13 maí, 2020

Bjart framundan i Skálholti

Það er fagnaðarefni, að það blasa nú við tímamót í Skálholti, með miklu átaki til að efla staðinn á mörgum sviðum. Það er auðvitað ekki mitt að segja frá því, nákvæmlega, hvað stendur fyrir dyrum á þessum mesta kirkju-, menningar- og sögustað landsins, en hugmyndirnar sem hafa verið á borðinu, eru nú að raungerast þannig, að þegar 60 ára verða liðin frá vígslu dómkirkjunnar, sumarið 2023, verður Skálholt komið í þann búning að við getum, kinnroðalaust, fjallað um og litið til með stolti.
Það liggur sem sagt fyrir, að framkvæmdir í Skálholti hafa verið fjármagnaðar og engin ástæða til annars en trúa því, að þar verði tekið til hendinni  svo um munar, frá og með þessu sumri.

Ég hef, í mínum pistlum hér, tæpt á ýmsu því sem mér hefur þótt mega fara betur á staðnum og ég sé ekki betur en öll þau mál verði tekin fyrir og talsvert umfram það.

-------

Alloft hefur Skálholt komið við sögu í skrifum mínum hér, gegnum árin og má hverjum þeim sem lesið hefur, vera ljóst að viðhorf mín til staðarins eru af ýmsum toga af ýmsum ástæðum. Tenging mín við þennan mikla stað í sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir að ég hafi búið í tveggja kílómetra fjarlægð frá honum lungann úr ævinni, hefur verið frekar brösótt, oft á tíðum, mögulega aðallega vegna þess að hann er þjóðareign og lýtur eða hefur lotið valdi sem situr á Reykjavíkursvæðinu, eða "fyrir sunnan", eins og sagt er.  

Við, íbúar í neðsta hluta Biskupstungna, tilheyrum Skálholtssókn. Skálholtskirkja telst því vera sóknarkirkja okkar. Ég held ég megi segja að við höfum ekki náð að líta á eða hugsa um dómkirkjuna í Skálholti sem slíka, í raun.  Ætli megi ekki segja að kjallarinn í biskupshúsinu, þar sem messur fóru fram áður en dómkirkjan reis, hafi verið meiri sóknarkirkja í hugum íbúanna.

Ég held og vona, að nú sé að verða umtalsverð breyting á málefnum sem tengjast Skálholti og sannarlega vona ég að það leiði til þess, að staðurinn öðlist þann sess í hugum fólks í Skálholtholtssókn að það telji, umfram aðra íbúa landsins, hann vera sinn stað, . 

Ég get ekki látið hjá líða, að benda ykkur, sem kunnið að hafa áhuga á því sem fram fer í Skálholti og taka þátt í að fjalla um staðinn og stuðla að uppbyggingu hans, að ganga í Skálholtsfélagið hið nýja, sem er vettvangur fyrir fólk sem áhuga hefur á Skálholti og vill efla staðinn, ekki bara sem þjóðareign, heldur ekki síður sem mikilvægan þátt í lífi okkar sem búum í nágrenninu. Ég veit að það er mikill vilji til þess hjá þeim sem nú eru við stjórnvölinn á staðnum, að tengja hann í ríkari mæli byggðinni í næsta nágrenni.

Svæðið neðst í Biskupstungum finnst mér hafa alla burði til að eflast enn frekar með því að það verði skipulagt sem ein heild, enda er Langasund ekki lengur sú landfæðilega hindrun sem hún var, til dæmis þegar Ólafur Einarsson, héraðslæknir kom með fjölskyldu sína í Laugarás árið 1932:
Fjölskyldan kom með bíl að Skálholti, en þá var ekki kominn akfær vegur í Laugarás, aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss (Langasund) var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.
Dóttir Jörundar Brynjólfssonar fylgdi hópnum yfir mýrina í áttina að Auðsholtshamri og síðan um slóða eftir Laugarásholtinu, að læknisbústaðnum.
Úr viðtali sem ég átti við börn Ólafs Einarsson og Sigurlaugar Einarsdóttur, 
sem mun birtast á vefnum laugaras.is og í Litla Bergþór innan skamms. 


36. Langasund (48) er langt og sunnan til allbreitt mýrarsund. Í því miðju er leirkelda mikil, sem mér er ekki kunnugt um, að heiti sérstöku nafni fyrr en suður við Söðlahól (sjá nr. 38). Þar er hún orðin æði vatnsmikil og nefnist þá Pollrás (49) (nr. 39). Vatnið úr þessari löngu keldu, sem skilur lönd Skálholts að vestan og jarðanna Höfða og Laugaráss að austan, fellur frá brúnni sunnan við Söð[ul]hól eftir skurði, sem grafinn var snemma á þessari öld út í Undapoll; skilur þessi skurður [að] lönd Skálholts og Laugaráss. 
 Sigurður Skúlason
Nokkur örnefni í Skálholtslandi
Inn til fjalla. Rit Fél. Biskupstungnamanna í Reykjavík. II 1953Engin ummæli:

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt, en óþekkt að öðru leyti. Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarka...