetta allt saman sjálf.


Selfossi heilsað
Jú sannarlega erum við flutt og kunnum vel við okkur í þægindunum sem okkur eru búin hérna við Austurveginn á Selfossi, við þjóðveg númer 1, hvorki meira né minna.
Flutningarnir gengu vel, enda höfðum við haft nægan tíma til undirbúnings. 
Svo hófst aðlögun okkar að nýjum heimkynnum og umhverfi, en af ástæðum sem ekki þarf að rekja, hefur hún ekki verið alveg jafn hröð og verið hefði við eðlilegar aðstæður.

Ég held að mér sé óhætt að segja, að Selfyssingar hafi tekið okkur almennt vel og hér í kringum okkur er ágætasta fólk, sem hefur að miklu leyti sætt sig við okkur eins og við erum: nýkomin í logninu og skóginum, með sérkenni okkar og tiktúrur. 

Því verður ekki neitað, að umbreytingin sem felst í því að flytja úr einbýlishúsi, sem stendur á hektara lands, í talsvert minni híbýli í fjölbýlishúsi, er sko alveg áskorun, en það snýst allt um hugarfar.
Íbúðin okkar er afar þægileg og hefur reynst duga okkur til þess sem þörf er á. 


Börnin og allt það
Við njótum þess að hafa hjá okkur tvö yngri börnin nú um jólin. Þeir tveir eldri sinna fjölskyldum sínum af kostgæfni, annar býr í höfuðborginni en hinn í Álaborg. 
Við fD erum heppin með börn, tengdabörn og barnabörn, svo það sé nú sagt.

-----------------

Ég ætlaði að láta þennan pistil vera nokkurskonar jólakveðju okkar Kvisthyltinga (við verðum víst seint eitthvað annað í hjartanu) en svo gripum við tækifærið, með videósnillinginn, örverpið okkar við höndina 
og í dag var skotin stuttmynd, sem verður hin formlega kveðja frá okkur til ættingja og vina, til sjávar og sveita, landa og heimsálfa. Hún verður birt áður en jólin ganga í garð og verður eitthvað.

Ég leyfi mér nú samt að óska lesendum þessara pistla minna og fjölskyldum þeirra, gleði og friðar á jólum og um áramót, meira svona innri gleði og innri friðar, frekar en taumlauss gjálífis og núvitundarskarkala.
Megi nýtt ár færa okkur bóluefni í vöðva, jafnvel tvisvar og í framhaldinu, upprisu til venjulegs lífs.







12 desember, 2020

Að skellihlæja eða hágrenja


Ég hef aldrei verið mikið fyrir upphrópanir eða hástemmd slagorð. Upphrópanir, vegna þess að þær skortir íhugun og yfirvegun, Slagorð vegna þess að þau finnst mér vera innantóm. Ég er ekki tilbúinn að hrópa á torgum, eða drepa fyrir málstað.
Ég er hinsvegar tilbúinn að hlusta, stundum og jafnvel ljá málstað lið, ef hann fellur að lífsskoðunum mínum.
Það hefur einusinni eða tvisvar gerst, að ég hef sett einhvern hring með slagorði í kringum höfuðið á mér á facebook. Það var vegna þess að um var að ræða hvatningu til dáða eða skilning á málstað.

Þessa dagana keppist fólk við að setja hring um höfuð sín á facbook, þar sem það lýsir sér sem "örlitlum grenjandi minnihluta". Allt í lagi með það svo sem. Öll vitum við að þetta er tilkomið vegna ræðu á Alþingi og vegna frumvarps um þjóðgarð á hálendi Íslands. Sannarlega er hér stórt mál á ferðinni og eðlilegt að vandað sé til verka. Það verður hinsvegar ekki gert með upphrópunum og slagorðum. Það kemur fjölmargt til skoðunar og ýmsir hagsmunir líta dagsins ljós. 

Þó svo ég setji þetta hér inn, í kjölfar þess að fjöldi fólks lýsir sig grenjuskjóður þessa dagana, ætla ég mér ekki að fara að eyða tíma mínum frekar í karp um þetta. Karp, segi ég, vegna þess að málefnaleg umræða á erfitt uppdráttar í svo tilfinningahlöðnu máli. Verst finnst mér vera, þegar fólk setur á sig grenjugrímuna án þess að vera búið að renna yfir þetta frumvarp. Ég skil betur þá sem eru búnir að kynna sér málið ofan í kjölinn og eru samt ekki sáttir.

Jú, ég er búinn að renna yfir frumvarpið og líklega vegna þess að ég á engra beinna hagsmuna að gæta, utan þess að vera íbúi í þessu landi, tilheyra þessari þjóð, þá varð ekkert það á vegi mínum sem ég þurfti að staldra sérstaklega við.  Þá er spurningin: Tilheyri ég þá "risastóra skellihlæjandi meirihlutanum"? Ég reikna með að margir muni líta svo á. Það væri þá um að ræða harla svart/hvíta hugsun, en hún á heldur betur upp á pallborðið þessi árin og þar hefur fólk verið duglegt að læra að forsetanefnunni vestanhafs.


Ég tilheyri sjaldan meirihlutum í þessu samfélagi. Hef oftast tilheyrt minnihlutum og lært að sætta mig við það, þó mér finnist hábölvað oft á tíðum og upplifa grátlega heimsku samferðamannanna. Varla er ég sá heimski og allir hinir spekingar. Því trúi ég nú ekki. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að grenja vegna þessa, hvað þá hágrenja. 

Það er hægt að fella tár af ýmsu tilefni. Það eru sorgartár, gleðitár, reiðitár og frekjutár, svo einhverjar tegundir tára séu nefndar.  Algengasta merkingin sem ég legg í orðið "grenja" er, að fella tár vegna frekju. Ekki veit ég hvort Steingrímur beitti þessu afdrifaríka orðavali í þeirri merkingu og læt það liggja því milli hluta.



09 nóvember, 2020

Svona um það bil 15 ár

Laugarás á fremur sérstaka sögu og henni er hreint ekki lokið. 
Einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór að safna saman ýmsu því sem verður að teljast hluti af þessari sögu og óhjákvæmilega kom að því, að ég þyrfti að takast á við sögu Laugaráshéraðs, sem ég hygg að hvergi hafi verið skráð nokkuð heildstætt.  

Frá upphafi voru það oddvitar sveitarfélaganna sem að Laugaráshéraði stóðu eða standa, sem fjölluðu um mál sem snertu læknisseetrið og Laugarásjörðina. Þeir komu alla jafna saman árlega til aðalfundar og tóku til umfjöllunar ýmis mál. Fundirnir urðu smám saman ítarlegri og tóku á flóknari málum. 

Ég er, um þessar mundir, að rekja mig í gegnum fundargerðir þessarar oddvitanefndar, sem gekk undir ýmsum nöfnum, reyndar og er þakklátur fyrir að okkur skyldi auðnast að koma flestum fundargerðabókum nefndarinnar og ýmsum gögnum hennar, til varðveislu á Héraðsskjalasafni Árnesinga, en þar á svona efni auðvitað heima.

Það vantar sem sagt ekki mörg ár inn í þessa sögu, ekki nema 15, reyndar.
Þessi 15 ár, eru hinsvegar afskaplega mikilvæg og má segja að þau myndi grundvöllinn að því sem síðan gerðist í málefnum Laugaráss. Þetta eru árin frá því um 1920 til um það bil 1935.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, oddvitar í uppsveitunum og ég, erum nú að freista þessa að þefa uppi einhverskonar fundargerðir oddvitanna í þessi 15 ár og núverandi oddvitar tóku að sér að birta í miðlum sveitarfélaga sinna, nokkurskonar ákall um að afkomendur sveitarsjórnarmanna í þessum hreppum á umræddum tíma kæmu til liðs við okkur við að reyna að hafa upp á þessum bókum, eða bók.


Ég geri það sama hér, í mínum, ekki alltof áberandi miðli líka. Það er kannski von á að einhverjir eða einhverjar deili þessu áfram.

Hérna efst er upphaf elstu fundargerðinnar sem enn hefur fundist. Hún, og aðrar sem fylgdu, er skráð í bók sem er ekki nema 7x11 cm að stærð (kápan hér til hægri), sem bendir til að fyrri bækur hafi ekki verið mikið stærri.

Það er auðvitað möguleiki, að fundir oddvitanna frá 1920-1935 hafi verið skráðir í fundargerðarbækur einhvers hreppanna, en ýmsar þeirra hafa, að því er virðist, ekki skilað sér á héraðsskjalasafnið. Það er full ástæða til að leita þær uppi einnig og svo bara öll möguleg gögn sem leynast kannski í dánarbúum, eða hjá fjölskyldum, en ættu að komast til varðveislu á heráðsskjalasafni.

Ég ætla svo að láta fylgja hér fyrir neðan, textann sem ég klambraði saman og sem ætti að dreifast up uppsveitirnar um þessar mundir. 

Meðan ég held áfram að vinna mig í gegnum það efni sem þegar er fyrir hendi, lifi ég í voninni um að það takist að finna efni til að fylla í þessa 15 ára eyðu.

Undirskriftir oddvitanna sem sátu þennan fund, árið 1935.


Oddvitarnir á fundinum 1935, frá vinstri: Sr Guðmundur Einarsson Mosfelli, Páll Stefánsson 
Ásólfsstöðum, Eiríkur Jónsson Vorsabæ, Teitur Eyjólfsson Eyvindartungu, Árni Ögmundsson Galtafelli, Guðjon Rögnvaldsson Tjörn.

Þegar þarna var komið sögu læknishéraðsins, var sr. Guðmundur Einarsson prófastur á Mosfelli formaður nefndarinnar.

-------------------------------------

Þá er það textinn, sem nú er dreift í uppsveitunum:


Finnum þessar bækur 

Ég segi nú stundum, að án sögunnar, værum við ekki að spígspora um þessa jörð. Það fólk sem ól okkur af sér á líka sína sögu og þar fram eftir götunum, langt inn í fortíðina. Okkur ber skylda til að halda frásögnum af verkum og lífi þess til haga, eftir föngum.

Undanfarin ár hef ég verið að taka saman ýmsar upplýsingar um Laugarás og er búinn að koma upp vef sem kallast laugaras.is, sem geymir það sem ég hef tekið saman um þennan þéttbýliskjarna, sem á sér stutta, en sérstaka sögu.

Hluti af þessari samantekt á að vera nokkurskonar saga Laugaráslæknishéraðs, sem áður kallaðist Grímsneslæknishérað, en þar sem uppsveitamenn virðast hafa komið sér hjá því að vera mikið á síðum dagblaða, þarf að treysta á þau gögn sem hafa orðið til innan svæðisins, til dæmis fundargerðabækur.

Erindi mitt við þig er þetta:

Mig vantar enn bækur sem ná yfir tímabilið frá 1920 – 1935; það vantar fimmtán mikilvæg ár inn í þessa sögu. Gögn frá þessum tíma hefur mér ekki tekist að finna, utan fundargerðabóka hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og Sýslunefndar Árnessýslu. Þar fyrir utan er um að ræða glefsur úr öðrum bókum sem tengjast uppsveitunum, sem héraðsskjalasafnið geymir.

Þú ert kannski afkomandi einhverra þeirra forystumanna sem komu við sögu á þessum tíma og hugsanlega geymir fjölskylda þín einhver gögn sem þeir létu eftir sig, þar sem ein til tvær litlar fundargerðabækur gætu leynst. Ert þú til í að leita þessi gögn uppi, eða láta okkur vita hvar líklegt er að þau sé að finna? Elsta bókin sem við höfum er ekki nema 11x17 cm að stærð (sjá meðfylgjandi mynd), svo hér er líklega ekki um að ræða stórar eða miklar bækur. Mögulega bara eina bók.

Það getur verið, að fundargerðir oddvitanna á þessum tíma, hafi verið skráðar í fundargerðabók einhverrar hreppsnefndarinnar, en því miður eru þær einnig ófundnar, utan fundargerðabóka Biskupstungnahrepps frá þessum tíma. Í þeim er ekki mikið fjallað um læknishéraðið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja nöfn forystumanna úr hreppunum sem komu að læknishéraðinu á árunum 1920-1935. Þeir eru sannarlega fleiri, en þessar upplýsingar eru úr fundargerðabókum sýslunefndar Árnessýslu, Biskupstungnahrepps og oddvitanefndar. Kannski kveikir það í þér

Biskupstungnahreppur
Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum
Jörundur Brynjólfsson, Múla og Skálholti
Einar Jörundur Helgason, Holtakotum
Jóhann Kr. Ólafsson, Kjóastöðum
Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn
Skúli Gunnlaugsson, Bræðratungu.

Hrunamannahreppur
Ágúst Helgason, Birtingaholti
Helgi Ágústsson, Syðra Seli

Gnúpverjahreppur
Sr. Ólafur Briem, Stóra Núpi
Páll Stefánsson, Ásólfssöðum 
Árni Ögmundsson, Galtafelli

Grímsneshreppur
Gunnlaugur Þorsteinsson, Kiðjabergi
Magnús Jónsson Klausturhólum
Sr. Guðmundur Einarsson, Mosfelli

Laugardalshreppur
Böðvar Magnússon. Laugarvatni
Teitur Eyjólfsson, Eyvindartungu

Skeiðahreppur
Guðmundur Lýðsson, Fjalli
Brynjólfur Bjarnason, Framnesi
Eiríkur Jónsson, Vorsabæ

Ef þér skyldi takast að grafa upp þessa gömlu bók (eða bækur), eða ef þú gætir veitt einhverjar upplýsingar um hvar hana gæti verið að finna, bið ég þig að hafa samband við eitthvert þeirra sem hér eru tilgreind:

Páll M. Skúlason netf. pallsku@gmail.com s. 8989152
Þorsteinn Tryggvi Másson netf. thorsteinn@heradsskjalasafn.is s. 4821259
eða oddvitann í þínu sveitarfélagi.


Með fyrirfram þökk.

Páll M Skúlason





30 október, 2020

Að koma lífi í rjóma

Þegar ég fæ mér kaffi, þykir mér harla gott að skella í það dreytli af rjóma, sem ég sæki í ísskápinn. Tek rjómann fram, ískaldan og frekar dofinn. 

Til þess að koma í hann lífi áður en ég hleypi honum í kaffibollann minn, hristi ég hann rækilega og vek hann þannig til lífsins, svo ann dragi fram hið nákvæmlega rétta bragð af indælis kaffidrykknum.

Ég fékk mér kaffi í dag og það gerði fD einnig. 

Hún vekur rjómann ekki með sömu aðferðum og ég, heldur skrúfar bara tappann af og hellir.

Í dag fékk hún sér rjóma í kaffið sitt, á undan mér og setti síðan á borðið og tappann við hliðina.

Svo tók ég upp hálfpottsfernuna af rjóma og vakti til lífsins, eins ég geri.

Hér á bæ var skúrað hátt og lágt í dag.


26 október, 2020

Óhjákvæmileg vatnaskil framundan

MYNDIRNAR SEM HÉR ERU, ERU VALDAR ALGERLEGA AF HANDAHÓFI, FRÁ ÁRUNUM 2006-2008. Þær tengjast innihaldi textans ekki með neinum, hugsuðum hætti. 

Það hefur flogið í gegnum hugann, all oft frá þeim degi sem við fD tókum saman hafurtask okkar og fluttum úr Laugarási, að sumt skuli haldið í áfram, en annað þurfi óhjákvæmilega að endurskoða. 

Eðlilega hætti ég í ritstjórn Litla Bergþórs og nú blasir við að ég þurfi að gera eitthvað við Facebook síðuna sem ber nafnið Laugarás - þorpið í skóginum. Ég velti fyrir mér hvort það sé rétt að loka henni einfaldlega og rýma þannig fyrir nýrri síðu íbúa í Laugarási. Ég velti einnig fyrir mér, hvort það gæti verið valkostur, að fjarlægja mig sem stjórnanda og afhenda einhverjum öðum keflið. Þá velti ég fyrir mér, hvort ég eigi bara að halda ótrauður áfram við að halda síðunni úti, þó svo ég teljist ekki lengur til íbúa í Þorpinu í skóginum.

Mér finnst þetta allt eðlilegar pælingar og allir kostir uppi á borðinu, í sjálfu sér. Ég er hálfpartinn búinn að búast við því að fá athugasemdir frá notendum síðunnar um, hvað ég, Selfyssingurinn, vilji eiginlega upp á dekk. Ég eigi ekki að vera að skipta mér af lífi fólks í öðrum sóknum. 

Ég sé ekki fyrir mér, að loka síðunni, því hún geymir ótal margt, eftir að hafa sinnt íbúum í Laugarási á ýmsan hátt í fimm ár, en þann 10. september, 2015, stofnaði ég hana og nú eru skráðir notendur að verða 700.  Ég er þakklátur notendum fyrir, að hafa umgengist síðuna af ábyrgð og þar með hefur nánast ekkert reynt á mig sem ábyrgðarmann fyrir henni. Nei, síðunni mun ég ekki loka, ....... held ég.

Næsti valkostur er að afhenda stjórn síðunnar einhverjum sem ég treysti til að flytja hana áfram inn í óvissa framtíð og setja henni reglur, sem henta Þorpinu á breytingatímum. Auðvitað hafði ég vaðið fyrir neðan mig og fékk naglfastan Laugarásbúa til að gerast stjórnandi auk mín og að því leyti er síðan í góðum málum. Óviss er samt tíminn framundan og fátt sem er hægt að kalla naglfast.

Þriðji valkosturinn, að ég sitji bara sem fastast í fjarskanum og ákveði hvað er þóknanlegt og hvað ekki, verður nú að teljast fremur ólíklegur.

Þar sem ég stóð frammi fyrir því að setja hópnum reglur, á sínum tíma, reyndi ég að hafa þær í stíl við það sem var tilgangur minn með því að búa hann til.  Í sem stystu máli, vildi ég hóp sem tæki til umfjöllunar lífið í Laugarási í fortíð og nútíð. Ég sá þetta aldrei sem sölu eða gjafasíðu, heldur miklu frekar sem upplýsingasíðu. Þarna langaði mig að fólk myndi segja frá einhverju, veita og leita eftir upplýsingum, birta gamlar og nýjar myndir, spyrja og svara. Þetta átti aldrei að verða svona hefðbundin "bæjarsíða", það var alltaf færi á því fyrir aðra að setja upp slíka síðu. 
Svona hafa reglurnar verið:

Þessi hópur er opinn öllum og tilgangurinn með stofnun hans er að búa til vettvang þar sem Laugarásbúar og aðrir þeir sem áhuga hafa á, geta miðlað því sem þeir hafa fram að færa um Þorpið í skóginum og svæðið sem það er hluti af. Hópurinn gæti t.d. verið vettvangur þar sem íbúar Laugaráss geta kynnt starfsemi sína, fyrirtæki eða áhugamál. Í þessum hópi getur fólk deilt nýjum og gömlum myndum frá Laugarási og nágrenni. Þá er hópurinn kjörinn vettvangur fyrir þá sem vantar upplýsingar um flest sem lýtur að Laugarási.
Ekki er gert ráð fyrir að hér séu hlutir auglýstir til sölu eða gefins, enda aðrir hópar hentugri til slíks.

Á þessum tíma var ég farinn að fá æ meiri áhuga á því sem liðið er og sá áhugi hefur vaxið frekar en hitt. Ég vonaðist kannski til þess, að ég gæti nýtt mér eitthvað af efninu sem fólk myndi deila þarna inni, á fyrirhugaðan vef um Laugarás, en það hefur ekki gengið fyllilega eftir, enda sýn mín á hópinn mögulega ekki sú sama og annarra notenda að öllu leyti.

Nú, þar sem ég stofnaði hópinn, get ég ákveðið hvað verður um hann. Eins og staðan er nákvæmlega núna, þá hef ég í hyggju að stíga til hliðar um næstu áramót og fela öðrum umsjón með gripnum.

Svo heldur lífið bara áfram . 😃

 ------------                  UPPFÆRT 27. október                   ------------

Ég hef kannski ekki verið nægilega skýrmæltur hér að ofan, en þó svo ég færi stjórn Fb-hópsins á annars herðar, er fjarri því að ég, bráðungur og ferskur maðurinn ætli að leggja árar í bát og treysti því að ég fái áfram að leggja eitthvað til málanna, eftir því sem andinn blæs mér í brjóst.
Þetta snýst aðallega um að ganga út úr því hlutverki að þurfa við og við að slá á puttana á fólki, sem, í aðgæsluleysi, hefur sett eitthvað inn sem ekki fellur að tilgangi hópsins. Mér finnst að það hlutverk sé betur komið hjá einhverjum sem býr í Laugarási.
Eftir sem áður, er það mín skoðun, að svona hópur, þar sem engin kauup og engin sala á sér stað, eigi fullan rétt á sér og geti átt blómlegt líf. Í það minnsta vona ég að svo geti orðið áfram.

23 október, 2020

Fríður


"Við fluttum í Laugarás árið 1957. Hjalti var þá búinn að steypa grunn að fyrsta gróðurhúsinu okkar, en við byrjuðum að rækta í húsi sem við leigðum af Ólafi Einarssyni. Fyrstu sjö árin bjuggum við í Lauftúni sem krakkarnir í hverfinu kölluðu „Silfurhúsið“ af því að það var álklætt og það glampaði svo fallega á það. Þar var allt nánast jafn frumstætt og hafði verið í Reykholti, munurinn var sá að nýbúið var að leggja rafmagn í Laugarás. Það var lagt fyrir köldu vatni í húsið en þar sem það var sjálfrennandi og engin dæla þá náði það bara að renna í klósettkassann en ekki í vaskinn, við höfðum ekki baðkar. Ég þurfti því að ná í vatn út í hver, sem var nánast við húsvegginn, ef mig vantaði vatn til annars en að sturta niður".  (brot úr viðtali við Fríði, sem birtist í Litla Bergþór 2013 og er einnig á finna á Laugarásvefnum).

Þeim fækkar "mæðrum" mínum. 
Fríður og Hjalti fluttu í Laugarás þegar ég var á fjórða ári, með þrjá stráka, þar af einn jafnaldra, hann Pésa. Þær voru allar mæður okkar í ákveðnum skilningi, konurnar í Laugarási á þessum tíma. Auk mömmu sjálfrar (Guðnýju Pálsdóttur í Hveratúni 1920-1992)), áttum við þarna mæðurnar Fríði í Lauftúni/Einarshúsi), Gauju í Helgahúsi (Guðnýju Guðmundsdóttur (1913-1993)), Jónu á Lind á Lindarbrekku (Jónínu Jónsdóttur (1926-2016)) og Gerðu (Gerda Jónsson í læknishúsinu (1924-2013)),  Jónu Sólveigu á Sólveigarstöðum (1928-2004) og Sigurbjörgu í Launrétt (Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999) sem tók að sér að kenna okkur einn vetur, minnir mig. Svo komu fleiri mæður eftir því sem árin liðu, en þá var ég víst líka farinn að stækka og taldi mig síður þurfa á viðbót.

Ætli Fríður hafi ekki verið krakkinn í þessum mæðrahópi, fimmtán árum yngri en móðir mín, og þar með nær okkur í aldri og þar með meiri töffari. Hún var góð viðbót inn í þétt samfélagið sem þarna var fyrir og þau Hjalti skáru sig ekki úr þegar aðstoðar var þörf. 

Félagarnir Magnús Skúlason í Hveratúni og Jakob Narfi, 1962

"Húsið í Lauftúni hefur ekki verið nema um 40 fermetrar og þar var ekkert þvottahús. Þau voru almennt ekki við bústaðina á þessum tíma heldur voru þvottarnir þvegnir úti við hver eða hjá Guðnýju í Hveratúni sem bjó svo vel að vera með þvottahús. Þegar þurfti að þvo suðuþvott þá var óhreini þvotturinn settur í sápuvatn í bala, svo var öllu skellt í hverinn þar sem það var látið malla góða stund. Ef um eitthvað viðkvæmara var að ræða þurfti að láta vatnið standa og kólna". (
úr viðtalinu við Fríði). 
Við fólki, sem var að byrja búskapinn á þessum tíma, blöstu ekki glæstar hallir, en þetta var nú bara lífið  eins og það var og ég held að ekkert þess fólks sem kom undir sig fótunum í Laugarási á þessum tíma, hafi gert neinar kröfur um að undir það væri mulið með einhverjum hætti. Það trúði á sjálft sig, mátt sinn og megin og lagði síður upp úr ytri umbúnaði. Sannfærður er ég um að það líf sem það bjó sér í Laugarási, hafi verð gott líf, sem sjá má af barnafjöldanum sem spratt út úr þessum litlu húsum og því, hvernig kjörin bötnuðu ár frá ári, eftir því sem garðyrkjunni óx fiskur um hrygg. 

Fríður og Hjalti byrjuðu búskapinn með því að leigja gróðurhús Ólafs læknis og síðan að byggja eigin gróðurhús og loks íbúðarhús í Laugargerði. Þetta óx allt og dafnaði.

Börnin urðu, þegar upp var staðið sex. Hófst með fjórum strákum, Pétri Ármanni (1953), Erlingi Hreini (1955), Hafsteini Rúnari (1957) og Jakob Narfa (1960). Svo komu tvær stúlkur í lokin, þær Guðbjörg Elín (1964) og Marta Esther (1968).  Án þess að gera lítið úr uppruna piltanna þriggja sem fæddir voru áður en fjölskyldan flutti í Laugarás, þá er rétt að halda því til haga að þau þrjú sem fæddust árin í kjölfar flutningsins á þann góða stað, eru tvímælalaust örlítið meira Laugarásfólk. (Þetta er nú smá grín, svona).
Hjalti féll frá 1992, en Fríður bjó áfram í Laugargerði til ársins 2015, en þá flutti hún á Selfoss ásamt sambýlismanni sínum, Reyni Ásberg Níelssyni.

Nú má segja að það sé lokað einum kafla í sögu Þorpsins í skóginum, en Fríður er sú síðasta frumbýlinganna á fimmta og sjötta áratugnum til að kveðja.  Hún lést þann 17. október og útför hennar er gerð frá Selfosskirkju í dag.

Blessuð sé minning hennar.

18 október, 2020

Eilítið um aðventu- og/eða jólaljós - tími til kominn


Hvítárbrú um jól 2017
Þau voru geymd í kassa niðri í kjallara í Kvistholti og á einhverjum tíma, stundum snemma, stundum seint (fór eftir því hvenær ég var búinn að safna nægri nennu til) klæddi ég mig upp og fór að athuga hvað væri nú í þessum kassa. Úr honum tíndi ég síðan það sem taldist nothæft, fann til tröppuna lúnu og tók til við að hengja upp.  Lengi val vildi ég draga þetta sem lengst, undir því yfirskyni að frestur væri á illu bestur, enda ekki mikill áhugamaður um skreytingar, þó ekki neiti ég því að aukin lýsing í mesta skammdeginu geti lyft andanum aðeins upp úr mesta sortanum.

Kvistholt í jólabúningi 2016
Kjarni málsins var sá, að þarna hafði ég þetta að mestu leyti í eigin höndum: val á litum og magn af ljósakeðjum. Ekki var um það að ræða að fD vildi hafa miklar skoðanir að þessari framkvæmd, þó ég minnist þess einhvertíma að hún hafi eitthvað farið að ýta á mig þegar nálgaðist óhóflega að jólin yrðu hringd inn og ekki ein einasta ljósakeðja komin upp í Kvistholti.

Ég, hinsvegar, var og er sérstakur áhugamaður um lýsingu á Hvítárbrú í skammdeginu og mér finnst að ef einhversstaðar er ástæða til að lýsa upp skammdegið, þá er það á mannvirki eins og þeirri fögru brú, en hún er víst ekki umfjöllunarefnið hér.

Nú blasir annar veruleiki við og heldur flóknari.

Við erum flutt í húsnæði með 25 íbúðum, sem munu þurfa að koma sér saman um hvernig lýsingu skuli komið fyrir á svölum. Í þessum 25 íbúðum er fólk sem á ekki ólíka sögu og við fD þegar kemur að þessum málum: nýflutt úr einbýlishúsum þar sem það þurfti engan að spyrja um lýsingartegund. Þetta fólk er kannski með 40 ára lýsingarhefð í farteskinu og vill mögulega engu breyta þar um. "Ég er búin(n) að nota rauðar perur í 40 ár og hef ekki huga á að breyta því!" svo er annar/önnur sem á erfitt með að sjá fyrir sér annan lit en bláan, eða gulan eða hvítan eða grænan, já, eða bleikan. Svo eru það fólk sem vill ekki sjá svona "jólaljósvitleysu".

Nú blasir við að það þurfi að ná lendingu í þessu ljósakeðjumáli. 

Við fD búum á stað sem blasir við öllum þeim fjölda sem á leið um þjóðveg 1 og því væri nú ekki nema eðlilegt að við gerðum dálítið mikið úr jólaljósum þetta árið.  Mér koma í hug kastarar sem snúast og blikka, eða ljósafoss fram að útistofunni, eða að koma fyrir upplýstum, risastórum, ruggandi jólasveini fyrir innan glerið, sem væri tengdur við hátalara, hrópandi "hó, hó, hó!" úr um hátalara sem komið væri fyrir utan á húsinu, á milli þess sem Bing Crosby syngi "Jingle Bells" með reglulegu millibili. 

Nei, ætli það. 
Mér finnst margt merkilegra og mikilvægara í lífi mínu, en að fara að gera eitthvert  mál úr jólaljóskeðjum og vil gjarnan leyfa sérstöku áhugafólki um slíkar lýsingar, að ákveða hvernig þeim verður háttað. Mín vegna mætti láta það í hendur hvers og eins að ákveða sína lýsingu - að fjölbreytnin fengi að ráða. Við lifum á tímum þar sem fjölbreytileikinn á upp á pallborðið. Því ekki í þessu sem öðru?

Megi okkur takast að ná svo góðri lendingu í lýsingarmálin, sem unnt er. Það er ekki hægt að fara fram á meira.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...